13.2.2011 | 13:32
Þokkalega gott lag,
.. þótt húsfreyja og hennar
fjölskylda héldi með Magna.
Þeim fannst Magni með áberandi besta lagið,
grípandi, flott sungið og vel flutt í alla staði.
Tíu ára djásninu líkaði lítt "Aftur Heim".
Hennar dómur: "Leiðinlegt".
Bóndi sömuleiðis á fremur neikvæðum nótum:
"Næstum því alveg eins og síðasta lag Sigurjóns í keppninni"!
Húsfreyja var jákvæðust: "Byrjar vel, þokkalegur miðjukafli,
en allt of langdregið í endann og minnir þar óþægilega á sirkusmúsík".
Og reyndar tjáði húsfreyja sig um að síðasta lag Sigurjóns í
Eurovisionkeppninni hefði verið mun betra.
En hver hefur sinn smekk, og húsfreyja óskar
verðlaunahöfum til hamingju með sigurinn, og óskar þeim
velgengni í maí, og vonar flytjendur komist upp í aðalkeppnina með lag sitt.
Alltaf fylgist húsfreyja með Eurovision, þó henni finnist
ekki öll músík þar fögur eða heilsusamleg eyrum til hlustunar.
Hefur lúmskt gaman af því að fylgjast með músíktilraunum
Evrópubúa, sem eru misjafnar að gæðum og flutningi.
Og það hristist af illgjörnum hlátri "kaldhæðna beinið"
í skrokk hennar, þegar þjóðirnar fara að gefa nágrönnum sínum
12 stig, skítt með gæði laga eða söngs.
Þá verður húsfreyju hugsað til Terry Wogans bresks þuls
Eurovisionkepnninnar hjá þeim á BBC hér á árum áður:
"They sing worse than a cat being flayed alive"
"This rocksinger is so ugly and his singing so false,
Freddy Mercury is turning around "and around" in his grave right now".
"Good God, do they call this dancing? I call this condition cerebral palsy"!
Já, Wogan fór iðulega á kostum og engin miskun sýnd lélegum
flytjendum með ennþá lélegri lög.
Húsfreyja viðurkennir, að hún er ekki mjög bjartsýn um
að okkar framlagi til Eurovision gangi vel í ár.
En "so be it", og það verður Euró aftur að ári.
En kannski lagfærir okkar fólk lag þetta, "Aftur heim" svolítið,
og gerir það skemmtilegra, hvað veit húsfreyja.
Óskar löndum sínum sem að lagi þessu standa alls hins besta.
Góðar stundir.
![]() |
Aftur heim sigraði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2011 | 19:08
Ja, fegin...
... er húsfreyja að sólarræfillinn okkar
skuli ekki vera þríhyrningur eða
ferhyrningur.
Þá væri húsfreyja aldeilis búin að skíta upp
á bak alla sína tíð, hvað varðar ummál hrings,
pí, og hvað ekki í ummálsfræðum, hefði svo verið.
Hefði baslað tímum saman í "emm err"við að reikna út það
sem hún taldi vera hringur, en var svo bara þríhyrningur.
Neipp, það litla sem húsfreyja lærði um hringa og
hnetti, gleið horn og rétt horn virðist nokkurn veginn standast.
JESS!
En hitt er annar handleggur, að húsfreyja gæti ekki í dag
reiknað ummál eða flatarmál hrings þó líf hennar lægi við.
Allt gleymt, týnt og tröllum gefið.
Merkilegt nokk, hefur hún aldrei saknað þess.
Aldrei þurft að nota þessa "fremur takmörkuðu" kunnáttu sína
allt sitt líf, frá stúdentsprófi.
ALDREI!
Fyrir henni eru hringir hringir, þríhyrningar þríhyrningar,
"kassar kassar" osfr.!
Stærðin og umfangið?
Jú, SMALL, MEDIUM og LARGE hefur dugað húsfreyju fullkomnlega.
Aldrei þurft að reikna neitt djö... pí eða þaðan af verra dæmi
í rúmfræði.
Botnaði aldrei þá visku lærifeðra sinna í MR, að reyna að
troða rúmfræði inn í höfuðið á tölutreggáfaðri ungri stúlku,
sem hafði mun meiri áhuga á Sögu, tungumálum, heimspeki,
siðfræði og jarðfræði en reiknisformúludóti, húsfreyja.
Þeir vísu lærimeistarar hefðu gott eins reynt að
kenna húsfreyju að snæða súra hrútspunga, dansa írskan línudans,
fljúga herþotu, dansa listdans á skautum, troða í körfubolta
og að sjóða kalkún í breskri ystri sósu, eins og að reyna
þetta með reiknisformúludótið.
Tarna voru ljótu fræðin, og húsfreyja taldi sig góða að fá heila 2,0
í rúmfræðinni.
Stærðfræðin var svo allt annað mál, og þar datt húsfreyja niður
á heila 7,7 í prófum.... andsk... helvískur snilli í "x í öðru veldi - 2x"!
Klikkaði ekki og 9,7 deilt með tveimur, slagaði hátt í einkunina 5 sem
þurfti í stúdentspróf í stærðfræði! (Fjórir komma átta hækkaðir upp
fimm komma núll.)
Jamm.
En gleði að fá það endanlega staðfest, að sól okkar tregvitru
jarðarbúa sé "hnöttur".
En er ekki örgrannt að húsfreyju hafi verið búið að renna þetta
í grun áður......rúmfræðispróflaus stúdent eður ei!
Þrívíddarmyndir af sólinni...húsfreyja sér fyrir sér róbott með
þrívíddargleraugu á stálnefi sínu, sveimandi í kringum sólu
sendandi þrívíddarmyndir til jarðar.
Jamm.
Góðar stundir.
![]() |
Sólin er hnöttótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.2.2011 | 22:54
Smá viðbót.
Húsfreyja lærði nýverið vísukorn
af einni elskulegri eldri konu:
Kaffisopinn yndæll er
eykur fjör og skapið kætir.
Langbest jafnan líkar mér
Lúðvíks Davíðs kaffibætir.
Sú aldraða mundi ekki hver orti, né hver kenndi henni.
Væri samt gaman ef einhver vissi höfund, og léti
húsfreyju vita.
Hefur afskaplega gaman af vísum og ljóðum, húsfreyja,
og vill gjarnan þekkja nöfn höfunda þeirra.
Er ekki flink að yrkja sjálf, því miður.....eða kannski ekki.
"Við kjánarnir búum til ljóð fyrir fé,
en aðeins Guð getur búið til tré"
Joyce Kilmer (1886-1966)
Húsfreyja gengur máske í það næst,
að bjástra við að reyna að "búa til tré"!
Jæja, getur altént hrært saman steypu, ef í hart fer..hehehe!
Góðar stundir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2011 | 22:11
Elsku Drottinn...
..þarna var ég næstum "fokin út af veginum"
.
Húsfreyja svitnaði og kólnaði á víxl, og hnúar hennar
hvítnuðu á bílstýrinu..."og það með 10 ára djásnið
í aftursætinu".
Það var glettilega hált á köflum, og vindhviðurnar
fyrir ofan Litlu Kaffistofuna höfðu næstum náð bifreið
húsfreyju í hliðarskrið út af veginum.
SJÍSS!
Við lá að húsfreyja fengi mergjað kvíðakast af stressi....andaði örar...
"Andaðu rólega: Eftir hundrað ár verður þetta allt
um garð gengið."
Ralph Waldo Emerson (1803-1882)
Fleyg orð Emersons róuðu húsfreyju svolítið.
Jaso, hún hefði ekki átt annað eftir en að fjúka út í veður og vind,
með 10 ára djásni og sinni herlegu bifreið.
Finnast máske ekki fyrr en í vor einhvers staðar í Kjósinni,
beingödduð og hressilega steindauð.
Brrrrr... það fór hrollur um húsfreyju.
Þvílík fífldirfska var þetta að vaða yfir Þrengslin um
hávetur með 10 ára djásnið, í hálku og éljagangi, hvað var
húsfreyja eiginlega að pæla?
"Meira að segja Guð leggur heiðarlegri dirfsku lið"
Menander(343-291 f. Krist)
Ekki víst að Menander þessi hafi alveg verið kýrskýr, hugði húsfreyja,
og alveg var húsfreyja 100% örugg um að hann hefði aldrei
ekið um frónverska fjallvegi að vetrarlagi.
En gott og vel, húsfreyja ákvað að taka á málunum
af ró og spekt og sönnu frónversku æðruleysi,
kom bifreið sinni niður í 60-70 kílómetra hraða
og ullaði upp í vindinn.
"Með hægð og spekt; því flas er falli næst".
Villi Sheikspír (1564-1616).
Og heim komst húsfreyja heilu höldnu með 10 ára djásn og
herlega bifreið sína, og rann ekki "einu sinni"!
Og það þrátt fyrir éljagang af og til á leiðinni.
Það var múgur og margmenni á bæ múttu húsfreyju
í Þorlákshöfn í dag. Öll barnabörn múttu, 7 að tölu mætt á svæðið,
allar dætur hennar þrjár og svo hrafl af gestum.
Húsfreyja tók í eitt "skraf" (Scrabble) við múttu sína,
á meðan krakkarinr allir trompuðust úti í snjónum, snjóhúsabyggingum,
Það kostaði að sjálfsögðu bæði hlátur og grátur...mest þó hlátur.
Systir í Þorlákshöfn, sem fæddist með "snjóskóflu" í munni,
var að sjálfsögðu úti með sína snjóskóflu á lofti, og heilu
snjóvígin risu ásamt smá-snjóíbúðahverfum í skaflinum
langa við innganginn að húsinu.
"Þú leigir þetta svo bara út" sagði húsfreyja glettnislega,
þegar systir gaf sér 20 mínúta pásu frá snjómokstri.
"Öll verk má inna af hendi á listrænan hátt"
St. Thomas Aquinas.
Var hin ágætasta helgi, að mati húsfreyju, og alltaf
gaman að bregða sér af bæ.
Kötturinn, húsfreyju að vísu eitthvað allur í tjóni yfir
snjónum úti á "snjópalli", en 10 ára djásnið er alsæl með
"hvíta stöffið" sem hylur grund alla.
Bóndi lenti í útskipun að skipan yfirmanna tvo daga í röð!
Þarf svo húsfreyja að skjótast eftir systurdóttur um miðnættið niður á BSÍ.
Er að koma úr Danmerkurför, skvísan.
Góðar stundir og eigið góða vinnuviku.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2011 | 16:35
Slegnir af?
Sjálfstæðir "Dabbakórsmenn" bara
kveðnir í kútinn?
"Við borgum ekki skuldir óreiðumanna"-söngurinn
sleginn af, og jarðaður pent á fundi.
Jaso.
Bjarni Ben. herlegur formaður og einbeittur foringi Sjálfstæðisflokksins
vill borga Icesafe málefnalega og af ábyrgð.
Spyrja þjóðina?
AFTUR?
Ööööö... er ekki nóg að tékka á vilja þjóðarinnar með
stór mál, svona á 100-200 ára fresti?
Jamm, "fuður, japl, muldur, nöldur, þras og jag-liðið"
á þingi hefur hefur tekið "málefnalega og ábyrga" ákvörðun.
Icesafe-klúðrið "skal borgað" af örvasa Frónbúum næstu áratugina.
AMEN.
![]() |
Geir styður Bjarna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2011 | 21:20
Bráðabirgðaflóðvarnagarður.
Bráðabirgðaflóðvarnagarður!
Húsfreyja er hrifin.
Dæluskipið Skandia lagt af stað.
Hallelúja!
Tekur "aðeins" tvo daga að dýpka Sand... fyrirgefið
Landeyjahöfn.
Húsfreyja er bókstaflega að rifna af hrifningu.
HALLELÚJA, HALLELÚJA!
Eitthvað að gerast.
Eyjamenn á grænni grein..... eeee...eða NEI, eitthvað lítið
um tré í Eyjunum...svona meira hríslur og runnar...ókei þá...
Eyjamenn komnir með "allt sitt upp á þurrt"....ööööö..nei,
"þurrt" að minna of mikið á svartan sand, aur, eðju, strönduð skip...
...ekki alveg að gera sig tungutakið hjá húsfreyju í máli þessu.
Altént er einhver vonarglæta hjá Eyjamönnum með höfnina
við sandinn svarta og fljótið auruga þarna austur í
Landeyjum.
Blámar í heiðan himinn og móar í bjarta sól og stutta fjörutíu mínúta
siglingu hvað varðar samgöngur Eyjamanna.
Verði veðurguðir allir oss náðugir og miskunnsamir.
Sendi Eyjamönnum LOGN..... dögum...nei, vikum.....
...allt í lagi, höfum það mánuðum saman, "á meðan"
verið er að redda Sand... Landeyjahöfn frá því að
verða að hrísgrjónaakri.
"Á meðan" verið er að "FLYTJA" ósa Markarfljóts eitthvað
austur á land....nei, til austurs var það víst
, þó húsfreyja
telji sjálf mun happasælla, að þræla argvítans aurleðjufljóti þessu
og ósi þess, ekki styttra en austur á Höfn í Hornafirði.
Já, og "á meðan" verið er að byggja "bráðabirgðaflóðvarnagarð"...garða,
og hvað?.....VARANLEGA bráðabirgðaflóðvarnagarða?
Og að sjálfsögðu þarf einnig að byggja
"bráðabirgðasandfoksvarnagarða" fyrir ökumenn á ferð
í mergjuðu roki á Suðurlandsvegi á leið í Landeyjahöfn, eða hvað?
Jamm, og þar sem annars ágæta höfn þessi er
í næsta nágrenni við fyrrum öskuspúandi
Eyjafjallajökul.....samanber öskuskemmdir bílar á
bílastæði Herjólfs í Landeyjahöfn, þá eitthvað hreyfir vind,
mætti einnig huga að því að koma upp "bráðabirgðaöskufoksskýli"
fyrir kyrrstæðar bifreiðar á bílastæði Landeyjahafnar.
Jamm, það er myljandi í gangur í þessu hjá Eyjamönnum...
talar ekki um húsfreyja, takist Scandiu að komast alla leið
til landsins einhverja næstu daga.
En það spáir víst óveðri....
Góðar stundir og hugsið nú hlýlega til Eyjamanna og veðurguða,
og biðjið um LOGN!
![]() |
Sanddæluskip lagt af stað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2011 | 12:50
Látin á launum...
... frá TR!
Og í heil tíu ár!
Litlar 14 milljónir!
Jaso.
Það hefur aldeilis verið dúndurpartý í
kirkjugarðinum látnu frúarinnar hver mánaðarmót, síðustu 10 ár,
nema hún hafi verið "ofurhagsýn" og notað peningana
til að "byggja við" legsteininn, og sé nú komin með
eina "tveggja hæða grafhýsið" í kirkjugarði hér í borg.
Hehehe... stóðst ekki mátið, húsfreyja, en auðvitað
er látna frúin alsaklaus af máli þessu, og hefur hvergi komið
með kröfur um ellilífeyri, eftir dauða sinn, enda alsæl og glöð
í peningalausu "Sumarlandi".
Neipp, einhver sprellifandi skúrkur hér á jörð
hefur tekið það að sér að svíkja út peninga í nafni hinnar látnu frúar.
Ekki beint að heiðra hennar minningu sá þrjótur.
Og TR-snillarnir hafa þegjandi og hljóðalaust greitt löngu
látinni konunni ellilífeyri, án nokkurra athugasemda.
Í TÍU ár!
Móðir húsfreyju fékk "ofgreiddan" ellilífeyri í "4 mánuði"
í fyrra, og hún er nú tæpu ári seinna, enn að
basla í málinu, þrátt fyrir að hafa samið um málið
og samþykkt að endurgreiða TR "allar 180 þúsundirnar"
með rentum og vaxtavöxtum.
TR-snillarnir senda henni eigi að síður reikninga með vitlausum fjárhæðum,
því "miðlæga" kerfið þeirra virðist ekkert vita af málinu,
og Landsbankafólk er alveg rasandi, þega mútta skilar
til þeirra rukkununum, ógreiddum.
Engin veit neitt.
Hver vísar á annan.
Mútta búin að ræða við fólk vítt og breitt um landið
í gegnum síma, og biður um leiðréttingu.
"Miðlæga símkerfið" hins vegar svínvirkar, og mútta á spjalli
við fólk á Siglufirði, Vík í Mýrdal og víðar um rangar tölur á
rukkunum sínum.
Jamm.
En eitt er alveg á tæru hjá TR-snillum,
mútta húsfreyju SKULDAR þeim peninga!
Og það uppgötvuðu þeir strax eftir 4 mánuði
af "ofurgreiðslum" til múttu.
Því skilur ekki húsfreyja, hvernig í ósköpunum
heilt 10 ára rugl hefur viðgegnist á TR, án þess að
þeir hafi komið með "eina athugasemd" við greiðslur þessar?
Húsfreyju hefði til dæmis þótt við hæfi
að TR-snillarnir hefðu a.m.k. einu sinni sent frá sér smá meldingu
vegna orðsins "látin" fyrir framan nafn frúarinnar í þjóðskránni?
Bara svona til að minna á, að látið fólk hefur nánast engar
jarðneskar þarfir lengur, sem peninga gætu kostað,
nema ef vera skyldi viðhald á legsteininum, en
því redda yfirleitt ættingjar sem hvort eð er eru að dudda sér
við að greiða alls konar reikninga hér á jörðu.
En svo hefur skúrkurinn máske aldrei tilkynnt neinum hér uppi á
litla Fróni andlátið?
Vesen!
Verra að eiga við, ekki síst þar sem ellilífeyrisþrjóturinn
duddaði við að senda inn skattaskýrslu fyrir látnu frúna
árum saman.
Eigi að síður hlýtur að hafa verið erfitt að ná á látna konu þessa,
hvað varðar póst og fleira?
Og vonlaust að ná tali af henni!
En allt var greinilega í góðum gír í heil 10 ár hvað TR-snillana varðaði,
með "dauðsmanns-ellilífeyrir" þennan, og núna fyrst eftir að
þeir náðu ekki að koma til látnu frúarinnar bréfi frá sér,
að þeir kveiktu á því að eitthvað væri töluvert bogið
við málið.
Látnir löngum tregir að taka á móti jarðneskum bréfapósti.
Jamm.
En á meðan er mútta húsfreyju alveg hreint rasandi á
ellilífeyrisgreiðslum þeim, sem henni eru úthlutaðar eftir
miklar pælingar og útreikninga af hálfu TR-snilla.
Var alltaf verkakona, múttan, og í hálfu starfi, og telst
því sjálfsagt ekki þurftafrek kona, þegar kemur að því
að reikna úr ellilifeyrir hennar á TR.
Sei, sei, nei.
Mútta húsfreyju brá sér yfir Þrengslin í borgina við
sundin bláu síðasta föstudag, og vildi ræða við
TR-snillana um merkilega lágar ellilífeyrisgreiðslur til hennar.
"LOKAÐ FRÁ KL:12 VEGNA STEFNUMÓTUNARFUNDAR",
stóð skýrum stöfum á hurðinni á TR.
Segir allt sem þarf.
Það var þungt í múttu húsfreyju, á leiðinni til baka
eftir Snorrabrautinni að bílnum.
Húsfreyja reyndi að spjalla við hana og létta lundina.
Ekki fyrr en hún sagði: Þeir þurfa sjálfsagt að komast
á "stefnumót" líka á TR", við múttuna,
að múttan skellti upp úr.
Jamm.
Merkileg stofnun TR.
Mikið bákn.
Hlutirnir sjaldnast einfaldir eða á tæru.
En ljúfur sunnudagur hjá húsfreyju í borginni við sundin bláu.
Skreppur kannski til ferða í Þorlákshöfn með 10 ára djásnið
eftir hádegið.
Góðar stundir.
![]() |
Lífeyrisgreiðslur í áratug eftir andlát |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 1.2.2011 kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.1.2011 | 21:08
Ólögleg og skíthrædd...
Tók þátt í kolólöglegum kosningum,
og atkvæði hennar úrkast, markleysa og ógilt þar með.
Ó, vei.
Húsfreyju auma.
Hún rífur í hár sér af angist og örvæntingu.
"Gömlu lögin" skulu blíva, góð, gild, ómöguleg, úrelt og svínsleg....og hvað ekki.
Býttar engu, þó yfir 30% kosningabærra manna hafi haft
skoðun á málinu, og mætt til að kjósa til stjórnlagaþings.
Striki slegið yfir.
Kosningin núlluð út vegna pappaveggja, og "óvandaðra vinnubragða",
eins og að ekki mátti "brjóta kosningaseðilinn saman".
KRÆST!
Og verður þá kosið næst á Litla Hrauni í múruðum, hljóðeinangruðum
klefum, með seðla sem hægt er að brjóta saman í "skutlur" sem
"svífa" síðan beint ofan í kjörkassana?
Æææ, svo sitja tveir herramenn í sjónvarpssal,
ákærendur kosninganna, og segjast "himinlifandi"!
Annar ákærenda meira að segja í framboði til stjórnlagaþings.
Sóun á tíma og peningum þjóðarinnar í "ógildar og kolólegar" kosningar
aukaatriði, bara ef þeir eru "himinlifandi".
Þarf jafnvel að kjósa upp á nýtt.
Vesen! Vesen! Vesen!
Nennum við þessu, þegar í nógu öðru er að snúast?
Herramönnunum tveimur, kærendum, vill húsfreyja tileinka þessi fleygu orð:
"Karlmaðurinn er húsdýr sem hægt er að
þjálfa til að gera flest með festu og góðvild".
Jilly Cooper 1937-
En að öðru.
Hjá húsfreyju er 60% flati niðurskurðurinn í heilbrigðisþjónustunni
kominn inn á borð á hennar vinnustað.
GLEÐI!
Húsfreyja hugsar alvarlega um að láta af hjúkrun,
og gerast "iðjuleysingi af Guðs náð".
Dunda sér og dudda við að hekla og prjóna,
senda pólitíkusum eitraðar pillur í pistilformi,
og gerast svo sérleg "spádómsvölva" um framtíðina,
með "heimsendaspádóma" sem aukabúgrein.
Enda er húsfreyja hörkukona, sem lætur ekki deigan síga,
og treystir sér vel að koma með mergjaða "heimsendaspádóma"
á 5-15 ára fresti...það er, ef við lifum öll fram yfir 2012,
því þá dynja yfir ENDALOKIN einu og sönnu,
Aztekanna í henni S-Ameríku.
SKO, bara strax komin í stuð, húsfreyja.
"Amma mín var hörkukona.
Hún jarðaði þrjá eiginmenn,
og tveir þeirra höfðu bara lagt sig"...
Rita Rudner 1955-
..gætu gott eins orðið einkunnarorð húsfreyju sem
spakrar "heimsendaspákonu".
Myndi húsfreyja að sjálfsögðu láta fylgja stuttermaboli
með öllum þeim, sem kæmu til hennar í leit að upplýsingum
um væntanlegan heimsendi/ væntanlega heimsenda:
Doomsday is near...I know when!
(New doomsday-updates every month..teleph.556....)
stæði stórum stöfum á þeim öllum.
Og fyrst húsfreyja væri komin út í stuttermabolabransann
á annað borð, væri ekki úr lagi að hafa nokkra boli fyrir
þá kúnna sem væru að veltast og væflast í efa með sína eigin framtíð:
"Lífið er sjúkdómur sem smitast kynferðislega
og dánartíðnin er 100%".
Ronald David Laing 1927-1989
Húsfreyja sér sína sæng útbreidda í nýjum vinnubransa þessum.
Allt uppi á borði, engin leyndarmál eða baktjaldamakk.
Svona gæti spádómur frá húsfreyju til dæmis hljóðað:
"Þú lifir eins lengi og þér er mögulega unnt hér á
þessari jörð og munt SANNANLEGA deyja hér,
og heimsendi mun ÖRUGGLEGA verða
einhverja næstu daga, vikur, mánuði, ár eða aldir.... nú
eða POTTÞÉTT eftir einhverja milljón milljarða ára"....
Jamm, hörkukona, húsfreyja, er ekkert fyrir að draga fólk
niður með svartsýnisrausi, blekkingum og röfli.
Tekur Thomas Berger sér til fyrirmyndar, sem segir hlutina
eins og þeir eru:
"Reinhart var aldrei uppáhaldsbarn móður sinnar-
og hann var einbirni".
T.B.
Jamm, en þetta er nú svona meira í gríni pistlað í kvöld,
enda húsfreyju eitthvað uppsigað við daginn í dag,
og þurfti að fá útrás.
En hún SPÁIR pottþétt BETRI degi á morgun.....ef það
verður þá ekki HEIMSENDIR..hehehehehehe!
![]() |
Íhaldið er skíthrætt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2011 | 12:33
Má senda bensín...
..með Íslandspósti
?
Nú er bensínverðið allt í einu orðið skaplegast
á Akureyri hinni undurfögru höfuðborg
Norðurlands.
Svo húsfreyju datt í hug að bjalla í
frændur sína á Húsavík, og biðja þá að versla
eins og eina tunnu af bensíni fyrir sig, næst þeir skryppu
eftir snjóskóflum og Mogga inn á Akureyri.
Og hvort hinn ágæti Íslandspóstur myndi ekki af
sannri þjónustugleði, koma tunnunni til Húsfreyju,
splæstu frændur í eitt eðal frímerki og skelltu því á
gripinn og kæmu henni á pósthús Akureyrar?
Húsfreyja myndi svo jafna þetta við frændur sína,
og myndi með glöðu geði borga þeim skuld sína við þá,
og það þó þeir sendu tunnuræfilinn í A-pósti og tryggða!
Neipp, bara svona hugmynd á vorlegum degi í höfuðborginni,
þegar húsfreyja er á leið austur í Þorlákshöfn, að vísitera
systur og börn....keyrandi á okurdýru bensíni:
TVÖHUNDRUÐ OG TÍU KALL líterinn!
Húsfreyja taldi víst, þá hún síðast fyllti bifreið sína
af bensíni, að hún hefði utangátta og út á þekju
villst á eldsneyti, og fyllt á með eldsneyti fyrir "geimferjur" hjá ÓB.
Svona eins og þær geimferjur þurfa, sem eru í "reglulegum geimferðum"
milli tunglsins og jarða hjá NASA.
SJÍSS!
Taldi húsfreyja næsta víst að bóndi hennar biti af henni höfuðið fyrir svona
líka hroðaleg mistök, og fór að plana flóttaferð "á puttanum"
til Seyðisfjarðar. (Stutt í ferju til útlanda
)
En nei.
Þetta var "bensínverð" fyrir venjulegar frónverskar
bifreiðar, þegar húsfreyja gætti betur að.
En 10 ára djásni liggur á að komast austur,
þó bensíndropinn sé dýr, svo húsfreyja kveður að sinni.
![]() |
Bensínlítrinn á 91,20 á Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.1.2011 | 18:40
Jeminn!
Og húsfreyja sem hélt að hún hefði
orðið gjörsamlega KVITT við Guð og menn...
og ALLA lánadrottna sína að eilífu, þarna í fyrra!
Sá ekki gluggapóst svo dögum skipti,
og hélt að lánadrottnar hennar hefðu séð það í hendi sér,
að með vöxtum og vaxtavöxtum og verðtryggðum vöxtum
væri húsfreyja búin að greiða skuldir sínar "þrjátíufalt" til baka
síðustu tuttugu árin eða svo.
Hefðu þá af stakri réttsýni, góðmennsku og velvilja, lánadrottnar
hennar, "afskrifað" eftirhreytur allar af skuldum húsfreyju,
og piff paff, gluggapósturinn horfinn út í veður og vind.
Húsfreyja vaknaði með "gluggapóstlaust bros" á vör og "skuldalausa
gleði" í hjarta dag eftir dag, og breiddi faðminn fagnandi á móti
vorlægðum, flensufári og gigt!
Búin að vanrækja slíkar léttvægar áskoranir síðan á
vetrardögum 2008, og varla að hún tæki eftir gigtarstingjum
í mjöðmum, rennandi hori í stríðum straumum úr nefi eða 44 metrum á
sekúndu lengur.
En þarna ætlaði hún aldeilis að hella sér í veðravítin,
argvítans gigtina og pestarfárin af krafti!
Velta sér upp úr þeim!
Jamm.
En..... bévítans ekkisens árans ári!
Gluggapósturinn birtist aftur, verri en þrálátur
klaáðmaur eða ergilegur pólitíkus að ræða Icesafe.
Og nú er sem sagt fundin skýring á furðulegum
"gluggapóstsskorti" þessum á vordögum í fyrra.
Hann hafði "tapast" í bílskotti hjá póstburðarmanni.
Sjálfsagt hrikalegur andskotans geimur bílskottið, og ekki gott að finna
nokkra poka af gluggapósti innan um umslög, pakkningar
og frímerki og annað sem póstburðarmenn geyma í bílskottum sínum.
Fyrir utan, að það er ekkert vit í að vera að bera út slíkan
póst þegar úti geysar vorhret upp á 44 metra á sekúndu.
Bara salta hann!
Hehehehe...húsfreyja stóðst ekki mátið.
Merkilegur fjandi atarna, að bera ekki út póst,
verandi "póstburðarmaður".
Í gær læddust tvö gluggaumslög inn um lúgu húsfreyju.
Og í dag biðu hennar þrjú!
Þeirra boðskapur?
Jú, húsfreyja skuldar.
Tvöfalt meiri pening, en hún tók að láni í upphafi fyrir íbúð sinni.
Skilur húsfreyja svona útreikninga, eftir að hafa borgað
reglulega og án þess að missa niður eina greiðslu af íbúð sinni
í 14 ár?
NEIPP ekki baun!
Svo var það orkureikningurinn!¨
Samkvæmt honum er húsfreyja farin að reka "míní-álver"
úti í garði hjá sér.
Djö.... ólán.
Og ekki með "græna úttekt" eða leyfi eða neitt fyrir slíku!
SJÍSS!
Jamm og reikningur fyrir vatn og fráveitu!
Þar er þessi "makalausa setning" sem húsfreyja þarf
að fá íslenskufræðing til að túlka fyrir sig:
"Á ÁRINU SEM NÚ ER GENGIÐ Í GARÐ HEFUR VERIÐ ÁKVEÐIÐ
AÐ ORKUVEITA REYKJAVÍKUR INNHEIMTI GJÖLD VEGNA VATNS OG
FRÁVEITU BEINT FRÁ EIGENDUM FASTEIGNA Á ÞEIM SVÆÐUM
SEM OR REKUR VATNSVEITU OG FRÁVEITU"!
Nú, og miðað við hvaða innheimtufyrirkomulag áður?
Var áður rukkað "óbeint"....þá kannski á SKÁ
(rukkunin þá máske send til foreldra í næsta byggðarlagi?)?
Og þá ekki sjálfir eigendurnir fasteignanna rukkaðir, heldur hverjir....????
Og rukkaði ekki OR fyrir "sína eigin" þjónustu, hér í höfuðborginni,
heldur hann Kalli Bjarna á Súðavík "sérlegur vatns-og fráveiturukkari"
....eða Palli Óla á Höfn...eða kannski Kaupfélag Eyfirðinga á Akureyri??
Er húsfreyja máske búin að greiða kolröngum aðilum peninga
fyrir vatn og fráveitu árum saman??
Ekki gott að botna, nema fyrir liggi grunn-upplýsingar um
fyrra innheimtufyrirkomulag.
Húsfreyja hefur hér með ekki hugmynd um HVERJUM hún borgaði
eða HVER rukkaði hana um vatns-og fráveitugjöld síðustu ár.
Hún borgaðaði bara helv... bleðilinn steinþegjandi og hljóðalaust!
Jamm.
En kvöldmatur næst.
Góðar stundir.
![]() |
Rekinn fyrir að liggja á pósti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 1.2.2011 kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)