Færsluflokkur: Bloggar
16.3.2010 | 17:35
Flutt til Spánar!
Ekki seinna en í gær, húsfreyja!
Verði síðdegisdúrinn "alfriðaður"
og settur á skrá dýraverndunarsamtaka
sem "verndað listform" hjá hinum tígulega spánska
kóngi, þá er sko húsfreyja FARIN!
Hættir þá húsfreyja að þræla sveitt hjá hinu "alauma" opinbera,
fyrir smáaura sem vart duga fyrir saltinn á grautinn,
og smá bensínaslatta á bílræfilinn upp í Spöng.....
er að "spara" skósólana á skóm sínum...og fer nú
ALLT á bílnum..ussss...er alveg splunkunýtt, leynilegt
kreppuráð.
Jamm, ekki spurning...húsfreyja flytur búferlum
til Spánar og gerist "listamaður af guðs náð".
"Picassó eftirmiddagslúrsins"!
"Da Vinci 15 mínúta dúrsins"!
Húsfreyja sér fyrir sér, að hún gæti
"lifað á listinni" einni saman í hinu sólríka
veldi Spánarkonungs árum saman.
Tæki fúslega að sér að lúra og dúra
á beddum, bekkjum, "almenningsrúmum",
almenningsgörðum, grasblettum og í húsaskotum
tvist og bast um hið "svefnvæna" ríki
spánskra.
Leggði jafnvel til með sér sæng sína og kodda,
svo spánska ríkið þyrftii eigi að spandera á
hana herlegum "pakkakössum" í yfirstærð,
sem "síestu-menn og konur" virtust halla sér
mjög "að og á" utandyra, þá húsfreyja vísteraði
senjora og senjorur í Barcelona á Spáni ekki alls fyrir löngu.
Tæki húsfreyja hóglegt gjald fyrir hvern 15 mínúta
blund, en yrði að fara fram á lágmark 100 evrur fyrir
lengri svefn.
Hrotur yrði hún að rukka fyrir "aukalega"!
Að sjálfsögðu færi hún svo fram á "listamannaloft"
á besta stað á austurströnd Spánar, yrði að hafa
bíl til umráða þyrfti hún að ferðast vegna
"listar" sinnar og dagpeningar væru að sjálfsögðu
"möst".
Jamm.
Dúndur frétt þetta frá hinu suðræna ríki spánskra.
Húsfreyja er að hugsa um að skella sér inn í rúm
og fleygja sér....ágætt að vera í "formi" og æfingu
ef allt færi á besta veg þar syðra.
Góðar stundir og njótið síðdegislúrsins....z.z.z.z.z.z.z
![]() |
Vilja friða síðdegisblundinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.3.2010 | 18:24
Fregnir af VEÐRI?
Það voru veikindi "á köflum"
á vinnustað húsfreyju í morgunsárið.
Birti til með "sjúkrahússinnlögn" eins öldungs,
"hjartahlýjandi" kaffidrykkju og "heiðríkis-heimilismannaspjalli"
með morgninum.
Gerði "stress-hret" upp úr ellefu.
"Svört þrumuský" vofðu síðan yfir deildarstjóraherbergi
húsfreyju í vinnuskýrslugerð um hádegisbilið.
Stöku elding sló sér niður með þrumandi ákalli:
"Andskotinn"!, þegar allt sat fast hjá húsfreyju
í skýrslugerðinni, og yfir hana helltust
"skúrir símhringinga" frá aðstandendum.
Stytti þó upp í hringingum þegar nær dró kaffi,
og brast á með "blíðviðris-hrósi" til starfsfólks
kvöldvaktar frá einum góðum aðstandenda.
Síðustu skýrslugerðarskýin hurfu svo á bak og brott
með glampandi "sólarsamvinnu", gæsku og lífsgleði
rétt fyrir vaktarlok, og var þá líka skýrslan klár,
húsfreyja búin að renna yfir meiri hlutann í stjórnandanum
í tölvunni, græja ýmislegt smálegt.....
og heimilismenn kvöddu deildarstjórann með
regnvot gleðitár á brá....sjálfsagt leifar frá
þrumuveðri og skúrum í hádeginum.
En húsfreyja notaði blíðviðrið "utandyra" til að skreppa með
9 ára djásnið og Rakel bestu vinkonu í labb
niður í fjöru.
Þar var ekki hundur í nokkrum manni, en allir með
hunda, að fara í hundana eða löngu farnir í hundana.
Altént all nokkuð um hunda á hlaupum.
Gott að tína smáskeljar og kuðunga, og lítinn uppþornaðan
krossfisk.
En svið í matinn.
Góðar veðurblíðar stundir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2010 | 13:46
Lísa í UNDIRLANDI...
...þar sem "Brjálaði Hattarinn" lék
Johnny Depp með tilþrifum, var
á óskalista 9 ára djásnsins og
frændsystkinanna úr Þorlákshöfn í gær.
Myrkur talsvert í myndinni og fljótandi gráir hausar
manna í hallardíkinu.
"Hausinn AF" orgaði drottningin.
Ekki víst að Vigrinn 7 ára hafi alveg haldið
þræðinum, enda myndin ekki með íslensku tali,
aðeins textuð.
Og hin náðu því ekki alveg afhverju Lísa
vildi ekki vera "hetjan Lísa" og drepa
hinn illa Djabbervokkí!
"Ég hefði strax sagt "já" og viljað drepa skrímslið"
níu ára djásnið örlítið hneyksluð.
"Ég sko líka" Sigginn 9 ára að verða 10 og með
alveg nýjan samanlímdan skurð á hné, alveg
furðulostinn yfir tregðu Lísu...muldraði svo í barminn:
"En þær eru nú rosaskrítnar þessar stelpur".
Svalan reyndi að koma Lísu til bjargar: "En hún heldur að
sig sé bara að dreyma"!
Lá við "hóp-lúr" með tilheyrandi hrotum á bekk húsfreyju,
þegar dróst áfram að Lísa sætti sig við hetjuhlutverkið
og skrímsladrápið.
Jamm.
Sálfræði-þriller með aðalhetjum úr barnabókmenntunum?
Líklega, því húsfreyja hafði lúmskt gaman að.....og það
þó að hún hafi aldrei fílað söguna af hinni upprunalegu
Lísu í Undralandi.
Fannst alltaf sagan sú ruglingsleg, tilgangslaus og boðskapslaus.
En var reyndar aðeins 8 ára húsfreyja, er hún las hana fyrsta og
síðasta sinni, og fékk enga ánægju af.
Óliver Twist las hún hins vegar sér til mikillar ánægju,
á unga aldri og nú skal haldið í þjóðleikhús með
allt litla liðið klukkan þrjú.
Nú skal sko "tvistað með Óliver" sagði húsfreyja glettin
við fjórmenningana.
"Þetta er ekkert soleiðis" Vigranum mikið niðri fyrir.
"Nei, mamma þetta er leikrit um Óliver Twist" djásnið tók
undir með frænda sínum!
Spenningurinn hjá þeim ungu er orðinn áþreifanlegur,
og húsfreyja varð að senda þau út á róluvöll að
kæla sig niður og róa.
"Í SPARIFÖTUNUM"!
Systir í Þorlákshöfn svo barnlaus að "árshátíðast"
um helgina.
Mikið stuð, eins og hennar er von og venja.
En græja sig í leikhúsföt næst.
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2010 | 18:42
Nýir gjaldmiðlar?
Blessaðir Kanarnir alltaf snjallir
.
Gerðu "páfagauk" konu einnar upptækan,
því konuræfillinn hafði eigi staðið í skilum
með afborganir af húseign sinni.
Ekki nóg með það að "gæludýrið" væri tekið
með harðræði upp í skuldina,
heldur gengu verktakar hins ágæta Bank of America
í það að "eyðileggja" húsgögn konunnar.
Makalaust athæfi atarna.
Og nú er konuvesalingurinn í sjokki, með mergjaðan
ofsakvíða yfir húsgangna- og gaukstjóni
þessu, á meðan gaukurinn Lúkas er sjálfsagt allur úfinn
og stúrinn yfir því að geta ekki tyllt sér lengur
á uppáhaldssófabakið sitt, og argur yfir því hafa þurft að gista
óhrjálegt skrifstofuborð verktakanna sem skemmdu sófann.
Fimmtíu þúsund dollara vill kvíðafulla konan fá
í skaðabætur frá bankanum fyrir hremmingar sínar og Lúkasar....
og það þrátt fyrir að Lúkasi ræflinum hafi
verið skilað með vinalegri afsökunarbeiðni frá
bankamönnum og konum....
Jamm, á þá altént konan að geta skellt einhverju af þeim
dollurunum upp í fasteignaskuldina.
Hehehe...skondin frétt.
Hvað ætli annars að "gangverðið" á páfagaukum sé?
Já, og þá öðrum gæludýrum?
Því færi svo að frónverskir bankamenn tæku ameríska bræður
sína sér til fyrirmyndar, og færu að gera "gæludýr" sér
að góðu upp í skuldir, þá á húsfreyja eðal læðu.
Bröndótta, barngóða, húsvana en að vísu eilítið "gallaða"!
Hún er með skarð í vinstra eyra eftir ægilegan bardaga
við fresskattargrey, sem missti sneið úr læri í viðureigninni
við kisu húsfreyju.
Haltrar síðan!
En það má alveg líta svo á, að læðurófan sé
líkt og hin dásamlega frónverska sauðkind
vel "mörkuð"..."aftur-þríhyrnt -skorið" mætti lýsa
eyra læðu....svo máske það sé bara bónus.
Húsfreyja ætti kannski að bjalla í bankastjórann
sinn, og kanna hvort hún geti ekki sent þeim
köttinn næstu mánaðarmót í stað peninga...
og málið er dautt.
Lán húsfreyju að fullu greidd!
Nah! Gengur ekki!
Níu ára djásnið tæki það aldrei í mál.
Dýrkar læðuna, enda er djásnið eina barnið
í 25 kílómetra radíus sem á "kött með skarð í eyra".
En mikið rosalega eiga margir "halta" ketti í hverfinu.......
Góðar stundir og hugsið vel um gæludýrin ykkar....tala ekki um
sé bankinn á hælunum á ykkur.
![]() |
Banki tók páfagauk upp í fasteignaskuld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.3.2010 | 18:00
Ungir neftóbakskarlar og konur í Noregi?
Eða eru kannski bara alltaf í "munntóbakinu"?
Fyrst "aðeins" 32 þeirra á aldrinum
24 ára og yngri "reykja það.
Hehe...grun hefur húsfreyja um að hér vanti
prósentumerkið, en skondin frétt atarna,
því einnig kemur fram að 21% þessa aldurshóps
brúki "fínkornað tóbak"....svo fyrst svona fáir
"reykja" það.....þá væri líklegt að þeir "tækju hressilega í nefið"
eða skelltu því í vörina....væri fréttin kóréttur sannleikur!
En svo er fremur ólíklegt.
Afi húsfreyju var mikil tóbakskarl, og hans uppáhald var
munntóbak.
Pakkaði af mikilli list tóbakinu í lítinn köggul með fingrunum,
og smellti síðan undir tunguna.
Spýtti síðan tuggunni í moldina á Hawai-rósinni
í glugganum sínum, þegar áhrifin fóru að dofna.
Rósin sú stóð svo í blóma mestan part af árinu,
og sást ALDREI á henni ein einasta lús.
Húsmæður í götunni störðu upp í glugga afa
grænar af öfund, enda þeirra Hawai-rósir annað hvort
steindauðar er grálúsugar "að drepast".
Afi húsfreyju var snyrtimenni mikið, og aldrei
fann móðir húsfreyju eitt einasta tóbakskorn
á borði, gólfi eða í rúmfötum hans þá hún
stóð í stórhreingerningum.
Tóbakstauma sá maður aldrei hjá afa húsfreyju.
Vissu margir kunningjar hans ekki af tóbaksnotkun hans,
svo fínt fór hann með það.
Afi ákvað síðan sjálfur að hætta "í tóbakinu",
nennti ekki að hafa fyrir því, þegar líða tók
á efri ár.
Vesen að nálgast það, þegar hann var kominn á Hrafnistu.
Leiddist með afbrigðum á elliheimili, afa húsfreyju.
Þoldi við í 3 ár, dó þá saddur lífdaga aðeins 77 ára að aldri....
tóbakslaus.
Húsfreyja hefur aldrei lært að brúka tóbak
og syrgir það ekki.
Finnst fýla af reykingafólki og þolir illa, er hlutlausari
gagnvart nef-og munntóbaki, fólk sem slíkt notar
hvorki angrar aðra né eitrar fyrir öðrum....aðeins fyrir sjálfu sér.
Um óhollustuna lætur húsfreyja svo hvern dæma fyrir sig,
því hún hefur mörgum lugnakrabbameinssjúklingnum
hjúkrað og líknað á dauðastund.
Er þar hlutdræg svo jarðar við fanatík.
Svo hún skilur vel sína norsku frændur að hafa
áhyggjur af reykjandi ungviði sínu.....
þó þeir væru aðeins 32.
Góðar stundir og gætið vel að heilsunni.
![]() |
Banna sölu sígarettukartona |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2010 | 21:13
Veðurbarið logagyllt hár! HORFIÐ!
Þannig liggur í því.
Hlaut að vera.
Vesen.
Eftir að húsfreyja fluttist
úr 12-18 vindstigunum
í Eyjum hér um árið,
þegar hún vaknaði við
sundurrifna jörð og
eldspúandi, þá hefur
logagyllti litur hárs hennar verið að
fölna jafnt og þétt.
Dól og dangl í "Kára" upp á 2-7 metra á sekúndu
hér uppi á "meginlandinu" er bara ekkert að gera
fyrir hana.
Má segja að hár húsfreyju hafi orðið "miður sín",
og ekki borið sitt barr síðan 17 vindstigin í Eyjunum
lyftu því og börðu því í andlit hennar.
Og alltaf fylgdi Kára "grenjandi slagveðurs rigning",
eða þá "dass" af sjávarseltu.
Rauði liturunn er að verða "minning ein"....má jafnvel
kalla hár húsfreyju "off-red" hár...samanber "offwhite"!
Jamm.
Húsfreyja verður máske að flytja búferlum
aftur til heimaslóðanna, í þeirri von að öðlast
aftur sinn fagra háralit.
Hmmmmm...ætli gamla vitahúsið
á Stórhöfða sé nokkuð til sölu.
Góðar og "vindasamar" stundir.
![]() |
Rautt hár og rysjulegt veður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2010 | 18:23
Það er verið að taka upp kvikmynd...
.. á heimili húsfreyju.
Tökur hafa nú staðið stíft yfir
í 2 vikur, eða allar götur frá því
að 9 ára djásnið uppgötvaði
að það var ekkert mál að læra á
"videokameru" heimilisins.
Djásnið fer með eitt af fimm aðalhlutverkunum.
Elinóra, Rakel, Habba og Hekla eru í hinum fjórum.
Húsfreyja hefur ekki grænan grun um hvað kvikmynd
þessi fjallar, enda aldrei fengið að berja "kvikmyndahandritið"
augum.
Hlýtur auðvitað að vera "topp-síkret" í þessum bransa
"hér" líkt og í Hollywood.
Hefur samt húsfreyja grun um að kvikmyndin sé í anda
"One flew over the cookoos nest" með Nicholson,
eftir þeim atriðum að dæma, sem hún hefur fengið að kíkja
á hjá 9 ára djásninu.
Já, og svona í bland við klikkaða raunveruleikaþætti þar sem
alls óskylt fólk hefur verið látið dúsa saman í litlu lokuðu rými
í 40 daga.
Síðasta atriðið sem húsfreyja skoðaði gekk til dæmis
út á "óvenjulega nálgun" á einu mannsauga, þar
sem viðkomandi rak svo hressilega við og hló svo
geðveikislega ásamt upptökumanni.....í 10 mínútur.
Húsfreyja er samt "aukaleikkona" í kvikmynd
þessari, með vara-varahlutverk....þó hún hafi ekki hugmynd út á hvað
hlutverk hennar gengur...virðist einna helst felast í því
að sjá um að dæla kexi og mjólk í "Aðalinn", á meðan
er hún kvikmynduð grimmt, og svo skoða einstaka
brot og kommentera.
Jamm!
Komist kvikmynd þessi einhvern tímann á hvíta tjaldið,
er næsta víst að húsfreyja verði að fara huldu höfði
næstu mánuðina....eða taka á móti Eddunni fyrir
"snilldartakta sem vara-varaleikkona í aukahlutverki" öðrum kosti!
Annars er svo slátur í pottunum hjá húsfreyju
á gráum mánudegi...búið að kvikmynda það...
og eðal frónverskar kartöflur.
Húsfreyja vonar að Frónbúar séu búnir
að jafna sig eftir "kosningahelgina",
"tvísýn og spennandi" sem hún var.
Við sem teljum okkur með jákvæðustu þjóðum
heims voru svo bara "93%" neikvæð um
helgina.
Jamm!
Ekki að spyrja að kerlingarfálunni henni "Ísbjörgu",
búin að steypa þjóðinni í bullandi þunglyndi
og eitt stórt samhuga NEI!
Ættum máske að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu
um "getu Seðlabankastjóra" fyrrum og núverandi næst,
og síðan gagnsemi Fjármálaeftirlitsins þar í kjölfarið.
Næsta víst að öll þjóðin yrði að fara á Prozac eftir þær
kosningarnar.
Stjórnina og alþingismenn?
Nah!
Því er ekki þorandi.
Þá lenti þjóðin í "ólæknandi" þunglyndi
fram á miðja 21 öldina.
Ekki víst að við lifðum slíka óáran af.
En græja kartöflur næst.
Góðar stundir og njótið kvöldsins.
Bloggar | Breytt 10.3.2010 kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2010 | 12:56
Maður sem þorir...
..forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson.
Engin gunga.
Húsfreyja viðurkennir vel
að henni hafði dottið sama í hug,
hvað Norðulöndin varðar í Icesafmálin.
Jafnvel viðrað þessa skoðun í þröngum hópi
vina og kunningja, og alltaf fengið
kröftug mótmæli til baka.
"Getum eingöngu treyst á Norðurlandaþjóðirnar"
er setning sem heyrðist æði oft.
O, jæja.
Húsfreyja hefur löngum verið treg í "stjórnmálahugsun"
og nánast VANVIRK í "millilandadeiluþankagangi".
Konan botnar bara ekki baun hví málin þurfa að vera
svo flókin og langdregin.
Og "allir" ætla að lána og hjálpa...en samt gerist ekki neitt.
NÚLL OG NIX!
NADA!
Jamm.
Húsfreyja er þakklát "vinum" okkar og "frændum"
á Norðurlöndum, sem ÆTLA að lána okkur vesælum
peninga í þrengingum, engin spurning þar.
Skilur bara ekki af hverju lánin eru svona LENGI
á leiðinni.
Jamm, eins og sagði hér að ofan:
Bæði TREG og VANVIRK!
Og var farið að örla á grun hjá henni líkt og forseta
vorum, að Norðurlöndin settu lausn Icesafe á oddinn,
líkt og fleiri "góðhjartaðir" úti í hinum stóra heimi.
En sjálfsagt er það bara allt "tæknilegur misskilningur"
hjá húsfreyju, að hugsa slíkt,
enda ÞURFTU frændur vorir á Norðurlöndum
bara ekkert að lána oss aumum "fjármálavitleysingum"
neina peninga.
Jamm.
En þá er það aðeins eitt: Því eru ráðamenn frænda
vorra að gefa það yfir höfuð út, að þeir ÆTLI og VILJI
lána okkur örmum "frjálshyggjusukkurum"?
Húsfreyja skilur ekki neitt í neinu.
Hugsanir hennar um fáluna hana "Ísbjörgu", útrás, lán
og kreppu eru orðnar eins og risastórt spilahjól
í spilavíti andskotans: PLACE YOUR BETS, PLACE YOUR BETS....!
Jamm.
En bísna grand hjá forseta vorum að ÞORA að
hreyfa við "ástkærum frændunum" norðan megin
í Evrópu.
Og við Frónbúar munum eftir sem áður ÆTÍÐ treysta og trúa...
á "eigin" getu og kraft.
Góðar stundir.
![]() |
Segir Norðurlöndin hafa beitt Ísland þrýstingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2010 | 15:59
Múgur og margmenni....
...bílatraffík og biðröð í
Borgarskóla rétt í þessu,
þegar húsfreyja skrapp að kjósa.
Enda eins gott að mæta, þegar
kosið er um mesta "þvargviðri"
í íslenskri stjórnmálasögu síðan
Fullveldismálið var og hét.
En merkilegt nokk, sá húsfreyja aðeins einn
á stórum eðalvagni mættan að kjósa.
Hefur sjálfsagt ekki átt góða útrásar-eitthvað
eða bankagróðamenn að, og þar með haft lélegan aðgang
að "útrásinni" og alveg misst af öllu
"góðærinu", fyrir utan jeppadýrðina.
Svona eins og við hin sauðsvörtu.
Jamm.
En að sjálfsögðu kusu allir RÉTT.
Það sá húsfreyja í hendingu, af gleðisvip
landa sinna er þeir komu af kjörstað.
Þetta líka endemis þvarg, þvaður, bull og endaleysa
allt út af kerlingafálunni henni "Ísbjörgu",
er sjálfsagt búið að ganga langt fram af öllum Frónbúum.
Viljum hana ekki.
Þrasið og kjaftavaðalinn brott.
Viljum boðlega lausn á málinu, og boðlega samninga fyrir land og þjóð.
Með fleygum orðum ágæts manns:
"Vér mótmælum allir"!
Góðar stundir á kosningadegi.
![]() |
Um 26% kjörsókn í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2010 | 11:23
Þokugrár kosningadagur.
Það hefur verið einhver suddi
í höfði og hálsi húsfreyju að undanförnu.
Bévískur "Ísbjargar-hor" rennur úr nefi,
á meðan vírusar af verstu tegund
hafa stigið mergjaðan "kreppu-Hrunadans"
í hálsi hennar.
Þegar hún svo hefur fregnað af
"slatta af frónverskum milljörðum"
sem gufa upp, í bönkum annarra landa,
því eigi er "ólöglegt að ræna íslensku þjóðina"
á ERLENDRI grund, hefur henni elnað sóttin að miklum mun.
Hóst-hóst-snýt-snýt.
Og á þokugráum morgni þjóðaratkvæðagreiðslu,
sér húsfreyja varla nokkuð til í hugskotum sínum.
Þar er enn dimmari þoka en utan dyra,
og varla nokkra skímu að sjá, sem brugðið
gæti ljósi á HVAÐ fer fram á kosningastöðum í dag.
DÆS-
Er verið að kjósa um "gömlu" lögin, sem aldrei
hafa verið undirskrifuð eða samþykkt af forseta vorum,
en eru samt í gildi, nema hjá "samninganefnd" Frónbúa,
sem er að reyna að semja um ný "Ísbjargarlög" á breskum
veiðilendum Elísabetu gömlu?
Eða er verið að semja um "EITTHVAÐ ALLT ANNAÐ"?
Jamm.
En kannski er bara nóg að hafa einhvern "smá grun"
um hvað málið varðar?
Hér eru þokur afar tíðar,
bæði á landi og sjó.
Við sjáum upp í miðjar hlíðar,
það ætti að vera alveg nóg.
Ólafur Kristjánsson, Akranesi.
Það var og.
Svo nú fer húsfreyja á kjörstað.
krossar á "réttan stað", og setur traust sitt
á almættið og heiðarlega menn.....sem ef til vill
finnast á Fróni enn!
Og að lokum:
Ég trúi á ljós, sem lýsi mér,
á líf og kærleika,
á sigur þess, sem sannast er,
og sættir mannanna.
Á afl sem stendur ætíð vörð
um allt, sem fagurt er,
á Guð á himni Guð á jörð
og Guð í sjálfum mér.
Ólafur Gaukur-Erl. þjóðlag.
Farið varlega í regninu og þokunni.
Góðar kosningastundir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)