14.2.2012 | 23:29
Nú er hún Snorrabúð stekkur.
Og þrasað um kennara á Akureyri á
Alþingi.
Ofbeldi og valdníðsla?
Neipp, hæpið.
Bara vesen á kennara, sem hefur of mörg orð um
sína skoðun á samkynhneigðum.
Þurfti að senda kennarann í leyfi vegna orða sinna?
Varla.
Nema hann hafi verið orðinn mjög þreyttur....eða
samstarfsmenn hans mjög þreyttir á honum.
Fínt að ræða við manninn, áminna hann um að gæta virðingu
er hann ræðir samkynhneigða...aðgát skal höfð í nærveru sálar osfr.
Þarf að ræða um kennarann og málæði hans á þingi
þjóðarinnar?
Varla.
Menn hafa komið sér í vandræði áður vegna óvarkárra orða,
munnræpu og málæðis.
Ekki þurft að taka upp umræðu á Alþingi um þess háttar vesen,
enda nóg af mun brýnni málum sem þarf að ræða þar.
Til dæmis:
Blönk og atvinnulaus ungmenni, sem eiga ekki sjens á að
koma sér upp þaki yfir höfuðið.
Helvíska verðtrygginguna á lánum Frónbúa, sem er að
hrekja þá marga öreiga til Noregs.
Djö... niðurskurðinn í heilbrigðiskerfinu og verri þjónustu þar með
til handa sjúkum, öryrkjum og öldruðum.
Niðurskurð í menntakerfinu með verri kennslu til handa börnum okkar.
Og svo mætti lengi halda áfram.
Vesen á kennara fyrir norðan inn á Alþingi?
HÚMBÚKK!
Góðar stundir.
![]() |
Ofbeldi og valdníðsla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.2.2012 | 16:25
Verðtryggt réttlæti.
Sighvatur Björgvinsson snjall maður og vís,
var í spjalli hjá Agli í Silfri Egils nú eftir hádegið.
Verðtrygging rædd.
Sighvati mikið niðri fyrir og fór grimmt í dæmisögur.
Ein var einhvern veginn svona:
Ef þú lánar manni 10.000 krónur,
en daginn eftir fellur krónan um 40%,
og maðurinn greiðir þér svo aðeins 10.000 krónur
þremur dögum seinna, er það réttlátt?
Þú ert ekki að fá sama verððgildi fyrir
þessar 10.000 krónur lengur, og átt þú þá
að bera þetta fjögur þúsund króna tjón...það er
svo fráleitt, að varla er hægt að tala um það,
var álit Sighvatar.
Jamm.
Húsfreyja hefur gaman að dæmisögum.
Hér er ein um bullandi verðtryggt réttlæti:
Hann Jói er 37 ára og er lesblindur, en fór í iðnám,
og vinnur nú á bifreiðaverkstæði
frá 08-18 alla daga.
Hann býr í 5 herbergja íbúð í blokk.
Hann á fjögur börn undir 12 ára aldri
með Dísu, sinni ektaspúsu,
yngsta barnið, hann Gulli litli er aðeins 3 ára.
Dísa er leikskólakennari og vinnur alla daga
frá 08 -17.
Jói varð fyrir því óhappi á dögunum að
heimilisþvottavélin (brúðkaupsgjöf frá tengdó)
hreinlega gaf upp öndina í miðjum smábarnaþvotti.
Nú voru góð ráð dýr.
Þau hjón voru samhent og sparsöm á tímum
kreppu og bankahruns, (höfðu meira að segja ekki keypt sér
flatskjá í góðærinu)og áttu því merkilegt nokk
30.000 krónur aukreitis í handraðanum.
En útlitsgallaða þvottavélin á lækkaða verðinu,
kostaði samt 40.000 krónur, og það var 10.000 krónum
meira en efnin leyfðu.
Þá fékk Jói brilliant hugmynd.
Góðvinur hans, ...ööö segjum bara að
hann heiti Sighvatur, hafði það bísna gott,
var vel menntaður, átti einbýlishús, jeppa, sumarbústað
og var í vel launaðri vinnu, og nýbúinn að fá afskrifað
lán upp á einhverja milljarða.
Jói bað Sighvat að lána sér tíu þúsund kallinn
sem upp á vantaði fram að mánaðarmótum.
Ekki málið.
Jói fékk 10.000 krónurnar að láni hjá Sighvati á
mánudegi.
Daginn eftir féll bévítans krónuræfillinn um 40%.
Á föstudegi þegar Jói hafði fengið frí frá vinnu kl. 17 til að
kaupa nýju þvottavélina, kom babb í bátinn.
Vélin kostaði nú 44.044 krónur í versluninni.
Jói bjallaði í Dísu, sem var nýkomin heim úr vinnu.
Dísa tæmdi sparibauk Gulla litla í einum hvínandi hvelli.
Sjúkkit!
Hann átti sem betur fer 5.o44 krónur í bauknum.
Jói brunaði heim eftir sparipeningum sonarins,
og rétt náði aftur fyrir lokun, að kaupa nýju
þvottavélina.
Næsta mánudag voru mánaðamót og útborgunar-
dagur hjá Dísu.
Jói fékk 10.000 krónur hjá konu sinni og skundaði
eftir kvöldmat til góðvinar síns, Sighvats að
endurgreiða honum lánið.
En Sighvatur varð ekki þakklátur skilvísri endurgreiðslu.
Sei, sei, nei.
Hann sagði þetta ekki fulla endurgreiðslu.
Krónan hefði fallið, svo nú skuldaði Jói honum
4.000 krónur aukreitis.
Og þar sem lánið væri nú gjaldfallið, yrði hann að krefjast
5% vaxta á dag, þar til lánið væri að fullu greitt.
Annað væri ekki réttlátt.
Ekki átt hann sem lánaði af góðmennsku sinni,
að bera neitt tjón af gengisfellingu
þessara 10.000 króna.
Og Jói blessaður greiddi Sighvati 4.500 krónur
daginn eftir, peninga sem áttu að fara í sparibaukinn
hans Gulla litla.
Tjón Jóa: 8.044 krónur ofan á
upphaflega verð þvottavélarinnar.
En það er auðvitað bara réttlátt.
Honum var nær að standa uppi með ónýta þvottavél
rétt fyrir gegnisfellingu.
Svona er sagan þessi.
Og af henni má læra eftirfarandi:
1. ÞAÐ ERU LÖG að eingöngu þeir sem TAKA lán, verði
fyrir tjóni af gengisfellingu krónu. Þeir sem lána, MEGA
ekki verða fyrir neinu tjóni af gengisfellingu, því það er ekki réttlátt.
Skiptir engu þó lántakendur eigi enga sök á gegnisfellingunni,
standi ætíð í skilum með greiðslur af láninu og séu fyrirmyndar
þegnar á litla Fróni. Kemur ekki einu sinn til greina að lánveitandi
taki á sig 50% af gengisfellingu krónunnar svona á móti lántaka.
Skiptir engu að lántakar eru iðulega þeir þegnar, sem síst mega
við því fjárhagslega að taka á sig tjón af völdum gengisfellingar.
Þeir skulu BORGA! Nú eða flytja öreiga til Noregs öðrum kosti.
2. Lán skulu AÐ EILÍFU vera verðtryggð uppi á litla Fróni og
ALDREI afskrifuð, nema þú sért "pappírspeningapési" búinn að
taka milljarða lán hjá þínu eigin fyritæki eða banka,
sjálfum þér, vini þínum eða bróður,
þá AÐ SJÁLFSÖGÐU verður lán þitt afskrifað.
En skutla 11 ára djásninu í sund næst.
Góðar stundir.
![]() |
Verðbólgan er innbyggð í kerfið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 18.3.2012 kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.2.2012 | 20:14
KREPPAN BÚIN!
Alveg er húsfreyja úti að skíta með alla hluti
.
Hjálpi henni allir heilagir.
Jeminn og jedúddamía, eins og fínu frúrnar sögðu í gamla daga.
Missti af sjálfum "kreppulokunum", húsfreyja.
AF KREPPULOKUNUM!
Kreppan er ekki bara búin, heldur er hún "NEFNILEGA búin",
og sjálfsagt ekki seinna en korter yfir sjö í morgun.
Og húsfreyja veit ekki neitt.
Minna en ekki neitt.
Hélt í allan dag í vinnunni að hún væri stödd í miðjum
djö... kreppuniðurskurði í heilbrigðiskerfinu.
Væri að vinna fleiri og fleiri verk um leið og hún
sligaðist af auknu álagi og ábyrgð á
mun lægri launum en fyrir kreppu.
Hljóp hraðar og hraðar svo svitinn rann í lækjum niður eftir baki hennar.
Fékk korter í mat, og aðeins skammtað hálft hrogn og 1/6 af lifur með einu
þunnum bita af fiski....fór aftur að matarpottunum
og lét sig ekki fyrr en hún fékk annan skammt aukalega...mínus fiskur...
var búinn.
Hrikalega erfitt að hlaupa glorsoltinn.
Upp á deild aftur.
Landlæknisembættið mætt í pillueftirlit ofan á stofugang!
Húsfreyja með marga ljúfa heimilismenn á sínum snærum
með ýmis mál í gangi:
Tvo hjartabilaða, tvo órólega, tvo kallandi, tvo með harðlífi,
tvo með niðurgang, þrjá slappa og syfjaða og vildu ekki í æfingar,
þrjá með húðvandamál, einn sem var pottþéttur á því að
"elding hefði skemmt rafmagnskapal inni á vakt",
einn með símavandamál, einn með dauða peru í loftljósi,
önnur pera blikkandi á vegg, þrír ættingjar í símanum,
einn ættingi mættur í eigin persónu, læknirinn í RAI-inu,
húsfreyja að leysa úr málum heimilismanna og ættingja,
sinna skráningarskyldu, panta rannsóknir,
redda mönnun vegna veikinda næsta dag
og skrifa meðmælabréf.
Svona "þokkalega ROSALEGA mikið" að gera, en húsfreyja hjóp bara hraðar,
enda taldi hún víst að ekkert þýddi annað, þar sem hún væri stödd í
myljandi kreppu og niðurskurði.
Neipp!
Kreppan er nefnilega búin!
Húsfreyja er vesalings fáráður og utangátta hænuhaus sem
VEIT nákvæmlega ekki neitt um það sem er að gerast í kringum hana.
Nada!
Nichts!
Ingenting!
Núll og nix!
Missti af kreppulokunum sjálfum!
Bara sisona!
Flaggaði ekki einu sinni í tilefni dagsins.
Því síður að hún skálaði.
Sendi ekki einu sinni ríkisstjórninni og Dabba skeyti
með hamingjuóskum.
Neipp!
Vissi ekki neitt!
Hélt að Páll Óskar og Eurovision út, væri aðalfrétt dagsins!
Húsfreyja hneigir höfuð sitt að bringu, yfirbuguð af skömm yfir
eigin sauðheimsku og fávísi.
Getur vart horft framan í nokkurn mann framar.
Kreppan er nefnilega búin.
Hallelúja og Amen.
Góðar stundir.
![]() |
Kreppan er nefnilega búin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 13.2.2012 kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2012 | 17:30
Ærleg mistök þetta.
Og er að kosta þjóðina ellilífeyririnn hennar
.
Í ljósi reynslunnar er alveg klárt, að
uppi á litla Fróni kunni nánast "enginn" sem átti að ávaxta fé þjóðarinnar,
með peninga að fara.
Hvorki stjórnendur lífeyrissjóða, bankastjórar gömlu
bankanna né heldur útrásarpésar með FÍN fyrirtæki til húsa
í póstkössum á Tortóla.
Þetta gat aumingja þingmaðurinn, Blöndal ekki vitað, þegar hann sleppti
hendinni af bandsjóðandi vitlausum stjórnum sparisjóðanna,
og jók heimildir þeirra til að kaupa hlutabréf.
Þeir lífeyrisvænu í stjórn óðu í villu og svíma líkt og allir hinir,
og fjárfestu villt og galið, tvist og bast með
peningum sem þjóðin hafði aflað.
Ekki þingmanninum að kenna hvernig fór.
Vitlaus lagabreyting og óráðleg?
Neipp.
Lífeyrissjóðirnir voru hvort eð er í djúpum skít fyrir hrun,
skipti engu þó þeir töpuðu einhverju "smotteríi" af aurum
aukreitis í hruninu.
Fólkið sem borgaði í lífeyrissjóðina?
Hvað með það?
Ekki við Alþingi, alþingismenn og stjórnendur lífeyrissjóða að saka, þó
fólk taki upp á því að verða hundgamalt á "alvitlausum" tímum.
KOLRÖNGUM!
Tímum kreppu og hruns, sem "engum" er að kenna, og allra síst þingmönnum,
fjármálastofnunum, útrásarliði og stjórnendum lífeyrissjóða.
Bara tilætlunarsemi að vilja fá greiddan lífeyri á krepputímum.
Getur fólk ekki frestað því að gamlast um nokkur ár, á meðan
þjóðin grefur sig upp úr spillingarforaði banka og fjármála, hruns og kreppu.
Skást væri ef það sæi aumur á Alþingi og stjórnendum lífeyrissjóða, og
sæi sóma sinn í að fá eitt herlegt og banvænt slag
á 72 ára afmæli sínu.....ein jarðarför...piff paff og lífeyrir óþarfur.
Jamm, en tarna er ljóta endaleysan í lífeyrismálum og húsfreyja sér fyrir sér
á sínum svörtustu stundum er hún íhugar framtíð sína,
að það verði jafnvel gefið út á hana "skotveiðileyfi",
þegar hún verður "löglegt" gamalmenni.....ja svona til minnka
"áreiti" á stjórnir lífeyrissjóðanna, og í leiðinni nota tækifærið
og bæta skotveiðimönnum í landinu upp "bannið á rjúpnaveiði".
En íhuga hvað afganga beri að snæða í kvölverð næst,
og megið þið öll eiga "huggulega" elli.....með eða án lífeyris.
![]() |
Í ljósi reynslunnar voru þetta mistök |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.2.2012 | 20:42
Langlundargeði...
...Eyjamanna er viðbrugðið,
þegar kemur að fingralöngum
einstaklingum, sem skemmta sér á
veitingastöðum þeirra "léttir í lund".
Enda "lundarfar" Eyjamanna með ágætum og þeir yfirleitt
taldir "lundgóðir" og sjaldan "lundhastir".
Þykir húsfreyju næsta einsýnt, að lundaþjófur þessi,
hafi verið með afspyrnu slæm "fráhvarfseinkenni"
eftir "lundaveiðilaust" sumar enn og aftur, og hafi
talið að EINN uppstoppaður lundi væri skárri en enginn.....
og þó...!
Gæti verið að sá "lundaelski" þjófur hafi verið orðinn af víni svo
lundgóður og jafnvel í meira lagi góðglaður, að hann í skyndilegri
"ölvaðri svegnd" sinni, eftir að hafa aðeins snöflað í sig
rýrum hamborgara, hafi talið uppstoppaðan lunda þennan vera
"eðallundir" eða jafnvel vel súrsaðan "lundabagga".
Hefur séð það í hendi sér að að þarna væri vænn biti "óétinn".
Hann hefur þá lundýgur ( ákafur) og lundrakkur (hugrakkur),
gripið uppstoppaðan lundaræfilinn traustu taki, og sest að
snæðingi....ergo skemmdirnar sem urðu á lundagreyinu
.
Eða þannig getur húsfreyja ímyndað sér atburðarrásina.
Hehehehe...skondin frétt atarna og stóðst húsfreyja ekki mátið
að sýna sitt rétta "lundlag" ( lundarfar), enda fædd og
uppalin í Eyjum.
Góðar stundir og létt steiktar lundir.
![]() |
Stal uppstoppuðum lunda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.2.2012 | 13:38
Þrjú hundruð áttatíu og sjö þúsund....
....manns af erlendu bergi brotnir með atvinnu í Noregi
.
Heil 15% af þeim sem "jobba" í Noregi.
Erlent vinnuafl!
Jaso.
Það hlýtur að vera rífandi uppgangur í landinu.
Stóru póstarnir, samgöngur, menntun og heilbrigðisþjónusta hljóta þá að vera
tipp topp og í fínu lagi.
Menn jafnvel að "vinna" statt og stöðugt að því að bæta þessa
mikilvægu þjónustu.
Grafin göng út og suður í gegnum norsk fjöll og fjallagarða...
og öll með fjórfaldar akgreinar, vel merktar aðreinar og jafnvel
HRINGTORG á vel staðsettum "gatnamótum" innan fjalla.
Og sífelld uppbygging í menntakerfinu með færum kennurum
hvaðanæva að úr heiminum.
Skólar þeirra norsku þar með orðnir þeir bestu í heimi,
eineltislausir, framsæknir, einstaklingsmiðaðir og með
flotta kennslu fyrir börn með sérþarfir í kennslu.
Norskan, þeirra eðal tunga, tær, hrein og "slettulaus".
Langbest hlýtur svo heilbrigðiskerfið hinna norsku frænda okkar að vera.
Hátækni sjúkrahús, heilsugæsla og logandi fín öldrunarheimili byggð
í hverju krummaskuði sem og stærri bæjum og borgum.
Gamlingi með harðlífi í Noregi, þarf þá ekki að stynja nema einu sinni á
salerninu í sinni herlegu 120 fermetra þjónustuíbúð, þegar
ung stælt stúlka frá Litháen kemur skokkandi með
Mikrólaxtúpu, sveskjupoka og Sorbitólmixtúru.
Einstaklingar norskra með geðræna sjúkdóma hvílast allir sem einn á fögrum
heilsuspítölum, sérstaklega hannaða fyrir þeirra þarfir, þegar þeir þurfa þess með...
....biðlistar?
Dautt mál!
Ekki sést í Noregi síðan korteri fyrir "hrun" annarra Evrópuríkja.
Á meðan eru skurðsjúklingar bornir um hrikalega tæknilega
fína og flotta spítalaganga, skornir upp með öruggum og
hátæknivæddum höndum og "vafðir í bómull" eftir aðgerð
og látnir jafna sig í lágmark 18 daga á sjúkrahúsinu.
Jamm, 387 þúsund erlendir að störfum í Noregi.
Húsfreyju verður hugsað til Morgunblaðs þeirra norsku (Morgenbladet) sem
var með frétt þ. 11. september í fyrra.
Þar var gamansamur blaðamaður að lýsa yfir áhyggjum sínum
yfir hroðalegri fjölgun Íslenskra á norskri grund.
Var búinn að framreikna fjölgun Frónbúa í Noregi fram til 2068,
og komst að þeirri vísu niðurstöðu, að þá yrðu Frónbúar orðnir
7 milljarðar í gamla landinu.
Nú veit húsfreyja, að Frónbúar fara seint í það að fjölga sér
líkt og kanínur....sjáið bara hve lengi við höfum verið að koma okkur
upp í 300.000 hræður upp á litla Fróni.
En svo getur nú margt breytt háttum fólks á erlendri grund.
Máske leiðist Frónbúum svo hroðalega í fögrum fjallasölum Norska kóngsins,
vegna vöntunar á afþreyingu, að "dodo" verður að tómstundagamni númer eitt....
tvö.....og þrjú......fjögur....fimm og
SEX?
Hvað veit húsfreyja?
En þá vill hún nú stinga því að hinum gamansama blaðamanni Morgenbladets,
að framreikna fjölgun þessara "387 þúsunda einstaklinga", sem nú
eru búandi og að störfum í hinu mikla veldi Noregskonungs.
Fjölgi Frónbúum úr einhverjum þrjú þúsundum í 7 milljarða til ársins 2068,
hvað má reikna með að 387 þúsundir hafi þá fjölgað sér mikið?
Verða Norsarar máske fleiri en Kínverjar á næstu áratugum?
Fá þeir þá einnig skásett augu og fallegt gult litaraft?
Allir firðir fullir af fólki?
Mannabyggð komin upp á efstu fjallatoppa?
Ná norsku borgirnar "saman" af mannmergð?
Sekkur ef til vill Noregur undir mannfargi þessu?
Nei, bara smá pæling hjá húsfreyju á laugardegi.
En skreppa austur næst í kaffi til systur.
Góðar stundir.
![]() |
15% vinnuaflsins útlendingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.1.2012 | 23:11
Fram í heiðanna ró....
.....fann ég bólstað og bjó,
gróf mína bifreið í snjóóóhó"....!
Húsfreyja söng hástöfum í "ófastri og laflausri"
bifreið sinni, yfir fréttum af vondum málum á Hellisheiði,
á leið heim úr vinnu.
Allt var í tjóni og tjöru uppi á Hellisheiði með snjómokstur vegna
einhverra snilla sem höfðu ætt upp á "LOKAÐA" heiðina,
sagði í fréttum.
Þar voru nú bifreiðar þeirra fastar tvist og bast, þvers og kruss
snjómokurum til angurs og ama, taugatrekkings og mergjaðrar gremju.
Snaggaralega snarvitlaust veður hafði orðið til þess að
Hellisheiði var lokað.
Lokunin vel auglýst á stórum "upplýstum skiltum"
og stórum búkkum komið fyrir á akstursleiðinni.
Menn lögðu SAMT á heiðina.
Enda liggur í hlutarins eðli, að "heiðarsnillar" kunna að
lesa "á milli línanna" á vegaskiltum sem stendur á stórum stöfum:
LOKAÐ!
Auðvitað túlka þeir það hárétt, að á skilti þessu standi:
"LOKAÐ...nema fyrir þig og þína herlegu bifreið, því þú ert svo
hrikalega góður bílstjóri og bíllinn þinn frábær".
Og framhjá búkkum sneiða þeir með "blindandi ljósið" af
orðinu LOKAÐ í augunum, og dvelja síðan "löngum" stundum
upp til heiða.
Á kafi í snjó.
Góður tími í bláköldum snjó, skítakulda og fárviðri þar efra,
til að hugleiða tilgang lífsins eða hvort
gott sé að láta landið skjálfa af mannavöldum eða
hvort Óli ætli að bjóða sig fram aftur til forsetaembættis...nú eða
til að rifja upp það sem þarf að kaupa í Bónus...vantar
pottþétt tómatsósu, lauk, bland í poka og skeinipappír....
vel á minnst...er ekkert helv....salerni hér uppi á Hellisheiði,
svona ef mönnum skyldi verða brátt í brók?
Og tíminn líður.
Samkvæmt fréttum er enn verið að moka Hellisheiði nú
undir ellefu að kveldi.
Húsfreyja vonar samt innilega að verðandi feður,
með eiginkonur á steypinum hafi ekki farið sér
að voða á heiðinni í dag, né heldur fólk með hjartasjúkdóma
og önnur bráð veikindi.
Þá er betra að leita sér hjálpar frá heilbrigðisþjónustu litla Fróns,
hversu léleg sem hún er orðin vegna niðurskurðar,
og sleppa því að láta vaða á heiðina upp á von og óvon.
Góðar stundir og megi öll ykkar ferðalög eiga farsælan endi.
![]() |
Hunsuðu lokanir á heiðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 28.1.2012 kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2012 | 21:08
Súrnar nú norskum...
.. í geði, og gerast þulir þeirra tapsárir og tannhvassir.
Skiljanlegt.
Alltaf fúlt að tapa.
Húsfreyja nagaði naglabönd sín af æsingi og
spennu, og reitti hár sitt af örvæntingu lengi vel
yfir handboltaleik þessum millum Frónbúa og
Norðmanna í gærkveldi.
Taugar hennar voru úrbræddar og maginn í hnút.
En svo komu "srákarnir okkar" með það sem hún hafði
beðið eftir: Myljandi baráttugleði og snilldartakta á
síðustu mínútunum.
Húsfreyja er langt frá því að vera snilli í handboltareglum,
en eigi gat hún séð, að maður sem snéri baki í markið,
ætti víti skilið.
En hvað veit hún?
Kannski eru reglur breyttar og dómarar danskir að
skíta upp á bak, með því að dæma ekki norskum
"afturábak-mönnum" víti?
Baunar í dómarastétt þar með gengnir "þeim í neðra"
á hönd, og farnir leyfa "þrælaþjóðinni og óbermunum"
uppi á litla Fróni að berja á "eðal herraþjóðinni" ,Norðmönnum og sigra
þá, með því að hafa af þeim víti....eða hvað?
Ekki gott að segja .
Sjálf telur húsfreyja, að "strákarnir okkar" hafi hreinlega
tekið norsarana í nefið á síðustu mínútum leiksins,
og sigurinn því þeirra, hvað sosum öllum "afturábak-vítum" líður.
Góðar stundir og njótið handboltakvöldanna.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2012 | 20:06
Rotvarin, erfðabreytt og iðn-saltpækluð...
....um þessar mundir, húsfreyja, samkvæmt nýjustu
fréttum af því sem hún raðar ofan í sig sem mat.
Húsflugur steindrepast bara við það að húsfreyja "andi" á þær.
Húsfreyja ekki fengið kvefvírus síðan á því herrans ári 2008....
kvefvírusar eiga engan sjens, svo EITRUÐ er konan orðin.
Kveikir nú húsfreyja á þremur sprittkertum í stofunni, með einu freti en
heimiliskötturinn felur sig ofan í baðkari inni á baði
á matmálstímum, enda extra fín loftræsting á baðherbergi húsfreyju.
Stofublóm húsfreyju skarta fjólurauðum laufblöðum með gulum
doppum...og eitt þeirra át um daginn vinnupeysu bónda ásamt
slatta af sokkum.
Hehehehehe...stóðst ekki mátið, húsfreyja.
Alveg með ólíkindum hvað við setjum ofan í okkur villt og galið,
grunlaus og barnaleg.
En altént ættum við að vera vel "iðnvædd" hér uppi á litla Fróni,
hvað sosum hollustuna varðar.
Góðar stundir, og munið að "salta" vel hafragrautinn og eggið í fyrramálið.
![]() |
Áttum að krefjast vottorða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.1.2012 | 13:15
Seigur, Balti.
Klikkar ekki Baltasar Kormákur í kvikmyndabransanum erlendis,
frekar en leikhúsi og bíó hér uppi á litla Fróni.
Er hörku púl að koma sér áfram í kvikmyndabransa erlendis,
en Baltasar er seigur og uppsker nú ríkulega.
Gaman þegar landanum gengur vel á erlendum vettvangi, og húsfreyja óskar
íslenskum leikstjóra innilega til hamingju.
Ætlar ekki að missa af Contrabandi í bíó, húsfreyja.
Góðar stundir.
![]() |
Contraband tekjuhæst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 16.1.2012 kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)