7.8.2011 | 15:13
Af málningarþönkum, veðravíti og hinsegin málum.
Húsfreyju lá við drukknun.
Hún spýtti vatni og ryðrauðri málingu
úr munni sér í gríð og erg og hóstaði.
Húsfreyja hékk við illan leik efst uppi í stigaræskninu,
beint undir þakrennunni, sem skyndilega hafði sent
"Seljalandsfoss" beint ofan í málningarbakka húsfreyju,
sem var í 12 centimetra fjarlægð frá andliti hennar.
Málningar- og vatnsgosbrunnurinn sem myndaðist,
þeytti vatninu og málningu beint upp í andlit og vit húsfreyju.
Henni lá við köfnun, og sundlaði í stiganum
"Andskotinn í grásúrri mysu", húsfreyja tók andköf enn og aftur,
náði jafnvægi.
Málningarbakkinn hafði einnig runnið hálfur út af stigaþrepinu,
svo vatn og málning runnu einnig framan á bringu húsfreyju
og niður á gallabuxur hennar.
Hún var orðin blautari en hundur á sundi, og heldur ófrýnileg
í framan.
"Ætlarðu að keyra svona heim, Sigga", Guðmundur
Vigri 8 ára, sem hafði fylgst með basli húsfreyju,
var verulega áhyggjufullur, og Marinó Týr 5 ára
lýsti því yfir að jafnvel "löggan" yrði "stúthrædd" að berja
húsfreyju augum svona útlítandi.
Húsfreyja beit á jaxlinn, fyllti bakkann af málningu og
hélt áfram að mála, undir helvískri lekarennunni, eins og
ekkert hefði í skorist.
Systir í Þolló kom vaðandi fyrir hornið á húsinu.
Glotti grimmt, er hún sá framan í systur sína efst í stiganum.
Heimtaði myndartöku, og sýndi síðan húsfreyju.
"Hva, þetta er ekki svo slæmt", hugsaði húsfreyja,
"bara eins og ég hafi fengið bráðatilfelli af "Svarta Dauða".
Andlit húsfreyju var allt rauð flekkótt.
Litlu frændur hennar hrylltu sig enn og aftur.
Húsfreyja gaf sig, enda farið að svíða í andlitið undan málningunni,
og þær systur komu sér heim í kaffi til múttu.
Húsfreyja var stödd í Þolló að aðstoða systur við að
mála og græja litla húsið hennar systurdóttur í Eyjum....
sem EKKI hefur strokið eitt pensilfar eftir útiveggjum
síns litla húss....sniff...sniff...snýýýt!
Heppin að eiga góða "áhuga-húsamálara" að, sú unga kona.
Húsfreyju fannst ekki stætt að systir í Þolló stæði ein
í málningarveseni þessu, og mætti 3 daga í röð í
málningavinnu.
Gekk bara bísna vel, þrátt fyrir Svarta Dauða, og svo
grenjandi regn og rok síðasta vinnudag húsfreyju.
Húsfreyja nærri drukknuð þar í annað sinn, bara í öðru stigaræskni.
Sá allt líf sitt renna fyrir hugskoti sínu og svo fyrirsagnirnar:
Kona drukknar við málningarvinnu í Þorlákshöfn.
Var ekki einu sinni að mála sitt eigið hús.
Sjónarvottar segja að líklega hafi konan verið
dauðans matur hvort eð er.
Var með svæsnasta tilfelli af Svarta Dauða sem sést hefur
í nokkrar aldir uppi á litla Fróni.
Verður fínasta hús, þegar systir í Þolló pakkar niður síðasta
penslinum.
Dugnaðarforkur systir.
Húsfreyja ætlar að mæta aftur á morgun, austur,
ef systir er þá ekki búin að klára verkið.
Svartur Dauði eður ei.
Síðan voru þær mæðgur, húsfreyja og tíu ára djásn
í "hinsegin" skapi í gær, og komu sér niður í bæ
um miðjan dag.
Það var brakandi sólskin og HEITT.
Kíkt á skemmtiatriði og litadýrð.
Skroppið í Iðuhúsið í tertu og kaffi.
Djásnið vildi endilega kíkja í bókabúðir,
sem til allrar lukku voru allar opnar.....steikjandi
brækjuheitar innanadyra...en opnar.
Djásnið náði sér í JB= Justin Bieber-blað, en
húsfreyja í bók um stjörnuspeki.
Svo aftur rölt upp á Arnarhól.
Þar mikil gleði og margt um manninn.
Felix, tónlist, Hera og að lokum rúsínan í pylsuendann:
Páll Óskar með sitt "Ég er eins og ég er".
Litfagrar blöðrurnar sem svifu í tugatali upp í
himininn í lokin áttu hug tíu ára djásnisins allan.
"Taktu mynd, mamma".
Svo vildi djásnið aftur í verslanir...Tiger...Mál og Menning.
Húsfreyja var að bráðna ofan í skóna sína.
Tókst að múta djásni með frostpinna, og þær röltu aftur upp
Skólavörðustíginn.
Alls staðar var fólk.
Flestir allsgáðir og glaðir, örfáir útúrdrukknir eða
öldauðir.
Mikið af ferðamönnum með myndavélar á lofti:
"OMG did you see the mayor" konan náði vart andanum
af spenningi "he was dressed as a lady and spoke in a
a catty voice".
"Crazy Icelanders" kom svarið frá brosandi manni.
"Jamm, kannski svífur léttleiki og fíflagangur yfir
vötnunum.....altént Tjörninni í Reykjavík á svona sólríkum
og heitum degi" hugsaði húsfreyja, " en þetta er samt
brilliant flottur hinsegin dagur".
En annar sólríkur er skollinn á í dag og djásnið vill til ferða.
Góðar stundir í sólríkum ágústmánuði.
Spaugilegt | Breytt 8.8.2011 kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2011 | 13:02
Heimskingi....
.... á heimsmælikvarða, þar með, húsfreyja
,
hafi ráðgjafyrirtækið, Apti Quant rétt fyrir sér..
Jeminn!
Húsfreyja er í öngum sínum.
Veit samkvæmt hávísindlegri könnun þessari
minna en núll og nix.
Er Forrest Gump tölvuheimsins, án allra hans fínu
hæfileika.
Er til dæmis hrikalega léleg í Ping Pong, og veit minna en
ekki neitt um rækjuveiðar og rækjuvinnslu.
Sjálfsagt bara heppni, að húsfreyja asnast á frosnu
rækjupakkana í Bónus þá hún kaupir í rækjusalat bónda.
Jaso.
Þetta er ljótt að heyra.
Húsfreyja sér hér með á eftir allri sinni visku og vísindum
niður í klósettskál Internet Explorer vafrans.
Situr aðeins eftir með einhver brotabrot af hugviti, frá þeim tímum er
Firefox var eini virki vafrarinn á kompjúter hennar,
og þeim skiptum sem hún rápar inn Google.
Helvíti er að vita þetta......eða vita.....nei....veit húsfreyja
eitthvað framar?
Er á mörkunum, húsfreyja........eða hvað?
Eitthvað virðist könnun þessi "sérviskuleg" og ekki taka
tillit til þess að fólk um allan heim lærði á kompjútera upp úr
þrítugu, líkt og húsfreyja eða jafnvel fertugu, fimmtugu, sextugu
þegar þær fyrst urðu almennar í notkun.
Og maður notar það sem manni var kennt að nota.
Þannig er það bara.
Internet Explorer hefur reynst húsfreyju vel, þó hún brúki
einnig aðra vafra, Google þar mest.
Einfaldur og þægilegur í notkun, ekkert vesen og engin
þörf á greindarvísitölu upp á 130 til að hann nýtist vel.
Firefox er fínn líka, og tíu ára djásnið notar hann mest ásamt
Google.....svo kannski sleppur hún við "heimskuna".
Árangurinn það sem skiptir máli, er mat húsfreyju þegar kemur að
vöfrum.
Húsfreyja gefur Forrest Gump orðið að lokum:
Stupid is as stupid get's.
Góðar stundir á hlýjum águstsumardegi.
![]() |
Notendur IE greindarskertir? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.7.2011 | 00:07
Færeyingasorgir eða skýfall?
"Skýfall eða ský þetta hefur gróið fast við móður Jörð" hugsaði húsfreyja í
þrengslunum á leiðinni austur fyrir fjall
eftir hádegi í dag.
"Tarna er ljóta votviðrið" sagði hún upphátt við bónda,
sem svaraði litlu, því Hemmi Gunn var á útopnu í
Bylgjunni með Ásgeiri, og veðrið ekki þess virði að eyða orðum
á það.
Enda bóndi spenntur að komast á Færeyingadaga á Stokkseyri,
búin að sækja þá góðu frændur heim eitt sinn fyrir mörgum árum,
og hlakkaði til að berja dýrð Færeyinga augum á ný,
þó ekki væri hann í Færeyjum í þetta sinn.
Mekilegt nokk, var að létta til við suðurströnd landsins, þegar
litla fjölskyldan mætti í Þorlákshöfn.
Fyrr en varði skein sólin skært.
Færeyingadagar á Stokkseyri, þangað skyldi nú brunað.
Skerpukjöt snætt, vikivakar dansaðir og snöflast á
mörkuðum sem versluðu með færeyskan varning.
Systir í Þolló með allt sitt lið, fékk pláss fyrir Alexander 6 ára
og Sigga Frey 11 ára í aftursæti við hlið 10 ára djásnsins í
bifreið húsfreyju.
Svo var haldið af stað í sól og blíðviðri.
Jamm.
Eitthvað skitu Stokkseyringar upp á bak með
Færeyingahátíð þessa.
Örfáar hræður að dorga niður við höfn.
Ekkert skerpukjöt.
Enginn Vikivaki.
Engir færeyskir markaðir að tæla frónverska kúnna
í til kaupa á eðalvarning.
Einn eldri herramaður klæddur færeyskum þjóðbúningi á vappi
og 15 færeyskir fánar blakatndi í sólinni....og málið var dautt.
Jú, auðvitað voru draugarnir á Draugasafninu vaknaðir.
Alex 6 ára þrælaði sér inn með systur í Þolló, Aroni og Svölu,
kom hágrátandi og bálreiður út...."þa va ljótur kall að breðða mé".
Húsfreyja heyrði öskur Svölunnar af og til á leiðinni í gegnum draugaganginn,
og svo háorgin í Alex þegar út kom.
Tíu ára djásnið, Árni Bæron, Siggi Freyr og Guðmundur Vigri töldu ekki
neina ástæðu til að láta hræða úr sér líftóruna,
fyrst þau fengu að berja Færeyinga augum og dansa Vikivaka síðar,
en kíktu samt á "frónversku tröllin" með hinum.
Jamm!
HVAR voru þeir færeysku, dagarnir, menningin og maturinn?
HVAR?
Og það voru "frónverskir" draugar og frónversk tröll
allt saman þar inni í Draugasafninu,
enginn færeyskur draugur eða tröllkarl....ekki einn einasti.
Söfn, veitingastaðir og vinnustofur opið...allt saman frónverskt.
Bólaði ekkert á neinu færeysku neitt.
Fín myndlist samt hjá frónversku myndlistarfólki.
Djásnið og frændsystkyni höfðu lítinn áhuga á listinni.
Hvað þá?
Harry Potter galdrar fyrir 8-15 ára auglýstir í dagskrá.
Jaso, og húsfreyja sem hélt að Potter væri breskur
og hefði ekki einu sinni komið til Færeyja....og átti ekki að byrja
fyrr en seinni partinn, ásamt diskóteki fyrir yngri kynslóðina.
Nú, það væri altént hægt að treysta á Töfragarðinn með
húsdýr og húllumhæ fyrir alla krakkana þangað til....
En nei!
Töfragarðurinn var lok lok og læs, tómur, dýralaus, mannlaus
og allslaus.
Tónleikarnir með Kvönn kl. 15:00 kostuðu 1000 kall á haus.
Húsfreyja reiknaði í snarhasti í huganum....10 manns,
það gerðu 10 þúsund krónur á tónleika, sem kannski helmingurinn af
liðinu myndi fíla.
Systurnar ákváðu reddingu.
Brunað á Selfoss með hraði, og liðinu boðið upp á KFC-kjúlla.
Kostaði innan við 10.000 krónur og allir fóru þaðan saddir og sælir.
Komið við á "Kanínustöðum" gegnt Litla Hrauni á heimleiðinni.
Frændsystkyni öll 6- 12 ára trompuðust í miklu kanínuhlaupi þar með,
og reyndu sem mest þau máttu að fanga eitt kanínuskinn.
Náðu engu.
Nú er verið að plotta að koma sér upp gjörvulegu neti,
og skreppa upp að "Kanínustöðum" og veiða í net lítið
kanínuskott, og gera að gæludýri.
Systir í Þolló þar með búin að fá næstu viku þrautskipulagða,
og mun dveljast löngum stundum á Kanínustöðum,
og veiða kanínur grimmt undir vökulum
augum fangavarða á Litla Hrauni.
Færeyingadagar hvað?
Samkvæmt herlegri dagskrá sem húsfreyju áskotnaðist
í dag á Stokkseyri, á bóndi húsfreyju einhverja möguleika á,
að næla sér í skerpukjöt og dilla sér í Vikivaka á Stokkseyri.... á morgun.
En ekki fyrr en klukkan 16:00, kostar 1500 krónur og tónleika,
og stór spurning hvort bóndi nenni að hanga eftir því.
Hann er hins vegar alveg búinn að missa af Harry Potter-göldrunum.
VESEN!
Húsfreyja hefur aldrei heimsótt frændur sína í Færeyjum,
sem er miður og vill gjarnan sækja þá heim þá kreppa hjaðnar,
og bensínverð og ferðakostnaður dalar.
Koma tímar, koma ráð.
Eftir "Færeyskan dag" þennan á Stokkseyri í dag, er hún
engu nær um Færeyinga, menningu þeirra, tónlist, mat,
dansa eða framleiðslu.
Sá EINN aldraðan mann í færeyskum búning...punktur basta.
Eitthvað finnst henni að Stokkseyringar hefðu mátt vanda sig
betur við skipulag á hátíð þessari.
Hafa meira við að vera fyrir börn, bjóða upp á
færeyska sölubása, mat, hannyrðir, framleiðslu,
myndir frá Færeyjum, vikivaka-dansa á götum úti jafnvel.
En það er nú eingöngu hennar mat.
Máske alsæla í gangi á Stokkseyri yfir vel lukkaðri Færeyskri hátíð.
Með einn öldung á vappi í færeyskum búning daglangt.
Hvað veit húsfreyja?
Og Harry Potter hefur sjálfsagt staðið fyrir sínu líka.
Fluttur til Færeyja og búinn að stofna galdraskóla í Þórshöfn-Þórswarts?
Það mígrigndi í borginni við sundin bláu, þegar húsfreyja kom
heim aftur með sína litlu fjölskyldu.
Tíu ára djásnið var alsælt.
Frábær dagur.
Þar ber kanínueltingaleikinn hæst.
Bóndi er farinn að sofa, skerpukjötslaus.
Húsfreyja ætlar að kíkja á imbann og fylgjast með handahlaupum
tíu ára djásnsins á stofugólfinu enn um stund.
Spáir lítið í Stokkseyrarferð aftur á morgun, eftir vonbrigði dagsins.
Kannski hægt að bjóða tíu ára djásninu í bíó...á Harry Potter.
Góðar stundir um Verslunarmannahelgi.
![]() |
Ekkert rigndi í Eyjum í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt 4.8.2011 kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2011 | 12:57
Þær hafa þá reynst heldur við vöxt...
...naríurnar, þegar þjófur mátaði
.
Og næsta víst að "ættardjásnin" nytu síns
lítt í svo víðum nærbrókum.
Skárra að skila þá, Greifum brókum þeirra, enda
þær þeim vel merktar og hönnun brókanna öll til sóma.
Virðast þessar ágætu nærbuxur geta haldið hita á
"öllum Greifunum í einu" kólni þeim "niður" á
svölum útihátíðum.
Er það vel að þeir skuli hafa fengið nærbuxurnar sínar aftur,
Greifarnir.
Húsfreyja spáir því að þeir verði öllu "greifalegri" á
sviði í sumar fyrir bragðið.
Góðar stundir og megi þið aldrei verða uppiskroppa með naríur.
![]() |
Nærbuxunum skilað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2011 | 13:47
Sorg og skelfing.
yfir hinum mikla missa Norðmanna.
Og vitið, Norðmenn, að það eru á þessum degi
þúsundir íslenskra hjartna, sem með yður kalla
til himins á Drottins náð, að nálgist sá dagur,
að Noregi auðnast að láta hlekkina falla.
Og þó að milli ættjarða vorra um aldir
úthaf gleymsku og þagnar á stundum flæddi,
sá spölur gerðist skemmri, er skyldleikans kenndi,
sem skar oss í hjartað þann dag, er Noregi blæddi.
Tómas Guðmundsson-Dagur Noregs.
Hugheilar samúðarkveðjur til Noregs.
![]() |
Reynt að eyða framtíð Noregs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.7.2011 | 13:18
Rússneskur sandmokstur...
..sjálfsagt mun áhrifaríkari en sá frónverski.
Fleiri að baki hverri skóflu, eða hvað?
Húsfreyju þykir einsýnt að merkur oddviti þeirra
Eyjamanna í bæjarstjórn, muni leita allra leiða út úr
Landeyjarhafnarklúðrinu.
Fyrst "hafnarhönnunarsnillarnir" sáu vænstan kost í
samgöngumálum Eyjamanna,
að skella upp höfn í "ósum" Markárfljóts, í bakgarði
Eyjafjallajökuls og á miðjum "Landeyjarsandi", var nokkuð
"öruggt" að einhvern tímann myndi þurfa að MOKA upp
einhverju "smotteríi" af auri og sand úr höfninni.
En eitthvað virðist sú staðreynd hafa farið fram hjá snjöllum hönnuðum,
og þeir steingleymt að hanna kröftugan sanddæluútbúnað, og því
síður hugsað fyrir, að fengin yrðu sanddæluskip í höfnina sem
dyggðu í frónverkum aðstæðum og sjólagi.
Nú situr Ellið bæjarstjóri uppi með hönnunarsnilld þessa,
og á að sjá til þess að einhver ótölulegur fjöldi
ferðamanna komist þvers og kruss á sem skemmstum
tíma á milli lands og Eyja, sumarlangt og jafnvel
langt fram á vetur.
Eyjamenn þeir sem húsfreyja þekkir til, eru löngu
orðnir kúguppgefnir af "óáreiðanlegri" áætlun Herjólfs
í Sand...afsakið...Landeyjarhöfn, nota flugið grimmt
og flykkjast í ferðir Herjólfs til Þorlákshafnar, þegar
þær eru í boði.
En Elliði bæjó er seigur og fylginn sér, og gefst ekki upp
þó á móti blási.
Eftir því sem húsfreyja best veit, er gamla Rússland
fullt af lækjasprænum, stórum ám og jafnvel stórfljótum
þvers og kruss um landið þvert og endilangt.
Dettur henni þar einna helst í hug Volga og Don, en veit
að vatnsbunur þar austur um hljóta að vera miklu fleiri, en
það sem hennar minni rekur til.
Einhverja reynslu af sandburði þessara stórfljóta hljóta
Rússar að hafa öðlast, og gætu nú af stakri visku sinni
og vinsemd miðlað til Elliða bæjó á haustdögum.
Þarf þá kannski ekki að loka Landeyjarhöfn yfir vetrarmánuði,
ef vel tekst til, og Rússarnir rétta Elliða brilliant lausn
á silfurfati á sand- og aursöfnuninni innan hafnarinnar,
sem frá Markárfljóti kemur.
Verra verður að finna lausn á sjávarstraumum, og vetrarlægðum
með hvínandi austanátt dögum saman.
Jamm, Elliði Eyjamanna situr líklega í súpunni eftir sem áður,
þó Rússarnir veiti liðsinni.
Við liggur að húsfreyja bjalli í hann, og stingi að honum að
hóa í kínverska sendiherrann næst.
Þeir snjallir menn í LÖNGUM brúarsmíðum eftir því sem
fréttir austur frá Kína herma, og þeir allra manna greiðviknastir og
vinsamlegastir....ef þú manst að launa þeim greiðann
seinna meir. Muna bara að vera ekki að bögga þá gulu
með einhverju mannréttindakjaftæði.....
Brú millum Landeyja og Eyja yrði sjálfsagt lítið mál fyrir
Kínverjana. Þeir ýmsu vanir í þeim málunum.
Myndu rusla upp einni eðal brú á "nó tæm"fyrir Eyjamenn!
Og höfnina mætti eftir sem áður nýta sem...hrísgrjónaakur.
Þeir kínversku yrðu hrifnir af því.
Já, en tarna er skrítna hafnarstæðið, Landeyjarhöfn.
Og nýtingin á höfninni tóm barátta við náttúruöflin.
Nei, Elliði bæjó á ekki sjö stundirnar sælar, þegar kemur að
Herjólfi og hans hafnarmálum.
En húsfreyja hefur trú á sinni heimabyggð, og telur að
farsælar lausnir sé hægt að finna á hverri áskorun....jafnvel
samgöngumálunum.
Hún myndi altént byrja á því að senda "hafnarhönnunarsnillana"
aftur á skólabekk, og setja þeim fyrir að LÆRA að gera
"inn- og útsiglanlegar-hafnir", og öðrum kosti að
kenna þeim að náttúruöflin á hverjum stað, eru þau
öfl sem þarf að gera ráð fyrir FYRST, áður en vaðið er af stað í
hafnargerð.
Senda þá svo aftur austur á Landeyjasand.....KOMA SVO!
VINNA VINNUNA SÍNA!
En vel að Elliði bæjó gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana.
Húsfreyja spáir honum velgengni.
Hann á til bæði þolinmæði og þrautseigju.
Og...
"Þolinmæðin þrautir vinnur allar".
Góðar stundir í rífandi fínum þurrki hér vestanlands.
![]() |
Leitar til Rússa vegna Landeyjahafnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2011 | 22:55
Vatn í æð á heitum sumardegi!
Húsfreyja hefur fulla samúð með
hlaupurum þessum á Laugaveginum,
og þykir ekki mikið að sumir hafi þurft vökva í æð.
Dáist bara að áræði þeirra og dugnaði, og
óskar þeim heilla í næsta Laugarvegshlaupi.
Sjálfri hefði húsfreyju ekki veitt af vökva í æð
úti á sólpalli sínum um hádegisbilið.
Hitamælir í skugga sagði 24 stiga hita, helvískur lygarinn,
á meðan bóndi og húsfreyja voru við það að fá
heilablóðfall í 35 stiga hitanum í sólinni.
Djásnið flúði inn með Andrés Önd, og sagðist
ekki ætla að fá sólsting og hitaslag.
Bóndi og húsfreyja sáu að komið var í óvænt efni
með veru sína á sólpalli sínum, þrátt fyrir fögur
og litrík sumarblóm, kalda drykki og bland í poka.
Heilabú þeirra myndu hreinlega "brenna við",
og húðin flagna af þeim, þrjóskuðust þau lengur þar við.
Fengu aldeilis brilliant hugmynd.
Drifu sig í Bónus og versluðu smávegis nesti,
tróðu því í bakpoka og þræluðu sér út í
"stóra örbylgjuofninn" sinn, nefnilega bílinn.
Tíu ára djásnið var svona mitt á milli "ókei ég get sosum alveg
komið með ykkur" og "aaaaarrrgh, HRYLLINGUR að ætla að
fara í LAAAAANGA ferð í svona sjóðandi heitum bíl"!
En af stað lagði fjölskyldan eigi að síður, út úr bænum.
Djásnið kvartaði stöðugt í bílnum.
Augnsviði, hiti, verkur í olnboga, þorsti, ÞREYTA.
"Guði sé lof, að "Botninn" er ekki suður í Borgafirði
hugsaði Húsfreyja, á meðan bóndi gerði djásninu til geðs,
og þrasaði við hana.
Neipp, botninn var BOTNINN í Hvalfirði, svo stutt var að fara.
Nú skyldi GENGIð í veðurblíðunni, svona LÉTTA og ljúfa
göngu upp að Glym, fyrrum hæsta fossi litla Fróns.
Djásnið var full efasemda um visku og geðheilsu foreldranna,
er kom að gönguferð þessari, taldi víst að þau væru bæði STEIKT!
Hitamælirinn í bílnum sagði hitann 17 stig C...helvískur lygarinn.
Hitinn var STEIK, STEIKTARI STEIKTASTUR!
En af stað hélt fjölskyldan.
Rölti góða stund eftir fornum túnum, fram hjá eyðibýli,
eftir klungri niður að á.
Stígurinn HVARF skyndilega við hamar við Botnsá.
"Hvernig komumst við niður"? djásnið örlítið áhyggjufullt.
Húsfreyja skellti sér fram á brún, benti á moldartroppur,
varðar trédrumbum sem hengu utan í hamrinum:
"Við förum hérna niður"!
Bóndi vantrúaður.
" En hvar er hellirinn"?
"Nú hann er við endann á tröppunum" húsfreyja ratvís
og minnug.
Bóndi efaðist stórum um minni húsfreyju sinnar, en varð
að játa sig sigraðan þegar hellismunni blasti við sjónum.
Djásnið fílaði hellirinn í tætlur....því meira, að gengið var í gegnum
hann og út neðar í hamrinum.
Botnsá himinblá, straumhörð og hvítflyssandi blasti við.
"Hvernig komust við yfir, mamma" spurði djásnið áköf.
Gangan að verða spennandi.
" Á viðardrumbi og vír" kom svar múttunnar.
Djásnið var orðið verulega spennt.
"Úúú.. er þetta öruggt, pabbi"?
Bóndi sagði svo vera, og fór fyrstur yfir.
Djásnið fylgdi á eftir, ríghélt í vírinn en
húsfreyja rölti rólega síðust og strauk hægri
hendi meðfram vírnum.
Vestmannaeyjajafnvægið enn í góðum gír hjá henni,
þó lítið væri um ár í Eyjunum.....nákvæmlega ENGAR.
Svo hófst gangan upp í steikjandi sólskini utan í bröttum
hlíðum Hvalfells, hangandi í spottum upp bröttustu
stígana.
Svitinn rann í stríðum straumum, hjartað sló örar,
fossinn sindraði í hitanum...escuse me....góðan daginn..
...guten tag.....escuse me....það var fjölmennara
á leiðinni upp enn í Kringlunni á föstudegi.
Fundið rjóður í birkiskóginum ofarlega og nesti snætt.
Djásnið að niðurlotum komið: "Þetta er erfitt, pabbi,
ég er ÞREYTT"!
Sólin skein sem aldrei fyrr.
Húsfreyja myndaði grimmt, á meðan bóndi og djásn
þrösuðu.
Haldið áfram upp, fundinn útsýnisstaður, þar sem
tignarlegur Glymur blasi við.
Myndað.
Djúpt gil blasti við, og djásninu sundlaði.
Þarna niður færi hún ekki.
"Ég er svo ÞREYTT, pabbi"!
Bóndi og djásn þrösuðu í sumarhitanum.
Húsfreyja taldi að nógu hátt væri gengið
enda klukkan að verða fimm síðdegis.
Svo aftur var gengið af stað, en nú niður í móti.
Tíu ára djásnið var allt í einu ekki þreytt lengur,
þrátt fyrir brækjusólskyn og hita.
Fékk sér vatnssopa úr hverri lækjarsprænu,
skokkaði niður á undan foreldrunum.
Ákveðið að vísitera tengdó í húsbílaferð að Hlöðum
við Ferstiklu á leiðinni heim.
Þau þar í stormi en sólskyni.
Tengdamútta sagði "skítakulda".....húsfreyja, bóndi
og djásn horfðu á hana eins og hún væri búin að
missa vitið.
KALT???
Þau voru að bráðna eftir gönguna miklu.
Kaffi drukkið, súkkulaðirúsínur snæddar og tengdamúttu
hlýnaði.
Tengdapabbi spenntur fyrir lokahófi húsbílafólks um kvöldið.
Gaui litli átti að sjá um kvöldverðinn.
Þegar litla fjölskyldan kvaddi var Gaui litli að mæta
á svæðið í sínum "Nizzan Micra".
"Vonandi verður "dinnerinn" ekki MICRA hugsaði
húsfreyja, og glotti með sjálfri sér, "verður vonandi
svona meira Gaui litli-dinner".
Hvalfjörðurinn skartaði sínu fegursta á heimleiðinni,
og húsfreyja reyndi að rifja upp söguna af konunni
sem synti með börnin sín tvö??.. frá eyju....hvaða eyju''...
í Hvalfirðinum í land eftir bruna??... hvenær???.. í land...hvar??
Þetta var allt svona dálítið óljóst hjá húsfreyju,
enda hún ekki vel kunnug svæðinu og sögu þess, en hafði eigi
að síður heyrt þessa sögu einhvern tíma þegar
húsfreyja var ung og fögur...nú er hún auðvitað
bara FÖGUR.
Auglýsir hér með eftir nánari upplýsingum um sögu þessa,
eyjarnafn, bæjarnöfn og tildrög, húsfreyja.
Alltaf gaman að kunna góðar sögur, en þá er líka nauðsynlegt að
fara rétt með staðreyndir/þjóðsögur.
Þegar heim var komið, steikti bóndi þorsk, en húsfreyja sem
er brunarústir einar eftir daginn, hvíldi sig yfir rauðvínsglasi
og fréttum af nýopnaðri Múlakvíslarbrú.
Djásnið stendur á haus í orðsins fyllstu merkingu:
"Mamma, sjáðu" og vippar sér í handahlaup á stofugólfinu.
"Ég er ÞREYTT" útstrokað úr hennar heilabúi, bónda til
mikillar furðu.
Á meðan er herleg bifreið systur í Þorlákshöfn búin að vera í mergjaðri
fílu við systur hálfan daginn.
Stýrið LÆST svo sterkustu karlmenn hafnarinnar réðu ekkert við.
Bóndi og húsfreyja ráðlögðu systur að snúa stýrinu
grimmt hægri vinstri, og reyna að starta...og systir hafði það fyrir rest.
Tveggja tíma rest.
Sló alla sterka karla út, systir.
En Bónusferðinni upp í Hveró seinkaði töluvert hjá systur,
en hún búin að sverja þess eið, að snúa aldrei hjólum
bifreiðar sinnar, þá hún leggur bílnum.
Jamm, sólríkt og læst vesen hjá oss systrum í dag.
Vonandi áttuð þið öll góðan og ljúfan dag...sólríkan
sem sólarlausan hér uppi á litla Fróni.
Góðar stundir.
![]() |
Laugavegshlaupinu lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2011 | 19:32
Næstum því kannski.
Sundrungur í samgöngum...eða sundraðar samgöngur
á sunnanverðu litla Fróni?
Hvað er atarna?
Eldfjöll öll austan heiða sunnanvert komin
í mikin ham.
Mergjaðan sótsvartan ham!
Annað hvort gjósa upp úr þeim hraunspýjurnar
með tilheyrandi kolasvörtu öskufalli, eldglæringum,
hraunfossum, aurflóðum og rassárum ferðalöngum
á lokuðum flugvöllum eða þau "næstum því kannski"
gjósa undir jökli og senda aurflóð í ferðalög
með frónverskar brýr á suðurlandi beint á haf út.
Jaso.
Samgöngur á suðurlandi í uppnámi þar með.
Enn og aftur.
Eyjamenn líklega farnir að huga að "sameiningu" við
Þorlákshöfn, eða þjálfa sig upp í "langsundi"
öðrum kosti, en Mýrdælingar dudda sér heima við
að safna ösku og aurleðju á flöskur til að
selja túsistum...sem næstum því kannski komast
yfir Múlakvísl til þeirra eftir 2-3 vikur....sitja fastir
úti í miðri kvísl öðrum kosti eða oní á að fjallabaki, Mýrdælingar,
þurfi þeir að skreppa á Egilsstaði á næstu dögum.
Tarna er ljóta uppákoman.
Húsfreyja hefur litla áhyggjur af íbúum Hafnar á Hornafirði,
þeir elda bara meiri humarsúpu og skella á brúsa,
og krusa um austurlandið í sólinni, á leiðinni
suður.
Örlítið lengri leið fyrir þá að vísu, en þokkalega
örugg og "vel brúuð"....nema auðvitað að Krafla taki
upp á því að gjósa aftur.
Neipp, það eru Mýrdælingar sem eiga alla samúð húsfreyju.
Þarna eru þeir staddir nánast úti í miðri sandauðn,
engin höfn, engar flugsamgöngur, með Kötlu gömlu
stöðugt másandi ofan í hálsmálið á þeim og verða
að treysta á þjóðveg eitt, ein akrein í hvora átt,
sem "aðalsamgönguæð".
Svo hnerrar sú gamla, Katla kerling, og snýtir sér hressilega.
Og púff!
Brúin yfir Múlakvísl farin!
Horfin!
Fjörutíu metra bútur út þjóðvegi eitt þar með
sigldur á haf út.
Og Mýrdælingar verða flestir HEIMA hvort sem þeim
líkar betur eða verr, hafi þeir ætlað að dúlla sér
austur á Höfn eftir humri í sumar, eða vera með hitting
hressra "nunna" á Klaustri.
Nú eða þurfa jafnvel að fara í það að læra "langsund" með Eyjamönnum.
Geyma austurferðirnar fram í ágúst, þegar vegagerðin
verður búin að reisa nýja brú og lagfæra "horskemmdirnar"
eftir Kötlu.
Jamm, sunnlendingum er ekki skemmt.
Og eins og þetta sé ekki nóg, þá hafa jarðvísindamenn
og eldfjallasnillar verið að mæla "blóðþrýsting"
hennar hátignar, Heklu "af Rangárvallasýslu".
Og hvað?
Jú, þar er allt í suðumarki!
Næstum því kannski hægt að spá gosi hjá þeirri
eldfjallafrú á næstu vikum.
Það yrði aldeilis myljandi stuð, þó sú frú sé einna
skást í sveit sett hvað samgöngur varðar.
En ekki er þetta gæfulegt atarna.
Hálfsokknar rútur úti í jökulá.
Jepplingar og mótothjól föst í ám á fjallabaksleiðum.
Brjálað að gera hjá björgunarsveitunum um hásumar.
Með þessu áframhaldi verða þeir að selja minnsta fjölskyldupakkann
af flugeldum á 50 þúsund kall næstu áramót.
Jamm, móðir náttúra er hörkukerling og kann svo
sannarlega þá list að velgja okkur Frónbúum undir uggum.
Kyndir vel undir eldfjöllum sínum hér uppi á Fróni, móðirin
um þessar mundir, og gerir viðkvæmar samgöngur okkar
erfiðari og flóknari.
En við erum sosum öllu vön, Frónbúar.
Búum á landi í mótun og þrífumst yfirleitt best þegar á móti blæs.
Vel að enginn slasaðist í rútuslysi þessu í Múlarkvísl,
og húsfreyja veit að brúarsmiðir við Múlakvísl vinna
gott og traust verk fljótt og vel.
Verða næstum því kannski búnir með hana eftir 10 daga.
En soðin ýsa næst.
Góðar stundir og gangi ykkur ætíð vel að komast ferða ykkar.
![]() |
Trukkurinn fastur í Múlakvísl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt 16.7.2011 kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2011 | 23:14
Katla hnerrar og....
...snýtir sér, og heil brú
fýkur á haf út.
Þetta líst húsfreyju miður vel á, og
telur að jafnvel "lítið" Kötlugos geti
orðið stórmál fyrir Frónbúa.
Var næstum orðin innlyksa um helgina austan
brúar yfir Múlakvísl, og þakkar sínu sæla
að hafa leyft bónda að ráða för í útilegu að þessu sinni.
Bóndi lenti í miklum hremmingum með aðra öxl
sína fyrir rúmu ári síðan, og hefur nú komið sér
upp sérlegri "prinsessan á bauninni- vöðvabyggingu".
Svaf vart dúr þessa einu nótt á svæði geysa og strokka
í Haukadal núna, bóndi.
Vildi bóndi í fyrstu tilraun eftir axlarslys ekki hætta sér
lengra frá borginni við sundin bláu, en upp að Geysi.
Húsfreyja samvinnuþýð kona, samþykkti það ljúflega,
þó hún hefði gjarnan viljað skreppa á sunnanvert Snæfellsnesið
eða upp í Skaftafell.
En þangað vildi bóndi ekki, svo Geysir varð fyrir valinu.
En svefninn var misgóður hjá útilegufólki.
Húsfreyja með sína gigtarmjöðm, svældi
í sig einni verkjatöflu fyrir nóttina, og svaf sem rotuð væri.
Bóndi bylti sér og dæsti, djásnið snöflaði sér einar tvær
ferðir út undir bert loft að losa um þvag, og kvartaði
sárt undan þreytu í morgunsárið ásamt föðurnum.
Húsfreyja svaf.
Á gott með svefn úti í náttúrunni, húsfreyja.
Þetta er fyrsta útilega 10 ára djásnsins frá því að
hún fór á áttunda aldursári.
"Mamma, botninn í tjaldinu er drulluskítugur, ég
sef ekki á grasi og svona drullu".
Húsfreyja sópaði 3 gulnuðum stráum, og nokkrum
örsmáum steinum út úr tjaldinu með annarri hendi:
"Sko, allt orðið tandurhreint, ljósið mitt, sofum vel hér í nótt".
Djásnið horfði full efasemda inn í tjaldið:
"Þarftu ekki að nota sápu og vatn, mamma"?
Húsfreyja hló innra með sér að borgarbarninu sínu:
"Hreinna gerist það ekki í útilegum, vinkona".
Djásnið vippaði sér inn í bíl, og setti Justin Bieber í CD-spilarann,
þung á brún.
Eftir að bóndi hafði grillað eðal lambakjöt og húsfreyja græjað
íslenskt grænmeti með, fór brúnin heldur að lyftast á
djásninu.
Snætt úti í 16 stiga hita, en skýjuðu.
Næsta morgun fór fjölskyldan í býtið á fætur,
misvel útsofin.
Sólskin, 20 stiga hiti, fuglasöngur og smáflugvélar á sveimi.
Húsfreyja náði sér í stól, Egils krystal, dæsti af ánægju og
leit í kringum sig.
Erlendu hávöxnu og ofur-grannvöxnu hjónin voru einnig
árrisul. Karlinn var hálfur undir tjaldi unglinga þeirra,
og dró hvern pakkann undan því og handlangaði
til hávöxnu konunnar sinnar.
Brauð, ost, álegg.
Frúin hitaði te.
Hjónin röðuðu síðan morgunverðinum beint á grænt grasið
og frúin settist. Tók tebolla í hönd, beygði höfuð sitt og sat.
Hreyfði sig ekki.
Sat.
Hávaxni bóndinn hennar hafði skyndilega mikið að gera
inni í bílaleigubíl þeirra.
Frúin sat enn með höfuð beygt, bærðist ekki, augu lokuð.
Húsfreyja gjóaði augum á úr sitt.
Þrjár mínútur.
Fimm mínútur.
Kræst!
Hafði konan gefið upp öndina?
Og ekki einu sinni byrjuð að drekka morgunteið sitt!
Sjitt!
Átti húsfreyja að rölta yfir og blása í hana?
Sjö mínútur!!
Nei, nú færi húsfreyja til konunnar og berði hana bylmingshögg
í brjóstið!
Hún var greinilega í hjartastoppi...eða dauðastjarfa!
Húsfreyja stóð upp og tók nokkur skref hikandi
í áttina til erlendu hávöxnu konunnar....
"Settu stólana inn í tjald, það er farið að rigna"
bóndi kom á fleygiferð fyrir tjaldhornið.
Húsfreyja leit af erlendu konunni með dauðastjarfann til
himins...nokkrir skýjabólstrar ekki regnský að sjá.
Nokkrir "brennisteinsangandi-dropar"" lentu á höfði
húsfreyju, vindurinn hafði borið þá frá
sjálfum Strokk til bónda og húsfreyju.
"Neipp, ´svaraði húsfreyja, engin rigning hér á ferð".
Bóndi hálf morgunsúr af svefnleysi, var lengi að fá botn
í málið.
"Skelltu þér bara í sund með Báruna, sagði húsfreyja,
eða heldurðu að ég lendi í hagli og stórbyl rétt á meðan"?
Bóndi hvarf yggldur á braut með djásnið.
Húsfreyju rámaði í konuna með dauðastjarfann og hjartastoppið.
Hún sat hin settlegasta og sötraði te með bónda sínum.
Þungum steini var létt af húsfreyju, konan sjálfsagt
bara að fara með morgunbænirnar sínar af andakt
og bænahita þarna áðan...nema teð hafi verið svona
fjandi heitt, þurft þennan tíma að kólna.
Húsfreyja settist, lét sólina ylja sér um hjartarætur,
lita húð sína og hita axlir.
Simmi og Jói að gera grín að einhverju brúarskrifli sem
Katla hafði hnerrað út í sjó, á Bylgjunni.
Húsfreyja fékk hland fyrir hjartað.
Brúin var í alvöru farin, og þjóðvegi eitt lokað til austurs.
Allt í tjóni í Vík, og ferðalangar í vandræðum.
En ekki gos....ennþá.
Bóndi gaf sundlauginni mínús 3 fyrir hreinlæti og þjónustu.
En eftir brækjuhita, steikingu og göngutúr í rúma tvo tíma var pakkað
niður upp úr klukkan eitt.
Múlakvísl, brúarhvarf og Katla voru aðal efnið í fréttunum.
Fór hrollur um húsfreyju.
Dýrin í Slakka róuðu hana aðeins örlítið.
En síðan fóru að berast fréttir af minni óróa í Kötlu,
og brúnin tók að lyftast á húsfreyju.
Eftir kaffi hjá systrum og múttu í Þorlákshöfn var haldið
yfir Þrengslin í borgina við sundin bláu.
Tíu ára djásnið er alsæl að vera komin heim,
en segir samt útileguna hafa verið skemmtilega.
Þar ber Strokk með sín flottu gos og Slakkaferðina hæst,
en það var einnig dálítið spennandi að fara að sofa í tjaldi.
En Katla er vonandi aftur farin að dotta og dorma
eftir örlítið "brúar-hnerrakast" í nótt, og "míní-ræs-óróa"
í dag.
Fínt fyrir hana að vakna í býtið á næstu öld....
Góðar "gosfríar" stundir, megi allar ykkar ár vera vel brúaðar.
![]() |
Gos hugsanlega hafið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 10.7.2011 kl. 01:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.7.2011 | 18:57
Himininn mergjaður...
...svona heiður og blár" hugsaði
húsfreyja er hún rölti heim á leið
með hálfullan Hagkaupspokann.
Esjan blikkaði húsfreyju vinalega,
um leið og systir í Þorlákshöfn sagðist
hafa tapað öllum áttum.
"Nú Esjan er þarna, skólinn hér fyrir framan okkur
og húsið handan við " húsfreyju fannst þetta ekki mikið mál.
Systir náði áttum og dæsti af létti.
Hún öllu hlaðnari en húsfreyja eftir fatakup í Hagkaup,
útsala þar í gangi, og hefði ekki viljað ráfa rammvillt
um Grafarvoginn hlaðin pokum og pinklum.
Húsfreyja brosti í kampinn.
"Það er ekki flókið að rata hér innan Grafarvogs, systir,
það var eitthvað annað hér í London um árið".
Það sumarið hafði húsfreyja skroppið í hátignarlega
borg bresku Betu, sjálfa London með tveimur vinkonum sínum.
Aldrei þessu vant viðraði brilliant vel í London,
enda hásumar, 30 stiga hiti, himinninn heiður og
blár dag eftir dag og sú gula í essinu sínu.
Þær stöllur höfðu vaknað snemma þrátt fyrir ágæta
loftræstingu Grafton hótels, sem var spölkorn frá
Oxfordstræti og Piccadilly.
Dagurinn var strax orðinn mollulegur fyrir
hádegi, og aðalverkefni ferðarinnar framundan.
Skreppa niður í katalog-verslun á Oxford og
ná lagernum af þeim kaupahéðnum er þá verslun ráku
fyrir systur húsfreyju, vinkonu hennar í Eyjum og
smotterí fyrir múttu.
Þrátt fyrir miskunnarleysi þeirrar gulu, svækjuhita
og skerandi birtu í augun, drifu vinkonurnar þrjár
sig af stað í verslunarleiðangurinn fyrir hádegi.
Illu var best af lokið, og þá gætu þær svo dólað
sér í hádegissnarl í rólegheitum og skroppið
og kíkt á Tower í London á eftir.
Í katalogversluninni töpuðu vinkonur og húsfreyja
sér alveg yfir allri dásemdinni sem var í boði,
svo sækja varð í "varalager" verslunarinnar svo
þær fengu allt sem þær NAUÐSYNLEGA urðu að kaupa....
fyrir utan barnasæng, kerrupoka og annað dótarí
fyrir systur, vinkonu og múttu.
Út fóru þær með 12 poka í yfirstærð, troðfulla.
Stöllurnar þrjár fíluðu sig líkt og "pokafólk" í New York
í skrúðgöngu 4 júlí, þegar þær komu út á Oxfordstræti.
Þær ákváðu í snatri að flýja niður í næstu "undirgrund",
eins of þær kölluðu oft neðanjarðarlestarnar, og koma
"vörulagernum" upp á hótel.
Voru alls ekki í sinni fyrstu Lundúnaferð, og voru
vel kunnugar lestarkerfinu og nokkuð flinkar að
nota það.
Jamm.
Rétt lest fundin í snatri og síðan öllu pokadótaríinu
troðið inn, og þær stöllur töldu sig hólpnar.
Yrðu þá ekki hirtar upp af snyrtilegum breskum
lögregluþjóni, sem kærði þær fyrir að vera
amerískar "bag-ladies" í London...sektaði þær
jafnvel fyrir "sjónmengun".
Og lestin brunaði af stað.
Vinkonurnar rýndu á hvert stöðvarmerkið
á fætur öðru......nah.......nei......ekki þessi...
hva...rosalega var langt í þeirra endastöð.
Greinilega hrikalega margar stöðvar á milli.
Þær stallsystur með 12 pokana sátu rólegar, spjölluðu
og þóttust ekki taka eftir augngotunum sem
þær og farangur þeirra fékk frá öðrum farþegum.
Skyndilega birti.
Lestin kom UPP á yfirborð jarðar.
Hvurslags?
Var þetta ekki NEÐANJARÐARLEST?
Vinkonurnar litu í kringum sig.
Þær virtust vera komnar upp í sveit.
Hvar var Grafton-hótelið?
Hvar var LONDON?
Eftir dágóðan akstur, stöðvaði loks lestin við
litla lestarstöð.
Vinkonurnar rusluðu sér út í snarhasti,
með alla pokana 12.
KRÆST.
Þær voru rammvilltar.
Míni-panikk greip stöllurnar,
þær hringsnérust góða stund,
áður en þær áttuðu sig og komu sér
yfir á stöðvarhelminginn þar sem lestin
stöðvaði á leiðinni inn í borgina aftur.
Þær tylltu sér á bekk á stöðvarpallinum,
með pokana 12 þétt upp við sig.
Sólin var að steikja úr þeim heilabúið.
Hitamælir á veggnum á lítilli stöðvarbyggingunni
sýndi hitastigin bæði á Fahrenheit og Celcius.
Hiti 41 gráða á celcius!
Stöllurnar voru aleinar.
Ekki sála á ferli.
Jaso.
Húsfreyja litaðist um í von um að
finna eitthvert lífsmark.
Handan lestarteinanna var víðáttumikill akur,
móaði í agnarsmátt legóhús, rytjuleg tré
og tvær beljur á beit út við sjóndeildarhring.
"Jæja, það er þó altént lífsmark" hugsaði
húsfreyja, er önnur kýrin lyfti haus frá jðrðu.
En ákvað síðan húsfreyja að standa upp og
líta yfir vegginn bak við bekkinn.
Fór um hana hrollur.
Gamall kirkjugarður.
Gráir, illa farnir legsteinar.
"Stelpur, við virðumst hafa lent hér með pokana okkar 12 á stað
MITT Á MILLI LÍFS OG DAUÐA".
Vinkonurnar litu við.
Síðan á hvor aðra.
Á pokana 12 fulla af varningi.
Skelltu upp úr og grétu af hlátri.
Veinuðu af hlátri.
Þegar hópur af ferðalöngum á leið til
London komu upp á lestarpallinn,
ráku þeir upp stór augu.
Á eina bekknum þar sátu 3 ungar konur,
í hrúgu af stórum pokum frá "katalogverslun"
og grenjuðu af hlátri.
" 'Orribly strange bag-ladies" hvíslaði ung
stúlka að kærasta sínum er hún fór fram hjá
bekknum.
Húsfreyja og vinkonur hennar misstu þar með
alla stjórn á hlátrinum, og voru nánast frávita
að hlæja alla leiðina aftur til London.
Komust við illan leik upp á Grafton hótel,
með alla pokana 12!
Týndist ekki einn einasti.
Af 12 poka-varningi þessum á húsfreyja aðeins
einn hlut enn: Forláta hljóðláta vekjaraklukku,
sem vekur húsfreyju á hverjum virkum morgni
með ljúfri röddu. "It's time to wake up"!
Hvort vinkonur eiga eitthvað eftir af sínum
kaupum, veit hún ekki.
En mikið rosalega voru þetta bráðnauðsynleg kaup
þarna um árið.
En húsfreyja ætlar til ferða að sækja Svöluna úr bíó.
Vonandi ratar hún......
Góðar stundir á fögru sumarkveldi.
Bloggar | Breytt 7.7.2011 kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)