Færsluflokkur: Bloggar
12.12.2011 | 20:57
Miðaldarfár og....
... fjúkandi afhöggnir hausar með galdrabrennum
og hverju ekki á þeim myrku tímum, komið í fréttir
og sjálfsagt verið að rifja upp
blóðþorsta og brjálæði í garð kvenna
á þeim árunum" var það fyrsta sem húsfreyju kom í hug,
er hún las fyrirsögnina á frétt þessari.
Neipp.
Alrangt.
Húsfreyja að vaða í villu og svíma.
Frétt frá Sádí-Arabíu á vorum dögum, á 21 öldinni.
Kona hálshöggin fyrir kukl og galdra.
Tarna er ljóti ófögnuðurinn í réttarkerfi Sáda.
Þar þykir besta mál að menn duddi sér við að höggva höfuðin af fólki,
fyrir hina ýmsu glæpi; þjófnaði, morð, nauðganir (ekki víst heldur,
að fórnarlömb nauðgana sleppi lifandi, fremur en gerendur)
og svo auðvitað fyrir höfuðsyndir eins og að afneita trúnni
og fyrir það að kunna eitthvað fyrir sér í grasafræði.
En húsfreyju þykir ekki líklegt að foreldrar kenni almennt
börnum sínum galdra og kukl í henni Sádí, því trúin bannar
allt slíkt stranglega og hausinn er að veði leggi fólk út í slíkt.
Hins vegar kunna margir til verka með grös og jurtir,
ljósmæður og læknar til forna brúkuðu slíkt óspart,
og húsfreyja telur að slík kunnátta sé enn við líði
víða um heim, þar sem heilbrigðiskerfið er bágt
og aðeins á færi þeirra ríku að sækja slíka þjónustu.
Galdrar og kukl?
Varla.
En blessaðir Sádarnir stíga ekki í miðaldarvitið.
Brýna sveðjur sínar grimmt og spýta við tönn.
Og hausar fjúka.
Þjóð í fangelsi fornra siða og grimms hugsunarháttar.
Því er ver.
Góðar stundir á kærleiksríkri jólaaðventu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2011 | 18:28
Heyr, heyr!
Mikil góðvild og greiðasemi Færeyinga
í garð okkar Frónbúa er með eindæmum.
Okkar bestu frændur, er mat húsfreyju.
Við eigum að hrinda af stað söfnun, og koma þeim til
hjálpar nú í svartasta skammdeginu.
Ekki gott fyrir litla þjóð sem Færeyinga, að
fá fárviðri með stórtjóni rétt fyrir Jól.
Breytir engu fyrir okkur Frónbúa, þó við
sendum nokkra þúsundkalla hver, til Færeyinga,
erum jafn-dauð fjárhagslega hvort eð er.
Er einlæg von húsfreyju, að vinir okkar Færeyingar
nái að jafna sig vel af báli þessu, sem fyrst, og eigi
gleðileg Jól.
Getur ekki Öggi hætt að ergja sig á landþurfa
kínverjum, og tekið að sér að hrinda söfnun af stað
fyrir þessa ágætu frændur vora?
Góðar stundir og gætið ykkar á hálkunni í snjó
og hríðarbyljum.
Bloggar | Breytt 29.11.2011 kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2011 | 21:50
Botnlausa glerhítin okkar Frónbúanna..
...er bísna lagleg á að líta, þá
ljósaperur loga í gluggum á dimmri
vetrarnótt.
Gleður, hressir, bætir og kætir þá sem merkilegt nokk,
hafa auraráð og geta sótt tónleika reglulega
í íðihljómfagra sali Hörpunnar.
Mun sjálfsagt einhvern tímann borga sig upp, Harpan...
svona í kringum 2067, þegar þeir síðustu af
"við- verðum- LÍKA- borga- Hörpuna-kynslóðinni",
hrökkva upp af í hárri elli.
Þeir "ríku-æ,æ-smá-bakslag-nei, setjum bara þjóðina á hausinn- aftur orðnir ríkir",
hér uppi á litla Fróni þá, verða auðvitað
löngu búnir að gleyma kreppu, bankagjaldþroti, niðurskurði
og ofursköttum á venjulega meðaljóna og láglaunaða.
Aftur komnir með sand af pappírspeningum í bankabókina og
fjárfesta þá í verðbréfum fyritækis til húsa í "póstkassa" við
hliðargötu í lítilli borg á eyju í Suðurhöfum...Tortola kemur
einhverra hluta vegna, upp í hug húsfreyju.
Ungir Sjálfstæðismenn verða orðnir aldnir, vellauðugir, fyrrum pólitíkusar,
sem mæta í Hörpuna í hverjum desembermánuði að hlusta
Frostrósir...sem þá hafa fengið nýtt og heitara nafn og nefnast "Peningablóm".
Þeir glotta í kampinn yfir bernskubrekunum, og nikka hvorn annan:
"Helvíti voru við sniðugir að nota Hörpuna og milljarðalánin hennar
okkur til framdráttar þarna um árið".
Jamm.
Eftir stendur Harpan.
Glerhöll sem kostar þjóðina MILLJARÐA mitt í verstu kreppu
heims frá árinu 1933.
Allt í boði peningafíkinna fjármálabraskara, gráðugra bankagosa og
spilltra politíkusa.....já og auðvitað eigum við hin,
"nautheimsku fjármálavitleysingarnir og flatskjáareigendurnir"
okkar sök í því hvernig fór.
Létum gabba okkur og ginna, og sitjum nú uppi með
5. ára gamla flatskjái, sem við verðum kannski búin
að greiða upp á næsta ári.
Bifreiðar okkar eru hratt og örugglega að verða að
FORNBÍLUM, og verið er að reyna að finna leið
til að plokka af okkur þann litla sparnað sem við
eigum eftir til elliáranna.
En huggun harmi í, þá mun máske góðhjartaður fyrrum
ungur Sjálfstæðismaður, bjóða öldruðum
borgendum Hörpunnar í hópferð í hjólastólarútu
niður í Hörpu að skoða herlegheitin.
Selja þeim kaffibolla og hnallþóru á kaffihúsi Hörpunnar,
og spila Kristján í ferðaspilara á meðan.
Verður brilliant.
Spáir húsfreyja.
En Harpan er komin til að vera.
Og við verðum að vera sátt með þann raunveruleika,
hvort sem við höfum efni
á að fara á tónleika þangað eður ei.
En svo gætum við náttúrulega fengið eina svaðalega
grenjandi vetrarlægð að suðvestan...og Harpan
fokið á haf út....eða hvað?
Nah, varla.
Góðar stundir og njótið nú allra yndislegu jólatónleikanna
í desember....á flatskjánum ykkar.
Bloggar | Breytt 20.11.2011 kl. 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2011 | 19:32
Byssulausir og skírteinalausir..
..þá er næsta víst að rjúpnaveiðimenn fari
rjúpnalausir heim af fjalli.
Jólamaturinn á Aðfangadag í bullandi mínus, þar með.
Væri máske ráð að skreppa
með "boga og örvar" í eina herlega
rjúpnaveiðiferði Í LOGNI,
finnist ekki helvísk skírteinin.
Og í ítrustu neyð, verður að taka Spaugstofumenn
á þetta, og "dulbúa" nokkra kjúlla.
"Bogi og Örvar" þeirra Spaugstöfumanna,
væru tilvaldir "dulbúningaráðgjafar"....hehehe.
En að öllu gamni slepptu, óskar húsfreyja rjúpnaveiðimönnum
öllum, góðrar veiði og gleðilegrar jólamáltíðar......og í guðanna bænum
passið upp á byssupappírana ykkar.
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2011 | 18:03
Suðursveitin þingmannanna týnd og...
...tröllum gefin?
Kannski bara stóra strand mánuðum saman í
mynninu á Landeyjarhöfn?
Að villast á tjaldstæðinu í Þorlákshöfn?
Eða máske bara lögst í ferðalög um landið?
Hefur þá ef till dagað uppi á kræklóttum og lítt
akfærum vegum Vestfjarða?
Orðið úti uppi á miðri Vaðlaheiði?
Hehehehe..bara snilld þessi auglýsing Eyjamanna.
Samgöngumál eru í svaðalega djúpum skít uppi á
litla Fróni, af og til... oft og iðulega... nánast alltaf í Landeyjahöfn
....og svo leggjum við niður
innanlandsflugið eða fækkum flugferðum öðrum kosti.
Húsfreyja sendir Eyjamönnum enn og aftur baráttukveðjur.
Góðar stundir og góða ferð þá þið skreppið í ferðalög um litla Frón.....
Tekur langan tíma!
Auglýsa eftir þingmönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2011 | 22:04
Afdjöflunaraldur?
"Mig langar að sjá "Footloose", mamma, djásnið var
kengspennt yfir kvikmyndatreiler í sjónvarpinu.
"Er þett'ekki bara unglingamynd"? spurði bóndi sposkur.
"Ég sá gömlu myndina sem mamma á, þegar ég var átta ára",
tíu ára djásninu mikið niðri fyrir, "ég er sko ekkert unglingur"!
Svo háttar til að tíu ára djásni svona heldur kvíður fyrir unglingsárunum,
og svo rammt kveður að þessu stundum að húsfreyju fer að
gruna að djásnið sé Þórbergur Þórðarson skáld og rithöfundur endurborinn.
En Þorbergur heitinn var ekkert að skafa utanaf því þegar kom að
unglingsaldrinum.
AFDJÖFLUNARALDUR, minnir húsfreyju að það góða skáld hafi haft um
unglingsárin.
Og ekki nóg með það, Sobbeggi afi hefði ekki mætt á kvikmynd
sem FOOTLOOSE, nema heiladauður, í dái eða örendur.
Tónlist átti sem sagt ekki upp á pallborðið hjá skáldinu.
Píningartæki! Músíkbyljandi! Hávaði! Glymjandi!
Vildi að Alþingi setti lög sem skyldaði alla Frónbúa til að láta
bólusetja sig gegn músík.
Og taldi að þeir sem hefðu gaman af tónlist væri oftast nær
fólk sem hefði hætt að þroskast að vitsmunum á "afdjöflunaraldrinum"
En þarna ber í millum tíu ára djásnsins og Þórbergs, því sú stutta
elskar tónlist, dans og söng, þó lítt finnist henni spennandi að
eiga eftir að verða unglingur.
Vorkennir Svölu frænku sinni ægilega, að vera orðin 12 ára,
og þaðan af verra 13 ára í næsta mánuði....."afdjöflunaraldurinn"
við það að bresta á....."oooooo, mamma ég held að það sé
miklu skemmtilegra að vera krakki en unglingur".
Það er svo mikið VESEN á unglingum"!
Húsfreyja veit að hún á skarpa 10 ára dóttur, en
hélt að unglingsárin væru ekkert sem ylli áhyggjum,
þegar maður er á þessum fyrsta tug ævinnar.
En jú, vissulega fylgist djásnið orðið með fréttum, og kemur
iðulega að frétt á netinu um týndan ungling, og sýnir húsfreyju með hryllingi.
Það að vera týndur er jú eitt það versta sem hendir börn og unglinga,
að hennar mati.
Eitt það versta sem hendir foreldra.
Húsfreyja reynir að róa djásnið með yfirvofandi unglingsár,
og segir henni að flestir unglingar komist ágætlega frá þeim,
þó stundum séu þau töluvert flókin og snúin.
Að þau séu "afdjöflunaraldur".....nah, Þórbergur var nú einu sinni
skáld, með skáldaleyfi.
Húsfreyja sjálf var fremur rólegur unglingur.
Feimin, hlédræg með hrikalegt sjálfsálit en ofboðslega
metnaðarfulla og bjartsýnaframtíðardrauma.
Taldi sig ætíð færa í allan sjó, ekkert var henni ómögulegt,
ekkert sem hún gat ekki.....bara spurningin HVERJU átti hún að
sleppa, og hvað NENNTI hún að gera.
Var óvenju lítið að pæla í því sem aðrir hugsuðu, eða
hvað öðrum fyndist um hana.
Botnaði lítið í drama sumra vinkvenna sinna,
sem sífellt rifust um einhverja lúðalega gaura, sem
voru ógesslega fullir og ömurlegir á öllum böllum,
en litu þokkalega út edrú....ÆÐI sko.
Og svo var það þetta mál að "hleypa" fyllibyttunum upp á sig,
og monta sig af því, sem húsfreyju fannst furðulegt sem unglingi.
Allir sváfu hjá öllum, þvers og kruss...svo var grenjað og rifist
yfir svikum, framhjáhöldum.
Húsfreyja fór í bíó, dansaði trylltan diskódans, las bækur og lærði.
Hafnað "uppáhleypingum", þó hún fengi slatta af tilboðum í slíkt.
Naut þess að vera áhyggjulaus, dramalaus, brennivínslaus, og kynlífslaus sem unglingur.
Var skotin, eins og allar stelpur, en þar við sat.
John Travolta var ÆÐI.
Húsfreyju fannst gaman að vera unglingur.
Lagðist í utanlandsferðir eftir stúdent og ferðaðist til framandi landa.
Það var enn meira gaman.
Húsfreyja hefur aldrei iðrast neins, og þakkar forsjóninni fyrir að
hafa haft gæfu til að fara létt í gegnum unglingsárin.
Býr að því enn þann dag í dag.
Lífið er ljúft og flestir unglingar eru ljúft fólk.....en svo eru sumir bara
ekkisens VESEN.....á "Afdjöflunaraldri" segði skáldið.
Húsfreyja vonar að hennar tíu ára djásn fara ljúflega í gegnum
unglingsárin og njóti þeirra.
Góðar stundir, húsfreyja er á leiðinni á FOOTLOOSE einhverja daga
á næstunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2011 | 18:45
Röng höfn á röngum stað með rangt hannaða...
HEYR, HEYR, Halldór Nellet.
Þessu er húsfreyja innilega sammála, og man enn
hve rasandi hissa hún var, þá hún í fyrsta sinn kom í
Landeyjahöfn.
Einhverra hluta vegna hafði húsfreyju ekki dottið í hug
annað, en að höfnin yrði byggð nokkrum kílómetrum
vestar en hún nú er, taldi næsta víst að brúarsmíðasnillar allir
vildu forðast það í lengstu lög að lenda í ósi Markarfljóts.
Enda um stórfljót að ræða, 100 km langt og með
vatnasvið upp á u.þ.b. 1070 ferkm.
Þokkalega gott magn af framburði jafnt og þétt,
alla daga, allar vikur, alla mánuði, árum saman,
því fylgjandi.
Svo húsfreyja nánast missti andlitið ofan í skóna sína
af undrun, þegar hún ók "meðfram Markarfljóti" afleggjarann
frá Þjóðvegi 1 á leið niður að Landeyjarhöfn.
Trúði ekki sínum eigin augum, og spurði systur í Eyjum
tvisvar, hvort þetta væri "í alvöru" Markarfljót þarna
hinum megin við varnargarðinn.
Systir í Eyjum taldi svo vera, dæsti mæðulega og rýndi
út í þokukólguna og regnið.
Ekki mjög sjóhraust systir í Eyjum.
"Í ALVÖRU? Í ALVÖRU"?, var síðan það eina sem systir
í Eyjum fékk upp úr húsfreyju, það sem þær áttu eftir
af ferðinni niður að höfninni.
Húsfreyja var miður sín, þegar hún horfði á eftir litlu systur
inn í Herjólf í Landeyjahöfn þennan regnvota sumardag.
Sjór var úfinn og grár, stíf austanátt og rétt að það móaði
í Eyjarnar í gegnum gráan regnsortann.
Húsfreyja taldi nánast öruggt, að Herjólf tæki niður í
hafnarmynninu, hvolfdi með hraði og hún sæi síðan systur úr
Eyjum svífa nánast gegnsæja á hvítum vængjum
upp úr dallinum, og hverfa sjónum hennar í
þokunni við hæsta tind Eyjafjallajökuls.
Sendi verndarenglum systur bæn í huganum...
Hún lokaði augunum af angist þegar Herjólfur
ruggaði og tók dýfur út úr höfninni, en til allar
lukku voru verndarenglar systur í Eyjum vel staðsettir,
og dallurinn komst á haf út.
Systir í Eyjum hefur allar götur síðan forðast að sigla
í Landeyjarhöfn, eða frá henni, ef hún hefur annan kost.
Smellir sér í flugið eða siglir á Þorlákshöfn, bjóði Herjólfsfólk
upp á slíkt.
Miðað við ferjuumferð í Laneyjahöfn frá því að höfnin var
opnuð, þykir húsfreyju auðsýnt að þjóðráð væri að
FLYTJA höfnina slattakorn í vestur, eins og reynsluboltinn
Halldór B. Nellet metur að sé skynsamlegt.
Hitt draslið í ósum Markarfljóts, má svo bara nýta sem
sand- og aurgildru, þarf ekki einu sinni að rífa það niður....
nú eða breyta því í "hrísgrjónaakur" öðrum kosti.
Jamm, en þangað til eru Eyjamenn í djúpum hvað varðar samgöngur,
og verða fjölmenna í mótmælagöngur og raula;
"Röng höfn á röngum stað með RANGT hannaða hafnargarða...jejeje"
undir lagi Sólstrandagæjanna "Ég er rangur maður, á röngum tíma,
Húsfreyja sendir Eyjamönnum öllum enn og aftur baráttukveðjur.
Þetta "Landeyjahafnarsamgöngumálaklúður" er þeim ekki boðlegt.
Góðar stundir.
Landeyjahöfn á röngum stað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2011 | 13:38
Við eigum öll að sitja við sama borð.
HEYR, HEYR, Páll Óskar.
Í háþróuðu samfélagi manna sætu allir við sama borð,
hver undi glaður við sitt.
Staðreyndin er samt sú, að við búum ekki
í neinu slíku samfélagi, svo þörfin fyrir
gleðigöngur, tunnubarning og bara yfir höfuð
skipulögð mótmæli til að þrýsta á jafnræði og réttlæti
verður ætíð til staðar.
Og flott hjá Palla að "sparka" hressilega í
öfgamenn.
Öfgar aldrei til góðs, að mati húsfreyju.
Góðar stundir á sumarlegum ágústdegi.
Mikil umræða um orð Páls Óskars | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.7.2011 | 13:47
Sorg og skelfing.
yfir hinum mikla missa Norðmanna.
Og vitið, Norðmenn, að það eru á þessum degi
þúsundir íslenskra hjartna, sem með yður kalla
til himins á Drottins náð, að nálgist sá dagur,
að Noregi auðnast að láta hlekkina falla.
Og þó að milli ættjarða vorra um aldir
úthaf gleymsku og þagnar á stundum flæddi,
sá spölur gerðist skemmri, er skyldleikans kenndi,
sem skar oss í hjartað þann dag, er Noregi blæddi.
Tómas Guðmundsson-Dagur Noregs.
Hugheilar samúðarkveðjur til Noregs.
Reynt að eyða framtíð Noregs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.7.2011 | 23:14
Katla hnerrar og....
...snýtir sér, og heil brú
fýkur á haf út.
Þetta líst húsfreyju miður vel á, og
telur að jafnvel "lítið" Kötlugos geti
orðið stórmál fyrir Frónbúa.
Var næstum orðin innlyksa um helgina austan
brúar yfir Múlakvísl, og þakkar sínu sæla
að hafa leyft bónda að ráða för í útilegu að þessu sinni.
Bóndi lenti í miklum hremmingum með aðra öxl
sína fyrir rúmu ári síðan, og hefur nú komið sér
upp sérlegri "prinsessan á bauninni- vöðvabyggingu".
Svaf vart dúr þessa einu nótt á svæði geysa og strokka
í Haukadal núna, bóndi.
Vildi bóndi í fyrstu tilraun eftir axlarslys ekki hætta sér
lengra frá borginni við sundin bláu, en upp að Geysi.
Húsfreyja samvinnuþýð kona, samþykkti það ljúflega,
þó hún hefði gjarnan viljað skreppa á sunnanvert Snæfellsnesið
eða upp í Skaftafell.
En þangað vildi bóndi ekki, svo Geysir varð fyrir valinu.
En svefninn var misgóður hjá útilegufólki.
Húsfreyja með sína gigtarmjöðm, svældi
í sig einni verkjatöflu fyrir nóttina, og svaf sem rotuð væri.
Bóndi bylti sér og dæsti, djásnið snöflaði sér einar tvær
ferðir út undir bert loft að losa um þvag, og kvartaði
sárt undan þreytu í morgunsárið ásamt föðurnum.
Húsfreyja svaf.
Á gott með svefn úti í náttúrunni, húsfreyja.
Þetta er fyrsta útilega 10 ára djásnsins frá því að
hún fór á áttunda aldursári.
"Mamma, botninn í tjaldinu er drulluskítugur, ég
sef ekki á grasi og svona drullu".
Húsfreyja sópaði 3 gulnuðum stráum, og nokkrum
örsmáum steinum út úr tjaldinu með annarri hendi:
"Sko, allt orðið tandurhreint, ljósið mitt, sofum vel hér í nótt".
Djásnið horfði full efasemda inn í tjaldið:
"Þarftu ekki að nota sápu og vatn, mamma"?
Húsfreyja hló innra með sér að borgarbarninu sínu:
"Hreinna gerist það ekki í útilegum, vinkona".
Djásnið vippaði sér inn í bíl, og setti Justin Bieber í CD-spilarann,
þung á brún.
Eftir að bóndi hafði grillað eðal lambakjöt og húsfreyja græjað
íslenskt grænmeti með, fór brúnin heldur að lyftast á
djásninu.
Snætt úti í 16 stiga hita, en skýjuðu.
Næsta morgun fór fjölskyldan í býtið á fætur,
misvel útsofin.
Sólskin, 20 stiga hiti, fuglasöngur og smáflugvélar á sveimi.
Húsfreyja náði sér í stól, Egils krystal, dæsti af ánægju og
leit í kringum sig.
Erlendu hávöxnu og ofur-grannvöxnu hjónin voru einnig
árrisul. Karlinn var hálfur undir tjaldi unglinga þeirra,
og dró hvern pakkann undan því og handlangaði
til hávöxnu konunnar sinnar.
Brauð, ost, álegg.
Frúin hitaði te.
Hjónin röðuðu síðan morgunverðinum beint á grænt grasið
og frúin settist. Tók tebolla í hönd, beygði höfuð sitt og sat.
Hreyfði sig ekki.
Sat.
Hávaxni bóndinn hennar hafði skyndilega mikið að gera
inni í bílaleigubíl þeirra.
Frúin sat enn með höfuð beygt, bærðist ekki, augu lokuð.
Húsfreyja gjóaði augum á úr sitt.
Þrjár mínútur.
Fimm mínútur.
Kræst!
Hafði konan gefið upp öndina?
Og ekki einu sinni byrjuð að drekka morgunteið sitt!
Sjitt!
Átti húsfreyja að rölta yfir og blása í hana?
Sjö mínútur!!
Nei, nú færi húsfreyja til konunnar og berði hana bylmingshögg
í brjóstið!
Hún var greinilega í hjartastoppi...eða dauðastjarfa!
Húsfreyja stóð upp og tók nokkur skref hikandi
í áttina til erlendu hávöxnu konunnar....
"Settu stólana inn í tjald, það er farið að rigna"
bóndi kom á fleygiferð fyrir tjaldhornið.
Húsfreyja leit af erlendu konunni með dauðastjarfann til
himins...nokkrir skýjabólstrar ekki regnský að sjá.
Nokkrir "brennisteinsangandi-dropar"" lentu á höfði
húsfreyju, vindurinn hafði borið þá frá
sjálfum Strokk til bónda og húsfreyju.
"Neipp, ´svaraði húsfreyja, engin rigning hér á ferð".
Bóndi hálf morgunsúr af svefnleysi, var lengi að fá botn
í málið.
"Skelltu þér bara í sund með Báruna, sagði húsfreyja,
eða heldurðu að ég lendi í hagli og stórbyl rétt á meðan"?
Bóndi hvarf yggldur á braut með djásnið.
Húsfreyju rámaði í konuna með dauðastjarfann og hjartastoppið.
Hún sat hin settlegasta og sötraði te með bónda sínum.
Þungum steini var létt af húsfreyju, konan sjálfsagt
bara að fara með morgunbænirnar sínar af andakt
og bænahita þarna áðan...nema teð hafi verið svona
fjandi heitt, þurft þennan tíma að kólna.
Húsfreyja settist, lét sólina ylja sér um hjartarætur,
lita húð sína og hita axlir.
Simmi og Jói að gera grín að einhverju brúarskrifli sem
Katla hafði hnerrað út í sjó, á Bylgjunni.
Húsfreyja fékk hland fyrir hjartað.
Brúin var í alvöru farin, og þjóðvegi eitt lokað til austurs.
Allt í tjóni í Vík, og ferðalangar í vandræðum.
En ekki gos....ennþá.
Bóndi gaf sundlauginni mínús 3 fyrir hreinlæti og þjónustu.
En eftir brækjuhita, steikingu og göngutúr í rúma tvo tíma var pakkað
niður upp úr klukkan eitt.
Múlakvísl, brúarhvarf og Katla voru aðal efnið í fréttunum.
Fór hrollur um húsfreyju.
Dýrin í Slakka róuðu hana aðeins örlítið.
En síðan fóru að berast fréttir af minni óróa í Kötlu,
og brúnin tók að lyftast á húsfreyju.
Eftir kaffi hjá systrum og múttu í Þorlákshöfn var haldið
yfir Þrengslin í borgina við sundin bláu.
Tíu ára djásnið er alsæl að vera komin heim,
en segir samt útileguna hafa verið skemmtilega.
Þar ber Strokk með sín flottu gos og Slakkaferðina hæst,
en það var einnig dálítið spennandi að fara að sofa í tjaldi.
En Katla er vonandi aftur farin að dotta og dorma
eftir örlítið "brúar-hnerrakast" í nótt, og "míní-ræs-óróa"
í dag.
Fínt fyrir hana að vakna í býtið á næstu öld....
Góðar "gosfríar" stundir, megi allar ykkar ár vera vel brúaðar.
Gos hugsanlega hafið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 10.7.2011 kl. 01:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)