7.9.2010 | 18:59
Tómar hillur, tómir magar...
...í Eyjum í dag
?
Mjólkin, gúrkurnar og tómatarnir
"veðurteppt" í hlössum á bryggju í
Landeyjahöfn?
Menn að dóla á kænum með "handlóð" frá
því um miðja síðustu öld, í öskugruggi
og sandleir Landeyjarhafnar?
Herjólfur að sigla eftir flóðatöflum líkt og
segliskip og gufuskip forðum daga?
("Tíu faðmar stjór, skipper"!)
Herjólfur kominn niður í 0-3 ferðir á dag, og rétt farið að hausta.
Ekki einu sinni ófært að fljúga og Herjólfur er
stóra strand í Landeyjahöfn!
Má þá reikna með að Landeyjahöfn "sléttfyllist" af
sanddrullunni og öskujukkinu í næsta suðaustan fári
vetrarlægðar upp á 45 metra á sek.?
Jafnvel skárra að fara út í "hrísgrjónarækt" í Landeyjarhöfn
næsta vor, þá nokkrar vel bólgnar vetrarlægðir hafa blásið
stíft vikum saman, og Markarfljót er búið að "snýta sér hresilega"
og losa sig við slatta af "öskuneftóbaki"?
Máske aldeilis brilliant að brúka höfnina sem hrísgrjónaakur
næstu árin, og sleppa því að eyða milljónum milljóna
í að moka jarðefnum og gromsi burt?
Verða þá Landeyjabændur mestu "hrísgrjónabændur"
Evrópu, en Eyjamenn stærstu neytendur slíkra grjóna á litla Fróni,
þar sem rétt þætti að þeir fengu þriðjung af uppskerunni
FRÍTT, sem skaðabætur fyrir strandaðan og "marandi-í hálfu-kafi-Herjólf"?
Verða þá kvart-buxur aftur vinsælar hér norður
í Ballarhafi.....og kínverski hrísgrjónahatturinn ÓMISSANDI?
Jamm.
Og kannski að Eyjamenn geti farið út í það,
að koma upp sæmilega stórum "kláf"
í langri línu milli lands og Eyja í staðinn fyrir
ófæran Herjólf, og skotist í honum upp á land
eftir vistum og lopabandi í nýja flík á jólum?
Fyrst Johnsen fær ekki pening fyrir skóflu til að moka göngin.
Nú er húsfreyja aðeins meðalsnjall Frónbúi, en jafnvel
hún, sem og megin þorri þjóðarinnar, vissi að það
yrði bara vesen og mergjaður vandræðagangur
að byggja höfn fyrir sæmilega stóra ferju á SANDI,
"við hliðina á" Markarfljóti við ræturnar á "af-og-til-og-ekki-svo-
langt-á-milli-gosa öskuspúandi eldstöð" undir Eyjafjallajökli.
Hafnarspekingarnir gátu bara spurt okkur.
Jamm.
Og ekki vilja Eyjamenn sigla í Þorlákshöfn, sei sei nei.
Láta reyna á nýju höfnina/nýja sandkassann fyrst.
Nú ef allt fer í kaldakol og óefni vegna of mikils "efnis"
á hraðri leið inn í Landeyjahöfn, væri máske ráð
að bjalla í Obama og fá hann til leigja Eyjamönnum
einn lítið notaðan "kafbát" af stærstu og bestu sort.
Skella framan á hann jarðýtuskóflu, og senda hann
alltaf korteri á undan Herjólfi upp á land, til að
"grafa skurð" í gegnum jarðefnajukkið í Landeyjarhöfn.
BINGÓ!
Málið dautt!
Og Frónbúar finna máske fyrstir upp "neðansjávarjarðýtuna"
hér á móður jörð, og komast í Heimsmetabók Guinness!
En húsfreyja ætlar að gá að gamla "handlóðinu" hans afa hennar næst,
og vita hvort hún komi því ekki í verð.
Góðar stundir.
![]() |
Hillur að tæmast í Eyjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 23.9.2010 kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2010 | 12:45
Fyrst verið er að kveikja í...
....svona ódýru drasli upp á
lítinn 21 milljarð,
þá datt húsfreyju í hug hvort
ekki mætti nota ferðina og senda
með "fljúgandi líki" þessu slatta af
mjög svo brennanlegu dóti.
Banki húsfreyju er búinn að afskrifa einhverja
dopíu hjá oss fjármálavitfirrtum Frónbúum, svo það
munaði hann ekkert um að bæta einum við,
og senda skuldaviðurkenningar húsfreyju fyrir húsi
og bíl með könnunarfari þessu.
Gæti jafnvel látið háleynilegu "bankaleyndarskjöl" gamla bankans fylgja með.
Pappír brennur svo fallega!
Húsfreyja er einnig viss um að Seðlabankinn væri
til í að senda slatta af "bankaleyndó-skjölum" með
í feigðarför þessa, og stjórnmálaflokkarnir gætu
notað tækifærið og sent pappíra yfir "fjárgjafir og fjárframlög"
til þeirra, til sólarinnar.
Mætti bara gera allsherjarhreinsun í öllum
leyniskúffum og duló hirslum stjórnarkerfisins,
og koma því á braut til sólar.
Sæist aldrei aftur!
Púff!
Fuðraði upp í frumeindir sínar í einum hvínandi hvelli.
Nú og svo mætti auðvitað senda ýmislegt annað
dótarí sem menn eru orðnir leiðir á að hafa í fórum sínum:
Úreltu fartölvurnar frá því í fyrra.
GSM-símarnir eldgömlu frá því í síðasta mánuði.
Flatskjáirnir frá 2007.
Fótanuddtækin bláu.
Öll eintök "Litlu gulu hænunnar" frá upphafi útgáfu...
og svo mætti lengi telja.
Senda bara allt draslið til sólarinnar.
Eins og leggur sig.
Snilld.
Merkilegt að engum skuli hafi dottið þetta eitursnjallræði
í hug fyrr.
Sendum bara eitt 21 milljarða, sæmilega stórt könnunarfar
til sólarinnar annan hvern mánuð næstu 40 árin,
og sjá mengun jarðar heyrir sögunni til!
Húsfreyja tekur ofan og hneygir höfuð sitt í auðmýkt
í duftið fyrir takmarkalausri visku snillinganna í NASA.
Góðar stundir, ræða við bankann um pappíra næst.
![]() |
Geimfar til sólarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 8.9.2010 kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2010 | 14:08
VESEN! Í Eyjum?
Nú hefði verið gott ef Johnsen
hefði náð að pressa í gegn
göngin milli lands og Eyja
fyrir hrun.
Koppalogn verður seint allsráðandi
í veðurfari við strendur Suðurlands,
og jafnvel allsnarpar haustlægðir geta
valdið usla.
Allt fer í kaldakol og bévítans uppnám
hjá Herjólfsfólki og kúnnum þeirra,
detti ferðir niður dag eftir dag.
Tala ekki um detti ferðir niður nokkra daga í röð.
Næsta víst að mjólk fari að súrna í
Krónunni í Eyjum, brauð að mygla
og epli að rotna, fari að líða margir
dagar á milli ferða Herjólfs.
Ekki víst að Eyjamönnum á 21. öldinni
þyki slíkt boðlegur kostur.
Þá húsfreyja var lítil skotta geisuðu stormar
reglulega á vetrum í kringum Eyjar.
Enda þær staðsettar í úthafi einu allstóru er
Atlandshaf kallast.
Þá flutti Herjólfur Eyjamönnum vistir ofan af landi
líkt og nú, nema hann varð að sigla alla leið frá
Reykjavík, þar sem engin höfn fær honum, var á
Suðurlandi.
Herjólfur þessi var ekki stórt eða hraðskreitt skip,
sei sei nei, og mætti þetta svona tvisvar til þrisvar
í viku út í Eyjar, þegar vel viðraði.
Tjörusvartur og virðulegur sigldi hann leið þessa
á sirka 5 tímum....en gat tekið allt upp í 14-15 tíma
pusaði eitthvað á móti.
Þá hressilega blés að suðaustan eða vestan og
Stórhöfði hékk fastur við Heimaey á síðustu "hárum" sínum
af einskærri þrjósku og heift út í "Kára", máske
2-3 vikur í senn að vetri, "strandaði" gamli Herjólfur hreinlega
í Reykjavíkurhöfn.
Komst kannski eina ferð á 3 vikna fresti út í Eyjar.
Eyjamenn streymdu í "lange baner" til Tobba á Kirkjubæ,
og upp í Dalbú með mjólkurbrúsa sína, og fengu lögg af
mjólk nánast beint úr spenunum.
Heimabökuð brauð og smjörlíki á borðum, og fiskur í allan mat.
Eggin voru dýrðleg búbót, og keypt grimmt af Ingólfi í Lukku,
sem mætti með þau alla leið upp að dyrum, á sínum gamla Willýsjeppa.
"Stína mín, þarftu ekki 4 eggjabakka, með þrjá sársvanga stelpugopa"?
Ekkert nema gæðin.
Molasykur varð lúxusvara, og mútta húsfreyju fékk stóran
kandískubb niður í Brynjólfsbúð, sem afi hennar barði
með litlum hamri og meitli niður í hæfilega stóra mola
með kaffinu.
Já, kaffinu.
Kaffið varð sífellt þynnra og þynnra og Exportið,
kaffibætirinn fór úr hálfri flís í 1/4.
Ávexti sáu Eyjamenn vart veturlangt, nema rétt yfir jólin,
og svo þegar tók að sljákka í lægðum í mars eða apríl.
Grænmetið voru kartöflur, rófur, gulrætur og radísur sem þeir
ræktuðu sjálfir og geymdu í niðurgröfnum, köldum geymslum.
Sjálfsagt þykja þetta úreltir og gamaldags búskaparhættir á
á fyrsta tug 21. aldar, jafnvel fáránlegir.
Þótti ofur venjulegt og jafnvel bara nokkuð gaman
ef veður var nógu asskoti vitlaust á veturna í Eyjum.
Menn sögðu sögur af því að hafa bjargað 9 ára stúlkukorni
hangandi með líkamann beint út frá ljósastaur,
á leið heim úr skóla.
Frá því að hafa elt hálffullar ruslatunnur sínar í
gegnum bæinn vestur á Hamar, ruslahauga Eyjamanna,
þar sem þær loksins stöðvuðust á ruslabing.....galtómar!
Frá ýmsum fljúgandi "furðuhlutum" á sveimi yfir Eyjunum:
Þungum fiskikörum sem svifu sem ernir væru, og stungu sér
hraðar í sjóinn en sjálf Súlan "drottning sjófuglanna",
bárujárnsplötum sem flugu "oddaflug" yfir Eiðið og hurfu sjónum
manna handan við Klifið,
og hundruðum höfuðfata sem "hópuðu" sig saman austur á Eyju og flugu
síðan "hraðflug" í stórum hóp á suðrænni og hlýrri slóðir.
Jamm.
Og enn er ófært í Eyjar út.
Rétt kominn september.
Það væri kannski ráð að skella sér eina 3ja tíma reisu
í Þorlákshöfn aftur, skáni ekkert þarna niðri á sandinum...
nú eða skella Johnsen út að moka ein herleg göng, öðrum kosti.....
Góðar stundir.
![]() |
Ferðir Herjólfs falla niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.9.2010 | 21:37
Handan regnbogans.
Húsfreyja gjóaði augum á
bónda sinn, þar sem hann starði
einbeittur fram á malarveginn.
Beggja vegna vegarins voru há grenitré
í bland við lágvaxnari grenitré og runna.
Í ljósaskiptunum glitraði fallega á vatnið á hægri
hönd húsfreyju, þegar þau óku fram hjá rjóðrum.
Þau voru stödd norðan við vatnið, voru búin að
aka meðfram suðurhlið þess.
Ekkert!
NICHTS!
Nada.
Bólaði ekkert á sumarbústað er bar nafnið Einisfold.
Langt síðan þau höfðu ekið framhjá síðustu sumarbústaða-
byggðinni.
Og nú bara tré.
Húsfreyja gjóaði aftur augum á bónda.
Væri búið að bíta höfuðið af henni, hefði hún sótt um bústað
og látið vera að fá leiðbeiningar að honum.
Húsfreyja ákvað að láta höfuð bónda lafa kjurt á búk hans,
en hóf raust sína eigi að síður:
"Við skulum snúa við, við erum komin langt af leið,
hér er bara land Skógræktarinnar".
Bóndi hlýddi henni þegjandi.
"Skil ekkert í þessu" muldraði hann bljúgur.
Sextán kílómetrum seinna, rak húsfreyja augun í
skilti "EINISFOLD", sunnan megin við vatnið.
Bóndi rasandi: "En við vorum búin að fara hérna framhjá
áðan, og þá sáum VIÐ ekki þetta skilti"!
Örlítinn snefil af pirraðri réttlætiskennd gætti í rödd húsfreyju:
"Þú sagðir mér að góna til hægri vinur minn, því þú ætlaðir að
skoða öll skiltin vinstra megin"!
Bóndi varð að viðurkenna það að skyndiblindan hafði gripið
hann einan og aðeins hann.
En bústaðurinn reyndist feikna fínn, stór og flottur.
Níu ára djásnið æddi um og hrópaði VÁ á 3 sekúnda fresti.
Næsta dag fóru gestir að bruna í hlað.
Tengdó mættu í 20 stiga hita og sólskini.
Mútta húsfreyju, Svalan og Henný systurdóttir með sinn 4 ára Marinó og
Hrefnu vinkonu sína hálftíma seinna.
Potturinn opnaður, Marinó fleygði sér fagnandi í hann og
Svalan og Báran á eftir.
Eftir pott ákváðu systurdóttir og Hrefna að skreppa í
einn herlegan róður út á Skorradalsvatn.
"Kunnið þið að róa"? spurðu bóndi og húsfreyja einum róm.
"Já, þær héldu það nú......eða er þakki, Hrefna"?
Og litla liðið ruslaði sér allt í bátinn með þeim stöllum.
Bóndi ýtti úr vör.
Systurdóttir settist við árar og réri af alefli.....hring eftir hring....
2 metra frá landi.
Húsfreyja sem hafði fylgst með út um glugga, reif
myndavélina sína upp og hljóp niður í fjöru.
Henný hafði farið fram á róðrarpásu, og Hrefna tekin við að róa.
Hún réri af lífs og sálar kröftum...hring eftir hring...eftir hring...
2 og hálfan metra frá landi.
Bátinn tók að reka til vesturs stjórnlaust...Hrefna réri og réri:
"Hreyfumst við eitthvað" spurði hún á innsoginu.
Húsfreyja var að hníga niður af hlátri í fjöruborðinu,
skalf svo af hlátri að henni tókst einungis að taka 2 myndir.
Báturinn snérist í hring...og aftur.
"Við verðum að komast í land", Hrefna og systurdóttir farnar
að sjá líf sín renna fyrir augum sér, og voru orðnar sveittar
af stressi og púli.
Hrefnan tók þétt um árarnar og réri "lífróður" í átt að landi.
Eftir aðeins 2 hringi voru þær komnar að bústaðnum fyrir
neðan bústað húsfreyju og bónda og áttu aðeins meter í land.
En Hrefnan var að niðurlotum komin.
"É skal redd'essu", Marinó 4 ára hékk hálfur út af skutnum,
og dinglaði spotta ofan í vatnið.
Húsfreyja veinaði af hlátri, en náði með herkjum að
hvetja liðið til þess að fara bara úr sokkum og skóm og vaða í land.
Eftir smá puð voru allir komnir í land, og bóndi náði í bátræsknið
á vöðlunum og réri honum á réttan stað í land.
Mikið hlegið að svaðilför þessari og skvísurnar Henný og Hrefna
hvattar til að skella sér í róðrakeppni í Oxford að ári.
Þær eru með það í athugun.
Gestir komu og fóru, gistu margir á meðan aðrir stöldruðu í tertur kaffi
og grill.
Allir færðu þeir húsfreyju gjafir, óskuðu henni hamingju og velfarnaði
um alla ókomna tíð.
Síminn hringdi stanslaust 30 ágúst og ægifagur afmælissöngur
hljómaði á símalínunni margoft í eyru húsfreyju.
Jamm, ekki amaleg afmælisvika þetta hjá húsfreyju,
og mikið um að vera.
Veður var hið besta, hlýtt, að mestu þurrt og sólin sýndi sig af og til.
Rigndi aðeins einu sinni hressilega, og að sjálfsögðu
birtist ægifagur regnbogi stutta stund svona til að
taka þátt í hátíðahöldunum.
En að lokum: Boðflennur í afmæli húsfreyju voru æði margir,
fleygir, smáir, suðandi og mikið fyrir að troða sér upp í munn, nef
og eyru mannfólksins.
Jamm, húsfluguskrattar.
Systurdóttir aldrei verið hrifin af flugum.
Skrapp að kveldi dags til að losa úr blöðru sinni
svona fyrir svefninn, sem vart er til frásagnar.
Nema skaðræðisóp barst frá salerninu, skrækir,
fuss og svo hlátur.
Flugufjandi hafði hreiðrað um sig NIÐRI í salerninu,
og flaug óðara af stað er tók að "rigna" þar neðra.
Skall af alefli í myrkrinu á botni systurdóttur, sem stökk í ofboði
upp af salerninu, svo síðustu droparnir lentu utan á
náttbuxum hennar.
Aðrir gestir bústaðarins grenjuðu af hlátri.
Jamm, systurdóttir ekki Nóbelsverðlaunahafi í veseni
fyrir ekki neitt.
Tengdapabbi húsfreyju reyndi aðeins að halda í við
systurdóttur, og náði sér í hressilegan skurð á
ennið, er skúrandskoti einn áfastur sumarbústaðnum
réðst á hann af vonsku og stangaði.
Var bara plástraður með hraði og málið var dautt.
Húsfreyja telur að sér finnist bara gaman að vera orðin fimmtug.
Og gaman að skreppa í bústað í Skorradal.
Samt alltaf best að koma heim aftur.
Góðar stundir og dreymi ykkur góða og bjarta haustdrauma.
Bloggar | Breytt 8.9.2010 kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2010 | 19:58
Að skreppa saman eða skreppa saman.
Húsfreyja var á harðahlaupum
á sínum vinnustað, þegar einn
gæðalegur öldungur hóaði í hana,
og bað hana um Moggann að lesa.
Húsfreyja brást skjótt við og reddaði karli málgagninu í einum hvínandi hvelli.
Öldungur smellti gleraugum sínum á nef sér
og las hátt og snjallt fyrirsögn á forsíðu:
"Jöklarnir skreppa saman".
"Nú og hvurn fjandann eru jöklarnir okkar að fara"?
spurði karl glettinn og blikkaði húsfreyju.
Húsfreyja hló, og svaraði að bragði:
"Sjálfsagt jöklar okkar orðnir dauðþreyttir á hundfúlu veðri
með hríðarbyljum og djöfulgangi uppi á hálendinu,
og hafa skroppið í sumarfrí til Spánar".
Öldungur hló.
"En það hefur þá aldeilis verið atgangur, ef þeir
hafa allir þurft að "skreppa saman" í frí sitt".
"Já það hafa þá verið mörg þúsun tonn af snjókrapa og ís
á ferðinni" svaraði húsfreyja, og síðan hlógu þau bæði dátt.
"Ætli þeir hafi þá flogið með " Iceland Express" spurði sá gamli
þegar þau höfðu aftur náð andanum eftir hláturrokurnar,
"standa sig svo vel, aldrei seinkanir eða frestanir".
Húsfreyja veinaði af hlátri kvaddi þann aldna með
harmkvælum og forðaði sér inn á vakt.
Miklir húmoristar margir aldraðir frónbúar, og alltaf til í glens og grín.
En sparnaður er "boðorð" vikunnar á vinnustað húsfreyju,
og nú skal skorið niður....og skorið niður.
Ó vei!
Húsfreyja þolir ekki eilífan sparnað og niðurskurð
heilbrigðiskerfisins.
Allt í þrotabúskap og kreppukjaftæði.
Það er óvéfengjanleg staðreynd að fólk VERÐUR
veikt og gamalt.....ja altént megin þorri þjóðarinnar
hér uppi á litla Fróni.
Verðum hundgömul allflest.
Svo ef ríkið gefur ekki út "skotleyfi" á fólk eldra en 75 ára,
eins og einn látinn gamlingi stakk að pólitíkusi, að væri
reynandi, fyrst ekki væru til peningar til að hugsa sómasamlega
um það í ellinni, þá verður að finna aðrar lausnir.
Og góðar lausnir sem ganga út á að auðsýna öldruðum virðingu og
umhyggju í ellinni, kosta peninga.
Þannig er það bara.
Þróun mála í öldrun eru ekki uppörvandi nú á tímum.
Mikill barningur að FÁ að hugsa vel um gamla fólkið.
Sífellt fleiri verkefnum hlaðið á fáar hendur,
og allt verður að gerast hratt en samt sem ódýrast.
ERGO: Gæði þjónustu við aldraða hrakar jafnt og þétt.
Á sínum svörtustu stundum sér húsfreyja fyrir sér
sjálfa sig 75 ára , norpandi í næðingi niður á höfn
ásamt 40 öðrum gamlingjum.
Henni verður skellt niður á meðalstóran pramma ásamt
hinum öldungunum, og síðan dregur trollari
prammann út á mitt Atlandshaf.
Einni ár verður síðan fleygt til prammafólksins,
og kveðju kastað á það með þeim orðum,
að "einni ár sé best að róa,
ofsaveðri á móti" og " ðetta reddast hjá ykkur, er ðakki"?
Og trollarinn hverfur síðan sjónum prammafólks við
sjóndeildarhringinn, án þes að beðið sé svars!
Jamm.
Andskotinn í súrri mysu!
Má þá húsfreyja heldur biðja um "skotleyfið", þá hún
verður "vandræðaöldungur"!
Öldungar á deild húsfreyju eru elskulegt fólk.
Þetta er kynslóðin sem lifði furðulega tíma heimstyrjalda
og iðnbyltingar.
Þau eru foreldrar okkar, afar og ömmur.
Fólkið sem stóð að baki okkur, studdi okkur af
óbilandi kærleik og umburðarlyndi.
Þau eiga ALLT gott skilið í ellinni...og gott betur.
Góðar stundir í ágústkvöldsólinni og "skreppið saman"
að heimsækja pabba/mömmu/afa/ömmu á elliheimilið.
Bloggar | Breytt 8.9.2010 kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.8.2010 | 19:17
Salerni á 120 milljónir!
Jaso!
Dýr getur "skitakamar" þessi orðið kaupanda,
og eftir samt að greiða fyrir skeinið!
Hundrað og tuttugu miiljónir fyrir eitt salerni!
Húsfreyju dettur einna helst í hug að Salinger
blessaður hafi átt salerni úr eðal marmara.
Og vegna mergjaðs harðlífis hafi hann orðið að
eyða löngum stundum á salerninu.
Setið þarna daginn út og daginn inn og skráð eitursnjallar sögur á blöð
öll og pappír þann er hann hafði við hendina á meðan hann beið
eftir "þeim brúna"!.
Og þegar mest gekk á, hafi hann klárað pappír allan,
og orðið að grípa til hamars og meitils, og meitlað
gullvæg orð sín í marmara salernisins.
Nú eða öðrum kosti að Salenger blessaður hafi fengið sér eitt
forláta salerni úr EKTA gulli, og hafi duddað sér við það
að skreyta það með demöntum og gimsteinum,
þegar allt stóð FAST hjá honum sjálfum.
Hefur húsfreyja fullan skilning á að slíkt eðal salerni
skreytt orðum meistara Salinger eða gulli og gimsteinum, fari á 120 milljónir!
En sé húsfreyja aðeins með mergjaðar ranghumyndir varðandi
salerni þetta, og það sé bara venjuleg fábrotin "keramikdolla",
eingöngu brúkleg til að skíta í og kasta af sér þvagi í innviði hennar,
þá er hún alveg hreint rasandi hlessa á fáránlegu himinháu verði þessu.
Hver vill borga 120 milljónir fyrir SALERNI?
KOMMON!
Í alvöru!
Hummmmm.....
En kannski að "vatnsglasið" sem Salinger setti fölsku tennurnar
sínar í og tánaglaklippurnar hans fylgi frítt með í kaupunum......
þá er þetta auðvitað allt annað mál!
Þá erum við að tala saman!
Kíkja á eBay næst!
Góðar stundir og munið eftir morgunsveskjunum.
![]() |
Salerni Salingers til sölu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2010 | 13:42
Menningarannríki?
Húsfreyja bauð níu ára djásninu
niður "miðbæ" upp úr hádeginu
í gær.
Bóndi "steiktur" í hausnum af mergjuðum
pestarfjanda, hóf upp bölsýnisraust sína
dimmri og rámri rödd innan úr rúmi sínu:
"Þið fáið HVERGI bílastæði, og þið fáið SEKT ef
þið troðið bílnum upp á gras eða utan stæða...host...host".
Húsfreyja kíkti á dagskrána.
"Neipp, verður ekkert mál með stæði, karl minn, barnafólkið
mætir ekki fyrr en um hálf tvö að sjá Gunnar og Felix,
og við verðum mættar rúmlega eitt.
Ætlum bara að skreppa í Kringluna og redda mér
nýjum síma áður en við förum niður í bæ"!
Sótsvart "hrrrruuummpp...host...HÓST" með ægilegu korrhljóði
var eina svarið frá bónda.
Húsfreyja græjaði sjálfa sig og djásnið með fatnað,
kvaddi köttinn með kossi á ennið, og gjóaði augum snarlega
tvær sekúndur inn í svefnherbergið.
Bara að vera viss um að bóndi væri enn í tölu lifenda.
Jepp, örlítið gráblár á lit, með rauða hitadíla í vöngum,
angistarleg þrútin augu, en bara með asskoti fína og
surgandi öndun.
"Já, hann myndi lifa þetta af" ákvað húsfreyja,
"svo er hann líka með nýju afmælisgjöfina mína sér við hlið,
fartölvuna! Fótbolti beint í æð! Iss...ekkert mál þó hann
verði heima einhveja stund aleinn með kettinum".
Og húsfreyja kvaddi bónda sinn sem svaraði að bragði:
"Hruummmp...host..host...host...hva..host...leggj....host..."!
Húsfreyja blikkaði bónda, brosti og rauk með
djásnið út í sólina og hressilegan norðan svalann.
Í Kringlunni var allt pollrólegt, nokkrar kuldakreistur á ferli
að sóa fé sínu í vita skjóllausar flíkur.
Húsfreyja komst strax að hjá ungum snaggaralegum
manni sem sagði síma hennar "viðgeranlegan" upp á
10.000 krónur, en mælti með að hún smellti sér á tilboðið
þar sem viðgerðum símum hrakaði oft hratt og ættu jafnvel stutta lífdaga
eftir að hróflað hafði verið við "viðkvæmum innri viðjum" þeirra.
Húsfreyja keypti sér nýjan síma, á Visa-kreppu-rað!
Hvítur með þjóðlega bláu baki og "snertiskjá".
Djásnið var að rifna af ánægju: "Mamma, þetta er sko flottur sími"!
Húsfreyja gjóaði augum á nærri 100 síðna leiðbeiningabæklinginn:
"RÆT, ef mér tekst að LÆRA að hringja og svara í hann,
þá er ég bísna góð"!
Djásnið taldi það lítið mál..."og svo kennir þú mér á hann, mamma"!
Akkúrat!
Þá voru það bílastæðamálin.
Húsfreyja laumaði bifreið sinn á autt stæði fyrir framan
gamla hjúkrunarskólann við Eiríksgötu.
Hafði mörgum stundum eytt á skólabekk þar og gist heimavistina.
Taldi að fáir sætu á skólabekk á laugardegi menningar, enda 8 önnur
bílastæði laus þar.
Og svo átti hún máske smávegis inni af "bílastæðistíma"
frá skólaárunum, þar sem hún hafði þá verið bíllaus.
Húsfreyja og djásn röltu í gegnum gamla austurbæinn
í rólegheitum.
Voru næstum dauðar fyrir framan listasafn Einars Jónssonar,
þar sem mikið kraðak var af bílum fullum af fólki
í örvæntingarfullri leit af stæði.
Húsfreyja varð því fegin að komast í afgirtu, lokuðu göturnar.
Þær þröngar og margar blómum prýddar, en
Haðarstígur bar af fyrir frumlega míní-útimarkaði,
litfagrar skreytingar og mannlíf.
Á Lækjatorgi var margt um manninn og ekki síður þá
húsfreyja og djásn komu inn í Austurstræti.
Húsfreyju hafði hvergi skeikað með tímasetningu,
og þær höfðu góðan hálftíma í Eymundsson,
áður en Gunni og Felix hæfu söng og fjör.
Og þar fékk húsfreyja gömlu "Vísnabókina" sína
frá 1946.
Nákvæm eftirmynd útgáfunnar sem hún átti sem lítil skotta,
áður en glóandi hraun breytti þeirri góðu bók í fumeindir sínar.
Djásnið fékk "frábæra píanóbók, mamma"!
Utandyra aftur skimaði húsfreyja grimmt í allar áttir eftir
einhverju vísbendingum um staðsetningu Gunna og Felix.
Neipp. Ekki ein einasta.
Fjandakornið! Var'ann að hvessa?
Strolla af bakpokafólki æddi út og inn um Landsbankann
(eða hét hann kannski ekki Landsbanki lengur...?).
Varla voru þeir þar?
"Mamma ég hefði átt að hafa fánann minn með mér",
djásnið benti á fólk sem veifaði hvítum fána með
merki FM 957 á labbi sínu um Austurstræti.
"Ekki málið" svaraði múttan snaggaralega, og gekk að
ungri ljóshærðri stúlku vendilega merkt 957, sem
hélt á 8 slíkum fánum í hendi.
Stúlkan gaf djásninu fúslega einn fána og sú
níu ára ljómaði af gleði.
Nú voru góð ráð dýr.
Ekkert bólaði á Gunna og Felix og klukkan orði tvö.
Hvar voru andsk....mennirnir?
Mæðgurnar röltu á Ingólfstorg þar sem ógæfufólk sat
og drekkti sorgum sínum, á meðan erlent kórafólk
söng af lífsins lyst.
Enginn vissi hvar Gunni og Felix væru niður komnir,
þá húsfreyja spurði.
Þær röltu aftur að Austurstræti 11.
BINGÓ!
Vinalegur ungur maður stöðvaði djásnið með 957-fánann sinn.
Rétti henni umslag merkt FM 957.
Ávísun upp á 5000 krónur í Oasis í Kringlunni varð hennar.
Og í "beinni".
Djásnið brosti "allan hringinn" þegar mynd var smellt af
henni og útvarpsmanni!
En svo var það málið með Gunna og Felix!
"Allt í lagi, ég læt bara vaða og athuga hvort einhver
bakpokaður í Landsbankanum viti hvar Gunni og Felix halda sig"
húsfreyja að verða örg.
En viti menn.
Gunni og Felix voru einmitt í bankanum-HALLELÚJA.
Dúndur stuð, söngur og gleði.
Djásnið fékk sæti á gulum púða.
Náði helming af skemmtun þeirra félaga.
Fínt það.
Eftir Gunna og Felix var rölt í hin ýmsu tjöld,
hlustað á fagran söng og spjallað um "Birkisultu".
Eldspúandi fólk á stultum fengnar að láni hjá Star Wars-fólki
var á öðru hverju götuhorni......"höfðu geimverur lent á litla Fróni"?
Verslað sushi í kvöldmatinn niður við höfn,
skroppið í Ráðhúsið-meiri söngur.
Við Iðnó geisaði stormur upp á 40 metra á sekúndu og
borðskreytingar þeirra utan dyra, fuku út á tjörnina ásamt bæklingum
í stórum stíl, öndum og gæsum til lesningar, upplýsingar og ómældrar gleði.
Að lokum aftur rölt í bílinn um klukkan fjögur.
Engin SEKT....HAH!
Húsfreyja rígmontin.
Aldeilis frábær menningarDAGUR þetta.
Ekkert lögregluvesen, vandræðagangur(...nema þegar
Gunni og Felix tóku upp á því að týnast),
eða leiðindi.
Djásn og húsfreyja létu þetta duga og slepptu
kuldagjóstri og lögregluannríki að kveldi dags
niður í bæ.
Bóndi jafn hruninn.
En kíkja í Vísnabókin næst.
Góðar stundir.
![]() |
Annasöm nótt hjá lögreglunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2010 | 13:31
Svanasöngur....
...hjá Betu?
Húsfreyja hefur löngum undrað sig
á hinu mikla bákni sem fylgir einni
dúllulegri frú er Elísabet nefnist,
þá hún hefur vísiterað hið mikla veldi
breskra.
Þarna eru heilu 2-5000 fermetra hallirnar
upp um allar sveitir merktar Betu og sagðar
í hennar eign.
Lítillátustu þorp og krummaskuð hist og her um
Bretaveldi hafa jafnvel eina höll drollu á sínum
snærum, svona ef Betu skyldi fljúga það í hug,
að skemmtilegt væri að skella sér í "krummaskuðaskoðun"!
Húsfreyja taldi lengi vel að Beta sjálf væri tveir og tíu á hæð,
og 150 kíló minnst, bæði plássfrek og heitfeng, fyrst
hún þyrfti öll þessi tröllslegu og hráslagalegu húsakynni
undir sig og sína.
En svo þegar húsfreyja fór að skoða vendilega myndir
af hinni herlegu bresku drottningu, er þetta bara "smá peð"!
Lítil og sæt dúlluleg kona, kannski með smávegis "sundhring"
aukreitis um sig miðja, en það varla nokkuð til að hafa orð á.
Þá flaug húsfreyju í hug að ef til væri drolla og öll hennar slekt
illilega ofvirk, forn bresk lög bönnuðu meðferð á konungbornu fólki
sem slíkt hrjáði, og eina ráðið hefði verið að hafa nógu stórbrotin og
herbergjamörg húsnæði undir liðið, svo það fengi ærlega útrás
á harðahlaupum eftir 20 kílómetra göngum á degi hverjum!
En sú hugmynd klikkað hrapalega einnig, hjá húsfreyju.
Sá eitt sinn langa heimildarmynd um Betu, börn og maka, húsfreyja.
Það eina sem hreifðist voru varir hinna konungbornu,
og svo hendur þá slektin "veifaði" pöpulinum.
Bólaði ekkert á ofvirkni!
Svo ráðgátan um hallarhúsakynnin hennar Betu er enn óleyst
hjá húsfreyju.
Og heldur bætir í furðulegar ráðgátur og duló mál er fylgja
hinni dúllulegu Betu breta.
Smkvæmt frétt þessari, eru í gildi forn lög sem eigna
Betu alla SVANI í hinu mikla veldi breskra.
Eða flest alla.....eftirlit með vel fleygum fuglum hlýtur að skapa
smá óvissu um eignarhald.
Líka spurning um erfiðar SVEIFLUR í stofnstærð á haustin
og veturnar.
Jamm.
En svo voru þeir víst einnig snæddir hér í den,
blessaðir konunglegu svanirnir.
Slátrað, marineraðir, steiktir/soðnir? og snæddir!
Líkt og endur, gæsir, kalkúnar og kjúllar víða í öðrum löndum.
Hugmyndarík þjóð breskir, þegar kemur að mat.
Soðinn kalkúnn í ostasósu.....húsfreyja var með grænan
lit á andliti sér í viku eftir að hafa reynt að koma því ofan í sig.
Nýrnapæ....bara orðið segir manni að þetta sé ekki í lagi....og
húsfreyja skilaði eina bitanum af slíkri dýrð beint aftur
í borðklút og drakk vatn það sem eftir lifði hádegismatar.
Húsfreyju rekur ekki minni til að svanur hafi verið á
matseðlum breskra, þá hún fór um víðan völl að skoða
Betuhallir í bæjum, þorpum og sveitum Englands hér á árum áður.
Kalkúnn, héri, svín, fasani sei sei já, en aldrei svanur.
Kannski "forn" bresk lög til, sem banna að aðrir en Beta og
hennar slekt snæði slíkt og því um líkt.
Hvað veit húsfreyja.
En altént vilja nú breskir þegnar stinga því að Betu að
hún selji "svanahjörðina" alla með hálsi, væng, goggi og stéli,
og spari þannig í rikisrekstrinum.
Segir sig sjálft að það hlýtur að spara breska ríkinu stórfé,
að losa sig við "ummönun og uppihald" á heilu
svanakóloníunum þar við flest vötn, ár og læki!
Spakir menn bretar.
Kannski að Mister Grímsson skelli sér þá á nokkra hvíta,
svo þjóðin geti séð íðilfagra svani svamlandi
á pollunum í kringum Bessastaði?
Aldrei að vita.
En svo er bara ekkert víst að Betu hugnist að selja
svani sína.
Hafa sína kosti, fyrir utan að hægt er að brúka þá
af og til í sunnudagsmat í Buckingham höll!
Beta hlýtur til dæmis að vera árum saman skráð í Heimsmetabók
Guinnes sem "stærsti svanabóndi" móður jarðar!
Hehehehe...fínn húmor hjá bretunum, má alltaf treysta því!
En gutla og gaufa í húsverkum næst.
Góðar stundir.
![]() |
Seljum svani drottningarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 8.9.2010 kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2010 | 13:34
Hrollur húsvíkinga?
Húsfreyja smellti sér í
reðursafnið eina og sanna,
þá það var hýst í lítt áberandi
bakhúsi við eina af aðalgötunum hér í borg.
Var í einni herlegri óvissuferð með hjúkrunarfræðingum
á Suðurnesjum, og reðusafnsskoðun var á dagskrá
um miðjan sólríkan dag í maí.
Var rölt í gegn og hinir ýmsu göndlar barðir augum.
Nú reyndi húsfreyja í örvæntingu að gramsa í sínu minni,
eftir einhverju sem henni fannst hryllilegt í safni þessu,
er hún las frétt þessa.
En nei.
Forljótt margt, já.
Fyndið, já.
Hryllilegt, nei.
Velti reyndar fyrir sér, húsfreyja þá hún rölti
í gegnum herbergi full af reðum spendýra,
viskunni og/eða vísindinum að baki svona safns.
Og fór í framhaldi af þeim þönkum
að pæla í næsta safni sem yrði sett upp á litla Fróni.
Hvort næsta óvissuferð færi í það að rölta um herbergi
full af alls kyns "júgrum" og mjólkurspenum spendýra....
mætti skella því upp í aflóga frystihúsi í Þorlákshöfn.
Nú og svo er sosum um nóg að velja af líffærum bæði
og útlimum spendýra, ef út í það er farið.
"Úlimasafnið" gæti sómt sér vel á Dalvík.
Fínt að hafa safn að rölta á, á veturna á meðan beðið
er eftir næstu Fiskisúpudögum.
Safn það yrði fullt af löppum með hófum og klaufum.....nú og kannski
að einhver gjafmildur frónbúi "dóneri" þá skanka af sér,
frá hné og niður úr, sem afhendist safninu eftir dánardag viðkomandi.
Síðan myndi "Lifrasafnið" aldeilis sóma sér vel
í Vestmannaeyjum.
Bara skella því upp á lóð gamla Lifrasamlagsins,
og BINGÓ, meira að segja safnsnafnið myndi hljóma kunnulega og vel.
Þar myndu síðan lifrar af öllum stærðum og gerðum
dóla um vökvafylltum súlum í myrkvuðum herbergjum.....úúúú!
Þetta gæti orðið virkilega spúkí safn!
Og fengu nú Eyjamenn gefnar 2 lifrar úr látnum mönnum,
eina heilbrigða og hina frá ofdrykkjumanni, þá væru
þeir með safn þetta á grænni grein.
Miði inn á "Lifrasafnið" yrði látin fylgja með inngöngumiða
á Þjóðhátíð, og skyldumæting á það áður en farið yrði
í gleðina inn í Dal.
Bláedrú Þjóðhátíð ár eftir ár.
Ekki nokkur spurning.
Snilli húsfreyju á sér engin takmörk!
Gæti setið lengi dags við að finna upp á hinum
ýmsu "líffærasöfnum" til að drita niður hist og her um
íðilfagurt litla Frón.
Mývetningar fengju "Lungnasafnið",
Reykvíkingar "Ristilsafnið"....með eða án endaþarms,
Austfirðingar "Skjaldkirtilssafnið"...og svo mætti lengi telja.
Tær snilld þó húsfreyja segi sjálf frá.
Hryllileg söfn?
Nei, varla........nema auðvitað "Lifrarsafnið" í Eyjum!
En góðar stundir á heitum sumardegi í ágúst,
og í guðanna bænum passið vel upp á lifrina í ykkur!
![]() |
Hryllingur á Húsavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2010 | 12:24
Verður þetta ekki eitt magnaðasta...
..tónlistarhús allra tíma,
takist okkur Frónbúum einhvern tímann
að klára að byggja það?
Hvað hefur ekki gengið á í þjóðfélaginu
á byggingartíma þess?
Ja, það getur ekki verið margt, telur húsfreyja.
Húsið er langt frá því fullbyggt og saga þess nú þegar dökk.
Hver man ekki "borgarstjóri í heilan dag með samsærisrýting
í bakinu-ævintýrið"?
Bankahrunsörvæntinguna-verðum að hætta að byggja-tímabilið?
Kreppuhrunadansinn í kringum ákvörðunina um að halda áfram að byggja
tónlistarhús, þegar þjóðin stóð á öndinni yfir "kerlingafálunni henni Ísbjörgu",
útrásarsvíðingum með "smáaurana" sína í bönkum á suðrænum eyjum
og yfir furðulega ósýnilegri, ólýsanlegri og ófinnanlegri skjaldborg um heimilin
í landinu.
Og enn er allt í báli og brandi.
Logar eins og kyndill hálfbyggt tónlistarhúsið með reglulegu millibili.
Slokkviliðsmenn á útopnu að redda málunum....fá skít á priki
í laun fyrir, en mæta eigi að síður.
Gæðalegir menn, slökkviliðsmenn.
Jamm.
Hah! Hugljómun andartaksins greip húsfreyju.
Nú skella menn bara upp einni reffilegri 70 metra styttu utan
á húsið...má vera slökkviliðsmaður, Dabbinn með bláa hönd,
nú eða bara maður í jakkafötum með rýting í bakinu,
býttar ekki öllu, en verður að hafa logandi kyndil á lofti
í annarri hendinni!
VOILA!
EUREKA!
Við Frónbúar búin að fá okkar eigin "Frelsisstyttu" ala New York.
Nema okkur eldur yrði að sjálfsögðu "lifandi eldur", enda
litla Frón land "elds" og ísa.
Nú ef smá óhapp yrði, og enn og aftur kviknaði í listræna dóti þessu,
mætti alltaf kalla út slökkviliðið fyrir slikk.
Jamm.
Þetta yrði GRAND!
Húsfreyja þarf að læða þessu að .....umm.....já.....eða nei.....ööööö....?
EINHVER hlýtur að bera ábyrgð á byggingu þessari niður
við höfn!
Nógu mikið erum við Frónbúar að BORGA fyrir bygginguna.....
logandi eður ei
Húsfreyja auglýsir hér með eftir nafni eða nöfnum þeirra sem
teljast ábyrgir fyrir listasmíð þessari!
Ætlar að skjóta að honum/þeim hugmynd.
Góðar stundir á regnvotum mánudegi.
![]() |
Búið að slökkva í Hörpu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)