Færsluflokkur: Spaugilegt
23.7.2011 | 13:18
Rússneskur sandmokstur...
..sjálfsagt mun áhrifaríkari en sá frónverski.
Fleiri að baki hverri skóflu, eða hvað?
Húsfreyju þykir einsýnt að merkur oddviti þeirra
Eyjamanna í bæjarstjórn, muni leita allra leiða út úr
Landeyjarhafnarklúðrinu.
Fyrst "hafnarhönnunarsnillarnir" sáu vænstan kost í
samgöngumálum Eyjamanna,
að skella upp höfn í "ósum" Markárfljóts, í bakgarði
Eyjafjallajökuls og á miðjum "Landeyjarsandi", var nokkuð
"öruggt" að einhvern tímann myndi þurfa að MOKA upp
einhverju "smotteríi" af auri og sand úr höfninni.
En eitthvað virðist sú staðreynd hafa farið fram hjá snjöllum hönnuðum,
og þeir steingleymt að hanna kröftugan sanddæluútbúnað, og því
síður hugsað fyrir, að fengin yrðu sanddæluskip í höfnina sem
dyggðu í frónverkum aðstæðum og sjólagi.
Nú situr Ellið bæjarstjóri uppi með hönnunarsnilld þessa,
og á að sjá til þess að einhver ótölulegur fjöldi
ferðamanna komist þvers og kruss á sem skemmstum
tíma á milli lands og Eyja, sumarlangt og jafnvel
langt fram á vetur.
Eyjamenn þeir sem húsfreyja þekkir til, eru löngu
orðnir kúguppgefnir af "óáreiðanlegri" áætlun Herjólfs
í Sand...afsakið...Landeyjarhöfn, nota flugið grimmt
og flykkjast í ferðir Herjólfs til Þorlákshafnar, þegar
þær eru í boði.
En Elliði bæjó er seigur og fylginn sér, og gefst ekki upp
þó á móti blási.
Eftir því sem húsfreyja best veit, er gamla Rússland
fullt af lækjasprænum, stórum ám og jafnvel stórfljótum
þvers og kruss um landið þvert og endilangt.
Dettur henni þar einna helst í hug Volga og Don, en veit
að vatnsbunur þar austur um hljóta að vera miklu fleiri, en
það sem hennar minni rekur til.
Einhverja reynslu af sandburði þessara stórfljóta hljóta
Rússar að hafa öðlast, og gætu nú af stakri visku sinni
og vinsemd miðlað til Elliða bæjó á haustdögum.
Þarf þá kannski ekki að loka Landeyjarhöfn yfir vetrarmánuði,
ef vel tekst til, og Rússarnir rétta Elliða brilliant lausn
á silfurfati á sand- og aursöfnuninni innan hafnarinnar,
sem frá Markárfljóti kemur.
Verra verður að finna lausn á sjávarstraumum, og vetrarlægðum
með hvínandi austanátt dögum saman.
Jamm, Elliði Eyjamanna situr líklega í súpunni eftir sem áður,
þó Rússarnir veiti liðsinni.
Við liggur að húsfreyja bjalli í hann, og stingi að honum að
hóa í kínverska sendiherrann næst.
Þeir snjallir menn í LÖNGUM brúarsmíðum eftir því sem
fréttir austur frá Kína herma, og þeir allra manna greiðviknastir og
vinsamlegastir....ef þú manst að launa þeim greiðann
seinna meir. Muna bara að vera ekki að bögga þá gulu
með einhverju mannréttindakjaftæði.....
Brú millum Landeyja og Eyja yrði sjálfsagt lítið mál fyrir
Kínverjana. Þeir ýmsu vanir í þeim málunum.
Myndu rusla upp einni eðal brú á "nó tæm"fyrir Eyjamenn!
Og höfnina mætti eftir sem áður nýta sem...hrísgrjónaakur.
Þeir kínversku yrðu hrifnir af því.
Já, en tarna er skrítna hafnarstæðið, Landeyjarhöfn.
Og nýtingin á höfninni tóm barátta við náttúruöflin.
Nei, Elliði bæjó á ekki sjö stundirnar sælar, þegar kemur að
Herjólfi og hans hafnarmálum.
En húsfreyja hefur trú á sinni heimabyggð, og telur að
farsælar lausnir sé hægt að finna á hverri áskorun....jafnvel
samgöngumálunum.
Hún myndi altént byrja á því að senda "hafnarhönnunarsnillana"
aftur á skólabekk, og setja þeim fyrir að LÆRA að gera
"inn- og útsiglanlegar-hafnir", og öðrum kosti að
kenna þeim að náttúruöflin á hverjum stað, eru þau
öfl sem þarf að gera ráð fyrir FYRST, áður en vaðið er af stað í
hafnargerð.
Senda þá svo aftur austur á Landeyjasand.....KOMA SVO!
VINNA VINNUNA SÍNA!
En vel að Elliði bæjó gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana.
Húsfreyja spáir honum velgengni.
Hann á til bæði þolinmæði og þrautseigju.
Og...
"Þolinmæðin þrautir vinnur allar".
Góðar stundir í rífandi fínum þurrki hér vestanlands.
Leitar til Rússa vegna Landeyjahafnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2011 | 22:55
Vatn í æð á heitum sumardegi!
Húsfreyja hefur fulla samúð með
hlaupurum þessum á Laugaveginum,
og þykir ekki mikið að sumir hafi þurft vökva í æð.
Dáist bara að áræði þeirra og dugnaði, og
óskar þeim heilla í næsta Laugarvegshlaupi.
Sjálfri hefði húsfreyju ekki veitt af vökva í æð
úti á sólpalli sínum um hádegisbilið.
Hitamælir í skugga sagði 24 stiga hita, helvískur lygarinn,
á meðan bóndi og húsfreyja voru við það að fá
heilablóðfall í 35 stiga hitanum í sólinni.
Djásnið flúði inn með Andrés Önd, og sagðist
ekki ætla að fá sólsting og hitaslag.
Bóndi og húsfreyja sáu að komið var í óvænt efni
með veru sína á sólpalli sínum, þrátt fyrir fögur
og litrík sumarblóm, kalda drykki og bland í poka.
Heilabú þeirra myndu hreinlega "brenna við",
og húðin flagna af þeim, þrjóskuðust þau lengur þar við.
Fengu aldeilis brilliant hugmynd.
Drifu sig í Bónus og versluðu smávegis nesti,
tróðu því í bakpoka og þræluðu sér út í
"stóra örbylgjuofninn" sinn, nefnilega bílinn.
Tíu ára djásnið var svona mitt á milli "ókei ég get sosum alveg
komið með ykkur" og "aaaaarrrgh, HRYLLINGUR að ætla að
fara í LAAAAANGA ferð í svona sjóðandi heitum bíl"!
En af stað lagði fjölskyldan eigi að síður, út úr bænum.
Djásnið kvartaði stöðugt í bílnum.
Augnsviði, hiti, verkur í olnboga, þorsti, ÞREYTA.
"Guði sé lof, að "Botninn" er ekki suður í Borgafirði
hugsaði Húsfreyja, á meðan bóndi gerði djásninu til geðs,
og þrasaði við hana.
Neipp, botninn var BOTNINN í Hvalfirði, svo stutt var að fara.
Nú skyldi GENGIð í veðurblíðunni, svona LÉTTA og ljúfa
göngu upp að Glym, fyrrum hæsta fossi litla Fróns.
Djásnið var full efasemda um visku og geðheilsu foreldranna,
er kom að gönguferð þessari, taldi víst að þau væru bæði STEIKT!
Hitamælirinn í bílnum sagði hitann 17 stig C...helvískur lygarinn.
Hitinn var STEIK, STEIKTARI STEIKTASTUR!
En af stað hélt fjölskyldan.
Rölti góða stund eftir fornum túnum, fram hjá eyðibýli,
eftir klungri niður að á.
Stígurinn HVARF skyndilega við hamar við Botnsá.
"Hvernig komumst við niður"? djásnið örlítið áhyggjufullt.
Húsfreyja skellti sér fram á brún, benti á moldartroppur,
varðar trédrumbum sem hengu utan í hamrinum:
"Við förum hérna niður"!
Bóndi vantrúaður.
" En hvar er hellirinn"?
"Nú hann er við endann á tröppunum" húsfreyja ratvís
og minnug.
Bóndi efaðist stórum um minni húsfreyju sinnar, en varð
að játa sig sigraðan þegar hellismunni blasti við sjónum.
Djásnið fílaði hellirinn í tætlur....því meira, að gengið var í gegnum
hann og út neðar í hamrinum.
Botnsá himinblá, straumhörð og hvítflyssandi blasti við.
"Hvernig komust við yfir, mamma" spurði djásnið áköf.
Gangan að verða spennandi.
" Á viðardrumbi og vír" kom svar múttunnar.
Djásnið var orðið verulega spennt.
"Úúú.. er þetta öruggt, pabbi"?
Bóndi sagði svo vera, og fór fyrstur yfir.
Djásnið fylgdi á eftir, ríghélt í vírinn en
húsfreyja rölti rólega síðust og strauk hægri
hendi meðfram vírnum.
Vestmannaeyjajafnvægið enn í góðum gír hjá henni,
þó lítið væri um ár í Eyjunum.....nákvæmlega ENGAR.
Svo hófst gangan upp í steikjandi sólskini utan í bröttum
hlíðum Hvalfells, hangandi í spottum upp bröttustu
stígana.
Svitinn rann í stríðum straumum, hjartað sló örar,
fossinn sindraði í hitanum...escuse me....góðan daginn..
...guten tag.....escuse me....það var fjölmennara
á leiðinni upp enn í Kringlunni á föstudegi.
Fundið rjóður í birkiskóginum ofarlega og nesti snætt.
Djásnið að niðurlotum komið: "Þetta er erfitt, pabbi,
ég er ÞREYTT"!
Sólin skein sem aldrei fyrr.
Húsfreyja myndaði grimmt, á meðan bóndi og djásn
þrösuðu.
Haldið áfram upp, fundinn útsýnisstaður, þar sem
tignarlegur Glymur blasi við.
Myndað.
Djúpt gil blasti við, og djásninu sundlaði.
Þarna niður færi hún ekki.
"Ég er svo ÞREYTT, pabbi"!
Bóndi og djásn þrösuðu í sumarhitanum.
Húsfreyja taldi að nógu hátt væri gengið
enda klukkan að verða fimm síðdegis.
Svo aftur var gengið af stað, en nú niður í móti.
Tíu ára djásnið var allt í einu ekki þreytt lengur,
þrátt fyrir brækjusólskyn og hita.
Fékk sér vatnssopa úr hverri lækjarsprænu,
skokkaði niður á undan foreldrunum.
Ákveðið að vísitera tengdó í húsbílaferð að Hlöðum
við Ferstiklu á leiðinni heim.
Þau þar í stormi en sólskyni.
Tengdamútta sagði "skítakulda".....húsfreyja, bóndi
og djásn horfðu á hana eins og hún væri búin að
missa vitið.
KALT???
Þau voru að bráðna eftir gönguna miklu.
Kaffi drukkið, súkkulaðirúsínur snæddar og tengdamúttu
hlýnaði.
Tengdapabbi spenntur fyrir lokahófi húsbílafólks um kvöldið.
Gaui litli átti að sjá um kvöldverðinn.
Þegar litla fjölskyldan kvaddi var Gaui litli að mæta
á svæðið í sínum "Nizzan Micra".
"Vonandi verður "dinnerinn" ekki MICRA hugsaði
húsfreyja, og glotti með sjálfri sér, "verður vonandi
svona meira Gaui litli-dinner".
Hvalfjörðurinn skartaði sínu fegursta á heimleiðinni,
og húsfreyja reyndi að rifja upp söguna af konunni
sem synti með börnin sín tvö??.. frá eyju....hvaða eyju''...
í Hvalfirðinum í land eftir bruna??... hvenær???.. í land...hvar??
Þetta var allt svona dálítið óljóst hjá húsfreyju,
enda hún ekki vel kunnug svæðinu og sögu þess, en hafði eigi
að síður heyrt þessa sögu einhvern tíma þegar
húsfreyja var ung og fögur...nú er hún auðvitað
bara FÖGUR.
Auglýsir hér með eftir nánari upplýsingum um sögu þessa,
eyjarnafn, bæjarnöfn og tildrög, húsfreyja.
Alltaf gaman að kunna góðar sögur, en þá er líka nauðsynlegt að
fara rétt með staðreyndir/þjóðsögur.
Þegar heim var komið, steikti bóndi þorsk, en húsfreyja sem
er brunarústir einar eftir daginn, hvíldi sig yfir rauðvínsglasi
og fréttum af nýopnaðri Múlakvíslarbrú.
Djásnið stendur á haus í orðsins fyllstu merkingu:
"Mamma, sjáðu" og vippar sér í handahlaup á stofugólfinu.
"Ég er ÞREYTT" útstrokað úr hennar heilabúi, bónda til
mikillar furðu.
Á meðan er herleg bifreið systur í Þorlákshöfn búin að vera í mergjaðri
fílu við systur hálfan daginn.
Stýrið LÆST svo sterkustu karlmenn hafnarinnar réðu ekkert við.
Bóndi og húsfreyja ráðlögðu systur að snúa stýrinu
grimmt hægri vinstri, og reyna að starta...og systir hafði það fyrir rest.
Tveggja tíma rest.
Sló alla sterka karla út, systir.
En Bónusferðinni upp í Hveró seinkaði töluvert hjá systur,
en hún búin að sverja þess eið, að snúa aldrei hjólum
bifreiðar sinnar, þá hún leggur bílnum.
Jamm, sólríkt og læst vesen hjá oss systrum í dag.
Vonandi áttuð þið öll góðan og ljúfan dag...sólríkan
sem sólarlausan hér uppi á litla Fróni.
Góðar stundir.
Laugavegshlaupinu lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2011 | 19:32
Næstum því kannski.
Sundrungur í samgöngum...eða sundraðar samgöngur
á sunnanverðu litla Fróni?
Hvað er atarna?
Eldfjöll öll austan heiða sunnanvert komin
í mikin ham.
Mergjaðan sótsvartan ham!
Annað hvort gjósa upp úr þeim hraunspýjurnar
með tilheyrandi kolasvörtu öskufalli, eldglæringum,
hraunfossum, aurflóðum og rassárum ferðalöngum
á lokuðum flugvöllum eða þau "næstum því kannski"
gjósa undir jökli og senda aurflóð í ferðalög
með frónverskar brýr á suðurlandi beint á haf út.
Jaso.
Samgöngur á suðurlandi í uppnámi þar með.
Enn og aftur.
Eyjamenn líklega farnir að huga að "sameiningu" við
Þorlákshöfn, eða þjálfa sig upp í "langsundi"
öðrum kosti, en Mýrdælingar dudda sér heima við
að safna ösku og aurleðju á flöskur til að
selja túsistum...sem næstum því kannski komast
yfir Múlakvísl til þeirra eftir 2-3 vikur....sitja fastir
úti í miðri kvísl öðrum kosti eða oní á að fjallabaki, Mýrdælingar,
þurfi þeir að skreppa á Egilsstaði á næstu dögum.
Tarna er ljóta uppákoman.
Húsfreyja hefur litla áhyggjur af íbúum Hafnar á Hornafirði,
þeir elda bara meiri humarsúpu og skella á brúsa,
og krusa um austurlandið í sólinni, á leiðinni
suður.
Örlítið lengri leið fyrir þá að vísu, en þokkalega
örugg og "vel brúuð"....nema auðvitað að Krafla taki
upp á því að gjósa aftur.
Neipp, það eru Mýrdælingar sem eiga alla samúð húsfreyju.
Þarna eru þeir staddir nánast úti í miðri sandauðn,
engin höfn, engar flugsamgöngur, með Kötlu gömlu
stöðugt másandi ofan í hálsmálið á þeim og verða
að treysta á þjóðveg eitt, ein akrein í hvora átt,
sem "aðalsamgönguæð".
Svo hnerrar sú gamla, Katla kerling, og snýtir sér hressilega.
Og púff!
Brúin yfir Múlakvísl farin!
Horfin!
Fjörutíu metra bútur út þjóðvegi eitt þar með
sigldur á haf út.
Og Mýrdælingar verða flestir HEIMA hvort sem þeim
líkar betur eða verr, hafi þeir ætlað að dúlla sér
austur á Höfn eftir humri í sumar, eða vera með hitting
hressra "nunna" á Klaustri.
Nú eða þurfa jafnvel að fara í það að læra "langsund" með Eyjamönnum.
Geyma austurferðirnar fram í ágúst, þegar vegagerðin
verður búin að reisa nýja brú og lagfæra "horskemmdirnar"
eftir Kötlu.
Jamm, sunnlendingum er ekki skemmt.
Og eins og þetta sé ekki nóg, þá hafa jarðvísindamenn
og eldfjallasnillar verið að mæla "blóðþrýsting"
hennar hátignar, Heklu "af Rangárvallasýslu".
Og hvað?
Jú, þar er allt í suðumarki!
Næstum því kannski hægt að spá gosi hjá þeirri
eldfjallafrú á næstu vikum.
Það yrði aldeilis myljandi stuð, þó sú frú sé einna
skást í sveit sett hvað samgöngur varðar.
En ekki er þetta gæfulegt atarna.
Hálfsokknar rútur úti í jökulá.
Jepplingar og mótothjól föst í ám á fjallabaksleiðum.
Brjálað að gera hjá björgunarsveitunum um hásumar.
Með þessu áframhaldi verða þeir að selja minnsta fjölskyldupakkann
af flugeldum á 50 þúsund kall næstu áramót.
Jamm, móðir náttúra er hörkukerling og kann svo
sannarlega þá list að velgja okkur Frónbúum undir uggum.
Kyndir vel undir eldfjöllum sínum hér uppi á Fróni, móðirin
um þessar mundir, og gerir viðkvæmar samgöngur okkar
erfiðari og flóknari.
En við erum sosum öllu vön, Frónbúar.
Búum á landi í mótun og þrífumst yfirleitt best þegar á móti blæs.
Vel að enginn slasaðist í rútuslysi þessu í Múlarkvísl,
og húsfreyja veit að brúarsmiðir við Múlakvísl vinna
gott og traust verk fljótt og vel.
Verða næstum því kannski búnir með hana eftir 10 daga.
En soðin ýsa næst.
Góðar stundir og gangi ykkur ætíð vel að komast ferða ykkar.
Trukkurinn fastur í Múlakvísl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 16.7.2011 kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2011 | 21:01
Glaðlegur hrærigrautsstíll...
... þá aftur kominn á miðbæinn?
Þetta er ætíð vinalegt götuhorn í minningu
húsfreyju, enda dvaldi hún mörgum stundum
í "gamla" Nýja Bíó, hér á árum áður, þá þangað
bárust bandarískar og evrópskar kvikmyndir jafnt og þétt,
lágmark 1-3 árum eftir að þær höfðu verið
frumsýndar á erlendri grund.
Myndum sem síðan var varpað á hvíta tjaldið,
eldheitum kvikmyndaunnendum sem húsfreyju
til mikillar gleði og ánægju.
Það var eitthvað hlýlegt og vinalegt að standa
í poppkornsröðinni í anddyrinu, "popp og kók, takk",
og rölta svo í sæti sín í ískrandi bekkjunum,
"númeruðum" að sjálfsögðu og anda að sér
rómantík kvikmyndasalarins fyrir sýningu.
Síðan hófst sýningin.
Engar auglýsingar, alltaf hlé.
Mátti REYKJA, og kvikmyndin oft öll sveipuð
dulúðlegri reykjarhulu, sem gerði hryllinginn
hryllilegri, sorgina þungbærari, sólskynið daufara,
regnið og vonleysið áþreifanlegra, gleðina reykingatengda,
hvítu kjólana gráa í kvikmyndabrúðkaupunum, og grínið
nánast lífshættulegt, þegar sígarrettureykurinn
sogaðist djúpt ofan í lungun, í miðri hlátursroku.
Stóð oft á öndinni, húsfreyja, af óbeinum reykingum
í bíó hér í den.
Angaði eins og keðjureykingamaður, þegar heim kom.
Aðrir tímar....den tid den sorg.
Man þá húsfreyja eina góða ferð í Nýja Bíó, þá hún var
sextán ára fljóð, ný byrjuð að stunda nám í M.R.
Þær höfðu rifið sig af stað eftir kvöldmat, húsfreyja
og tvær vinkvenna hennar, niður í Nýja Bíó.
Það var kominn nóvember, hráslagaleg slydda,
sem smaug ofan í hálsmálið á þykkum vetrarkápum
þeirra og það var kalt....nístingskalt.
Samt skárra að skreppa í bíó, en að hanga heima
og reita hár sitt í örvæntingu yfir rúmfræði, stafsetningareglum
og enskum stíl.
Í bíó var enginn mættur, er stöllurnar þrjár komu á svæðið.
Báðu um þrjá miða í bekk fyrir miðju, sæti sömuleiðis fyrir miðju
í bekknum.
Vestri með Lee Marvin í aðalhlutverki.
Poppið og kókið keypt.
Enginn annar mættur, og 5 mínútur í sýningu.
Fór sextán ára kjánahrollur um vinkonurnar:
"Verðum við ALEINAR í bíó", hvísluðust á og flissuðu
vandræðalega.
Þær drifu sig samt inn í salinn, litu á númerin á
bíómiðunum og fundu bekk sinn og settust
svo fyrir miðju af handahófi, enda öll önnur sæti
laus, svo ekki gat nákvæmt sætanúmer skipt máli,
töldu þær.
Þremur mínutum seinna birtust þrjár unglingsstúlkur
á svipuðu reki og stöllurnar.
Þrekvaxnar og í þykkum vetrarkápum, líkt og húsfreyja og
hennar vinkonur.
Þær þrekvöxnu gengu beint að bekk vinkvennanna,
með miða sína á lofti.
Stöllurnar stóðu upp og hleyptu þeim fram hjá,
sem var töluvert bras, því þykkar blautar kápurnar,
voru fyrir, kræktust saman á tölum og beltum.
En að lokum voru þær þrekvöxnu sestar,
þétt upp við húsfreyju og vinkonur.
"Sex í bíó, þétt saman, á sama bekk" hugsaði
húsfreyja og glotti við tönn.
Sýning um það að bil að hefjast þegar ein af
þrekvöxnu skvísunum stóð upp:
" Heyriði, þið eruð í sætunum okkar"!
Valdsmannleg og ákveðin, og sýndi húsfreyju og
vinkonum bíómiða sinn.
Mikið rétt.
Húsfreyja og stöllur urðu að hleypa þeim þrekvöxnu
aftur til baka...með töluverðu kápubrasi, og flytja
sig tvö sæti til vinstri, svo þær þrekvöxnu fengu
sín RÉTTU sæti hægra megin við þær...ÞÉTT upp við þær.
Húsfreyja sem er fljót að sjá húmorinn í flestum
aðstæðum, var farin að hlægja óstjórnlega.
Tíu augu störðu á hana furðu lostin.
"Gott að hafa sætanúmerin á hreinu og RÉTT sæti í svona
fullu bíói" , tókst húsfreyju að stynja upp og benda
út í tóman salinn.
Allar skvísurnar skelltu upp úr, og þær þrekvöxnu urðu
hálf kindarlegar í framan, en hlógu dátt samt.
Ljósin slökkt og sýning hófst.
Marvin skemmtilega ófríður á tjaldinu.
Fimm mínútum seinna opnuðust dyrnar á
kvikmyndasalnum.
Lokuðust.
Skruðningar, pústrar, bölv og dæs.
Maður í þykkri rennblautri úlpu, sem angaði eins
hann hefði fengið hana að láni uppi í Hvalstöð eftir
hvalskurð, velt henni síðan upp úr lýsi og slori,
settist beint fyrir framan lágvöxnustu, þrekvöxnu
stúlkuna.
Manninn var tveir metrar á hæð, og breiður eftir því.
Stúlkan sá hvorki tangur né tetur af Marvini.
Þær þrekvöxnu fóru aftur til ferða, en nú fluttu þær sig
fimm bekkjum neðar.
Húsfreyja og stöllur sátu sem fastast, og reyndu að
anda með munninum.
Marvin skaut fjóra með tveimur skotum...drap þá alla.
Maðurinn í úlpunni góðu, ók sér í sætinu, reyndi að
troða höndum niður í rassvasa.
Náði taki á kveikjara, svo rettum.
Kveikti í.
Húsfreyja fílaði sig sem lambakjötslæri í
taðreykskofa.
Marvin drap þrjá.
Maðurinn drap í, og fór í það að troða sígarrettum og
kveikjara aftur í rassvasa....as...mas...bras...KRATSJÚ....HLUNK!
Maðurinn seig snögglega niður.
Hressilegt bölv....."helv...djö....sætið er brotið".
Manninum tókst með erfiðismunum að komast upp úr
brotnu sætinu, bölvandi og ragnandi.
"Við erum að reyna að HORFA á bíómynd hérna" gall í
einni af þeirri þrekvöxnu.
"Afsakið, helv...sætið brotnaði" rumdi í risanum.
Hann ráfaði úr sætaröðinni, og rölti niður í næsta bekk
fyrir framan þær þrekvöxnu.
Loftræsting í lagi dældi "anganum" af úlpunni til
þeirra þrekvöxnu, á meðan Marvin kyssti mikið málaða
en fáklædda konu á bar og drakk viský af stút.
Pískur og andköf.
Svo kom hlé.
Þær þrekvöxnu stóðu upp í snatri,
sveipuðu kápum sínum þétt að sér.
Sú hávaxnasta af þeim, var eitthvað föl á vangann,
kúgaðist og hóstaði....."..hvaða lykt..ég er að farast.." hvíslað.
Þær strunsuðu fram í anddyri, og sáust ekki meir.
Húsfreyja var komin með þrautir í magann af innibyrgðum
hlátri, en náði að þrauka út myndina í fjögra manna bíói þessu.
Hvernig myndin endaði, eða hve marga Marvin drap,
hefur hún ekki hugmynd um enn þann dag í dag.
Því síður hvað myndin hét.
Fín bíóferð eigi að síður.
En vel að búið er að endurbyggja húsin í Austurstræti.
Húsfreyja bregður sér þá niður í miðbæ í sumarfríi sínu,
og kíkir á dýrðina.
Kannski þeir endursýni Lee Marvin........
Góðar stundir og enn betri bíóstundir.
Ný götumynd blasir við | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 10.7.2011 kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.5.2011 | 19:28
Hamingjan er í hlýjum geislum sumarsins.
Sú gula var í ham.
Húsfreyja skáskaut sér og djásninu
í gegnum þvöguna í Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum,
fann svitann renna ónotalega niður eftir bakinu um leið
og mannfjöldin varð stopp við endann á brúnni.
"Váv, það er heitt", gjóaði augum á þá gulu í von um miskun.
Ekki sjens!
Tvær unglingsstúlkur með "Candyfloss" á lofti fyrir framan
húsfreyju reyndu að komast áfram með því að ÝTA.
Ekkert dugði, en gömul hvíthærð amma kvik á fæti,
skaust fram og til baka "út á hlið" fyrir framan húsfreyju
og unglingsstúlkurnar. Fram og til baka.....fram og til baka.
Gat greinilega ekki ákveðið sig hvort hún vildi vera hægra megin
í fólksmergðinni eða vinstra megin.
Enginn komst hænufet áfram.
Stúlkurnar flissuðu, og húsfreyja sá að ungur drengur á að giska
12 ára og stóð þétt fyrir framan þær, var kominn
með bleikar Candyfloss-strípur í dökkt þykkt hárið...aftan til.
Drengur varð einskis var.
"Þvílík hamingja, að lenda "fyrir aftan" candyfloss-stúlkurnar"
hugsaði húsfreyja með sér, um leið og "hliðlæga, hvíthærða amman,
fékk bleika Candyfloss-rönd á öxlina á ljósum sumarjakka sínum.
Amman varð einskis vör.
Loks fór mannmergðin að mjakast af stað.
Hænufet fyrir hænufet.
Ung stúlka í starfsmannafatnaði garðsins, reyndi að
fá fólk til að skipta brúnni eftir miðju..."gangið hægra megin,
GANGIÐ HÆGRA MEGIN" svo umferðin gangi í báðar áttir
yfir brúna"!
Hvíthærðu "hliðlægu" ömmunni gekk erfiðlega að sætta sig
við svo "afdráttalausa staðsetningu" á brúnni, var ætíð
komin í fangið á fólkinu sem streymdi yfir brúnna
á móti húsfreyju og djásni.
Starfsstúlkan beindi ömmunni hliðlægu aftur á hægri
helming brúarinnar.
Amman snerist í hring fyrir framan húsfreyju og Candyfloss-
stúlkurnar, fékk nýja bleika rönd eftir miðju jakkabaki,
og vippaði sér síðan snarlega 3 skref yfir á vinstri
helming brúarinnar.
Beint í fangið á fjölskylduföður með ungabarn á handleggnum.
Pabbinn dæsti af örvæntingu þess sem á sér enga undankomu
auðið, og leit ásakandi á starfsstúlkuna:
"Getið þið ekki stjórnað mannskapnum betur".
Starfsstúlkan togaði pirruð í hvíthærðu, hliðlægu ömmuna,
"VERÐUR AÐ VERA HÆGRA MEGIN, ÞÝÐIR EKKI AÐ TROÐAST SVONA".
Amman sté 1 og hálft skref til hægri, og reikaði restina
af leiðinni, svona ívið meira á vinstri helmingi brúarinnar.
Starfsstúlkan reitti hár sitt af örvæntingu er hún horfði á
eftir gömlu konunni.
Húsfreyja hélt sig til hægri með djásnið, og dró öndina léttar
er þær loks komust yfir brúnna.
Svala Marý, frænkubeibí, 12 ára mætti, skólaus, sokkalaus og með vinkonum.
"Eins gott að það er hlýtt" hugsaði húsfreyja.
Skórnir og sokkar frænku eitthvað blautir og verri eftir
glæfralega ferð yfir pollinn á fleka.
Svalan hvarf á braut með vinkonum.
Húsfreyja barðist með djásni í myljandi sólskini
að pallinum þar sem Sveppi og Villi voru að skemmta.
Þar múgur og margmenni, en nóg pláss uppi í brekku.
Þær mæðgurnar fundu fínan stað, og húsfreyja dæsti af ánægju.
"Nú mátti sú gula láta ljós sitt skína, halda uppi brækjuhita,
helst út alla skemmtunina".
En NEIPP!
Rúmri klukkustund síðar var sú gula farin í fílu,eða
máske bara örþreytt, eins og presturinn í Þorlákshöfn.
("Messufall næsta sunnudag. Prestur er þreyttur" , auglýsti
sérann í Dagskránni í Þorlákshöfn).
Það mígrigndi í Fjölskyldugarðinum.
Rigndi svo meira...og enn meira.
Tíu ára djásnið fór að fá sérkennilegan bláma
í kringum munninn, og tennurnar að skrölta í munni hennar:
"Mééér er svoooo KALT , mamma".
Skipti engu þó húsfreyja hefði asnast til að taka með
sér regnhlíf, og djásnið fengi hana til einkanota.
Húsfreyja yggldi sig upp í regngráan himinn, hugsaði
þeirri fúlu gulu þegjandi þörfina, og kom djásni sínu
af stað heim í einum hvínandi hvelli.
Móaði í hvíthærðu, hliðlægu ömmuna, ásamt fjölskyldu
við endann á brúnni góðu, þegar húsfreyja kom þangað með djásnið.
Snérust á hæli mæðgurnar, og fóru út um stóra breiða hliðið
Fjölskyldugarðsins í staðinn.
Tíu ára djásnið eigi að síður hæstánægð með ferðina...og bláu
blöðruna...alveg í stíl við kuldabláan lit vara hennar.
Húsfreyja svo að tvístíga í dag með ferðalög... og gáði áhyggjufull
til veðurs í morgun.
En þá lofaði sú gula bót og betrun, svo húsfreyja lagði af stað
austur í Þorlákshöfn með tíu ára djásnið.
"Hafðu ekki áhyggjur af
gervallri framtíðinni-
hún er aðeins dagur í senn".
Þar glotti risastórt rautt hjartalaga andlit á bílskúr systur
í Þorlákshöfn við húsfreyju og djásni.
"Noh, Hafnardagar byrjaðir" sagði húsfreyja djásni.
Djásnið brá sér á trampolínið "med det samme", þó sá
splunkunýi gripur væri eitthvað orðin skakkur og skældur
eftir ofsarok síðasta mánudag.
Systir í önnum, er búin að leigja hús elstu dóttur sinnar,
og mútta húsfreyju baslaði í bílskúrnum.
Var búin að finna bílskúrsgólfið sú góða kona, og helling
af fínum vetrarfötum, sem hún var einnig nýbúin að þvo.
Dugleg kona mútta.
Það var mikið spjallað, og verðandi leigjandi, gæðalegur maður
mætti í kaffi, og gott ef sú gula lét ekki svo lítið
að brosa endrum og eins inn um gluggana á eldhúsinu
til þeirra.
"Taktu ákvörðun um að vera
hamingjusamur-
og þú ert hálfnaður að markinu".
Sumarblóm húsfreyju eru öll komin út á sólpall.
Sú gula lofaði að sinna þeim!
Húsfreyja hefur einnig staðið í stífum samningaviðræðum við
"veðurguði alla" um heitt og blítt sumar.
Gott ef þeir eru ekki að samþykkja 8-10 vikur
af sólgulri veðursæld hér uppi á litla Fróni.
Bísna flinkur viðsemjandi, húsfreyja, þó hún segi sjálf frá.
Góðar og hamingjuríkar sumarstundir.
Spaugilegt | Breytt 1.6.2011 kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2011 | 20:03
Orðlaus?
Vantaði ekki stór og þung orð
þegar hann ræddi heimsendann
sem aldrei kom...nema þá kannski
uppi í Grímsvötnum.
En skítt með heimsendann.
Hvað með Jesú??
Kom hann aldrei heldur?
Jamm, merkilegur klerkur atarna, herra Camping.
Húsfreyja mælir með því að hann kasti frá sér trúarritum
í "leit sínum af svörum" og einbeiti sér að leita svara hið innra,
en mest þó í almennri skynsemi.
En gleði og myljandi hamingja.
Búið að fresta heimsendi....ENN OG AFTUR.
Góðar stundir á öskugráum degi.
Mjög erfið helgi" hjá Camping | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.5.2011 | 11:59
Heimsendir mætti...
...en eingöngu á einn stað á jörðu",
móður húsfreyju var mikið niðri fyrir í símanum.
Húsfreyja nuddaði stírurnar úr augunum,
svaraði rámri röddu: "Nú, og hvar þá"?
"Á litla Fróni, Vatnajökli, nánar tiltekið Grímsvötnum"
svaraði múttan ákveðin.
"Stendur strókurinn upp af landinu, eins og pabbi þinn
sagði við þig hérna um árið, þegar þú skrappst til London".
Húsfreyja mundi vel þá reisu, og að hafa hringt heim
frá London að kanna stöðuna eftir að hafa séð fregnir í
enskum dagblöðum um eldgos í Vatnajökli.
"Þú ert ekki fyrr búin að þvælast af landi brott", hafði
pirraður faðir hennar þrumað í símann, "en að eldstrókurinn
stendur upp af landinu".
Húsfreyja hafði svarað föður sínum mildilega. " Það er nú kannski
lítil tenging milli minna ferðalaga og eldgossins í Vatnajökli, pabbi".
En það var faðirinn ekkert svo viss um, og taldi nánast að
rekja mætti allar náttúruhamfarir litla Fróns síðustu ár við "ferðalög
húsfreyju á erlendar grundir".
"Svo er allt vaðandi í ösku og skít, en hér er hún mamma þín"
voru kveðjuorð föðursins til húsfreyju.
Þær mæðgur veinuðu af hlátri í símann, svarti pirringurinn í
yfirlýsingaglöðum föður húsfreyju kitluðu hláturstaugar þeirra
verulega.
"Ja, margt hefur þú á samviskunni, dóttir góð", voru orð móðurinnar
þegar þær loks náðu andanum fyrir hlátri.
Nú er þetta annað gosið á stuttum tíma þarna í jöklum
Suðurlands, en húsfreyja getur svo svarið að hún hefur ekki
hreyft sig af landi brott síðan hún
skrapp til Prag á haustdögum 2008.
Svo húsfreyja sagði móður sinni að þessu elgosi núna gæti hún
ekki bætt ofan á sína samvisku, fremur en gosinu í Eyjafjallajökli
á vordögum í fyrra.
Eftir hressilegan hlátur ræddu þær málin mæðgurnar.
Þær voru sammála um að litla Frón sé þekkt fyrir að
vera vel búið "virkum eldstöðvum" og þær eldstöðvar muni gjósa
reglulega hvað sem öllum heimsendaspám líður .....
en vert væri að halda þessu opnu með tengingu eldgosa á
litla Fróni við utanferðir húsfreyju.
Jamm, húsfreyja hefur orðið fyrir því að vakna með
eitt stykki eldgos nánast úti í bakgarði heima hjá sér,
og mælir ekki með slíkri lífsreynslu.
Hún er fegin því að gosið er fjarri mannabyggð,
og um leið óskar hún þess að vindátt snúist, svo
askan valdi ekki skaða á bæjum í kring.
En við erum vön að berjast í svona málum hér uppi á
litla Fróni, og allt tekur þetta enda fyrr eða síðar.
Húsfreyja beitir óspart húmornum, þegar erfiðar
minningar tengdar gosi í Eyjum 1973 koma upp í hugann,
henni eðlislægt.
Baráttukveðjur til allra sem búa í nálægð öskufalls.
Góðar stundir í "míní-heimsenda"!
Eldingar í gosmekkinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2011 | 21:51
Trúlega ljótasta...
... dýrðlingastytta sem húsfreyja
hefur augum barið.
Vesalings steindauði Jóhannes Páll páfi.
Stytta þessir minnir húsfreyju einna helst á
fyrrum einræðisherra Ítalíu, Mussolíni....nýkrufinn.
Æ, æ, ekki nóg að blessaður Jóhannes Páll II hafi verið
skikkaður í dýrðlingahlutverkið og orðinn
dýrðlegur eigandi að HELGU blóðglundri í flöskum í
miðjum Páfagarði, heldur verður nú hinn elskulegi
Jóhannes Páll að hanga í styttulíki á öðruhverju götuhorni
og hverri einustu katólsku kirkju í hinu mikla veldi ítala.
Og séu allar hinar styttur hans líkar þeirri sem var afhjúpuð
fyrir framan eina helstu lestarstöðvar Rómar, er næsta víst
að menn fari að ganga af trúnni þarna austur í Róm.
Lágmark að "Hinn nýdýrðlegi" þekkist á styttum þessum,
og minni ekki á líkkistur og krufningar hvað líkamann varðar.
Eða það hefði húsfreyja haldið.
En hún telst víst seint katólsk í sinni trú, svo máske ekki alveg
að marka hennar álit.
En fögur er stytta Jóhannesar Páls II eigi að hennar mati,
og ættu hinir heittrúuðu katólsku ítalir að koma
stytturæskni þessu fyrir í hasti á afviknum og dimmum stað,
svo lestarferðir leggist ei af frá lestarstöð þeirri
sem um getur í fréttinni.
Svo geta ítalskir styttuunnendur katólskra dýrðlinga brugðið
sér í eina herlega reisu til litla Fróns, og skellt sér
inn í St. Jósefskirkju og skoðað allar fallegu dýrðlingastytturnar þar.
Það eru sko ALVÖRU dýrðlingastyttur.
Næsta víst að hinir ítölsku munu falla í stafi og
fái dýrðlegan innblástur mikinn,
og næsta stytta af heilögum Jóhannesi Páli II
við ítalska lestarstöð verði þar með íðilfögur,
honum lík og full af helgri andakt.
Góðar stundir og njótið "gluggaveðursins".
P.S Húsfreyja hefur alltaf verið hrifin af þessari mynd af
Jóhannesi Páli páfa, því lengi vel hélt hún að hann væri
með dökkan eyrnalokk í öðru eyranum á henni.
Ekki hrifnir af styttu af páfa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.5.2011 | 19:11
Góðir HÁRDAGAR...
...þar með framundan í
amerískri pólitík,
fyrst Trump neitar framboði.
Nema auðvitað að "hárgreiðsla" Trumps sé
í bullandi tísku meðal forsetaframbjóðenda
í henni Ameríku.
Þá er bandarísk þjóð í djúpum skít, og næsta víst
að alheimur liggi í flogakasti af hlátri, þá amerískir
forsetaframbjóðendur mætast á skjánum
þar vestra í kappræðum.
Gott ef frambjóðendur þeirra lenda ekki í hár saman,
standa í tómum hártogunum og gerast
gráir fyrir hærum langt fyrir aldur fram.
Jamm, merkilegur maður, Donald Trump.
Og hefur þokkalega gott sjálfsálit.
Segist vera jafn vinsæll og Jesú frá Nasaret.
Ekki amalegt það, en húsfreyja verður að viðurkenna
að Donald Trump minnir hana lítt á þann heilaga frá
Nasaret.
Nei, þá var nú Jesú glæsilegri til höfuðsins, með eðal
brúna og liðaða lokka.
Satt að segja minnir herra Trump húsfreyju á annan
fremur vandræðalega náunga og nafna hans.
Nefnilega hinn matrósaklædda "Donald Duck".
Góðar stundir á mánudegi,
það er verið að grilla og kjúllinn er kominn
á borðið í húsi húsfreyju.
Namm.
Trump býður sig ekki fram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2011 | 19:46
Haba haba-kvöldið mikla.
Tengdapabbi kominn með glundur í glas.
Tengdamamma er skreytt íslenskum fána.
Tíu ára djásnið sest við eldhúsborðið
þess albúin að skrifa niður stig þau
sem hún vill gefa lögunum.
Bóndi búinn að ná í bjórdós og ygglir sig yfir Haba haba
norsaranna.
Húsfreyja sest við kompjúterinn.
Hún telur að litla vinalega lagið hans Sjonna
verði ekki hátt skrifað í kvöld.
Kannski mer það upp úr forkeppni.... og við finnum "ástríðuna"
í albönskum stíl um leið og tíu ára djásnið hrópar fagnandi:
"Mamma, SNAKK"!
Evróvisjón í algleymingi, þó húsfreyja fíli ekki
ástríðufulla albani...tarna var leiðindalagið þó
söngkonan væri ekki sem verst.
Kötturinn tjúllast um leið og armenir byrja að raula
sitt búm búm stjakka stjakka.....stekkur hringinn upp á
vegg inn í stofu...æj...æj...æj skyldi þó aldrei vera komin
með starrafló aftur, læðurófan?
Húsfreyja ætlar að taka tyrki sér til fyrirmyndar og "live it up".
("Of rokkað" segir 10 ára djásnið og gefur tyrkjum "0" stig.)
Ætlar húsfreyja í sólpallsblómaleiðangur á föstudag, stunda innhverfa
íhugun með indverskum orkusteinum, drekka eðal
frónversk "urta-te" og spá sjálfri sér FULLKOMINNI HEILSU!
Og er aldeilis ekki búin að SPÁ!
Þetta verður frábært vor og sumar!
Allt mun ganga upp!
Allir góðir draumar munu rætast!
Húsfreyja finnur þetta á sér...fær hlýja strauma um sig alla,
bara við tilhugsunina.
Er að verða dúndrandi fín spákona, húsfreyja!
Eina er, að húsfreyja hefur sosum ekki myndað sér neina
sérstaka skoðun á Vinum Sjonna í Euro-keppninni.....
Haldiði þá að við sitjum HEIMA í aðalkeppninni?
Æææææ!
Húsfreyja spáir hér með Vinum Sjonna myljandi GLEÐI
VELGENGNI og LUKKU í keppninni...ekki seinna vænna.
(BOY, eru serbarnir að pissa upp á bak...)
En rússarnir eru bísna góði dansarar...aðalsöngvarinn
eitthvað raddlítill...en flottur dans!
Sviss er of "raularalegt" segir djásnið...eitt stig.
Og georgíumenn LEIÐINLEGIR...0 stig!
Harður dómari sú stutta.
Gaman að þessu, fer að líða að voru frónverska framlagi.
Góðar stundir á Evróvisjón-kvöldi...og ekkert kjaftæði,
húsfreyja veit að það eru ALLIR að fylgjast með...hehehe.
Evróvisjón-keppnin hafin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)