16.11.2008 | 20:50
Risagjaldþrot?
Dýrt er landið, drottinn minn,
dugi ekki minna
en vera allan aldur sinn
fyrir einni gröf að vinna.
Fyrr má nú aldeilis fyrr vera, en að "risagjaldþrot"
blasi við okkur Frónbúunum, þó eitthvað lítið
pusaðist af aurum til okkar úr Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Eigum næga náttúrulega orku úr iðrum jarðar, nægt vatn,
búpening og þokkalega slarkfær fiskimið.
Við hljótum að geta "reddað" okkur eitthvað fram eftir
öldinni með slík auðæfi.
Svo skellum við okkur af fullum þunga aftur
út í kartöflu- og rófurækt við hvert hús og hverja blokk.
Sjóðum nýveidda ýsu með smjöri, gerum plokkara úr
afganginum, borðum slátur og grjónagraut tvisvar í viku,
hjólum eða göngum í vinnuna, notum bílinn bara spari, og
lærum aftur að moka snjónum úr innkeyrlsunum "sjálf"!
Sleppum Spánarreisum og heimshornaflakki í nokkur ár,
þar til þokkalega stöðugur gjaldmiðill er kominn í landið,
og endanlega er búið að drekkja krónuræflinum.
Og síðast en ekki síst, seljum öllum, sem vilja kaupa,
ál og vatn á uppsprengdu Evruverði.
Fiskinn borðum við sjálf!
Nema einhver bjóði extra góðan prís fyrir kílóið.
Risagjaldþrot, HVAÐ?!
Verður bara svona "oggulítið mínigjaldþrot" sem
við tökum á saman.
Svona á meðan góðærissukkararnir eru í "áfallahjálp"
á Frönsku Rivierunni, Karabísku eyjunum eða á
Svissnesku "fjallaspai".
Verða að fá "frið" til að jafna sig á taugum, aumingjarnir.
Töpuðu milljörðum ofan á billjarða eða trilljarða......vitið
þið ekki hvað það er "sárt"....og niðurbrjótandi á líkama
og sál? Ekki hægt að kaupa nýja 1000 fermetra snekkju,
ekki reisa 800 fermetra villu með sundlaug og sána
í Mónakó eða fjárfesta í 26 milljón króna jepplingi.
Gott ef þeir geta nokkurn tímann aftur
hugsað sér að setja á stofn "pappírspeningafyrirtæki"
með svona lélega "míníþjóð" að bakhjarli, sem litla Frón
er.
Vesalingarnir!
Ósköp eiga þeir bágt..snýt, snýt...sniff!
Nú er öllum djöflum dátt.
Dregur af mönnum gaman.
Himinglæva og austanátt
ætla að dansa saman.
Uggir mig um allra hag,
sem eiga mök við græðgi.
Stormurinn kaldi líksöngslag
leikur á símaþræði.
Húsfreyja hefur ekki mikla trú á risagjaldþrotum.
Hún telur að framtíð sé björt á litla Fróni,
á meðan við höfum nóg að bíta og brenna.
En Örn Arnarsson skáld er að sjálfsögðu
höfundur staka og ljóða í pistli þessum
Góðar stundir.
Ávísun á risagjaldþrot ef lán fæst ekki frá IMF | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Frábær pistill hjá þér!
Guðrún Sæmundsdóttir, 16.11.2008 kl. 20:58
Þakka þér, Guðrún....og kærar þakkir fyrir innlitið.
Sigríður Sigurðardóttir, 16.11.2008 kl. 21:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.