Færsluflokkur: Bloggar
8.1.2009 | 09:57
Redda sér!
Mikill námsmaður þetta!
Ekki ætlað sér að missa af
skólanum þennan dag....
eða skólamorgunmatnum!
Sjö ára djásninu er nokk sama
um skólamatinn, enda matgrönn með afbrigðum.
En félagsskapurinn og námið er bara stuð,
þó ekki hafi henni fundist gaman í smíði.
En seint færi hún samt af stað upp á eigin
spítur, að aka bíl foreldranna í skólann.
Enda eins gott!
Húsfreyja fengi slag, ef djásnið reyndi slíkt,
og bóndi hennar yrði að fá áfallahjálp....
Húsfreyja hefur tvisvar nuggað stuðarann á
heimilisbifreiðinni og eitt sinn rifnaði silsi af,
óskemmdur þó.
Bóndi "hjúkraði" bíl til heilsu aftur í öll þrju
skiptin, stumraði yfir honum og annaðist sem ungabarn.
Húsfreyja fékk "enga samúð", þó henni hefði orðið um
að valda skemmdum á bíl sínum.
"Hvað varstu að hugsa, kona" eiturhvasst, var það
"hlýlegasta" sem bóndi lét frá sér fara við hana.
Góðar stundir og farið varlega í umferðinni.
![]() |
Ók sjálfur í skólann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2009 | 18:18
Hana! Spítlamorð...
...enn og aftur.
Húsfreyja vann eitt sinn 5 ár á
gjörgæsludeild á ágætum
"hátæknispítala" er Landakotsspítali
var nefndur.
Var þar mikið um að vera.
Augnaðgerðir, stórar æðaaðgerðir á
fóleggjum og í kviðarholi, nýrnaaðgerðir,
almennar kviðarholsaðgerðir og miklar,
hjartalækningar, barnalækningar ásamt öðrum
lyflækningum stundaðar grimmt.
Snarvitlaust að gera á gjörgæslunni.
Húsfreyja vann iðulega tvöfaldar vaktir,
þ.e. kvöldvakt og næturvakt saman í
einum strekk, svo mikilll skortur var á
hjúkrunarfræðingum.
Oft allar öndunarvélarnar í notkun, og varð
stundum að fá lánaða vél af Landsanum.
Svo einn góðan veðurdag í miðri kreppu og
verðbólguæði, var svo bara blessaður
Landakotsspítalinn "skotinn"!
MYRTUR!
SLEGINN AF!
LAGÐUR NIÐUR!
Bara sisona.
Hagræðing og sparnaður í gangi.
Allri hátækninni ruslað út.
Röntgentæki, CT-skönn, hjartamonitorar,
skurðstofugræjur, öndunarvélar tætt úr húsinu.
"Kostnaðarsparandi öldrunardeildum" smellt inn
í staðinn.
Síðan þá hefur nánast enginn hjúkrunarfræðingur á
Landspítala Háskólasjúkrahúsi upplifað
deildargang sinn "auðan af rúmum".
Þar liggja sjúkir tvist og bast á göngum í "lange baner",
og sér ekki fyrir endann á.
Öll rými yfirfull, allar stofur fullar.
Sjúkir í rúmum inni á skoðunarherbergjum,
baðherbergjum, stólpípuherbergjum og hvar sem rými finnst.
Og nú er verið að "sneiða niður" og "hagræða"
í Hafnarfirði.
Rusla öllu út sem tengist hátækni, aðgerðum,
rannsóknum og almennum lækningum.
Setja inn "kostnaðarsparandi öldrunardeildir"
í staðinn.
Flytja þjónustuna sem fyrir var til Keflavíkur og
inn á....aha akkúrat!
Landspítala Háskólasjúkrahús!!!
Af því að þar er hvort er eð EKKERT að gera nú þegar.
Tómt "helv.... gutl og gauf" yfir engu.
Hjúkkurnar bara að dóla sér, nenna ekki einu sinni að
finna sjúkum rúm inni á þægilegum stofum, skella bara
veika liðinu á ganginn og inn á stólpípuherbergi!
EÐA HVAÐ??
HALLÓ!
Vinnur einhver með viti í heilbrigðisráðuneytinu?
Hefur einhver sem vinnur þar, orðið fyrir því
liggja hundveikur frammi á gangi ásamt
þremur öðrum sjúkum, með eitt skitið tjald í kringum
rúm sitt, og eina herlega "kúabjöllu" við
höndina til að láta vita af verkjum, veikindum
og vanlíðan?
Vissulega eldast Frónbúar stöðugt, og þörf eftir
góðum öldrunarsjúkrahúsum og heimilum er brýn.
En að mæta þeirri þörf með því að þjösnast á
sjúkum og umönnunaraðilum þeirra er bara RANGT!
Og það er ekki bara rangt, það er LÉLEG heilbrigðisþjónusta!
Eða þetta meinar húsfreyja.
En hún er nú "bara" hjúkrunarfræðingur, og hefur
ekki skarpa visku þeirra í heilbrigðismálaráðuneytinu sér til
hjálpar og leiðbeiningar.
![]() |
Starfsfólkið miður sín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 14.1.2009 kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.1.2009 | 20:19
Jólin kvöddu um leið....
....og húsfreyja kvaddi góðan frænda.
Jón Róbert, elskulegur frændi hennar
kvaddur í Lágafellskirkju í dag.
Var ljúf og góð stund og áreiðanlegt
að frændi hefur verið ánægður með
fallega athöfn.
Situr nú sæll í "Sumarlandinu" frændi hennar,
með ættmennafjöld í kringum sig, og ekkert verður
honum að sorg framar.
Því trúir húsfreyja.
En mikill fjöldi náinna skyldmenna mætti í
jarðaför frænda, og græddust húsfreyju
tvær vísur eftir pabba hennar heitinn.
Frændur hennar úr Byggðarholti, Halldór og
Toni kenndu henni þessar:
Hér er kominn Hávarður
er hér eitthvað að státa.
Hann gæti orðið lávarður
upp á enskan máta.
Strákarnir elta stelpurnar
og hlaupa hröðum fótum.
Þeir reyna að komast á kvennafar
á knæpum og gatnamótum.
Sigurður Guðmundsson 1925-2002.
Þær leynast víða vísurnar og kveðlingarnir eftir hann pabba,
og ekki slæmt að komast í gamla viskubrunna eins og frændur
húsfreyju frá Byggðarholti.
Þeir frændur ólust upp í Byggðarholti, húsi sem Ólöf langamma
húsfreyju og Antoníus maður hennar byggðu.
Pabbi hennar bjó ásamt foreldrum og systkinum á Eiðum.
Föðuramma húsfreyju, Árný, var dóttir Ólafar.
Mikill samgangur var á milli Eiða og Byggðarholts, enda stóðu
húsin hlið við hlið í Kokkhúslánni.
Sagði Halldór frændi, að svo nánar hefðu fjölskyldurnar verið,
að um tíma hefði verið aðeins "ein" tólgarkasseróla til fyrir bæði heimilin.
Var þá alltaf rölt á milli húsanna í hádeginu, með tólgina út á
fiskinn, svo allir nytu góðs af.
Annað sagði Halldór frændi um pabba hennar sáluga, sem húsfreyju
þótti vænt að heyra.
Halldór og hans bræður þekktu pabba húsfreyju vel, enda voru þeir mikið
saman peyjar og ungir menn....og náfrændur.
Halldór vann svo einnig hjá Einari ríka á netaverkstæði hans, þá
pabbi var verkstjóri þar hjá Einari.
"Öll þessi ár, var mikið spjallað og mikið hlegið, vísur ortar og
mikið unnið" sagði Halldór.
"Aldrei! Ekki einu sinni, heyrði ég Sigga á Eiðum tala illa um
nokkurn einasta mann eða konu. ALDREI! Og það mat ég
mikils við frænda minn", Halldóri var mikið niðri fyrir.
Þetta var gott að heyra, fannst húsfreyju.
Hann gat bölvað ríkisstjórn, pólitík og flokkum hennar til
andskotans og aftur til baka, en aldrei heyrði húsfreyja
föður sinn hallmæla nokkrum manni eða tala illa um.
Var ósammála mörgum, en virti þeirra skoðanir og hugmyndir.
"Aðgát skal höfð í nærveru sálar" sagði pabbi heitinn oft,
þá honum fannst höggið nærri einhverjum persónulega, í samtali.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Góð lífsregla það.
Brennan var sótt áðan með 7 ára djásninu, en henni
fundust syngjandi jólasveinar í "miklu stuði".
Lítt hrifin af sprengjum og flugeldum.
Nóg að hafa slíkt um áramót.
Sjö ára djásnið ætlar svo að lesa fyrir húsfreyju, var fyrsti skóladagur
á nýju ári í dag.
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt 7.1.2009 kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.1.2009 | 15:31
Lífsins elexír og bráðaeitrun!
Hér í den fóru menn víða um
héruð og seldu "töframeðul"
í litlum grænum eða brúnum
flöskum.
Stóðu uppi á sviðum eða kössum,
hrópuðu og göluðu, og lofuðu eilífu
lífi, afbragðs heilsufari og gæðalíðan.
Aðstoðarmaður var látinn blanda
sér í hóp fólksins sem safnaðist
í kringum "töfralækninn", og var sá
að sjálfsögðu, farlama á hækjum, eða
jafnvel skreið með jörðu við illan leik.
Síðan þegar kom að því að sanna ágæti
"töfrablöndunnar" sem að sjálfsögðu læknaði
ÖLL mein og ALLA sjúkdóma, bauð aðstoðarmaðurinn
farlama sig fram.
Eftir as, mas og bras tókst að koma þeim farlama
upp á "sviðið" þar sem hinn "ofurtöfrandi"
sölumaður stóð með armana útbreidda.
HALLELÚJA!
Einn gúlsopi, af lífselexírnum góða, og BINGÓ,
sá farlama henti frá sér hækjum, reis upp úr
duftinu og dansaði af fögnuði.
Virðist húsfreyju á frétt þessari, að ekki
alls ósvipað sé í gangi með "afeitrunarvörur"
þessar.
Er húsfreyja mest rasandi á, að annar hver maður
í nútímalegu þjóðfélagi 21. aldar
telji sig vera í þörf fyrir "afeitrun".
Veit húsfreyja egi betur, en að nær hver einasta
mannvera, er lifir á þessari jörð, hafi þokkalega
góða lifur, þokkalega vel starfhæf nýru ásamt
asskoti sterkum magasýrum og meltingu.
Þetta þrennt hefur gífurlega hæfni til að
brjóta niður, afeitra og skilja út úr líkömum
okkar mannanna flest það sem okkur dettur í
hug að láta ofan í okkur.
Eftir að ein herleg máltíð hefur runnið í gegnum
skrokk okkar, er fáheyrt að minnsti snefill af
"eiturefnum" lifi af þá útreið, og sé að dóla um
í blóðstraumi okkar.
Erum ekki eitraðri en svo, að þegar að maðurinn með ljáinn
hefur boðað okkur á sinn fund,
vaxa fegurstu rósir í kirkjugörðunum, hvar undir
okkar rotnandi skrokkar liggja.
Og sjaldan sést jafn fagur gróður af trjám og blómum,
og í kirkjugörðum.
Svo hvaða "afeitrunarkjaftæði" er þetta?
Svo framarlega sem við höfum ekki fæðuóþol og látum brennivín og
eiturlyf eiga sig, sem fæstar mannanna lifrar þola,
erum við í bísna góðum málum, svona yfirleitt.
Líkaminn sér um þetta afeitrunardæmi sjálfur!
Upp á eigið einsdæmi!
Auðvitað vill svolítið draga úr afeitrunarhæfninni,
þá menn háaldraðir verða, en þá hreyfa þeir sig einnig
minna og brenna hægar orku fenginni úr fæðu,
svo minna þarf að borða....og þá aftur minna sem þarf
að afeitra. Svo sjaldgæft er eftir sem áður, að
fólk verði "baneitrað" innvortis......í versta falli fær
það "harðlífi" þá melting slappast.....nú og eða
smá skerðingu á nýrnastarfsemi.
Fullt af ágætis meðölum til, sem redda svoleiðis
smotteríi, og ekkert þeirra auglýst sem "afeitrunarvara".
Hitt er annað mál, að húsfreyja verður "baneitruð" á
geði, þá reynt er að pranga inn á hana einhverri
"töfra-afeitrunarvörunni".
Á nóg af heilnæmu, fríu kranavatni, góða
andlitsþvottapoka, "óafeitrandi plástra" á
smáskeinur og óvítamínbættri hársápu, sjálf.
En máske hún fari og "andi framan í" nokkra miður
skemmtilega einstaklinga hjá T.R, og athugi hvort
þeir detti dauðir niður, þar sem hún hvorki brúkar
"afeitrunarplástra, afeitrandi andlitsskrúbb eða
afeitrandi flöskuvatn".
Nei, bara svona hugmynd.
![]() |
Afeitrunarvörurnar mýta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 6.1.2009 kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.1.2009 | 12:04
Óli þetta var....
....Bíííp....
flott hjá þér.
Til hamingju.
![]() |
Ólafur Stefánsson íþróttamaður ársins 2008 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.1.2009 | 13:21
Palli og Gnarr!
Páll Óskar er einn af
vinsælustu tónlistarmönnum
litla Fróns, og ekki að furða
þótt vel seljist hjá honum,
því síður að hann sé bókaður
marga mánuði fram í tímann.
Telur húsfreyja þetta brilliant mál
fyrir Palla, og óskar honum áframhaldandi velgengi
á árinu 2009.
En Jón Gnarr í áramótaskaupi sjónvarpsins í
gærkveldi var bara gargandi "snilld".
Ekki síst í hlutverki Páls Óskars í frægum
sjónvarpsauglýsingum síðasta árs...." í
heiminum er fullt af PAPPAKÖSSUM"
Húsfreyja var með tvö fósturbörn og maka þeirra
í mat, eldflaugapuðri og að sjálfsögðu Skaupi.
Gnarr sem Palli í téðum auglýsingum, náði upp
krampakenndum hlátursrokum frá öllum, og ekki
síst 7 ára djásninu, en hún dýrkar Pál og músík hans.
"Mamma, þetta er skemmtilegasta kvöldið á öllu árinu".
Tuttugasti og fjórði desember kominn með myljandi
samkeppni
Fékk reyndar að horfa aftur á Skaupið á netinu,
sú sjö ára, eftir miðnættið, til að hlægja meira.
Reyndar fannst húsfreyju Skaupið óvenju gott
í ár, og var hrifin af því hve vel allir leikararnir
stóðu sig í hinum ýmsu gervum.
Háðið og grínið var líka hárfínt, og hvergi of gróft.
Ekki skemmdi að einn af aukaleikurunum var
systurdóttir húsfreyju, sem brosti breitt framan í landsmenn
með hvíta húfu á höfði, og "tók höndum saman" við
aðra landsmenn.
Köttur húsfreyju, sem samkvæmt öllum "algildum reglum"
um hunda og ketti, hesta og fleiri dýr,
hefði átt að vera "á tauginni" vegna blossa og sprenginga,
sat út í glugga megnið af kvöldinu, og fylgdist VEL með
"litfögru flugnageri" þessu á himninum og veifaði skottinu
veiðilega.
Enda sumarflugur húsfreyju allar í bráðri lífshættu á
vorin og sumrin, þá kisa hennar kemst í veiðigírinn.
Geispaði svo ósköp, kattarrófan og lagði sig á
meðan nýja árið gekk í garð.
Húsfreyja og sjö ára djásnið svo vaknaðar rétt fyrir hádegi
á fyrsta degi ársins 2009.
Djásnið búið að skrautrita nafn húsfreyju og sitt eigið
og skreyta með hjörtum, og er með nafn föðursins í vinnslu.
Húsfreyja fékk sér ristað brauð með smjöri og konfektmola í
morgunmat....hvaða, hvaða... það eru nú einu sinni áramót!
Smá sukk og svínarí leyfilegt í fæðuvali þá.
En djásnið hefur lokið skrautskrifum, og þarf í kompjúterinn.
Góðar stundir.
![]() |
Hefur aldrei upplifað önnur eins læti í kringum sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.12.2008 | 15:32
Friðsamleg mótmæli eitt..
...ofbeldi og skemmdarverk annað
og verra mál.
Við Frónbúar höfum verið þekkt af
friðsamlegum mótmælum hingað til.
Af snörpum samskiptum og óvæginni
gagnrýni, en sjaldan ofbeldi og
skemmdarverkum.
Leitt til þess að hugsa að örfáir
ofbeldisfullir einstaklingar eyðileggi
orðstý friðsamra mótmælenda hér uppi
á litla Fróni, og það á sjálfan Gamlársdag.
Vonar húsfreyja að lögreglu takist að
stilla til friðar svo allir komist til síns heima
á áramótum.
Húsfreyja óskar öllum bloggvinum sínum sem
öðrum gleðilegs árs og friðar á árinu 2009.
![]() |
Fólk slasað eftir mótmæli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.12.2008 | 17:54
Allt of sein!
Áramótin
!
Er þetta ekki hrikalegt?
Húsfreyja búin að vera með
Sekondia-úrið sitt "heilli sekúndu"
á undan áætlun allt árið.
Það er nú bara slatti af sekúndum,
ef þetta hefur fengið að viðgangast
"árum saman".
Þá á húsfreyja að minnsta kosti
heilar 48 sekúndur til góða, í það heila tekið...
og það er nú bara næstum því heil mínúta.
Þetta er altént tveir sopar af kaffi, og góður
biti af súkkulaði með....að tímalegnd.
Hvurslags "tímaþjófnaður" er eiginlega í gangi hér
á móður jörð?
Ætti máske húsfreyja, að fá að taka þessar 48 sekúndur
út í fríi á árinu næsta 2009?
Hmmm...ekki algalið.
En snillingarnir hjá T.R. láta ekki að sér hæða í
lok kreppuársins 2008.
Fengu alla pappíra í lok nóvember og byrjun desember frá
húsfreyju, með 3 daga millibili samt, svo þeir gætu endurgreitt
henni rannsóknar- og sjúkrahússkostnað.
Húsfreyja hefur nefnilega aldrei lent í slíkum
heilsufarshremmingum áður, sem nýrnasteinar eru,
og vissi ekki að "netbankakvittanir" dygðu ekki einar sér.
Greiðsluseðlanir urðu að fylgja með líka.
Jæja, en T.R. fékk greiðsluseðlana 3 dögum seinna,
en aðra pappíra, og þá átti þettta nú að vera lítið mál.
Je, ræt!
Nú er T.R. "að sjálfsögðu" búið að senda húsfreyju
"netbankakvittanirnar" til baka með pósti sem
"ófullnægjandi" pappíra, og það rétt fyrir jól,
og í dag fékk hún "greiðsluseðlana" sína líka...og merkilegt nokk
líka sem "ófullnægjandi pappíra!
Engum snillanum þar niður frá datt í hug að
"smella saman" fyrri pappírum merktum
húsfreyju við þá seinni, sömuleiðis merktir húsfreyju.
Er þó allt orðið "rafrænt" og tölvukeyrt þar um slóðir.
En þar sem húsfreyju finnst líklegt er að "Gísli á Uppsölum" hafi
kennt T.R.- liðinu á kompjútera, þá er kannski ekki við öðru að búast.
Húsfreyja bauð bónda sínum, að hún skryppi eina herlega
reisu niður í T.R. eftir áramót, með "margtéða" pappíra "SAMAN" í bunka.
Træði þeim upp í "óæðri endann" á Grimmhildi Grámann sem
þar ræður ríkjum, og biti nokkra T.R-snillana "á háls" í leiðinni,
bara svona til að "ná aftur niður" blóðþrýsting sínum og
heiftarbræði.
Bóndi húsfreyju "afþakkaði" pent, og ætlar sjálfur með
pappírsdraslið niður á T.R..... sér að öðrum kosti á eftir
glötuðu fé og innlögn spúsu sinnar á deild níu á Kleppi.
Er húsfreyja búin að ráðleggja bónda að skreppa til
Guðmundar heimilislæknis fyrst, og fá nokkrar róandi
til að taka klukkustund fyrir "T.R.-ferð".
Ekkert vit í að fá "slag" út af nokkrum skitnum þúsundköllum
frá T.R.
Góðar stundir.
Kaffi til að róa taugarnar næst.
![]() |
Áramótunum seinkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 31.12.2008 kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.12.2008 | 12:55
Lífið er ljúft...
... á jólum.
Sjö ára djásnið ætlaði að
opna einn pakka fyrir kirkjuferð
á Aðfangadagskvöld, til að minnka
spennuna.
Gleymdi því.
Í kirkjunni stóðu þeir Gunnar Þórðar og
Egill Ólafsson við hlið sjö ára djásnsins,
með allan kórinn ásmt klerki fyrir aftan sig.
Gunnar með gítarinn.
Djásnið gjóaði augum á frægu mennina,
kannaðist eitthvað örlítið við þá, og
hvíslaði spennt að móður sinni, hvað
þessir menn ættu að gera þarna.
Húsfreyja svaraði að bragði, og sagði þá eiga að
syngja og spila fyrir okkur í kirkjunni.
Djásnið tvísteig óþolinmóð: "HVENÆR, mamma"?
Gunnar brosti til djásnsins og síðan húsfreyju:
"Mikil spenna í gangi hjá henni", og glotti vinalega.
Jú, húsfreyja varð að samþykkja það.
Egill hummaði, Gunnar lék nokkra tóna á
gítarinn.
"Eftir hverju erum við að bíða, mamma"?, djásnið
að fara á límingunum af spenningi.
Sigmundur Ernir birtist.
Hvíslaði að séra fyrirmæli um sem áhrifaríkasta
inngöngu.
Jaso, messa í beinni!
Loks hélt hópurinn af stað....."Er himins opnast hliiiiiið".
Ljúf stund í kirkjunni á jólum.
Og djásnið tók undir af krafti þá
"barnasálmarnir" eins og hún nefndi þá
voru sungnir.....Í Betlehem er barn oss fætt og
Heims um ból.
Úti var marauð jörð..."rauð jól", dæsti djásnið
mæðulega er út úr kirkju kom, en tók svo gleði sína
aftur er heim kom.
Heima biðu fóstursonur og hans heittelskaða,
vokuðu yfir jólasteikinni og humarsúpunni.
Húsfreyja kveikti á 30 kertum um alla íbúð, og
svo var sest að snæðingi.
Mmmmm... hefur húsfreyja nefnt það að bóndi
hennar er snjall kokkur?
Djásnið mundi eftir pakkanum sem hún "hafði ætlað"
að opna fyrir kirkju.
Opnaði hann með hraði, eftir að hafa fundið hann
á undraverðan máta í pakkahrúgunni undir
fallega skreyttu jólatrénu.
Það tók svo klukkutíma að opna allar gjafirnar, og
djásnið var í essinu sínu.
Að sjálfsögðu átti hún "stærsta pakkann" og ljómaði
sem sól þegar dúkkuhúsið birtist.
Ljúft og gott aðfangadagskvöld, og orð djásnsins
rétt fyrir miðnættið sönnuðu það: "Mamma, ég vildi að
þessi dagur endaði ALDREI".
"Nú af hverju".
"Því ég á eftir að leika mér "svo mikið" með allt nýja dótið
mitt, borða helling af piparkökum og lesa nýju
bókina sem ég fékk í jólagjöf".
"En þú ert nú í jólafríi, svo hægt er að dreifa þessu
yfir nokkuð marga daga", móðirin brosti.
"En þetta er langskemmtilegasti dagurinn á árinu, mamma
og það er meira gaman að gera þetta allt í dag"!
Og djásnið fékk að vaka fram yfir miðnættið, svo hún gæti
"klárað" eitthvað af því sem hana langaði að gera.
Í gær hitti hún svo öll frændsystkini sín fyrir austan fjall
í kaffiboði hjá ömmu sinni.
Spennufallið eftir jólin var áberandi, og litla liðið gaf sér
jafnvel tíma í tertu og smákökur milli leikja.
Og svo er aftur ferð austur fyrir fjall í dag.
Vigrinn á afmæli, verður sex ára peyjinn.
Húsfreyja verið að störfum síðan á jóladag, og í nógu að
stússa.
Sendi einn mikið veikan á sjúkrahús, og horfði haukfránum
augum á alla öldungana sína eftir hangikjötsátið.
Minnsti vottur af mæði eða versnandi bjúg, og þá reif
hún upp Furixtöfluglasið úr vasa sínum og skellti einni
pillu í viðkomandi.
Ræsa bévítans vatnið og söltin út úr skrokknum, eftir sterkt hangikjöt,
er oft mesta áskorun öldunganna eftir jólin.
Verður að vinna kvöldvakt í dag, svo djásnið þrælar
pabba sínum með sér í afmælið.
Ekki amalegt það.
En djásnið þarf í kompjúterinn, en húsfreyja í bað.
Góðar jólastundir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.12.2008 | 17:17
Mögnuð draugasaga.
Þetta vekur upp minningar
hjá húsfreyju um mergjaðan
kveðskap um Gretti og
viðureign hans við Glám.
Þvílíkur kyngimagnaður
kveðskapur.
Og frábær hrynjandi í öllu
ljóðinu.
Hér er smá sýnishorn:
Hann hlustar, hann bíður, hann bærist ei,
heldur í feldinn, horfir í eldinn
og hrærist ei.
Það birtir, það syrtir,
því máninn veður og marvaðann treður
um skýja sæinn.
Hver ber utan bæinn?
Nú hljóðnar allt,- nú heyrist það aftur.
Það hriktir hver raftur.
Hann ríður húsum og hælum lemur,
það brestur,
það gnestur,
nú dimmir við dyrin,
það hlunkar, það dunkar,
það dynur, það stynur.
Draugurinn kemur!
.... ..... .... .....
Matthías Jochumsson (1835-1920)
Sjaldan hefur húsfreyja lært jafn magnað kvæði og þetta,
eftir þjóðskáldið góða Matthías Jochumsson.
Lærði öll erindin, og kann sum þeirra utan að
enn.
Varð hálfmyrkfælin, þá hún lærði kvæði þetta,
en slíkt hafði hún aldrei upplifað áður.
Enda er kveðskapur þessi bara "tær snilld"!
Svona massa hrollur sem hríslast niður eftir bakinu,
þá maður les það.
Ekki amalegt það að Jonathan Stroud, hinn breski
skuli hafa byggt bók sína á Grettissögu.
Er með skemmtilegri íslendingasögum sem
húsfreyja hefur lesið.
![]() |
Skrifar um Gretti og Glám |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)