Færsluflokkur: Bloggar
6.7.2010 | 17:35
Allt gengið EINS OG...
...SMURT, hjá "krókódílamanni" þessum,
þá hann flýði fangelsið.
Fallega gert af honum að brúka ekki
rándýrt danskt smjör, heldur smyrja á sig
hræbillegu smjörlíki.
Næsta víst að náist þessi "háli" fangi aftur,
fái hann snarlega viðurnefnið "Hinn smurði", í fangelsinu!
Getur þá máske í framhaldinu stofnað sín eigin trúarbrögð,
"smjörlíkisguðinum" til heiðurs...smjörgað sig og
áhangendur sína reglulega, síðan stigið smjörlíkisdans
uns "smjörkopparnir" birtast í kinnum og hvítar
"smjörtennurnar" geisla í brosandi munnum þeirra.
Þar með tóm "smjörguð" lukka... altént í einu dönsku fangelsi.
En svo gæti hinn vel smurði auðvitað orðið óheppnari með viðurnefni.
SMJÖRKLÍNA!
SMJÖRPOKI ( húðfelling á bringum kúa eða hesta)
Eða jafnvel SMJÖRSVÍN!
Jamm.
En eitthvað ættu danskir fangelsisstjórar að fara að
kíkja á byggingapappíra fangelsa sinna, fyrst hægt
er að brúka gaffal og hníf til að ná vænum bita úr þeim.
Nema að dönsk fangelsi séu orðin "græn" mjög, og aðallega
byggð úr "náttúruvænum" efnum, s.s pappír, ávaxtahíði, mosa
eða ósútuðu fiskroði.
Aðvelt að stinga gafli í slíkt og skera bita úr.
Nú eða eru fangelsin dönsku bara orðin ekta
"köku-og sælgætishús" ala Hans og Gréta?
Það myndi þá útskýra hvernig fangi þessi gat náð
sér í sæmilegan slatta af "smjörlíki" til smurningar...
Auðvitað hefur þá bara staðið yfir "þakviðgerð" á
PIPARKÖKUÞAKI fangelsisins!
Þurft heilu tonnin af smjörlíki í piparkökubaksturinn,
og enginn fangavörður tekið eftir því þótt eitt og eitt
smjörlíkisstykki hyrfi.
En skondin frétt atarna úr hinu mikla veldi dönsku drottningarinnar
Er það einlæg von húsfreyju að höll drollu sé mun sterkbyggðari
en dönsk fangelsi.....annars fara menn öðrum kosti,
að mæta í te til hennar á öllum tímum dags "vel smurðir" og smjúgandi um
hallarsali "sleypir sem smokksíld".
En góðar stundir, húsfreyja ætlar að SMYRJA sér
hrökkbrauð með MIKLU smjöri næst og "smjúga"
út í búð eftir kvöldsnarli.
![]() |
Flúði með aðstoð smjörlíkis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 20.7.2010 kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2010 | 18:03
Hungurvetur?
Í hinu víðfeðma ríki Kanadabúa
ríkir sjálfsagt myrkur langt fram eftir
á köldum vetrarmorgnum,
og auðvelt að verða illa áttaður á tíma og stund.
Vitalí Mutko háæruverðugur íþróttamálaráðherra
Rússa, hefur að öllum líkindum vaknað í
kolniðamyrkri 5-6 sinnum að morgni dags, þá hann var
mættur á Olympíuleika í Kanada, svona frá 5- 10:30,
ekki séð glóru utandyra, en verið banhungraður eftir LANGA nótt,
og pantað og snöflað í sig morgunmat í hvert sinn.
Hallað sér síðan aftur á sitt græna eyra, og beðið
þess að birta tæki af degi.
Verið dálítið grimmur í "grænu baununum", blessaður
íþróttamálaráðherrann, enda þær einskær
"niðursoðin" græn og gómsæt hollusta á heimsmælikvarða.
Og sjálfsagt "kanadískar" eðal grænar baunir RÁNDÝRAR,
og ekkert grín að lenda í því að þær séu "taldar" ofan í mann,
og það á sjálfum Vetrarólympíuleikunum.
Já svei, öllum baunatalningamönnum rúsneskra endurskoðenda.
Aumingja, vesæli, sársvangi Mutko.
Ekki nóg með að þeir rússnesku í baunatalningunni séu
arfareiðir yfri "smá snarli" 5 sinnum að morgni, heldur eru
þeir að fetta fingur út í það að "fjölskyldumeðlimir"
ýmissa framámanna með í för sársvanga íþróttamálaráðherrans,
skuli vera "metnaðarfullir" liðstjórar skautaliðsins og frábærir og snjallir "túlkar"
fyrir snjóbrettafólk...sem allir vita að er nánast "ótalandi"
nema á engilsaxnesku!
Veitir ekki af að hafa einn eitursnjallan
túlk sem þýtt getur orðræðu "enskuslettandi" snjóbrettafólks
yfir á rússnesku, fyrir samferðafólkið!
Algjör ekkisens tilviljun að túlkurinn skyldi svo
vera "dóttir" formanns skautasambandsins hins rússneska.
Og algjört aukaatriði, þótt þetta sé líklega í fyrsta sinn sem skautaliðið
á "sérlegan velættaðan" liðsstjóra á Ólympíuleikum!
Jamm, nánasarlegt þetta og skorið við nögl við arman
íþróttaráðherra Rússa.
Fékk smáaura á sjálfa Vetrarólympíuleikana!
Aðeins 6,2 MILLJARÐA rúbla...jafngildi lítilla 25 milljarða íslenskra
bankahrunskróna, til að spandera í Kanada!
BAUNATALNING!
LAMBASPÖRÐ!
VASAPENINGAR!
TÓM ÞVÆLA!
Ætluðust baunatalningarmenn virkilega til þess að sjálfur
"íþrottamálaráðherra" sleppti úr 2 morgunverðum
annan hvern dag og snæddi kanadíska, billega hammara með "Majonesi"
í staðinn?
OJ!
Átti ráðherra og allt hans "velættaða" samferðafólk að detta steindautt niður
úr hor?
Á einu flottasta hóteli Vancouver?
Ja SVEI!
HÚMBÚKK!
Jamm, Vitalí blessaður, ofursparandi íþróttamálaráðherrann Rússanna
á ekki sjö stundirnar sælar í sínu heimalandi.
Verður máske að bjalla upp á litla Frón sá góði Mutko og panta
nokkur tonn af "grænum baunaum" frá ORA á spottprís,
og senda "baunatalningamönnum" í sumargjöf.
Svona til að létta þeim lund og draga úr mergjaðri "nísku"!
Nú ef það dugir ekki getur Mutko blessaður altént boðið
ömmusystur, frænda stjúpu yfirbaunalteljarans starf sem
vara-liðsstjóri rúsnesska ísknattleiksliðsins.....og sem túlkur á
"síberíska sumar-maraþonhlaupinu"....svona til vara.
En góðar stundir á miðju frónversku sumri
og verði ykkur grænu baunirnar að góðu.
![]() |
Borðaði morgunmat 5 sinnum á dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2010 | 12:22
Að marka spor...
er snúnara en margur hyggur.
Hvað stendur til dæmis upp úr
síðustu viku?
Eru það "utankomandi" atburðir eins og
glæsilegt mark í fótbolta, hæstaréttardómur
um gengislán eða yfirlýsing "alþjóðlegra vísra manna"
um kreppulok.
En hvað með ÞIG?
Þínar gjörðir og upplifanir?
Er hver dagur kannski öðrum líkur?
Fylgirðu straumnum ómeðvitað/meðvitað?
Og dagar, vikur, mánuðir og jafnvel ár líða
án þess að ÞÚ markir eitt einasta spor á eigið líf?
Og árin hverfa eitt af öðru Í ÓMINNIÐ!
MANST ÞÚ hvenær ÞÚ umbyltir þínu lífi síðast?
MANST ÞÚ hvenær þú tókst ákvörðun síðast,
sem varð þér og ástvinum/vinum þínum til góðs?
MANST ÞÚ hvenær lífið var síðast ljúft og þægilegt í marga daga,
jafnvel vikur, mánuði ár og þú varst sáttur við Guð og menn?
Hvenær það var ömurlegt, erfitt og sárt síðast...og ÞÚ vannst
þig út úr myrkrinu einn og óstuddur...eða með hjálp góðra manna?
MANST ÞÚ hvenær þú varst virkilega GLAÐUR síðast?
Stoltur?
Dapur?
Reiður?
Sáttur?
Að UPPLIFA lífið og atburðarás þess í tætlur?
Áttu kannski minningu um hafsjó af "sporum" sem þú hefur
markað á þitt eigið líf?
Hefur þér ef til vill dottið í hug að skrá niður "sporin" þín?
Segja frá því hvernig ÞÚ markaðir "sporin" í þitt líf?
Fjölskyldu þinni, vinum, börnum til fróðleiks.
Húsfreyja telur sig heppna konu, því hún á í fórum sínum
mörg "spor" sem henni hefur, oft undraverðan
máta, markað á sitt eigið líf, og er þegar byrjuð að skrá
sumt niður.
Því miður á hún einnig "óminnistímabil" þar sem hún
kemur bara niður á gráa ÞOKU, þegar hún hugsar til baka.
Og verst er að eiga 3-5 ár samfelld, þar sem aðeins
eitt og eitt "spor" finnst á stangli.
Húsfreyja upplifir þennan tíma í dag sem "dauðan"
og "flatan"!
TÝNDAN!
Hefur jafnvel dottið í hug að, hún hafi orðið fyrir "sjálfs-andláti",
en ekki kunnað við að vera bögga ástvini sína, vini og
vinnuveitendur á "dauða" sínum, og ákveðið að halda áfram
af gömlum vana!
Jamm, það er snúið að "marka spor" í sitt eigið líf,
oft þægilegt að fljóta hugsunarlaust með,
þar til kemur að því að maður hefur öðlast þann
þroska að geta litið til baka og vill gjarnan gera upp lifað líf.
Þá er erfitt að finna fá eða engin eigin "spor",
og muna eftir ENGU!
Slitrum og brotabrotum.
Vita jafnvel ekki hvernig maður varð sá sem maður er í dag.
Hvaða reynslu hefur maður safnað í sarpinn?
Hvaða þekkingu hefur maður öðlast?
Er maður að "marka jákvæð spor" á eigið líf?
Eða neikvæða?
Jamm!
Húsfreyja á stórafmæli í sumar.
Húsfreyja hefur greinilega náð þeim þroska að vilja
líta til baka og gera upp margt í lífi sínu.
Finna sátt.
En hvort henni lánist það, er svo allt annað mál!
Húsfreyja og 9 ára djásn eru svo á flakki innanborgar í dag.
Ætla að "marka gleðispor" saman í sálir sínar og líf.
Húsdýragarður, blóm og kattarmatur verða að fylgja pakkanum.
Góðar stundir og gangi ykkur vel að "marka sporin" ykkar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2010 | 18:10
Skattpíndir...
...blessaðir Baunarnir!
Má þá ekki bara bjóða þeim að flytja
í "skatta-paradísina" hér uppi á litla Fróni,
þar sem kreppu er "opinberlega lokið"!
Svo segja "alþjóðasnillarnir"...ekki ljúga þeir!
Allt í lukkunnar velstandi og vellystingum,
Frónbúar lausir við vinnustress, enda fjölmargir atvinnulausir
og engar áhyggjur af þrúgandi fasteignagjöldum...eiga engar
fasteignir lengur...hamingjusamasta þjóð í heimi...svoleiðis
allt í blússandi frónverskum PLÚS...
nema hjá frónverskum bönkum sem eru
á leiðinni beint til helvítis, eftir að myntkörfulán voru
ólögleg gjör
Það segir Gylfi!
Ekki lýgur hann frekar en Mogginn og Dabbinn!
En Baunarnir geta bara lagt aurana sína inn
í banka háæruveðugs dansks kóng eftir sem áður,
þó þeir finni sér starf sem "vellaunaðir" skúrarar
eða jafnvel sem bankastarfsmenn hér uppi á Fróni!
Komið út í bullandi gróða.
Máske jafnvel skellt sér í að "fjárfesta" í frónverskum bönkum!
Glatt Gylfa!
Og ef það dugir ekki til að gleðja Gylfa...þá "sveiattann"!
Jamm!
Stakkels bönnerne!
Eiga vart afgang fyrir öllara í lok vinnudags, þá
búið er að "kvelja af" þeim skattinn.
Eitthvað annað en margur hér uppi á "kreppulausu" Fróni,
sem er "frjálst" að eyða þeim litlu aurum sem
hann á eftir, í heila kippu í lok mánaðar,
eftir að hann varð heimilislaus, atvinnulaus og
myntkörfulánslaus!
Góðar stundir á kreppulausu Fróni og njótið "myntkörufulánslausa" sumarsins í botn.
![]() |
Danir borga mestu skattana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
28.6.2010 | 18:07
SKÚBB dagsins...
...nei, vikunnar...eða kannski alls ársins
.
Vita Jóhanna og Steingrímur af þessu?
Stjórnarandstaðan?
Og kannski þeir sem er mest um vert að fái fregnir þessar:
Snillarnir í bönkunum okkar!
KREPPU LOKIÐ!
PIFF-PAFF-PÚFF!
Rokin út í veður og vind.
Eins og fyrir TÖFRA!
Meira segja "bankar-beina-leið-til-helvítis-dómurinn" um ólögmæti
myntkörfulána, er ekkert mál samkvæmt þeim "alþjóðlegu"!
Bara fínt mál, en þeir vísu dómarar er kváðu upp um
myntkörfulánin, verða að klára dæmið og
"fræða" bankasnillana um hvernig sé best að draga úr
"skellnum", þá þeir ná botni í Víti!
Því auðvitað fer allt til helvítis hjá bönkunum, verði þeir
að gefa myntokurlánin eftir, það segir sig sjálft...altént ef þú heitir Gylfi!
Komi heimilinum vel!
Bjargi þeim jafnvel frá gjaldþroti og upptöku fasteigna!
Það er aukaatriði segir bankavís Gylfi.
Aðalatriðið er að redda bönkunum, koma þeim aftur í myljandi
gróða, svo hægt verði að greiða út "hagnað reglulega",
"jólabónusa", "sumarbónusa", "ferðabónusa" og "afmælisbónusa"
jöfnum höndum til stjórnenda bankanna.
Svo er lágmark að menn eigi einn krúttlegan 140 fermetra sumarbústað
séu þeir í stjórn banka, og komist í góða laxveiðiá 4 vikur á sumri.
Þeir "alþjóðlegu" telja afnám myntkörfulána ekki þurfa að þýða
"dauða og djöful" fyrir íslenska banka, því síður bankahrun í öðru veldi.
Verði þeim erfitt, en ekki ómögulegt.
Sá sem er heimilislaus hins vegar, atvinnulaus og kominn í greiðsluþrot
er ekki að koma með fé inn í bankana, þvert á móti.
En hitt er svo annað mál, að húsfreyju þykir "þeir alþjóðlegu"
með bjartsýnari einstaklingum á yfirborði móður Jarðar,
ef þeir telja oss arma fjármálavitleysinga út í miðju
Ballarahafi "búna með kreppuna".
Mörum svona í "hálfu kafi" enn um skeið, er mat húsfreyju....
og svo er auðvitað alltaf sá möguleiki fyrir hendi að bankarnir
fari beina leið til helvítis, þrátt fyrir kreppulok...altént
ef þú heitir Gylfi.
En Frónbúar til lukku með "kreppulokin" allir sem einn.
Betra ef satt væri.
Þá er bara að skella sér í það að gera 28. júní að
"almennum frídegi" um alla ókomna tíð, hér uppi á litla Fróni,
og halda árlega upp á hann..."KREPPULOKAHÁTÍÐ"
ala "Goslokahátíð Eyjamanna"!
Góðar stundir og enn og aftur til lukku með "lokin"!
![]() |
Kreppunni lokið segir AGS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.6.2010 | 21:43
Það er SUÐ...
...í húsi húsfreyju um þessar mundir.
Alla daga sleitulaust á besta áhorfstíma
sjónvarps.
Bzzzzz...bzzzzz...bzzzzzzz...bzzzzzzzzz!
Meira segja læða húsfreyju kexruglast,
æðir um gólf mjálmandi og leita af "helvísku fluguófétinu"
sem suðar án afláts.
Botnar ekkert í þessu.
Læðist um gluggakistur og starir snörpum kattaraugum
upp eftir gleri.
Leitar dauðleit í hillum kringum sjónvarpið, þar sem
kvikindið suðar sem hæst.
Gáir upp í loft, en sei, sei nei, ekkert einasta
flugugrey á flögri, húsfreyja hendir þeim öllum jafnóðum út
og þær villast inn.
Læða er ósátt.
Hvernig sem húsfreyja reynir að ræða við hana um fótbolta,
og afrísk flugusuðandi fílahorn, botnar læða ekki málið.
Reynist langsamlega best að skella læðu út í band, og leyfa
henni að veiða sér flugur í "eftirrétt", þá fótbolti spilast
í imbanum.
Níu ára djásnið er einnig að fara á límingunum yfir fótboltanum.
Telur þetta LENGSTA leik sem nokkru sinni hefur verið upp
fundinn af mannfólkinu ( Húsfreyja hefur látið það vera að fræða
djásnið um "ameríska fótboltann" og tímalengd hans), og þegar
er svo FRAMLENGT í ofanálag örvæntir djásnið um að fá að kíkja á
uppáhaldsmyndirnar sínar á skjánum nokkru sinni aftur.
Jamm...bzzzzz....bzzzz....bzzzz....bz!
Húsfreyja hefur gaman að fótbolta..hatar helvískt flugnasuðið.
Þakkar sínu sæla að HM verður ekki í S-Afríku næstu árin.
Jamm!
En eigi fyrir löngu brá húsfreyja sér ásamt 9 ára djásni
á heimaslóðir sínar í Vestmannaeyjum.
Þar var 17 júní haldinn hátíðlegur...með lágmarks tilkostnaði,
blöðrulaus, barnaskemmtunarlaus og pylsulaus.
Veðrið reyndi að bæta fyrir, með hlýindum og þurrviðri,
þó lítt sæist til þeirrar gulu.
Brugðu þá húsfreyja og systur hennar á það ráð
að smella sér eina herlega reisu á Sjávardýrasafn þeirra
við Heiðaveg.
Þvílík SNILLD!
Frítt inn fyrir börn, 500 kall fyrir fullorðna.
Frábær glerlistasýning í bland við lifandi sjávardýr
gjörsamlega sló í gegn.
Og þegar krakkarnir fengu að vaða með hendur ofan í opið ker
fullt af sjó og taka upp lifandi krabba, ígulker og krossfiska,
var brosað allan hringinn, og brosið fór ekki af andlitum þeirra
það sem eftir lifði dags.
Að vísu var "Kiddi" krabbi í bráðri lífshættu um tíma,
var við það að breytast í "landkrabba"...steindauðan,
svo mikið var hann ofan sjávar, en ljúfur starfsmaður
safnsins benti litla liðinu á mikilvægi þess, að Kiddi krabbi
þyldi aðeins stutt við í einu upp úr sjó.
Litla liðið vildi FLYTJA á safnið, Árni Bæron sagðist geta
sofið á stólunum í fiskibúrasalnum.
Alexander Elí var sá eini sem hafði takmarkaðan áhuga
á lifandi Kiddum og ígulkerum, en mun meiri áhuga á
hálsmenum og öðru skrauti til sölu.
Glysgjarn peyjinn.
Næstu daga var svo klifið langleiðina upp á Molda með
liðið í myljandi þoku og öskugusti...húsfreyja gleymdi
astmapústinu sínu í fjallgönguni...og lá við að hún
steindræpist þegar askan þyrlaðist upp úr mosanum
og inn um vit hennar og kom af stað mergjuðu astmakasti....
þrjóskaðist og fokreiddist og komst upp; fjölskyldufótbolti
spilaður á skólalóðinni, farið að spranga...meira að segja
húsfreyja með sinn "brjósklosaða" hrygg, og rölt í
"500-krónu-búðirnar" eins og níu ára djásnið snarlega skýrði
allar verslanir, sem buðu upp á fallega boli á móður hennar
á 500 krónur.
"Mamma, það er ALLT svo ódýrt í Vestmannaeyjum"!
Je RÆT!
Aðfaranótt sunnudags var svo VESENISTAkapitúli út af
fyrir sig.
Ræs um klukkan 3 að næturlagi, fuglinn hljóður í berginu,
en því meiri hávaði og vesen í ballglöðu mannfólkinu.
Einn einstaklingur í vinsamlegu sambandi við systur í Eyjum
(vinnandi þessa nótt) og systurdóttur (einnig vinnandi þessa nótt),
stóð fyrir "opnu húsi" og ofurgóðri loftræstingu um miðja nótt.
Systir í Þorlákshöfn tók málið mjög alvarlega,
enda vön að sjá sína framtíð glæsta og "útidyrahurðina læsta"
næturlangt.
Settist undir feld í eldhúsinu, stóð vaktina og las í "helgu riti"
í leit að visku og vísum fróðleik er leyst gætu fyrir hana
"galopið" mál þetta.
Húsfreyja mætti á svæðið stutta stund úr hlýju bóli sínu,
fyrirskipaði "læsta hliðarlegu og algjöra hvíld" hinum
"örþreytta, útslegna og hljóðláta" vinsamlega einstaklingi.
Skreið síðan aftur í rúmið.
Systir í Eyjum mætti síðan 2 tímum seinna úr vinnu,
og tókst þeim systrum á undraverðan máta að
leysa "galopna hurðamálið", og koma "þeim vinsamlega"
í öruggt skjól handklæða, stórþvotta og skótaus í
forstofunni.
Og kyrrlát nóttin lagðist yfir grænar hlíðar Heimakletts og Helgafells,
og allir sváfu svefni réttlátra.....nema auðvitað
systurdóttir sem stóð í ströngu við að hnoða niðurfallið fólk og
bjarga blóðugu á sjúkrahús.
Hetja stelpan, er mat húsfreyju.
Aldrei dauður tími í kringum húsfreyju og systur hennar.
En djásnið þarf í kompjúterinn.
Restin af ferðasögunni verður að bíða betri tíma.
Góðar sumarstundir...og gangið hægt um gleðinnar dyr.
![]() |
Vuvuzela-suð í myndböndum á YouTube |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 28.6.2010 kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.6.2010 | 20:27
At í Vatikani.

Ærast nú yfirmenn allir í hinu
háheilaga og æruverðuga vatikani.
Páfinn grætur hástöfum og snýtir sér í hárrauðan kufl sinn
og prestar hlaupa um listilega skreytta Vatikanganga með snýtiklúta,
og þerra vota hvarma preláta og biskupa sinna.
Ó vei!
Þá arma.
Vesalir yfirmenn vatikansin eru sum sé í "losti"!
Hafa orðið fyrir "áfalli"!
Belgar hafa nefnilega tekið upp á því að belgja sig út,
skera upp herör gegn barnaníði presta og eru farnir
að leita sönnurganga vítt og breytt í víðáttum
katólskra kirkna.
Bora jafnvel göt inn í "grafhýsi" dómkirkna í leit
að ósóma og svívirðu.
Húsfreyja er ánægð með framtaksemi Belga.
Ekki það að húsfreyja telji líklegt að steindauðir klerkar
greftraðir í dómkirkjum, séu að misnota eða áreita börn
kynferðislega.
Sei, sei nei.
En veit að mönnum sem stunda barnaníð er ekkert heilagt,
og því skyldu þeir ekki brúka háheilagar grafhvelfingar
undir sína iðju, hafi þeir nokkurn aðgang að þeim.
Jamm.
En páfi er sjálfsagt óhuggandi.
Prelátarnir hafa sjálfsagt ekki getað snætt eina einustu
stórsteik úr eldhúsi Vatikansins síðustu daga fyrir heilagri
örvæntingu og tvöfalt heilagri angist.
Þá er það bara stóra spurningin:
Eru yfirmenn Vatikans í brýnni þörf fyrir áfallahjálp,
vegna angistar þeirra yfir sálardrepandi níði á börnum,
eða eru þeir aðeins að pæla í nokkrum borholum í steinsteypu
á grafhvelfingu í dómkirkju?
Jamm.
Það er ekki alltaf dans á rósum að vera yfirmaður í Vatikaninu,
og merkilegt hve annt þeim er um grafhvelfingar sínar.
En góðar stundir, og gleðjumst með börnum okkar um helgina.
![]() |
Yfirmenn í Vatíkaninu í áfalli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2010 | 17:02
Viti firrtir BRUÐLARAR!
Frónbúar allir sem einn!
Ekki satt Pétur Blöndal?
Takandi "ólögleg" gengislán fyrir bílum sínum,
kaupandi flatskjái grimmt og demba sér
í frí til útlanda í tíma og ótíma.
Ja, svei!
Skítapakk er þetta, búandi hér uppi á litla Fróni, Pétur!
Krimmar!
Glæponar!
Svo bara vælir þetta lið, þegar hirða á af því kofana og
bílana og krakkarnir fá ekkert að éta.
Heimtar leiðréttingu á kolólöglegum lánum,
sem enginn hafði fyrir að vara það við...
bara talið trú um að þetta væru bestu
mögulegu lán í boði.
Jaso!
Asskoti "óheppilegt" hvað landinn er trúgjarn!
Og með "óheppilegan" Hæstarétt, sem fellir
"óheppilega" dóma!
Og bara fjandi "óheppilegt" að það hafi skollið
á kreppa og bankahrun, og enn "óheppilegra"
að einhverja aðgerðir og "óheppilega" dóma þurfi
til, svo hægt verði að bjarga heimilum margra
landsmanna hér uppi á Fróni.
Landsmanna, sem eru hvort eð er aðeins "vitfirrtir bruðlarar",
sem ætíð pissa í skóinn sinn, þegar kemur að
fjármálum.
Eru í allt of lágt launaðri vinnu!
Eiga of barnmarga fjölskyldu.
Keyptu húsnæði miðað við fjölskyldustærð og stöðuga innkomu,
í stað þess að miða við kreppu, bankahrun og atvinnuleysi,
og reisa sér aðeins 50 fermetra bílskúr við Rauðavatn,
undir sig og familíuna, sem hefði verið "heppilegast"!
JAMM!
Menn skitu bóksaflega upp á bak í góðærinu!
Tóku "ólögleg" lán!
Vilja jafnvel fara að ræða "verðtryggingu" á lánum!
Ósvífni!
HÚMBÚKK!
Verðtryggingin er HEILÖG!
Það veit hver heilvita maður!
Bévítans óheppni allt saman!
Húsfreyja er ein af "vitfirrtum og óheppilegum"
ofurbruðlandi íbúum litla Fróns.
Altént hlýtur húsfreyja að stimplast
sem einn slíkur með sitt "gengislán"
á sinni herlegu bifreið og með einn flatskjá
sem hún fékk í arf með láni og öllu saman,
þegar fóstursonur gafst upp á himinháum afborgunum!
Alltaf versnar það, hjá húsfreyju!
Ekki nóg, að húsfreyja sé mergjaður "hryðjuverkamaður"
og snaróður fjármálavitleysingur með kerlingarfáluna hana
"Ísbjörgu" á bakinu, sei, sei nei!
Nú er hún í kaupbæti orðin "óheppilegur bruðlari"!
KRÆST.
Máske ráð að bjalla í danska kónginn og grátbiðja hann
að "hertaka" aftur litla Frón og redda oss örmum og
aumum "óheppilegum bruðlurum".....eða öðrum kosti
"hertaka" ofursparsaman Pétur Blöndal einan og skella honum á "sparneytið"
og ofurhagvæmt svínabú á Fjóni, svo hann losni
við "bruðlandi ófögnuðinn" hér uppi á litla Fróni!
En góðar stundir og vonandi eigið þið marga "óheppilega bruðltíma" á
sólríkum júnídögum.
![]() |
Bruðlurum bjargað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.6.2010 | 21:51
Bzzzzzzzzzz...eða músík?
Húsfreyja var komin í lazyboy-stól sinn.
Dæsti af vellíðan.
Bóndi í "læstri hliðarlegu" í sófanum,
með "fótboltastjarfa" í augum og með
múrað upp í báðar hlustir.
Brassarnir að fara að keppa við
hágrátandi N-Kóreubúa.
Húsfreyja fylgdist með af áhuga....alltaf
gaman að pæla í samspili ólíkra liða.
Bzzzzzzzzzz....!!
Arfaergilegt flugusuð truflaði einbeitingu húsfreyju.
Rauk upp úr sæti sínu.
Andskotinn sjálfur í útlegð á Suður-heimskautalandinu.
Það hlaut að vera komin hersveit af déskotans
vespum á sólpall húsfreyju...eða þaðan af verra
heill "drottningaklúbbur" af geitungum.
MAMMA MÍA!
Húsfreyja þolir ekki geitunga og "stungugetu" þeirra!
Dreif sig inn í stofu og kíkti á pallinn.
Ekki eitt einasta flugukvikindi að sjá í 5 kílómetra
radíus.
Hvað var í gangi?
Húsfreyja snérist á hæl, fór aftur fram.
Flugnagerið ærðist sem aldrei fyrr!
Húsfreyja snarstansaði.
Skrattans suðið kom úr sjónvarpinu!
JASO!
Húsfreyja settist.
Létti svolítið.....og þó!
Pírði áhyggjufull á imbann.
Déskotans vespuóáran var þetta hjá vesaling
Suður-Afríkubúum.
Argvítans ekkisens flugnaplága á Biblíumælikvarða
mætt á fótboltasvæðið.
Og það á miðju H.M.-móti.
Djísuss!
Allt sjálfsagt vaðandi í helvískri flugnaplágu inni á
sjálfum vellinum, og skrattans vespubúin þá staðsett
tugum saman rétt við græjur hljóðupptökufólks.
Bzzzzzz....bzzzzz....bzzzzzz......!
Húsfreyju klæjaði í hársvörðinn af pirraðri örvæntingu
yfir flugnasuðinu og vorkenndi mótshöldurum ægilega.
Öll sjúkrahús sjálfsagt uppfull af sundurstungnum
fótboltabullum í andnauð!
Kannski voru jafnvel "súper-bees" komnar á svæðið!
Húsfreyja sendi kollegum sínum þar syðra samúðarkveðjur í
huganum.
Bzzzz....bzzzzz....bzzzzz...!
Uppgötvaði að hún var alveg búin að missa af öllum
takti við fótboltaleikinn....gafst upp og skellti sér
inn í rúm með "Ösku" eftir Yrsu, og svo Fréttablað
og málgagnið.
Var ekki búin að lesa lengi í blöðum, þegar hana rak í rogastans!
Skrattans flugnasuðið var ekkert skordýraóhljóð eftir allt saman.
Sei, sei nei!
Þeir Suðu-Afríkumenn eru að blása í "lúðra"!
"Vuvuzela" heita gripirnir og eiga að túlka "fílshljóð"!
Eru jafnvel spilað á hljóðfæri þessi með sinfóníuhljómsveitum
þar syðra!
Jamm!
Bzzzz...bzzzzzz...bzzzzz!
Mikið asskoti er að heyra þetta!
FÍLAR!
"Afrískir" fílar að suða líkt og FLUGUR gera upp á litla Fróni,
eru bara ekki að slá í gegn hjá húsfreyju!
Hélt að þeir væru með svona svipuð hljóð og Indverski fíllinn.
Svona hvellt tututruuuuuut-hljóð.
En hvað veit sosum húsfreyja!
Máske eru afrískir fílar bara "flugur"...af stærri gerðinni,
eyru þeirra þá "úrkynjaðir" flugnavængir....eða hvað?
Veit Kári Stefánsson erfðasnilli af þessu?
Jamm!
Eða er mergjuð "hálsbólgu-og hóstapest" máske búin
að vera í gangi hjá afríska fílastofninum árum saman?
Og hvað á "fíla-flugnasuð" sammerkt með H.M. og fótbolta?
Skondið atarna.
En góðar stundir og gangi ykkur vel að "suða" ykkur í gegnum H.M.
![]() |
Eins marks sigur Brasilíu á N-Kóreu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2010 | 13:25
Déskotans hundalíf...
...læða húsfreyju var bálill
.
Hún gjóaði grænum glyrnum á
"tvífættu hárlausu þjónustuna" sína
og "mjarvraði" reiðilega.
Sú "tvífætta, hárlausa" lét sem hún hvorki
heyrði né sæi læðu og hélt áfram að stumra
yfir niðurrigndum sumarblómum sínum á sólpallinum.
"MJAVVRRRR" sýnu hærra en áður....nú yrði það sko
refsing upp á LANGT klór niður eftir berum kálfum
þeirra tvífættu, hárlausu ef hún svaraði ekki.
Húsfreyja rankaði við sér, með ónýta, regnblauta, gula
blómaknúbba í höndunum....árans!
Kötturinn búinn að vefja sér "þrisvar" utan um
steinsúluna!
DJÍSUSS!
"Ertu að reyna að KYRKJA sjálfa þig fyrir hádegi á sunnudegi",
húsfreyja vatt ofan af ketti.
"ÞETTA" var ekki svaravert, að mati læðu.
Hún settist sármóðguð á notalega hlýjan sólpallinn,
gætti sín á blautum polli sem enn hafði ekki þornað í sólinni.
Sólfíflarnir í grænu grasinu reyndu að brosa við sólinni, en ekkisens
flugufans hafði ráðist á þá alla sem einn, og höfuð þeirra voru
að sligast af þunganum.
Læða vorkennndi þeim EKKI NEITT!
Þeir gulu áttu nefnilega einnig "tvífætta" en "fiðraða" þjónustu,
en það "déskotans erkifífl" hafði ekki látið sjá sig enn.
Læðu rann enn meir í skap, og sló rófu sinni vonskulega
í sólpallinn....."árans"...beint í bévítans pollinn.
Hún dæsti mæðulega, lagðist á þurran blett og hóf
að þvo og þurrka skott sitt...."sá tvífætti fiðraði
átti sko ekki von á góðu, þegar honum loks þóknaðist
að sýna sig".
Þytur í lofti.
Læða stökk upp, krypplaði sig niður á magann....
"var fiðraði skollinn mættur"?
"Dirrrrrrrrindííí....dííííí....dííí"!
Lóuherrann beindi "orðum" sínu til húsfreyju og
kvartaði sáran yfir "nærveru og tilvist" kattar á hans
yfirumráðarsvæði.
Húsfreyja hló að fiðraða herranum, og sagði róandi:
"Hvaða, hvaða, hún er í bandi og nær ekki til þín, herra minn".
Sá fiðraði róaðist samstundis, tók að vappa um í brekkunni
og höggva skarð í skordýraflóruna þar....breyttist í
"myndastyttu" þegar Veiðibjalla flaug yfir.
Læða var rasandi kolvitlaus af bræði.
"Hvað var í gangi, hvernig dirfðist þessi fiðraði
spjátrungur að kvarta við HENNAR "tvífættu, hárlausu"
þjónustu...og undan HENNI sjálfri, konunglegri læðu
og æðsta stjórnanda heimilisins"!
"MJAVVVVRRRRR"!
Húsfreyja lægi nú DAUÐ úti á sólpalli, gætu
eitraðar augngotur frá ketti drepið!
"Blííístr"!
AHA!
Læða gleymdi fílunni, "þjónusta" Sólfíflanna var
loksins mættur.
Snaggaralegur Starrasnáði, með gult nef og glansandi
svarta vængi, lenti með glæsilegu svifi..en stuttu, á
miðri lóð.
"COMPLETE STOP" á innan við sekúndubroti.
"Já, og góðan daginn sjálfur", sagði húsfreyja og hló,
"þessa flugtækni þyrftu framleiðendur flugþota að kynna sér"!
Sá fiðraði svarti, horfði svörtum, skörpum augum í kringum sig...
mat stöðuna hárrétt.
"Sú loðna, fjórfætta er bundinn í band...á að giska 3 metra á lengd,
svo ég byrja hér"!
Starrapeyjinn skoppaði að gulum Sólfíflum í nákvæmlega 3 metra og
3 sentimetra fjarlægð frá læðu og sólpalli.
Læða var að tryllast af spenningi...skottið sveiflaðist hægt og
veiðilega...nú skyldi sá "tvífætti fiðraði fá að kenna á því"!
Og svo STÖKK!
VANTAÐI HEILA 3 SENTIMETRA UPP Á, að hún næði þeim arga þrjót.
Starrapeyjinn skoppaði fyrir kurteisissakir 2 sentimetra upp í loftið,
og brá sér að Sólfífli 10 sentimetrum fjær...tikk.tikk..tokk!
Flugurnar voru "dauðans matur"!
Áttu aldrei sjens.
En altént voru þær PAKKSADDAR á banastund.
Starrinn "hreinsaði" hvern einasta Sólfífil af fluguóværunni
á lóð húsfreyju...valhoppaði á milli þeirra, glaðhlakkalegur
og stríðnislegur...virti ekki læðu viðlits.
Flaug yfir á næsta blett!
Þrumuský yfir höfði læðu, skánaði ekki skapið fyrr en
"tvífætta, hárlausa" þjónustan hennar kom og klóraði
henni hressilega, og náði af henni lausum hárum,sem
voru farin að pirra hana ógeðslega.
Húsfreyja lauk blómalífgunartilraunum og kattarklóri, og bauð læðu að koma
inn....læða fleygði sér makindalega á pallinn...afþakkaði pent!
"Kannski að sá tvífætti fiðraði Sólfíflanna kæmi aftur....gleymdi sér
á verðinum....og ÞÁ!
Læða glennti út klærnar, teygði úr sér á sólpallinum
og brosti vinalega til "tvífættu hárlausu"
þjónustunnar, sem hvarf inn í hús að blogga.
Heppin að vera ekki FIÐRUÐ, húsfreyja!
Þar úti á sólpalli er læða húsfreyju ENN.
En sunnudagsbloggi húsfreyju er lokið.
Branda Bárudóttir ....................................
Bloggar | Breytt 23.6.2010 kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)