21.8.2011 | 13:11
Nótt hinna þungu menningarhögga?/Ferðaævintýr.
Það rann úr augum og nefi
bónda húsfreyju.
Það rann úr augum og nefi húsfreyju sjálfrar.
Tíu ára djásnið leit vandlætingaraugum á
foreldrana, dæsti mæðulega og setti upp sinn
besta "það verður víst að hlífa þeim-svip":
"Mig langar bara ekki neitt niður í bæ í kvöld,
en það væri fínt að fá Pepperoni-pizzu í kvöldmat".
Foreldrarnir hóstakjöltuðu sárfegin að það ætti að vera hægt,
og komu við í Spönginni á heimleiðinni eftir pizzum.
Fylgdust með menningartónleikum við Arnarhól í sínum kreppuflatskjá og
húsfreyja ráfaði fram á stigapall og gjóaði kvefblautum augum
til himins, þá flugeldaskothríð hófst.
Virtist allt fara hið besta fram, svo það er leitt að heyra af
líkamsárásum þessum niður í miðbæ í nótt.
Lítið menningarlegt við högg, hrindingar og pústra er mat húsfreyju.
Svona meira í ætt við ómenningu.
Jamm, en að öðrum og sumarferðatengdari málum.
Tengdó buðu í sumarbústað í viku við Vesturhópsvatn
fyrir rúmri viku.
Sól og hlýtt fyrstu tvo dagana, myljandi veiði, en bláber
áttu eftir að blána og stækka.
En síðan fór hann að blása að norðan, kólna og rigna.
Jamm og heilsu bústaðarfólks að hraka.
Fóstursonur reið á vaðið, rauður í augum með sífellt horrennsli.
Síðan smitaðist einn af öðrum.
Eitthvað var norðanþræsingurinn, 5-10 stiga hitinn?..kuldinn?
og hauga ekkisens rigning í þrjá daga af sjö,
að nísta mannfólkið inn að merg og beinum þar norðan
heiða.
Helvískar vírusakóloníur á sveimi gripu svo tækifærið,
og bjuggu sér ból í nefi, hálsi og augum þeirra ...hóst..hóst!
Tengdapabbi húsfreyju var reyndar nær dauða en lífi af ófögnuði
þessum, og þurfti til læknis á Hvammstanga í miðri sumarbústaðarferð.
Settur á fúkkalyf.
Fóstursonur saug upp í nefið, hans heittelskaða var sloj,
fósturdóttir sömuleiðis, bóndi og tengdamútta.
Kvefþjáð fólkið reyndi samt að bera sig vel, veiða silung og bleikju
og tína bláber....án þess að hor læki ofan í berjadallana.
Í vírusakóloníum hins vegar var stanslaus gleði, myljandi partý og
tengdapabbi fékk Þjóðhátíðina þeirra.
Tengdapabbi lagðist bakk í koju.
Bóndi húsfreyju lét sig hafa það að skreppa einn herlegan
túr með húsfreyju og djásni til höfuðborgar norðursins, Akureyri,
þrátt fyrir skítlegan hausverk og byrjandi horrennsli.
Húsfreyja og djásn enn hressar og töldu sig sloppnar
við kvefleg meinkvikindin, nutu þessa að sólin skein og hiti hafði
mjatlast upp í 14 stig.
Pollurinn á Akureyri var pollrólegur og rennilsléttur.
Skemmtiferðaskip í höfn.
Djásni vantaði skólatösku, og pennaveski.
Foreldrar tóku hlutverk sitt sem uppalendur og verndarar mjög
alvarlega, og skoðuðu einhverja ótölulega hauga af skólatöskum.
Tíu ára djásnið horfði yfir skólatöskubreiðuna uppi á veggjum,
yppti öxlum og tók til við að skoða loðin tuskudýr og annað dót.
Bóndi fann hvernig sargaði og brast í þolinmæðistaug sinni...
"Ætlarðu þá ekkert að taka þátt í þessu? Við erum að kaupa
töskuna handa ÞÉR".
Djásnið lét svo lítið að líta aftur yfir skólatöskudýrðina.
Sá ekkert í "augnhæð" sem henni líkaði.
Var að hörfa frá.....
Húsfreyja fann í flýti eina efnilega tösku fyrir ofan augnhæð
djásnsins, með breiðum axlarböndum, góðu, mjúku baki,
nestisbox, flaska og íþróttapoki fylgdi.
"En þessi hér"?
Djásnið ljómaði. Taskan var "bleik" með dekkri lit á vösum.
"Ég vil þessa", málið dautt og djásnið fór aftur að
tuskudýrahillunum.
Bóndi strauk sér um ennið örvæntingafullur.
"Þú verðu að máta hana fyrst, getur ekki bara
afgreitt þetta svona".
Eftir 20 mínúta hark, mátun, nöldur, tuð og þras
var bleika taskan keypt.....verðið?
Morð.
Húsfreyja verður líklega að hjóla til vinnu næstu vikur eftir
sumarfrí, hefur ekki efni á bensíni á bílinn, eftir
svona skólatöskukaup.
Pennaveskið varð ekki síðra en taskan verðlega séð..
...tilraun til manndráps.
Húsfreyja sér fram á skömmtun á kaffi fram að Jólum.
En tíu ára djásnið var hæst ánægt.
Kíkt í Nonnahús og á Álfa-og huldufólkssafnið.
Og síðan haldið aftur í bústað.
Síðasti dagurinn í bústað varð svo hlýr og sólríkur,
og húsfreyja hreinlega sá berin blána á þúfunum.
Smellti sér nokkrar ferðir upp um brekkur og tíndi grimmt
ber í sultu handa tengdmúttu þrátt fyrir byrjandi vírusadans
í hálsi.
Rambaði beint á holugeitungabú í einni brekku.
Varð henni til happs að "Jói framherji" var nýr
í framliðasveitinni geitunganna og hafði greinilega
aldrei áður lent í því að hitta fyrir "homo sapiens femalensis"
sem ekki öskraði og gargaði og baðaði út öllum öngum, í
hans návist og annarra í heimavarnarliðinu.
Nei, kerlingarfálan ráfaði bara með sína stóru krumlur
5 skref frá ættaróðali Jóa, og hélt áfram að RÆNA úr
bláa forðabúrinu geitunganna.
Jói framherji trompaðist alveg af panikk og æsingu.
Ræsti út allt heimavarnarliðið, sem setið hafði í makindum við að
spila félagsvist.
"HÆTTA" orgaði Jói.....
"GEITUNGA STÖÐVARNAR- SENDA ÁRÁSARSVEIT Á LOFT"!
Æddi síðan í miklum ham á eftir húsfreyju.
En af því að þetta var fyrsti dagur Jóa sem framherji,
og hann í miklum panikk, steingleymdi hann því að hann var
með glansandi beitt vopn í för.
Svo til að gera eitthvað, STANGAÐI hann húsfreyju í ennið.
KRASS!
Jói sá stjörnur og hlunkaðist vankaður niður á þúfu.
"DJÖ.... ÓFRESKJA", Jói náði sér aftur á flug...svipaðist um.
"HVAR voru allir hinir í sveitinni"?
Jú, nokkrir spilageitunga höfðu haft sig upp, og suðuðu
nú ógn......nei, HLÆJANDI í kringum holuinnganginn!!
Jói var orðinn sótsvartur af bræði..."var ekki allt í lagi með
þessa hálvita? Sáuð þeir ekki helvískt konutröllið"?
"HÚN ER HÉR" gargaði Jói, og rauk aftur af stað.
Mundi eftir "STINGNUM" sínum..."hehehe.. nú fengi sú tröllvaxna að
kenna á því".
En svo mikill fart var á honum og hann enn vankaður (og
slæmur í fjarlægðareikningi), að hann náði ekki snúningum,
og STANGAÐI enn og aftur enni húsfreyju.
Jói hálf rotaðist.
Heimavarnarliðið grenjaði af hlátri, og gerði sig ekki líklegt
að koma vesalings Jóa til aðstoðar.
"Já, rotaðu hana helvíska" kallaði Beggi sterki,
feitasti geitungurinn í liðinu, flaug niður á laufblað
og veltist um af hlátri.
Húsfreyja sá aumur á örmum og aumum Jóa, og hörfaði
niður fjöruborð Vesturhópsvatn sex skrefum frá Jóa.
Beið átekta.
"Sko, þú ert að reka hana á flótta" orgaði Beggi á milli
hlátursroka.
Jói með stóra sára kúlu á höfði, horfði fullur efasemda
á eftir bláklæddri konunni.
Ákvað að láta gott heita, og koma sér heim.
Þetta var meiri sneypuförin, og félagarnir létu hann heyra það.
Fór ekki að jafna sig fyrr en amma hans bar eðal hunang á
kúluna á höfði hans um kvöldið, og sagði honum að hafa ekki
neinar áhyggjur: "Homo sapiens femalensis eru nú einu sinni
skrýtnar skrúfur, Jói minn, og ekkert á þeirra viðbrögð að treysta".
En húsfreyja hélt áfram að tína og
fékk fína berjauppskeru í brekkunni hans Jóa,
og ekki einu sinni smá kúlu á ennið eftir árásirnar.
En helvískt kvefið fékk hún sem hitt fólkið, og ætlar að sinna þvotti
og snýta sig í gegnum daginn í dag.
Góðar stundir á óákveðnum sunnudegi.
Pústrar, hrindingar og högg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:02 | Facebook
Athugasemdir
vona að kóloníupartýi sé lokið
Sigrún Óskars, 29.8.2011 kl. 23:18
Lokapartýið var haldið í hálsi 10 ára djásnsins og mínum síðasta þriðjudag...helvískt seindrepandi vírusadót....en betri tíð með síðsumarsblóm í haga framundan, kollega. Þakka þér innlitið og tryggðina
Sigríður Sigurðardóttir, 1.9.2011 kl. 19:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.