Sýnum minnisvörðum látinna virðingu.

  Ekki bara tillfinningalegt tjón fyrir eftirlifendur og ásvini, þegar skreytingar á leiðum eru skemmdar, heldur liggur oft þrotlaus vinna að baki fallega skreyttu leiði, og mikið skipulag að baki, mitt í annríki jólamánaðar.  En hér er ein stutt saga af okkur systrum, mér og systur í Þorlákshöfn, af för í kirkjugarðinnn í desember í fyrra.

  Systir í Þorlákshöfn er mikið jólabarn, og eftir að pabbi dó, hefur hún haft veg og vanda af því að hafa leiði hans fallegt og snyrtilegt.  Og í desember skreytir hún krossinn á leiði hans ætíð með stórum fallegum jólaseríuskreyttum járnkrossi, sem settur er fyrir framan leiðiskrossinn.  En í fyrra var bévítans kuldi og frost í jörðu þar austan fjalls, dögum saman, í desembermánuði.  Systir búin að skreyta allt innanhúss sem utan hjá sér, þegar ég mæti í kaffi eina helgi um miðjan mánuðinn.  Er systir samt óróleg nokkuð og áhyggjufull.  Og segir sínar farir ekki sléttar.  Eftir sé að setja upp járnkrossinn ljósumprýdda á leiði pabba, og hún sé að verða allt of sein með þetta.  Mér líst ekki allt of vel á það að fara í brunagaddi upp í kirkjugarð, og reyna að hamra niður stórum þungum járnkrossinum niður í beingaddaða jörðina, og reyni að draga heldur úr systur.  En hún telur mig loks á að koma með sér.  Ég tuða eitthvað um stórar stunguskóflur og verkfæri til að vinna á freðinni jörðinni, og systir segist vera klár með allt slíkt.

  Og upp í kirkjugarð förum við þrjú.  Vigrinn (4 ára) heimtaði að koma með, og skellti sér léttklæddur á peysu í aftursætið.  Í kirkjugarði Þorlákshafnar er sjaldan logn.  (Einna helst á miðju sumri, á nýju tungli þegar Þorlákshafnarbúar allir eru horfnir í sælu sumarbústaða, og ekki nokkra sálu að sjá lífs eða liðna í 100 kílómetra radíus frá kirkjugarði.)  Svo jökulkaldur gustur af norðri, tók á móti okkur í ljósaskiptunum, er við komum inn í garð.  Vigrinn tók fljótt að blána á vörum, þrátt fyrir skopp og hopp á milli legsteina og krossa, og tók við að nöldra og tuða í okkur systrum um skítakulda, leiðindi og kröfu um að komast snarlega aftur heim.

  Verkfæri systur reyndist vera ein "lítil garðskófla"W00t, sem notuð er til að losa um mjúkan jarðveg í beðum á vorin.  Vorum fljótar að afgreiða hana, sem gjörsamlega ónothæft verkfæri, og handónýtt til að grafa holu í gaddfreðna jörðina.  Systir fór í bílinn, náði í úlpugopa handa Vigranum og "tjakk".  Með tjakknum tókst okkur að höggva okkur á 10 mínútum, holu tveggja og hálfs sentimetra djúpa.  "Hana" sagði ég sigri hrósandi, "dugir þetta"!  Systir horfði bara þegjandi á mig, og "holuna", fór aftur út í bíl og kom með krossinn.  Þvílíkt "monster" að lengd.  "Hva, á hann að GNÆFA hátt yfir leiðiskrossinum"? spurði ég rasandi.  "Nei, ertu rugluð" kom svarið, "þessi hluti hér þarf að fara alla leið niður í jörðina" sagði systir og benti á "50 sentimetra" langa járnstöngina neðan við aðalhluta krossins.  Ég kiknaði í hnjánum, svitnaði og kólnaði á víxl og kallaði mér alla góða vætti til hjálpar.  Nú reið á að sannfæra systur um hve mikil óráðsía þetta væri, og komast aftur heim hið snarasta í heitt kakó og piparkökur.  "Þetta fer ALDREI niður" sagði ég af þunga, "við verðum að geyma þetta þar til frost fer úr jörðu"!  En systur varð ekki hnikað.  Hún hélt áfram að pikka með tjakknum í jörðina við undirspil myljandi nöldurs og tuðs frá Vigranum, og undir sótsvörtum vonleysisaugngotum mínum.  Á næstu 10 mínútum stækkaði holan um tvo og hálfan sentimetra.

  Ég sá að með þessu áframhaldi, næðust 50 sentimetrarnir niður eftir "4 klukkustundir og tuttugu mínútur".  En þá væri nokkuð víst að bæði ég og Vigrinn værum króknuð úr kulda, og systir yrði að pjakka tjakka alla nóttina, til að hola okkur niður líka.  Sá blaðafyrirsagnirnar fyrir mér: 

 "Fundust þrjú látin í kirkjugarði" með jólaljósaskreyttan kross í fanginu.....

...varð hér að glotta svolítið af glannahúmornum, og varð hugsað til pabba, með sinn beitta húmor.  Rak augun í járnkrossinn á jörðinni.  Hmmmmm...  Það var oddhvass endinn á honum.  Ég tók hann upp, ýtti systur frá og tók til við að höggva endanum á krossinum ofan í holuna, og viti menn, náðum að dýpka hana um 5 sentimetra á næstu tíu mínútum.  En ekki var þetta alveg að gera sig samt, þó að Vigrinnn væri flúinn inn í bíl vegna kuldans, og heldur værum við hraða greftri.  "Ef hann pabbi er ekki búinn að hlægja að þessu basli á okkur, systir", sagði ég um leið og ég hvíldi hendurnar á krossinum, og dæsti.  Var níðþungt dót.  Flaug í hug að ég gæti kannski beðið grínistann hann pabba um smá aðstoð þarna uppi í himnasölum, og sendi honum hljóða bæn:

 "Hættu nú að flissa þetta og hlægja af okkur, pabbi og hjálpaðu mér að dúndra þessu niður, áður en við verðum úti hérna". 

   Hóf krossinn á loft og rak hann niður í gaddaða jörðina........og heitur þrýstingurinn kom snöggt ofan á axlir mér, og krossinn fór niður, niður, niður!  Að lokum urðum við að draga hann 10 sentimetra "upp" aftur systurnar, svo langt niður fór hann.  Við festum krosinn með hraði, skelltum rafmagninu á, blessuðum yfir, þökkuðum báðar pabba hjálpina og brunuðum heim á fljúgandi fart með hrollkaldannn Vigrann í aftursætinu.  Vorum sléttar 45 mínútur í ferðinniWink

  Gleðilegt nýtt ár.


mbl.is Skemmdi ljósaskreytingar í kirkjugarði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Solla Guðjóns

Það vantar ekki kraftinn í ykkur systur þó ekki beint kraftalega vaxnar séu

Solla Guðjóns, 2.1.2008 kl. 18:45

2 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  "Margur er knár, þó hann sé smár", Sollan mín.  Og við úr Þorlákshöfninni lítið fyrir að gefast upp....nema náttúrulega við verðum úti af djö.....kulda í kirkjugarði, um hávetur.

Sigríður Sigurðardóttir, 2.1.2008 kl. 20:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband