Færsluflokkur: Bloggar
19.10.2010 | 18:59
Óáttaðar öldur.
Húsfreyja hefur ekki heyrt áður af
"óvenjulegum ölduáttum"!
Er jafnvel ekki alveg örugg á því að hún
viti hvaða fyrirbæri þetta sé.
Rekur bara alls ekki minni til þess að hafa
heyrt veðurspaka menn í Eyjum ræða um
"ölduátt" eða "ölduáttir".... nema þetta eigi að
vera "ölduáttur"....samanber spaðaáttur!?
Nei, varla.
Hins vegar man húsfreyja vel eftir "ölduróti", "ölduhæð", "ölduhnútum"
"ölduriði", "öldurisi", "öldukasti", "ölduskít" og "ölduskafl"
í daglegu tali sæfara sem annara Eyjamanna hér í den.
Nú og svo var rætt um öldunga, öldurhús og öldustokka
og menn voru öldungis rasandi hissa á óðaverðbólgunni,
bítlamúsíkinni, nýjum leiðum í menntunarmálum s.s. öldungardeildum.
Jamm.
En kexruglaðar öldur úr "óvenjulegum ölduáttum" voru
lítt ræddar í Eyjum bernsku húsfreyju.....eða aldrei.
Hélt reyndar, húsfreyja að "allar áttir" á hafi úti
væru "venjulegar ölduáttir", færi svona eftir því
hvernig og hvaðan vindar blésu.
Já, húsfreyja er öldungis rasandi hlessa á
villuráfandi öldum þessum, sem hafa valið að
róta sér í óvenjulega átt...beina leið inn í Landeyjarhöfn.
Og það með heilu helvítis tonnin af rammvilltum sandi
sem ferðafélaga í þokkabót.
Enda sér það hver heilvita maður að öldurót mettað
sandgruggi er næsta fáheyrt og fáséð á þessum slóðum...
samanber "Landeyjasandur"....eða nei...við skulum láta
þetta liggja milli hluta.
Altént eru öldurnar algjörlega á "rangri leið", og eiga ekkert með
það að burðast með allan þennan sand inn í Landeyjahöfn.
Anskotinn í gallsúrri mysu.
Ekki lítur þetta gæfulega út fyrir Eyjamenn sem aðra
farþega Herjólfs.
Nái náttúran ekki að vinda áttavillu þessari ofan
af "reiðuleysis-rápandi" öldum sínum á hafi úti, og koma þeim í farveg jafnvægis
og "venjulegra ölduátta", er næsta víst að hugmynd
húsfreyju um "hrísgrjónaakur" í Landeyjahöfn verði bara öldungis
ekki algalin!
Öldungis ekki.
En nóg að sinni.
Kvöldmatur næst.
Góðar stundir og vonandi koma allar ykkar öldur að landi
úr "venjulegum" ölduáttum.
Töfin í Landeyjahöfn tímabundið ástand | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2010 | 21:06
Allir ættu að vera jafnir.
...konur sem karlar.
Erum öll menn, og það ber að
virða okkur og meta, líkt og
okkur ber að virða og meta lög og reglur
samfélgsins.
Verk okkar endurspegla síðan hvar við erum
stödd í sálarþroska, hvort sem þau eru góð verk
eður ill.
Okkar er valið til verka, og flest okkar kjósa að vinna
af kærleika og virðingu fyrir náunganum.
Við erum konur og menn....menn og konur...börn
órjúfanlega tengd í kærleika, vináttu, gleði, umhyggju, fjölskylduböndum,
reiði, hatri og sorg.
Við erum hluti af lífsafli móðurjarðar, kraftur, sköpun og
ljós.
Okkar er valið.
Veljum kærleikann og virðinguna.
Höfnun valdbeitingu, hroka, ofbeldi og lítilsvirðingu.
Verum það besta sem við getum orðið.
Við-þú-ég..... það besta.
Því þegar upp er staðið munt "þú" og aðeins "þú"
dæma þig og þín verk hér á jörðu.
Harðari dómari er ekki til.
Þó þú eigir fínni flík
og fleiri í vösum lykla.
Verður okkar leiðin lík
á lokadaginn mikla.
Húsfreyja veit því miður ekki höfund að vísukorni þessu,
en hún er góð eigi að síður.
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt 19.10.2010 kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2010 | 19:43
Þannig hagar til að...
....að þó húsfreyja hafi hagað
sér bísna vel í kaupæði góðæris
og fjármálaundurs hér uppi á litla Fróni,
þá vissi hún lítið hvað banki hennar,
sem þá hét sko allt annað en Aríon , væri
að brasa með peninga hennar sem annarra
hagsýnna kúnna.
Að Hagar væru í "eigu" banka hennar, kom
húsfreyju því verulega spánskt fyrir sjónir,
því húsfreyja vissi ekki betur en að banki hennar
hefði "hrunið" og ætti því ekki neitt... nema auðvitað
"skuldirnar" húsfreyju og hennar líka.... sem bankamönnum tókst
með harðræði og af stakri snilld að bjarga naumlega frá útrýmingu og aldauða
innan bankakerfisins... sjúkkit.
Og skiptir engu þó önnur stærsta skuld húsfreyju við
banka hennar sé kolólöglegt bílalán.
NEIPP lánið blívur.....verið
að spá í smotterís vexti upp á 20% á það núna....
ummm.... líklegast...öööö.....sennilegast mun húsfreyja þá
klára að borga upp bílalán sitt á vordögum á því
herrans ári 2045, þá húsfreyja heldur bifreið sinni
fertugs afmælisgildi.
Verður bara asskoti huggulegt að vera "fornbílaeigandi".......
bara tvennt sem getur truflað myljandi hamingju þessa
yfir að eiga loks "fasteign á hjólum":
1. Ótímabært andlát húsfreyju sjálfrar...hva, 85 enginn aldur,
áður en síðustu afborgun er náð!
2. Tímabært "andlát" sjálfrar bifreiðarinnar vegna magnaðs
ryðs og fornaldar-myglu fjórum vikum fyrir síðustu afborgun!
Það var og.
En altént, Hagar eru sumsé í eigu Aríons-banka.
Húsfreyja sér engan hag í því fyrir sig og sína fjölskyldu,
fremur en aðrir skuldarar landsins.
Langar samt að varpa fram spurningum til bankasnilla Aríons:
"Hvar fékk bankinn upphaflega peninga til að kaupa Haga"?
Eða keyptu þeir frómu bankamenn kannski aldrei Haga?
Hagaði þannig til að hinn nýi Aríon-banki hagnaðist á
"skuldabréfa-BINGO" eftir hrun og fékk Haga í verðlaun,
eða var bankinn máski "arfleiddur" að Högum..... "arðgreiddur"....
"arðrændur"....."hlutabréfafjárfestur".....????...o jæja, býttar engu.
Húsfreyja botnar hvort eð er ekki neitt í neinu.
En í guðanna bænum, Aríonsnillar, seljið nú Haga með hagnaði svo hægt
verði að sýna fram á sterka fjármagnsstöðu, og síðan verði hægt að haga því þannig
að fátækir bankastjórnendur með smáaura í mánaðarlaun.....
aðeins með tæplega tvöföld árslaun húsfreyju á mánuði,
fái greiddan "arð", eymingjarnir!
Veslingarnir.
Voðaleg harmkvæli hljóta það að vera, að stjórna banka.
Örugglega miklu skárra að fara í hjartaupppskurð með 4. æða sjúkdóm,
pissa 5 cm. stóru nýrnagrjóti og spila amerískan fótbolta hlífðarlaus.
Jamm.
Hvað ætli annars einn "kjölfestuhlutur" kosti í Haga?
Máske hægt að fá "akkerishlut" fyrir slikk?
Húsfreyja ætti kannski að spá í "lúkkarshlut" gangi Aríon vel að selja kjölfestuna?
Hehehe..stóðst ekki mátið, húsfreyja.
Jamm, Hagi mun sigla sinn sjó með eða án kjölfestu....nú eða
lenda á beit úti í snarrugluðum fjármálahaga, öðrum kosti.
Góðar stundir og hagið ykkur vel á vetrarkvöldum...það
er ykkur í hag.
Hagar til sölu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 19.10.2010 kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.10.2010 | 14:43
Sameinaðir stöndum vér.
Háttvirtur borgarstjóri, ofurgrínari
og uppteknasti maður landsins,
og nýtattóveraður í ofanálag,
er með málin á tæru.
Sameining verið málið út um allt á landsbyggðinni
síðustu árin, sem er vel.
Og í kreppuharðræði og furðulegum
björgunaraðgerðum bankanna, þar sem gjaldþrota fólk með
heimili sín á uppboði er rúið inn að merg, hafa landsbyggðarlögin
þjappað sér saman, og staðið vörð um íbúa sína og heimabyggð.
Hér í höfuðborginni við sundin bláu og nágranna-byggðakjörnum
hefur allt verið í handaskoli, og hver höndin upp á móti annarri.
Það eina sem húsfreyja man eftir að hafa heyrt fréttnæmt
úr Kópavoginum nýverið, er að "Trölli sem stal skóginum"
og bæjarstjórn hans, verði að greiða tuttugu milljónir í skaðabætur
fyrir 500 tré úr "Þjóðhátíðarreitnum"!
Úr Hafnafirði?
Já, hvað með Hafnafjörð?
Veit það einhver?
Húsfreyja er sammála Gnarr og og telur sameiningu ágæta
sparnaðarleið.
En svona í leiðinni vill hún stinga því að ráðamönnum,
að skoða bankamál þjóðarinnar vel.
Þar virðist eitthvað búið að vera í gangi árum saman,
sem er farið að minna óþægilega á Ebenezar Scrooge,
mafíur og fégræðgisdrullumall.
En góðar stundir á sunnudegi.
Sameining spari milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2010 | 19:38
Mótmæli eða..
...UNDANHALD SAMKVÆMT ÁÆTLUN.
Ég var móðgaður, hæddur, svívirtur, kvalinn og kúgaður
af kumpánum nokkrum, sem allt virtust geta og mega.
Og þótt ég sé maður á sigur sannleikans trúaður,
sýndist mér stundum þó von minni í flestu geiga.
Að endingu sagði ég yfirdrottnunarvaldinu
í alvöru stríð á hendur, án nokkurrar vægðar.
Og styrkur minn liggur allur í undanhaldinu,
þótt einhverjum sýnist það málstaðnum lítið til þægðar.
Og stríð mitt er nútímastríð, en ekki af því taginu,
að standa til lengdar í tvísýnum vopnabrýnum.
Þið vitið að jörðin er líkt og knöttur í laginu.
Og loksins kemst maður aftan að fjandmanni sínum.
Steinn Steinarr.
Húsfreyja sendir mótmælendum baráttukveðjur niður á Austurvöll,
og vonar að þeim gangi sem allra best að berja tunnurnar í tætlur.
Góðar stundir.
Bumbur barðar á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2010 | 13:07
Berja höfðinu við stein.
Svo lengi sem menn muna,
hafa sjúkdómar herjað á mannkyn,
sem á önnur dýr jarðar.
Húsfreyja telur sig heppna að
lifa tíma þar sem ríkið rekur sjúkrahús
með læknisþjónustu og hjúkrunarþjónustu
til hjálpar sínum sjúku einstaklingum uppi á litla Fróni.
Það er þó eitt, sá böggull hefur fylgt skammrifi,
frá því að húsfreyja hóf störf sín sem
hjúkrunarfræðingur, að geisað hefur "kreppa" í heilbrigðiskerfinu.
SPARNAÐUR!
NIÐURSKURÐUR!
LAUNALÆKKANIR!
UPPSAGNIR!
"Öll 27 árin" sem húsfreyja hefur verið að störfum
hefur þetta verið söngurinn.
Á Borgarspítalnum á A-4, með 5 sjúklinga umfram á gangi hverja
bráðavakt.....spara "undirbreiðslur og hanska" á meðan sjúklingarnir
ældu blóði og húsfreyja stóð sveitt við að setja ofan í þá
magslöngur.
Á gjörgæslunni á Landakoti í heil 5 ár, með
fólk á öllum aldri í öndunarvélum, með inniliggjandi
Swan Ganz-leggi inn í hjarta sér og í nýrnavélum fengnar að
láni frá Landspítalanum, snarvitlaust að gera 99 af hverjum hundrað vöktum.
Og á "hundruðustu vaktinni" þegar örlítð svigrúm skapaðist til að anda
á milli blóðþrýstingsmælinga, rannsóknareddinga, sáraskiptinga,
vökvagjafa, blóðgjafa, verkjalyfjagjafa, sýklalyfjagjafa og þvagmælinga
máttu hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar pakka
grisjum og túffum fyrir sótthreinsun og brjóta saman "selló".
Og rifa í sundur Bennet-öndunarvélar, þrífa og sótthreinsa
og setja saman aftur.
Kaffipásur og matartímar voru "orðrómur" sem starfsfólk
gjörgæslu heyrði að ætti sér stað á öðrum deildum.
Á Húsavík var húsfreyja með 20-22 rúma sjúkradeild, 4 rúma fæðingardeild
og 33 rúma öldrunardeild á sínum snærum frá kl. 17-08
margoft, því hún vann iðulega kvöld-og næturvakt saman.
Jú, jú, sei sei, norðanmenn hraustir að upplagi
og stundum ekki nema 18 inniliggjandi á sjúkradeildinni
og aðeins ein kona á fæðingardeild með nýfætt kríli,
alltaf fullt á öldrunardeildinni.
En svo voru einnig vaktir þar sem sjúkradeildin var yfirfull,
einn yfir á skoðun, 3 konur fæddar á fæðingardeildinni og ein
í ofurrólegu "malli" eins og ljósurnar orðuðu það.
Og þá brást ekki að hjón kæmu með lítið 3 vikna kríli
blátt og í andnauð með RS-vírussýkingu, apotekarinn
kom í astmakasti og sjómaðurinn frá Akranesi í "stoppi",
mætti ælandi blóði stuttu eftir að öldungur uppi
á þriðju hæð hafði kvatt jarðarlíf sitt og siglt í Sumarlandið.
Og svo mátti húysfreyja rífa sig á lappir eftir 4 tíma svefn
eftir eina klikkaða kvöld-næturvakt
til að mæta á "sparnaðarfund", því heilbrigðisráðherra
var búin að boða 20 milljóna niðurskurð á Húsavík.
Ekki skánaði ástandið í Keflavík, þá húsfreyja mætti þar
til starfa.
"Þið eruð svo stutt frá Reykjavík, Suðurnesjabúar "eiga"
ekki að þurfa svona "fullkomna" heilbrigðisstofnun.
Drífið ykkur bara hingað til okkar í höfuðborginn, ef eitthvað amar að.
Þið eruð alltaf velkomin"!
Fyrir hönd allra góðra Suðurnesjabúa sem hún var svo heppin
að fá að hjúkra og veita þjónustu í 12 ár vill hún svara þessu
makalausa orðagjálfri svona: "Aaaaaaaarrrrgh"!
Spyrjið þá hve mörg ófædd börn þeir telja hafa dáið,
eða hve margir hjartasjúklingar hafa dáið,
eða hve margir heilablæðingasjúklingar hafa dáið....
...á "Reykjanesbrautinni".
Húsfreyja treystir sér ekki til þess.
Og þar var allt skorið við nögl, eins og venjulega.
Bleyjusparnaður, undirbreiðslusparnaður, hanskasparnaður.
Sumarlokanir á skurðstofu og hálfri sjúkradeildinni
árum saman.....deyjandi krabbameinssjúklingum og
öldungum hjúkrað dag sem nótt þrátt fyrir það,
flestir hinna er veikir voru á Suðurnesjum sumarlangt "urðu" að fara til
Reykjavíkur, nema hægt væri að sjá fyrir skjótan bata
á sólarhring eða skemur.
Og auðvitað varð húsfreyja að sinna slysastofu á kvöld- og næturvöktum,
ásamt sinni 22 manna deild á sjúkrahúsi Keflavíkur.
Það var og.
Og enn og aftur er húsfreyju boðaður niðurskurður og
kreppuaðgerðir á sínum vinnustað.
Skerðingu á launum sínum.
Sparnaður í bleyjum, hefur ekki séð undirbreiðslu
í mörg ár, hönskum, mjólk og djúsi, lyfjum (ódýrari lyf valin, þeim dýrari hætt),
rannsóknum og hverju ekki.
Allra leiða leitað til að minnka kostnað.
En naktar staðreyndir standa eftir sem áður óhaggaðar.
Fólk veikist á hvaða aldri sem er.
Fólkl verður gamalt og hjálpar þurfi.
Þá spyr húsfreyja: Vill heilbrigðisráðherra hlynna að þessu fólki
sem áður, veita því þjónustu lækninga, hjúkrunar og ummönnunar?
Og ef svarið er já, hvernig ætlar hann að skera niður
heilbrigðisþjónustu sem búið er að "naga inn að merg"
með sparnaði árum saman, án þess að það bitni á gæði þjónustu?
Húsfreyja telur að heilbrigðisráðherra sé úrræðalaus nema til þess eins
að boða niðurskurð enn og aftur,
og stendur svo eins og þvara í mótbyr og "ber höfðinu við stein".
Góðar stundir.
Flögguðu í hálfa stöng | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 4.10.2010 kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.9.2010 | 21:49
Flóttinn.
Það var nótt.
Og ég gekk eftir götunni.
Og gatan var hljóðlaus og mannlaus,
því það var nótt.
Ég gekk föstum og ákveðnum skrefum
og sagði við sjálfan mig:
Sjá, ég er farinn brott.
Ég kem aldrei aftur.
Og engum skal takast
að finna felustað minn.
Þá heyrði ég snögglega
fótatak einhvers á eftir mér.
Og ég sneri mér við,
því ég vildi sjá hvort ég þekkti hann.
En það var ekki neinn.
Það var aðeins skóhljóð, sem elti mig.
Og ég hrópaði, skjálfandi röddu:
Hvað hef ég þá gert?
Mér var svarað með lævísum hlátri,
lengst úti í myrkrinu:
Ég er lífið sjálft. Og þú kemst ekki undan.
Ég elti þig.
Steinn Steinarr.
Sterkur Steinn.
Þung og flott undiralda í þessu.
Húsfreyja er einmitt í "flóttastuði" þessa dagana.
"Flótti" er einn af varnarháttum mannsins,
og flest höfum einhvern tímann beitt honum í erfiðri
stöðu.
Húsfreyja var lengi fram eftir aldri að berjast við
feimni, og flóttinn var þá hennar aðal varnarháttur.
Feimnin setti henni þröngar skorður, þegar hún var órétti
beitt, eða þá að henni var sótt.
Svo húsfreyja flýði fremur en að standa á rétti sínum eða
tala máli sínu.
Um þrítugt tókst húsfreyja að segja skilið við feimnina.
En flóttinn var nánast orðinn henni eðlislægur, og
og í mörg ár mátti húsfreyja hafa sig alla við
að snúast ekki á hæla og flýja, þá harðnaði á dalnum,
og hressilega blés á móti.
Nú er flótti ekki lengur einn af kostum húsfreyju í andstreymi.
Hún rís upp og berst með kjafti og klóm,
boðar til funda, þjappar fólki saman og vinnur í málunum
af ákveðni jafnvel hörku.
Hefur iðulega sjálf, ekki hugmynd hvaða kona þetta er,
sem svona hagar sér, enda allar hennar taugar þandar og
"organdi" á flótta innra með henni!
Húsfreyja ansar ekki.
Virðir ekki taugar sínar viðlits.
Vill bara berjast.
Síðan alltaf hægt að fá vægt taugaáfall að málalokum.
Þó húsfreyja hafni flótta í dag, telur hún flótta eigi að síður
nauðsynlegan varnarhátt mannfólkinu, og þarf enginn að skammast
sín fyrir að beita honum sjálfi sínu og tilfinningum til varnar.....stundum
er flótti bara eina leiðin.
Að festast í einum varnarhætti er hins vegar erfitt,
og getur hamlað þroska og dregið úr lífsfyllingu.
Svo flótti er "út" hjá húsfreyju, búinn með flóttakvótann,
"berjast" er málið.
Og það er hörku barátta framundan í kjaramálum.
Aðeins þetta sem húsfreyja vildi segja.
En Steinn segir þetta bara svo miklu flottar en húsfreyja.
Góðar stundir og góða nótt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.9.2010 | 13:08
Enginn gosórói-tvö?
Eitthvað ekki að virka hjá húsfreyju
kompjútertengingin, en pistillinn er hér fyrir neðan.
Snarpur jarðskjálfti á Vatnajökli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2010 | 11:12
Enginn gosórói.
Helgafell er "útdautt" eldfjall,
var viðkvæðið í barnaskóla
Vestmannaeyja, þá húsfreyja var lítil skotta.
"Fjallið hefur ekki gosið í 5000 ár,
og telst því útdauð eldstöð" kváðu spakir
menn og gjóuðu skörpum augum til
suðurs, þar sem Surtsey reis kolsvort
við sjóndeildarhring.
Tveimur litlum jarðskjálftum
fann svo húsfreyja fyrir að kvöldi
dags 23 janúar 1973....ekki víst að
þeir hefðu verið taldir sem "gosórói",
nema vegna þess að nokkrum mínútum seinna
stóð austurhluti Eyjanna uppljómaður sem um hábjartan dag væri,
af einum ægilegustu eldsumbrotum
Íslandsögunnar á síðustu öld.
Og húsfreyja gat ekki betur greint, og það með
sínum eigin augum, að fjandans gossttrókarnir
ættu upptök sín í austuröxl "útdauða" eldfjallsins,
HELGAFELLI.
Og þarna duddaði hið útdauða eldfjall sér við að
spúa eldi og eymyrju upp í himinhvolfið,
á meðan það "drullaði" sirka 3000 stiga hrauni
yfir blómlega byggð, mánuðum saman.
Eyjamenn misstu heimili sín, hálfa búslóðina
margir, vinnustaði sína og samfélag sitt
á einu bretti.
Sorg þeirra yfir missinum var nánast áþreifanleg.
Húsfreyja gerir aldrei lítið úr jarðhræringum
nálægt eldstöðvum á litla Fróni,
"útdauðum" sem virkum, býttar engu.
Stórir skjálftar eða litlir, býttar engu.
Húsfreyja ber óbifanlega lotningu og virðingu
fyrir ógnakröftum "móður Jarðar", og veit að móðurinni
er ekkert ómögulegt.
Ekki einu sinni það að láta "útdauðar"
eldstöðvar gjósa.
Hvort "móðurinni" hentar svo að gefa oss örmum
og aumum jarðarbúum einhverjar aðvörun með
"gosóróa", þá hún hyggst brjálast af vonsku og ákveða
að spúa hressilega úr iðrum sínum til að létta sér lund
og til að hrista upp í "óværunni" sem sínkt
og heilagt plagar hana, er algjörlega í hennar valdi!
Svo ef eitthvað er farið að hristast uppi á Vatnajökli,
þá færi húsfreyja varlega í það að afneita "gosóróa".
Hefði svona frekar varann á.
Það er svona tilfinning húsfreyju, að "móðirin"
hafi ekki sagt sitt síðasta í eldstöðvum
Suðurlands, þetta árið.
En húsfreyja játar það fúslega að hún
er enginn spekingur, þaðan af síður vísindamaður
með gráður í jarðeðlisfræði, og ekki vill hún á nokkurn máta
telja sig jafn vísa sem hinir vitru
menn Eyjanna, sem sögðu Helgafell útdautt.
Nei, húsfreyja er hógvær kona og vill þekkja sín mörk og sína
annmarka.
En þið mynduð ekki finna húsfreyju uppi á Vatnajökli eða
í 50 kílómetra radíusi út frá honum um þessar mundir,
nema í dái eða steindauða!
Sei, sei, nei.
Það er svona "kjarnorkusprengju-upplifun" að
fá eldgos í andlitið úti í bakgarði á heimili sínu
að næturlagi um hávetur.
Og eitt slíkt er mikið meira en nóg ævilangt.
Markar sálina um alla ókomna tíð.
Enn þann dag í dag, dreymi húsfreyju eldgos
er það fyrir andláti í fjölskyldu hennar.
En húsfreyja er í letikasti á regnvotum sunnudegi í
borginni við sundin bláu....kötturinn búinn að æla,
svona eins og til að mótmæla "gosóróleikaleysi",
og níu ára djásnið er að jafna sig eftir samræmdu prófin.
Bóndi fastur í viðjum fótbolta í kompjúternum.
Dýrðar dagur framundan.
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.9.2010 | 22:38
Korter yfir sjö....?
Húsfreyja var rasandi.
"Þið eruð að grínast, er það ekki"?
Nei, ekki aldeilis.
Móðir húsfreyju og vinkonur hennar tvær héldu
fast við sinn keip.
"Rútan fer daglega frá Þorlákshöfn kl:07:15
til Reykjavíkur"!
"Ég gæti grátið", sagði hávaxnari vinkonan,
"ég er bíllaus, og ég sé mig ekki berjast í myrkri, snjókomu
og hálku niður í sjoppu, fyrir klukkan sjö á morgnana,
til þess eins að sitja svo í ruma tvo klukkutíma á BSÍ
með ógæfumönnum borgarinnar, bíðandi þess að
verslanir opni".
"Nú, maður hættir bara að skreppa til Reykjavíkur"
sagði lágvaxnari vinkonan, sem einnig er bíllaus.
"Ekki svo gott, ef maður á tíma hjá lækni í höfuðborginni"
svaraði sú hávaxna, "eins og ég þarf 5-6 sinnum á ári".
Húsfreyja blandaði sér aftur í umræðuna: "Og hvenær í
ósköpunum fer þá rútan aftur austur", spurði hún þær stöllur.
Annað hvort kl. fjögur eða fimm um eftirmiðdaginn, kom svarið.
Jaso!
Þær stöllurnar þrjár drúptu höfði bugaðar af þrá eftir
Herjólfsrútunni, og einstaklega heppilegri áætlun hennar.
"En kannski getur maður reynt að taka með sér prjóna
á BSÍ" sagði sú hávaxna dauflega.
"Nú það er ekki algalið, svaraði húsfreyja að bragði,
hægt að fara fram á að komið verði upp "prjónahorni" fyrir
búðabíðandi dömur á óræðum bíllausum aldri".
Mútta og vinkonur brostu dauflega.
"Við verðum sjálfsagt fyrir ógæfumönnunum"!
Húsfreyja varð hugsi 2 sekúndur.
"Nú það má alltaf fara fram á að BSÍ verði skipt niður í horn,
"MATARHORN, PRJÓNAHORN, SPILAHORN og RÓNAHORN"!
"Og þetta rímar meira að segja
Nú hlógu stöllurnar þrjár.
"Bara hægt að skella ferðamannabransanum og miðasölunni
í tjaldbúðir fyrir utan " hélt húsfreyja áfram.
Svo seljið þið bara afraksturinn af prjónamennskunni,
lopapeysur og sokka, í stórum stíl á sérlegum
"prjónamarkaði" rétt fyrir jólin og græðið grimmt"!
Aftur hlegið dátt, en eigi að síður varð loka niðurstaðan
sú að mun skárra hefði verið að fara kl: 8 eða 10 á morgnana
með rútunni.
Merkilegar samgöngur þetta við eina af stærstu verstöðum
Suðurlands....
Jamm, en húsfreyju datt í hug ef einhver af
útrásarliðinu ætti sem sosum eina þyrlu læsta inni
í leynilegri geymslu við eitthverja rauðsletta smáhöllina,
þá gætu máske yfirvöld snuðrað hana uppi,
gert hana upptæka, og síðan sent relluna tvisvar í viku til Þorlákshafnar
og flogið með vinkonur múttu, eldri borgara þorpsins, bíllausa á besta aldri
og bíllausa unglinga í skottúra í höfuðborgina við sundin bláu.
Gætu jafnvel flogið einn aukatúr í jólagjafavesen í desember.
Húsfreyja var á ferðinni í Þorlákshöfn með níu ára djásninu
í regninu og rokinu í dag.
Einkennileg bleikrauð birta í kringum Bláfjöllin þar sem
sólin reyndi að skína í gegn.
Samt ekki eins einkennileg og einn morguninn í vikunni,
þegar húsfreyja leit út um eldhúsgluggann, og
breið regnbogasúla sem náði frá hafi og upp
í grábláa skýjahuluna, blasti við sjónum hennar.
Hægra megin við súluna, nokkru fjær var örlítið daufari regnbogakúla,
svona eins og punktur yfir "i-ið"!
Við lá að húsfreyja yrði of sein til vinnu svo fallegt
var út að líta.
Kom samt djásni af stað í skólann og sjálfri sér í vinnu.
Töff ástand í vinnunni um þessar mundir hjá húsfreyju,
og margt í gangi sem dregur úr starfsánægju starfsfólks.
Ekki síst hjúkrunarfræðinga.
Vinnum ábyrgðarstörf, sem okkur finnast lítils metin.
Barátta framundan.
En nóg að sinni.
Góða nótt og góðar stundir.
Bloggar | Breytt 26.9.2010 kl. 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)