Færsluflokkur: Bloggar
25.1.2011 | 21:08
Ólögleg og skíthrædd...
Tók þátt í kolólöglegum kosningum,
og atkvæði hennar úrkast, markleysa og ógilt þar með.
Ó, vei.
Húsfreyju auma.
Hún rífur í hár sér af angist og örvæntingu.
"Gömlu lögin" skulu blíva, góð, gild, ómöguleg, úrelt og svínsleg....og hvað ekki.
Býttar engu, þó yfir 30% kosningabærra manna hafi haft
skoðun á málinu, og mætt til að kjósa til stjórnlagaþings.
Striki slegið yfir.
Kosningin núlluð út vegna pappaveggja, og "óvandaðra vinnubragða",
eins og að ekki mátti "brjóta kosningaseðilinn saman".
KRÆST!
Og verður þá kosið næst á Litla Hrauni í múruðum, hljóðeinangruðum
klefum, með seðla sem hægt er að brjóta saman í "skutlur" sem
"svífa" síðan beint ofan í kjörkassana?
Æææ, svo sitja tveir herramenn í sjónvarpssal,
ákærendur kosninganna, og segjast "himinlifandi"!
Annar ákærenda meira að segja í framboði til stjórnlagaþings.
Sóun á tíma og peningum þjóðarinnar í "ógildar og kolólegar" kosningar
aukaatriði, bara ef þeir eru "himinlifandi".
Þarf jafnvel að kjósa upp á nýtt.
Vesen! Vesen! Vesen!
Nennum við þessu, þegar í nógu öðru er að snúast?
Herramönnunum tveimur, kærendum, vill húsfreyja tileinka þessi fleygu orð:
"Karlmaðurinn er húsdýr sem hægt er að
þjálfa til að gera flest með festu og góðvild".
Jilly Cooper 1937-
En að öðru.
Hjá húsfreyju er 60% flati niðurskurðurinn í heilbrigðisþjónustunni
kominn inn á borð á hennar vinnustað.
GLEÐI!
Húsfreyja hugsar alvarlega um að láta af hjúkrun,
og gerast "iðjuleysingi af Guðs náð".
Dunda sér og dudda við að hekla og prjóna,
senda pólitíkusum eitraðar pillur í pistilformi,
og gerast svo sérleg "spádómsvölva" um framtíðina,
með "heimsendaspádóma" sem aukabúgrein.
Enda er húsfreyja hörkukona, sem lætur ekki deigan síga,
og treystir sér vel að koma með mergjaða "heimsendaspádóma"
á 5-15 ára fresti...það er, ef við lifum öll fram yfir 2012,
því þá dynja yfir ENDALOKIN einu og sönnu,
Aztekanna í henni S-Ameríku.
SKO, bara strax komin í stuð, húsfreyja.
"Amma mín var hörkukona.
Hún jarðaði þrjá eiginmenn,
og tveir þeirra höfðu bara lagt sig"...
Rita Rudner 1955-
..gætu gott eins orðið einkunnarorð húsfreyju sem
spakrar "heimsendaspákonu".
Myndi húsfreyja að sjálfsögðu láta fylgja stuttermaboli
með öllum þeim, sem kæmu til hennar í leit að upplýsingum
um væntanlegan heimsendi/ væntanlega heimsenda:
Doomsday is near...I know when!
(New doomsday-updates every month..teleph.556....)
stæði stórum stöfum á þeim öllum.
Og fyrst húsfreyja væri komin út í stuttermabolabransann
á annað borð, væri ekki úr lagi að hafa nokkra boli fyrir
þá kúnna sem væru að veltast og væflast í efa með sína eigin framtíð:
"Lífið er sjúkdómur sem smitast kynferðislega
og dánartíðnin er 100%".
Ronald David Laing 1927-1989
Húsfreyja sér sína sæng útbreidda í nýjum vinnubransa þessum.
Allt uppi á borði, engin leyndarmál eða baktjaldamakk.
Svona gæti spádómur frá húsfreyju til dæmis hljóðað:
"Þú lifir eins lengi og þér er mögulega unnt hér á
þessari jörð og munt SANNANLEGA deyja hér,
og heimsendi mun ÖRUGGLEGA verða
einhverja næstu daga, vikur, mánuði, ár eða aldir.... nú
eða POTTÞÉTT eftir einhverja milljón milljarða ára"....
Jamm, hörkukona, húsfreyja, er ekkert fyrir að draga fólk
niður með svartsýnisrausi, blekkingum og röfli.
Tekur Thomas Berger sér til fyrirmyndar, sem segir hlutina
eins og þeir eru:
"Reinhart var aldrei uppáhaldsbarn móður sinnar-
og hann var einbirni".
T.B.
Jamm, en þetta er nú svona meira í gríni pistlað í kvöld,
enda húsfreyju eitthvað uppsigað við daginn í dag,
og þurfti að fá útrás.
En hún SPÁIR pottþétt BETRI degi á morgun.....ef það
verður þá ekki HEIMSENDIR..hehehehehehe!
Íhaldið er skíthrætt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2011 | 12:33
Má senda bensín...
..með Íslandspósti?
Nú er bensínverðið allt í einu orðið skaplegast
á Akureyri hinni undurfögru höfuðborg
Norðurlands.
Svo húsfreyju datt í hug að bjalla í
frændur sína á Húsavík, og biðja þá að versla
eins og eina tunnu af bensíni fyrir sig, næst þeir skryppu
eftir snjóskóflum og Mogga inn á Akureyri.
Og hvort hinn ágæti Íslandspóstur myndi ekki af
sannri þjónustugleði, koma tunnunni til Húsfreyju,
splæstu frændur í eitt eðal frímerki og skelltu því á
gripinn og kæmu henni á pósthús Akureyrar?
Húsfreyja myndi svo jafna þetta við frændur sína,
og myndi með glöðu geði borga þeim skuld sína við þá,
og það þó þeir sendu tunnuræfilinn í A-pósti og tryggða!
Neipp, bara svona hugmynd á vorlegum degi í höfuðborginni,
þegar húsfreyja er á leið austur í Þorlákshöfn, að vísitera
systur og börn....keyrandi á okurdýru bensíni:
TVÖHUNDRUÐ OG TÍU KALL líterinn!
Húsfreyja taldi víst, þá hún síðast fyllti bifreið sína
af bensíni, að hún hefði utangátta og út á þekju
villst á eldsneyti, og fyllt á með eldsneyti fyrir "geimferjur" hjá ÓB.
Svona eins og þær geimferjur þurfa, sem eru í "reglulegum geimferðum"
milli tunglsins og jarða hjá NASA.
SJÍSS!
Taldi húsfreyja næsta víst að bóndi hennar biti af henni höfuðið fyrir svona
líka hroðaleg mistök, og fór að plana flóttaferð "á puttanum"
til Seyðisfjarðar. (Stutt í ferju til útlanda)
En nei.
Þetta var "bensínverð" fyrir venjulegar frónverskar
bifreiðar, þegar húsfreyja gætti betur að.
En 10 ára djásni liggur á að komast austur,
þó bensíndropinn sé dýr, svo húsfreyja kveður að sinni.
Bensínlítrinn á 91,20 á Akureyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.1.2011 | 18:40
Jeminn!
Og húsfreyja sem hélt að hún hefði
orðið gjörsamlega KVITT við Guð og menn...
og ALLA lánadrottna sína að eilífu, þarna í fyrra!
Sá ekki gluggapóst svo dögum skipti,
og hélt að lánadrottnar hennar hefðu séð það í hendi sér,
að með vöxtum og vaxtavöxtum og verðtryggðum vöxtum
væri húsfreyja búin að greiða skuldir sínar "þrjátíufalt" til baka
síðustu tuttugu árin eða svo.
Hefðu þá af stakri réttsýni, góðmennsku og velvilja, lánadrottnar
hennar, "afskrifað" eftirhreytur allar af skuldum húsfreyju,
og piff paff, gluggapósturinn horfinn út í veður og vind.
Húsfreyja vaknaði með "gluggapóstlaust bros" á vör og "skuldalausa
gleði" í hjarta dag eftir dag, og breiddi faðminn fagnandi á móti
vorlægðum, flensufári og gigt!
Búin að vanrækja slíkar léttvægar áskoranir síðan á
vetrardögum 2008, og varla að hún tæki eftir gigtarstingjum
í mjöðmum, rennandi hori í stríðum straumum úr nefi eða 44 metrum á
sekúndu lengur.
En þarna ætlaði hún aldeilis að hella sér í veðravítin,
argvítans gigtina og pestarfárin af krafti!
Velta sér upp úr þeim!
Jamm.
En..... bévítans ekkisens árans ári!
Gluggapósturinn birtist aftur, verri en þrálátur
klaáðmaur eða ergilegur pólitíkus að ræða Icesafe.
Og nú er sem sagt fundin skýring á furðulegum
"gluggapóstsskorti" þessum á vordögum í fyrra.
Hann hafði "tapast" í bílskotti hjá póstburðarmanni.
Sjálfsagt hrikalegur andskotans geimur bílskottið, og ekki gott að finna
nokkra poka af gluggapósti innan um umslög, pakkningar
og frímerki og annað sem póstburðarmenn geyma í bílskottum sínum.
Fyrir utan, að það er ekkert vit í að vera að bera út slíkan
póst þegar úti geysar vorhret upp á 44 metra á sekúndu.
Bara salta hann!
Hehehehe...húsfreyja stóðst ekki mátið.
Merkilegur fjandi atarna, að bera ekki út póst,
verandi "póstburðarmaður".
Í gær læddust tvö gluggaumslög inn um lúgu húsfreyju.
Og í dag biðu hennar þrjú!
Þeirra boðskapur?
Jú, húsfreyja skuldar.
Tvöfalt meiri pening, en hún tók að láni í upphafi fyrir íbúð sinni.
Skilur húsfreyja svona útreikninga, eftir að hafa borgað
reglulega og án þess að missa niður eina greiðslu af íbúð sinni
í 14 ár?
NEIPP ekki baun!
Svo var það orkureikningurinn!¨
Samkvæmt honum er húsfreyja farin að reka "míní-álver"
úti í garði hjá sér.
Djö.... ólán.
Og ekki með "græna úttekt" eða leyfi eða neitt fyrir slíku!
SJÍSS!
Jamm og reikningur fyrir vatn og fráveitu!
Þar er þessi "makalausa setning" sem húsfreyja þarf
að fá íslenskufræðing til að túlka fyrir sig:
"Á ÁRINU SEM NÚ ER GENGIÐ Í GARÐ HEFUR VERIÐ ÁKVEÐIÐ
AÐ ORKUVEITA REYKJAVÍKUR INNHEIMTI GJÖLD VEGNA VATNS OG
FRÁVEITU BEINT FRÁ EIGENDUM FASTEIGNA Á ÞEIM SVÆÐUM
SEM OR REKUR VATNSVEITU OG FRÁVEITU"!
Nú, og miðað við hvaða innheimtufyrirkomulag áður?
Var áður rukkað "óbeint"....þá kannski á SKÁ
(rukkunin þá máske send til foreldra í næsta byggðarlagi?)?
Og þá ekki sjálfir eigendurnir fasteignanna rukkaðir, heldur hverjir....????
Og rukkaði ekki OR fyrir "sína eigin" þjónustu, hér í höfuðborginni,
heldur hann Kalli Bjarna á Súðavík "sérlegur vatns-og fráveiturukkari"
....eða Palli Óla á Höfn...eða kannski Kaupfélag Eyfirðinga á Akureyri??
Er húsfreyja máske búin að greiða kolröngum aðilum peninga
fyrir vatn og fráveitu árum saman??
Ekki gott að botna, nema fyrir liggi grunn-upplýsingar um
fyrra innheimtufyrirkomulag.
Húsfreyja hefur hér með ekki hugmynd um HVERJUM hún borgaði
eða HVER rukkaði hana um vatns-og fráveitugjöld síðustu ár.
Hún borgaðaði bara helv... bleðilinn steinþegjandi og hljóðalaust!
Jamm.
En kvöldmatur næst.
Góðar stundir.
Rekinn fyrir að liggja á pósti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 1.2.2011 kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.1.2011 | 18:55
Óumdeilanlega umdeilanleg aðferð....flugufólks?
Ansi skondin frétt atarna.
Húsfreyja varð að lesa hana tvisvar,
áður en hún náði áttum.
Það er óumdeilt að "flugumenn" hafa löngum
verið á ferli hér á voru jarðarkríli, þó þeirra útlit sé ekkert líkt blessuðum
flugunum, er flögra hér um voru frónversku grundir sumarlangt.
Sei sei nei.
Ekki aldeilis.
Vængjalaust lið!
Ósköp venjulegir menn og konur á að líta.
Nema auðvitað Mata Hari, sem þótti fegurst allra "flugukvenna",
á stríðsárum fyrri heimstyrjaldarinnar, hér snemma á síðustu öld,
og Frakkar ákváðu að koma fyrir kattarnef, sem frægt er orðið;
nú og svo auðvitað öðlingurinn og glæsimennið hann "Dobbúl ó Seven",
uppdiktaður "flugumaður", sem fær allra kvenna hné til að nötra....."Oh, James"!
Og nú virðumst við hafa fengið einn herlegan flugumann
í þjónustu hennar konunglegu hátignar, Betu bjútí,
hér upp á litla Frón beint inn í "Saving Iceland-samtökin",
og sá er "Kennedy" hvorki meira né minna.
Húsfreyja hafði bara ekki gert sér grein fyrir því hversu hrikalegt
"stórmál" það væri fyrir bretana, að bjarga oss mergjuðu "hryðjuverkapakkinu"
og skeri voru hér úti í miðju ballarahafi.
Senda oss "flugumann" hvorki meira né minna.
Jeminn eini!
Fara nú leikar að æsast.
"Dobbúl ó Kennedy" eða "Mark Hari" máske næsta kvikmynd
sem Balti smellir sér í að filma hér uppi á litla Fróni?
Aðeins eitt sem er eitthvað að vefjast fyrir húsfreyju:
"FORVIRK RANNSÓKN"... er HVAÐ nákvæmlega, Össur minn?
Hefur heyrt talað um "forherðingu, forgang, forföll, forfæringu,
forgengileika, forheimsku, forkaup, forvitni, forkólf, forláta,
forlið, fordæmingu og forhúð", húsfreyja,
en aldrei nokkurn tíma heyrt orðið "forvirk...eða forvirkni"??
Finnur það ekki heldur í nokkurri frónverskri orðabók.
En kannski er það að vera FORVIRKUR allt ofantalið, eða hvað?
Eða máske er þetta ekki forliðurinn "for" neitt, heldur gamla
rammíslenska orðið FOR= hlandfor eða þá bleyta, aur, leðja?
Og Össur þá að spjalla um "hlandforuga virkni" eða "haugdrulluga og blauta"?
Og þannig virkni á einhverjum "flugumannarannsóknum"!
BJAKK!
Í hverju er hinn breski Kennedy að moðast?
Frónverskum drulluflór?
Það líst húsfreyju ekkert á, og ættu bændur allir hér uppi á Fróni,
að huga vel að flór sínum, og verjast sem mest þeir mega
"forvirkum rannsóknum" breskra flugumanna!
Pússa jafnvel upp gömlu ryðguðu rjúpnabyssurnar úti í hjalli,
og freta nokkrum aðvörunarskotum upp í loftið,
heyri þeir á mál breskra við bæi sína!
Jamm.
En húsfreyja hefur engan fordæðuskap í gangi á sínu heimili
á nýju ári og ætlar að fordrífa alla svartsýni ásamt tilfallandi flugufólki á braut,
forbúin, fordegis og laus við alla fordild.
Góðar stundir.
Össur: Mjög umdeilanleg aðferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2011 | 15:23
Dýrðlegur páfi gerir andaðan páfa að dýrlingi.
Jaso.
Blessaður öðlingurinn, hann Benedikt sextándi..
nei, verður víst að skrifa XVI, húsfreyja, svona til að vera ekki
að blanda "sexinu" í málið, (því hinir heilögu
katólsku eru mjög viðkvæminr fyrir öllu slíku
um þessar mundir), er búinn að kunngjöra að
Jóhannes Páll II, fyrrum páfi verði að dýrlingi gjör.
Heittrúuð, bænheit og elskuleg nunna með Parkinsonsjúkdóm,
fékk bót allra meina sinna, og finnst ekki nokkur minnsti
vottur af illvígum sjúkdómi þessum, eftir að hún bað til
verðandi dýrlings, Jóhannesar Páls II.
Jamm.
"Trú þín hefur gjört þig heila" (Markús 5:34) man húsfreyja eftir að hafa lesið í
í einni ágætri bók, sem katólskir eru gjarnan sagðir glugga
í af og til.
Þar afþakkaði sjálfur Jesú frá Nasaret það, að eiga heiðurinn af því að
hafa læknað mikið veika konu, er snart klæði hans og
hlaut af góðan bata, því hún trúði því sjálf að svo yrði.
En nú er blessaður sálaði Jóhannes Páll II ekki í neinni aðstöðu
til að afþakka pent "dýrlingsnafnbótina" frá eftirmanni sínum.
Fluttur í "Sumarlandið" fyrir nokkrum árum síðan, sá góði páfi,
og ekki líklegt að honum verði þaðan skilað í bráð á jörðu niður.
Neipp, svo hann verður gerður að dýrlingi hvort sem honum líkar
betur eða verr.
Spretta þá sjálfsagt upp í katólskum kirkjum öllum,
háar styttur af fyrrum páfa,
klæddar fögrum klæðum og gulli prýddar.
Svo verður beðið og og beðið, og fyrrum páfi kallaður
í alls konar reddingar hér á jörðu niðri.
Þar með brjálað að gera hjá blessaða Sumarlandspáfanum.
Allt tjúllað!
Hallelúja.
Hvað munar þá háheilögu í Róm um einn dýrling í viðbót?
Hvort eð er farið að gráma yfir minningu eldri dýrlinga og
páfa, og varla að fólk muni eftir "heilögum Nikulási"
á Jólum.
En heilagur Jóhannes Páll II verður þá sjálfsagt í framhaldi
dýrlingur allra Parkinsonsjúklinga..."Parkinsondýrlingurinn",
eða hvað?
Nema að blessuð bænheita nunnan, hafi veri með fjöldan allan
af sjúkdómum; gyllinæð, ristil, asma, bronkítis, hjartaöng,
þvagsýrugigt, mígreni, lugnaþembu, magasár, brjósklos,
blöðrubólgu, tannholdsbólgu, eyrnabólgur, hálsbólgu og
kvef einnig, þá hún hlaut ljómandi góða lækningu þessa?
Þá verður Jóhannes Páll II bara dýrlingur "allra almennra
meina" er katólska hrjá.
Jamm.
Húsfreyja hefur miklu meiri áhuga á því að vita meira um
"bænheitu" nunnuna, en það hvort sá sext... XVI sé að
kokka upp nýja dýrlinga.
Sú kona gæti hjálpað mörgum sjúkum manninum,
með því einu að biðja fyrir honum.
"TRÚ ÞÍN hefur gjört þig heila".
Húsfreyja óskar katólskum til hamingju með nýjan "dýrling",
en vill einnig benda þeim á, að biðja "læknuðu nunnuna" að
biðja fyrir sjúkum og þeim sem minna mega sín.
Góðar stundir.
P.S við ættum kannski að stinga því að ríkisstjórninni að
finna nunnu þessa, og biðja hana að "biðja fyrir Íslandi".
Haarderinn með sitt "Guð blessi Ísland" klikkaði alveg
á "trúnni" þarna um árið!
Páfi gerður að dýrlingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 25.1.2011 kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2011 | 21:12
Sármóðgaður...
..og arfareiður, hann vesalings Suleman heitinn soldán
um þessar mundir.
Þarna er hans jarðneska hylki búið að liggja steindautt og grafið
í heilögum friði og islömskum andakt
í hartnær hálfa öld, á meðan andinn hefur gist
himnaríki rétttrúaðra, umvafinn perlum, djásnum,
dýrindis "hreinum kjötréttum", einhverjum helv... helling af vatni og
auðvitað hreinum meyjum.
Jamm, bara rólegheit og huggulegheit hjá Suleman blessuðum
síðustu ár og aldir, og hann bara að dudda sér við að skoða perlurnar,
spjalla við hreinu meyjarnar, DREKKA vatn og snæða eðal kjötrétti.
Átti sér einskins ills von.
En þá fara einhverjar tyrkneskar sjónvarpsblækur að rifja upp
gamlar drykkjusögur hans og það sem öllu verra er,
að rifja upp "kvennabósasögur" af honum.
Ekkert fær nú að vera í friði.
Ekki einu sinni hálfrar aldar jarðneskt "dodo"
er heilagt tyrknesku sjónvarpspakki.
Ja, svei.
Suleman sálugi hlýtur að vera bálvondur.
Aldeilis búið að ryðjast inn í friðhelgi hans ööö... löngum
liðna jarðlífs og einkalífs,
svína út minningu hans, og minna hann hressilega á
breiskleika sinn sem manns hér á jörðu.
Ó, Suleman arman.
Suleman hlýtur auðvitað að vera sár og miður sín og nýtur sín
engan vegin á spjalli lengur við hinar hreinu meyjar, sem auðvitað
hljóta að fylgjast sjálfar vel með öllu jarðnesku sjónvarpsefni um soldáninn sinn,
og þetta hlýtur að skemma fyrir soldáninum perluskoðunina
í a.m.k.hálfan himnaríkissólarhring.
Jaso.
Þar sem enn eru til "siðsamir" og "lögfróðir" menn í hinu merka
ríki Tyrkja, hafa þeir að sjálfsögðu mótmælt árás þessari á
"einkalíf" fyrrum soldáns....og það þó líferni hans hafi verið
á allra vörum þá hann dró andann hér á jörð.
Skráð í bækur sögurnar, jafnvel.
Skiptir þá frómu menn engu þó Suleman hafi í sínu jarðlífi "spjallað" við
ógrynni af hreinum meyjum í kvennabúri sínu, aldrei verið vatnslaus,
perlulaus né kjötlaus og hafi dundað sér við að dýrka
"Bakkus" strax að afloknu daglegu bænahaldi sínu í áttina til Mekka.
NEIPP.
"Hafa skal það sem HEILAGRA reynist".
Láti ekki illgjarnt sjónvarpsfólk þetta af árásum þessum á
öðlinginn, hann löngu steindauða Suleman,
verður sjónvarpsstöð þeirra "ritskoðuð" og sjálfsagt
dæmd til að senda út EKKERT nema efni frá bænastundum á síðustu "Ramadan",
næstu 5 vikurnar.
Nú ef það dugar ekki, er aldrei að vita nema Suleman sjálfur
noti sín himnesku sambönd, og fái sitt almætti til að
senda þeim meinlegu sjónvarpsmönnum,
mergjað þrumuveður með elglæringum beint í sjónvarpsmöstur þeirra.
Jamm.
Tyrkjar standa í ströngu.
Allah blessi þá.
Góðar stundir.
Drykkfelldur og kvensamur soldán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.1.2011 | 18:33
Ófært, illfært og snjóblint... á Húsavík '89.
Það hefur löngum loðað við
Norðurlandið, að þar gæti snjóað.
Einkum þá kaldir vindar Vetur konungs blása að norðan,
vestan, austan.... og jú jafnvel að sunnan einnig.
Þá húsfreyja var ung, fögur og heillandi meyja að sunnan,
(nú er hún einvörðu fögur og heillandi), og með eðal
hjúkrunarpróf upp á vasann, flaug henni það
snjallræði í hug, þá 5 ára gjörgæsluhjúkrunaræði hennar hafði
runnið sitt skeið, að skreppa norður í land og fá sér
starf á ágætu sjúkrahúsi Húsvíkinga.
Bjallaði norður og sótti um starf.
"Jú komdu á morgun", var svar Aldísar Friðriksdóttur hjúkrunarforstjóra
"Öööömmm.. kemst ekki alveg á morgun, Aldís, á eftir að
vinna 2 mánuði af uppsagnarfrest mínum".
"Jæja, þá STRAX og honum lýkur" ákvað Aldís snarlega.
Og 10 júlí 1989 var húsfreyja mætt til starfa á sjúkrahúsi
allra Húsvíkinga, og Erna Ólafsdóttir deildarstjóri tók henni fagnandi.
Húsfreyja var svo einnig heppin með afbrigðum, að eiga
föðurbróður á Húsavík, hann Óla á Borgarhól, og hann og hans
yndislega kona Guðlaug skutu yfir hana skjólshúsi meðan
hún dvaldi og starfaði á Húsavík.
Sumarið 1989 var hlýtt á Húsavík og fegurð umhverfisins heillaði
húsfreyju upp úr skónum.
Mannlíf var sömuleiðis sérstætt og skemmtilegt, og
Húsvíkingar höfðu sitt eigið "Leiðarljós" í gangi á sjúkrahúsi
sínu, þar sem húsfreyja jú starfaði, svo það var aldrei
dauður tími hjá henni.
Það vetraði "snemma" að mati sunnlensku hjúkkunnar,
veturinn 1989.
Byrjaði að snjóa í September.
Og það snjóaði.
Og snjóaði.
Og snjóaði.
Til að byrja með, tóka snjó af og til upp, bætti í, tók upp, bætti í,
svo snjór náði aldrei nema upp að hnjám húsfreyju.
Iss, lítið mál, og húsfreyja gerði góðlátlegt grín að
ægilegum snjósögum frænda sinna á Húsavík.
En svo var það einn vetrarmorgun þá húsfreyja átti að
mæta á morgunvakt, að eitthvað var ekki alveg eins og það átti sér.
Húsfreyju fannst eins og "Borgarhóll" næði ekki alveg djúpa
andanum þegar hún fór á fætur um sjöleytið.
Hún pírði syfjulega út um glugga.
Sá ekkert.
Rúðan alhvít af snjó, þó var húsfreyja uppi á annari hæð.
"Jæja, svo það hafði snjóað svolítið um nóttina.
Best að drífa sig fyrr af stað, ekki gott að mæta seint
til vinnu, þá fengu vinnufélagarnir færi á að stríða
sunnlensku hjúkkunni fyrir ræfildóm í "smá norðlenskri
snjókomu"!
Húsfreyja snöflaði í sig morgunmat með hraði.
Rauk í vetrargalla sinn og kuldaskó, og opnaði útidyrahurðina.
Hvítur snjóveggur blasti við henni.
Jaso.
Húsfreyja reyndi að ýta við fönninni, gæti bara verið þunnt lag.
NEIPP.
Gaf hvergi eftir fannfergið.
Stóð og mændi á mjöllina sem fyllti dyragættina, þegar frændi
mætti niður.
"Við skulum reyna að finna aðra leið út úr húsi, Sigga mín".
Frændi ekkert nema gæðin.
Húsfreyja klöngraðist niður stigann niður í kjallarann,
eftir rangölum og loks upp um gólfið í bílskúrnum,
á eftir frænda.
Þar tókst þeim loks að komast út úr húsinu... 3 og hálft skref.
Snjór, snjór og meiri snjór... upp á bringu...herðar...höfuð,
svo langt sem augað eygði.
Og blindhríð í ofanálag.
"KRÆST, og ég sem á að mæta til vinnu eftir 40 mínútur"
hugsaði húsfreyja svört.
Frændinn horfði sposkur á frænku sína:" Þú verður máske
eitthvað seinni í vinnuna enn venjulega, frænka í dag.
En þeir fara nú yfirleitt af stað á snjóbílum og sækja
starfsfólk á sjúkrahúsið og fleiri vinnustaði um áttaleitið,
ef fólk óskar þess".
Húsfreyja tók snögga ákvörðun. "Ég labba þetta frændi".
Frændinn glotti: Gerðu svo vel" og rétti henni skóflu,
"bara týndu henni ekki"!
Húsfreyja tók við að moka sér leið í áttina að götunni,
þar grillti þó í ljósastaurana í hvítri ofankomunni.
Mokstur, barningur, snjóug gleraugu tóku síðan
við þegar kom að fyrsta ljósastaur, vindur blés beint
í andlit húsfreyju.
Tvisvar hélt húsfreyja að nú yrði hún að grafa sig í fönn,
eða verða úti öðrum kosti.
Ákallaði Guð og alla góða verndarengla sér til bjargar.
Og hélt áfram.
Einu sinni var hún rammvillt og búin að tapa öllum áttum.
"DJÍSUSS... var búið að færa fjandans sjúkrahúsið"?
Sá andskotann ekki neitt nema alhvítan himinn, alhvíta jörð
og allt hvítt þar á milli líka!
Hékk utan í ljósastaur í vetrarstorminum góðar 10 mínútur áður en
örlítið rofaði til og hún sá að hún var stödd fyrir framan öldrunarheimilið.
"HAH, stutt eftir".
Barðist sem óð væri, með skófluna á lofti síðustu metrana að
andyri sjúkrahússins.... nær dauða en lífi af áreynslu datt hún þar inn.
Klukkan var 08:54.
Húsfreyja blautari en hundur á sundi.
Það stóð heima, þegar húsfreyja var sest niður
í þurrum vinnufatnaði með heitan kaffibolla uppi á vakt
og var þess albúin að taka við rapportinu, að restin af morgunstaffinu mætti.
Allir skraufaþurrir, hafði verið ekið af björgunarsveitarmönnum
í vinnuna af snjóbílum á "beltum"?
"Hva, ert þú mætt"??
"Þú varst ekki með okkur í bílnum"!
"Hún kom gangandi", svaraði næturvaktarhjúkkan og glotti.
"Hei, hún kom GANGANDI í vinnuna, sunnlenska hjúkkan"
orgaði sjúkraliði niður stigann, á eftir björgunarsveitarmönnum.
Tveir þeirra komu stökkvandi upp, til þess að berja
vesalings fáráðinn augum, sem hafði nánast drepið sig á því einu
að mæta í vinnuna, ...54 mínútum of seint,
í stað þess að bjalla í þá og fá FAR!
Glottu meinlega: "En þú náðir að komast í vinnuna á undan
öllum hinum, það er "auðvitað" mjög mikils virði. (Fliss)
En við ætlum að keyra fólkið aftur heim klukkan fjögur,
má kannski bjóða þér með...eða ætlarðu
að "labba" aftur"?
Tröllslegur hlátur fylgdi spurningunni.
Húsfreyja aðeins búin að jafna sig eftir hremmingarnar,
rétti úr sér, þóttist líta til veðurs út um snjóugan glugga á ganginum:
"Það fer nú eftir ýmsu, strákar. En ef að veðrið "versnar" eitthvað mikið,
þigg ég auðvitað farið".
Það var hlegið dátt, og auðvitað var húsfreyju ekið heim
að lokinni vinnu þennan dag, sem öllu öðru starfsfólki.
Sem betur fer kom brunakuldi í kjölfarið á brjáluðu snjókomu
þessari, svo allt fraus, og hægt var að GANGA ofan
á harðfenninu, í stað þess að þurfa að ösla í gegnum
allt heila klabbið.
Og þannig hélst þetta allan veturinn.
Götur allar hækkuðu um 1 og hálfan metra af völdum
snjóhríðar þessarar, og gangstéttar allar breyttust í
snjófjallagarða.
Húsfreyja hefur ALDREI hvorki fyrr né síðar séð jafn mikinn snjó,
ekki einu sinni í "mikla snjónum" í Eyjum 1968.
Frændur húsfreyju, Ólasynir staðhæfa, að svona veður sé ALVANALEGT
á veturna á Húsavík.... "gerir þér grein fyrir því, að við búum
við "ystu mörk" hins byggilega heims, frænka".
Jamm.
Það er smá föl á sólpalli húsfreyju.
Læðan tiplar að klórstaurnum sínum yfir snjóinn,
lyftir loppunum, eins og "megabeib á 20 sentirmetra hælum",
og mjálmar í kvörtunartón til húsfreyju...."mjaavvvr..þetta er skítkalt
og blautt...ekki hægt að bjóða heiðviðrum ketti upp á svona meðferð"!
"Iss, vorkenni þér ekki rassgat, köttur, mátt þakka fyrir að vera
ekki köttur á Húsavík...og KLÓRAÐU svo"!
En húsfreyja splæsti í pizzu á föstudagskveldi.
Snæða næst.
Góðar vetrarstundir.
Nánast ófært á Akureyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 25.1.2011 kl. 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2010 | 18:08
Mót ára um áramót.
Í minningu húsfreyju eru áramótin
sveipuð ljósrauðri birtu bátaraketta,
í snjóbyl og 14 vindstigum í Vestmannaeyjum.
Húsfreyja og systur hangandi á grindverkinu fyrir framan Grænuhlíð 20,
svo þær feykist ekki með vindinum eitthvað út í buskann....með stjörnuljósin.
Flugeldar og rakettur frá nágrönnum og vinum að skríða með jörðu niðri,
við fætur þeirra eða rétt fyrir ofan höfuðin í veðurofsanum,
aðeins bátaraketturnar, rauðu og fallegu "sólirnar" komast upp.
Mútta húsfreyju hvít af hræðslu í dyragættinni: "Siggi, gættu að
stelpurnar fái ekki þetta dót í andlitið eða augun".
Afi húsfreyju tvígstigandi fyrir aftan múttuna, þögull en spenntur.
Faðir húsfreyju hlæjandi og stríðinn:
"Þar fjúka enn ein áramótin enn út í hafsauga, stelpur"!
Fretar samt upp einni rakettu með "grænni sól", sem fýkur upp á
þak hjá Berta á Kirkjubæ, og flengist þar til og frá með eiturgrænu
ljósi sínu skamma stund, og slokknar síðan.
Og húsfreyja, þá grannvaxin skotta hleypur út á miðja
götu, og leyfir vindinum að ná taki á sér og þeyta sér
á ógnarhraða út á hornið hjá Erlu og Friðriki Ásmunds á 18,
eftir Grænuhlíðinni baðaðri þessari ljósrauðu biru "sólanna".
Nær að spyrna við fótum og stöðva sig, hlær af spenningi og
gleði, setur undir sig höfuðið og berst geng "Kára" aftur
til baka.
Faðirinn kemur henni til aðstoðar, og allt í einu eru allar
dætur hans komnar í fang hans, hlæjandi og skríkjandi.
"Pabbi, okkur er kalt. Við viljum fara inn og fá heitt súkkulaði
með rjóma og líka smákökur".
Og pápinn gefur eftir, enda lítið vit í að vera puðra rakettum
upp á húsþök nágrannanna um áramót, í band-sjóðandi vitlausu
veðri.
Múttan guðs lifandi fegin að fá börnin inn úr þessari líka
lífshættu, reddar heitu súkkulaði og piparkökum á eldhúsborðið
í einum hvelli.
Afinn mætir líka a fljúgandi fart, þó bæklaður sé.
"Andskotinn er að vita þetta! Ekki hægt sprengja út árið
fyrir djöfulgangi í veðrinu"! Yggldur á svip.
Faðirinn hlær: "Við klárum þetta á morgun pabbi", segir hann
við afann, "sprengjum okkur ærlega inn í nýja árið"!
Það hummar í afanum, en brúnin léttist eigi að síður,
enda afinn alræmdur "sprengjusérfræðingur" Eyjamanna árum saman...
þó ekkert hefði hann sprengjuleyfið.
Síðan voru systurnar sendar í rúmið, en fullorðna fólkið
tók í spil: Þriggja manna vist.
Aðeins einum áramótum man húsfreyja eftir blíðviðri í
Grænuhlíðinni, köldu og stilltu veðri.
Áramótin 1971-72, frekar en 1970-71....eitthvað farið að
móa yfir ártölin í minni húsfreyju.
Húsfreyja og systur hennar hlupu fagnandi með stjörnuljós
eftir Grænuhlíðinni í ævintýraveröld rauðra "sóla" og litfagurra flugelda,
en máninn glotti hvítur og kaldur á himninum á meðan stjörnurnar
flissuðu að látunum í mannanna börnum.
Eitthvað hefur áramótaveður snarlega skánað eftir að
húsfreyja flutti upp á "stærstu eyjuna í Vestmannaeyjaklasanum".
Nánast undantekning að lenda í snjókomu á Gamlárskvöld,
og sjaldan eða aldrei fárviðri.
Kannski var þetta svona Vestmannaeyja-eitthvað, veðrið.
Jamm.
Hér í borginni við sundin bláu, er veður oft hið blíðasta
á áramótum.
Höfuðborgarbúar þar með allir gjörsamlega glórulausir
frá miðnætti 31. des fram á þrettándann að "brenna" peninga sína,
í formi "Tívolíbomba", flugelda og blysa.
Jamm, það er hasar í þessu.
Húsfreyja og bóndi taka líka þátt í "peningbrunaæðinu" ár hvert.
Kaupa Tralla-fjölskyldupakkningu.
Níu ára djásnið er alsæl.
Henni duga stjörnuljósin líkt og húsfreyju forðum daga.
Næsta víst að afi húsfreyju bölvi hressilega í Sumarlandinu
yfir skorti á "sprengjuæði" í genum sonardótturinnar
og langafabarnsins.
Náði því sjálfur eitt árið er honum áskotnaðist "púður"
á ívið vafasaman máta, og bjó til eina dúndur stóra sprengju
úr, að "kolslútta" hálfum Vestmannaeyjabæ um háveturinn.
Júmm, flaug það í hug elskulegum afa húsfreyju, að best væri
að koma sprengjunni fyrir undir ljósastaur niður við höfnina.
Langur kveikjuþráður...kveikt... og svo BÚMM!!
Skari af fugl flúði gargandi úr Heimakletti, og svo piff...piff...piff..
slokknaði smám saman á öllum ljósum langleiðina upp að Landakirkju.
Afi snöggur heim með familíuna það kvöldið, enda sírenuvæl í lofti og
lögreglubílar á hraðferð niður að höfn.
En "hurufff...andskoti var þetta fínt púður sem ég fékk
þarna í STÓRU BOMBUNA um árið, Siggi" heyrðist á
áramótum mörg ár á eftir.
Og enn eru komin áramót.
Síðasti dagur ársins 2010 runninn upp, og húsfreyja og djásn
aldeilis búnar að hamstra "stjörnuljós"...heila 6 pakka.
Það verður stuð.
Bóndi búinn að græja humarsúpuna og sushi-ið.
Árið 2010 var töff ár, en eigi að síður eftirminnilegt.
Ekki alslæmt ár, þó á ýmsu gengi.
Húsfreyja spáir því að 2011 verði betra og bjartara ár,
þó að á ýmsu gangi.... og það verður aldeilis ekki alslæmt ár.
Góðar stundir á Gamlársdag, látið ykkur líða vel, börnunum ykkar betur,
og GLEÐILEGT ÁR!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.12.2010 | 20:29
...blésu þeir í sönglúðra...
Það taldi húsfreyja næsta víst
að stjórnarflokkur sá er kenndi sig við
Framsókn, væri mikið meira en steindauður
íslensku þjóðfélagi á vorum dögum.
Taldi hún flokkinn þann sálaðan, jarðaðan
og verulega farið að slá í 'ann neðan jarðar.
Að hann væri að bera víurnar í "heilaga Jóhönnu"
okkar Frónbúanna, kom henni því verulega spánskt fyrir sjónir.
Enda "blæs" forsætisráðherra á slíkar furðufregnir,
af sama krafti og álfar blésu í sönglúðra hér á árum
áður.
"Heilög Jóhanna" hefur staðið í ströngu, að þrífa upp
skítinn eftir flokk "blárra" og Framsóknar, er voru
í einni sæng í stjórn árum saman í den.
Hennar eigin flokkur heldur ekki "tandurhreinn" eftir
"2007-Hrunadansinn" mikla....sei, sei nei.
En að leggja lag sitt við morknaða og myglaða "Framsóknarmaddömu",
telur forsætisráðherra ekki vænlegt, ekki frekar en
lúðrablásandi álfum hugnaðist samneyti við "mannskrílinn"
sem óð yfir allt hér fyrr á öldum.
Er reyndar orðið fátt um góða drætti, að mati húsfreyju, þá horft er til
pólitískra flokka á Alþingi okkar Frónbúa.
Líkt og búið sé að "tattúvera" orðið SPILLING svörtum
stöfum á enni allra, er fjórflokkunum fylgja.
Ja, svei.
Á þeim tímum þá menn og álfar mættust reglulega á krossgötum
og þrefuðu um grösuga hóla og álagabletti,
fóru menn ríðandi á hestum sínum til Alþingis, og
þrumuðu ræður sínar af hugsjón og andagift.
Fyrst á Þingvelli, en seinna til borgarinnar við sundin bláu.
Læðist samt sá illi grunur að húsfreyju, að fljótt hafi
eiginhagsmunapotið hafist í pólitík, og samvinna aðeins
viðhöfð, þá hægt var að hafa eitthvað meira upp úr
krafsinu svona bak við tjöldin.
Enda "blésu" álfar og huldufólk á samneyti við okkur
mannfólkið, lokuðu heimi sínum fyrir okkur og fundu sér
nýja vegi og aðrar krossgötur að fara um á áramótum.
GRÆÐGIN er mein okkar mannanna, og virðist því miður
andskotans, ólæknandi sjúkdómur meðal fólks í stjórnmálaflokkum.
Að vinna einhverjum gagn,
vegna þess að það veitir gleði og sjálfsvirðingu,
virðist vera hugsun víðs fjarri pólitíkusum.
Þó þeir þyggi laun frá þjóðinni fyrir störf sín,
virðast þau aldrei duga þeim.
NEIPP, verða að GRÆÐA meira og meira og enn meira,
virðist vera þeirra hugsun.
Sama sýnist húsfreyju vera í gangi hjá stjórnendum bankanna.
Sem og þeim sem milljarða afskriftirnar fá, svo þeir missi ekki villurnar sínar,
sumarbústaðina, 12 milljónkróna-jeppana og pappírsfyrirtækin sín.
Fársjúkir af græðgi?
Gróðrabraski?
Ómennsku?
Leti?
Hvað veit húsfreyja?
Hún er eins og álfur úti á hól, þegar hún reynir að
botna eitthvað í stjórnarfari og fjármálum síns eigin lands.
Hennar eigin fjármál eru á tæru.
Unir glöð við sitt á meðan laun nægja fyrir mat og skuldum.
Þarf ekki meira fé en það sem tryggir afkomu hennar, níu ára djásns
og bónda.
Þakkar hvern dag, er hún nýtur góðrar heilsu til að starfa
og getur látið gott af sér leiða.
Þetta er ekki flókið.
Þarf ekki að vera svo bísna erfitt.
Lærdómsríkt?
Já, alltaf.
Lífið er gott, ef maður man eftir að njóta þess.
Góð verk gefa af sér góða hluti.
Stjórnmálamönnum öllum um áramót vill húsfreyja þetta ráðleggja:
Blásið spillingu og græðgi burt úr stjórnmálum á nýju ári, og
berið virðingu fyrir sjálfum ykkur og störfum ykkar.
Góðar stundir og GLEÐILEGT NÝTT ÁR.
Jóhanna blæs á framsóknarsögur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.12.2010 | 13:38
Prins?... Al Gore...
... og "feitlagna, þreytulega" konan hans í Ameríku
þar með komin sína eigin mynt í
í hinu mikla veldi Bretanna.
Al Gore Kananna svífur þá líklega um á sæluskýi um þessar
mundir, og hefur aldrei átt eins góð og "myntslegin" Jól.
Frú Gore, hans ektaspúsa, er hins vegar í fýlu aldarinnar,
og pælir í því að lögsækja breska fyrir "myntfals",
"einelti" og "kvenhatur"....eða hvað?
Hehehehe.
Húsfreyja er engu nær, hvaða fólk þetta er á hinni
nýju gullnu mynd Bretanna.
Og þó!
Konan gætti gott eins verið Sigga móðursystir á yngri árum,
og maðurinn Gústi í Gíslholti nýrakaður á sunnudegi
árið 1967....hehehe.
En þar sem Sigga móða er löngu látin og bjó þar að auki
á Ísafirði, en Gústi rakinn Eyjamaður í húð og hár,
og þau bæði verið vel gift allt öðru fólki, veit hún ekki hvers vegna
Bretinn ætti að slá mynt af þeim tveim "saman" árið 2010.
En máske er Bretinn bara óflinkur í myntsláttu yfir höfuð.
Gerir hesta að "úlföldum" á myntum sínum, dúfur að "strútum",
og prinsa sína að Al Gore og prinsessur allar búlduleitar, þreyttar og feitar?!
Jamm, ekkisens óáran.
Þeir bresku ættu máske að bjalla í oss mergjaða "hryðjuverkamenn" hér uppi á
litla Fróni, og láta "myntsláttumenn" vora redda nokkrum
góðum gullmyntum af kóngaslektinu fyrir brúðkaupið.
Myndum aldeilis rúlla því upp hér uppi á Fróni.
Erum svo hrikalega flinkir að ná góðum "freðýsum" á myntir okkar,
sem og öðrum fisktegundum.
Kíkið bara á hundraðkallinn og krónuna!
Góðar stundir og passið vel upp á "klinkið"...kemur sér oft vel að
eiga nóg af því.
Búlduleit prinsessa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)