29.11.2009 | 19:32
Jólaljós á aðventu...eða stórbruni.
Húsfreyja var mætt niður
á Austurvöll með 8 ára djásnið
og Rakel bestu vinkonu.
Kona mælti á norska tungu og
kona "mælti" á táknmáli við hlið hennar.
Sú norska var með hland fyrir hjartanu
yfir kreppuörlögum sinna frónversku frænda,
og óskaði að við næðum okkur fljótt á strik aftur.
Falleg ósk það, þó norskir frændur vorir hafi
ákveðið að bíða með lán til litla Fróns, þar til
"Ísbjargarklafinn" væri kyrfilega festur á frónverksa þjóð,
og Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn hefði lokið sinni blóðtöku.
Jamm!
Íslensk kona, Hanna Birna, titluð borgarstjóri rabbaði
næst um ljósið og vonina.
Verið í embætti borgarstjóra "óvenju lengi", sú góða kona,
mun lengur en síðustu fyrirrennarar hennar sem dúlluðu
sér við að stjórna borginni nokkra mánuði í senn.
En ljómandi góð ræða hjá "þaulsætnum" borgarstjóra,
stutt og "vongóð"!
Jólatréð var glæsilegt.
Húsfreyja reyndi að koma djásninu og Rakel í sjónmál,
svo þær sæju þegar tréð tendraðist upp.
Var töluvert mál, því feður í kringum 190 til tveir metrar
á hæð, tróðu sér stöðugt fram fyrir 8 ára skvísurnar...
og með börn á aldrinum 1-5 ára á herðunum.
Húsfreyja náði þeim loks á svæði þar sem þær náðu að
berja hálfan metra af toppi trésins augum....talið niður...
BINGÓ og það varð ljós!
"Noh"!
"Bara eins og í sköpunarsögunni", húsfreyja glotti
góðlátlega að hugsun sinni.
Myndir teknar af djásni og Rakel undir trénu,
við hliðina á þremur "sænskusyngjandi" túristum,
sem þurftu að fá 25 myndir af sér undir trénu.
Húsfreyja tók tvær.
Þá vildu 8 ára skvísur heim hið snarasta.
Enda töluvert kalt fyrir grannvaxnar 8 ára dömur í
blautum snjógöllum.
Húsfreyja reyndi að freista þeirra með upplestri
Gerðar Kristnýjar, jólasveinum og bangsanum úr
Dýrunum úr Hálsaskógi.
Neipp!
Svo húsfreyja hélt heim á leið, með dynjandi söng
jólasveina í eyrunum.
Á árum áður bjó húsfreyja á Heimaey,
"næst-stærstu" eyjunni í Vestmannaeyjaklasanum....
litla Frón að sjálfsögðu sú stærsta samkvæmt
hógværum og lítillátum Eyjamönnum.
Heldur var minna umstang í kringum jólatré
á Stakkó, kirkjuna og víðar í Eyjum þá, en var í dag niðri á
Austurvelli.
Gott ef Eyjamenn voru yfir höfuð nokkuð látnir vita,
þegar tendra skyldi ljós á bæjarjólatrjám.
Allt í einu voru bara sprottin upp upplýst jólatré
hist og her um bæinn.
HALLELÚJA!
Bara sisona.
Lítið gert úr málinu, þótt trén væru falleg í svartasta skammdeginum.
Húsfreyja man ekki eftir einni jólatrésræðu hjá
Magga bæjó.
Ekki einni.
Mun meira spennandi og meira að gera hjá krökkum að fá að skreyta
aðventukransinn á heimilunum, og systkini börðust
jafnvel um að fá að kveikja á fyrsta kertinu.
Þá voru "rauðar" lafandi slaufur og hangandi upp
eftir grannri spýtu í tísku á aðventukrönsum.
Húsfreyja lítil skotta þá, náði að kveikja í a.m.k.
tveimur aðventukrönsum, og systur hennar
náðu að brenna einn til kaldra kola.
Móðir húsfreyju stillti sínum aðventukrönsum
ætíð upp í "mest 70 cm fjarlægð" frá svalahurðinni
í borðstofunni, og faðir húsfreyju var orðinn
æði snjall í að sveifla "logandi" kransakyndli
á innan við sekúndu út um dyrnar.
Jamm, aðventukransar voru sko hasar.
Faðir húsfreyju bauð móðurinni ein jólin
að brenna bara helvískar "slaufurnar" STRAX,
úti á svölum, áður en þær færu á kransinn.
Og málið væri þar með dautt!
Móðirin afþakkaði pent, en sleppti slaufum
að mestu, bara svona smávegis á milli kerta.
En þá héldu systur húsfreyju, þá pínulítil peð
með ljósa slöngulokka, að þær gætu aldeilis kveikt sjálfar
á aðventukransinum!
Brann til kaldra kola....úti á svölum.
Faðirinn með brunasár á handarbaki í 4 vikur.
Síðan lítið verið notað af slaufum á aðventukransa
í stórfjölskyldu húsfreyju.
Það er ENGIN slaufa á aðventukransi húsfreyju þetta árið.
Aðeins greni, keramíksveinar, kuðungar og jólasnjókarl.
Átta ára djásnið kveikti á fyrsta kertinu seinni
partinn í dag undir vökulum augum húsfreyju sem
stóð 10 cm frá kransi og 30 cm frá svalahurðinni.
En allt fór vel, og það eina sem brann var kertið
sem átti jú að loga.
Átta ára djásnið svo alsælt með snjóinn, og er búin
renna sér á rassaþotu allan liðlangan daginn,
fyrir utan "skreppelsið" á "upptendrunina" niður
á Austurvelli.
Húsfreyja hins vegar að jafna sig af ellihrumleika í baki,
og eftir tvö andlát hjá hennar yndislegu öldungum á deildinni
hennar.
Annð andlátið var nokkuð fyrirsjáanlegt, en hitt kom snögglega upp
og því eru nú tveir elskulegir herramenn horfnir í "Sumarlandið".
Jamm, erfitt að horfa á eftir yndislegu fólki.
"En svona er lífið, Siggi" sagði Júlli á Hlíðarenda gjarnan við
föður húsfreyju, og ekkert nema gott eitt um það að segja.
Gæfan mesta.
Aska og mold. En nægir nokkrum slíkt,
sem notið hefur ritninganna fræðslu?
Vor eirðarlausa öld er hrjáð og sýkt
af efasemd og hræðslu.
Oss voru gefin fögur fyrirheit,
en fæstir vilja þeim í auðmýkt trúa
og nema staðar eftir langa leit
í landi þar sem, sem hryggð og ótti búa.
Oss voru gefin holl og heilög ráð,
er hefja skyldu mannsins líf og sanna,
að barnið skynjar betur drottins náð
en böðlar þeirra Kaífasarmanna.
Vor mesta gæfa er að fæðast feig
og finna guð og ljósið eygja,
en þyngsta raun að þjást af banageig
og þora ekki að deyja.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.
Góðar stundir á aðventu.
Tendrað á ljósum Óslóartrésins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.