Færsluflokkur: Bloggar
25.12.2009 | 15:46
Aðfangdagur-jólasaga?
Það var niðamyrkur.
Kalt.
Læðan reikaði sármóðguð
um íbúðina.
Skellti klónum niður í parkettið í stofuni
svo small í.
Ekkert gerðist.
Ekkert lát varð á svefnhljóðum þeirra "tvífættu hárlausu"
á svefnsófanum í stofunni.
Allir sváfu vært.
Læðan dæsti mæðulega.
Rölti inn í svefnherbergið.
Stökk upp í gluggakistu.
Tvífætta, hárlausa "þjónustan" hennar bærði ekki á sér.
"Asskotans leti alltaf í kerlu", læða mjavraði pirruð og hnusaði
af dótaríinu sem alltaf var búið að troða í skó af "tvífætta, hárlausa
leikfélaga" hennar þessa síðustu nætur.
Sperrti eyrun, pírði skörpum kattaraugum út í náttmyrkrið.
Kolsvartur hrafn sveif tignarlega yfir hamraborginni í
tunglsljósinu.
Læðan veifaði skottinu veiðilega.
"En hvað var nú þetta" hljóð barst frá hjónarúminu.
Læðan stökk niður á gólf, settist á óæðri endann og beið.
Húsfreyju var að dreyma.
Mjög MERKILEGAN draum, með góðum draumanöfnum, táknmyndum
og alles.
Var að reyna að festa sér í minni alla atburðarás draumsins,
svo ekkert gleymdist.
PIKK, PIKK!
"Verð að muna eftir þessu...." húsfreyja í svefnrofum.
PIKK, PIKK!
"Nei, á ekki að vakna strax, klukkan er ekki búin að hringja,
þarf að muna drauminn...."
PIKK, PIKK.
"Mamma"!
Röddin hvíslandi en ákveðin.
Húsfreyja reyndi í örvæntingu að festa í minni sitt
hratt hverfandi þræði draumsins...
"MAMMA"!.... hátt og snjallt.
"Hvenær átt þú eiginlega að fara í vinnu"?
Og svo örlítið ásakandi: "Ég er búin að vera vakandi HEILLENGI".
Húsfreyja var vöknuð.
Draumurinn merkilegi horfinn inn í "draumgleymskubrunn eilífðarinnar".
Hún kveikti smá týru á lampa sínum.
Átta ára djásnið sat í rúminu og horfði hvasst á hana.
Læðan sat á gólfinu fyrir neðan rúmið og horfði hvasst á hana.
Húsfreyja gjóaði augum á vekjaraklukku sína.
"Já, en ég á ekki að vakna fyrr en eftir 5 mínútur".
"Jólasveinninn er búinn að koma" átta ára djásninu
slétt sama þó móðirinn hafi vaknað heilum 5 mínútum
fyrr en venjulega á Aðfangadagsmorgun.
Djásnið stökk út að glugganum og fór að bjástra við
jólasveinaskógjöf.
Læðan skellti framfótum upp á rúmskörina..."mjaaaaavvvrrr"!
Húsfreyja stundi pirruð yfir týndum "góðdraumi" sínum og
5 mínúta svefntapi, sveiflaði sér fram úr og klæddi sig.
Djásnið alsæl með dótarí frá sveinka elti hana fram.
Læðan alsæl með að "tvífætta, hárlausa þjónustan" hennar væri
loks komin á lappir, elti hana fram.
"Mamma, JÓLIN eru í dag". Björt eins og júnísól í heiði, djásnið.
Múttan muldraði eitthvað...."jmm..þðrrrétt".
Læðan nuggaði sér utan í fætur húsfreyju,
húsfreyja nærri dottinn.
Húsfreyja leit framan í eftirvæntingafull andlit
djásnsins og læðunnar.
Brosti.
"Já og góðan dag elskurnar mínar", húsfreyja hló.
"Það er svo sannarlega Aðfangadagur Jóla í dag"!
Græjaði djásnið með morgunmat og sjónvarp.
"Sssss ekki vekja afa og ömmu í svefnsófanum".
Læðuna með hreint vatn og mat í dallinn.
Kvaddi og skellti sér út í bíl í vetrarfrostinu og myrkrinu.
Krummi ýfði á sér fjaðrirnar hreykinn upp á ljósastaur.
Húsfreyja glotti..."krummatetur, krummagrey" sendi hún
honum jólakveðju í huganum.
Ætlaði að aka af stað til vinnu, þegar nágrannakonan
veifaði henni í ofboði.
Á leið til starfa líkt og húsfreyja, en hennar bifreið illa
"farlama" með sprungið dekk.
Húsfreyja reddaði nágrannakonu í vinnuna, þrátt
fyrir að tíminn væri að hlaupa frá húsfreyju.
Mætti á heimili öldunga heilli mínútu fyrir klukkan átta.
Það var spenna í loftinu, og fleiri en átta ára djásnið
og læða höfðu vaknað snemma á Aðfangadag.
Það loguðu 3 bjöllur, og allir vildu komast á fætur sem fyrst.
Tveir starfsmenn veikir.
SJITT.
Húsfreyja svitnaði.
Hvern fengi hún til að koma á aukavakt á Aðfangadagsmorgun?
En.....HALLELÚJA!
Ein yndisleg kona frá Litháen hafði skrifað sig í "Extravaktabókina"
og mætti galvösk.
Húsfreyja skipulagði morgunverkin.
Hverjir gætu farið strax í jólaföt og hverja væri betra að bíða
með að færa í jólafötin fram yfir hádegi.
Skráði brottfaratíma sinna öldunga með ættingjum heim,
gaf lyf, augndropa og skipti á sárum.
Græjaði mat um slöngu og gaf einum öldungi,
sem ekkert má borða né drekka.
Knúsaði og kyssti sína öldunga alla og óskaði Gleðilegra Jóla.
Ræddi við heilan haug af ættingjum, útdeildi jólakortum
og eftir hádegi fór húsfreyja í borðsalinn.
Dró þar til borð til og frá, raðaði upp og dekkaði
með jóladúkum, kertum skreytingum og leirtaui.
Starfsfólkið var á þönum með Húsfreyju.
En allir glaðir, þótt mikið væri að gera.
Og heim komst húsfreyju um fjögurleytið.
Beint í jólabaðið, í jóladressið og svo til kirkju.
Ljúf og jólaleg stund í Grafarvogskirkju, þó við lægi að
húsfreyju rynni í brjóst.....vantaði jú heilar 5 mínútur í
nætursvefninn.
Barnakórinn var yndislegur og Egill Óla tók "Helga Nótt" með
stæl, eins og hans var von og vísa.
Átta ára djásnið var þreytuleg í kirkjunni, en ekki að sjá
neinn þreytuvott á henni þegar heim kom.
Bóndi og tengdó höfðu eldað eðal hamborgarahrygg,
og tengdamútta bauð upp á heimaeldað laufabrauð.
NAMM.
Læðan fékk sinn pakka fyrst.
Eitthvað æglegt dótarí sem ilmaði af "KATNIP" og skrjáfaði
svo skemmtilega.
Læðan tapaði sér alveg, og djásnið hló svo mikið að
hún gleymdi næstum restinni af pakkahrúgunni.
En almenn pakkaopnun hófst að lokum, og djásnið
ljómaði bjartar en allar jólastjörnur himins til saman.
Fékk dúkkuhús, fín föt, 4 bækur, styttur, Pet shop-dót, DVD með
Sveppa og Villa..."bara allt sem mig langaði í, mamma"!
Og svo: "Þetta voru góð jól, mamma"!
Liggur nú í sjónvarpssófanum og les "Prinsessuna á Bessastöðum"
eftir Gerði Kristnýju.
Fullorðna fólkið er einnig dottið í jólabækurnar.
Húsfreyja er sæl með sín jól, og er alveg búin að jafna sig
eftir að hafa tapað 5 mín. af nætursvefni síðust nótt.
Fékk margar fallegar jólagjafir......
Er bara eitt.....
Mikið rosalega langar húsfreyju að vita hvað hana var að
"dreyma" aðfaranótt Aðfangadags....!
GLEÐILEG JÓL og eigið ljúfar jólastundir.
![]() |
Jólasveinninn í önnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2009 | 17:16
Viðskiptavild!
Það fer ískaldur hrollur niður eftir baki
húsfreyju, bara við að berja orð þetta augum.
Viðskiptavild.
Hljómar eins og bullorð sem búið hefur verið til
í þeim tilgangi einum að svíkja og pretta náungann og
mergsjúga banka og fyrirtæki svo eigin gróði VAXI og VAXI!
Kann lítið í viðskiptamáli húsfreyja, og miðað við núverandi
kreppu, bankahrun og útrásavíkingaóáran virðist
ekki nokkur annar skilja mikið í því heldur.
"Þetta bara gerðist"!
"Fór bara allt til helvítis"!, eru vinsælar útskýringar útrásarvíkinga
og fyrrum bankaeigenda á málunum.
Máske verður ríkisstjórnin að fá færa íslenskumenn
til að "smíða" skiljanlegt "viðskiptatungumál",
þar sem ALLIR skilja hvað er í gangi.
Og ekki verði lengur hægt að stofna félag B
sem vill kaupa félag A, B fái síðan lán hjá
félagi A, því B á bara smáaura, til að kaupin
gangi í gegn...og VOILA!
A lánar B, svo B geti keypt A...og svo eru
auðvitað A og B sameinuð.....og skuldin
gufar upp í "viðskiptavild"!
Megn skítalykt af þessu öllu saman.
Fyrir utan að þetta er bara RUGL!
Engin furða að allt sé komið til "þess í neðra",
hafi frónverskir útrásarvíkingar hegðað sér svona.
Húsfreyja getur ekki ímyndað sér að frónverskir
viðskiptamenn séu stoltir af því að stunda svona
endaleysu og brask.
Og leyfir sér að efast að þetta sé löglegt....altént er þetta
siðlaust að hennar mati, svo ekki sé meira sagt.
Jamm, svo mörg voru þau orð.
Góðar stundir.
![]() |
Flett ofan af íslensku aðferðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2009 | 18:40
Óspjallaðar meyjar?
Hvað er svona mikilvægt
við "óspjallaðar" meyjar?
Eða "hreinar" meyjar, ef fólk kýs heldur?
Hvað er í gangi með það mál?
Það þykir harla ómerkilegt að vera
"hreinn sveinn", jafnvel til minnkunar
eða skammar í sumum þjóðfélögum,
Því er þá svona mikil áhersla á "meydómi"
kvenna?
Vilja karlar svo ákaft tryggja það að "afkvæmi"
konunnar er þeir kvænast, sé þeirra eigið,
að "meydómur" er gerður að stórmáli?
Ekki getur húsfreyja séð fyrir sér að
kynlíf með hreinni mey sé svo eftirsóknarvert.
Allt vaðandi í slímugum, rauðum likamsvessa,
og konan sjaldnast að njóta nokkurs vegna sársauka.
Og þó nokkuð tryggt sé að verði kona barnshafandi fljótlega
eftir fyrstu mök, að barnið sé getið af karli hennar,
þá er engin trygging til fyrir því að kona hans
gamni sér ekki seinna meir með öðrum manni,
og geti með þeim manni barn/börn.
Svo hvað er málið?
Dugir þá að vera nokkuð öruggur með faðernið
á einu barni?
Önnur börn svona aukatriði?
Nei, bara svona pæling.
Húsfreyja getur ekki séð að boðskapur
Jesú Krists um kærleika verði nokkuð slakari
þó að hann hafi verið getin með "jarðlegum"
hætti af Maríu og Jósef.
Boðskapurinn jafn tær og góður fyrir því,
þó ekki hafi komið "sæði frá heilögum anda"!
Svo hvaða ekkisens máli skiptir þetta?
Hvaða "hreina meyjar"-kjaftæði er þetta?
Börnin "okkar" eru börnin "OKKAR" hvort
sem að við höfum getið þau sjálf,
þegið gjafasæði eða ættleitt þau.
Jafnvel börnin sem getin eru í framhjáhaldi
eru velkomin, því það er ekki þeim að kenna
hvernig þau komu undir.
Og börnin eru BESTA gjöf GUÐS til okkar mannanna,
og húsfreyja telur að það böggi ekki GUÐ nokkuð skapaðan
hlut hvernig við stöndum að tilurð þeirra!
Hvort þau verða svo boðberar kærleika á jörð líkt
og Jesú Jósefsson, það er svo annað mál.
Vanda uppeldið, foreldrar...KOMA SVO!
Góðar stundir með börnunum ykkar á jólum!
![]() |
Deilt um meydóm Maríu í Nýja-Sjálandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2009 | 17:45
Teiknaði OFBELDISFULLA mynd...
....og var vikið úr skóla fyrir bragðið.
Jesú á krossinum!
Húsfreyja veit ekki betur en að Jesú
á krossinum hangi "á hálsinum" á
mörgum guðhræddum og rétttrúuðum
einstaklingum um allan heim.
Þyki flott!
Merki um helgi og guðlega andakt.
Kristilegan rétttrúnað.
"Þjáning" Krists á krossinum þar í aðalhlutverki,
lítið pælt í "ofbeldinu".
En svo þegar 8 ára skóladrengur teiknar
mynd sem honum finnst jólaleg og falleg
af Jesú...hann sér þessa mynd jú í öllum
kirkjum, kapellum og guðshúsum mannanna....
og sem hálsfesti hjá mörgum, þá trompast allt.
OFBELDI!
SÁLFRÆÐIMAT!
Er þá Páfinn og katólska klerkastéttin
máske öll í " langtíma sálfræðimati",
ásamt slatta af mótmælendum og
ýmsum öðrum trúarhópum kristinna.
Snargjeggjað "ofbeldisfullt" pakk allt saman.
Svo klikkað að það fyllir kirkjur allar af "ofbeldismyndum"...
þær jafnvel látnar prýða altarið!
Jamm.
Merkilegt atarna í Ameríku.
Húsfreyja er helst á því að peyjinn hafi
blandað svolítið saman páskum og jólum, þá hann
teiknaði myndina, enda telur hún 8 ára börn lítið að pæla
í "þjáningu og ofbeldi" þá þau horfa á mynd af
Jesú á krossinum.
Maðurinn bara hangir þarna svo friðsæll og fagur,
í listrænni sveigju, með dýrðlegan geislabaug um höfuðið.
Með útbreiddan faðminn!
HALLELÚJA!
"Mamma, hann Jesú er bara sofandi, er þakki" sagði húsfreyja eitt
sinn við móður sína í kirkju, og horfði á styttu af Jesú á krossinum
við hlið altarisins.
Þá hefur húsfreyja líklega verið á sjöunda ári.
"Hann er ekki dáinn í alvöru, presturinn segir það, mamma.
Hann lifnaði við og fór heim til pabba síns á himninum"!
Húsfreyja man að mútta hennar brosti að hugleiðingum þessum,
og hvíslaði að henni að það væri nokkuð til í þessu hjá henni.
Svo var það ekki rætt meir.
Það hefur kannski reddað húsfreyju frá því að vera rekin
úr barnaskóla fyrir "ofbeldismyndir",
hvað hún var léleg að teikna hendur og fætur!
Hún teiknaði ALDREI Jesú á krossinum
þá hún skreytti kristnifræðibækur sínar.
Var mun hrifnari af "englum" sem viðfangsefni, enda
hægt að teikna þá í síðum kirtlum sem huldu bæði
hendur og fætur.
Og þurfti ekki einu sinni að lita vængina HVÍTA!
Lét bara pappírinn njóta sín.
Jamm.
Ekkisens endaleysa!
Eða hvað?
Er máske húsfreyja bara í brýnni þörf fyrir
SÁLFRÆÐIMAT?
JEMINN!
Gangið ætíð á Guðs vegum, teiknið krossa, Jesúa og
engla eins og ykkur lystir...verður enginn rekinn
vegna þess hér uppi á litla Fróni.....vonar húsfreyja!
Góðar stundir.
![]() |
Vikið úr skóla fyrir mynd af Jesús |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.12.2009 | 18:15
Ellilegir ellismellir...
...þar með á síðasta snúning hér í
voru jarðlífi, á meðan þeir unglegu
geta horft fram á mörg ár enn í miðju
kreppufári?
Sitja þeir "unglegu" máske spekingslegir
yfir sherry-staupi yfir voðafréttum
fjölmiðla af kreppufordæðunni og glotta út í annað yfir
úrræðaleysi yngra fólksins,
á meðan þeir ellilegu rífa í hár sér
af angist og örvæntingu yfir
hroðalegum örlögum afkomenda sinna?
Þeir " unglegu" slá sér svo kannski á lær, og rifja upp
æsku sína þegar "ein 250 ml. flaska full af
hákarlalýsi var eina "nestið" í vinnuna og
"epli" voru framandi ávextir sem aðeins fengust
í verslunum rétt fyrir jól?
Hinir "ellilegu" gráta hins vegar alla tíð glatað
fé eða týndan arf og velta sér upp úr óréttlæti
og grimmd heimsins.....eða hvað?
Jamm, ekki gott að segja.
En sagan úr vinnunni.
Starfsstúlku klæjaði ægilega í
fótlegg inni í matsal, þegar heimilisfólk
hafði nýlokið snæðingi.
Hún bretti upp á hvítar skálmarnar
á vinnubuxum sínum og klóraði....
aaaaaah!
Öldungur með skerta sjón fylgdist
athugull með, og þóttist sjá einhverja
vonda "bletti" á húð starfskonu.
"Þú ættir að bera eitthvað á þetta góða mín"
Gamli ekkert nema umhyggjan.
"Nú, hvað þá"? spurði starfsstúlkan.
"Kattarhland" kom svarið að bragði.
Húsfreyja vill annars ræða örlítið "íþróttaiðkun"
um heim allan í háheilagasta mánuði allra
heilagra mánuða, sem sagt "desember"!
Hér á árum áður man húsfreyja ekki eftir
að fótboltaleikir á útivellum hafi verið stíft stundaðir,
á veturna, og því síður frjálsar íþróttir utandyra.
Eitthvað var samt gaufað og gutlað í inniíþróttum
s.s. handbolta, blaki, sundi, frjálsum innandyra og
þess háttar smotteríi.
EN NÚNA!
Nú er bara allt hringlandi snarvitlaust í ÖLLU sporti,
svo illilega kolbrjálað að venjulegt "hóflega hrifið af íþróttum-fólk" eins
og húsfreyja kemst ekki að tölvuborði dögum saman.
Bóndi húsfreyju situr um kompjúterinn líkt og
bandamenn forðum um Berlín í lok stríðs.
Dirfist húsfreyja að nálgast gripinn, og tylla sér á
blábrúnina á skrifstofustólinn, fer fyrir henni eins og
njósnurum seinni heimsstyrjaldarinnar.
"Skotin á færi"!
Aftaka án dóms og laga!
Eftir 3 sekúnda lestur á málgagninu á netinu:
"ERTU EKKI AÐ VERÐA BÚIN"?
Eftir að hafa setið í 10 mínútur að prenta út
sumarmyndir af átta ára djásninu til að föndra í
jólagjafir og jólakort:
"ÞARFTU AÐ GERA ÞETTA NÚNA"?
Eftir að hafa kíkt á ímeilið í annað skiptið "í vikunni":
"ÞARFTU AÐ SKOÐA PÓSTINN 5 SINNUM Á DAG"?
Húsfreyja spyr:
Hvað með jólaskapið, huggulegheitin yfir kertaljósi
rómantík og gjafmildi?
Hugsanir um ástvini, þarfir þeirra og langanir á jólum?
NEIPP!
"Það er MJÖG MERKILEGUR fótboltaleikur í kvöld.....
Tiger Woods er með hjónabandið í djúpum....djö..
er þetta flott hjá Sölva, bestur í dönsku úrvalsdeildinni....
djísuss...Hreiðarson fékk "gula spjaldið" fyrir það eitt að
ganga eitthvað álappalega af velli.....OLE..börsungar að
gera það gott"!
Jamm.
Húsfreyja á næst "pantaðan" tíma í kompjúter sínum
þann 17. maí 2010 klukkan 17:17 og þá í 17 mínútur.....en bara ef
Hreiðarson hefur lent í leikbanni í 2 leiki
fyrir að snýta sér í átt að dómaranum.
Jamm og jæja.
Aldrei dauður tími á heimili húsfreyju.
Er ALLTAF í boltanum...hvort sem henni líkar betur eða verr.
Samt búin að föndra 2 jólagjafir, skrifa og senda einhvern
slatta af jólakortum, skreyta heimilið og versla helming af jólagjöfum.
Þrífa glugga og taka til í skápum.
Bóndi?
Bóndi þrífur skápa af miklu kappi...í "hálfleik".
Átta ára djásnið er á innsoginu, því það eru jú...
..."að koma jól"....
"Það er'að koma jól"...trallallala.
Góðar "fótboltastundir" á aðventunni.
![]() |
Segja unglega einstaklinga lifa lengur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.12.2009 | 20:48
Stjórnsöm kona?
Nóttin hafði verið annasöm.
Uppsölur og kveisa hjá bónda, með
harðahlaupum á salernið.
Húsfreyju varð ekki svefnsamt.
Átta ára djásnið fékk hroðalega martröð,
og hrökk upp nötrandi og skjálfandi
rétt fyrir kl. 4.
Bóndi þá loks að komast í ró, en
húsfreyja varð að stjákla á fætur,
skella disk í DVD-tækið, og búa um
þær mæðgur frammi í sjónvarpsholi.
Djásnið með mergjaðan kvíðahnút
í maganum, eftir martröðina og náði ekki að
sofna fyrr en rétt fyrir kl. 6.
Húsfreyja blundaði stuttu seinna.
Ræs klukkan 11.
Barnó.
Húsfreyja örþreytt.
Mygluð!
Pirruð!
Húsfreyja straujaði þreytuhrukkurnar úr
andlitinu, skellti sér í bað og fór í skipulagsgír.
Vasaðist í þvotti.
Skipaði djásninu að setja allt sitt óhreina tau
í þvottakörfuna.
Þvoði og hengdi upp.
Bóndi bakk í bólinu eftir "uppsalaskemmtun"
næturinnar.
Reif sængurföt af rúminu, húsfreyja.
Þvoði.
Skipaði djásninu að klæða sig.
Taka til á eldhúsborðinu eftir sig og læra
fyrir jólaprófin í næstu viku.
Djánsið hlýddi í einu og öllu, en gjóaði
athugulum augum á húsfreyju af og til....
konan var greinilega í ham.
Kattarrófan var eitthvað að væflast fyrir fótum
húsfreyju, þrátt fyrir fullan matardisk og nýtt vatn
Húsfreyja tók kött upp, bar fram að sólpallsdyrum,
setti í band og skipaði ketti út!
"Það er fínt veður köttur, þó að pallurinn sé
örlítið blautur. Nú ferð þú út og klórar í staurinn
þinn, fyrr færðu ekki að koma inn aftur".
Húsfreyja smellti aftur hurðinni á eftir sér.
HANA!
Djánsið horfði rannsakandi augum á móðurina....
"hélt konan virkilega að það væri hægt að skipa ketti fyrir"!
Hún fór samt út að stofuglugganum og fylgdist með
athöfnum læðunnar.
Sú ráfaði um pallinn smá stund að leita að þurrum blettum
til að stíga á, settist svo óæðri endann við hliðina á
klórstaurnum og dæsti mæðulega.
Leit ásakandi yfir að stofuglugganum.
Djásnið settist, "hah, þýddi lítið að reyna að stjórna köttum".
Leit íbyggin á húsfreyju sem braut saman þurran þvott í gríð og erg.
Í því stóð kattarrófan upp, teygði sig upp eftir staurnum sínum,
og KLÓRAÐI!
Djásnið starði á köttinn furðu lostin, sem klóraði
í makindum, og kom síðan að hurðinn, mjálmaði...
vildi inn.
Djásnið glotti og opnaði fyrir ketti sínum:
"Jahá, hún hefur sín fyrirmæli"!
Húsfreyja skellti upp úr.
Pirringurinn rokinn út í veður og vind.
Bauð átta ára djásninu í skottúr í Þorlákshöfn,
í leik og fjör með frændsystkinum sínum.
Góðar stundir og munið að stjórnsamar konur í ham
geta jafnvel fengið ketti til að klóra.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.12.2009 | 18:25
Nýjan skóflustungumokara?
Ó, nei!
Ekki aftur!
PLÍS!
Var svo asskoti verklegur bakhlutinn
á Hönnu Birnu í dag hér í "mokaradjobbinu"
uppi í Spöng seinni partinn.
Og það þó jörð væri gaddfreðin í 5 stiga frosti.
Ætli hún sé nokkuð farin að hugsa fyrir að "moka"
fyrir nýjum Reykjavíkurflugvelli?
Brýnir máske stunguskófluna á meðan hún upphugsar
"glænýja" staðsetningu á flugvallarófétinu,
og hlær tryllingslega um leið?
En er ekki annars löngu búið að "slá af" alla í borgarstjórn
sem "sýktir" voru af pólitískri spillingu?
Stinga þá í bakið?
Plotta hin hroðalegustu samsæri gegn þeim?
Væna þá um sturlun?
Og það nánast "daglega" um hábjarta "daga"
hér ekki alls fyrir löngu.
"Dagar" pólitískt spilltra borgarstjóra þar með taldir....
og taldir....og taldir.
Ummmm...Villi Vill-einn....Óli F-tveir.....Dagur dúlla-þrír....
"Hættu að telja, þetta er ég".
Og svo mætti "heilög" Hanna Birna fagurlistanna.
Og friðsæld og gleði ríkti aftur innan veggja ráðhússins
við Tjörnina.
Myndhöggvarar allir sem höfðu unnið í akkorði við að
höggva brjóstmyndir af "bakstungnum" fyrrum borgarstjórum
gátu varpað öndinni léttar, og skroppið í langþráð sumarfrí til Spánar.
Jamm.
Þetta var ekta Roy Rogers-hasar í gangi í borgarstjórn, þar sem
borgarstjórum voru brugguð pólitísk banaráð upp á hvern dag
hér í den.
Þjóðhátíð, Jól og páskar hjá öllum grínurum lilta Fróns,
þeir höfðu svo mikið efni að vinna úr, nánast "daglega".
Bara skreppa niður í ráðhús, og menn og konur veinuðu
af hlátri.
Þjóðin veinaði af hlátri.
Og nú vill Óli F. "slá" Hönnu Birnu af!
Brýnir "bakstunguhnífa" í gríð og erg og ræðir "vísbendingar"
um pólitíska spillingu heilagrar Hönnu Birnu.
Myljandi grín, enn og aftur....endalaust.
Jamm.
Okkur fellur alltaf eitthvað til, Frónbúum.
Aldrei "dauður tími".
Og málin eru ALDREI dauð!
EKKERT ÞEIRRA!
Húsfreyja er nánast sannfærð um að
Reykjavíkurflugvöllur verður kominn inn í bakgarð
hennar í fyrramálið....heilög Hanna Birna verður
þar mætt að "moka".
Góðar stundir, og passið vel upp á búrhnífana ykkar.
![]() |
Vill að Hanna Birna víki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2009 | 19:32
Jólaljós á aðventu...eða stórbruni.
Húsfreyja var mætt niður
á Austurvöll með 8 ára djásnið
og Rakel bestu vinkonu.
Kona mælti á norska tungu og
kona "mælti" á táknmáli við hlið hennar.
Sú norska var með hland fyrir hjartanu
yfir kreppuörlögum sinna frónversku frænda,
og óskaði að við næðum okkur fljótt á strik aftur.
Falleg ósk það, þó norskir frændur vorir hafi
ákveðið að bíða með lán til litla Fróns, þar til
"Ísbjargarklafinn" væri kyrfilega festur á frónverksa þjóð,
og Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn hefði lokið sinni blóðtöku.
Jamm!
Íslensk kona, Hanna Birna, titluð borgarstjóri rabbaði
næst um ljósið og vonina.
Verið í embætti borgarstjóra "óvenju lengi", sú góða kona,
mun lengur en síðustu fyrirrennarar hennar sem dúlluðu
sér við að stjórna borginni nokkra mánuði í senn.
En ljómandi góð ræða hjá "þaulsætnum" borgarstjóra,
stutt og "vongóð"!
Jólatréð var glæsilegt.
Húsfreyja reyndi að koma djásninu og Rakel í sjónmál,
svo þær sæju þegar tréð tendraðist upp.
Var töluvert mál, því feður í kringum 190 til tveir metrar
á hæð, tróðu sér stöðugt fram fyrir 8 ára skvísurnar...
og með börn á aldrinum 1-5 ára á herðunum.
Húsfreyja náði þeim loks á svæði þar sem þær náðu að
berja hálfan metra af toppi trésins augum....talið niður...
BINGÓ og það varð ljós!
"Noh"!
"Bara eins og í sköpunarsögunni", húsfreyja glotti
góðlátlega að hugsun sinni.
Myndir teknar af djásni og Rakel undir trénu,
við hliðina á þremur "sænskusyngjandi" túristum,
sem þurftu að fá 25 myndir af sér undir trénu.
Húsfreyja tók tvær.
Þá vildu 8 ára skvísur heim hið snarasta.
Enda töluvert kalt fyrir grannvaxnar 8 ára dömur í
blautum snjógöllum.
Húsfreyja reyndi að freista þeirra með upplestri
Gerðar Kristnýjar, jólasveinum og bangsanum úr
Dýrunum úr Hálsaskógi.
Neipp!
Svo húsfreyja hélt heim á leið, með dynjandi söng
jólasveina í eyrunum.
Á árum áður bjó húsfreyja á Heimaey,
"næst-stærstu" eyjunni í Vestmannaeyjaklasanum....
litla Frón að sjálfsögðu sú stærsta samkvæmt
hógværum og lítillátum Eyjamönnum.
Heldur var minna umstang í kringum jólatré
á Stakkó, kirkjuna og víðar í Eyjum þá, en var í dag niðri á
Austurvelli.
Gott ef Eyjamenn voru yfir höfuð nokkuð látnir vita,
þegar tendra skyldi ljós á bæjarjólatrjám.
Allt í einu voru bara sprottin upp upplýst jólatré
hist og her um bæinn.
HALLELÚJA!
Bara sisona.
Lítið gert úr málinu, þótt trén væru falleg í svartasta skammdeginum.
Húsfreyja man ekki eftir einni jólatrésræðu hjá
Magga bæjó.
Ekki einni.
Mun meira spennandi og meira að gera hjá krökkum að fá að skreyta
aðventukransinn á heimilunum, og systkini börðust
jafnvel um að fá að kveikja á fyrsta kertinu.
Þá voru "rauðar" lafandi slaufur og hangandi upp
eftir grannri spýtu í tísku á aðventukrönsum.
Húsfreyja lítil skotta þá, náði að kveikja í a.m.k.
tveimur aðventukrönsum, og systur hennar
náðu að brenna einn til kaldra kola.
Móðir húsfreyju stillti sínum aðventukrönsum
ætíð upp í "mest 70 cm fjarlægð" frá svalahurðinni
í borðstofunni, og faðir húsfreyju var orðinn
æði snjall í að sveifla "logandi" kransakyndli
á innan við sekúndu út um dyrnar.
Jamm, aðventukransar voru sko hasar.
Faðir húsfreyju bauð móðurinni ein jólin
að brenna bara helvískar "slaufurnar" STRAX,
úti á svölum, áður en þær færu á kransinn.
Og málið væri þar með dautt!
Móðirin afþakkaði pent, en sleppti slaufum
að mestu, bara svona smávegis á milli kerta.
En þá héldu systur húsfreyju, þá pínulítil peð
með ljósa slöngulokka, að þær gætu aldeilis kveikt sjálfar
á aðventukransinum!
Brann til kaldra kola....úti á svölum.
Faðirinn með brunasár á handarbaki í 4 vikur.
Síðan lítið verið notað af slaufum á aðventukransa
í stórfjölskyldu húsfreyju.
Það er ENGIN slaufa á aðventukransi húsfreyju þetta árið.
Aðeins greni, keramíksveinar, kuðungar og jólasnjókarl.
Átta ára djásnið kveikti á fyrsta kertinu seinni
partinn í dag undir vökulum augum húsfreyju sem
stóð 10 cm frá kransi og 30 cm frá svalahurðinni.
En allt fór vel, og það eina sem brann var kertið
sem átti jú að loga.
Átta ára djásnið svo alsælt með snjóinn, og er búin
renna sér á rassaþotu allan liðlangan daginn,
fyrir utan "skreppelsið" á "upptendrunina" niður
á Austurvelli.
Húsfreyja hins vegar að jafna sig af ellihrumleika í baki,
og eftir tvö andlát hjá hennar yndislegu öldungum á deildinni
hennar.
Annð andlátið var nokkuð fyrirsjáanlegt, en hitt kom snögglega upp
og því eru nú tveir elskulegir herramenn horfnir í "Sumarlandið".
Jamm, erfitt að horfa á eftir yndislegu fólki.
"En svona er lífið, Siggi" sagði Júlli á Hlíðarenda gjarnan við
föður húsfreyju, og ekkert nema gott eitt um það að segja.
Gæfan mesta.
Aska og mold. En nægir nokkrum slíkt,
sem notið hefur ritninganna fræðslu?
Vor eirðarlausa öld er hrjáð og sýkt
af efasemd og hræðslu.
Oss voru gefin fögur fyrirheit,
en fæstir vilja þeim í auðmýkt trúa
og nema staðar eftir langa leit
í landi þar sem, sem hryggð og ótti búa.
Oss voru gefin holl og heilög ráð,
er hefja skyldu mannsins líf og sanna,
að barnið skynjar betur drottins náð
en böðlar þeirra Kaífasarmanna.
Vor mesta gæfa er að fæðast feig
og finna guð og ljósið eygja,
en þyngsta raun að þjást af banageig
og þora ekki að deyja.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.
Góðar stundir á aðventu.
![]() |
Tendrað á ljósum Óslóartrésins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2009 | 21:19
Bévítans ellihrumleiki...
...í baki, að hrjá húsfreyju þessa
síðustu daga.
Var að bjástra við blautan þvott
síðdegis á föstudegi, og varð næstum
farlama á eftir.
Ekkisens, árans sviðabruni í mjóbaki með
leiðni niður í fót setti húsfreyju í "farbann"
med det samme.
Komst við illan leik frá rúmstokk og á salerni
næstu tvo daga.
Klæða sig í sokka! Ekki sjens.
Buxur! Mega-vandamál, en þó gerlegt með
mikilli skipulagningu.
Fyrst upp á olnboga, í sitjandi stöðu,
skáskjóta skárri skankanum fram í buxnaskálm,
upp að ökkla. Þá troð verri löppinni í sína skálm
ofurhægt og ofurvarlega...hrópa á 8 ára djásnið
og biðja hana að koma og toga buxnastrenginn það
hátt upp að húsfreyja næði honum án þess að beygja sig
hið minnsta, og BINGÓ málið var leyst.
Síðan legið á hitapoka, bólgueyðandi lyf brudd
og óréttlæti heimsins krufið til mergjar.....og krufið
til mergjar.
Árans vesen að geta ekki þrifið eldhúsgluggann
og sett upp jólagardínurnar.
Ekki einu sinni hægt að pára á nokkur jólakort.
Húsfreyja dæsti og stundi yfir hrikalegu óréttlæti
þessu, einmitt þegar hún ætlaði að byrja SVO SNEMMA
á jólaundirbúningnum....ætlaði alls ekki að vera
með allt í rassi, eins og oft áður.
Jamm.
En húsfreyja er nú öll plástruð upp á japanska vísu,
og er heldur að skána.
Verður orðin "jólagardínufær" um helgina.
Góðar stundir, og passið ykkur á bévítans blauta þvottinum
Bloggar | Breytt 15.12.2009 kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2009 | 17:52
Vitskert af græðgi?
Húsfreyja reynir að fylgjast
með í kreppufári, "Ísbjargarkrísu"
og "góðviljuðum" aðgerðum
Alþjóða gjaldeyrissjóðarins hér
uppi á litla Fróni.
Gömlu bankarnir hrundir og steindauðir,
og Arion, Hagar, Baugur-grúpp ásamt fleirum dansa
trylltan dans í kringum "rotnandi lík" þeirra.
"KLING, KLANG, KISTAN TÓM"!
Ríkisstjórnin rær lífróður til að bjarga því sem
bjargað verður, með myllusteina stjórnarandstöðunnar
um hálsinn og fnykinn af morknaðri útrás í vitunum
og síðast en ekki síst stæka ólyktina af siðspilltum
bankaviðskiptum.
Sauðsvartur almúginn herðir enn sultarólina,
enda í hans verkahring að standa skil á og endurgreiða
"hringavitlaus endurfjármögnunarlán"
útrásarvíkinga og fyrrum bankaeigenda.
Spekingar og spámenn ryðjast inn í fjölmiðla..."þið eigið
að gera þetta svona, en ekki hinsegin...spara milljarða hér
og milljarða þar", þegar málið er að AGS hefur ALLT um málið
að segja hvernig hlutirnir eru framkvæmdir.....og þá þær þjóðir
sem "mestu ráða" innan AGS.
Okkar er EINGÖNGU að BORGA!
Enginn ber ábyrgð á því hvernig fór,
því menn bara svona "misstu tökin á veruleikanum"
í öllum þessum "brjálæðislega góðærisgróða"....sem
reyndist svo aðeins endalausar tölur á pappír eða í
tölvum.
Engir áþreifanlegir peningar.
Merkingarlaust núllerí!
Þá spyr húsfreyja: Urðu útrásarvíkingar allir ásamt
fyrrum bankaeigendum "vitskertir af græðgi"?
Vitskertir!?
Nei, bara svona spyr, húsfreyja.
Því ástandið í þjóðfélaginu er aldeilis ekki gáfulegt í dag.....
...svona meira GJEGGJAÐ......VITSKERT jafnvel!
Húsfreyja er að íhuga alvarlega að HÆTTA að fylgjast
með kreppufréttum, tóm helvísk, botnlaus endaleysa
hvort eð er, sem enginn sér fyrir endann á.
Mun skárra að huga að 4 ára afmæli heimiliskattarins,
"harðfisksafmælisterta" að boði 8 ára djásnsins,
hrósa svo 8 ára djásninu enn og aftur fyrir að vinna íslenskuverðlaun
Menntaráðs Reykjavíkur, kenna henni 8 sinnum töfluna
í stærðfræði, föndra jólakortin, senda veðurguðum
öllum hljóða bæn um kyrrláta og fallega snjókomu
á Aðfangadag því 8 ára djásninu langar svo að hafa
hvít jól, stússa á kringum öldungana í vinnunni
svo þeir eigi gleðileg Jól, skipuleggja piparkökubakstur með múttu
í desember og muna að kveikja á kertum í skammdeginum
verndarenglum öllum til dýrðar og gleði.
Húsfreyja NEITAR að smitast af kreppupakkinu.....
kærir sig ekkert um að verða VITSKERT!
Góðar stundir og gangi ykkur vel með "ólina"!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)