Færsluflokkur: Bloggar
2.5.2009 | 20:32
Snúið á innheimtuna?
Datt það í hug húsfreyju,
hvort Sara Watson þessi
skellti sér ekki í eina herlega
reisu hingað upp á litla Frón.
Kæmi við hjá húsfreyju á leiðinni
upp að Gullfoss og Geysi, og gerði
hús hennar og bifreið "ósýnileg".
Færi húsfreyja síðan snarlega í greiðsluverkfall,
og greiddi aldrei meir af himinháum skuldum
bankanna og auðjöfranna.
Að vísu vilja bankarnir meina að þetta séu
"allt skuldir húsfreyju", en eitthvað kannast
hún lítið við brjálæðislegar upphæðirnar á
rukkununum.
En byggi húsfreyja nú í "ósýnilegu húsi" og æki
ósýnilegri bifreið, er næsta víst að innheimtumenn
sæju hana aldrei meir, og þeir gætu þar með troðið
rukkunum þar sem ljósið aldrei skín.
Hehehe...þessi frétt er bara snilld.
Gangið hægt um gleðinnar dyr inn í sumarið.
Góðar stundir.
![]() |
Ósýnilegur Skodi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2009 | 19:21
Hefði verið nær...
...að bjarga húsfreyju frá því að
rigna niður í Húsdýragarðinum!
Þar var allt blautt, blautara, blautast
í dag þá húsfreyja brá sér til ferða með
8 ára djásninu og Rakel vinkonu djásnsins.
Þær höfðu gallað sig upp í stígvél,
regnföt, húfur og vettlinga og voru
að "drepast úr svita", á meðan húsfreyja
var krókloppin, blaut og hrakin í sinni
þunnu sumarregnkápu.
Brrrrrrrr!
Er ekki að koma SUMAR hér á þessu skeri
úti á rúmsjó?
En aftur að Húsdýragarðinum.
Selirnir voru í mat...og húsdýragarðskattarrófan
líka. Sú læða telur matartíma selanna vera sinn
prívatmatartíma, og er stórmóðguð ef gleymist
að snöfla í hana smásíld!
Kiðlingarnir stóðu fyrir sínu, en geitamamma
gaf "hland" í áskoðendur, með tilheyrandi
hlandstybbu og flæðandi gulum vökva niður
á gólf.
Hrúturinn var í ham í kindakofanum, svo
ein ærinn sá ástæðu til að segja honum til syndanna,
með óvenju "djúpu og langdregnu jarmi"...sjálfur
"deep throat" hefði orðið stoltur af svona frammistöðu!
Vinkonurnar átta ára, veinuðu af hlátri.
Hestunum var vorkennt ægilega, graslausum og hundvotum
úti í regninu, en risakleina var svo tekin með stæl ásamt
fullum bolla af kakó með rjóma af átta ára djásninu,
á meðan Rakelin náði súkkulaðiköku og 3 sopum af kakói.
Húsfreyja lét sér nægja súkkulaðismáköku og vatn.
Eitthvað stytti upp eftir hringekjuferð, þar sem átta ára
skvísur röltu á milli tréhrossa, príluðu og hlógu, og lestarferð
með tilheyrandi klukkuhringingum.
En þá var líka verið að loka garðinum, svo heim var haldið.
Húsfreyja eins og illa reytt hæna um hárið, enda
hafði hárblásari gefið upp öndina þá fósturdóttir
hafði brúkað hann fyrr um daginn, og regnið í
Húsdýragarðinum hafði heldur slegið í reytta hænulúkkið!
Svo það var verslaður nýr hárblásari með hraði í
Hagkaup, ásamt ýmsum fínum hárvörum.
Bóndi svo í "óvissuferð", og er húsfreyja óviss
um hvar hann sé niðurkominn, og hvenær
hans sé að vænta aftur heim.
En kompjúterinn hefur hún alveg út af fyrir sig...hah!
Kvöldmatur næst.
Góðar stundir í vorregninu!
![]() |
Óþörf björgunaraðgerð í Gróttu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2009 | 18:10
Einn gúmmiskór með...
....afskorna tá kom frá ríkinu
inn um bréfalúguna til húsfreyju í dag.
Eða svo gott sem.
Húsfreyja verslaði nefnilega eina
herlega gúmmí-barnaskó í Hagkaup
í gær á 4.990 krónur.
Björgunin frá fyrrum stjórn Haarderans
nam 2.231 krónum; ergo einum gúmmiskó
með afskorinni tá!
Dásemd!
Heilög dýrð!
Bullandi gleði og hamingja!
Veit einhver hvar má versla sér
"einn gúmmiskó með afskorinni tá"?
Bóndi húsfreyju ætlar víst að brúka sína
björgun í nokkur pör af herrasokkum í Rúmfatalagernum,
svo "einn gúmmiskór með afskorinni tá" kemur í hlut
húsfreyju.....!
Aldrei að vita nema húsfreyja hafi þörf fyrir
einn slíkan "eðalgrip" þá fresskettir taka til
við að breima fyrir utan svefnherbergisglugga
húsfreyju næturlangt í sumar.
Eignist hún nú einn, þarf húsfreyja aðeins að æfa sig í
"gúmmiskós-með afskorinni tá-kasti"
úti á bletti nú á vordögum, og hún stendur
klár í fresskattaslaginn!
Getur þá notað vatnsfötuna frá því í
fyrrasumar, sem blómapott fyrir sumarblómin sín,
og þar með fjölgað sumarblómum um eitt!
Ja, sei!
Húsfreyja er alltaf að græða!
Fyrirframgreiddu barnabæturnar frá ríkisvaldinu
standa aldeilis fyrir sínu, gegn fresskattafári og
svefnörðugleikum á sumrin.
Svo verður sólpallurinn húsfreyju "afskaplega
blómlegur" og fínn í sumar.
Og nú er fósturdóttir (21 árs) flutt inn.
Er í kærastafríi...atvinnulaus...en ef til vill,
bráðum...líklega að fá vinnu á veitingahúsi, sem
líklega...bráðum...ef til vill tekst að ganga frá
eigendaskiptum fyrir haustið...allar líkur á því...
...ef til vill.
Ætli bóndi og húsfreyja gætu fengið annan
"gúmmiskó með afskorinni tá" út á fósturdóttur,
frá ríkisvaldinu?
Nei, bara svona "just in case" ef hinn týndist
einhverja sumarnóttina í kattarslagnum!
Húsfreyja stendur svo á haus í vinnu.....
marar vart í hálfu vegna verkefnafjölda, ef satt skal segja.
Er að reyna að redda sumrinu og raða fólki niður á vaktir
og sumarfrí.
Og svo er fólk "arfaóákveðið" hvenær það ætlar í frí,
allt situr fast með skýrslu, og erfitt að meta þörf fyrir afleysingar.
Í-meila þarf Nordjobb-fólki, hringja þarf í landa, staðfesta,
staðfesta og staðfesta.
Öldungar húsfreyju svo með ægilegan sumarskrekk,
dettandi á höfuðið, ná sér í mergjaðar þvagfærasýkingar,
sumir fengið lugnabólgu og einn öldungur pantaði í gær
hjá Guði, ferð í Sumarlandið einhverja næstu daga.
Jamm, mikið að gera á stóru heimili, og húsfreyja að
reyna að vera öxullinn sem heldur öllu á góðum
snúningi og gangi.
En góðu fréttirnar (fyrir utan "einn gúmmiskó með afskorinni tá" í póstinum)
eru þær að húsfreyja er búin að fá aðstoðardeildarstjóra.
Hallelúja!
Gleði!
Hamingja!
Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga hjá húsfreyju.
Ekki spurning.
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.4.2009 | 18:39
Svínslegt?
Sei, sei, nú líst húsfreyju aldeilis á þróun
mála.....eða hvað?
Nú fer máske borgin við sundin bláu
að anga af "spíritus sóttvarnus"´,
á meðan andlitsgrímuklæddir Frónbúar
rölta milli verslana, með bláa gúmmihanska
á höndum og þekkja hvorki mann né annan
fyrir útbúnaði þessum.
Veit fólk, að andlitsmaskar, duga aðeins
skamma stund, og gúmmíhanskar flestir
sömuleiðis?
Maskarnir verða fljótt óþéttir af raka og hita
og hanskar sömuleiðis.
Svo fólk má aldeilis byrgja sig upp, sjái
það fram á 3-5 tíma rölt niðri í bæ.....og
skipta um "græjurnar" af og til!
Kannski ráð að hafa "spritt" á úðabrúsa,
og spreyja því í kringum sig svona á meðan
skiptingu ámiðjum Laugavegi stendur.
Nú svo má alltaf ræða við NASA og Obama og fá
"pottþéttan" og skotheldan sóttvarnarútbúnað frá þeim.
Máske eru þeir með eldri "geimbúninga" á spottprís,
og gefa magnafslátt líka?
Þurfum bara eitthvað um 300.000 stykki, plís mister Obama.
Jaso.....þetta getur orðið eitt allsherjar "Heilsuhælið í Gervahverfi"
upp á nýtt.
Nei, en svona í alvöru!
Vírussýkingar eru leiðindamál, og þeir erfiðustu drepa bæði
menn og dýr....á meðan þeir vægustu valda í versta falli
kvefi og hor.
Mannslíkamanum tekst oft að snúa á erfiðustu vírusa,
þrátt fyrir smit og veikindi, og framleiða mótefni við þeim.
Alveg upp á eigin spítur.
Bóluefni og bólusetningar eru svo iðulega í boði þá fram
líða stundir.
Heimsfaraldrar hafa löngum hrjáð mannkyn, og eru alltaf
ógnvænlegir.
Að mati húsfreyju er best að forðast staði þar sem
skæð vírussýking hefur náð að slá sér niður.
Vera vakandi fyrir "mögulegum smitleiðum" og
leita stax læknishjálpar gruni mann að maður sjálfur,
vinir eða ástvinir hafi sýkst.
Maskar og hanskar svo ágætir, ef sýking er komin upp,
ásamt einangrun.....muna bara að ekkert er gulltryggt,
þegar vírusar eru annars vegar.
Góðar stundir.
![]() |
Kaupa rykgrímur og spritt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2009 | 14:32
LOKSINS!
Endurnýjun á Alþingi okkar Frónbúa!
Tími "risaeðlanna" máske að renna út?
Hallelúja.
Gleði.
Er tími "bláu handarinnar" liðinn?
Haarderar á mykjuhaugum deyjandi stétt?
Útrásarvíkingar allir komnir í "elífðarsumarfrí"
frá atvinnulífi Frónbúa...og landinu sjálfu?
Og fá aðeins fúlegg og tómata á Armanifötin
sín, þá þeir reyna að vísitera fjarskylda
ættingja á Fróni?
Fyrrum gráðugir bankaeigendur illa staddir
með hálfbyggðar villur upp um allar sveitir?
Kvótakarlar allir pungsveittir yfir því, að þurfa jafnvel
að skila kvótanum á næstu árum?
Jamm, húsfreyju er létt í lund
og ætlar til ferða út í vorblíðuna.
Óskar hún nýju fólki velfarnaðar og
"heiðarleika" í störfum sínum á Alþingi.
Góðar stundir.
![]() |
Nýtt Alþingi Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2009 | 13:43
Ævintýraleg atburðarás!
Og "segir sig sjálft" að
nefndin ræður hve lengi hún lúrir á
upplýsingum um "Ísbjörgu"!
Á meðan erum við Frónbúar
"ævintýralegir hryðjuverkamann" í
stórum stíl hjá "Brúnum", það segir sig sjálft.
Og munum við Frónbúar verða "slegnir"
þá "ævintýraleg atburðarás" þessi verður
opinber gjörð?
Fáum við að vita hver "vonda stjúpan" er í málinu,
sem nýddist svona á "Mjallhvíti og prinsinum"?
Hver lék eiginlega Mjallhvíti í ævintýrinu,
og hver prinsinn?
Og hvaða hlutverki gengdu "dvergarnir" sjö
í atburðarrrásinni?
Voru "dvergarnir" máske í slagtogi við
"vondu stjúpuna" og fengu í staðinn
ótakmarkaðan aðgang að "demantsnámum"
Frónbúa?
Skópu þá dvergarnir "Ísbjörgu" til að bæta sér það
upp að hafa fórnað "Mjallhvíti og prinsinum"?
Það segir sig sjálft, að "ævintýri" þetta verður
líklega upp á einar 3666 síður, þá það verður gefið út,
þæft og loðið, og mjög svo erfitt lesningar
vegna þess hve "latínuskotið" og "sanskrítslett"
það verður.
Og verst af öllu er, að græna skrímslið "hann Shrek", og
"asninn hans" fengu tvö veigamikil hlutverk í ævintýrinu,
við að fylgjast með demantsnámunum og að upplýsa
Frónbúa um hvað um demanta þeirrra yrði.
En Shrek þessi græna elska, hefur legið í grænu
drullubaði vegna óværu í 10 ár, á meðan asninn
fór út að djamma með drekapíu á svipuðum tíma,
og hefur ekki sést síðan!
Grunar húsfreyju að "asnatetrið" hafi verið ÉTIÐ!
Jamm, en nú er húsfreyja komin með mergjaðan höfuðverk
á að reyna að raða niður í hugskoti sér, mögulegri atburðarás
í "ævintýri" þessu.
Það segir sig hvort eð er sjálft.......!
Góðar stundir.
![]() |
Siv segir atburði ævintýralega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 30.4.2009 kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.4.2009 | 18:34
Hana! Jóhanna þegjandi...lúsug...
....nei, smá grín.....hás
!
Nú bregðast krosstré sem önnur.
Ekki orðavant þessari konu, svona yfir höfuð,
nema þegar hún reynir að reka seðlabankastjóra.
En ekki ólíklegt, margar óþverrapestir
í gangi úti í þjóðfélaginu.
Voru þrír starfsmenn húsfreyju veikir
í morgun, og náðust ekki inn nema tveir
í afleysingar...svo húsfreyja fékk sinn
fyrsta undirmannaða dag sem stjóri.
Heyrði svo í fréttum, húsfreyja, að
einhverjir eitursnjallir í vísindageiranum,
tóku sig til og fundu upp "sérdeilis óþrifalega"
lækningu við astma.
Og hvað er til ráða, þjáist fólk af mergjuðum astmaskít,
eins og iðulega hendir húsfreyju í flensupestum?
Jú, skreppa og verða sér úti um "höfuðlús" í stórum stíl.
Er svo agalega gott fyrir ónæmiskerfið.
Eða svo segja rannsóknir hinna eitursnjöllu vísindamanna,
á músaræflum nokkrum.
Lúsugi músahópurinn sat "alsæll" úti í horni og klóraði sér
í sífellu, "astmalaus"!
En þrifalegu, óværulausu mýsnar stóðu
á öndinna af astmaskít, við það eitt að rölta einn
rúnt í völundarhúsinu.
Ekki fylgdi sögunni, hvor músahópurinn lifði lengur
eða hvor hópurinn virtist njóta lífsins betur.
Nú er húsfreyju spurn: Hvað eru vísindamenn
sem rannsaka áhrif "óværu" á astmaskít í
nagdýrum, með í laun?
Og niðurstöður þessar eru gagnlegar hverjum?
Og máske ætlaðar asmaveiku fólki sem hvatning og uppörvun?
Bara hætta þessu baðstússi alltaf hreint, ná sér
í verulega skæða lús, og deyja úr eigin skítalykt
og sýktum "klórsárum, í staðinn fyrir að deyja Drottni sínum
í astmakasti?
Eða er þetta bara svona "vísindalega áhugaverð", en
"gjörsamlega gagnslaus" rannsókn, sem gleður
hjörtu þeirra er engan astmann hafa?
Lengi verið vitað mál, að þrifnaðaræðið sem greip
þjóðina upp úr miðri síðustu öld, er miður gott fyrir
ónæmiskerfið okkar mannanna, enda ofnæmissjúkdómar
í algleymingi......þarf enga lúsarannsókn á músum
til að berja því inn í hausinn á landanum.
Allt best í hófi....og snyrtimennska er gott mál,
á meðan þvottabrjálæði og þrifnaðaræði geta reynst
heilsu manna erfið.
Kvöldmatur næst.
Góðar stundir.
![]() |
Þögn Jóhönnu til umræðu í Færeyjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.4.2009 | 18:47
Kjósa, kaus, kusum kosið.
Ekki verður á allt kosið
í Alþingiskosningum Frónbúanna.
Frjálshyggjan fékk slag, og hefur
verið í gjörgæslu hjá Hannesi Hólmgeirssyni
og Dabba.
Bankarnir steindrápust allir sem einn....
en gengu svo helvískir aftur....úúíúíú!
Haarderinn situr aleinn á 16 ára mykjuhaugnum,
og ber "ábyrgð" á öllu fjármálasukkinu "bláu handarinnar"!
Íhaldið þar með orðið "tandurhreint" og skæslegt á ný,
og stendur nú fyrir framan "töfraspegilinn"....."spegill,
spegill herm þú mér, hver er "fyrrum" skítsælasti
flokkurinn hér".
Framsóknarmaddaman er að "hverfa" efitr að hafa fengið
krónískar uppsölur eftir margra ára setu í ríkisstjórn...og er í uppnámi...
langur og þykkur drellirinn sem lafir í pilsfaldi hennar eftir að hafa
tekið þátt í "gróðaplottinu" með þeim sjálfstæðu
árum saman.
Og jafnvel samstæðir Samfylkingarmenn,
meðstjórnendur sjálfstæðisflokksins síðustu
mánuði, standa í kúk upp á ökkla.
Vinstri grænir eru síðan sammála um að vera ósammála
sammála flokkum á þingi, og standa saman um það
að stunda gólf á lóðarlausum gólfvöllum og fá sér svo
kaffi í rafmagnslausum gólfskálum.....nú eða ekki!
Frjálslyndir hafa svo verið að berjast við
"innanflokksóværu", og hafa enn ekki sett
orð eins og "sátt og samlyndi" inn í orðaforða sinn.
Jamm og sei sei.
Nýju framboðin?
Veit ekki.
Kannski.
Kjósa, kaus kusum, kosið.
Ósköp minnir þessi sögn húsfreyju á
aðra sögn: Gjósa, gaus, gusum, gosið!
Eld og brennisteinsfýlu, þar með.....
niðurbráðið þjóðfélag og yfirhraunaðar skoðanir.
Já, það verður sko ekkert grín að eiga að KJÓSA
fólk inn á Alþingi á laugardag!
-DÆS-!
Góða (þunga) kosningaþanka.
![]() |
Urðu að snúa frá í Horsens |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.4.2009 | 13:46
Væri nú ekki lag fyrir...
....vestræn þjóðfélög að hvetja
ríkisstjórnir landa þar sem
islama trú er ráðandi, til að
"banna" sjaríalög!
Þvílík grimmdarólög, sem leyfa að konum sé
nauðgað og misþyrmt af eiginmönnum sínum,
leyfa ekki stúlkubörnum að sækja skóla,
leyfa fjölkvæni, hýðingar á almannafæri,
aftökur án dóms og landslaga.
Benda þjóðhöfðingjum og ríkisstjórnum þessara landa,
á að taka Tyrkland sér til fyrirmyndar,
sem lagði sjaríalögin niður.
Í skjóli sjaríalaga komast karlmenn upp með
að fá útrás fyrir sínar lægstu físnir; beita grimmd,
ofbeldi, misnotkun, nauðgunum, og drápum gegn
konum og börnum.
Þetta blasir við sjónum í öllum fjölmiðlum, því
vilja múslimar sjálfir ekki horfast í augu við
þennan óþverra?
Og hreinlega banna "viðbjóðinn"?
Svo mörg voru þau orð.
Góðar stundir.
![]() |
Fjölkvæni algengt í Danmörku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.4.2009 | 16:49
Hreinasta snilld.
Húsfreyja skellti Susan Boyle
á fésið hjá sér, eftir að hafa hlustað
á hana brillera fyrir framan Bretana.
Furðulegt að yndislega söngkona þessi
skuli ekki hafa verið uppgötvuð fyrir
lifandi löngu.
Á vonandi eftir að blómstra og slá í gegn....
og ekki bara í þessari keppni.
Gaman að þessu.
![]() |
Býðst til að kyssa Susan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)