KRUMMI.

Raven_1781  

     

   

  Krummi gamli er svartur,

    og krummi er fuglinn minn.

    Krunkið eru söngvar hans

    um sólina og himininn.

    .... .... ...  ... .....  ....

 

  Þetta var daginn eftir fyrsta snjó vetrarins.

  Esjan var íklædd hvítum kjól.

  Himininn vetrarblár, sólin lágt á lofti

  og stirndi á hvítfrosið grasið.

  Húsfreyja var á leið austur fyrir fjall með

  átta ára djásninu.

  Vegur var marauður og að mestu þurr

  þegar komið var út úr höfuðborginni.

  Húsfreyja ók á 90 kílómetra hraða og

  spjallaði við djásnið um lífið og tilveruna.

  Djásnið horfði hrifið á Bláfjöllin í sínum

  mjúka hvíta fannfeldi.

  Spáði í skíðamennsku og snjósleða.

  Þegar þær mæðgur nálguðust Litlu Kaffistofuna

  sá húsfreyja hvar stór svartur fugl kom á

  hröðu flugi á suðurhimninum í átt að þjóðvegi 1.

  Hann flaug einbeittur og í beinni loftlínu.

  Húsfreyja gjóaði á hann augum af og til

  á sínum 90 kílómetra hraða, en varð mest að

  fylgjast með veginum framundan.

  Allt í einu snarhægði húsfreyja á bifreið sinni.

  Hrafninn, því þetta reyndist vera hrafn, hafði

  snarlækkað flug sitt, og stefndi nú hraðbyri

  á punkt þann á veginum sem húsfreyja og djásn

  yrðu á eftir nokkrar sekúndur.

  "Mamma, hrópaði djásnið, ætlarðu að keyra á...."

  En hún lauk aldrei setningunni, því húsfreyja hafði

  náð að hægja nægilega á bifreiðinni, svo að hrafninn

  flaug fram hjá húddi hennar í nokkurra metra fjarlægð.

  Húsfreyja sá vel kolsvört augun og fallega uppsveigðar

  fjaðrirnar á endum vængjanna.

  Húsfreyja og átta ára djásn horfðu furðu losnar á

  eftir fuglinum, þar sem hann flug örfáa metra yfir jörðu,

  en síðan hækka flugið handan þjóðvegarins og hverfa þeim

  síðan sjónum handan við hæð.

  Húsfreyja sem nú dólaði á tæplega 60 kílómetra hraða,

  jók aftur hraðann upp brekkuna fyrir ofan kaffistofuna

  og var hugsi mjög.

  Furðulegt!

  Stórmerkilegt að fuglinn skyldi hegða sér svona.

  Allt í einu datt henni skýring í hug uppi á

  brekkubrúninni.

  "Heyrðu Bára, ég held að krummi hafi verið

  að vara okkur við einhverju"!

  Djásnið varð spennt:  "Hverju, mamma"?

  Húsfreyja hugsaði sig um sekúndubrot, dró aftur

  hressilega úr ferð og benti síðan framundan á

  Þrengslaveginn og svaraði:  "ÞESSU".

  Framundan voru Þrengslin.

  Hvítur skafrenningur huldi veginn.

  Húsfreyja sló enn af.

  Jeppi kom á fleygiferð framm úr.

  Hann þeyttist inn í Þrengslin, rann til hægri

  til vinstri....fór hálf hring áður en bílstjórinn

  náði stjórn á ökutækinu og sveigði inn

  á réttan vegarhelming aftur

  og hélt nú mun hægar áfram ferð sinni.

  Það var "glæra" undir skafrenningnum

  ásamt sólbráð af og til öll Þrengslin.

  Húsfreyja sendi krumma þakkir í huganum,

  þar sem hún dólaði sér í hálkunni á

  60-70 kílómetra hraða......rann aldrei

  og komst heilu höldnu með bíl og barn

  í Þorlákshöfnina.

  Og heim aftur.

  "Vitur fugl krummi" sagði Guðmundur Eyjólfsson,

  afi húsfreyju oft, þar sem hann fleygði brauðafgöngum

  til hrafnanna á túninu fyrir ofan Grænuhlíðina.

  Húsfreyja tekur heils hugar undir það.

 

    Krunk, krunk, krá.

    Sumum hvíla þau álög á

    aldrei fögrum tóni að ná,

    þó að þeir eigi enga þrá

    aðra en þá að syngja,

    fljúga eins og svanirnir og syngja.

 

    Krunk, krunk, krá.

    Fegri tóna hann ekki á,

    og aldrei mun hann fegri ná.

    Í kuflinum svarta hann krunka má,

    uns krummahjartað brestur,

    krummahjartað kvalið af löngun brestur.

 

    Krummi gamli er svartur,

    og krummi er fuglinn minn.

    Krunkið eru söngvar hans

    um sólina og himininn.

                                          Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.

 

  Ekki slæmt að eiga krumma að vin.

  Góðar stundir og góða drauma.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hugljúf saga,Krummi er líka fuglinn minn.

Númi (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 21:26

2 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

Þakka þér Númi.  Enginn óheillafugl krumminn í mínum huga, heldur fugl visku og aðvarana.  Kemur sér vel að gefa hröfnum gaum.  Þakka þér kærlega innlitið.

Sigríður Sigurðardóttir, 10.10.2009 kl. 21:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband