22.9.2011 | 22:07
Devil up?
"Hjálpi mér, þarna kom það enn og aftur"
hugsaði húsfreyja örvæntingafull.
Hún reyndi að leggja við hlustir og fá einhvern botn
í málið.
...."shíss devil up" hafði Fransmaðurinn sagt glaðbeittur.
"Og hvað með ekkisens djöfulinn" hugsaði húsfreyja
pirruð "hvað var hann að vilja upp á dekk í miðju
erindi um nýja rannsókn á tveimur lyfjum, sem voru
að hjálpa fólki með Alzheimerssjúkdóm úti í Frakklandi"?
Húsfreyja reyndi að finna út úr málinu, og las yfir
glærur Frakkans í hasti.
Fínar glærur, powerpoint, stútfullar um reynslu
af lyfjunum tveimur við Alzheimers, sem búið var
að framleiða, þróa og prófa á stórum hópi af fólki
með Alzheimers, með glettilega góðum árangri.....
en ekki eitt einasta orð um "the devil up".
Húsfreyja hnyklaði brýrnar af einbeitingu, þegar
Fransmaðurinn nefndi shíss "devil up" í fjórða sinn
í ræðu sinni.
"Og......."?
Neipp, Frakkinn útskýrði "djöfulinn" ekkert nánar,
og hóf að ræða kríteríur, diagnósur og kombinasjón lyf
af miklum krafti, á sinni bjöguðu ensku.
Nú veit húsfreyja, að Alzheimers er sjúkdómur sem er
ekkert lamb að leika sér við. Þungbær öllum og ekki síst
þar sem erfitt hefur verið að finna lyf sem duga við
þessum alvarlega sjúkdómi í heila.
En varla hafði þessi lyfjaframleiðsla verið Frökkum
svo hroðalega erfið, að þeir sáu "djöfulinn upp um alla veggi"?
...."devil up", sagði Frakkinn enn og aftur glaður í bragði.
Húsfreyja ranghvolfdi augunum, hún var búinn að missa
allan þráð í erindi Frakkans, svo hún lét duga að lesa glærurnar
sem voru bæði fróðlegar og brilliant settar fram á auðskiljanlegri ensku.
Frakkinn barðist í gegnum erindið meira af ákafa og baráttugleði,
en góðri kunnáttu í ensku máli.
Var mjög fróður og nákvæmur það sem húsfreyja náði að botna,
...en með djöfulinn upp um alla veggi af og til.
Húsfreyja dæsti og gjóaði augum á sessunauta sína í
Hörpunni. Ætti hún að þora að nefna þetta með djöfulinn
við annan hvorn þeirra?
"Nah, vildi ekki trufla ósvikna einbeitingu og áhlustun þeirra,
húsfreyja sjálfsagt bara rati að skilja ekki ensku með
"örlitlum" frönskum hreim.
En afhverju var Fransmaðurinn svona ánægður með
djöfulinn upp um alla veggi?
Hann virtist ekki vitund miður sín yfir djöfulgangi
þessum í lyfjabransanum"....heilabrot húsfreyju
tóku skjótan enda þegar frakkinn veifaði skyndilega
powerpointgeislanum sínum fagnandi:....."and we 'ope we
will "devil up" some better medication in shé future".
MEGA-LJÓS kviknaði í huga húsfreyju:
DEVIL UP= DEVEL-OPP= DEVELOP (di vel'ap)= ÞRÓA.
Hallelúja!
Næstu 5 mínúturnar og þær síðustu af erindi frakkans,
skildi húsfreyja næstum því fimm orð af hverjum sjö
hjá honum, og varð öllu fróðari um lyf þessi fyrir bragðið.
Húsfreyja dáðist að Frakkanum að komast í gegnum
klukkutíma erindið, tilneyddur að brúka ensku,
en var fegin þegar næsti fyrirlesari reyndist Frónbúi,
sem bæði flutti erindi sitt á íslensku og ensku um hvernig
hægt væri að greina Alzheimers, Parkinsons og Levi body
sjúkdóma með heilariti.
Fróðlegt og flott.
Skemmtilegasta erindið flutti svo ítali af mikilli snilld um
Parkinsonsjúkdómin og nýja lyfjameðferð við honum.
Á ljómandi fínni ensku....þó að einu sinni heyrði húsfreyja hann
nefna "devil up"...en var fljótur að leiðrétta sig...develop!
Vissuð þið annars að Hitler var með Parkinson?
Fínn og merkilegur fræðslufundur í Hörpunni, og boðið upp á kaffi
og kleinur í ofanálag.
En kíkja á imbann næst.
Góða nótt og góðar stundir.
Flokkur: Spaugilegt | Breytt 25.9.2011 kl. 19:16 | Facebook
Athugasemdir
þú ert alltaf jafn fyndin í skrifum þínum
Sigrún Óskars, 24.9.2011 kl. 19:37
Æ, þakka þér kollega . Varstu nokkuð stödd á svæðinu, þá franskurinn lét sig mál Alzheimersjúkra varða.....í djöfullegum stíl?
Sigríður Sigurðardóttir, 27.9.2011 kl. 16:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.