Helvítis helvíti...

...og andskotans, djöfulsins munnsöfnuður, bölv og ragn er þetta í krökkunum, Stína"! 

  Faðir minn var í ham, og einnig systur mínar, þá báðar á þrettánda ári.  Rifust grimmt og bölvuðu enn grimmar öll þrjú.  Móðir mín, Stínan og ég, yngismær á sautjánda aldursári, höfðum flúið inn í eldhús undan orrahríðinni.  "Hvar hafa krakkarnir lært þennan helvítis, djöfuls, andskotans ósóma"?  Pabbi þrumandi í eldhúsdyrunum.   Við mamma veinuðum af hlátri.  "Hahaha... hvar heldur þú"? tókst múttu að stynja á milli hláturskviða.  Pabbi horfði á okkur augnablik, og skellti upp úr.  Reiðin rokin út um veður og vind.

  Í bernsku minni, voru orð eins og "helvíti" og djöfull eingöngu notuð sem áhersluorð, þá einhverjum rann í skap í fjölskyldunni.  Hvergi tengd trú.  Reyndar bannaði mútta okkur systrum stranglega að bölva og ragna, og tók ég það bann hátíðlega.  En systur mínar síður, enda heyrðu þær þá báða bölva hressilega, pabba og afa.  En mamma sagði þetta ósið, og óþarfa að nota slík orð.

  Seinna fór ég að sækja barnamessur í Landakirkju og Betel, því á báðum stöðum fengum við krakkarnir gullfallegar Biblíumyndir.  Ekki gat það farið fram hjá mér, að það var töluverður munur á "inntaki" boðskaparins á þessum tveimur stöðum.  Blessaðir öðlungarnir, Sr. Jóhann Hlíðar og Sr. Þorsteinn Lúther í Landakirkju töluðu mikið um Jesú, kærleiksboðskap hans og kraftaverk.  Einar í Betel gerði slíkt hið sama, en þrumaði svo inn á milli elheitum ræðum um "syndina og helvíti".  Botnaði ég sem krakki lítið í þessum ræðum "eldklerks", og kom iðulega heim til foreldra minna rasandi undrandi á reiði sérans og bræði.  Og spurði foreldrana afhverju allir í Betel væru svo "syndugir og vondir" að þeir þyrftu að fara til "helvítis"!  Pabbi veltist um að hlátri, en móðir mín hvessti augum á pabba, varð alvarleg, og sagði mér að því miður vildi það loða við heittrúarsöfnuði, þessi trú á "helvíti" og djöfulinn.  En það tryði hvorki hún né ég á, svo ég skyldi engar áhyggjur hafa af "helvítistali" þessu í Betel.  Sagði mér að Jesú hefði leyst okkur frá allri synd, og kærleikur, góðar hugsanir og gjörðir, tryggðu okkur líf eftir dauðann á sælustöðum.  Málið væri ekki flóknara en það.

  Og auðvitað trúði ég "alvitri móður minni" mun betur en hinum "reiða klerki í Betel", og geri ennJoyful.

  Hef aldrei skilið til fullnustu, þessa þörf trúarsamfélaga, að trúa á ill öfl og tilvist "helvítis".  Er að lesa bókina hennar Ayaan Hirsi Ali, "Frjáls", og þar kemur þessi trú skýrt fram.

          "Við vissum allt um helvíti.  Kóranskólinn snerist að mestu 

          helvíti og þau mistök sem leiddu mann þangað.

          Kóraninn bregður upp lifandi myndum af píslum

          helvítis:  sár, sjóðandi vatn, afrifið hörund, brennandi

          hold, útrifin iður, eldurinn sem brenndi mann að eilífu,

          því nýtt hörund myndast þegar holdið stiknar og líkams-

          vessarnir sjóða.  Þessi smáatriði voru útmáluð til að fylla

          mann skelfingu, til þess að hræða mann til hlýðni".

                                                     (Frjáls; bls.113.  A. Hirsi Ali)

 

  Þetta eru afleit trúarbrögð, sem kenna börnum sínum trú á helvíti, djöfullegar pyntingar og að "syndin" sé aðalmálið.  Hvar er trúin á kærleikann, gleðina, virðinguna, fegurðina og hamingjuna?  Að lífið sé áskorun, leið til þroska og kærleika?  Trúin á það, að "allt líf sé gott og verðugt"?

     Mér er spurn.  Það er allt og sumt.


mbl.is Hætt að tala um helvíti?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Já, katólska er furðuleg trúarbrögð að mörgu leyti.  Er skemmst að minnast, þegar páfi lét loks "loka" forgarði helvítis, þar sem óskírð börn áttu að dúsa.  Gott hjá ykkur að taka börnin úr tímum þessum.  Fræðsla um helvíti, er ekki eitthvað sem börn eiga að þurfa að hlusta á.

Sigríður Sigurðardóttir, 10.3.2008 kl. 19:07

2 Smámynd: Heiður Helgadóttir

Ég var ekki alin upp við ljót orð, og finnst alltaf leiðinlegt þegar að þau eru mikið notuð í daglegu tali.

Heiður Helgadóttir, 11.3.2008 kl. 08:30

3 Smámynd: Turetta Stefanía Tuborg

Þegar strákurinn minn var 3-4 ára freistaðist pabbi hans til að kaupa fallega myndskreytta bók af tveim huggulegum ( Það var líklega skíringin) stelpum.Vottum Jehova.Þvílík lesning það gekk allt út á að þessi syndgaði og var refsað á grimmilegan hátt og sv.frv. Þessi fallega bók týndist fljótlega.

Pabbi átti það nú til að bölva allhressilega og það hafði nákvæmlega ekkert með trúmál að gera.

Svo í lokin má ég til að koma að smá sögu af dóttur minn en hún hefur sennilega verið á þriðja árinu. Amma hennar (tengdamamma) er alveg svakalega orðljót en eins og títt er um þannig fólk er hún ekki alltaf samkvæm sjálfri sér.,,Amma segir að maður eigi ekki að segja ljótt en svo segir hún sjálf : Helvítis, djöfulsins, andskotans" sagði sú stutta yfir sig hneyksluð.

Turetta Stefanía Tuborg, 11.3.2008 kl. 10:25

4 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Verð að viðurkenna, Heidi, að enn þann dag í dag fæ ég samvikubitshnút í magann, ef ég gleymi mér og bölva.  En pabbi og afi tóku bölvið "með stæl" ef svo má segja, svo mamma átti við ofurefli að etja.  Og voru þeir báðir skapstórir menn, og því oft mikið notað af "áhersluorðum".  En aldrei tengdu þeir þessi orð við trú.

  Vottarnir góðir í "syndartrúnni" og refsingum, veit ég, Turetta.  En vissulega fallegar myndir í bókum þeirra.  Systir í Eyjum kynntist nokkrum Vottum á sínum tíma.  Var hún þeirri stund fegnust, þegar pabbi tók að rökræða við þá um trúmál, og rak þá á gat.  Sáum þá aldrei meir.

  Held Turetta, að margt fólk hér á landi, af eldri kynslóðinni hafi notað bölv og ragn sem "áhersluorð" fyrst og fremst.  Aldrei tengt orðin "helvíti eða djöful" við sína trú á Guð og kærleik, sem var vel.  Enda kom ég af fjöllum í Betel, á sínum tíma, þó báðir karlarnir á heimilinu bölvuðu og rögnuðu nær daglega.

  Brilliant flott sagan af litlu skvísunni þinni og ömmu.  Litla liðið veit sínu viti.

Sigríður Sigurðardóttir, 11.3.2008 kl. 12:37

5 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

innlitskvitt og takk fyrir góða sögu af bölvinu hehehehehe.

En ég kannast nú aðeins við tendaföður þinn, hann var reyndar hættur í Leikflokknum þegar ég fór að vinna með þeim.

og símtalið.......

Guðrún Jóhannesdóttir, 12.3.2008 kl. 12:58

6 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Takk fyrir þetta, Guðrún mín.

Sigríður Sigurðardóttir, 12.3.2008 kl. 17:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband