14.1.2012 | 23:14
2011 versus 1971.
Húsfreyja var að glugga í dagbók sína.
"Humm...hálf flatneskjulegt ár 2011...hvorki gekk né rak
í einu eða neinu".
DÆS.
"Tómur barningur á öllum sviðum, meira eða minna" hélt
hún áfram þönkum sínum.
Icesafe-sagan endalausa hélt velli-"Engin Jól án Icesafe" og "ekki
er stefna stefna nema pottþétt- Icesafe, sé".
Heilbrigðiskerfið niðurskorið, sneitt og nagað inn að merg, með verri
gæðum þjónustu í kjölfarið:
Gamla fólkið skorið niður, öryrkjar skornir niður, sjúklingar
að bera gífurlegan kostnað af lífsnauðsynlegum aðgerðum. t.d
konur með brjóstakrabbamein.
Bankasukksagan "óáþreifanlega" og óendanlega hélt sömuleiðis áfram....
virðast innmúraðir og steyptir fastir í sama gamla spillingarsvínaríinu.
Herjólfur sigldi í Sand....nei Land...nei Þorlákshöfn meira eða minna
allt árið. Í Landeyjarhöfn sigldi aðeins aska, aurburður, drulla og skítur...
"in og út um HÖFNINA og alltaf sömu leið"!
Húsfreyja vill láta breyta Landeyjarhöfn í hrísgrjónaakur.
Johnsen skemmti landanum með Skálholtsveseni og fornaldar kirkju-
byggingum en sérstakur saksóknari var staurblankur miðað
við allan þann fjölda mála sem hann þurfti að rannsaka og kæra.
Evran fékk "krónuveikina" og dúndraði niður í víti bankaspillingar, hruns
og kreppu.
Gnarrinn skeit upp á bak í skólamálum, og hóf að sameina og búa til
stærri barnaskólabákn, með minni yfirsýn og verri kennslu fyrir
nemendur í höfuðborginni.
En Harpan sló í gegn hjá þeim sem enn eiga nóg af peningum,
og VIP-partýin voru haldin grimmt og galið þar niður við höfn...
en engin partý haldin fyrir fólkið sem er að BORGA fyrir Hörpuna.
Þá sjaldan sem einhverju af litla fólkinu tekst að aura saman fyrir
tónleikaferð í Hörpuna, er því refsað grimmilega með
mörg þúsund króna stöðumælasekt, vegna háleynilegra
neðanjarðabílastæða, með borgunarkössum á vel földum
stöðum, sem ekki einu sinni bílastæðaverðir Hörpunnar vita hvar
eru.
Stjórnin.....ja stjórnin, er stjórnin og Jóhanna, og svo eru auðvitað
"djöfulsins snillingarnir" í stjórnarandstöðunni-gullin af bláu mönnunum.
Orð Haarderans: "Guð blessi Ísland" plús viðbót frá
húsfreyju: ..."með þessa alþingismenn" eru orð í tíma töluð...skrifuð?
En merkilegt nokk gekk árið þokkalega upp hjá húsfreyju sjálfri.
Sumarið var frábært, sumarfríið og ferðalögin um landið best.
Engin dó eða veiktist alvarlega, sem er fyrir mestu.
Vinnan var klikk...en það hefur hún verið árum saman, svo þar er ekkert nýtt.
Fjárhagurinn bévítans basl og óréttlæti, en sömuleiðis eins og venjulega.
Svo húsfreyja þokkalega ánægð með sitt ár, en fór þá að hugsa um árið
1971 á því herrans ári er hún varð ellefu ára.
Hvað vorum við Frónbúar að brasa fyrir 40 árum?
Þá bjó húsfreyja enn í Eyjunum sínum í Grænuhlíð 20, alsæl í faðmi
grösugra fjalla, blás himins, sægræns sjávar og yndislegrar og
áhyggjulausrar bernsku, svart/hvíts sjónvarps-sumarfrí í 3 mánuði og ALDREI-
sjónvarps á fimmtudögum. Talva? I-Pad hvað?
Samt var ýmislegt á seiði í þjóðfélagi Frónbúa.
"Opinber rannsókn á reikningum Rannsóknaráðs ríkisins".
Þar allt í óreiðu með síma, ferðakostnað og risnu.....eitthvað
kunnulegt við þetta allt, er mat húsfreyju, þó hún hafi ekki hugmynd
um, hvaða störf Rannsóknaráð ríkisins vann.
Handritin mættu heim frá Danmörku, og Baunarnir flögguðu í
hálfa stöng, er íslensku handritin voru sett um borð í herskipið
á leið til Íslands.
Jaso, hve margir Baunar skyldu hafa vitað um forníslensku handritin og
innihald þeirra, eða haft getu til að lesa þau? Skyldu þeir enn sakna
handritanna, minnast þeirra og draga Dannebrogen upp í hálfa 19. maí?
Svo var það Saltvíkurhátíðin alræmda í byrjun júní '71- um Hvítasunnu.
Hófst sem hátíð "friðar, sátta og samlyndis", en tókst sem betur fer
að snúa henni í hátíð "leðju, ölvunar, roks og rigningar".-Saltstokk '71?
Landinn fékk léttan stresshroll í apríl. '71, þegar nokkrir frónverskir sveinar ákváðu
að stofna "skæruliðasamtök" uppi á litla Fróni, og ætluðu að sprengja
mann og annan með stolnu dýnamíti .
Hippamenningin blómstraði, en sturlaður maður myrti konu sína
fyrir norðan og lubbi var bannaður af KSÍ, fékk enginn "lubbi" að
keppa með landsliðinu við Frakka, það árið.
Hárskerar kvörtuðu um atvinnuleysi...enda enginn maður með
mönnum árið 1971 nema með axlarsítt hár og toppinn oní augu.
Geysir í Haukadal gaus....sápulaust.
Bretar urðu brjálaðir enn og aftur út í Frónbúa, vegna hundabanns
í höfuðborginni við sundin bláu. Töluðu um "geðsjúka hundahatara"
í fjölmiðlum, Tjallarnir..
Svíarnir tóku í sama streng "Leyfið hundunum að lifa"- Lat hundene leva!
Hasshundurinn hinn fyrsti kom til landsins.....hann fékk að lifa.
Tollverðir berháttuðu Færeyinga...
Eyjamenn fylltu eyjuna af loðnu.
Þjóðartekjur jukust um 10,5 %.
Uppstoppaður geirfugl var keyptur inn í landið á 1.9 milljónir.
Glaumbær brann og fólkið fann sér annan samastað.....osfr.
Jamm, aðrir tímar árið 1971 en Frónbúar samt alltaf einhvað að brasa.
Betri tímar?
Húsfreyja lætur aðra um að meta slíkt.
Góðar stundir og gleðilegt ár 2012.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2012 | 20:29
Auglýst eftir SAKBITNUM bankamönnum...
... á litla Fróni"
.
Húsfreyja var að dudda í fréttalestri inn á Vísir, og rakst
á þessu makalausu frétt.
"Síðan hvenær, hafa bankamenn verið "sakbitnir" hér uppi
á litla Fróni"? hugsaði húsfreyja rasandi.
Bankahrun, landið fallít og krónan verri en rotnandi dauð....
allt "litla fólkinu" í landinu með flatskjána sína að kenna!
Spyrjið bara hvaða fyrrum bankaeiganda sem er, eða stórfjárfesta og útrásavíkinga
með hauga af fyrirtækjum í pósthólfum á Tortóla.
Enda eins gott, að það vorum VIÐ "litla fólkið" sem skitum upp á bak,
en ekki bankamennirnir, fjárfestarnir og útrásarvíkingarnir,
því við erum altént "borgunarfólk" fyrir bankahrunssvínaríinu....
annað en hjá banka-/þotuliðinu, þar sem eina ráðið er að "afskrifa" skuldirnar,
svo það missi ekki hallirnar ofan af sér, geti endurnýjað Rolexúrin sín og
jeppaflotann sinn reglulega og áfram skroppið í heimsreisur 2-3 á ári.
Enda lágmark að fá að halda þessu "smotteríi",
þar sem búið er að taka fyrir "Elton John-afmælisveislur",
einkaþotueign og "óáþreifanleg" hringavitleysukaup og sölu, með tilheyrandi
milljóna þóknunum hjá blessuðum fyrrum "milljarðaeigendum" litla Fróns.
Neipp, SAKBITNIR bankamenn og auðjöfrar uppi á litla Fróni, telur húsfreyja að séu
sjaldgæfari en fuglar þeir er geirfuglar nefnast.
Húsfreyja telur næsta víst, að Sierra listamaður sá er
auglýsir eftir "sakbitnu" fólki af þessu sauðarhúsi,
fari villu vegar í leit sinni hér á norðurhjara.
Verði sá góði listamaður að fara langt út fyrir landsteina vorrar þjóðar,
að finna einn "sakbitinn" bankamann.....og kannski jafnvel út fyrir
sólkerfið sjálft.
En sakbitna "flatskjárkaupendur" með bankahrunsmyllusteininn utan
um hálsinn, og "óafskrifaðan" skuldaklafann á herðunum,
getur hann hins vega fundið hér í heilu helvísku haugunum.
Já, og þúsund tonna grjótið sem við öll, litla fólkið drögum á eftir okkur
í keðju um ökklann, kallast "Icesafe".
En við erum máske ekki nógu merkilegur pappír fyrir svo frægan
listamann, sem Sierra.......?
Hvað veit húsfreyja?
Góðar stundir og megi þið öll hafa efni á að sækja listsýningar og listrænar
uppákomur a.m.k. einu sinni þriðja hvert ár.
Spaugilegt | Breytt 16.1.2012 kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2012 | 22:03
Ónotaleg gull af mönnum.
Það er ekki nokkur spurning að sjálfstæðismenn
eru fremur "ónotalegt" fólk í huga húsfreyju.
Það hefur bitur reynsla hennar af áratuga veru þessa flokks
í stjórn landsins á árum áður kennt henni.
Undir stjórn sjálfstæðismanna hefur viðgengist
fordæmalaus spilling í stjórn landsins árum saman, ásamt vanrækslu og lítilsvirðingu í
garð þjóðarinnar að mati húsfreyju.
"Leppflokkar" þeirra sjálfstæðismanna, þ.e. flokkarnir
sem þeir velja með sér í stjórn, eru síða þægilegir
"sökudólgar" þegar upp kemst um svikin kosningaloforð,
spillingu og óstjórn.
"Framsóknarmaddaman" var hreinlega líflátin, hengd, snúin úr,
steikt og steindrepin, eftir áratuga
"syndaburð" með sjálfstæðismönnum í stjórn.
Einu ástæðuna fyrir því að ekki er búið að kjöldraga,
sökkva og drekkja Samfylkingunni, telur húsfreyja vera sú,
að "heilög Jóhanna" tók við forystu þess flokks.
Sú kerla er seig, hörkudugleg og rær nú lífróður fyrir þjóðina, eftir að taka við versta
klúðri sjálfstæðisflokksins...EVER.
Verst að konan sú er með heilmikið af "jólasveinum" í stjórn með sér,
sem hringsnúast eins og "bollarússibanar" í tívolíi....óvanir að
vera ekki einvörðu "leppar" fyrir Sjálfstæðiflokkinn.
Samt skárra að hafa "jólasveinana" en "ónotalegu gullin af mönnum"
í stjórn.
Og sjálfstæðismenn mega alveg vera með "vonda tilfinningu",
húsfreyja, og hana grunar að hún sé ekki ein um það,
lifði með "vonda tilfinningu" í mörg ár, á meðan þeir sátu
á ráðherrastólum.
En Skaupsfólk stakk beint á meinin sjálfstæðismannanna um
áramótin...og snéri reyndar hnífnum í sárunum hressilega...
en þannig eru nú einu sinni Áramótaskaup, og húsfreyja telur
að sjálfstæðismenn hafi átt skilið kaldar kveðjur frá þjóðinni.
Allir fengu sinn skammt, Jóhanna og Steingrímur einnig.
Húsfreyja er sátt við sitt Áramótaskaup, þó nokkrum sinnum
færu menn og konur þar yfir strikið.
En það er einlæg von húsfreyju að gott og heiðarlegt fólk
"allra" flokka á Alþingi sameinist um að koma þjóðinni
út úr þrenginunum, skapi sér þannig góðan orðstý og geti verið stolt
af verkum sínum.
Verkin verða síðan metin í Áramótaskaupi 2012....
Góðar stundir.
![]() |
Ónotatilfinning sjálfstæðismanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2011 | 19:27
Hvít klessa...
...með dramatísku "Húsvísku ívafi" gæti þetta
"listaverk" heitið" hugsaði húsfreyja þar sem hún
stóð á útidyratröppum sínum, og horfði út á bílaplan sitt
í morgunsárið.
Bóndi hafði þrælað henni á lappir fyrir allar aldir, til að
aka henni til vinnu á sínum eðal "fjórhjóladrifna" vinnubíl.
Tvíhjóladrifna drusluverkið sem húsfreyja annars brúkaði
til að komast frá A til B og svo heim aftur, var fennt inni í
bílskúr.
Húsfreyja horfði á bónda sinn láta vaða aftur á bak yfir
stóran skafl, þar sem nokkrar sekúndur sá fjórhjóladrifni
sat fastur á "maganum", á meðan hjólin fjögur súrruðu
vinalega í lausu lofti...súnkaði drossían síðan niður aftur og
bóndi ók í glæsilegum sveig að tröppunum þar sem húsfreyja stóð.
Húsfreyja óð fönn upp fyrir hné að bifreið bónda, og geispaði
ógurlega er hún settist inn.
Saknaði strax 20 mínúta svefnsins, sem fannfergið hafði haft
af henni.
Bóndi talaði í sífellu um glussa, snjómokstur og lykla að því
virtist við sjálfan sig, nema notaði af og til nafnið Gunni.
Húsfreyja gjóaði svefnþrungnum augum á bónda...."var hann
að tapa sér, varla kallaði hann sjálfan sig Gunna"?
Neipp, bóndi var kominn með litla dótaríið á eyrað á sér,
og var að ræða við samstarfsfélaga sinn um verkefni dagsins
á öldum símafyrirtækis.
Húsfreyja dæsti mæðulega.
SNJÓR.
Og meira en nóg af honum.
Datt þá í hug samræður sem hún hafði átt við 10 ára djásnið
nokkrum dögum fyrir Jól, þar sem djásnið sagði eftirfarandi:
"Mamma, við krakkarnir segjum að Guð sé í "freyðibaði" þegar snjóar
svona mikið".
Húsfreyja glotti að hugsun sinni í bílnum, " já, og notalegt hjá þér
Almættinu að þurfa að vera brasa í freyðibaðsstússi beint
yfir litla Fróni í miðri vinnuviku" sendi hún upp til himnaföðursins.
"Gastu ekki æruverðugur, dúndrað þér í baðið fyrir Jól, svona til
heiðurs fæðingu sonarins, og látið það duga"?
"Kæra vinkona" kom svarið jafnskjótt mildilega og glettið, "sonur minn
fæddist ekki í desember, þó þið elskulegir mennirnir haldið upp á
fæðingu hans þá". Hér hló hinn heilagi svolítið, " ef ég man rétt er
hann fæddur í september, og þá líklega í merki Meyjunnar líkt og þú".
Almættið ræskti sig og hélt áfram; "Enda var hann heiðarlegur, mannúðlegur,
fórnfús hugsjónamaður, vinnusamur, kærleiksríkur,
gagnrýnin og pottþéttur líkt og margir í Meyjamerkinu, og það mættu
margir taka sér hann til fyrirmyndar þarna hjá ykkur á jörðinni".
Það var ekki laust við, að húsfreyju findist svolítill áminningartónn
í rödd hins háheilaga.
"Já," svaraði hún dræmt, " en það þýðir nú lítið að bera mig "arman
fjármálavitleysing með 4 ára gamlan flatskjá" á skeri úti á miðju Ballarhafi,
saman við son þinn, herra minn.... og það þó að ég sé í Meyjarmerkinu.
Mín skástu og stærstu kraftaverk eru þegar mér tekst að hjálpa tíu ára djásninu
með níu af tíu dæmum í heimalærdóminum í stærðfræði. En þetta tíunda dæmi
er oft svo hrikalega frústrerandi óskiljanlegt, að ég þyrfti hjálp frá Albert Einstein,
til að fá botn í það".
"Kæra vinkona" nú hló hinn guðlegi upphátt, "og heldur þú að
þú fáir ekki hjálp frá mér einnig, þegar þið eruð að basla við
stærðfræðina saman, mæðgurnar"?
"Jú, það er akkúrat málið, æruverðugur, ég reikna með henni tvö
dæmi og síðan reiknar þú næstu sjö með henni með mig sem millilið...
og þá er bara þetta eina dæmi eftir sem "hvorugt okkar" kann þá að
reikna....merkilegt nokk......(úps...húsfreyja hér að móðga Almættið...
skíta upp á bak....reyndi að bjarga sér fyrir horn...),
en mér finnst nú reyndar algjört kraftaverk að klára heil níu dæmi".
Almættið hló hjartanlega, "Altént ertu með húmorinn í góðum gír, vinkona
og ég reikna með því að við förum að klóra okkur fram úr tíunda dæminu
fljótlega, ef við leggjum höfuðin saman í bleyti. En blessaðan snjóinn
tel ég að trufli þig og landa þína lítið, þið eruð öllu vön".
Og bóndi stöðvaði bifreiðina í snjóskafli fyrir framan vinnustað húsfreyju,
og húsfreyja þakkaði farið og óð snjóinn inn.
Húsfreyja tróð síðan slóða í fannfergið upp í Spöng eftir vinnu á tveimur jafnfljótum,
keypti í matinn, og fór létt með.
Nágranninn mokaði slóða að ruslatunnunni, svo sorphirðukarlar hirði
ruslið-afleitt ef nýtt ár angar langar leiðir af rotnandi matarleifum.
Truflar okkur ekki mikið snjórinn, ef við hjálpumst að.
Góðar stundir.
![]() |
Snjóþyngsti desember frá 1984 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2011 | 17:47
Íslandi stefnt.
Jaso.
Nokkuð fyrirsjáanlegt.
Mister Brown gerði okkur, íslensku þjóðina og arma fjármálavitleysinga
í ofanálag, að hryðjuverkamönnum, svo næsta víst var að
EFTA myndi stefna okkur fyrir að neita að greiða fyrir fáluna hana "Ísbjörgu".
Lengi hægt að kroppa í sama sárið, ef út í það er farið.
Ríkisábyrgð eður ei, virðist húsfreyju vera ansi stórt mál,
þegar kemur að Icesafe.
Og er ríkisábyrgð þá eitthvað sem skal eingöngu dynja yfir
frónverska þjóð í kreppu, eða verða þjóðir víða um Evrópu
gerðar ábyrgar fyrir hruni banka sinna?
Er ríkisábyrgð lögleg eður ei?
Ekki gott að segja.
Er húsfreyja áhyggjufull vegna stefnu þessarar?
Nei.
Þetta mál er komið í vinnslu.
Við frónverska þjóðin ágætlega í stakk búin að rökstyðja, þrasa og þrátta.
Orð eru okkar megin.
Tíminn mun einnig vinna með okkur, er skoðun húsfreyju.
Spyrjum að leikslokum.
En að öðru.
Húsfreyja horfði á Kastljós líkt og fleiri í gærkveldi, og varð
hálf bumbult eftir þann þátt.
Vill gjarnan að fyrrum pappírspésar í bönkum og fyrirtækjum sem
dunduðu sér við að "lána sér" fyrir, kaupa og
selja sjálfum sér "eitthvað óáþreifanlegt",
og borga sér SJÁLFUM síðan milljónir ofan milljónir
í þóknun fyrir viðskiptin, geri grein fyrir því í HVAÐ
þeir notuðu þóknunarpeninga sína.
Einhvers staðar hljóta þeir aurar að liggja, og væri nógu fjandi
gaman að vita fyrir hvurn fjandann frónverska þjóðin var
að greiða á formi "þóknuna" hér fyrir hrun.
Eru þetta máske risaeign, eins og allur símabransinn í einhverju fyrrum
austur-Evrópulandinu, líkt og einn ágætur "útrásarvíkingur"
er sagður eiga?
Hótelkeðjur í Dubai?
Lystisnekkjur?
Einkaþotur?
Sumarvillur upp á 2000 fermetra við Miðjarðarhafið?
Eða eru þetta máske bara þúsundir "fyrirtækja til húsa í póstkössum" á
Tortóla?
Nei, húsfreyja vill bara gjarnan fá að vita, hvað varð um
alla þessa peninga.
Veit að það flökrar ekki að "eigendum" þeirra, að skila þóknunum þessum
aftur til bankanna og þjóðarinnar.
Og það þó þjóðin sé eitthvað
ósátt við að "eitthvað óáþreifanlegt" sé svona fjandi
dyrt að höndla með, að það rúlli upp heillu bönkum og fellii
tvist og bast og setji heilu þjóðirnar á hausinn.
Neipp.
Húsfreyja var rasandi eftir Kastljósþátt þennan.
Að höndla með "óáþreifanleika" er þjóðinni gjörsamlega GAGNSLAUS viðskipti,
og ekki nóg með það, slík viðskipti skaða orðstý þjóðarinnar.
En út að ganga í frostinu næst.
Góðar stundir og látið ekki fáluna hana Ísbjörgu eyðileggja
fyrir ykkur jólaskapið.
![]() |
ESA stefnir Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2011 | 20:57
Miðaldarfár og....
... fjúkandi afhöggnir hausar með galdrabrennum
og hverju ekki á þeim myrku tímum, komið í fréttir
og sjálfsagt verið að rifja upp
blóðþorsta og brjálæði í garð kvenna
á þeim árunum" var það fyrsta sem húsfreyju kom í hug,
er hún las fyrirsögnina á frétt þessari.
Neipp.
Alrangt.
Húsfreyja að vaða í villu og svíma.
Frétt frá Sádí-Arabíu á vorum dögum, á 21 öldinni.
Kona hálshöggin fyrir kukl og galdra.
Tarna er ljóti ófögnuðurinn í réttarkerfi Sáda.
Þar þykir besta mál að menn duddi sér við að höggva höfuðin af fólki,
fyrir hina ýmsu glæpi; þjófnaði, morð, nauðganir (ekki víst heldur,
að fórnarlömb nauðgana sleppi lifandi, fremur en gerendur)
og svo auðvitað fyrir höfuðsyndir eins og að afneita trúnni
og fyrir það að kunna eitthvað fyrir sér í grasafræði.
En húsfreyju þykir ekki líklegt að foreldrar kenni almennt
börnum sínum galdra og kukl í henni Sádí, því trúin bannar
allt slíkt stranglega og hausinn er að veði leggi fólk út í slíkt.
Hins vegar kunna margir til verka með grös og jurtir,
ljósmæður og læknar til forna brúkuðu slíkt óspart,
og húsfreyja telur að slík kunnátta sé enn við líði
víða um heim, þar sem heilbrigðiskerfið er bágt
og aðeins á færi þeirra ríku að sækja slíka þjónustu.
Galdrar og kukl?
Varla.
En blessaðir Sádarnir stíga ekki í miðaldarvitið.
Brýna sveðjur sínar grimmt og spýta við tönn.
Og hausar fjúka.
Þjóð í fangelsi fornra siða og grimms hugsunarháttar.
Því er ver.
Góðar stundir á kærleiksríkri jólaaðventu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2011 | 00:56
Á Jólunum finnst köttum gaman...
...fúmm...fúmm...FÚMM.
Þrjá brjálaða hringi eftir veggjunum á stofunni.....VRÚMM...
ráðast í fimmta sinn á kassann með jólaskrautinu....
klór...skrap...nag...nag...KLÓR.. aftur á fljúgandi fart...VRÚMM..
og fleygja sér fagnandi ofan í tóma pappakassann,
sem á að fyllast af jólapökkum á leiðinni norður......"mjaaaavrrr...
unaðslegt leikfang fyrir drottningu eins og mig".
Breytast í ægilega grimmt tígrisdýr sem liggur í leyni
fyrir bráð sinni...HVÆÆÆS....MJAVRRRR....
Tíu ára djásnið hlær dátt að kisu sinnu, þó hún
sé illa klóruð á höndum eftir brjálaðan leik við
dýrið alla daga síðan fyrsta í Aðventu.
Húsfreyja, líka klóruðu á handarbaki eftir köttinn,
lenti óvart í hlutverki hægfara, seinhugsandi kvöldmats
"tígrisdýrsins" , ráfandi í villu og svima inni í miðjum
(pappakassa-) frumskóginum, er búin að sópa
gólfið 5 sinnum á dag síðustu vikuna.
Pappírssnifsi í löngum ræmum, skreytir að öðrum kosti stofu hennar alla daga.
Pappakassar eru allir reittir og að fara í hengla.
Svo heimtar köttur ÚT.
Húsfreyja fegin að losna við pappakassaskaðvaldinn út
svolitla stund, hleypir ketti út á pall.
Köttur spígsporar á þófum sínum, eins og tískudrós á
20 cm. pinnahælum í snjónum.
Klikkast síðan algjörlega, þegar snjókornin falla niður
jafnt og þétt á pallinn.
ARRRGH! INNRÁS HVÍTU, KÖLDU OG BLAUTU GEIMVERANNA ER HAFIN.
En "NO WORRIES"!
DRÁPARINN MIKLI "BRANDA HELLCAT SNOWFLAKEKILLER" er mætt.
Og nú eru sko setið um snjókornin, stokkið á þau,
og þau DREPIN!
Húsfreyja reynir að finna stofugólfið sitt aftur, á meðan
kötturinn trompast úti á sólpalli.
Tíu ára djásnið hlær svo mikið af kattarrófunni, að hún tárast.
En svo: "Mamma, Branda vill komast inn aftur".
Húsfreyja lítur í átt að stofuglugganum með kústinn á lofti.
Á miðjum gluggapóstinum hangir læðan, angistin uppmáluð.
"MJÁÁÁáááá.....hjálpið mér svöngum, vesælum, örmum og
köldum ketti....mjáááá...ég á svo bágt".
"Je ræt" hugsar húsfreyja, " búin að vera úti í 6 og 1/2 mínútu"!
Djásnið hleypir kettinum inn.
Sú ferfætta skokkar léttum skrefum framhjá húsfreyju,
sigri hrósandi, virðir hana ekki viðlits.
Snöflar í sig nokkrum kornum úr matardall sínum inni í eldhúsi.....en..
sér að "ferfætta hárlausa þjónusta" hennar var að bjástra eitthvað
með "prikið" inni í stofu......VRÚMM....þrír brjálaðir hringir eftir veggjum
stofunnar, snarstans og ráðist á pappakassann með jólaskrautinu...osfr.
Húsfreyja telur nú að hún sé komin með spádómsgáfu mikla, á gamals aldri.
Spáir því að jólahreingerningum verði SEINT lokið þetta árið á
heimilinu.
Spáir því ennfremur að pappakassar verði ARFAÓVINSÆLIR undir jólaskraut
á heimili húsfreyju...svo að jafnvel verði að splæsa í
í eðal plastkassa frá Rúmfatalagernum þá Þrettándinn rennur upp.
Og síðast en ekki síst, sér hún fyrir sér að tími sá sem
heimiliskötturinn eyðir sofandi á rúmteppi inni í
hjónaherbergi, "bak við luktar dyr",
muni LENGJAST að miklum mun yfir hátíðarnar.
En gangi ykkur vel með jólaundirbúninginn, og megi
öll ykkar gæludýr vera "pollrólegir pappakassahatarar".
Spaugilegt | Breytt 30.12.2011 kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2011 | 20:43
Að lokum sigursæl þjóð.
Margt hefur verið misjafnt sagt um "heilaga" Jóhönnu og
ríkisstjórn hennar, en það má hún eiga að hún hefur róið
"lífróður" til þess að bjarga því sem bjargað varð í hruninu.
Og þó húsfreyju sem öðrum Frónbúum gangi illa að finna
"skjaldborgina" heimilanna, þá viðurkennir húsfreyja fúslega,
að hún hefur það yfirleitt þolanlegt og svo bara nokkuð ágætt af og til.
Á nóg að bíta og brenna, þó lífið hafi verið bæði auðveldara
og fjárhagslega tryggara fyrir hrun.
Hefur þjappað þjóðinni saman, að lenda í þessum hremmingum.
Við styðjum við bakið á þeim sem minna mega sín, eftir sem áður...
skiptir engu þó fjárhagurinn sé almennt bágari.
Mottó húsfreyju er: "Ég er jafndauð fjárhagslega, þó ég
gefi einhverjar 10- 15.000 krónur í hjálparsamtök eða líknarfélög
tvisvar eða þrisvar yfir árið".
Húsfreyja telur næsta víst að hennar ágæta frónverska þjóð
muni lifa hrunið og kreppuna af, líkt og flestar aðrar hremmingar sem
á hana hafa skollið.
Við höfum lag á því að sigrast á flestum okkar erfiðu áskorunum með
seiglunni, fúllyndinu, kaldhæðninni, samstöðunni og lífsgleðinni.
Stundum detta ríkisstjórnir okkar niður á snjallar lausnir,
og síðan rata þær einnig í tómar ógöngur, spillingarsukk og svínarí.
Og þegar illa fer er velferðarsamfélagið okkar skorið niður....og skorið niður.
Hagur okkar versnar um tíma og þjónustunni hrakar.
Við erum þessu alvön.
Spýtum í lófana.
Borgum brúsann.
Bölvum helvísku skítapakkinu á Alþingi.
Hötum fjórflokkana.
Erum brjáluð út í gjörspillt bankakerfið og stjóra þess með einhverja
djö.... verðtryggingu á lánum, sem hvergi þekkist á nokkrum stað
á jarðarkringlunni nema hér.
Sendum fégráðugum og spilltum pappírssnepla-víkingum tóninn-
glataður orðstýr þeirra vinnst ekki aftur.
Og við lifum AF.
Sigurinn er okkar, því við erum kjarni þjóðarinnar, ísinn og eldurinn,
hugarorkan og framkvæmdaraflið.
Góðar stundir.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2011 | 18:28
Heyr, heyr!
Mikil góðvild og greiðasemi Færeyinga
í garð okkar Frónbúa er með eindæmum.
Okkar bestu frændur, er mat húsfreyju.
Við eigum að hrinda af stað söfnun, og koma þeim til
hjálpar nú í svartasta skammdeginu.
Ekki gott fyrir litla þjóð sem Færeyinga, að
fá fárviðri með stórtjóni rétt fyrir Jól.
Breytir engu fyrir okkur Frónbúa, þó við
sendum nokkra þúsundkalla hver, til Færeyinga,
erum jafn-dauð fjárhagslega hvort eð er.
Er einlæg von húsfreyju, að vinir okkar Færeyingar
nái að jafna sig vel af báli þessu, sem fyrst, og eigi
gleðileg Jól.
Getur ekki Öggi hætt að ergja sig á landþurfa
kínverjum, og tekið að sér að hrinda söfnun af stað
fyrir þessa ágætu frændur vora?
Góðar stundir og gætið ykkar á hálkunni í snjó
og hríðarbyljum.
Bloggar | Breytt 29.11.2011 kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2011 | 14:43
Útvarp Matthildur gengið aftur?
"Ja, hvurn árann", eins og afi
húsfreyju hefði sagt.
Dabbinn mættur með gömlu Matthildar-brandaranna.
Og það í fréttatíma á flatskjáum okkar landsmanna.
Jaso.
Undur og stórmerki!
Furða og forviða!
Japl, jaml og fuður.
Blaður og málæði!
Ritstjóra-Moggagrín af "ég- og -blái-flokkurinn-erum-saklaus"-sortinni.
Húsfreyja finnur til með Sjálfstæðismönnum.
Þetta var afleit auglýsing fyrir landsfund þeirra.
Þarna er ágætis fólk inn á millum, sem vill taka þátt í því
að byggja upp litla Frón eftir kreppu, án þess að vera
kasta skít í mótherja sína, og gera lítið úr vinnu þeirra.
Svo fá þeir manninn sem var snillingur litla Fróns
í "finnum-sökudólg-til að-taka-við-skítnum" vinnuháttum ,
fyrrum Matthildargrínara
og núverandi óritskoðaðan Moggableðilsstjóra upp í pontu.
Eins og að kasta skítugri tusku beint í andlit þeirra Sjálfstæðismanna
sem eru í stjórnmálum til þessa að vinna að góðum málum.
Jamm, þeim er vorkun.
En húsfreyja hefur einnig verið að hafa áhyggjur af
vinum sínum og samstarfsfólki á Suðurnesjum á árum áður, þar sem
Sjálfstæðismenn hafa einmitt verið ráðandi í bæjarstjórn
árum saman.....og sér hvergi fyrir endann á skuldafargi og
niðurskurði ásamt versnandi kjörum og þjónustu við íbúa.
Þarna þyngist róður jafnt og þétt, og það var myrkur tónn í
spjalli fyrrum kollega húsfreyju, þá hún hitti sína elskulegu
Suðurnesjamenn síðast, við útför einnar elskulegrar samstarfskonu,
ekki alls fyrir löngu.
Þá dettur húsfreyju í hug.
Geta nú ekki vel þenkjandi Sjálfstæðismenn, sent fyrrum
grínaktugan fyrrum foringja sinn út á Suðurnes með skemmtiatriði
og uppistand, svona til að létta mönnum skap mitt í
afleiðingum "kreppu"....sem er að sjálfsögðu ekki
Sjálfstæðismönnum í bæjarstjórn að kenna...
ekki á nokkurn handa máta.
Þar er kreppan bara EKKISEN ÓHEPPNI af "ópólitískum" toga.
Annað en við hér í höfuðborginni, sem höfum sjálfa
HÖFUÐPAURA kreppunnar í stjórn...samkvæmt velviljuðum, óþreytandi
og góðfúslegum upplýsingum frá Sjálfstæðismönnum í stjórnarandstöðu.
Sér húsfreyja fyrir sér, að fyrrum foringi gæti mætt á hverju
föstudagkvöldi í Stapann...ef ekki er búið að rífa Stapann vegna
vanrækslu af völdum fjárskorts... og halda úti uppistandi og
gríni í Matthildarstíl.
Næsta víst að Suðurnesjamenn myndu mæta í stórum stíl.
Grenja af hlátri og skemmta sér hið besta yfir furðulegum
hugmyndum, hrokabröndurum og besservisseraskrítlum
Matthildarkóngsins.
Og altént gætu Suðurnesjamenn, ef þeim færi að leiðast grínið,
losað sig við ódýru, útlensku tómatana sína upp á svið...
en aðeins ef farið væri að sjá verulega á tómötunum af elli.
Þannig myndu Sjálfstæðismenn slá tvær flugur með einu höggi:
Útvega Suðurnesjamönnum billegt grín á erfiðum tímum,
og um leið fá vinnufrið í flokknum......allavega á föstudögum.
Og sem bónus: Losa sig við ÓÆTA erlenda tómata í leiðinni...
í stórum stíl.
Húsfreyja óskar Sjálfstæðismönnum til hamingju með landsfundinn sinn.....
ekki þeirra sök að "ræðumenn" eru mis vel lukkaðir.
Góðar stundir.
![]() |
Þrennt bjargaði Íslendingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)