30.7.2007 | 16:32
10 milljón Choli baktería og dúndur stuð í Eyjum.
Það stefnir allt í fjandi margar þvagfærasýkingar, þarna í Gloucesterskíri. Tala ekki um mergjaða skitu með tilheyrandi innantökum, ef þessi óþverri býr um sig í drykkjarvatni. Ja, það er ekki veðursældinni fyrir að fara þarna í veldi Bretadrottningar. Eitthvað annað en veðrið á mínum heimaslóðum, Vestmannaeyjum síðustu 4 daga. Þrír dagar í röð með brakandi sólskini og þurrk, svo sólarvarnarbrúsar tæmdust allir, og mín familía fór að sverja sig í ætt rauðs sjávarkarfa. Allavega í andlitinu. Ég lenti reyndar í málningarvinnu, fljótlega eftir komu út í Eyjar, og systir úr Þorlákshöfn í uppgreftri og garðvinnu. Systir í Eyjum hefur milka trú á að "nýta" allan mannskap er inn um dyr hennar dettur til starfa. Það sé öllum "þörf og góð hreyfing"! Svo ég málaði einn glugga og hálfan húsgrunninn á móti systur í Eyjum, á meðan systir í Þorlákshöfn stóð í moldarskýi af mokstri, og móaði aðeins í hana af og til í gegnum mökkinn. Hin yndislegu, prúðu, hugmyndaríku, snjöllu og yfirmáta atorkusömu börn okkar systra, léku sér í kring, og steyptu sér ofan í sílatjörnina á Stakkó með reglulegu millibili, dönsuðu uppi á skúrþakinu, reyndu að drepa sig með því að stökkva í veg fyrir sárasaklausa Eyjamenn í sunnudagsbíltúr, börðust upp á líf og dauða um sama boltaræsknið, Legókarlinn eða Star Warsplastfígúruna og voru okkur að öllu leyti til gleði og ánægju. Sáum okkar ráð vænst næsta dag, að fara með þetta algalna 7 manna lið í mikla reisu út á Skans, og síðan suður í Klauf. Í Klaufinni var bongóblíða, 20 stiga hiti og myljandi sólskin. Sjömenningarnir fækkuðu fötum hið snarasta og busluðu og óðu í sjónum við ströndina. Við höfðum tekið Sylvíu vinkonu systur í Eyjum með, með sín litlu þrjú, svo það var aldeilis líf í tuskunum. Ekki þurra fatatusku að sjá eða finna í 5 kílómetraradíus eftir það fjörið. Nesti snætt í sandinum, og lambalæri í kvöldmatinn.
Næsta dag var það svo Dalurinn, sem Eyjamenn eru í óðaönn að undirbúa fyrir Þjóðhátíð. Þar var önnur eins bongóblíða, og Sylvía auðvitað með. Voru nú allir orðnir "velsteiktir" af sólinni, og allir komnir með "derhúfur", sem eru víst allra meina bót samkvæmt herlegum læknum þeirra Eyjamanna. ( Löng saga, blogga hana kannski seinna). Fiskur og grillaður humar í kvöldmat.
Í gær skelltum við okur svo upp á Helgafell með allt liðið, við systurnar í blíðu veðri, en sólarlausu. Þau fíluðu í tætlur að komast upp á topp, en leiðin upp var sumum full erfið, og eyddi einn kappinn mestri orkunni í að orga, á meðan annar hafði ýmislegt ljótt um skriðurna efst, fyrir neðan topp fjallsins að segja. En frábær Eyjaferð svo ekki sé meira sagt, og það þó að 5 af 10 hafi orðið bullandi sjóveikir á leiðinni í land aftur! 'Eg slapp!!
Bakteríumagn á við skólp í flóðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Greinilega verið skemmtileg ferð, en verst fyrir eyjaskeggja að veðurblíðan kom ekki viku seinna, spáin er ekki girnileg fyrir þjóðhátíð
Huld S. Ringsted, 30.7.2007 kl. 22:10
Já, Huld, það er merkilegt þetta, með þjóðhátíðarveðrið. Eins og sogist alltaf að landinu þrælsleg lægð, rétt yfir Verslunarmannahelgina. Eru ekki jafn duglegir og ég, að "panta" veður, þeir þjóðhátíðarmenn og konur. En ferðin mín núna var myljandi skemmtileg, og ég tók aðeins 250 myndir af litla liðinu í gír. Þakka kommentið.
Sigríður Sigurðardóttir, 31.7.2007 kl. 10:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.