21.1.2008 | 14:45
Annar í þreytu.
Bísna lúin og þreytt, húsfreyja um þessar mundir.
Stóðum í stórræðum þann nítjánda, ég og elskulegur maki.
Sú stutta hélt upp á 7 ára afmælið með stæl.
Og hafði undirbúningur staðið í heila viku, og sú stutta
sent út boðskort um borg og bí.
Og svona til að "gleðja" foreldrana bauð hún slatta
af eldhressum krökkum úr skólanum "munnlega" líka.
Svo gestafjöldi var vægast sagt töluvert mikið á reiki,
daginn fyrir afmælið!
Húsfreyja var í léttu "móðursýkiskasti", og gerði bóndann
út af örkinni, að versla fleiri tertur, gos og snakk að morgni
afmælisdagsins.
Sem var vel, því yfir 20 manns mættu í veisluna, þar af 12 krakkarollingar.
En afmælið lukkaðist ljómandi vel, og blöðruhasarinn barst út um alla
íbúð með elskulegan maka sem dómara.
Húsfreyja var lengi vel upptekin af því að bjarga kattarræflinum
frá fjörtjóni, en margar íðilfögru dísirnar er mættu í hófið, voru
heldur fastheldar á kattarknúsið.
Toguðust jafnvel á um kattarrófuna, sem smellti sér í hinn versta
óveðurham, með kryppu upp á 30 metra hæð, og hvæs á 40 metra
á sekúndu.
Klór á höndum varð að lækna hið bráðasta með prinsessuplástri,
og köttur settur í útlegð inn í svefnherbergi...handaklóruðu prinsessunum
til lítillar gleði.
Allt fór samt vel að lokum, og afmælisbarnið geislandi af gleði
fram á rauða nótt.
En húsfreyja hefur verið eitthvað "heldur verri" til heilsu
síðustu tvo daga eftir herlegheitin.
Svona eins og að hún hafi lent undir valtara,
tveimur sekúndum eftir að 10 tonna trukkur ók yfir hana á 100
kílómetra hraða.
Svo það er "annar í þreytu"!
-Dæs-
Mikið afskaplega er ánægjulegt að hver einstaklingur á aðeins
eitt afmæli á ári!
Og það fylgir einhver Guðslukka húsfreyju, að hafa
stílað upp á, að eiga aðeins EITT barn!
Athugasemdir
En sjö ára daman hafði gaman.
Heiður Helgadóttir, 23.1.2008 kl. 15:07
Óóóó JÁ! Er þegar byrjuð að plana NÆSTA afmæli...hjálpi mér.
Sigríður Sigurðardóttir, 23.1.2008 kl. 20:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.