29.6.2013 | 18:08
Lauflétt frú á....
...tíræðisaldri las hátt og snjallt upp úr málgagninu:
"Mikil fækkun innbrota og ofbeldisverka.
Fimmtungs fækkun varð á innbrotum í maí samanborið
við sama mánuð fyrir ári".
Sú gamla gjóaði snörpum, og glettnum augum á stallsystur
sínar þrjár á áttræðis- og níræðisaldri á næsta borði:
"Nú hvurslags er þetta stelpur, eruð þið alveg hættar að
SKREPPA ÚT Á KVÖLDIN"?
Munnvatnið hrökk ofan í húsfreyju, svo mikið hló hún.
En sú gamla var ekki búin:
" Ég er sko aldeilis ekki hætt kvöldferðum góurnar,
því það eru einu skiptin sem ég fæ allt FRÍTT".
Skil ekkert í ykkur að sitja á rassinum heima kvöld eftir kvöld,
já og það munar sko um fimmtung skal ég segja ykkur.
Húsfreyju lá við köfnun af hlátri.
Yngri "stelpurnar" litu vandræðalega hvor á aðra, og brostu svo að
lítt bæri á.
"Já, ertu stórtæk á kvöldin"?, áræddi sú yngsta að spyrja þá á
tíræðisaldrinum.
"Já blessuð vertu, heillin, verð að vera það. Verð að eiga nóg til í heimamund,
skyldi mér lukkast að finna mér mann til að giftast á næstunni".
Húsfreyja var að fá krampa í magann af gassahlátri, og forðaði sér
fram á lyfjaherbergi, enda frúrnar allar farnar að hlægja.
Já, það er oft myljandi stuð hjá öldungum húsfreyju, og þar
er sko húmorinn í góðum gír.
Húsfreyja var að ljúka sinni tólftu vakt samfleytt í dag, og á sinn eina
frídag á morgun fyrir næstu 10 daga vinnutörn.
Finnur lítið fyrir mergjuðu sólarleysi sem hrjáir aðra borgarbúa grimmt,
því hún er hvort eð er innandyra að starfa alla daga.
Og þó...hefur lent í því, húsfreyja að rigna næstum niður á
hlaupum frá bíl sínum að vinnustað á ferðum sínum á milli þjónustuíbúða.....
hrikalegt að mæta eins og hundur á sundi á vinnustað, og finna fötin sín
snollast upp eftir fótleggjum og handleggjum, svo skín í hvíta bera útlimi
húsfreyju.
"Nú þér er ekki kalt, gæskan, fyrst þú klæðir þig í "kvartbuxur" og bol með
hálfermum" ein aldraða frúin elskuleg í gagnrýni sinni.
Jamm, vinnusumarið mikla hjá húsfreyju í góðum gír og aldrei leiðinlegt.
Jú reyndar grautfúlt að hafa þurft að bjarga inn af sólpalli húsfreyju,
hálfdrukknuðum sumarblómum... húsfreyja hafði ekki hugmynd um að
"Hortensíur" væru svona lélegar að synda og því síður að reffilegar rósir
færu í sjokk við smá veltu og rúll á mígandi blautum sólpalli í stormasömum næðingi
og slagveðursregni.
Sér húsfreyja fram á að verða að taka fyrir smá "sumarblóma-sundkennslu" úti á
sínum herlega sólpalli, loksins þá sumarfrí skellur á hana.
BEYGJA- KREPPA- SUNDUR- SAMAN!
Var þetta ekki einhvern veginn svona hér í den?
Ætli að það sé þá vissara að fjárfesta í sundkút og kork fyrir blessuð pallablómin?
Nei, bara smá pæling.
Jamm, það er ekkert grín að vera sumarblóm á sólpalli húsfreyju um þessar mundir.
Blómstra í dag! Drukkna á morgun!
Hroðalega "óblómlegar" framtíðarhorfur þetta.
Jamm, svona svipaðar eins og hjá þeim sem "Drómi" saumar nú að.
Merkilegt þetta Drómamál, og furðulegt hvernig málin hafa þróast.
Húsfreyja þakkar sínu sæla að hafa aldrei komist í kast við þá Drómamenn,
og er bísna sæl með sitt verðtryggða okurlán á íbúðinni.....hún er þá bara ekkert
á leið í frí til útlanda með sína vísitölufjölskyldu næstu 35 árin.
FÍNT að skreppa bara í tjaldútilegu á Laugarbakka eða Gullfoss og Geysi einu sinni
á sumri....splæsa á sig niðurgreiddum sumarbústað af félaginu FJÓRÐA hvert ár og
málið er DAUTT.
Jamm það var og.
Og eitthvað næðir kalt um blessaðan karlinn hann Bjarna Ármannsson, Glitnismann
um þessar mundir.
Kominn á skilorð fyrir að kunna ekki að telja upp á 200...."kúlur" að vísu sem er víst
orðaleppur fyrir milljón, en skatturinn fór að sjálfsögðu í mergjaða fýlu yfir
talnafúski Bjarna, svo því fór sem fór.
Húsfreyja telur hins vegar að hún hafi einhvern tímann fregnað af fólki sem hafði
af "vanhæfni" eða jafnvel bara "tæknilegum mistökum",
dregið eitthvað smotterí undan skatti,
eins og upphæðir á bilinu frá 1 og upp í 10 milljónir,
og hefur þurft að sæta fangelsisvist fyrir vikið.
En það hljóta að hafa verið miklu VERRI mistök og meiri HANDVÖMM, en hjá Bjarna.
Jamm, þetta er ljóta vesenið að vera svona vitlaus að vera í smáaurafúskinu.
Gera þetta ALMENNILEGA eins og Bjarni, og fá þá SKILORÐ!
En nóg að sinni...kötturinn vill í tölvuna .
Góðar stundir á svölu sumri.
Dómsdagsspár gengu ekki eftir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 5.7.2013 kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2013 | 20:39
Sundbiti...
.... hefðu snillarnir sem þýða fyrir Loga Bergmann í Bombunni
skellt fram sem fínni túlkun á slettu þessari frá Guðmundi Bjarta.
Og þá líklega má í framtíð brúka orðið sem nýyrði yfir "skyndibitann" sem aðeins
erlendir ferðamenn hafa efni á að gæða sér á í Bláa Lóninu, þá þeir vísitera
þann heilnæma og fagra stað.
Máske ekki svo dýr "sundbitinn", en blóð, svita og tár kostar krónulega séð
að koma einni þriggja manna "frónverskri" fjölskyldu þar inn.
Afslátt af því að bóndinn er með Psoriasis....gleymið því!
Neipp!
Náttúru-og heilsuperlan Bláa Lónið er ekki fyrir meðaljóninn uppi á litla Fróni,
þó fyrrum "forðuðum kúlunum úr landi-útrásarvíkingar" læði sér þangað reglulega,
ásamt "syndaafleystum bankastjórum".
Og blessað Lónið er alls ekki ætlað hinum almennu verkamönnum litla Fróns,
enda þyrftu "breiðu bökin" okkar að vinna ansi margar vinnustundir til að
koma sér og sínum "eina ferð" þangað.
Jafnvel sleppa kotelettunum nokkra sunnudaga, og hafa súpu og brauð
í staðinn, svo fjárhagurinn færi ekki í drasl af einni Bláa Lóns-ferð.
Jamm, en fínt orð "sundbiti", þó húsfreyja verði að viðurkenna að
hún hafði ekki hugmynd um hvað orðið "soundbite" þýddi, er hún las
frétt þessa.
Minnti hana óneitanlega á samskipti hennar við ungan tölvusnilla
í gegnum símtæki fyrir nokkrum árum.
Sá vildi óður og uppvægur hjálpa henni að ná aftur
nettengingu inn í heimilistölvuna, og fór grimmt í gegnum allskonar
leiðbeiningar á forngrísku eða einhverju þaðan af óskiljanlegra, með húsfreyju..
"....klikkaðu síðan á "attjú" í glugganum til hægri, þá birtist
"skrattinn missi þig" og klikkaðu á það og ýttu á F4, stígðu tvö skref til
hægri, gólaðu skoska þjóðsönginn, klikkaðu á grænu örina í vinstra horni,
og þá ætti þetta að vera komið"!...tölvusnillinn hrikalega jákvæður og
bjartsýnn.
En NÚLL OG NIX, ekkert hafði tengst hjá húsfreyju.
"VESEN, ekkert"?, snillinn undrandi.
ÞÖGN í símanum góða stund.
Húsfreyja var við það að gefast upp þegar snillinn fékk hugljómun:
"Hurðu, hvað heitir "ráderinn" þinn?
Húsfreyja man enn, hvernig hún kólnaði og svitnaði á víxl, af
kvíða yfir fáfræði sinni og tölvuheimsku.
Reyndi í örvæntingu að finna einhverja sæmilega "rökvísa" útlistun á orðinu
"ráder" í huga sínum.
"....ööööö "RÁ" útleggst sem þverslá..og "DER" er auðvitað skyggnið
á derhúfunum....ergo "þversláarskyggni"?????....djö.... ónefni er þetta?
"HVAÐ HEITIR ÞVERSLÁARSKYGGNIÐ ÞITT"?
Neipp, þetta var ekki að gera sig...húsfreyju lá við öngviti af stressi.
Rámaði loks í svarta kassann sem var á bak við tölvuna, og bóndi
hennar hafði tuðað um heila kvöldstund, vegna kattarlóru sem fannst
notalegt að lúra ofan á honum.
Jú, mikið rétt, það var "ráderinn"!
Og tölvusnillinn var búinn að leysa málið á nokkrum sekúndum,
eftir að húsfreyja gaf honum upp nafnið á kassaræskninu.
Jamm, oft skondið og skrýtið að snúa úr íslensku yfir á önnur
tungumál og öfugt.
Veit til dæmis einhver hvað "the forward season" er upp á
gamla ylhýra?
Þessari tæru snilld man húsfreyja eftir hafa ritað í stíl sínum í Hagaskóla
á landsprófi, fyrir nokkuð mörgum árum.
Jú, að sjálfsögðu er þetta "óbrigðul túlkun" byrjenda í ensku á
íslenska orðinu FRAMTÍÐIN.
Húsfreyja þakkar enn þann dag í dag forsjóninni, að hafa haft
orðið "framtíð" upp á íslensku í stílnum, en ekki orðið "FORTÍÐ"!
Ekki víst að enskufrúin, kennari húsfreyju, hefði fílað húmorinn í
" the shit season".
Altént fór enskufrúin náðarsamlegast fram á það við húsfreyju,
að hún fjárfesti í stærri og voldugari orðabók, eftir lestur á snaggaralegri
þýðingu hennar um "the forward season".
Margt skrýtið í kýrhausnum, eins og karlinn sagði.
Húsfreyja síðan að vinna upp á hvern dag næstu 2 vikur,
og nær lítið að skrásetja.
Fer vonandi skánandi á henni álagið í júlí þá líða fer að sumarfríi.
En gott að þingmenn eru glaðir og kátir,enda búnir að redda
sægreifunum, svíkja hjúkrunarfræðinga um launahækkun,tafsa, hiksta og
hika með lofaða skattalækkun og....öööööö...muldr.....muml...hóst...búnir
að setja verðtryggingarmálið í NEFND ásamt skjaldborgamáli heimilanna...hóst.
( DJÖFULSINS SNILLINGAR!)
Jamm, myljandi GLEÐI á þingi, og allt sumarfríið framundan.
En húsfreyja nennir ekki að tuða meira um pólitík, lítur björtum augum á
framtíðina, og veltir sér alls ekki upp úr "the shit season".
Góðar sumarstundir.
Grallaraspóar á Alþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 29.6.2013 kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2013 | 13:42
Það var og...í andakt og sannleika eða hvað?
Þá er "Jesú" mættur, sprellifandi kátur og hress,
með eiginkonuna hina endurbornu Maríu Magdalenu sér við hlið,
í Ástralíu.
Að vísu hefur kvisast, að þessi María hans Magdalena sé
númer "tvö", af hans eðal spúsum.
Það er að "Jesú" hinn ástralski hafi verið búinn að
sannfæra aðra háheilaga konu um að hún væri
hin eina sanna María Magdalena hans, en það
síðan eitthvað ekki gengið upp hjá þeim.
Sjálfsagt bara smá "tæknileg mistök" í gangi hjá
"þeim guðlega".....áreiðanlega allt myljandi fullt
af "endurfæddum" Biblíukarakterum kringum "Jesú"
þar "down under", svo líklega hefur hann bara ruglast örlítið
í ríminu.
María Magdalena hin fyrsta, þá sjálfsagt bara gömul vinkona hans,
hún Marta til dæmis, systir Lasarusar (his old mate), nema það hafi verið
hin systirin; María, sem laugaði fætur meistarans og þerraði með
hári sínu.
Þá hefur Jesú hinn ástralski, snarlega uppgötvað mistök sín,
þegar María Magdalena hin fyrsta, hóf að baða fætur hans á morgni hverjum
og brúka hárið á sér í handklæðisstað.
ÚPS! Vitlaus María.
Verið snöggur að kippa því í liðinn, sem hann hét Allan John Miller.....eða
nei...Jesú, var nafnið.
En rosalega hefði verið gaman að vera vitni að því þegar
All....afsakið ..Jesú hinn ástralski kom svífandi niður á jörðina í sinu
himneska skýi, samanber : "Þegar hann (Jesú) hafði mælt þetta
varð hann upp numinn að þeim ásjándi og ský huldi hann sjónum
þeirra. Er þeir störðu til himins á eftir honum þegar hann hvarf, þá stóðu
hjá þeim allt í einu tveir menn í hvítum klæðum og sögðu: "Galíleumenn,
hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn
frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til
himins" (Postulasagan 1, 9- 11).
Jamm, alltaf missir húsfreyja, ratinn sem hún er, af öllu merkilegu.
En máske hefur einhver náð að taka stórkostlegan trúaratburð þennan
upp á snjallsímann sinn...þá er þetta að sjálfsögðu komið inn á
You-tube, fésið, tístið sem og aðra netmiðla....kommentatröllin á
Visir.is þá sjálfsagt löngu búin að tjá sig um málið af stakri hógværð og
mælskusnilld, á meðan húsfreyja er grænni en allt sem grænt er, og
veit núll og nix og lítið sem ekki neitt um sjálfa "endurkomu Jesú"
nema það sem stendur í frétt þessari.
DÆS.
Rangur maður á röngum stað í vitlausu landi, eru og verða örlög
húsfreyju.
Hún vissi það alltaf, að hún ætti að vera flutt til Ástralíu fyrir löngu.
Hefði getað verið í móttökunefndinni, þegar Jesú sté niður af skýi
sínu.....jafnvel komið til greina sem "kandidat" sem ein af
Maríunum í lífi Jesú?
Sjíss! Alltaf allt of SEIN húsfreyja, ekkert að pæla...mætti halda
að hún hefði FASTA búsetu á hvítu "þokuskýi".
Svífur um í villu og svíma.
En húsfreyja býður Jesú hinn "endurfædda" hjartanlega velkominn aftur til móður jarðar,
og vonar að hann eigi mun huggulegri jarðvist nú, þegar "krossfestingar"
eru ekki lengur "inn" og fáir jarðarbúar kippa sér mikið upp við það, að
einhver gefi það út að hann sé Jesú endurfæddur.
Mesta lagi að hans háæruleiki, Páfinn í Róm, verði allur í tjóni
við tíðindi þessi......svona mergjuð SAMKEPPNI er náttúrulega
gjörsamlega "óþolandi"!
Svo virðist þessi Jesú einnig ansi snjall að "græða" svolítið
á "fortíð" sinni...selur geisladiska og heldur úti námskeiðum...og
tekur þakklátur við öllum "donations", þó slíkt sé að sjálfsögðu
engin skylda þegar hann er annars vegar.
Það muna jú allir "kastið" sem Jesú fékk í bænahúsinu þar sem
hann rak kaupmenn og sölumenn á brott, velti um borðum og
stólum og sagði þá gera hús hans að ræningjabæli.
En það er eins og það var.... allt gengur út á kaupmennsku í dag,
svo vilji nýi Jesú vera "memm", er víst skárra að
koma sér upp nokkrum sölubásum.
Alla vega svona í upphafi vega.
Aldrei að vita nema Jesú hinn ástralski
verði síðan bísna fær í því að "margfalda" mat og drykk, þegar tímar líða, líkt og
kringum árið 30, þegar hann mettaði fimm þúsundir manna með 5
brauðum og tveimur fiskum.
Þá getur hann pakksaddur, velt um sölubásum sínum af einskærri trúargleði...
Góðar stundir í Jesú nafni.
Segist vera Jesús Kristur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 1.8.2013 kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2013 | 16:32
Og húsið brennur, þó er sungið enn....
Sem starfsmaður á Eir hlýtur húsfreyja að gleðjast ósegjanlega
yfir því að vandi Eirar sé aðeins "tímabundinn".
Vonar hún að Jón hafi metið stöðuna rétt, svo aftur verði til dæmis
hægt að ráða fólk í 100% starf, sem lækkað var niður í 75%, ásamt því að
viðhalda nægri mönnun á hjúkrunardeildum og styrkja þannig
fagmennsku og gæði í starfi.
Og tryggja þannig starfsánægju og öryggi, sem ekki síst felst í
stöðugleika í launum.
Frábært fólk sem vinnur á Eir, vinnur störf sín af trúmennsku og dugnaði og
ómaklegt að það verði að taka þátt í að axla 8 milljarða króna hallann.
Toppnóg að axla bankahrun og kreppu, og þar stendur vinnandi fólk þjóðarinnar enn
í mögnuðu fjárhagsstappi og ekki sést fyrir endann á þeim hremmingunum.
Svo mörg eru þau orð.
Húsfreyja óskar Jóni og stjórn Eirar velgengi í störfum sínum,
og vonar þeim takist að vinna Eir út úr þessum 8 milljarða vanda
sem allra fyrst.
Góðar og "tímabundnar" stundir .
Veitir öryggi í brennandi greiðsluvanda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2013 | 00:31
Verði ykkur að góðu.
Faðir húsfreyju, Sigurður Guðmundsson frá Eiðum í
Vestmannaeyjum var 15 ára gamall, og hafði ráðið
sig sem kaupamann að Stóru Mörk undir Eyjafjöllum.
Bóndinn á Stóru Mörk hafði vissar efasemdir um drengstaulann,
þó drengur reyndist bæði herðabreiður og sterklegur að sjá við
fyrstu kynni. Drengurinn var jú að koma í fyrsta sinn í
sveit sem kaupamaður.
Og til að reyna á pilt, setti hann þann 15 ára í þyngstu og
erfiðustu verkin á bænum til að byrja með, til að sjá
hvernig hann plummaði sig.
En Siggi á Eiðum var fljótur að sjá, hvað klukkan sló hjá bónda,
og lagði sig allan fram, var harðduglegur og fylginn sér,
þó hann hefði aldrei verið kaupamaður áður.
Vann allt hratt og örugglega, og bað aldrei um aðstoð.
Bóndi var að vonum ánægður.
Ákvað samt að setja lokaprófraun fyrir peyjann úr
Eyjum.
"Skrepptu þarna niður á veg með mjólkurbrúsann,
Sigurður minn, getur tekið hann á handvagninn og
vippað honum upp á mjólkurpallinn, fyrir mjólkurbílinn að sækja
mjólkina. Láttu mig bara vita ef þú þarft hjálp".
Jamm, og mjólkurbrúsinn sá, tók litla 40 lítra af mjólk,
og var vel fullur að þessu sinni.
Bóndi glotti með sjálfu sér, og hugsaði að þarna hefði
hann nappað pilt, og nú yrði drengurinn að biðja um aðstoð.
En pápi húsfreyju dó ekki ráðalaus, og með asi, masi og brasi,
og öllum sínum 15 ára kröftum,
tókst honum að ýta og lyfta ferlíkinu upp á handvagninn,
sem hægt var að halla niður að jörðu til að létta verkið.
Síðan var það léttasti hluti verksins að draga vagninn, þó þungur
væri, niður smá brekku niður á þjóðveg.
Bóndi glotti grimmt er hann horfði á eftir kaupamanninum unga,
bévítans mjólkurpallurinn var jú að minnsta kosti metri á hæð,
ef ekki meira. Mun hærri en handvagninn.
Sá bóndi það síðast til sveinsins unga, að hann stóð og mældi
út mjólkurpall og mjólkurbrúsa til skiptis, er hann hvarf á vit
annarra verka á bænum.
Klukkustund síðar hafði bóndi lokið verkum sínum, og
fór þá að undrast um kaupamann sinn.
"Hví var drengstaulinn ekki kominn að biðja um hjálp,
með brúsann"?
Bóndi snaraðist út á hlað, en kom þá í flasið á
rjóðum og sveittum kaupamanni sínum.
"Jæja, á ég ekki að hjálpa þér með brúsann, Sigurður minn"?
bóndi kíminn.
"Nei, engin þörf á því, ég er búinn að þessu" strákur
glettinn á svip, og hvarf síðan án frekari útskýringa
inn í bæ í hádegisverð.
Bóndi rasandi hissa, gjóaði snörpum augum niður á veg.
Mikið rétt.
Þar stóð mjólkurbrúsinn uppi á pallinum.
Bóndi trúði vart eigin augum.
"Hvernig í ósköpunum hafði 15 ára strákur komið
40 lítra mjólkurbrúsa upp á pallinn eins síns liðs"?
Bóndi rölti niður að veg.
Brúsinn fullur af mjólk stóð þar og beið
þess að vera sóttur.
Bóndi klóraði sér í höfínu, skimaði í kring.
Sá aðeins annað vinnufólk sitt lengst niður á engjum,
leggja af stað, á rölt í áttina að bænum í mat.
Bóndi varð að gefast upp, og snéri heim í bæ.
"Gerðir þú þetta hjálparlaust, drengur"? bóndi nokkuð
byrstur.
Piltur játti því.
En hvernig sem bóndi reyndi að draga upp úr kaupamanni,
hvernig hann hefði unnið verkið, þagði piltur.
Brosti aðeins, og sagðist hafa notað "sína aðferð"!
Varð bónda tíðrætt við sveitunga sína og heimafólk,
um krafta og þrautsegju kaupamannsins unga úr Eyjum,
velti fyrir sér glímu hans við mjólkurbrúsann árum saman.
Það var síðan réttum 35 árum seinna, árið 1975, sem
Siggi á Eiðum stóð aftur við mjólkupallinn á Stóru Mörk.
Það var sumar, og pápi húsfreyju á ferð með konu sinni, með
dætrunum þremur og Oddi Júlíussyni ljúfum dreng og Eyjamanni.
Pápi átti sosum ekki von á því að gamli bóndinn væri á lifi,
eða að nokkur maður þekkti sig lengur í Stóru Mörk, en hann
ákvað samt að berja að dyrum og heilsa upp á heimamenn.
Viti menn.
Bóndi kom til dyra.
Aldurhniginn en ern í huga og nokkuð kvikur á fæti.
Og nú var gestum boðið inn. Dóttir bónda og eiginmaður hennar
ásamt börnum þeirra á þönum í kringum þetta óvænta innrásarlið
um hásumar.
Bóndi þekkti andlit pápa, þó langt væri um liðið,
og reyndi að raða saman minningarbrotum
um kaupamenn sína, og hvar pápi kom inn í söguna.
Allt í einu kviknaði blik í augum gamla bóndans.
"Þú ert kaupamaðurinn minn, sem vippaðir 40 lítra brúsanum upp á pall".
Pápi hló, og nú var öll sagan rifjuð upp.
"Og hvernig fórstu að þessu, Sigurður minn"? bónda mikið
niðri fyrir.
Jú, pápi ljóstraði upp leyndarmálinu.
"Notaði þrjóskuna, alla mína krafta, ásamt vogaraflinu og
hafði þetta á tæpum klukkutíma og var alveg búinn á því".
Síðan hlógu þeir báðir dátt.
En sem endanær, þá Siggi á Eiðum var annars vegar,
vatt sagan hér upp á sig.
Frúin á bænum vildi endilega bjóða gestum öllum
í hádegismat, og vildi ekki heyra neitt annað en það
yrði þegið.
Sveitafólk frónverskt gestrisið með eindæmum.
Og inn í borðstofu var öll hersingin dregin.
Sett við ógnarlangt borð.
Bóndi, húsfreyja, systur hennar og móðir sátu
upp við vegginn, en pápi, tengdasonur bónda og Oddur
hinu megin við borðið nær eldhúsdyrum.
Bóndafrú bar eðal fína ýsu, stóra og feita á borð,
með tólg, íslensku smjöri og kartöflum.
Oddur mikil matmaður, sem og pápi og bóndi,
og þeir tóku vel til matar síns,
og brátt var fiskur allur uppétinn.
Bóndafrú stökk upp frá borði.
Eftirréttur í boði.
Hrísgrjónagrautur með kanelsykri.
Bóndakona hellti sjóðandi heitum grautnum
beint í stóra skál og bar fram í borðstofuna.
Pottaleppar bóndakonu eitthvað orðnir lúnir og þunnir.
Svo heit var skálin, að hún brenndi sig á höndum, rak upp kvein,
missti skálina fram fyrir sig yfir borðið, svo grauturinn
flæddi út um allt borð, og ofan á hægra læri Odds.
Oddur veinaði upp af sársauka, þegar sjóðandi heitur grauturinn
brenndi hann, og stökk upp.
Velti vatnsglasinu sínu á hliðina, um leið og bóndafrúin
greip vatnsglas bónda síns og gusaði því framan á buxur
Odds til að kæla.
Bóndakona og maður hennar drógu síðan Odd fram í eldhús
í einum hvínandi hvelli, rifu niður brækur hans,
og skelltu klökum vöfðum í viskustykki á læri hans.
Húsfreyja þá 15 ára skvísa, grúfði andlit sitt niður
á bringu, og þorði ekki fyrir sitt litla líf að líta framan í
föður sinn, svo aðhlæginn sem hún var.
Hefði misst sig í gassahlátur, við eina glettna augngotu
frá pápa sínum.
Til allrar lukku dugðu björgunaraðgerðir þeirra hjóna
bísna vel, og Oddur brenndist ekki illa og jafnaði sig fljótt.
Settist aftur að borði, og bóndakona sem hafði eldað
ansi mikið af graut, fyllti skálina góðu á ný, en notaði
nú þykka ofnhanska, er hún bar hana inn.
En þar sem bóndafrú var orðin oggulítið stressuð
yfir gangi matarboðsins, var svolítið fum á henni er hún
rétti úr sér, sveiflaði út hendinni og sagði:
"Gjörið svo vel".
Sló um leið hendinni óvart í kanelsykurkarið, svo
það valt á hliðina og sykurinn sáldraðist yfir allan
grautinn sem enn var út um allt borðið.
ÚFF!
Bóndakona fraus við borðið og starði örvæntingafull
á fallega borðstofuborðið sitt útatað í graut,
vatni og kanelsykri.
Magi húsfreyju tók flipp flopp af innibirgðum hlátri.
Það krymti í pápa húsfreyju og hann ræskti sig ítrekað.
Þá tók gamli bóndinn skeið sína, skellti henni
í grautarsullið á borðinu, glotti við tönn og sagði:
"Já, og nú er hægt að moka grautnum beint
upp af borðinu oní sig og verði ykkur að góðu".
Heimamenn jafnt sem gestir skelltu upp úr, og húsfreyja
veinaði af hlátri.
Og allir fengu graut, og þó borðstofuborð bóndakonu
væri hálf hráslagalegt og subbulegt á eftir, smakkaðist
máltíðin glettilega vel.
Buxurnar hans Odds voru víst eitthvað slappar líka.
Bóndi kunni pápa bestu þakkir fyrir komuna, og var glaður
að hafa fengið sögulok dularfulla mjólkurbrúsamálsins.
Og Oddur týndi ber með okkur hinum lengi dags, þó
eigi væru brækur hans skraufþurrar.
En fylgjast með kosningaúrslitum næst.
Góðar stundir.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2013 | 22:48
Gestrisni á Norður-Kóreskan máta.
Húsfreyja er alvarlega að hugsa um að bregða sér
í eina herlega túristareisu til N-Kóreu í
sumarfríinu sínu þetta árið.
Aldeilis flott að fá tvo "prívat" leiðsögumenn, þá
maður stígur fæti á N-Kóreska grund.
Leiðsögumenn sem spretta upp sem gorkúlur, um leið
og húsfreyju hugnast að skreppa og skoða eina
"Sung-styttu" af stærri sortinni...eða er það
"Il-stytta" í dag?
O, jæja húsfreyju er nokk sama, getur vel hugsað sér að skoða
styttu af "Illanum", og það þó hún verði að bugta sig og beygja líkt
og gráklæddir heimamenn gera í fjarska.
Fínasta leikfimi að beygja sig og teygja.
Nú síðan væri aldeilis magnað að skreppa á "sína eigin prívat túristaströnd",
fá sér sundsprett með öðrum leiðsögumanninum...auðvitað ekki
auðvelt að "rata" í sjónum við N-Kóreska strendur,
og margfalt öryggi þar með að hafa góðan leiðsögumann
sér við hlið.
Væri hrikalegt ef húsfreyja ramvilltist í sjónum þar austur um,
og tæki bara stefnuna út á Gula Haf....finndist máske seint og um síðir
á kínverskri strönd hinu megin, örmagna, uppþornuð og saltkrumpuð eins
og sveskja.
Tæki 20 kíló af "botoxi" til að slétta úr henni aftur eftir svoleiðis svaðilför.
Nei, þá er öruggara að hafa fínan leiðsögumann svamlandi
sér við hlið.....nú, ef húsfreyju dveldist eitthvað sundið,
jafnvel með eitthvert krampavesen í fótum, þá myndi sá
snarpi leiðsögumaður sjálfsagt vippa sér í hlutverk
strandvarðar, og damla með húsfreyju á bakinu upp
á sína prívat túristaströnd, og blása í hana lífi.
Jamm, aldeilis snjallir menn N-Kóreumenn, þegar kemur
að því að huga vel að túristum.
Ekki væri síðan verra að skreppa á flotta "prívat túristapöbbinn"
og skella í sig einum köldum, í góðum félagsskap leiðsögumannanna.
Húsfreyja myndi rápa á milli tómra drykkjabásanna,
spá í arkitektúrinn, sætisáklæðin og tómatsósuflöskurnar á
borðinu...eða nei!
Tómatsósa er víst "kapitalísk" uppfinning, svo líklega
væri hana hvergi að sjá á pöbbnum.
Vesen!
Húsfreyja er alltaf svo hrifin af því hvernig "rauði litur"
tómatsósuflaskanna rífur upp litasamsetningu pöbba
í hinum vestræna heimi, og setur svolítið fútt í stílinn
í innanhússarkitektúrnum.
Jamm, en kannski að húsfreyja gæti stungið því að
leiðsögumönnunum, að ræða þörfina á tómatsósuflöskum
á túristapöbbum, næst þeir mæta hjá Illanum í viðtal.
Gætu bætt þessu svona í lokin á skýrslu sinni, um hversu
oft húsfreyja bugtaði sig og beygði fyrir Illastyttunni,
hversu oft hún lofaði og mærði fegurð og fjölbreytileika
N-Kóreskar menningar og hversu dásamlegt henni finndist að hafa
"tvo" prívat leiðsögumenn með í för.
Já, og er ekki "rauður" litur byltingarinnar, sem kennarar gala
á háa séinu yfir hrifnum og uppnæmum nemendum sínum í skólum
N-Kóreu...á meðan Illinn horfir ströngum en mildum augum
niður á verðandi "túristaleiðsögumenn", hermenn og kokka í
bekkjum, hangandi myndrænn á nagla fyrir ofan höfuð
kennarans?
Já, þær rauðu flöskur tómats myndu sóma sér vel
við mannlaus borðin á pöbbum N-Kóreu.
Og húsfreyja gæti líka hugsað sér, að stinga því að Illanum
í leiðinni, að hafa barmmerkið sem allir íbúar næla í
"grá" föt sín, og sýnir stranga en um leið milda ásjónu
Illans, í öllum regnboganslitum.
Setja smá lit í tilveruna hjá íbúum N-Kóreu...sem húsfreyja sæi
að sjálfsögðu aðeins sem "gráar" þústir í fjarska, um leið
og gráklæddir hermenn valhoppuðu "gæsagang" (GRÁgæsa að sjálfsögðu)
framhjá henni á einhverju Illastyttu-prýddu byltingartorginu.
Jepp, húsfreyju líst æ betur á sumarfrísferð til N-Kóreu...og nú ætla
Kínverjar og Kanar að biðja Illann góðfúslega að sleppa því
að hafa kjarnorkustríð á dagskrá sinni á næstu dögum,
svo þarna verður brátt allt í friðsæld og myljandi "grárri" lukku.
Gleði!
Plana sumarfrí næst.
Góðar stundir, og gangi ykkur vel að skipuleggja sumarfríið.
Súrrealísk ferð til Norður-Kóreu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2013 | 18:11
Af erfingjum og skondnum nafngiftum.
Bóndi varð fyrst hálf hvumsa við spurninguna frá
sjö ára pollanum, en glotti síðan og afsagði það með öllu.
Húsfreyja hló ásamt öðrum gestum er mættir voru í skírn
afastráks bónda....og eins árs afmæli litla kútsins í leiðinni.
"Hvenær kemur eiginlega presturinn", sá sjö ára ekki alveg
fíla rólegheitin í fullorðna fólkinu, og var hann orðin óþolinmóður
að bíða klerks, samt með iPad í höndunum og Ísak Aron leikfélaga sinn og bróður
skírnarbarnsins við hlið sér.
Ísak Aron, sömuleiðis 7 ára, var öllu heimspekilegri, en hljóp af og
til frá félaganum með iPadinn að veisluborðinu, og stautaði sig
í gegnum áritaða skírnartertu litla bróður.
Þetta var spennandi fyrir 7 ára litla gutta.
Aðalstjarnan brosti sínu tannlausa eins árs brosi, lét sér fátt um
finnast og var rasandi hissa á öllu þessu ættingjastóði sem mætt var í hús.
Loks mætti klerkur, séra Pálmi Bústaðakirkju.
Sá sjö ára með iPadinn yfir sig spenntur: "Leikur þú prestinn"?
Sérann glotti, og jánkaði því glettinn.
Vatnið vígt og blessað sett í fallega kristalskál, og athöfnin gat hafist.
Ísak Aron fékk að standa við skírnarskálina með foreldrunum.
Hlynur, stoltur faðir, hélt á þeim stutta undir skírn.
Sungið.
Sérann blessaði og síðan: "Hvað á barnið að heita"?
Hlynur: "ÍSAK ARON"!
Gestir sprungu af hlátri, sérann lyfti spyrjandi brúnum...allt
annað nafn en hann hafði verið látinn skrifa í skírnarvottorðið.
Ísak greip fyrir munn sér, og flissaði vandræðalega...áttu að
vera tveir drengir á heimilinu með nákvæmlega "sama nafn"?
Neipp.
Hlynur rjóður í kinnum vegna mistakana, leiðrétti sig snarlega:
"ARNAR FREYR".
Sérann brosti, jós vatninu og Arnar Freyr fékk rétt nafn að lokum.
Afmælissöngur sunginn í stað "Jesú bróðir besti" fyrir Arnar Frey,
og síðan sest niður að veisluborði.
Sérann rifjaði upp aðra skemmtilega skírn á Hvammstanga fyrir
all mörgum árum í sinni fyrstu messu þar.
Átti að skíra þrjá drengi, og ákvað í glettni sinni að segja
meðhjálparanum ekki nöfn drengjanna fyrirfram.
Sá fyrsti mætti við skírnarfontinn.
"Hvað á barnið að heita"?
"SIGURÐUR ÞÓR"!
Prestur skírði.
Næsti mætti:
"Hvað á barnið að heita"?
"SIGURÐUR ÞÓR"!
Prestur skírði...meðhjálpari birtist skyndilega upp að hlið sérans,
áhyggjufullur og rjóður í andliti: (Hvíslaði)
"Séra minn, þú varst búinn með þennan... búinn að skíra Sigurð".
Prestur sinnti áköfu hvísli meðhjálpara engu, og snéri sér að
næsta dreng.
Meðhjálpari hörfaði aftur á sinn stað.
"Hvað á barnið að heita"?
"SIGURÐUR ÞÓR"!
Prestur skírði....
"Ertu ekki eitthvað að ruglast, séra minn", meðhjálpari mættur,
hvíslandi og angistin uppmáluð.
Meðhjálpari þannig staðsettur í kirkju að hann heyrði sjaldan lágværar raddir
foreldra, er þeir nefndu nöfn hvítvoðunga sinna fyrsta sinni, og hélt
að nú hefði nýi sérann gjörsamlega klikkast af stressi í nýrri kirkjusókn,
og héðan í frá myndu allir drengir í sókninni heita því fróma nafni:
"SIGURÐUR ÞÓR"!
En það var langt því frá.
Því svo skemmtilega vildi til þennan dag, að þrennir foreldrar
ákváðu að skíra drengi sína "sama nafninu" í litlu kirkjusókninni á
Hvammstanga.
Góð saga hjá séranum.
En Arnar Freyr er skírður og blessaður eftir daginn í dag, og allir
hurfu glaðir á braut úr veislu.
Tólf ára djásnið fékk meira að segja ferð í 7-D-bíó í Skemmtigarðinum með Tinnu
systur sinni, áður en heim var haldið.
Tengdó eru lögð af stað norður eftir tveggja nátta gistingu í húsi
húsfreyju, og eru að vonum ánægð með nafngiftir yngsta erfingjans.
En ljúf frétt þetta af væntanlegum erfingjum Svandísar og maka,
vonandi gengur vel að "skíra" hjá þeim....
Góðar stundir á fallegum vordegi hér í borginni við sundin bláu.
Ástfangið par í hreiðurgerð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2013 | 15:19
Beint ofan í hyldýpið.
Er sjálf hjúkrunarfræðingur, og hef aldrei lifað
eins svarta tíma starfslega séð.
Vinkona ein, sem þurfti í smá aðgerð fyrir nokkrum árum síðan,
segir reynslu sína ekki góða af heilbrigðiskerfinu.
Mistök voru gerð í aðgerðinni, sem undu upp á sig með
tilheyrandi sýkingum, samvöxtum, neikvæðum áhrifum á
önnur líffæri og hverju ekki.
Konan var beðin afsökunar á mistökunum sem urðu í aðgerð,
en afleiðingum þeirra varð hún að mæta ein, endalausum
aukaverkunum, vanlíðan, þrekleysi og heilsuleysi.
"Það var aldrei litið á mig sem "einstakling", heldur vísaði
hver á annan með þetta einkennið, og eitthvert allt annað með
hitt einkennið. Þarna átti engin heildræn lækning eða hjúkrun
sér stað, ég var hólfuð niður í kassa: Ristilinn í einum, hjartað í öðrum,
móðurlífið í hinum þriðja, nýrun í þeim fjórða og svo framvegis,
og engin bar ábyrgð á neinu".
Sem hjúkrunarfræðingur efast ég stórlega um að vinkona sé
eina tilvikið hér uppi á litla Fróni, sem fær svo slæglega heilbrigðisþjónustu
frá Landsspítala Háskólasjúkrahúss á síðustu árum.
Álag á heilbrigðisstarfsfólk hefur margfaldast,
vinnudagurinn er ein hlaup frá upphafi til enda,
sífellt unnið hraðar til að komast yfir fleiri verki,
arfastress að sinna sjúklingum í stöðugri mistakahættu,
liggjandi í rúmum á GÖNGUM á yfirfullum deildum.
Heilbrigðisstarfólk flest all orðiðt úttaugað, örþreytt og komið
í vöðvabólguhnút af ofurálagi.
Veikindadögum þeirra fjölgar þar með.
Við erum fallin í hyldýpið heilbrigðislega séð hér í voru litla landi.
Fólk bíður margt lengi eftir aðgerðum,
margir geta ekki sinnt störfum sínum á biðtímanum og hætta þar
með skila sínu vinnuframlagi til þjóðfélagsins.
Mistökum fjölgar, og sjúkir oft lengur að jafna sig eftir veikindi þar með,
og hefja störf sín seinna en ella aftur.
Heibrigðisþjónusta við öldunga er síðan sér kapituli út af fyrir sig,
og verður ekki um það mál ritað að sinni.
En merkileg þykir mér tenging heilbrigðismála við pólitík að þessu sinni.
Gott ef réttur manna til þess að vera heilbrigður og að geta leitað
sér lækninga, verði baráttumál í kosningum, og þó fyrr hefði verið.
En verð að segja að trú mín á fjórflokkunum og getu þeirra til
að grafa heilbrigðiskerfið upp úr "hyldýpinu" er vægast sagt agnarsmá.
Og að kjósa x-D til að redda heilbrigðismálum...er ekki alveg eins gott
að taka inn eitur?
Hundónýtt heilbrigðiskerfið í dag myndi altént REYNA að
bjarga manni.
Flokkur sjálfstæðis með stjórn á heilbrigðismálum?
GLÆTAN!
Góðar stundir, og vonandi verðið þið öll fílhraust fram á dánardag.
Farin fram af bjargbrúninni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2013 | 21:36
Af Herjólfi, uppspúnum líffærum ofl.
Aflminni Herjólfur, er boðorð dagsins.
Gott og vel.
En hvað með "siglingartímann" milli lands og Eyja?
Nú er húsfreyja með sjóveikari konum sem uppi hafa verið á litla Fróni,
og þó víðar væri leitað.
Þriggja tíma martröðin milli Þorlákshafnar og Eyja er henni til að mynda
algjörlega ofviða.
Ælir sem Múkki og spýr tæpa tvo tíma af þeim þremur, sem tekur að
berjast á milli þeirra hafna, þá hún neyðist til að taka Herjólf
út í Eyjar að vetrarlagi.
Grátbiður áhafnarmeðlimi að FLEYGJA sér útbyrðis hið snarasta,
og binda þannig enda á arma vesöld sína og mergjaða vanlíðan,
heltekin af sjóveiki og angist, strax eftir rúma klukkutíma siglingu.
Það sem verra er, er að 12 ára djásnið er öllu sjóveikara, en
æludruslan, móðirin, og byrjar að æla strax eftir 50 mínútur á sjó.
Móðirin ekki í nokkru standi að stumra yfir náfölu djásninu,
með fulla ælupoka, og salernishalup, liggur emjandi í
koju, í sófa, úti á dekki eða hvar sem örlögin hafa holað henni niður
um borð í koppnum Herjólfi, þjáist og barmar sér.
"Hvernig í ósköpunum datt henni, ábyrgri móður og hjúkrunarfræðingi
í ofanálag, að hætta svona illilega lífi og innri líffærum sínum og djásns,
með SJÓFERÐ ferð til Vestmannaeyja í HEILA ÞRJÁ KLUKKUTÍMA um borð
í Herjólfi"?
Sjálfsásökunin og sektarkenndin er að sliga húsfreyju,
og slær allhressilega í vanlíðanina og sjóveikina.
"LIFE IS A BITCH, AND THEN YOU GET SEASICK", er slagorð
sem húsfreyja samdi fyrir mörgum árum, eftir eina hroðalega
sjóveikisferð til Eyja með Herjólfi.
( Spjó upp 3 vikna gallbirgðum, hálfri lifrinni,
og einu lunga í þeirri viðbjóðsferðinni).
"Life is a bitch, and then you die...piff...bara húmbúkk!
EKKERT slær út alvöru sjóveiki...dauðinn sjáldsagt aðeins kærkomin lausn,
í samanburði við það helvíti.
Svo það er von að húsfreyja spyrji: "Hvað um siglingarTÍMANN"?
Mun "aflminni" ferja vera LENGUR í ferðum á milli lands og Eyja?
Því þetta er spurning um mínútur...í alvöru, þegar kemur að
djásni, húsfreyju og SJÓVEIKI.
Djásn og húsfreyja fóru bísna oft með Herjólfi í Eyjar út í fyrrasumar,
og 45-50 mínútna siglingin frá Landeyjahöfn þoldist svona svaðalega vel af báðum.
Engin sjóveiki, engar ælur, engin örvænting.
Þær eins og nýslegnir túskildingar, er í land kom.
Engin vesöld og lystarleysi né sjóriða í marga tíma á eftir sjóferð.
Bara gleði og myljandi hamingja yfir því að hafa aftur fast land undir fótum.
Jamm.
Hvað verður nýr og AFLMINNI Herjólfur LENGI á siglingunni milli
Landeyjahafnar og Eyja?
Erum við að tala um siglingu upp á sama tíma og með gamla koppnum,
eða er verið að LENGJA sjóferðina tímalega séð?
Er verið að bjóða upp á rúman klukkutíma...jafnvel einn og hálfan
þar á milli?
Djásnið er heillum horfin með andlitið ofan í æludallinn, lengist
ferðin svo mikið...húsfreyja tæpari en allt sem tæpt er.... og
gæti farið svo að hún ældi upp "hinu lunganu" fari reisan mikið yfir
klukkustund að tímalengd.
Vesen þar með upp á 11,2 á "vesen-skala frá 1-10", fyrir húsfreyju
og 12 ára djásn að fara út í Eyjar með Herjólfi.
Og telur húsfreyja, að svo verði með alla sjóveika, sem af geðveikri
bjartsýni kaupa sér ferð með Herjólfi til Eyja.
Nema auðvitað að húsfreyja og djásn séu "einstök fyrirbæri í tilverunni",
kannski af mergjaðri "sjóveikisætt" langt aftur í ættir,
æluvesalingar, arga landkrabbar, guðsvolaðir aumingjar á sjó og
sjóferða-afturkreistingar.
Aldrei að vita.
En húsfreyja vonar heitt og innilega að "aflminni" nýr Herjólfur
verði jafnfljótur í ferðum og sá eldri...ef ekki fljótari.
Góðar stundir og gleðilegar Eyjaferðir í sumar.
Nýr Herjólfur verður aflminna skip | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.3.2013 | 17:57
Af hrísgrj...Landeyjahöfn, jarðgöngum ofl.
Í niðurskurði kreppu og hruns,
hafa greiðar samgöngu um litla Frón vegið
æ þyngra, þegar kemur að öryggi þeirra sem
búa úti á landi.
Skurðstofum sjúkrahúsa úti á landi verið lokað í sparnaðarskyni.
Fæðingarþjónustu lokað eða haldið í lágmarki við fæðandi
konur, sem fæða sín börn vandkvæðalaust....hinar fara á blikkandi
ljósum í höfuðborgina eða á fjórðungssjúkrahús, sem hafa fengið
að lafa með flókin inngrip í lífshótandi aðstæðum.
Hvað þá með Eyjamenn?
Enginn er vegurinn.
Jú, það er flogið með bráðveika...ef flugfært er.
Nú ef svartaþoka skellur á, eða stormur stendur upp á flugvöllinn,
þá er lítið, ef þá eitthvað, flogið.
En síðan er það blessaður koppurinn, hann Herjólfur.
Þrír tímar í Þorlákshöfn á vetrum, og þá er eftir að blússa
"babú" Þrengslin til Reykjavíkur.
Menn hafa steindrepist á mun skemmri tíma en rúmum þremur tímum,
með hjartverk, heilablæðingu, sprunginn maga eða sprunginn botnlanga,
fyrir utan hörmungina að missa barn í móðurkviði "á leiðinni" í
bráðakeisara á næsta sjúkrahús.
Já, samgöngur hafa alltaf skipt máli, en aldrei sem nú.
Og til að bæta nú verulega samgöngur við Eyjar hér um árið, var skellt
upp einni herlegri höfn við ósa eins af stórfljótum landsins, Markarfljóts,
Landeyjasandsmegin, með bullandi sterka sjávarstrauma
rótandi aur og sandi tvist og bast um strendur Suðurlands.
Eðal fín staðsetning.
(Jú, kannski fyrir "hrísgrjónaakur", er mat húsfreyju.
Mætti vel sía burt mestu sjávarseltuna, og rækta fínustu hrísgrjón
í eðalfínum blautum aurnum.)
Altént er höfnin sú ágæta, að nýtast bísna vel þriðjung úr ári,
þegar veður eru sem blíðust, og vindar þagna af og til stundarkorn
við suðurströndina.
Er það þar með stefna stjórnvalda, að senda Eyjamönnum
á barnseignaaldri áskorun um að stíla barnsfæðingar allar
upp á vor og sumur?
Jafnvel setja lög um "leyfilegan do-do-tíma" í Eyjum?
Eingöngu "do-do" frá ágústlokum til loka desember ár hvert, leyfilegt,
að viðlögðum sektum, gerist menn brotlegir og barn kemur undir á öðrum tíma?
Já, og ennfremur, munu stjórnvöld senda eldheita áskorun til allra Eyjamanna,
að vera ekki að vesenast með "alvarleg bráðaveikindi" um hávetur,
í snarvitlausu veðri, þá flug liggur niðri og allt er hvort eð er í fári með
Landeyjahöfn, og Herjólfur búinn að afboða ferðir í Þorlákshöfn!?
Hljóta að sjá það sárlasnir Eyjamenn, að þetta er "sjálfsögð" tillitsemi
við niðurskurðaróð stjórnvöld, að harka af sér í illviðri á veturnar,
og mæta síðan, fárveikir, líkgráir og nánast með tærnar upp í loft, næst þegar viðrar
í flug, eða í notalega "stutta" siglingu til Þorlákshafnar.
Jamm, merkilegt þetta samgöngumál Eyjamanna.
Húsfreyja er hægt og bítandi, af fenginni reynslu af "samgöngubótinni",
Landeyjahöfn, að snúast á sveif með jarðgöngunum hans Johnsen.
Telur að altént ætti að skoða málið, og kanna hvort
þetta sé raunhæfur möguleiki.
Það búa 5000 manns í Vestmannaeyjum allt árið um kring.
Og síðan er einhver ótölulegur fjöldi af ferðamönnum á
ferðinni þangað út, og með mislanga viðveru allt árið um kring.
Samgöngur við allan þennan mannfjölda mega ekki klikka, er mat húsfreyju.
Skoðum göngin hans Johnsen.
Eyjamenn gætu orðið heppnir, og annað Hvalfjarðargangnaberg fundist
milli lands og Eyja....og þá er bara að spýta í lófana
Yrði rífandi vinna í þessu fyrir fjölda manns, í ofanálag.
Og er ekki málið að byggja upp atvinnu og spyrna við kreppu og hruni.
Góðar stundir, og vonandi verður bongóblíða í Eyjum, þar til samgöngur
við þær, eru tryggar orðnar .
Jarðgöng til Eyja verði áfram skoðuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |