Færsluflokkur: Bloggar
5.2.2009 | 16:59
Tarna er ljóta lesningin.
Brennisteinssýruárásir!
Morð!
Nauðganir!
Því stúlkurnar vilja læra að
lesa, skrifa og reikna.
Mennta sig.
Vita eitthvað meira um umheiminn
en þröngur sjóndeildarhringur
ofsatrúarmanna býður upp á.
Þetta eru bara ótíndir glæpamenn
með kvalalosta á háu stigi, sem
misþyrma ungum skólastúlkum á
þennan hátt.
Nauðgarar og morðingjar.
Ja svei.
Svo eru vestrænir og afganskir
embættismenn að reyna að sættast við
þetta ótínda glæpapakk...sem kallast
"stríðsherrar".
"Skítapakk" væri nær lagi, að mati húsfreyju
að kalla glæpalið þetta, sem drepur, afskræmir
og nauðgar ungum stúlkum fyrir það eitt að
sækja skóla!
Ekki að eyða orðum í svona lið....setja það beina
leið í steininn.
Og hananú!
![]() |
Eruð þið á leiðinni í skólann, stúlkur? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.2.2009 | 18:36
Bréfið.
Húsfreyju og bónda barst bréf
með póstinum:
Reykjavík, 28. janúar 2009.
Elsku mamma og pabbi.
Þið eru bestu foreldrar í heimi.
En við vorum að læra um hvernig
á að skrifa sendibréf.
Þið eruð góð. Þið eruð best.
Kveðja Bára.
Svo fylgdi falleg mynd með af
húsfreyju, Bárunni og bónda
úti á grænu túni í glaðasólskini
og undir bláum himni. Og öll þrjú
eru með hjartalaga rauða blöðru
í hendi.
Það vildi húsfreyja að allir foreldrar
hér uppi á litla Fróni fengu svona
dásamlegt bréf í pósti.
Það ríkir engin kærleikskreppa á
þessu heimili, sei sei nei!
Svið í matinn næst.
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.2.2009 | 14:26
Hundar teknir fyrir í nefnd?
Á minni öldrunarstofnun,
fá hundar iðulega að mæta í
klukkustundar heimsókn til
öldunganna.
Það sem gamla fólkið er hrifið.
Og hvað það hressist í bragði.
Birtir yfir því og það spjallar og hlær.
Gælir við og klappar hundinum, og
brosir við hvort öðru.
Veit húsfreyja eigi betur en að
hjúkrunarforstjóri okkar hafi lagt
blessun sína yfir þessar heimsóknir,
án þess að senda málið nokkurn tímann
í "nefnd"....en þó skal hún ekki sverja
fyrir það.
Ættingjar koma með vel þjálfaða hunda,
blíða og hlýðna.
Og "aldrei" hefur skapast ónæði eða
óánægja með hundslegar heimsóknir þessar.
Öldungar húsfreyju eru síðasta kynslóðin
hér uppi á litla Fróni, sem almennt
naut þess að alast upp með dýr í
kringum sig.
Þeir eiga einnig að fá að njóta þess í ellinni,
er skoðun húsfreyju, enda er öldrunarstofnunin
síðasta "heimili" öldunganna.
En ef menn vilja setja einfalt lítið mál
fyrir nefnd, fá undanþágur og leyfi fyrir
ljúfum hundaheimsóknum í klukkustund,
þá verður það víst að vera svo.
Var svo í klakaköldum göngutúr í gær,
húsfreyja og 8 ára djásnið.
Röltu þær mæðgur niður í fjöru og svo upp
á listaverkahæðina í sólskini og logni.
Allt var hulið hvítum púðursykurssnjó,
klaka og ís.
Átta ára djásnið braut grýlukertin af
listaverkunum og át sem sleikipinna,
fann tréskúlptúr sem hún notaði fyrir
leikfimisæfingar og kollhnísa,
en húsfreyja myndaði ferðina með
videovélinni.
Sú átta ára fann fótspor eftir kött
í snjónum og vildi fara að rekja þau,
en húsfreyja tók dræmt í það, er sporin
tóku stefnuna í áttina að Gullinbrú.
Var þegar orðin krókloppin á vinstri hendi
þrátt fyrir vettlinga, og videokameru-handleggurinn,
sá hægri, var orðinn furðulega "fjarverandi" af kulda.
Sá húsfreyja fyrir sér að verða úti í kvöldkulinu,
eltandi kattarrófu sem fyrir löngu væri
búin að koma sér í hlýtt skjól í Höfðahverfi.
En fallegt var veðrið, Esjan gullin og hvít
í sólinni og Snæfellsjökull óræður og
dularfullur í bleikrauðum ljóma handan
flóans.
En heim komust þær mæðgur aftur,
þrátt fyrir ískalt kvöldkulið, logarauðar
í kinnum og með fegurð landsins í
hjörtum sínum.
Góðir dagar á litla Fróni.
Góðar stundir.
![]() |
Hundar fá að koma á Hrafnistu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.2.2009 | 13:04
Þegar jörð rifnar.
"Berti ekur út Grænuhlíðina,
beygir til vinstri og upp
Austurveginn.
Heldur í átt að Kirkjubæjunum,
og stöðvar vörubílinn á lítilli hæð
skammt frá Vilborgarstöðum.
Eldsprungan blasir við.
Við horfum furðulostin á ægilegt
sjónarspil náttúrunnar.
Þarna eru 6-10 gosgígar sem þeyta
ljósrauðum gosstrókum fleiri tugi metra
upp í vetrarsvartan himininn.
Kirkjubæina ber við rauðan bjarmann
af strókunum.
Allt í einu skelfur allt og hristist.
Ég gríp dauðahaldi í mömmu, þegar jörðin
byltist undir fótum okkar.
Og svo rifnar jörðin til beggja enda á
eldsprungunni, eins og um þunnt
blaðsnifsi sé að ræða.
Nýjir gosstrókar þeytast upp.
Ég tel.
Tíu...tuttugu...þrjátíu og þrír!
Allt rennur saman í endalaust eldhaf,
ég hætti að telja.
Hitinn frá gosinu og drunurnar tífaldast.
Ég er orðin ógnarsmá.
Eins og sandkorn á óendalegri strönd.
Og úthafsaldan að koma æðandi upp að ströndinni.
Ég er einskis megn.
Ég lít á mömmu.
Hún virðist vera upplifa það sama og ég,
því hún segir: "Við þessa krafta ræður enginn
mannlegur máttur".
------- ------- ------- --------
Smá brot úr frásögn húsfreyju frá
atburðum nætur 23.jan 1973. í
Vestmannaeyjum.
Var mikið sem gekk á þá, og nóttin
öll sem greypt í marmara í huga hennar
enn þann dag í dag.
Íbúar í kringum Mt. Redoubt eiga alla
samúð húsfreyju, og vonar hún að
minna verði úr eldgosi, en menn eru að spá.
Svo er bíóferð í kortinu hjá húsfreyju og
átta ára djásninu.
Skógarstríð 2.
Góðar stundir.
![]() |
Jökullinn að rifna í tvennt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 3.2.2009 kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.1.2009 | 12:23
Björgun með pósti!
Húsfreyja fékk "björgun"
með pósti í gær, frá okkar
herlegu "sálugu" ríkisstjórn.
Heilar 2.200 krónur...jamm,
"tvö þúsund og tvö hundruð krónur".
"Við björgum heimilinum" var viðkvæðið hjá
fyrrum forsetisráðherra.
Miðað við skuldir okkar hjónaleysanna um
þessar mundir, eru þessar 2.200 kr. álika góð björgun,
og kötturinn mígi á og í skó húsfreyju, til að mýkja
upp leðrið fyrir hana.
Tvö þúsund og tvöhundruð krónur í
barnabætur!
Og karl húsfreyju fékk sömu upphæð....
nær ekki einu sinni 5000 krónunum,
þó þau legðu saman.
Snilldar björgunaraðgerðir!
En að taka út verðtryggingu..sei, sei nei,
því það myndi "virkilega" BJARGA heimilunum,
og "svoleiðis aðgerðir" voru ekki viðurkenndar
af ríkisstjórninni sálugu.
Þá er það bara spurningin:
Mun ný stjórn pissa í skóinn sinn líkt og
sú fyrri, eða mun hún gera eitthvað
rótækt til að bjarga heimilunum?
Húsfreyja bíður kengspennt!
Smá gutl og gauf framundan í
húsverkum, svo skreppum við
líklega austur fyrir fjall, djásnið
og húsfreyja.
Nógu er veðrið fallegt og landið
enn fegurra!
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.1.2009 | 19:13
Norska hækjan!
Máske reddar okkur
norsk olíukróna sem
flýtur bara vel á "olíu" þeirra
norsku...eða það heldur Steingrímur.
Okkar fljótandi króna flýtur mest á
vilja og kraftir landsmanna.....væri
annars löngu steindauð og sokkin.
Útrásarvíkingar kvarta grimmt undan
okkar frónversku, fljótandi en
verðlitlu krónu....en gátu samt
vel brúkað hana þá þeir keyptu sér
banka og annan.
Tóku bara lán í sama banka og þeir
hugðust kaupa, og BINGÓ málið var dautt.
Svo þegar hringavitleysan fór á bíta þá
kaupglöðu víkinga í rassinn, þá var það
bara út af lélegum gjaldeyri, "steindauðri krónu",
en ekki af því að þeir ættu nokkra sök.
Rennir samt húsfreyju í grun að stórtækir
víkingar og bankaeigendur hafi bruggað
hinni frónversku krónu launráð og
jafnvel látið "myrða" hana á laun.
En nú vill sem sagt Steingrímur fara
til "gamla landsins" og langfeðra okkar,
og taka upp norska krónu.
Jamm, það má vel vera að slíkt geti
komið okkur til góða, en fjandinn fjarri
húsfreyju, ef hún þarf að fara að telja
upp á norsku eða "tale norsk" í banka sínum.
Aldrig i livet!
Og Leifur heppni var Frónbúi, er Frónbúi og
hann "verður það sko áfram", hvað sem norskri
krónu líður.
Norsararnir mega eiga Eirík rauða, þann
brjálaða víking, föður Leifs.
Leif eigum við!
Og hananú!
Tóku Elliðaárdalinn í dag, húsfreyja og
átta ára djásnið.
Allt þakið hvítum, þykkum jólasnjó, sem
glitraði og stirndi á, í sólskininu.
Húsfreyja tapaði sér með myndavélina og
djásnið varð að vera fyrirsæta af og til.
Elliðaá liðaðist dimm-grænblá í átt til sjávar,
og niðurinn í bílaumferðinni var einkennilega
dempaður.
Dálítið var samt kalt og djásnið, sem komist
hafði í stórtgrýlukerti, var komið með blöðru sína
í mikið þan.
Svo labbið varð aðeins klukkustund, og
síðan á spani í piss-stopp í sjoppu, og þaðan
í Holtagarða og verslaðir nýir kuldaskó á
djásnið.
Þeir gömlu eru í henglum!
Sú stutta herjaði af húsfreyju nýja Tracy Beaker-bók,
og húsfreyja verslaði "Vonarstræti" fyrir sjálfa sig.
Kósý helgi framundan með bókalestri og ferðalögum.
Góðar stundir.
![]() |
Hugnast norska krónan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2009 | 16:31
Þá skera þarf niður.....
....er alltaf best að byrja
í heilbrigðisgeiranum,
virðist vera hugsun
stjórnvalda og viðurkenndar
aðgerðir.
Og yfirvöld virðast alltaf koma
af fjöllum....jafnvel tunglinu
þegar heilbrigðismál eru annars vegar.
Biðlistar??
Nú? LANGIR?
Ja, hérna og af hverju er ekki
fyrir löngu búið að sinna þessu
veika/gamla fólki?
Mannekla?
Sparnaður í gangi árum saman?
Deildarlokanir?
Síðan hvenær?
Síðan alltaf!
Það getur ekki verið.
Enginn hefur sent mér minnismiða
um þetta nýverið.
Lesa um það í blöðunum!
Horfa á fréttir í sjónvarpinu!
Hver hefur tíma í slíkt!?
Er þetta ekki bara nöldur og tuð
í læknum og hjúkrunarfólki?
Jamm, kannski að húsfreyja sé orðinn
"professional" nöldrari og tuðari, eftir
25 ára störf á heilbrigðisstofnunum.
Vill alltaf bæta þjónustuna, þegar
orð dagsins eilíflega eru: SKERA NIÐUR,
DRAGA ÚR ÞJÓNUSTU, "án þess að það
bitni á sjúkum og öldruðum"!
Sá sem kann það, er beðinn um að
hafa samband við húsfreyju og annað starfsfólk
innan heilbrigðisstéttarinnar hið snarasta.
En svo er hér eitt lítið bréfkorn frá ókunnri
aldraðri konu sem fannst á dagvistun aldraðra:
Guð varveiti mig fyrir iðjuþjálfanum.
Hún vill svo vel, en ég má ekki vera að því
að flétta körfur.
Ég þarf að rifja upp júlídaginn
þegar við Sveinn vorum úti að týna ber.
Ég var átján ára.
Ég var með sítt hár og mikið hár.
Og ég fléttaði það og batt fléttuna
um höfuðið svo hárið myndi ekki festast
í trjágreinunum.
En þegar við settumst í forsæluna til að hvíla okkur
leysti ég fléttuna svo hárið hrundi niður.
Og Sveinn bað mín.
Það var kannski ekki sanngjarnt að ég skyldi
notfæra mér hárið til að kveikja ást hans.
En þetta varð gott hjónaband.
Æ, nú kemur iðjuþjálfinn með lím og skæri.
Hef ég ekki áhuga á að föndra svolítið?
Nei, svara ég, það er enginn tími til þess.
Vitleysa, þú átt eftir að lifa fleiri, fleiri ár.
Það var ekki það sem ég átti við.
Ég átti við að allt mitt líf hef ég verið að
gera svo margt.
Fyrir fólk, með fólki, ég verð að fá tíma
til að hugsa og rifja það upp.
Sérstaklega um dauða Sveins.
Þegar endalokin nálguðust spurði ég hann hvort
það væri eitthvað sem ég gæti gert fyrir hann.
Hann sagði; já, leystu fléttuna.
Ég svaraði, æ Sveinn, nú er hárið mitt bæði
þunnt og grátt.
Kæra vina, sagði hann, leystu fléttuna samt.
Ég gerði eins og hann bað og hann rétti til mín
höndina, húðin var gegnsæ, ég horfði á bláar æðarnar.
Og hann strauk hár mitt.
Ef ég loka augunum finn ég hönd þína, Sveinn.
Hresstu þig nú við, segir iðjuþjálfinn.
Þú getur ekki setið hér og sofið í allan dag.
Hana langar að vita hver áhugamál mín voru hér áður.
Prjónaði ég? Heklaði ég?
Já ég gerði það,
og eldaði og skúraði og ól upp fimm börn
og það var svo margt sem gerðist,
bæði gott og slæmt.
Ég verð að rifja það allt upp, finna þeim stað
í herbergi minningannna.
Iðjuþjálfinn kemur með glerperlur og spyr
hvort mig langi ekki að búa til hálsfesti.
Þetta er indælis stúlka, iðjuþjálfinn
og hún vill svo vel.
Svo ég svara því til að ef til vill langi mig til þess
einhvern tímann seinna.
Svo mörg voru þau orð.
Góðar stundir.
![]() |
Deildum lokað á Landakoti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.1.2009 | 17:45
Myljandi góður fasteignamarkaður...
.... þarna fyrir vestan
.
Hægt að festa sér kaup á einni
lúxus-villu fyrir skitna 100 dollara.
Asskoti líst húsfreyju vel á þetta.
Fyrst Fuld þessi er til í að selja spúsu
sinni glæsihús á 100 dollara, ætli hann
tæki ekki vel í það að selja húsfreyju
"sumarbústaðinn" sinn fyrir dollar?
Næsta víst að Fuld á gæða sumarbústað
á vinalegu og hlýjum stað einhvers staðar
á jarðarkringlunni, og hefur húsfreyja fullan
hug á að kaupa hann af honum.
Nú ef að glæsihýsið fór á 100 dollara, þá
þykir húsfreyju dollar sinn mjög "ríflegt" og
gott tilboð í sumarbústaðinn.
Enda dollarinn búinn að vera rándýr hérna heima,
síðustu mánuði, og verður hver að passa upp á
sitt og fara að telja hundraðkarla.....þúsundin eru
uppurin, þökk sé ástsælum seðlabankastjóra vorum.
Er húsfreyja samt meira en til í að greiða
"fasteignasalanum" ríflega fyrir að ganga frá
kaupum á sumarbústað Fulds....ja segjum
10 prósent af kaupverði.
Hún er viss um að hún eigi einhvers staðar
slatta af "centum" úr Ameríkuferðum sínum.
Snilldar gott að kaupa hús af "gæðablóði"
eins og Fuld, sem er sko aldeilis ekki
að okra og sprengja upp verðið á fasteignum.
Sei sei nei!
Síðan fannst húsfreyju nafnið Fuld líka svolítið skondið,
því hún man ekki betur en að upp á dönsku
þýði orðið "fuld" fullur.
Annars er húsfreyja miður sín yfir stjórninni
sálugu upp á voru litla landi, og hvetur alla
til að minnast hennar með 3 sekúndu þögn í
kvöld klukkan 22:00, á meðan slegið er
sorgarlag með teskeið á pottlok.
Því ekki má gleyma því, að hefðum við ekki
haft þessa líka "drifmiklu" ríkisstjórn, ættu við ekki
nú í dag fjöldaframleidda gæða-stuttermaboli
"í mörgum litum" með
slagorðinu: HELVÍTIS FOKKING FOKK,
hér uppi á litla Fróni.
Svo þetta var ekki allt alslæmt hjá Geir.
Aldrei að vanmeta góða stuttermaboli með
kúl slagorðum.
Húsfreyja er svo á leiðinni á frænkukvöld í kvöld.
Átta ára djásnið fær að fara með.
Pabbi heitinn, bræður hans þrír og systir voru
nokkuð dugleg að framleiða "dásamleg" stúlkubörn
hér í den, með svona "dassi" af strákum.
Svo nú ætlum við stórfrænkurnar að hittast.
STUÐ!
Undirbúa sig fyrir frænkurnar næst.
Góðar stundir.
![]() |
Seldi húsið á 100 dali |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 29.1.2009 kl. 08:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.1.2009 | 17:10
Þetta var þá ekki þýski sérann...
...að mæta til messu með
"stæl"?
Misheppnuð kraftaverkatilraun ala
Gunnar í Krossinum?
Koma svona "svífandi" niður
úr loftinu, baðaður "tignarlegu"
framljósi bifreiðar sinnar!
HALLELÚJA!
Söfnuðurinn átt að verða uppnuminn med det samme,
og fregnir af nýjum "alheimsfrelsara" í
Chamnitz í Þýskalandi þar með
aðalfrétt fjölmiðla um heim allan.
Kreppukjaftæðið týnt og tröllum gefið,
stjórnarslit á litla Fróni tittlingaskítur einn.
Eða hvað?
Máske er bara svona "erfitt" að finna
"almennilegt bílastæði" þarna í Chamnitz?
En vonandi hefur blessaður ökumaðurinn ekki
slasað sig illilega á "bílflugferð" þessari, og kannski
hann hugi að mótorhjólumsem fýsilegum farskjótum
næst.
Skárra að parkera þeim!
![]() |
Ók á kirkjuþak |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.1.2009 | 16:31
Liggur í augum uppi.
Þetta hlýtur að vera ástæðan
fyrir því að engir sökudólgar
finnast í fjármálabraskinu og
bankaruglinu hér uppi á litla Fróni.
Eru allir farnir "til fjalla",
í "dulbúningi og jarmandi".
Þá getur nú landinn farið að
hugsa sér gott til glóðarinnar,
er sláturtíð nálgast að hausti.
Hehehe, skondin frétt, svo ekki sé
meira sagt.
![]() |
Þjófur breytist í geit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)