29.8.2008 | 17:39
Veðravíti og Eyjaminningar.
Sei, sei! Fimmtíu og einn metri á sekúndu.
Bísna góður "strekkingur" það.
Sjálf man húsfreyja "allhvassan vind" í Eyjum,
á veturna, þá hún var barn.
Þeyttist á ægilegum hraða í skólann, alla
Grænuhlíðina og Sólhlíðina með stífa austanáttina
í bakið, og var mætt í Barnaskóla Eyjamanna
á mettíma....hefði verið gaman að hafa
skeiðklukku við hendina, er húsfreyja næstum
viss um að heimsmet hefðu fallið.
Á heimleiðinni, hinsvegar, hafði ósjaldan bætt
í vind, og þá barðist húsfreyja, þá lítil, grönn skotta
austur í Grænuhlíð á rúmum klukkutíma (15 mín. gangur
venjulega).
Kýtti hún herðar saman, setti hausinn í
vindinn og reyndi að komast á milli ljósastaura.
Hún hélt dauðahaldi í staurana á meðan hún blés
mæðinni, og safnað kröftum fyrir barninginn að
næsta staur.
Í svona veðri urðu allir bátar að liggja í höfn, og
sjómenn voru sótsvartir af pirringi yfir helvískri
"brælunni".
Pabbi heitinn vann mikið við bátana í Eyjum, og var flinkur
netagerðamaður.
Eitt sinn var hann að græja net fyrir Guðna á Haukabergi
um borð í bát hans, í einni bévítans brælunni.
Guðni var arfapirraður á veðurhamnum og sjólaginu,
og lét gamminn geisa við pabba og sparaði ekki stóru
orðin.
Þegar pabbi hafði hlustað góða stund á bræðital
Guðna, fæddist vísukorn:
Hafið lyftir hramminum
hlífir mönnum hvergi.
Göslar um á gamminum
Guðni á Haukabergi.
Sigurður Guðmundsson á Eiðum.
Önnur saga rifjaðist upp fyrir múttu húsfreyju, úti í
Eyjum nú á dögunum.
Gísli Bryngeirsson úrsmiður var lengi vel með verslun
sína og verkstæði við hliðina á gömlu rafstöðinni.
Gísli og pabbi voru ágætir vinir, og pabbi kom
oft við hjá Gísla, á leið heim á Eiða úr vinnu.
Þar var oft stödd gömul kona, þá pabbi mætti,
er Gróa hét.
Gróa var einsetukona, sérlunduð nokkuð, en
afskaplega barngóð og sömuleiðis góð við öll
dýr.
Samt voru börn stundum smeyk við Gróu, því
hún var lítið fyrir að þvo sér um hendur eða
andlit, og það jafnvel þó að hún væri nýbúin
að skarka í kolunum í kolavél sinni. Var því oft
sótsvört á höndum og með svartar rákir í andliti,
og það skelfdust börn.
En Gróu var hlýtt til Gísla úrsmiðs, og færði honum
iðulega kaffi í svartteipuðum kaffibrúsa og smurt
brauð með.
Þakkaði Gísli Gróu ævinlega vel fyrir, og þáði
góðgerðirnar með þökkum.
Þegar sú gamla fór, skellti hann brauðinu í ruslið,
en kaffinu hellti hann í klósettið.
Hafði ekki mikla lyst á sótugu brauði og korgkaffi.
Eitt sinn stóð pabbi hann að því, að hella niður
kaffi Gróu.
Og þá kom:
Er sumri hallar og syngur lóa
sækja bátar á heimamið.
Með kaffið kemur hún gamla Gróa
sem Gísli hellir í klósettið.
Sigurður Guðmundsson á Eiðum.
Þarf vart að taka fram, að gamla konan fékk
aldrei að heyra vísu þessa, enda engin ástæða til.
Óveður undir Hafnarfjalli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú hefur sem sagt húmorinn og skemmtilegan ritstíl frá pabba þínum. Þetta er skemmtilegar sögur og vísur, svona má ekki gleymast. Þú verður sem sagt að skrifa bók
Sigrún Óskars, 29.8.2008 kl. 20:42
Jamm, Sigrún, ætli maður verði ekki að játa að sverja sig í föðurættina.
Sé einhvern veginn alltaf húmorinn í hverri uppákomu og áskorun,
jafnvel þó mér hafi verið stórlega misboðið á meðan atburðurinn gekk yfir.
Veit ekki hve oft ég hef fengið að heyra "...og þú hlærð bara eins og
fífl"...frá bónda mínum, eða "þetta er EKKERT grín" frá samferðafólki
í atburðarrásinni.
Er löngu búin að sjá að lífið er ein allsherjar "komedía", myljandi grín
og glens...að minnsta kosti 95%.
Hmmmmmm, kannski ég fari að hugsa um það "af alvöru", að skrifa
bók....svona eins og mér er unnt að vera alvarleg, því eins og þú
segir Sigrún, má margt af því sem býr í kolli mínum ekki týnast.
Jaso, koma tímar koma ráð!
Knús á þig, vinkona.
Sigríður Sigurðardóttir, 30.8.2008 kl. 12:10
Elsku vinkona .. Til hamingju með afmælið !
Kem fljótlega í kaffi.
Kristín Magnúsdóttir, 30.8.2008 kl. 13:10
smá vindur elsku systir,hvað...eða eins og ég segi alltaf.
Nú er ísland kalt og kalið
er þetta landið sem þú kaust
því var svona illa valið
það er rétt að koma haust.
jörðin kólnar sólin kveður
klaki kvelur okkar land
rok og rigning þvílíkt veður
akur breytist í eyðisand.
því er þessu svona varið
þegar nóg af sól er til
sjáðu blómið það er kvlið
og hverfur loks í djúpan hil
hélt að þú vildir eiga þessar vísur einhverns staðar bestu kveðju árný
addy systir (IP-tala skráð) 30.8.2008 kl. 19:50
TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN sjáumst......allir á 17.
arný (IP-tala skráð) 30.8.2008 kl. 22:02
Flott að fá kvæðið þitt á prent systir, nú verður þú bara að byrja aftur að yrkja, og gefa svo út ljóðabók um jólin. Þú getur þetta alveg eins og pabbi.
Sjáumst á morgun.
Sigríður Sigurðardóttir, 31.8.2008 kl. 00:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.