Sólin skein...

Mount_Hood_Sunrise_by_bypolar_bear  ...... inn um gluggann þegar húsfreyja vaknaði

  upp úr tíu í morgun.

  Kötturinn lá makindalegur í gluggakistunni,

  á smá sólarblett sem smaug í gegnum

  rimlagardínurnar.

  Húafreyja dró djúpt andann.....ekkert skeði.

  Enginn stingandi verkur niður í nárann,

  enginn herjans nýrnaverkur í bakinu.Cool

  Húsfreyja vippaði sér fram úr með hraði, og

  réðst á þvottafjallið sitt við undirspil Emelíönu

  Torrini.

  Gluggaði aðeins í málgögnin og netið.

  Allt sótsvartur fjandiAngry.

                      Enginn grætur íslending

                      einan sér og dáinn

                      þegar allt er komið í kring

                      kyssir torfan náinn.

  Daninn búinn að loka og læsa, bretinn sár og

  bálvondur.

  "Útrásarvíkingarnir" taldir flúnir af landi

  brott með það litla sem eftir var af

  þjóðargóssinu, eftir að hafa siglt þjóðarskútunni/

  víkingaskipinu í strand hér uppi á litla Fróni.

  Ef satt er, fer lítið fyrir orðstý þeirra, þá

  þeir vilja aftur sækja á heimaslóðir.

                      Mér var þetta mátulegt

                      mátti svo til haga

                      hefði ég betur hana þekkt

                      sem harma ég alla daga.

  Jaso, ekki er það gæfulegt, að verða heltekinn

  af græðgi og fjármálabraski, hugsaði húsfreyja

  og dæsti af gleði yfir góðri heilsu nýrna sinna.

  Ekki víst að þeim verði vinsamlega tekið,

  þurfi þeir að leita til íslensku þjóðarinnar

  í framtíðinni.

  Ekki gott að vera "þjóðarlaus" og "landlaus"

  íslendingur í útlöndum.

  "Það hljóta að vera ill örlög og grimm", tautaði

  húsfreyja fyrir munni sér, og svei ef hún var

  ekki allt í einu farin að vorkenna "útrásarliðinu"

  örlítið.

                        Sumir fóru fyrir jól,

                      - fluttust burt úr landi,

                      heillum snauðir heims um ból

                      hús þeir byggja á sandi.

                      Í útlöndum er ekkert skjól,

                      - eilífur stormbeljandi.

  En húsfreyja er alsæl hér uppi á litla Fróni, þrátt

  fyrir fársjúka krónu, og bensínverð fast uppi á

  háalofti og saltið í grautinn að verða jafn dýrt

  og fínir gönguskór voru fyrir ári.

  Hér er hennar fólk og hennar fjölskylda, er í góðu

  starfi, og ekkert verra að hrjá hana en einn og

  einn bévítans nýrnasteinn.

  Hefur ekki tapað einni einustu krónu í fjármálabraski,

  þarf ekki að flytja af landi brott og halda jól

  í útlöndum, ríkið búið að lofa að tryggja launareikninga

  í banka hennar...og sólin skínGrin.

  Og nýrnaverkjalaus í dag....hvað getur hún haft

  þetta betra.

  Útrásarræflarnir í útlöndum eru hinsvegar í djúpum skít...

                      Sólin heim úr suðri snýr

                      Sumri hallar hlýju.

                      Ó, að ég væri orðinn nýr

                      og ynni þér að nýju.

  En húsfreyja ætlar út í sólina og haustilminn.

  Versla kannski smá í kvöldmatinnn...svona fyrir

  sama verð og hún greiddi áður fyrir 6 manna veislu,

  og sækja sjö ára djásnið í skólann....og svo ræða þær

  kannski svolítið um lífið, tilveruna, Guð og góðvildina,

  sú sjö ára og húsfreyjaInLove.

  Góðar stundir.

 

  p.s.  Vísur og ljóð að sjálfsögðu eftir Jónas Hallgrímsson

  í pistli þessum, nema erindið úr Íslensku vögguljóði Laxness (Sumir fóru...).

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

Ég er búin að vera með hnút í maganum yfir þessu með breta, þeir eru uppáháhaldsþjóðin mín á eftir okkur. Allur heimurinn er að fara á hvolf, en þá kann maður loksins að meta almennilega hvað skiptir máli

halkatla, 10.10.2008 kl. 17:23

2 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Já, Anna, ég held líka mikið upp á bretana...eru svo krúttaralega vel skipulagðir og nákvæmir og hafa þvílíkan myljandi húmor.  London ein af mínum uppáhaldsborgum, fyrir utan Boston og Barcelona.  Vona bara að stjórnvöld beggja landa greiði úr þessu fjármálakrísuleiðindum, og að við verðum aftur "kúl" vinaþjóðir.

Sigríður Sigurðardóttir, 10.10.2008 kl. 17:35

3 Smámynd: Sigrún Óskars

Góður og jákvæður pistill hjá þér, manni veitir ekki af pennum eins og þér

Samt ekki gott þetta með nýrnasteinana  

Sigrún Óskars, 10.10.2008 kl. 20:28

4 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Maður fer langt á "sólarorkunni", Sigrún....jafnvel þó stöku nýrnasteinn kvelji mann af og til, og þjóðarskútan mari í hálfu kafi.  Fer í urographiu á þriðjudag, og vonandi er eitthvað að fækka í mér grjótið.

Sigríður Sigurðardóttir, 10.10.2008 kl. 21:33

5 Smámynd: Solla Guðjóns

Solla Guðjóns, 11.10.2008 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband