Brot á lífi.

 

23.01.1973.

 

  Ég kúri mig undir sængina, þess fullviss að stórkostlegar hörmungar muni dynja yfir og að á morgun verði allt orðið breytt.  Veit með vissu að reikningsprófið verður aldrei tekið, og sé fyrir hugskotsjónum stórbruna og flóðöldur.  Sofna samt þungum svefni.  Allt er hljótt.  Vetrarnóttin er koldimm.  Ég bý í Vestmannaeyjum.  Næsta morgun, 23 janúar er allt orðið BREYTT.

  Síminn hringir og hringir.  Mamma reisir höfuðið svefndrukkin af koddanum, og pírir augum á klukkuna.  Vantar korter í fjögur að morgni.  Vesen!  Verið að ræsa Sigga í vinnu eftir aðeins fjögra tíma svefn.  Hún staulast niður tröppurnar að símanum.

  "Sæl Stína.  Þetta er Alli á símanum, nágranni þinn".

  "Sæll", mamma dálítið undrandi.  Alli ekki vanur að hringja um miðja nótt.

  "Sá að ekkert ljós er hjá ykkur, og ákvað því að hringja".  Rödd Alla einkennilega róleg.

  "Nú" segir mamma, "er ekki allt í lagi, Alli minn"?

  "Það er farið að gjósa í Helgafelli, og það er verið að ræsa alla Eyjamenn", kemur svarið.

  Dauðaþögn í símann smá stund.

  "Jæja, Alli minn.  Þakka þér kærlega fyrir".  Svar mömmu nokkuð snöggt.

  "Hjálpi mér", hugsar mamma, "Alli virðist aldeilis hafa dottið illilega í það, og sá er kominn með hrikalega tremma".  Hún er pirruð á trufluninni á nætursvefninum um miðja nótt.  Hún snýr sér við til að fara upp í svefnherbergi aftur.  Stansar.

  "Hvað er í gangi í húsinu"?  Hurðin niður í kjallara nötrar og skelfur, og ekki nóg með það, stofuhurðin líka.  Hún fer upp í svefnherbergið, að glugganum og dregur þykkar vetrargardínurnar frá honum í einu togi.  Herbergið lýsist samstundis upp af ljósrauðum bjarmanum er baðar austurhimininn.  Mamma starir forviða út.  Sér allt í einu rauðan gosstrók þeytast upp í himininn, og tekur nú eftir sérkennilegum drununum sem virðast þrengja sér inn í húsið.  Hún vekur pabba í snarhasti.  Pabbi lítur út um gluggann, hendist í föt, grípur myndavélina og hleypur út.

  "Vektu stelpurnar og gamla manninn", kallar hann til mömmu og er horfinn út í myrkrið.

  Í herbergi mínu og systra minna er skyndilega albjart.  Mamma hefur kveikt loftljósið.

  "Stelpur, þið verðið að vakna.  Það er farið að gjósa hér austan megin við okkur"........

 

  Smá brot úr frásögn minni af upphafi eldgoss í Eyjum, fyrir hartnær 35 árum.  Var stórbrotnasta og hrikalegasta upplifun lífs míns.  Hvert smáatriði þessarar nætur er eins og meitlað í stein, í minningum mínum.  Var á þrettánda aldursári, rétt að verða gelgja.

  Þrjátíu og fimm ár!  Eins og það hafi gerst í gær.  Ótrúlegt.  Fáránlegt.  Hrikalega asnalegt, eins og hin tæplega 13 ára ég, hefði sagt.  Að þetta skyldi koma fyrir okkur.  Og merkilegt nokk:  Hrikalega stórbrotið!  Að sjá móður jörð "rifna eins og pappír"!!  Það hafa ekki margir séð, nánast í bakgarðinum heima hjá sér.  En það sá ég.  Skyldi ég nokkurn tíma ná því að TRÚA þessu fullkomnlega?  Kannski var þetta ein endalaus svaða martröð, sem mér hefur enn ekki tekist að vakna af?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Solla Guðjóns

Nei elskan engin draumamartröð þarna á ferðinni.........Það fékk litla þorpið okkar til að opna heimili okkar upp á gátt fyrir Eyjamenn sem urðu að flýja eyna.........Það eru mikið margar minningar frá þessum morgni og þar eftir.....

Solla Guðjóns, 23.1.2008 kl. 21:01

2 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Gott að finna velvilja og gæði, þegar við fluttum tvist og bast um allar jarðir, Eyjamenn.  Víða tekið vel á móti okkur, Sollan mín.

Sigríður Sigurðardóttir, 23.1.2008 kl. 21:10

3 Smámynd: Heiður Helgadóttir

Man vel eftir gosinu, bjó heima á Íslandi, þegar að ég vaknaði um morguninn og setti á útvarpið, þá trúi ég varla eigin eyrum, farið að gjósa í Eyjum, átti góða vinkonu sem að var í Reykjavík í einhvern tíma, svo flutti hún til Eyja aftur.

Heiður Helgadóttir, 23.1.2008 kl. 23:12

4 Smámynd: Kristín Henný Moritz

Mér finnst alltaf jafn gaman þegar þið eruð að rifja upp atvik úr Eyjunum. Amma var einmitt að rifja upp eitthvern bláan tvíbura-barnavagn sem hún saknaði, sagði að hann yfrði fínn þegar ég færi að koma með tvíbura... enginn pressa þarna, neinei!

Kristín Henný Moritz, 24.1.2008 kl. 00:15

5 identicon

Ótrúleg upplifun.  Ég er rétt um 6 mánaða þegar þetta gerist þannig að ég man ekkert eftir þessu.  En ég hef alltaf horft á alla þætti og lesið allt um gosið sem ég get.  Mér finnst það með ólíkindum að allir hafi sloppið lifandi útúr þessu.

Yndisleg frásögn hjá þér.

Guðrún B. (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 08:49

6 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Gosið í Eyjum er einn af stóru atburðum í sögu litla Fróns, og margir muna nákvæmlega hvar þeir voru, og hvað að gera, er þeir fengu fregnirnar af því, Heidi, líkt og þú.  Snjófljóðin fyfir vestan urðu síðar svona sterk líka í minningu þjóðarsálarinnar.  En það sem var merkilegt við Eyjagosið var, að allt var eins og þaulhugsað af almættinu, svo enginn maður skyldi lífið láta, eða bíða líkamlegs tjóns af náttúruhamförum þessum, þarna um nóttina.

  Jamm, yndislega frænkubeibí.  Þú átt mergjaða fjölskyldusögu í minningum ömmu þinnar, múttu og móðursystra.  Man vel eftir dökkbláa tvíburavagninum, hann var bara kúl stórt "Silvercross monster", sem ég fékk aldrei að keyra systrum mínum í.  En það sem ég mátti rugga þeim í honum, á altaninu heima í Grænuhlíð 20!  Þær héldu vöku fyrir hvor annarri í rúman klukkutíma, eftir hádegi alla daga, og alltaf "ruggaði" ég bévítans bláa flykkinu.  Þegar þær loksins gáfust upp og sofnuðu, gat ég farið út að leika!  Ég á sko heil tvö ár inni af "ruggi" hjá systrum mínum!  En þetta með tvíburana....þú veist að amma þín sér í gegnum holt og hæðir....

  Takk fyrir falleg orð, Guðrún mín.  Er farin að skrá heilan helling af bernskuminningum niður, og eldgossnóttin var eitt af því fyrsta sem fór á blað.

Sigríður Sigurðardóttir, 24.1.2008 kl. 14:32

7 identicon

bull er þetta.við vorum svo þægar og góðar.blár barnavagn,kanna hvort hægt sé að grafa hann upp.bíddu smá stund með rósu og rúnu,Henný.eyja gosið var ágætt og rónasteikinn fín hjá Heimari.

arný systir (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 18:47

8 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Hah, held að ég sé meira segja ennþá með "siggið í lófunum" eftir handföngin á þeim bláa, svo þú mátt sko rugga mér, næst þá er ég kemst í góðan ruggustól, systir góð!  Hvað, var dinnerpartý hjá frænkubeibí og Heimi, og mér ekki boðið?

Sigríður Sigurðardóttir, 28.1.2008 kl. 20:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband