Þungir þankar?

65038  Eru sjálfsagt að velta nýja tilboðinu vel og vendilega fyrir sér, þarna í samgönguráðuneytinu.  Ekki nóg með að það þurfi að "splæsa" í nýja ferju á eyjamenn, heldur verður að fara í massívar framkvæmdir í "sandinum" við Bakkafjöru.  Og það er ekkert smá mál.  SANDUR er stórmál!

  Er þó húsfreyja ýmsu vön, þá sandur er annars vegar.  Og kallar ekki allt ömmu sína í þeim málum.  Kom til Þorlákshafnar á því herrans ári 1973.  Í nóvember. 

  Húsfreyja þá 13 ára yngismær, flutti þá með foreldrum sínum og 2 yngri systrum í Þorlákshöfn.  Vegir voru þá allir ómalbikaðir, austur fyrir fjall, og 60 kílómetra hámarkshraði.

  Jón Björnsson, elskulegur vinur og félagi pabba heitins, tók að sér að skutla fjölskyldu og fátæklegri búslóð, austur fyrir fjall.  Lítið mál....eða það héldum við öll.

  Himinn grár, loft þrútið og vestangjóna þá við lögðum af stað úr borginni við sundin bláu.

  Komum við í Breiðholtinu að ná því af búslóðinni sem ekki hafði verið stolið, úr geymslu.

  Svo af stað austur.  Við systurnar sætislausar á kössum og dóti aftur í, en fullorðna fólkið í sætum frammí.

  Heldur fór að herða vind á leið okkar austur, og þá við komum efst í Þrengslin var komin stormur að vestan.  Jón dró úr ferð, pírði út á svartar sandöldurnar, og sandstrókana sem teygðu sig til himins fyrir neðan:

  "Sérðu nokkuð ljós eða hús, Siggi"?

  "Fjandakornið, ef ég sé nokkuð nema sótsvartan sand, Jón", svaraði pabbi að bragði.

  "Hljótum samt að vera á réttri leið".  Eyjamennirnir ekki vel rötugir um suðurlandið.

  Komið við í Hlíðarskóla, og þar okkur vísað til vegar.  Áfram héldum við.  Ekið á 20 -30 kílómetra hraða, því andsk.....vegurinn hvarf af og til í sandstormi eða í sandöldu sem fokið hafði yfir hannAngry.

  Skyggni núll!

  Eilífðar lull, endalaus sorti.  Sú 13 ára var þess fullviss, að hún væri á leið til einhvers ægilegs "sandhelvítis", og tuggði endana á hári sínu kvíðafull.  Átta ára tvíburaliðið spurði í þaula..."Hvenær komum við, mamma"?  "Hvað er langt eftir, pabbi"?  Og svo...."við erum þreyttar, þyrstar, svangar".....stöðugur pirringur og leiðindi.  Sú 13 ára bölvaði enn og aftur bévítans eldgosinu í huganum, leitaði örvæntingarfull eftir smá hæð eða fjallstindi út um gluggana.  Bara einhverju til að brjóta upp andsk....flatneskjuna og sandstorminn. 

  Ekkert!  Sótsvartur andsk... í  fúlli sandgryfju!  Sú 13 ára var að flippa.

  Loks ljóstýra um ljósaskiptin.  Einmana netaverkstæði á vinstri hönd, sótsvört auðn til hægri.  Langt burstahús svolítið lengra á vinstri hönd, og LOKSINS, "hallelúja"...BJÖRGUN! 

  Sjoppa á stærð við frímerki, með tveimur dælustaurum fyrir framan á vinstri hönd.  Kók og prins á línuna, og aftur fengnar leiðbeiningar um hvert skyldi halda.  Vöruð við að ekki væri búið að setja "ljósastaura" við nýja veginn að nýja hverfinu. 

  "FRÁBÆRT", hugsaði sú 13 ára súr.  "Verð sjálfsagt að fara í skólann með vasaljós af stærstu gerð" svo ég týnist ekki í fjandans sandinum"!  "Kannski að skólinn sé bara einn af SANDHÓLUNUM, hér fyrir utan"....hér glotti sú 13 ára að hugsun sinni.

  Og að lokum fannst lágreist eyjahúsabyggðin, 42 hús við endann á ljóslausri, sandhorfinni götu.

  Við fengum hús númer 17.  Fín hús sem Svíarnir höfðu skellt upp fyrir okkur, og "GEFIÐ" eyjamönnum.  En ríkið og Viðlagasjóður að sjálfsögðu hirtu svo, og SELDU okkur eyjamönnum, á fínu uppsprengdu verðiBandit.  En það er önnur saga.

  Í rúm tvö ár þraukaði sú 13 ára í Þorlákshöfn, með "hársvörðinn svartan af sandi", en kom sér svo með hraði í landspróf í Reykjavík og síðan í M.R..  Vísiteraði sína fjölskyldu um helgar í "sandhólana", og rölti jafnvel nokkrar ferðir út í "auðnina" með fötur til að sá melgresi af og til, með öðrum Þorlákshafnarbúum.  Vann í fiski í Meitlinum á sumrin.

  En það var svo ekki fyrr en, fyrir sirka 10 árum, að húsfreyja tók eftir því að Þorlákshöfn er ekki lengur ofurseld sandinum svarta.  Og að elsta systurdóttir var ekki lengur með "sandsvartan hársvörð", sem hún hafði státað af sem önnur Þorlákshafnarbörn árum saman.  Og að svörtu sandöldurnar eru nánast horfnar, og allt að verða gróið og grænt.  Jafnvel farið að minna húsfreyju á "grænar heimaslóðir" hennar í EyjunumJoyful

  Svo hægt er að "vinna" baráttuna við sandinn svarta, en djö.... tekur það langan tímaW00t.

  Vonar húsfreyja að þeir Bakkafjörumenn samgönguráðuneytisins, geri sér grein fyrir umfangi og stærð vandans, þá  farið verður í að byggja upp aðstöðu fyrir ferju þeirra eyjamanna á Bakka.

  Gangi þeim sem allra best, og vonandi verða samgöngur eyjamanna á grænni grein, á mun skemmri tíma, en byggðin í Þorlákshöfn.

 

 
mbl.is Tilboði Eyjamanna ekki svarað enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Solla Guðjóns

Þetta kemur nú ansi spánskt fyrir sjónir þar sem ég hélt að eyjamenn legðust alfarið gegn höfn í Bakkafjöru og veit ég til að undirskriftarlysti gegn henni var í gangi á netinu...

Solla Guðjóns, 20.5.2008 kl. 17:44

2 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Jamm, Sollan mín.  Held að eyjamenn séu ekki hressir að fara út í bardaga við "sandinn" á Bakka, eftir að hafa hreinsað eyjuna sína af svörtum vikri, með "tannburstum" hér fyrir nokkrum árum.

  En nú sjá ráðamenn ekkert nema "sandinn á Bakka", svo eyjamenn verða að lúta því.

    Sjíss, það verður þó sandatgangur, Solla.  Manstu sandstormana í gamla daga?  Gleymdist einu sinni spariblússa múttu úti á snúru, perlusaumuð og falllega hvít, þá einn gekk yfir.  Varð svona ljósgrá með dekkri gráum flekkjum, sem náðust ALDREI úr, sama hvað var þvegið.

  Þakka innlitið ljúfust.

Sigríður Sigurðardóttir, 20.5.2008 kl. 18:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband