11.10.2009 | 15:07
Gleði og bókagull.
HANA!
Þar datt húsfreyja aldeilis í lukkupottinn.
Náði sér í fínar bókmenntir í bland við
íslenska krimma, barnabækur og handbækur.
Fékk listlilega myndskreytta Snorra-Eddu
fyrir lítið fé, og eldgosabókina þeirra Ara Trausta og
Ragnars Th. á bókamarkaði miklum úti á Granda.
Aldeilis brilliant.
Gengur nú húsfreyja snemma til náða öll kvöld
svo hún geti lesið lágmark 2-3 klukkustundir áður
en Óli Lokbrá ber dyra.
Og hér er svo sýnishorn úr einu bókagullinu:
Gull gleðinnar.
Glaður maður er góðviljaður. Hann er hjálpfús.
Hann ber ekki í brjósti hinn nagandi orm sem öllum heitir illu.
Hann er öfundlaus og hann finnur að hann er hlekkur í
vinarkeðju samfélagsins.
Glaður maður er vongóður.
Þótt hann eigi að vísu sínar áhyggjur veit hann að sólin
skín að baki hvers skýjabakka og að vetri fylgir vor.
Slíkur dýrgripur er gull gleðinnar.
Og þótt vér höndlum hann aðeins skamma stund
orkar hann áfram á oss.
Gleðin er sólskinsblettur í heiði, þar sem oss líður vel,
og frá honum flytjum vér birtu og yl inn í grámyrkur
hins daglega lífs.
Steindór Steindórsson frá Hlöðum (1902-1997)
Hitti húsfreyju beint í hjartastað þessi pistill sem hún fann í bókinni "Íslensk hugsun".
Yljaði henni um hjartarætur þar sem hún bograði yfir túlipanalaukunum
úti á sólpalli í vetrarsólinni og velti fyrir sér lífinu og tilverunni.
Varð hugsað til konunnar sem húsfreyja átti spjall við fyrir margt eitt löngu.
Sú hafði orð á því að sér findist bæði ljós og gleði fylgja húsfreyju
í störfum hennar.
Húsfreyja var ánægð að heyra, og sagði við konu að gleðin væri sér bæði
hugleikin og eðlislæg.
Konan sagði það því miður of sjaldgæft hjá mannfólkinu, og
bað húsfreyju í lengstu lög að rækta með sér gleðina.
"Og vittu til vinkona, sagði þá kona, allt sem þú gerir og vinnur
í gleði mun skila sér margfalt til þín aftur".
Þessi elskulega kona hefur reynst sannspá svo um munar.
Þau eru mörg gullkornin sem húsfreyja á fórum sínum eftir
spjall við skjólstæðinga sína, og það var hennar gæfa að
gefa sér tíma og "hlusta".
Því miður byrjaði húsfreyja ekki strax að skrá gullkorn þessi hjá sér,
en hefur þurft að treysta á það sem geymst hefur í hugskotum hennar.
Og sumt hefur týnst, því er verr.
En þvottasúss næst.
Megi gleðin ætíð vera ykkar förunautur, kæru landar.
Góðar og glaðar stundir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2009 | 21:14
KRUMMI.
Krummi gamli er svartur,
og krummi er fuglinn minn.
Krunkið eru söngvar hans
um sólina og himininn.
.... .... ... ... ..... ....
Þetta var daginn eftir fyrsta snjó vetrarins.
Esjan var íklædd hvítum kjól.
Himininn vetrarblár, sólin lágt á lofti
og stirndi á hvítfrosið grasið.
Húsfreyja var á leið austur fyrir fjall með
átta ára djásninu.
Vegur var marauður og að mestu þurr
þegar komið var út úr höfuðborginni.
Húsfreyja ók á 90 kílómetra hraða og
spjallaði við djásnið um lífið og tilveruna.
Djásnið horfði hrifið á Bláfjöllin í sínum
mjúka hvíta fannfeldi.
Spáði í skíðamennsku og snjósleða.
Þegar þær mæðgur nálguðust Litlu Kaffistofuna
sá húsfreyja hvar stór svartur fugl kom á
hröðu flugi á suðurhimninum í átt að þjóðvegi 1.
Hann flaug einbeittur og í beinni loftlínu.
Húsfreyja gjóaði á hann augum af og til
á sínum 90 kílómetra hraða, en varð mest að
fylgjast með veginum framundan.
Allt í einu snarhægði húsfreyja á bifreið sinni.
Hrafninn, því þetta reyndist vera hrafn, hafði
snarlækkað flug sitt, og stefndi nú hraðbyri
á punkt þann á veginum sem húsfreyja og djásn
yrðu á eftir nokkrar sekúndur.
"Mamma, hrópaði djásnið, ætlarðu að keyra á...."
En hún lauk aldrei setningunni, því húsfreyja hafði
náð að hægja nægilega á bifreiðinni, svo að hrafninn
flaug fram hjá húddi hennar í nokkurra metra fjarlægð.
Húsfreyja sá vel kolsvört augun og fallega uppsveigðar
fjaðrirnar á endum vængjanna.
Húsfreyja og átta ára djásn horfðu furðu losnar á
eftir fuglinum, þar sem hann flug örfáa metra yfir jörðu,
en síðan hækka flugið handan þjóðvegarins og hverfa þeim
síðan sjónum handan við hæð.
Húsfreyja sem nú dólaði á tæplega 60 kílómetra hraða,
jók aftur hraðann upp brekkuna fyrir ofan kaffistofuna
og var hugsi mjög.
Furðulegt!
Stórmerkilegt að fuglinn skyldi hegða sér svona.
Allt í einu datt henni skýring í hug uppi á
brekkubrúninni.
"Heyrðu Bára, ég held að krummi hafi verið
að vara okkur við einhverju"!
Djásnið varð spennt: "Hverju, mamma"?
Húsfreyja hugsaði sig um sekúndubrot, dró aftur
hressilega úr ferð og benti síðan framundan á
Þrengslaveginn og svaraði: "ÞESSU".
Framundan voru Þrengslin.
Hvítur skafrenningur huldi veginn.
Húsfreyja sló enn af.
Jeppi kom á fleygiferð framm úr.
Hann þeyttist inn í Þrengslin, rann til hægri
til vinstri....fór hálf hring áður en bílstjórinn
náði stjórn á ökutækinu og sveigði inn
á réttan vegarhelming aftur
og hélt nú mun hægar áfram ferð sinni.
Það var "glæra" undir skafrenningnum
ásamt sólbráð af og til öll Þrengslin.
Húsfreyja sendi krumma þakkir í huganum,
þar sem hún dólaði sér í hálkunni á
60-70 kílómetra hraða......rann aldrei
og komst heilu höldnu með bíl og barn
í Þorlákshöfnina.
Og heim aftur.
"Vitur fugl krummi" sagði Guðmundur Eyjólfsson,
afi húsfreyju oft, þar sem hann fleygði brauðafgöngum
til hrafnanna á túninu fyrir ofan Grænuhlíðina.
Húsfreyja tekur heils hugar undir það.
Krunk, krunk, krá.
Sumum hvíla þau álög á
aldrei fögrum tóni að ná,
þó að þeir eigi enga þrá
aðra en þá að syngja,
fljúga eins og svanirnir og syngja.
Krunk, krunk, krá.
Fegri tóna hann ekki á,
og aldrei mun hann fegri ná.
Í kuflinum svarta hann krunka má,
uns krummahjartað brestur,
krummahjartað kvalið af löngun brestur.
Krummi gamli er svartur,
og krummi er fuglinn minn.
Krunkið eru söngvar hans
um sólina og himininn.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.
Ekki slæmt að eiga krumma að vin.
Góðar stundir og góða drauma.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.10.2009 | 09:12
Hressandi stinningskaldi...
...í Grafarvoginum, en alvöru
"hanga á ljósastaurunum milli húsa-veður"
í Eyjum.
Húsfreyja skellti sér samt með átta ára djásnið og
Einar besta vin á bifreið sinni í skólann.....
í stinningskaldanum.
Þau svona eitthvað "veðurhræddari" en
húsfreyju minnir að hún hafi verið á þeirra aldri.
En hún er nú fædd og uppalin í Eyjum þar sem
þokkalega hressilegur "stormur" er í gangi og búið að
loka grunnskólum í dag.
Á Stórhöfða geisar hins vegar fár mikið upp á
41-53 metra á sekúndu.
Faðir húsfreyju barðist stundum með hana á
hjólræskni austur á Urðir, bæri svona veðurdag
upp á helgan dag.
Þar stóðu þau feðgin og horfðu á úthafsölduna og brimið sem
veltist og rótaðist, á ógnarhraða upp urðina.
Gnýrinn í briminu var svo mikill, að hann náði
að yfirgnæfa vindgnauðið.
Faðir húsfreyju var sem heillaður af ægikrafti þessum,
og benti skottunni sinni á hverja ölduna á fætur annarri
sem brotnaði með djöfulgangi, söltum sjávargusum í andlit
og kröftugum "gosbrunnum" í stórgrýtinu.
Húsfreyja þá lítil skotta, 8-11 ára gat unað sér
tímum saman við að horfa á brimið með föður sínum.
Var alveg jafn heilluð og óbanginn og hann.
Sá hve mikla virðingu faðirinn bar fyrir ógnarkrafti þessum,
hætti sér aldrei nær urðinni en faðirinn leyfði, í ferðum þessum.
Enda varð hún oft að halda sér fast í hjólræsknið pabbans,
til að hreinlega fjúka ekki upp á Heimaklett.
Var fremur smávaxin húsfreyja á þessum árum,
og 17- 20 kíló höfðu lítið í þennan veðurofsa að gera.
En faðirinn hélt líka traustu taki í hönd skottunnar,
og sleppti því aldrei í brimskoðunarferðunum.....ekki fyrr
en þau voru komin aftur í Grænuhlíðina, þar sem
skottan þeyttist til og frá í storminum.
Hékk á ljósastaurum og girðingum í enda botnlangans,
og tók svo tilhlaup að kjallaradyrunum á húsi númer 20,
og kútveltist inn í þvottahúsið á meðan faðirinn festi
hjól sitt rækilega við steinsteyptan vegginn utan um
ruslatunnurnar.
"Mamma, það er ÆÐISLEGT brimið á Urðunum núna"
galaði hún á háa séinu.
"En húfan mín fauk í sjóinn, mamma"!
Móðir skottunnar mætti, stóísk yfir húfutjóninu.
Strauk yfir ljósrautt hár skottunnar, sem vindurinn hafði
feykt í allar áttir í tóma flækju.
"Ég er að prjóna nýjar húfur á ykkur systurnar,
klára þína bara fyrst"!
Leit samt ásakandi augum á föður skottunnar, þá
hann kom inn, og barðist við að loka kjallarahurðinni
á eftir sér.
Faðirinn brosti skömmustulegur til konu sinnar,
en hló svo við: "Þetta er nú aðeins þriðja húfan sem
við Sigga missum í sjóinn, Stína mín. Þurfum miklu fleiri
ef við eigum að bjarga öllum fiskunum með nýjar
húfur fyrir jólin".
Og hláturinn dillaði og reis í þvottahúsinu,
á meðan stormurinn lamdi sjávarseltunni á gluggana.
Góðir tímar, aðrir tímar.
Góðar stundir og fari gætilega í stinningskaldanum.
![]() |
Mikið óveður í Vestmannaeyjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.10.2009 | 18:00
Indversk lestarklósett?
Eitthvað fara þessi
"botnlausu" lestarsalerni í
hinu íðilfagra veldi Indverja
fyrir brjóstið á húsfreyju.
Svona svipað og þegar hún frétti
að geimfarar létu gossa úr salernum
í geimferjum og geimstöðum á sporbaug
um móður jörð.
Fannst húsfreyju hálf ónotalegt til þess að
hugsa að hland sé á sveimi um móður jörð,
og svo ekki sé minnst á stöku "brúna" lorta.
Sá hún jafnvel fyrir sér, að þegar traffík um himingeiminn
fari að aukast, og búið verður að gera hálfan mánann að
"sumarleyfisparadís" (alltaf sólskin á þeim helmingnum),
að móðir jörð eignaðist sinn eigin "hring" líkt og
Satúrnus.
Nema að "hringur" móður jarðar yrði úr "ljósgulu hlandi"!
BJAKK!
En aftur að lestarsalernunum hinum indversku.
Nú hefur löngum verið "töluvert" um lestarsamgöngur
í Indlandi, enda Bretinn seigur að leggja járnbrautateina,
þá Frónbúar bjuggu enn í torfkofum, og stöku timurhúsi,
og kunnu lítt á hryðjuverk í Bretaveldi og því síður á lestar.
Voru þá Bretar herraþjóð Indlands, og spiluðu póló á
milli þess sem þeir sveifluðu svipunum yfir innfæddum
er bjástruðu við að leggja lestarteina nótt sem nýtan dag.
Eitthvað voru vegalengdir allar meiri en á eyjakríli
því sem Bretar kalla föðurland, svo æ oftar kom það
upp að mönnum þeim "varð brátt", er ferðuðust um Indland í lest.
Svo salernum var snarað upp í einum grenjandi hvelli
í lestunum...BOTNLAUSUM.
Og virðast enn BOTNLAUS á 21 öldinni, þrátt fyrir að
breskurinn hafi horfið á brott til annarra og betri verka,
eins og að gera "heila þjóð" að hryðjuverkamönnum úti
í ballarahafi.
Nú geta varla verið "safnþrær" eftir endilöngu lestarteinakerfi
Inverja, svo líklega lendir þvag, saur og skeini á milli teina,
og "flögrar" svo einhvern spotta um nágrennið, og sér í lagi þá
hreyfir vind.
Margt er um manninn á Indlandi og margir fara með lestum.
Og mönnum verðu mál!
Þá spyr húsfreyja: Eru lestarteinar inverskir og nánast umhverfi
ekki að verða að stærsta og LENGSTA útikamri jarðar?
Með tilheyrandi sjónmengun, bakteríugróðrastíum og skítalykt!
Skeinibréfaslóðin fer máske að sjást utan úr geiminum?
Og svo eru agnarsmá nýfædd börn að falla ofan í
öll herlegheitin.
Húsfreyja ímyndar sér að ljósmæður allra landa
sundli af klígju, þá þær heyra slíkar fréttir.
Að fæðingarlækna alla grípi "óstjórnleg löngun"
í Hibiscrub-handþvott upp á olnboga, við fregnirnar.
Jamm.
Það þarf að fá BOTN í þetta lestarklósett mál Indverja...
og "BOTN" er akkúrat málið í ÖLL lestarsalerni þeirra.
Eða það hefði húsfreyja talið.
Annars "botnar" hún lítið sem ekkert í svona málum
yfir höfuð, finnst þetta svona blasa við sem
"almenn skynsemi", að salerni á ferð verði að hafa BOTN!
Að hafa þau "botnlaus" minnir hana á "spliff-donk-og-gengju"-grínið
hér uppi á litla Fróni...sem svo var hægt að kaupa af einhverjum
gárungum....álíka gáfulegt.
En góðar stundir og megi öll ykkar ferðaklósett hafa BOTN.
![]() |
Féll gegnum lestarklósett |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 9.10.2009 kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.10.2009 | 18:18
Orð í tíma töluð.
Hörð kerla, Jóhanna.
Og þorir að láta skoðanir sínar í ljós.
Húsfreyja beið spennt eftir gagnrýni sem þessari
frá Geir Haarde eða Ingibjörgu Sólrúnu, á Mister Brown
á sínum tíma!
Og beið.
Og beið.
Uppskera þeirra biðar varð rýr, enda þau nú bæði komin
frá völdum hér uppi á litla Fróni.
Svo BRAVÓ Jóhanna.
Betra seint en aldrei.
Og þetta átti Mister Brown svo sannarlega inni hjá
íslensku þjóðinni.
Enda hryðjuverkalög hans á vinaþjóð með
ólíkindum.
Húsfreyja fór löngum í stuttar ferðir til London hér áður fyrr,
og naut sín vel í sögulegu umhverfi og formfestu breskra
þar.
Þegar kreppa hjaðnar og venjulegir launþegar geta aftur
farið að vísitera erlendar borgir endrum og eins,
mun húsfreyja sniðganga breska grund.
Gjaldeyri sínum vill hún ei eyða sem
"mergjaður hryðjuverkamaður" í nokkru landi.
Góðar stundir.
![]() |
Jóhanna gagnrýnir Brown |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.10.2009 | 20:25
Déskotans basl alltaf hreint á.....
...frændum okkar í hinu mikla veldi
norska kóngsins.
Allt í uppnámi, tjóni og tjöru hjá
þeim elskunum um þessar mundir.
Horfa nú fram á hrollkaldan vetur
með fimbulfrosti, hor í nös með
"dassi" af svínaflensu, inflúensu
og mergjuðu lugnakvefi.
Tóma eymd og volæði.
Og hví þá það hjá einni ríkustu olíuþjóð heims?
Jú. Blessaðir norsku víkingarnir sem eiga
Eirík Rauða með okkur Frónbúum,
en ekki neitt í Leifi hinum heppna,
eru orðnir uppiskroppa með "sorp"!
Jamm.
Rusl!
Úrgang!
Drasl!
Róðarí!
Eiga minna en núll og nix af slíkum "gæðum"!
Hin snjalla ríkisstjórn norska kóngsins skellti
nefnilega á "arfavinsælum" skilaskatti á
allt sorp sem norsarar hafa skilað inn til
endurvinnslu.
Veitir ekki af, að bæta örlítið við olíugróðann.
Sorp þetta var síðan mikið til sett í ofna stóra, er sáu svo
þegnum norska kóngsins fyrir "hita" á ofna sína
yfir frostkalda veturna.
En að sjálfsögðu flytja nú ALLIR sparsamir og séðir
norsarar sorpið sitt til Svíþjóðar....þar sem enginn
arfavinsæll skilaskattur á ruslinu er til staðar.
Jamm.
Standa nú brennsluofnar allir tómir í hinu mikla
veldi norskra.
Frýs á ofnum öllum í bæjum og borgum,
og frændur vorir ganga um íbúðarhús sín
klæddir þremur lögum af föðurlandi úr gæða norskri
lambaull, undir kargþykkum kuldagöllum úr flís og
vatns- og vindþéttu næloni....brrrrrrrrr!
Grænt hor í nös er algjört "möst" í norsku vetrartískunni,
ásamt léttu "hóstagjölti" nótt sem nýtan dag.
Salan í sýkalalyfjum er "æðisleg" vegna lugnabólgufaraldurs
og lyfjafræðingar norskra þegar farnir að halda sín jól,
af einskærri gróðagleði og peningaánægju.
Þeir verða allir á Bahamas í 4. vikna jólafríi í desember.
Eitthvað finnst húsfreyju norskir hafa "skotið sig í fótinn"
í sorpmáli þessu, svo ekki sé meira sagt.
Svona byrgja brunninn "eftir að barnið var dottið ofan í"- fílingur
í þessu ruslmáli.
Jafnvel minnir það húsfreyju á "Bakkabræður" hina frónversku,
sem báru inn í hús sólskin í húfum sínum daglangt.
Vill samt húsfreyja gjarnan koma frændum sínum norskum
til hjálpar, og koma þeim í samband við 66 gráður norður,
sem er ágætis fyrirtæki á litla Fróni sem framleiðir "kuldahelda" kuldagalla.
Gætu Frónbúar selt frændum sínum heilu helv....haugana af slíkum
ágætis göllum til brúks á sótsvörtum, helköldum og "sorplausum"
vetrarnóttum.
Fengu að sjálfsögðu "magnafslátt"....má ekki eyða og sóa
öllum olíugróðanum á einu bretti.
Í framhaldinu myndu svo frændurnir úti í ballarahafi,
sem EIGA Leif heppna, hrinda af stað "söfnun" fyrir
góða norska frændur sína.
Safna saman og senda þeim allt ekkisens sorpið, óhroðann og
draslið sem verið er að reyna að urða hist og her
um litla Frón í tonnavís.
Gætum fengið Landgræðsluna í lið með okkur,
og sent norskum þegnum nokkra flugvélafarma
af rusli.
Þurfum ekki einu sinni að lenda eða afferma,
bara dúndra þessu niður í fallhlífum svona hér og þar
um ríki norska kóngsins, og fljúga beint heim aftur.
Ekkert skilagjald, engin flugvallargjöld, bara ein
lítil rukkun fyrir eldsneytinu á flugvélina.....eða mætti
jafnvel semja um "vöruskipti"....olía fyrir rusl!
Jamm!
Eymd og volæði!
Tjón og tjara.
Kuldi og kal.
Aumingja norsararnir.
Snýýýýt....SNÖKT!
En í sölum sænska konungsins er glatt á hjalla.
Situr þar í notalegum og hlýjum húsakynnum,
sem og aðrir sænskir þegnar, veturlangt.....
ofan á stærsta "norska sorphaug" allra tíma.
Máske svíarnir verði einnig aflögufærir með smávegis
rusl þegar líður á vetur?
Gætu þá "selt" þeim norsku slatta af sorpi...á VÆGU gjaldi.
Aldrei að vita.
Góðar stundir við notalegan ylinn af "hitaveitunni".
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2009 | 18:06
Pattaralegar, raunverulegar og...
...fallegar
.
Alvöru konur í alvöru heimi.
Tálgaðar staðalímyndir út!
Ofurhoraðar konur á "sellerístilkum" út.
Ekki sem verst.
Twiggý-kynslóðir fyrirsæta hafa of lengi
tröllriðið tískuheiminum, og flestir búnir
að fá upp í háls af slíku og þvílíku....ekki
síst fyrirsæturnar sjálfar.
Að mega lítið sem ekkert snæða af fæðu,
stunda stranga líkamsrækt og vinna langa vinnudaga
kemur niður á lífsgleði þeirra og líkamlegri heilsu.
Enda rekur fólk í rogastans, þegar fallegar, ungar og
"mátulega grannar" stúlkur hafa fengið vinnu við fyrirsætustörf,
og það fyrsta sem vinnuveitandinn fer fram á er MEGRUN!
Eitt sinn heyrði húsfreyja þá kjaftasögu, að vinnuveitendur
í tískubransanum væru margir hommar.
Enda margir hommar þekktir fyrir smekkvísi hvað varðar
fatnað og fylgihluti kvenna og karla.
En þar sem þeir væru meira upp á karlhöndina, blessaðir
hrifust þeir einna helst af "tálguðum, brjóstalausum, rasslausum
og mjaðmalausum" fyrirsætum.....hvort sem um karla eða konur væri
að ræða.
Ekki telur húsfreyja að þessi saga sé neitt annað en
það sem hún er...."kjaftasaga".
Enda gagnkynhneigðir vinnuveitendur í tískubransanum
jafn algengir og samkynhneigðir.
Tálgaða, grindhoraða lúkkið hefur bara verið "inn".
En merkilegt eigi að síður að "Twiggý-útlitið" skuli svo þrautseigt
meðal fyrirsæta.
Og sorglegt þegar það kostar ungar stúlkur heilsuna.
Er vel að þýskir skuli taka á þessum málum.
Löngu kominn tími til.
Góðar "pattaralegar" stundir.
![]() |
Venjulegar konur inn - þvengmjóar fyrirsætur út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
3.10.2009 | 17:11
Prump í eilífðinni!
En á eftir góðum freti kemur
kemur gjarnan langvinn "steinsmuga".
Drulla!
Niðurgangur!
Hvimleiður déskoti, fúll og ill lyktandi.
Án þess að gera lítið úr loftlagsbreytingum og
áhrifum þeirra, vill húsfreyja meina að mannfólkið
hafi mun betur tök á því að ráða fram úr
"efnahagsprumpi" og "bankahrunsdrullu með mergjuðum
útrásarniðurgangi", en að ná tökum á sjálfri "Móður Náttúru"!
Sé litið aftur til "eilífðarinnar" og tekin nokkur sekúndubrot
af jarðsögunni til skoðunar,
kemur í ljós að "Móðir Náttúra" hefur um all margra milljóna árabil
verið að "hlýna" eða "kólna" á víxl....svona eins og
gengur í sögu lítils hnattar á sveimi um sólu.
Maðurinn er í þeirri "elífðarsögu" aðeins nýfætt barn,
enn að reyna að venja sig af bleiunni, og þekkir aðeins
þessa einu móður...Móður Náttúru.
Gæði hennar og gjafmildi.
Fegurð hennar og tign.
Ofsa hennar og bræði.
Að blessað bleiubarnið hafi einhverja "stjórn"
á "móðurinni"?
Glætan!
En að rækta garðinn sinn,
endurvinna "barnadótið",
og draga úr mengun, er bara gott mál.
Það getum við "bleiubörnin".
"Móðirin" ER hins vegar náttúruöflin.
Allsráðandi.
Óbugandi.
Hún mun "breyta sínu loftslagi".
Hún mun hrista okkur og skekja upp á 8, 0 á Richter.
Hún mun flæða.
Hún mun gjósa.
Hún mun skapa ný lönd...og hún mun eyða öðrum.
En það má sosum alltaf reyna að "hemja" móðurina
í brjáluðum ham.
Húsfreyja er ekki ýkja bjartsýn um árangurinn.
Góðar stundir.
![]() |
Kreppan eins og prump í eilífðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2009 | 18:09
Ber er hver að baki...
..nema sér bróður eigi.
Ó, já!
Hér hefur sko sönn bróðurást og sannur
bróðurhugur verið að verki.
Og þeir bræður hafa báðir komist
að góðu bræðrasamkomulagi við
"sjálfa sig" þá þeir gerðu kaupsamning þennan.
Sýnt hvor öðrum einskæran bróðurkærleik og bróðurþel,
þá þeir handsöluðu samninginn og sömdu um lánið og greiðslur af því,
enda fengið sinn hvorn bróðurpartinn í hlut, án þess að nokkur
ágreiningur kæmi upp.
Allt verið í mesta bróðerni.
Jafnvel getað rétt hvor öðrum bróðurhönd af
einlægri vinsemd... bróðurlega.
Engin bræðrabylta og þaðan af síður bróðurbani hér.
...
...
.
Alveg er þetta makalaust, að svona siðlaus viðskipti hafi
viðgengist hér uppi á litla Fróni.
Hvar ætli "bræðrasamviskan" hafi verið þegar þeir
stóðu í þessu?
Jamm.
En því miður botnar húsfreyja lítið í svona hringavitleysu.
Enda á hún enga "bræður"....!
Góðar stundir.
![]() |
Bræðurnir seldu sjálfum sér Lyf og heilsu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2009 | 17:11
Dauðadóm...
...fyrir falska meydóma!
Sæmdarmorð giftist kona manni sem eigi er
fjölskyldu hennar þóknanlegur!
Fangelsun og hýðingar fyrir það eitt
að vera fórnarlamb nauðgara!
Nú eða jafnvel grýtt til dauða!
Ráð væri að Egyptskir karlar litu í eigin barm.
Endurmætu lög sín, mannréttindi og
virðingu fyrir mannslífum.
Og sér í lagi virðingu fyrir lífi og mannréttindum kvenna og barna.
Húsfreyja viðurkennir að hún fær æluna upp í háls
þá hún les fréttir sem þessar.
Þetta eru ljótar fréttir að hennar mati.
Og spyr: Eru þetta fréttir sem múslimar eru
almennt ánægðir með?
Nú eða jafnvel stoltir af?
Er þetta "friðarboðskapurinn" og kærleikurinn í
Kóraninum?
Konur eru MENN, og menn eru KONUR.
Við erum öll mennsk og erum MANNKYN.
Því koma þá svo margir múslimar fram við konur sínar
sem húsdýr væru?
Og jafnvel verr!
Það er mat húsfreyju að mörg islama ríki þurfi að taka
til í réttarfarskerfum sínum.
Breyta lögum, því lög þeirra eru konum grimm...lítilsvirðandi..
kúgandi.
Setja ný lög þar sem ALLIR hafi JAFNAN rétt, jafnt konur sem karlar.
Og FRAMFYLGJA nýjum lögum.
Nægir ekki að BANNA slæma hluti, eins og umskurð stúlkubarna,
og gera svo ekkert í málinu.
Nægir ekki lýsa sorg yfir sæmdarmorði á ungri múslimakonu,
og fordæma verknaðinn....eftir á.
Og að drepa FÓRNARLAMBIÐ í nauðgunarmáli er bara rugl.
Vonar húsfreyja að múslimar móður jarðar þjappi sér saman,
standi á móti öfgafullu ofstækisliði innan sinna raða, og kveði
í kútinn í eitt skipti fyrir öll.
Góðar stundir og gangið ætíð á Guðs vegum.
![]() |
Vill dauðadóma fyrir falska meydóma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)