10.10.2011 | 18:45
Röng höfn á röngum stað með rangt hannaða...
HEYR, HEYR, Halldór Nellet.
Þessu er húsfreyja innilega sammála, og man enn
hve rasandi hissa hún var, þá hún í fyrsta sinn kom í
Landeyjahöfn.
Einhverra hluta vegna hafði húsfreyju ekki dottið í hug
annað, en að höfnin yrði byggð nokkrum kílómetrum
vestar en hún nú er, taldi næsta víst að brúarsmíðasnillar allir
vildu forðast það í lengstu lög að lenda í ósi Markarfljóts.
Enda um stórfljót að ræða, 100 km langt og með
vatnasvið upp á u.þ.b. 1070 ferkm.
Þokkalega gott magn af framburði jafnt og þétt,
alla daga, allar vikur, alla mánuði, árum saman,
því fylgjandi.
Svo húsfreyja nánast missti andlitið ofan í skóna sína
af undrun, þegar hún ók "meðfram Markarfljóti" afleggjarann
frá Þjóðvegi 1 á leið niður að Landeyjarhöfn.
Trúði ekki sínum eigin augum, og spurði systur í Eyjum
tvisvar, hvort þetta væri "í alvöru" Markarfljót þarna
hinum megin við varnargarðinn.
Systir í Eyjum taldi svo vera, dæsti mæðulega og rýndi
út í þokukólguna og regnið.
Ekki mjög sjóhraust systir í Eyjum.
"Í ALVÖRU? Í ALVÖRU"?, var síðan það eina sem systir
í Eyjum fékk upp úr húsfreyju, það sem þær áttu eftir
af ferðinni niður að höfninni.
Húsfreyja var miður sín, þegar hún horfði á eftir litlu systur
inn í Herjólf í Landeyjahöfn þennan regnvota sumardag.
Sjór var úfinn og grár, stíf austanátt og rétt að það móaði
í Eyjarnar í gegnum gráan regnsortann.
Húsfreyja taldi nánast öruggt, að Herjólf tæki niður í
hafnarmynninu, hvolfdi með hraði og hún sæi síðan systur úr
Eyjum svífa nánast gegnsæja á hvítum vængjum
upp úr dallinum, og hverfa sjónum hennar í
þokunni við hæsta tind Eyjafjallajökuls.
Sendi verndarenglum systur bæn í huganum...
Hún lokaði augunum af angist þegar Herjólfur
ruggaði og tók dýfur út úr höfninni, en til allar
lukku voru verndarenglar systur í Eyjum vel staðsettir,
og dallurinn komst á haf út.
Systir í Eyjum hefur allar götur síðan forðast að sigla
í Landeyjarhöfn, eða frá henni, ef hún hefur annan kost.
Smellir sér í flugið eða siglir á Þorlákshöfn, bjóði Herjólfsfólk
upp á slíkt.
Miðað við ferjuumferð í Laneyjahöfn frá því að höfnin var
opnuð, þykir húsfreyju auðsýnt að þjóðráð væri að
FLYTJA höfnina slattakorn í vestur, eins og reynsluboltinn
Halldór B. Nellet metur að sé skynsamlegt.
Hitt draslið í ósum Markarfljóts, má svo bara nýta sem
sand- og aurgildru, þarf ekki einu sinni að rífa það niður....
nú eða breyta því í "hrísgrjónaakur" öðrum kosti.
Jamm, en þangað til eru Eyjamenn í djúpum hvað varðar samgöngur,
og verða fjölmenna í mótmælagöngur og raula;
"Röng höfn á röngum stað með RANGT hannaða hafnargarða...jejeje"
undir lagi Sólstrandagæjanna "Ég er rangur maður, á röngum tíma,
Húsfreyja sendir Eyjamönnum öllum enn og aftur baráttukveðjur.
Þetta "Landeyjahafnarsamgöngumálaklúður" er þeim ekki boðlegt.
Góðar stundir.
![]() |
Landeyjahöfn á röngum stað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2011 | 18:20
Myljandi niðursveifla ENN í rjúpustofni.
Asskoti er að heyra þetta.
Má veiða 31. þúsund fugla, sem er ríflega
helmingi minna en í fyrra.
Ja, hérna.
Þetta stefnir allt í voða hjá bónda húsfreyju
með skotveiðina....eitt árið enn!
Bóndi hógvær maður, og hefur haldið að sér höndum
með rjúpnaveiði árum saman, því hann vill að þeir gangi
fyrir, sem ekki geta haldið Jól án þess að snöfla í sig
lágmark sex vel steiktum rjúpnabringum á Aðfangadagskvöld.
Menn sem vaknað hafa síðustu morgna upp úr
klukkan fimm, til að hreinsa rjúpnabyssur sínar,
smyrja og hlaða skotum, og verið við það að fá hland fyrir hjartað og
mergjaðar hjartsláttartruflanir af einskærri gleði yfir því að
fá að skreppa upp á fjöll og drepa sér fáeinar rjúpur
í jólamatinn.
Neipp, bóndi hefur haldið sig heima, enda telur hann
rjúpur lélega mannafæðu, rýran og lítt lystaukandi mat.
Hefur ætíð gefið allar steindauðar rjúpur í sínum fórum,
þá hann rölti hér í den upp um fjöll og firnindi og fretaði
villt og galið á villta hænsnfugla þessa.
Og enn og aftur stefnir í eitt árið enn HEIMA, þegar kemur að
rjúpnaveiði og bónda.
En kannski alveg eins gott.
Rjúpnabyssa bónda er nú þegar ryðguð föst við tvo gamla hjólkoppa
af Toyotunni, gleraugnaskrúfjárn húsfreyju og þríhjól tíu ára
djásnsins niðri í bílskúr.
Var ekki nokkur leið að sjá hvað var byssuhólkur, hvað var þríhjól, hjólkoppur
eða gleraugnaskrjúfjárn, síðast þegar húsfreyja átti leið
um bílskúrinn.
Er orðið svona "rjúpnabyssukoppaskrúfjárn" eitthvað,
á "þremur hjólum" þarna niðri.
Yrði bara hlegið að bónda, mætti hann vígirtur slíku vopni
á rjúpnaveiðar.
Og húsfreyja efast stórlega að hittnin yrði til fyrirmyndar,
en kannski að bóndi gæti komist hraðar yfir þúfur, urð og grjót með
"rjúpnabyssukoppaskrúfjárnið" ef hann þyrfti ekki að
burðast með það á öxlinni, heldur drægi það á eftir sér
á hjólunum þremur.
Jamm, en illt er í efni.
En altént gæti húsbóndi reddað nærsýnum rjúpnaskyttum
gleraugnaskrúfjárni, lentu þær í skrúfulosi á
gleraugum sínum í miðjum hóp af fljúgandi hænsnfugli.
Verra að tapa gleraugum þegar menn eru komnir í ham
að freta niður rjúpur.
Þá getur það farið eins og fyrir vestan um daginn,
þegar ein vesalings rolla var skotin í tætlur...
og var ekki einu sinni með vængi.
Neipp, það er ekki öfundsvert hlutskipti að vera rjúpnaskytta á
litla Fróni í dag, þegar sífellt fækkar í rjúpustofninum og lítið sem
ekkert má veiða.....kannski ekki algalin hugmynd hjá þeim
Spaugstofumönnum um daginn að DULBÚA slatta af frónverskum
hænum, og senda á vapp uppi á fjöllum........hehehehe.
Rjúpnaskotveiðimönnum öllum óskar húsfreyja góðrar veiði,
og hamingjuríkrar og saðsamrar jólamáltíðar á árinu 2011.
Góðar stundir.
![]() |
Veiði leyfð á 31 þúsund rjúpum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.10.2011 | 20:02
Tunnubarningur.
Húsfreyja er mun hrifnari af tunnubarningi
en eggjagrýtingu, þá mótmæla skal af krafti.
Telur illa farið með góðan mat, þegar eggjum
er kastað í höfuð á fólki, fyrir utan að fólk með
viðkvæmt höfuð getur lent í stórtjóni og skaða,
fái það egg í hausinn "á slæman stað".
(Mænuskaða jafnvel, sagði í fréttum kvöldsins í sjónvarpinu.)
Húsfreyja á ekki heimanaðgengt í kvöld, en óskar
mótmælendum velgengis í kvöld og góðs tunnubarnings.
Góðar stundir.
![]() |
Fjölgar á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2011 | 22:07
Devil up?
"Hjálpi mér, þarna kom það enn og aftur"
hugsaði húsfreyja örvæntingafull.
Hún reyndi að leggja við hlustir og fá einhvern botn
í málið.
...."shíss devil up" hafði Fransmaðurinn sagt glaðbeittur.
"Og hvað með ekkisens djöfulinn" hugsaði húsfreyja
pirruð "hvað var hann að vilja upp á dekk í miðju
erindi um nýja rannsókn á tveimur lyfjum, sem voru
að hjálpa fólki með Alzheimerssjúkdóm úti í Frakklandi"?
Húsfreyja reyndi að finna út úr málinu, og las yfir
glærur Frakkans í hasti.
Fínar glærur, powerpoint, stútfullar um reynslu
af lyfjunum tveimur við Alzheimers, sem búið var
að framleiða, þróa og prófa á stórum hópi af fólki
með Alzheimers, með glettilega góðum árangri.....
en ekki eitt einasta orð um "the devil up".
Húsfreyja hnyklaði brýrnar af einbeitingu, þegar
Fransmaðurinn nefndi shíss "devil up" í fjórða sinn
í ræðu sinni.
"Og......."?
Neipp, Frakkinn útskýrði "djöfulinn" ekkert nánar,
og hóf að ræða kríteríur, diagnósur og kombinasjón lyf
af miklum krafti, á sinni bjöguðu ensku.
Nú veit húsfreyja, að Alzheimers er sjúkdómur sem er
ekkert lamb að leika sér við. Þungbær öllum og ekki síst
þar sem erfitt hefur verið að finna lyf sem duga við
þessum alvarlega sjúkdómi í heila.
En varla hafði þessi lyfjaframleiðsla verið Frökkum
svo hroðalega erfið, að þeir sáu "djöfulinn upp um alla veggi"?
...."devil up", sagði Frakkinn enn og aftur glaður í bragði.
Húsfreyja ranghvolfdi augunum, hún var búinn að missa
allan þráð í erindi Frakkans, svo hún lét duga að lesa glærurnar
sem voru bæði fróðlegar og brilliant settar fram á auðskiljanlegri ensku.
Frakkinn barðist í gegnum erindið meira af ákafa og baráttugleði,
en góðri kunnáttu í ensku máli.
Var mjög fróður og nákvæmur það sem húsfreyja náði að botna,
...en með djöfulinn upp um alla veggi af og til.
Húsfreyja dæsti og gjóaði augum á sessunauta sína í
Hörpunni. Ætti hún að þora að nefna þetta með djöfulinn
við annan hvorn þeirra?
"Nah, vildi ekki trufla ósvikna einbeitingu og áhlustun þeirra,
húsfreyja sjálfsagt bara rati að skilja ekki ensku með
"örlitlum" frönskum hreim.
En afhverju var Fransmaðurinn svona ánægður með
djöfulinn upp um alla veggi?
Hann virtist ekki vitund miður sín yfir djöfulgangi
þessum í lyfjabransanum"....heilabrot húsfreyju
tóku skjótan enda þegar frakkinn veifaði skyndilega
powerpointgeislanum sínum fagnandi:....."and we 'ope we
will "devil up" some better medication in shé future".
MEGA-LJÓS kviknaði í huga húsfreyju:
DEVIL UP= DEVEL-OPP= DEVELOP (di vel'ap)= ÞRÓA.
Hallelúja!
Næstu 5 mínúturnar og þær síðustu af erindi frakkans,
skildi húsfreyja næstum því fimm orð af hverjum sjö
hjá honum, og varð öllu fróðari um lyf þessi fyrir bragðið.
Húsfreyja dáðist að Frakkanum að komast í gegnum
klukkutíma erindið, tilneyddur að brúka ensku,
en var fegin þegar næsti fyrirlesari reyndist Frónbúi,
sem bæði flutti erindi sitt á íslensku og ensku um hvernig
hægt væri að greina Alzheimers, Parkinsons og Levi body
sjúkdóma með heilariti.
Fróðlegt og flott.
Skemmtilegasta erindið flutti svo ítali af mikilli snilld um
Parkinsonsjúkdómin og nýja lyfjameðferð við honum.
Á ljómandi fínni ensku....þó að einu sinni heyrði húsfreyja hann
nefna "devil up"...en var fljótur að leiðrétta sig...develop!
Vissuð þið annars að Hitler var með Parkinson?
Fínn og merkilegur fræðslufundur í Hörpunni, og boðið upp á kaffi
og kleinur í ofanálag.
En kíkja á imbann næst.
Góða nótt og góðar stundir.
Spaugilegt | Breytt 25.9.2011 kl. 19:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.9.2011 | 18:14
Skæðar túlípanabakteríur..
...af Shengenstofni þá líklega að herja á
unaðsfagra túlípana hollenskra.
Má kannski kalla hann "Shengencoccus hollandenus"?,
samanber staphylococcus aureus sem er þekkt baktería
meðal manna, og þykir afleit ef hún finnst í þvagi þeirra.
Væri gaman að fregna meira af "rannsókn" þessari á
þrælsýktum túlípönum þarna í Rúmeníu, og jafnvel
enn meira gaman að fá að vita HVERNIG hin
eitursnjöllu yfirvöld Rúmena uppgötvuðu að
hollenskir túlipanar þessir væru fársjúkir.
Kannski hefur grænt...?...gult...?....fjólublátt? HOR
runnið í stríðum straumi niður stilka hinna hollensku
túlípana, á meðan ilman þeirra minnti einna helst á
vel kæsta skötu á Vestfjörðum, viku fyrir "Þollák"?
Nú eða íðilfögur krónublöð þeirr hafa verið útbíuð
í svörtum blettum í "hauskúpulíki"- POISON
tattúverað innanvert á græn blöð þeirra?
Hvað veit húsfreyja.
En finnst illa farið með fallega túlípana, ef þeir reynast
svo bæði alfrískir og Shengencoccalausir.
Dettur þá í hug, húsfreyju, að Rúmenir gætu sent blómadót þetta
yfir hafið upp á litla Frón, hafi þeir þróað með sér mergjað
ofnæmi fyrir "hollenskum" túlípönum.
Gerir ekkert til þó túlípanarnir séu orðnir hálfslappir,
eftir margra daga þrotlausar rúmenskar "sýklarannsóknir".
Frónbúar mikið fyrir falleg blóm, og ekki úr vegi að
rölta með fangið fullt af túlípönum niður á
Austurvöll, og færa "fjórflokkunum" sem þar hafa
ríkt á Alþingi, með kærri þökk fyrir svínslegt svínarí og sukk í starfi
síðustu áratugina.
Getum svo notað afganginn af blómadýrðinni, verði hún einhver,
til að skreyta "tunnurnar" á Austurvelli, um leið og við sláum þær taktfast
og óþreytandi.
En kvöldmatur næst.
Góðar og blómlegar stundir.
![]() |
Hollenskum túlípönum ekki hleypt inn í Rúmeníu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2011 | 12:53
Tarna er blóðugt...
... hugsaði húsfreyja, um leið og hún
tók fram öxi sína fyrir næstu Bónusferð,
"erum að sigla í 7 milljarða manns,
í hinu mikla veldi norska kóngsins,
á meðan við dólum okkur á snigilshraða
við fjölgunina hér uppi á litla Fróni".
Húsfreyja spýtti við tönn, þurrkaði
verstu blóðsletturnar af axarblaðinu með
svuntu sinni, um leið og hún hrærði grimmt
í nærri tómri "skyrtunnunni" með skaftinu af spjóti sínu.
"Djö...var að vita þetta".
Húsfreyja búin að gera öxina klára, dró fram
sjóði sína, og hóf að telja silfur sitt sem henni hafði
áskotnast sem laun fyrir vinnu sem "lukkuriddari",
í síðustu ferð sinni á norskar lendur.
"Andsk... var farið að ganga á sjóðinn, dygði varla fyrir
skeinipappír og hálfu epli".
Húsfreyja saug upp í nefið og ræskti sig hroðalega.
Þetta var hrikalegt vandamál sem yrði að taka föstum tökum.
Nú yrði hún að "brýna" helvíska öxina í ofnálag fyrir
Bónusferðina, ganga síðan berserksgang, höggva mann og annan
til þess eins að ná inn vikuskammtinum af skyri í hús.
Varla að húsfreyja væri að nenna þessu.
Hún gjóaði aftur augum á fréttina af fjölgun Frónbúa,
á norskri grund.... "menning og siðir blóðug"... "og ofbeldi"
notað til að leysa mál...húsfreyja tók upp öxi sína og brýndi í gríð og erg.
"Nú" , hugsaði húsfreyja, "upphaflega fluttum við hingað
út á þetta litla sker í miðju Atlantshafi, til að losna við
freka og ofbeldisfulla, norska kónga og tókum auðvitað með okkur
slatta af norskri menningu og siðum". Hnussaði í húsfreyju.
"Hvað voru norskir blaðamenn eiginlega að tuða"?
Það brast og brakaði í heilabúi húsfreyju undir víkingahjálminum.
BLING! Kviknaði ljós í myrkviðum hugarheima húsfreyju.
"Auðvitað! Helvískur barningurinn með sleifum á tunnur,
potta og pönnur niður á Austurvelli, hlaut að vera að fara
fyrir brjóstið á norskum frændum vorum.
Að sjálfsögðu var þetta ekkert nema blóðugt ofbeldi
á sárasaklausar tunnur, enn saklausari potta og pönnur og
sleifar, að mati okkar frómu frænda".
Húsfreyja glotti við tönn, spýtti norska "skroinu" í vaskinn:
"Þannig hlaut að liggja í málinu".
Húsfreyja snýtti sér hressilega um leið og hún pússaði
snarlega axlarblaðið, svo á það glampaði.
"Þá var bara eftir stóra spurningin. Hví í ósköpunum
voru Frónbúar að flytja umvörpum til Noregs aftur, og þar
að auki að fjölga sér líkt og kanínur í gamla landinu"?
Húsfreyja hristi stríðar, langar flettur sínar undir
hornóttum hjálminum:
"Nei, það var andskotinn, ekkert hægt að fá botn í frétt þessa".
Húsfreyja dæsti mæðilega yfir þungum þönkum sínum.
"Mamma", tíu ára djásnið grátklökkt.
"Sjáðu ég skar mig í fingurinn", blóð rann fagurrautt niður fingur
barnsins.
Húsfreyja stökk upp frá undirbúningi sínum fyrir ferð í búðina,
klippti snarlega niður plástur framleiddan af þýskri fabrikku með
útibú í Kaupmannahöfn, Gautaborg, Kaarina og "Osló" ,
og smellti á djásnið.
"Nú missti ég sko mikið blóð", djásnið ekki alveg með 5 lítra-dæmið
í mannslíkamanum á tæru, enda rennandi mannsblóð ekki
dagleg...vikuleg....mánaðarleg...eða jafnvel árleg sjón hér í voru litla landi.
"Jamm, greinilega BLÓÐUG menning og siðir hér uppi á litla Fróni",
hugsaði húsfreyja og glotti með sjálfri sér.
En gott og vel, norskir frændur vorir hafa sínar meiningar um
okkur, örsmáa frændur sína, sem greinilega kunnum enn að gera
"dodo"á erlendri grund.
En búðarferð næst.
Húsfreyja telur ekki líklegt að sú ferð verði á neinn máta blóðug....
nema jú einn: Helvískt "verðið" sem þarf að greiða fyrir skyrið
og fleira matvænt verður BLÓÐUGT!
Góðar stundir og njótið veðurblíðunnar.
![]() |
Sjö milljarðar Íslendinga í Noregi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 19.9.2011 kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.9.2011 | 19:55
Að þjappa sér saman í andlitinu?
"Hvað sagði Eiður Smári" húsfreyja var farin að halda
að hún hefði orðið fyrir heyrnartjóni, þegar hún mætti á Melavöllinn
nú á dögunum, að fylgjast með leik ÍBV og KR.
"Það á bara ekkert að tapa fyrir leiðinlegu norsku liði",
bóndi sár yfir tapi sinna manna.
"En sagði Eiður Smári að "þeir yrðu að þjappa sér saman í
andlitinu......hvað þýðir það eiginlega"??, húsfreyja var engu nær.
Bóndi svaraði ekki svona " skiptir ekki nokkru máli-spurningu" húsfreyju.
"Djö... hugsaði húsfreyja, ekki nóg að ég er hundsvekkt yfir
tapi strákanna okkar, ég er líka hætt að skilja hvað þeir segja".
"Hvað getur það bætt fótboltaleik okkar manna, að verða
"þéttari, þrýstnari eða útroðnari" í ANDLITINU", hugsaði
húsfreyja örvæntingafull.
Hún gjóaði augum á bónda sinn....ætti hún að reyna að spyrja
hann betur út í þetta að "þurfa að þjappa sér betur saman í andlitinu"?
Neipp, bóndi var horfin á vit frétta af rosalegum fellibylum og flóðum í henni
Ameríku. Fimmtíu dánir í því fárviðrinu. Köld hönd dauðans strauk eitt
augnarblik yfir hjarta húsfreyju...brrrrrrr....
Neipp, ekki vert að vera að trufla bónda, enda farinn að ræða við 10 ára
djásnið um Hrútatungurétt, þar sem hann hafði á árum áður með Sigurði afa
sínum mætt, og tekið fé traustu taki og dregið í dilka.
Húsfreyja ákvað að kíkja í orðabók sína.
Sei, sei jú, hún hafði munað rétt þýðingu sagnarinnar að þjappa.
En rak síðan augun í þjappa að e-u sem þýðir að þjarma að
e-u eða kreista e-ð eða e-n óþyrmilega.
"Jeminn, varla vill Eiður Smári að liðsmenn berji hvorn annan óþyrmilega
í andlitið, eða kreisti, til þess eins að þeir nái að taka sig saman í andlitinu,
þjappa sér saman og sigra norsara í fótbolta eftirleiðis og um alla
ókomna tíð"!
Húsfreyja var við það að fá höfuðverk yfir þankagangi þessum.
"Það yrði þá ljóta liðið sem keppti fyrir hönd okkar Frónbúa"
hélt húsfreyja pælingum sínum, "allir bláir og marðir í andliti,
með fjólublá glóðaraugu og sprungnar varir".
"Jæja, þeir hætta þá kannski við helvískan "lesturinn"
í miðjum leik, ef augu þeirra eru stokkbólgin og þrútin,
og dunda sér við að lesa orðið "leikinn" RÉTT uppi í rúmi,
þegar þá tekur að syfja"( sbr. "hann er að lesa leikinn rétt"...
vinsæl setning hjá snjöllum fjölmiðlamönnum), hugsaði húsfreyja
með sjálfri sér og glotti.
Hehehehehe..... húsfreyja stóðst ekki mátið.
Hefur bísna gaman að málfari fótboltakappa og þeirra sem
fótboltaleikjum lýsa í fjölmiðlum.
Orðaleppar þeirra eru algjör snilld, og oft æði snúið að
ná að tengja þá við FÓTBOLTALEIK/KNATTSPYRNU.
Gaman að þessu.
En húsfreyja vonar eigi að síður, að Eiður Smári láti vera
að berja mann og annan í andlitið í okkar frónverska liði,
og vonar að hann hafi aðallega verið að ræða um,
að hann og strákarnir okkar yrðu að "þjappa sér betur saman"
og jafnvel að "taka sig saman í andlitinu"
til að eiga einhvern sjens á að sigra norska frændur vora.
Góðar stundir og góða helgi, og í guðanna bænum þjappið ykkur ekki saman
í andlitinu.
![]() |
Grátlegt tap fyrir Noregi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 23.9.2011 kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.9.2011 | 19:35
Já, góðan og blessaðan daginn.....
....er ekki góður á þér maginn, elskan?
spurði
afi húsfreyju nágrannakonuna með stóra skapið
í Grænuhlíðinni í Eyjum hér í den.
Sú ágæta kona hafði ákveðið að fara í mergjaða fílu
við afa húsfreyju, út af einhverju smotteríi, og afi
var alsæll.
Svona konu fílaði afi í tætlur, ef húsfreyja má nota
talsmáta 10 ára djásnsins.
Þarna hittust þau "daglega" nágrannakona og afi,
á labbi í Grænuhlíðinni á leiðinni að útrétta og
afi heilsaði með miklum virktum og mergjuðum húmor,
á meðan nágrannakona vatt upp á sig og virti hann ekki viðlits.
"Sæl elskan, hann gustar hressilega í dag".
"Góðan og blessaðan dag heillin, frétti að þú hefðir verið
slæm í maga í gær".
"Góðan daginn elskan, þú ert gasaleg fín og lekker í tauinu í dag".
"Sæl ástin, voru þig ekki að fá fínar Gullauga-uppskeru úr kartöflugarðinum
og góðar rófur"?
Svona gekk þetta í tæp tvö ár.
Þá mætti skapstóra nágrannakonan skellihlæjandi upp
í eldhús á Grænuhlíð 20: "Stína, ég get bara ekki verið
reið við hann tengdapabba þinn lengur, hann fer alveg með
mig í gríninu og glensinu".
" Góðan daginn og hafðu það sem allra best í dag, elskan,
sé að þú ert í góðu skapi".
Afinn hafði alveg trompað nágrannakonu með elskulegu gríni og
"góðan daginn dögum"!
Nágrannakona var nefnilega einnig með myljandi fínan húmor,
og afi og hún urðu perluvinir upp frá þessu.
Þær hlógu oft að þessu nágrannakonurnar, móðir húsfreyju og
sú með stóra skapið yfir kaffi, og aldrei mundu þær nákvæmlega hvað
hafði ollið misklíðinni. En afi...já afi...
"Hrrrummmp.... afi ræksti sig, " já þetta voru ansi skondnir
tímar vinkona" og gjóaði snörpum augum á nágrannakonu,
"við ættum kannski að finna okkur aftur eitthvert mál til að
þrefa yfir ....hrummmmp... í nokkur ár".
Uppástungan varð til þess að nágrannakonurnar tjúlluðust
af hlátri.
Til allrar lukku fékk húsfreyja kímnigáfuna í arf frá föður sínum og
afa, og er aðhlæginn mjög og fljót að sjá húmorinn þegar
á dynur vesen og vafstur.
Já, og það er bísna góður arfur.
En húsfreyja vill að lokum segja þetta:
Góðan dag á "góðan daginn deginum" og munið að taka lífinu
ekki of alvarlega, þið lifið það hvort eð er ekki af.
![]() |
Góðan daginn dagurinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2011 | 13:11
Nótt hinna þungu menningarhögga?/Ferðaævintýr.
Það rann úr augum og nefi
bónda húsfreyju.
Það rann úr augum og nefi húsfreyju sjálfrar.
Tíu ára djásnið leit vandlætingaraugum á
foreldrana, dæsti mæðulega og setti upp sinn
besta "það verður víst að hlífa þeim-svip":
"Mig langar bara ekki neitt niður í bæ í kvöld,
en það væri fínt að fá Pepperoni-pizzu í kvöldmat".
Foreldrarnir hóstakjöltuðu sárfegin að það ætti að vera hægt,
og komu við í Spönginni á heimleiðinni eftir pizzum.
Fylgdust með menningartónleikum við Arnarhól í sínum kreppuflatskjá og
húsfreyja ráfaði fram á stigapall og gjóaði kvefblautum augum
til himins, þá flugeldaskothríð hófst.
Virtist allt fara hið besta fram, svo það er leitt að heyra af
líkamsárásum þessum niður í miðbæ í nótt.
Lítið menningarlegt við högg, hrindingar og pústra er mat húsfreyju.
Svona meira í ætt við ómenningu.
Jamm, en að öðrum og sumarferðatengdari málum.
Tengdó buðu í sumarbústað í viku við Vesturhópsvatn
fyrir rúmri viku.
Sól og hlýtt fyrstu tvo dagana, myljandi veiði, en bláber
áttu eftir að blána og stækka.
En síðan fór hann að blása að norðan, kólna og rigna.
Jamm og heilsu bústaðarfólks að hraka.
Fóstursonur reið á vaðið, rauður í augum með sífellt horrennsli.
Síðan smitaðist einn af öðrum.
Eitthvað var norðanþræsingurinn, 5-10 stiga hitinn?..kuldinn?
og hauga ekkisens rigning í þrjá daga af sjö,
að nísta mannfólkið inn að merg og beinum þar norðan
heiða.
Helvískar vírusakóloníur á sveimi gripu svo tækifærið,
og bjuggu sér ból í nefi, hálsi og augum þeirra ...hóst..hóst!
Tengdapabbi húsfreyju var reyndar nær dauða en lífi af ófögnuði
þessum, og þurfti til læknis á Hvammstanga í miðri sumarbústaðarferð.
Settur á fúkkalyf.
Fóstursonur saug upp í nefið, hans heittelskaða var sloj,
fósturdóttir sömuleiðis, bóndi og tengdamútta.
Kvefþjáð fólkið reyndi samt að bera sig vel, veiða silung og bleikju
og tína bláber....án þess að hor læki ofan í berjadallana.
Í vírusakóloníum hins vegar var stanslaus gleði, myljandi partý og
tengdapabbi fékk Þjóðhátíðina þeirra.
Tengdapabbi lagðist bakk í koju.
Bóndi húsfreyju lét sig hafa það að skreppa einn herlegan
túr með húsfreyju og djásni til höfuðborgar norðursins, Akureyri,
þrátt fyrir skítlegan hausverk og byrjandi horrennsli.
Húsfreyja og djásn enn hressar og töldu sig sloppnar
við kvefleg meinkvikindin, nutu þessa að sólin skein og hiti hafði
mjatlast upp í 14 stig.
Pollurinn á Akureyri var pollrólegur og rennilsléttur.
Skemmtiferðaskip í höfn.
Djásni vantaði skólatösku, og pennaveski.
Foreldrar tóku hlutverk sitt sem uppalendur og verndarar mjög
alvarlega, og skoðuðu einhverja ótölulega hauga af skólatöskum.
Tíu ára djásnið horfði yfir skólatöskubreiðuna uppi á veggjum,
yppti öxlum og tók til við að skoða loðin tuskudýr og annað dót.
Bóndi fann hvernig sargaði og brast í þolinmæðistaug sinni...
"Ætlarðu þá ekkert að taka þátt í þessu? Við erum að kaupa
töskuna handa ÞÉR".
Djásnið lét svo lítið að líta aftur yfir skólatöskudýrðina.
Sá ekkert í "augnhæð" sem henni líkaði.
Var að hörfa frá.....
Húsfreyja fann í flýti eina efnilega tösku fyrir ofan augnhæð
djásnsins, með breiðum axlarböndum, góðu, mjúku baki,
nestisbox, flaska og íþróttapoki fylgdi.
"En þessi hér"?
Djásnið ljómaði. Taskan var "bleik" með dekkri lit á vösum.
"Ég vil þessa", málið dautt og djásnið fór aftur að
tuskudýrahillunum.
Bóndi strauk sér um ennið örvæntingafullur.
"Þú verðu að máta hana fyrst, getur ekki bara
afgreitt þetta svona".
Eftir 20 mínúta hark, mátun, nöldur, tuð og þras
var bleika taskan keypt.....verðið?
Morð.
Húsfreyja verður líklega að hjóla til vinnu næstu vikur eftir
sumarfrí, hefur ekki efni á bensíni á bílinn, eftir
svona skólatöskukaup.
Pennaveskið varð ekki síðra en taskan verðlega séð..
...tilraun til manndráps.
Húsfreyja sér fram á skömmtun á kaffi fram að Jólum.
En tíu ára djásnið var hæst ánægt.
Kíkt í Nonnahús og á Álfa-og huldufólkssafnið.
Og síðan haldið aftur í bústað.
Síðasti dagurinn í bústað varð svo hlýr og sólríkur,
og húsfreyja hreinlega sá berin blána á þúfunum.
Smellti sér nokkrar ferðir upp um brekkur og tíndi grimmt
ber í sultu handa tengdmúttu þrátt fyrir byrjandi vírusadans
í hálsi.
Rambaði beint á holugeitungabú í einni brekku.
Varð henni til happs að "Jói framherji" var nýr
í framliðasveitinni geitunganna og hafði greinilega
aldrei áður lent í því að hitta fyrir "homo sapiens femalensis"
sem ekki öskraði og gargaði og baðaði út öllum öngum, í
hans návist og annarra í heimavarnarliðinu.
Nei, kerlingarfálan ráfaði bara með sína stóru krumlur
5 skref frá ættaróðali Jóa, og hélt áfram að RÆNA úr
bláa forðabúrinu geitunganna.
Jói framherji trompaðist alveg af panikk og æsingu.
Ræsti út allt heimavarnarliðið, sem setið hafði í makindum við að
spila félagsvist.
"HÆTTA" orgaði Jói.....
"GEITUNGA STÖÐVARNAR- SENDA ÁRÁSARSVEIT Á LOFT"!
Æddi síðan í miklum ham á eftir húsfreyju.
En af því að þetta var fyrsti dagur Jóa sem framherji,
og hann í miklum panikk, steingleymdi hann því að hann var
með glansandi beitt vopn í för.
Svo til að gera eitthvað, STANGAÐI hann húsfreyju í ennið.
KRASS!
Jói sá stjörnur og hlunkaðist vankaður niður á þúfu.
"DJÖ.... ÓFRESKJA", Jói náði sér aftur á flug...svipaðist um.
"HVAR voru allir hinir í sveitinni"?
Jú, nokkrir spilageitunga höfðu haft sig upp, og suðuðu
nú ógn......nei, HLÆJANDI í kringum holuinnganginn!!
Jói var orðinn sótsvartur af bræði..."var ekki allt í lagi með
þessa hálvita? Sáuð þeir ekki helvískt konutröllið"?
"HÚN ER HÉR" gargaði Jói, og rauk aftur af stað.
Mundi eftir "STINGNUM" sínum..."hehehe.. nú fengi sú tröllvaxna að
kenna á því".
En svo mikill fart var á honum og hann enn vankaður (og
slæmur í fjarlægðareikningi), að hann náði ekki snúningum,
og STANGAÐI enn og aftur enni húsfreyju.
Jói hálf rotaðist.
Heimavarnarliðið grenjaði af hlátri, og gerði sig ekki líklegt
að koma vesalings Jóa til aðstoðar.
"Já, rotaðu hana helvíska" kallaði Beggi sterki,
feitasti geitungurinn í liðinu, flaug niður á laufblað
og veltist um af hlátri.
Húsfreyja sá aumur á örmum og aumum Jóa, og hörfaði
niður fjöruborð Vesturhópsvatn sex skrefum frá Jóa.
Beið átekta.
"Sko, þú ert að reka hana á flótta" orgaði Beggi á milli
hlátursroka.
Jói með stóra sára kúlu á höfði, horfði fullur efasemda
á eftir bláklæddri konunni.
Ákvað að láta gott heita, og koma sér heim.
Þetta var meiri sneypuförin, og félagarnir létu hann heyra það.
Fór ekki að jafna sig fyrr en amma hans bar eðal hunang á
kúluna á höfði hans um kvöldið, og sagði honum að hafa ekki
neinar áhyggjur: "Homo sapiens femalensis eru nú einu sinni
skrýtnar skrúfur, Jói minn, og ekkert á þeirra viðbrögð að treysta".
En húsfreyja hélt áfram að tína og
fékk fína berjauppskeru í brekkunni hans Jóa,
og ekki einu sinni smá kúlu á ennið eftir árásirnar.
En helvískt kvefið fékk hún sem hitt fólkið, og ætlar að sinna þvotti
og snýta sig í gegnum daginn í dag.
Góðar stundir á óákveðnum sunnudegi.
![]() |
Pústrar, hrindingar og högg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.8.2011 | 13:38
Við eigum öll að sitja við sama borð.
HEYR, HEYR, Páll Óskar.
Í háþróuðu samfélagi manna sætu allir við sama borð,
hver undi glaður við sitt.
Staðreyndin er samt sú, að við búum ekki
í neinu slíku samfélagi, svo þörfin fyrir
gleðigöngur, tunnubarning og bara yfir höfuð
skipulögð mótmæli til að þrýsta á jafnræði og réttlæti
verður ætíð til staðar.
Og flott hjá Palla að "sparka" hressilega í
öfgamenn.
Öfgar aldrei til góðs, að mati húsfreyju.
Góðar stundir á sumarlegum ágústdegi.
![]() |
Mikil umræða um orð Páls Óskars |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)