14.7.2009 | 20:11
Tvöhundruð prósent!
Húsfreyja var aldrei seig í
prósentureikningi hér í den.
Og þó!
Gat alveg reddað sér þegar
verið var að reikna með prósentur
þar sem viðmiðið var 100 % hæst.
Hefur líklega verið á salerninu í Emm Err
með mergjaða steinsmugu af stressi,
þá lærifaðir mentskælinga kenndi 200%-útreikninginn.
Enda botnar húsfreyja lítið í tölum þeim sem nefndar
eru í frétt þessari...3-4.000 milljarðar.
Getur gott eins skroppið út í garð á fagurri
síðsumarsnótt, og dundað sér við að telja stjörnurnar
á himninum og fengið út álika gæfulega og óskiljanlega tölu.
Og húsfreyja telur sig ekki mikið bættari....eða mikið verri ef út
í það er farið, þó hún viti nú að heildarskuldir þjóðarbúsins stefni í að
verða meira en "200 %"!
Og lífið heldur áfram!
Og nú virðist vera komin á kreik mergjuð "Dabba-afturganga"
í Seðlabanka vorum Frónbúanna....úúúú!
Allt í hávaða á þinginu í dag, þar sem
menn töldu jafnvel "vel tölufrótt" fólk vera í
vinnu hjá "afsögðum" og burthorfnum Dabbanum.
Virðist jafnvel húsfreyju sem andi fyrrum seðlabankastjóra
reiki þar grimmt um Seðlabankaganga, og ráði fólk í vinnu til sín
tvist og bast, og gefi fyrirmæli um hverju skuli svara og
"hverja" skuli upplýsa um mikilvæga pappíra, skjöl og málefni.
Bara eitt!
Dabbi er, síðast þá húsfreyja fregnaði, enn í tölu "lifenda"!
Og menn eiga asskoti erfitt með vik að ganga aftur,
séu þeir ekki steindauðir.
En auðvitað getur Dabbinn haft fólk í vinnu hjá sér,
ef honum svo sýnist.
Hélt bara húsfreyja að seðlabankafólk hefði nóg að gera
á sínum vinnustað, og að lítill tími væri hjá því til að
sinna Dabba og hans áhugamálum svona í hjáverkum.
En hvað veit húsfreyja.
Máske bara bullandi, pollrólegt starf að vinna í
Seðlabanka litla Fróns í miðju bankahruni?
Dól! Dudd! Og snudd?
Jamm.
Hvað veit maður?
Veit bara húsfreyja, að þegar upp er staðið eru peningar
aðeins pappír.
Pappír tekinn úr skógum móður jarðar, brúkaðir af flestum
sem þægindaauki til að verðleggja vinnu sína og til að
losna við bein og seinleg vöruskipti.
Forgengilegir hlutir sem eru ágætir til síns brúks,
en langt frá því að vera það sem skiptir megin
máli í þessu lífi.
Góð heilsa verður til dæmis aldrei metin til fjár.
Og þá ekki traustur vinur eða elskuleg og stórbrotin
fjölskylda.
Hver verður að finna fyrir sig hvað það er,
sem gefur lífinu gildi.
En 200% og 3-4.000 milljarðar er fínt mál fyrir fólk sem
nennir að "telja" svo hátt, hefur gaman af útreikningum og tölum,
og er flinkt í "störfum" fyrir afturgöngur.
Góðar stundir.
![]() |
Stefna í að vera yfir 200% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.7.2009 | 18:33
Skrapp í laugina...
...í hádeginu húsfreyja, með
átta ára djásninu og bónda.
Sat í hitakæsunni
á sundlaugarbarminum.
Skrapp svo í HEITU pottana og
KÆLDI sig, húsfreyja.
Laugin var tandurhrein og vatnið tært,
og starfsmenn á þönum að halda
öllu hreinu og fínu þrátt fyrir nánast
"lamandi" hitann.
Það var "hrein unun" að koma í Grafarvogslaug
í dag, þrátt fyrir að vart væri þverfótað í
pottum fyrir foreldrum með börn, börnum með
foreldra, unglingum að bæta í brúnkuna,
ellismellum að njóta lífsins og húsfreyjum
að meta "hreinlætisstaðal" sundlaugarinnar....
.....eehemm!
Bara getum ekki að þessu gert, húsfreyjurnar!
Er svona "ávanabindandi" eitthvað!
Allt múttu að kenna, uppeldinu og hreinlætisæðinu sem
tröllreið öllu eftir menn fóru að sjá "bakteríur"
og vírusa í smásjám!
OJ BARA
Jamm!
Smásjáin svona heldur óhuggulegt verkfæri
að mati húsfreyju, og eitt það hrikalegasta sem
hún varð að horfa í gegnum þá hún stundaði
hjúkrunafræðinám sitt.
Klæjaði vikum saman eftir að hafa rýnt í eitt
slíkt í sýkla-og veirufræðitíma.
Umhverfið er allt "kvikt og morandi"!
Brrrrr....og bjakk!
Hrollur!
En treystið bara að húsfreyja sé að segja
satt!
Farið ekki að kíkja í smásjár!
Það er bara fyrir hraustar taugar að berja slíkt augum!
BELIEVE AND TRUST!
En huggun harmi í: Allt þetta kvika hefur sinn tilgang hér
á jörð, og mannskepnan þarf á þessu "smotterísliði" að
halda til þess eins að lifa af!
Er "flest allt" að gera okkur gagn, þrátt fyrir miður fallegt
útlit (ekki er öll fegurð í "andliti" fólgin....ef andlitið yfirhöfuð finnst á ÞESSU).
Það eru bara þessir "ógagnlegu" og jafnvel oggulítið "hættulegu"
sem stundum bögga húsfreyju.....og allt mannkyn ef út í það er farið.
En jafnvel slíkt "micro-lið" hefur sjaldnast nokkuð í sterkt ofnæmiskerfi
mannsins að gera.
Finnum upp "mótefni"við öllu saman, og strádrepum þá ógagnlegu
næst er þeir berja dyra.
Stórkostleg sköpun mannslíkaminn.
Og þvílíkt innra vélvirki.
Þvílíkar innri varnir, mótstaða, seigla...og einhver
furðulegur "að komast af-vilji"!
Jamm... en þetta var nú einkennilegur útúrdúr hjá
húsfreyju...ætlaði að blogga smá um veðrið og sumarið.
Átta ára djásnið þrælaði móður sinni að sjálfsögðu upp
í stóru rennibrautina, heila salibunu með öldugangi upp á
2 metra þegar hún mætti niður.
Vatn gutlar svo vinalega í vinstri hlust húsfreyju eftir
renniríið....en húsfreyja hefur ekki nokkrar áhyggjur
af því, vatnið var svo hreint og tært!
Nú farið að styttast í sumarfrí húsfreyju.
HALLELÚJA!
Oft verið nauðsyn.
En nú er ÞÖRF!
Þrauka eina vinnuviku í viðbót,
og halda svo á vit sumars, ferðalaga og ævintýra......nú eða bara í
tandurhreina sundlaugina í Grafarvoginum!
Bóndi lofaði að grilla í kvöld í blíðunni...og það þó að
hann sé ennþá sjónvarpslaus eftir "harakiri" þess gamla.
Húsfreyja búin að henda bökuðu kartöflunum í ofninn.
Maíisinn inn næst!
Góðar sólarstundir!
![]() |
Stefnir í heitasta dag sumars |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 21.7.2009 kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.7.2009 | 19:49
Redd'essu!
Skondin frétt atarna.
Húsfreyja hrifin af þankagangi farþegans,
sem svo heppilega vildi til að var einnig flugvirki!
Minnir hana þægilega á frónverska klisju:
"Þetta er ekkert mál, það er bara að redd'essu
í snarheitum".
Væri gaman að vita hvers lenskur tímasparandi og
"flugvélavænn" farþeginn í biluðu vélinni var.
Húsfreyja hefur sjálf lent í tvisvar í 16 tíma töfum
á flugvöllum.
Bæði skiptin hér í Leifsstöð vegna ....já flugvélarbilunar í eitt sinn,
en í seinna skiptið vegna vandræðagangs og óskipulags
ferðaskrifstofu hér uppi á litla Fróni.
Löng bið á millilandaflugvöllum, er bara ávísun á
stíftrekktar taugar, dauða-leiðindi, sívaxandi óðaþörf fyrir
að standa upp á Formicaborði og orga af lífs og sálar kröftum,
og bölv og ragn sem myndi jafnvel ofbjóða andskotanum
í útlegð á Suðurheimskautalandinu.
Vildi húsfreyja gjarnan að flugfélög hefðu það fyrir sið
að bjóða "flugvirkjum" frítt í ferðir sínar erlendis, gegn því
að þeir "redduðu" svona yfirvofandi 8-16 klst. bilunum,
á innan við klukkustund.
Það boðaði bara hamingju og gleði fyrir þá sem enn hafa
efni á að ferðast milli landa í krepputíð!
Góðar stundir!
![]() |
Farþegi gerði við flugvélina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2009 | 17:43
Skjölin hans Davíðs.
Það var og.
Davíð vill "Ísbjörgu" fyrir dómstólana.
Vísar í "skjöl" sem enginn virðist hafa
séð nema háttvirtur Davíð Oddson.
Vísar í "óbirt gögn"!
Húsfreyja viðurkennir alveg, að hún hefur
ALDREI lesið "óbirt gögn"!
Því síður hefur hún kynnt sér "ófinnanleg skjöl" Davíðs.
Hélt reyndar að slíkir sneplar væru lítt teknir gildir
fyrir dómstólum, húsfreyja.
Taldi að dómendur og málaflutningsmenn vildu
hafa sína pappíra á tæru, þá rekin væru mál fyrir
dómi.
Að frónverskir dómstólar sæktust eftir "finnanlegum skjölum"
og "birtum gögnum"!
Og Davíð talar um skjöl og gögn í Englandsbanka....Seðlabanka....forsætisráðuneyti..
...bara út um allar trissur.
Húsfreyja teldi lágmark að einhver annar en Davíð fengi
að lesa öll þessi skjöl og gögn, eigi Frónbúar að skella "Ísbjargarmálinu"
fyrir dómstóla.
En hvað veit húsfreyja?
Máske eru dómstólar á litla Fróni komnir með splunkunýjar
"Davíðsreglur" um dómsskjöl sín?
Öll höfð "ófinnanleg og óbirt"!?
Húsfreyja er lítt hrifin af því að sitja uppi með "Ísbjargarreikninginn",
líkt og aðrir landsmenn.
Kærir sig ekkert um að elskulegt átta ára djásnið hennar,
sé skuldum vafið um alla ókomna framtíð vegna
sukks og svínarís á framagosum, útrásarvíkingum og
miður peningavitrum bankastjórum.
En það er kreppa víðar en á litla Fróni, og margir erlendis
treystu frónverska sukkliðinu fyrir peningum sínum.
Og frónverska ríkisstjórnin og þjóðin sjálf sváfu á verðinum,
í öllum uppgangnum og braskinu...(að meðtaldri húsfreyju) og nú er
bara komið að skuldadögum.....því er nú verr.
Nema auðvitað að við finnum "gögnin og skjölin"
hans Davíðs.
Hmmmm....skildi hann nokkuð hafa tekið "ljósrit".....?
En húsfreyja vill gjarnan senda "ráðagóðum og skjalvísum"
Davíð smá gullkorn svona að lokum:
"Þú munt aldrei vita hvað er nóg-
nema þú vitir hvað er einum of mikið".
(William Blake-1757-1832)
Góðar stundir.
![]() |
Fréttaskýring: Einhver barnaskapur sem nær bara engri átt“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.7.2009 | 16:07
Sverðbardagar og stigahlaup...
...var megin þemað á
Goslokamorgni hjá húsfreyju í gær.
Frændurnir Alexander (4 ára) og
Marinó (3 ára), voru í miklum bardagaham.
Koddar voru teknir af lífi án dóms og laga...með mörgum banastungum.
Tílkin Perla var skúrkur mikill, og höggin
dundu á afturenda hennar, dirfðist hún að dóla sér upp
í barnaherbergið.
En mest börðu þeir þó hvor annan, frændurnir.
Klögumál og kærur gengu þar með til sjálfskipaðra
dómara, sem fullorðna fólkið var.
Sentust upp og niður brattan stigann í húsi
systur í Eyjum, á háa séinu af orgi vegna sverðhögga
eða sigri hrósandi yfir að hafa komið höggi á andstæðinginn.
Átta ára djásnið horfði kúguppgefinn á þessa bardgafrændur sína,
skellti "Chiuváva"-teiknimyndinni í DVD-spilarann.
Friður komst á óvænt, þá frændurnir uppgötvuðu
myndina um Chiuváva-tíkina í ekkisens vanda og bardúsi
í Mexikó.
Húsfreyja og Heimir dæstu af létti, og tóku eitt skraf (Scrabble).
Systir í Eyjum birtist eftir næturvinnu á veitingastað,
fékk að leggja sig í 3 klst. en systurdóttir sem hafði verið
að störfum á sama veitingastað til kl. 3 um nóttina,
dreif sig á fætur rétt fyrir hádegið.
Gert klárt "úthaldið" eftir hádegissnarl.
Litla liðið gallað upp, enda úðaregn.
Sparisjóðsdagur í góðum gír, þá mætt var um tvöleytið
niður í bæ.
Hoppukastalar.
Blöðrur.
Sleikjó.
Gos....til drykkjar (víst betra að taka það fram hér).
Týrsmerki á ísskápinn keypt.
Systurdóttir fékk Týrslyklakyppu.
Söl.
Rölt að skoða dýralífið á sjávardýrasafni þeirra Eyjamanna.
Peyjarnir meira uppteknir af sölinni en lifandi sjávardýrum,
en loks fönguðu 2 lifandi skjaldbökur hugi þeirra, og þær
stroknar og skoðaðar í gríð og erg.
Eftir safnið spratt upp töluverð "dorg- og önglaumræða".
Heimi, sambýlismann systurdóttur langaði niður á höfn
að dorga því stytt hafði upp og veður orðið hið besta.
En Eyjamenn láta ekki öngla sína liggja á lausu, halda þeim
nærri eigin afturendum og fiskilínum og fundust engir
slíkir til sölu í opnum verslunum og sjoppum.
Skroppið heim í smá-pásu...systir aftur á veitingastað að
redda uppvaskinu.
Húsfreyja splæsti kjúlla á liðið og hammara á Heimi.
Systir mætti hálf níu um kvöldið.
Gert klárt í snatri, og liðinu ruslað niður í Skvísusund.
Þar barnaball í Pippuhúsi, eldgleypar uppi á Erlingskró,
Alexander týndur í 10 mínútur, angist 8 ára djásnsins yfir auraleysi
móðurinnar...."og það er hægt að kaupa CANDYFLOS, mamma",
rölt niður í hraðbanka, tekinn út aur fyrir candyflosi.
Pólverjar tveir á einmannlegri göngu í eldheitum umræðum á
aðalgötu bæjarins...."skyldu þeir hafa litlar upplýsingar um
fjörið í Skvísusundi"?...húsfreyja horfði hugsandi á eftir þeim
Aftur rölt í Skvísusund, þar dúndur stemming, söngur, dans og gleði
fram að miðnætti.
Litla liðið geislaði allt á meðan sólin seig til hlés bak við Klifið.
Meira að segja peyjarnir gleymdu sverðaslagnum ægilega,
Alexander að vísu týndur í 3 mínútur en
átta ára djásnið var eitt bros með sitt Candyflos....."mammma,
þetta eru svo skemmtileg lög.....ég kann þau öll"....og svo
söng hún af hjartans lyst.
Var rölt heim upp úr miðnætti.
Liðið alsælt, peyjarnir syngjandi á háhest hjá systurdóttur og Heimi....
átta ára djásnið fékk að hvíla lúna fætur í kerru þess yngri.
Örlagaþreyta er heim kom.
Smá þras hjá peyjunum yfir "sverði"....aha...sverði.
Húsfreyja pakkaði niður í skyndi, litla liðið sett í tannburstun
og svo háttinn.
Ræs klukkan átta í morgun.
Húsfreyja og átta ára djásnið með systur upp á flugvöll.
Mættar í regnvota Reykjavík rétt fyrir klukkan tíu, því það hafði
orðið smá seinkun á fluginu.
Flott Goslokahátíð og gaman að hitta góða ættingja í Eyjum.
Bara eitt!
Sjónvarpið framdi "harakiri" 10 mínútum eftir að húsfreyja
datt inn úr dyrum heima hjá sér....hátt hvæs......brunalykt
og það var steindautt!
Bónda var ekki skemmt.
Djásnið horfði bara á barnaefnið í sínu eigin litla tæki.
Húsfreyja gekk frá farangri og dóti, og læddi sér inn í rúm
undir miður fögrum athugasemdum bónda um "sjónvörp
sem fremja harakiri" á versta tíma.....steinsofnaði.
Lítur út fyrir að verða ein besta helgi sumarsins.....þessi hér.
Góðar stundir.
![]() |
Mikil ölvun en átakalítið á goslokahátíð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2009 | 14:07
Amerísk alvörurannsókn....
....hárvöruframleiðanda á
hamingju kvenna.
Ef húsfreyju misminnir ekki,
var hún og vinkonur hennar flestar
í mergjaðri "tilvistarkrísu" um 28 ára aldurinn.
Þær sem höfðu gift sig og eignast börn snemma,
voru annað hvort að jafna sig eftir skilnað, eða að
pæla í því að skilja.
Þær ógiftu voru flestar metnaðarfullar konur,
sem áttu í sífelldu stríði við forpokaða yfirmenn og
og stjórnendur.....um leið og þær börðust fyrir
"hærri launum" svo þær hefðu efni á húsaleigunni.
Júmm, þetta var nefnilega á óðaverðbólguárunum
eftir slatta djúpa kreppu á árunum '75 til '85.
Svo lífið var ekkert dans á rósum árið 1988 hjá
konum Frónbúa.
Hamingjan svona fjarlægt markmið í óræðri framtíð!
Jú, jú, auðvitað var skroppið á djammið einu sinni
til tvisar í mánuði, bíóferðir og vinnupartý....ef efni leyfðu.
En velta varð hverri krónu á milli handanna, og
þær sem unnu í heilbrigðisstéttinni líkt og húsfreyja
og vinkonur hennar, unnu 120-150 prósent starf
með því að vinna aukavaktir....til þess eins að hafa
efni á húsnæði, fæði og þokkalegum fatnaði dags daglega.
Og þá varð nú lífið oft: VINNA, borða, sofa, VINNA, borða, sofa-
hringrás, og lítið hægt að gera sér til skemmtunar eða
hafa tíma í tómstundir.
Gleði hvers dags lá í því að hafa hjálpað sjúkum og
slösuðum.
Að hafa staðið sig vel í starfinu.
Að taka einn dag í einu, og vera sáttur við
lífið og tilveruna.....við Guð og menn.
Hjá 28 ára frónverskum konum á því herrans ári 2009,
eru málin kannski ekkert ósvipuð og árið 1988.
Kreppa aftur skollin á, álag á konur með fjölskyldur eykst,
skilnaðir/sambúðarslit þar með rétt handan við hornið,
þær útivinnandi, "lausu og liðugu" vinna þrotlaust
til þess eins að komast af.
Jamm, en máski nota þær 28 ára hér á litla Fróni
bara ekki "réttu hárvörurnar"!?
Eiga skella sér á Clairol-sjampóbrúsa stútfulla
af "gleði og hamingju" til handa öllum konum!
Hrikalegt að klikka svona á þessu, þarna um árið 1988.
Húsfreyja hefði getað verið á bullandi "hamingjuflippi"
árum saman á meðan kreppustússið gekk yfir!
Gengið um (með tandurhreint hár) syngjandi á háa séinu:
"Hamingjan er það besta af öllu..."
niður Laugarveginn þá fáu daga sem hún átti frí,
og algjörlega sleppt því að dæsa yfir allri dýrðinni
í búðargluggunum, sem hún hafði ekki efni á að kaupa.
Hefur ENN ekki efni á, og mun sjálfsagt aldrei hafa efni á....
en merkilegt nokk skiptir hana engu máli í dag.
Eru allt dauðir og forgengilegir hlutir, sem skipta litlu sem engu
í þessu stutta jarðlífi okkar.
Veita heldur enga hamingju.
Kærleikur í mannlegum samskiptum,
gleðibros lítillar stúlku,
lítil hendi í lófa þínum, full trausts,
þakklæti í gömlu rúnum ristu andliti,
skondin og skemmtileg vísnabók,
gömul ljósmynd af heimaslóð,
Latabæjarlögin sungin af 8 ára heimasætunni á háa séinu...14 sinnum í strekk,
leiftrandi fegurð sólarlagsins út um eldhúsgluggann
er allt miklu líklegra til að gefa sanna hamingju.
Og hér talar húsfreyja af reynslu.
Hefur sjaldan eða aldrei verið hamingjusamari húsfreyja,
en á þessu 48 aldursári sínu....hvað svo sem öllum
"Clairol-hamingjurannsóknum" líður.
Megi öll ykkar sólarlög, kæru 28 ára konur, verða jafn falleg og
húsfreyju.
Góðar stundir.
![]() |
Konur hamingjusamastar 28 ára |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.6.2009 | 20:25
Fyrirsögnin hitti....
....húsfreyju beint í hjartastað.
Enda ber konan sama skírnarnafn
og hún.
Gleður það húsfreyju mjög að
"Sigríður þessi" sé eigi vanhæf, og vonar
heitt og innilega að nefndin drífi sig nú að
störfum þeim er fyrir liggja, en hætti að
tjá sig um hlutina fyrirfram í fjölmiðlum.
Vill hún að nefndin skili heiðarlegum og ábyrgum niðurstöðum
og helst fyrir lok árs 2009!
En þar sem húsfreyja þekkir vel til vinnubragða
"nefnda" hér upp á Fróni,
verður hún víst að gefa nefndarfólki smá sjens,
og óskar eftir niðurstöðum eigi síðar, en þegar Frónbúar borga síðustu greiðsluna
í "Ísbjargarmálinu" (Icesave), eða í "allra allra" síðasta
lagi þegar bretarnir hætta að flykkjast til landsins
að skoða "mergjaða hryðjuverkamenn".
Voru annars skemmtilegar og skondnar fréttir á sveimi
í dag.
Johnsen lundalaus, komin með "kalkúna" í bjargsig
út í "úteyjar".
Er sjálfsagt búinn að kaupa inn einhvern helv...
helling af "risastórum háfum" fyrir kalkúnaveiðina
Eyjamanna, þá gott fuglakjöt vantar á Þjóðarann!
Bíst húsfreyja við, að það verði lítið mál fyrir Johnsen
að "kenna" kalkúnum þessum "flugtökin" og verður gaman að
sjá "flykkin" svífa tignarlega yfir Eliðaey og Bjarnarey...og
"gloggglogggglogg-söngur" þeirra mun bergmála um Dalinn
í stað hins hefðbunda ...aaaaaaaaa.. lundans.
Nú ef ekki gengur að kenna hæsnfuglunum flugið,
má altént alltaf gefa þeim ærlegt spark í afturendann
fram af næstu bjargbrún...... beint í rúmgóðan
háf bjargklífandi veiðimanns!
Jamm....snilld Johnsen og félaga er við brugðið!
Svo fannst húsfreyju þeir efnilegir líkkistusmiðirnir
á Suðurnesjunum.
Þar er náttúrulega "eilífðarbíssness" kominn af stað hjá
þeim.
"Endalaus" eftirspurn eftir glæsilegum viðarhylkjum,
og kúnnarnir "pottþéttir".......þarf nánast ekkert að
auglýsa, þörfin er svo mikil og jöfn.
Suðurnesjamenn geta farið út í bísnness þennan
af "dauðans alvöru", fjárfest í öruggum "endalokum"
kúnnanna....og þess vegna jafnvel tryggt afkomendum sínum
"elífðarstarf" með 100% gróða.....um alla ókomna tíð.
Þurfa Suðurnesjamenn máske að ræða við Skógræktarmenn Ríkisins um
að herða á "ræktun trjáa" hér uppi á litla Fróni, og
frábiðja sér "skógarruplandi Trölla" í bæjarstjórnir
í lengstu lög....en eru að öðru leyti í bísna góðum málum.
Jamm, allt í góðum gír hjá "bankahrunshrjáðum" Frónbúum,
og okkur leggst alltaf eitthvað til.
En karl húsfreyju þarf í kompjúterinn.
Góðar stundir og gleðilegan kalkúnaríkan Þjóðara.
![]() |
Sigríður ekki vanhæf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.6.2009 | 17:49
Snaggaralegt...
...og hnitmiðað hjá Sarkozy.
Húsfreyja 100% sammála honum hér.
Hefur þó ekki alltaf verið á sömu nótum
og sá franski.
En kartöflupokabúningur sá er "búrka"
kallast hjá islamatrúuðum, er bara
forljótur andskoti sem karlar islama
hafa uppfundið til að kúga konur sínar.
Eða svo metur húsfreyja stöðuna.
"Ett hár er eins og þúsund rýtingar í hjartað"...
er einn karlmaður látinn öskra á Sally Field í
kvikmyndinni "Not without my daughter".
Jamm, EITT sýnilegt hár á höfði konu eins og
1000 rýtingar í hjartað!
Viðkvæmar sálir islamatrúaðir karlmenn, fyrst
eitt konuhár veldur þeim þvílíkum kvölum í hjarta.
Nema auðvitað að allflestir islamatrúaðir karlar hafi
sérlega slæman "hjartasjúkdóm" sem á dularfullan
máta tengist hárfari kvenna.
Dettur þá húsfreyju í hug að "sköllótta" tískan,
sem karlar margir, sem og sumar konur á vesturlöndum
hafa aðhyllst, gæti verið lausn á hættulegum
"kvennhárs-hjartasjúkdóm" þessum.
Bara skreppa í rakstur reglulega, og þær gætu
látið vind, sól og regn leika um ,höfuð, andlit og háls
reglulega og þegar þeim hentaði.
Og það án þess að eiga það á hættu að bóndi þeirra fengi "slag".
En þetta var nú grín hjá húsfreyju.
Meiri endaleysan þessi "klæðast-búrku-til-að-sýna-virðingu-heilaþvottur"
á islömskum konum, að mati húsfreyju.
Virðingu fyrir hverju?
Svo sannarlega ekki fyrir sjálfum sér, eigin andliti og líkama.
Eða eigin verðleikum, getu og skoðunum.
Að þær skuli kaupa þetta, blessaðar.
Umbera og þola skrípabúninginn.
Löðursveittar í pokum.
Óþekkjanlegar á götum úti...ef þær mega þá skreppa
yfir götuna yfir höfuð að versla í matinn.
Undirgefnar, nærri ósýnilegar, virtar til hálfs við karla sína
úti í þjóðfélögum islama.
Húsfreyju verður hálf bumbult að hugsa um aðbúnað
margra islama kvenna í heiminum í dag.
Er þakklát fyrir að ekki eru allir islamar uppteknir
af búrkuklæðnaði og kúgun kvenna, en finnst hugsunin
um hina er slíkt aðhyllast óþolandi.
Kjúlli næst.
Góðar stundir.
![]() |
Sarkozy: Búrka tákn undirgefni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2009 | 14:56
Viðeyjarsund...brrrr.
"Þetta eru hetjur, hjálparsveitarmenn"
hugsaði húsfreyja, er hún las frétt
þessa.
Man sjálf ískalda busl-og baðdaga í
Klaufinni eða Eiðinu í Eyjum hér í den.
Þrátt fyrir sólskin og sumarhita, var sjór
við Eyjar aldrei hlýr.
Nístingskaldur ef satt skal segja, og húsfreyja og
vinkonur hennar helbláar eftir stutta stund í sjónum.
Foreldrar húsfreyju og vinkvenna lítt hrifnir þegar
skotturnar komu haugblautar og heim með
bláar varir um hásumar.
Fengu mergjaða fyrirlestra um hættulegar öldur,
krampa af völdum kulda og svo framvegis....og
þær lofuðu öllu fögru, upp á æru og trú.....og
að sjálfsögðu skelltu þær sér aftur í sjóinn á næsta
sólríka sumardegi.
Sjálf hefur húsfreyja hugsað hlýlega út í Viðey
síðustu daga.
Fékk fjögur frændsystkin, börn systra húsfreyju
í heimsókn og gistingu yfir helgina.
Liðið er á aldrinum 7 - 10 ára, og átta ára djásnið
er alsæl að hafa fengið þau í heimsókn.
Í gær ruslaði húsfreyja liðinu upp í strætó
(vill vara við óheiðarlegum pólskum strætisvagnsstjórum hér,
húsfreyja...svikulir fégráðugir krimmar allt saman) og dreif
það niður í Fjölskyldu- og Húsdýragarð.
Sól skein í heiði, húsfreyja með kex, vatn, gos og
smá nammi í nesti.
Svalan (10 ára) var búin að berja Siggann (8 ára)
í augað "óvart" áður en hópurinn komst í
tæri við aðalinnganginn í garðinn.
Sigginn fékk grátkast, Svalan skömmuð fyrir
óvarkárnina, Svalan í fílu med det samme.
En inn í garð kom húsfreyja liðinu.
Dýrin skoðuð með hraði, og svo farið í
Fjölskyldugarðinn.
Lestin fyrst, svo bílarnir....Báran fékk grátkast
yfir biluðu "hæggengu" hvítu bílhræi.
Húsfreyja sendi hana annan hring í betri grænum bíl.
Þá var það "gröfurnar", nesti snætt og farið í
Krakkafoss.
Eldri strákarnir, Aron og Siggi svekktu Árna Bæron(7 ára)
svo húsfreyja gaf Bæroni síðasta miðann, og sá stutti
skellti sér í boltabyssuleik.
Aron (9 ára) tapaði sér af bræði og fílu vegna miðans,
strauk á braut í kasti.
Týndur!
Jamm!
Húsfreyja fór með fjórmenningana á trampolínið, og
svipaðist um eftir burtstrokna fíluguttanum.
Gerði svo liðið út af örkinni að leita.
Svalan og Sigginn fundu Aron.
Tjaldið næst.
Liðinu ruslað upp í næsta strætó og heim rúmlega
fimm um eftirmiðdaginn.
Liðið ræddi við húsfreyju annað ferðalag daginn eftir,
að "gera eitthvað skemmtilegt"!
Húsfreyja tók dræmt í málið, sagðist úrvinda eftir
fílur, grátköst og leit og þyrfti að öllum líkindum
að hvíla sig vel daginn eftir.
Liðið óvenju prútt og þögult í strætó, og húsfreyja og
bóndi græjuðu grillaða hammara og pítur í liðið
er heim kom.
Báran fékk að vera úti með liðið til hálftíu í leik og fjöri,
náði reyndar að blóðga á sér hnéð ,djásnið, en í rúmið
komu húsfreyja og bóndið liðinu um ellefuleytið.
Það var RÆS klukkan 02:28.
Sigginn að farast af kláða í höfðinu.
Taldi sig kominn með lús.
Húsfreyja svefndrukkinn fram á bað með
peyjann.
Enga fann hún lúsina í hársverðinum, en nokkrar rauðar bólur,
"sólarexem-grunsamlegar".
Mildizonekremi skellt í hársvörð guttans, sem fór
dauðfeginn, kláðalus og lúsarlaus að sofa.
Bóndi axlarbrotinn, allur undinn og skakkur
vaknaði einnig, svo húsfreyja fór og fann honum
rými í harðari sófa frammi í stofu.
Ætlaði aldrei að sofna aftur, húsfreyja, en náði því líklega
aftur upp úr 04:00.
Liðið var rotað til rúmlega 10.
Húsfreyja rótaði sér á fætur.
Ristaði 12 brauðsneiðar með smjöri og kavíar.
Fann til engjaþykkni fyrir tvo.
Einar besti vinur mætti.
Allir út í leik....himnasæla!
Húsfreyja fór í bað, komst að í kompjúternum,
og er nú að hugsa um að hafa liðið rólegt heima við,
þar sem það er sest niður að horfa á "Looney Toons".
Gleði inn!
Friður inn!
Hamingja inn!
Fíluköst út!
Grátköst út!
Lúsarkláði út!
Megi allar 5 barna mæður eiga friðsamar og ljúfar
stundir, lágmark korter á viku hverri.
Annars er þá bara að kaupa sér ferð fyrir EINN út í Viðey,
AÐRA LEIÐINA af og til yfir árið, eins og húsfreyju er farið að dreyma um!
Góðar stundir.
![]() |
Syntu út í Viðey |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 21.6.2009 kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.6.2009 | 20:25
Á biðstofunni.
Klukkan var ekki 9 að morgni.
Samt þegar 3-4 hræður á biðstofu/gangi
göngudeildarinnar í Fossvoginum.
Bóndi húsfreyju fór að glugga með
smá rifu eftir endilöngu glerinu.
Maður á undan honum.
"Kennitala" sagði hvöss rödd ákveðið.
Manninn gaf upp kennitölu.
"HA"...eilítill pirringur kominn líka í hvössu röddina.
Maðurinn endurtók kennitölu hærra og hægar.
"Bíddu....403....endurtaktu 4 síðustu tölurnar",
sú hvassa að farast af pirringi.
Maðurinn límdi ennið við gluggarúðuna og nánast
orgaði kennitöluna sína inn til afgreiðsludömunnar.
Húsfreyja var sest andspænis afgreiðslunni, og beið
spennt eftir framvindu mála, og því að fá að berja
þá hvössu, pirruðu augum.
"Farðu þarna inn og borgaðu" hreytti sú hvassa
út úr sér við manninn, kt. 040654-4039...það vissu
nú allir á biðstofunni.
"040654-4039" leit ábúðarfullur á bónda, og hraðaði
sér inn um dyr til hægri.
Sú hvassa, pirraða blasti við yfir öxl bónda.
Svart hár, uppsett, ekki ómyndarleg en augun
grimm og munnurinn eitt logarautt "strik"!
"Ertu að koma til læknis eða í endurkomu" spýtti
sú hvassa illskulega út úr sér við bónda.
"Endurkomu" svaraði bóndi kurteislega.
"Kennitölu" sú hvassa var komin í ham!
Bóndi gaf hana upp með aðeins einu "HAi"
frá pirruðu dömunni og einni endurtekningu
á allri kennitölunni.
"Sestu þarna, þú verður sóttur".
Sú pirraða hvolfdi í sig kaffi, sem húsfreyja
ímyndaði sér að væri bikasvart og velgjuvolgt.
Bóndi tyllti sér hjá húsfreyju.
Ólétt ung kona í svörtum þröngum kjól
og leggings, hafði komið inn með handleggsbrotna
dóttur á að giska 10 ára.
Hafði flækst að röngum glugga, sú ólétta, 3 skref frá
þeim rétta með hvössu pirruðu dömunni.
Stóð þar og tuggði tyggjó og blikkaði handleggsbrotna
dótturina.
"Ætlarðu að koma hingað" galaði sú pirraða með
sínum hvassasta broddi.
Sú ólétta hvorki heyrði hana né sá.
"Komdu HINGAÐ" sú arfapirraða var staðinn upp
af einskærri vonsku, með andliti klesst upp að gluggarifunni.
Sú ólétta greinilega annars hugar og hreyfði sig ekki.
Sú pirraða var eitt óveðurský í framan, skellti sér aftur í stólinn
dró djúpt andann, og orgaði í átt til þeirra óléttu:
"Ætlarðu ekki að koma HINGAÐ"?
Dóttirin varð vör við einhvern hávaða innan við glerið,
og ýtti við móður sinni.
Sú ólétta sá að annar afgreiðslugluggi var opinn og færði sig.
Sú hvassa, pirraða hvessti grimmdarlegum augunum á
mæðgurnar, heimtaði kennitölu...þrisvar og skipaði þeim
að setjast og bíða...það yrði kallað á þær.
Bóndi kallaður inn.
Gamlingi með göngugifs kom höktandi eftir ganginum,
með hækjur og með konu sína á eftir sér.
Sú gamla handviss um að þau hefðu ratað í ógöngur og
væru orðin rammvillt...."vinur, þetta er nú eitthvað skrítið...
...við áttum áreiðanlega að fara í blóðprufur fyrst....eigum við
ekki að fara aftur niður....spyrja til vegar"!
Karl svaraði engu.
Æddi beint að búri hvössu pirruðu dömunnar.
"Góðan dag fröken, á að mæta í endurkomu út
af þessu lappabroti".
Gamli með sitt á hreinu.
"Kennitölu" urraði sú pirraða, hvassa.
Karl þagði.
"Kennitöluna þína" galaði sú pirraða hærra.
"HA" sá gamli brá hönd aftur fyrir eyra.
Húsfreyja sá rauða "varastrikið" í andliti þeirrar hvössu
"hverfa"!
Augun urðu að mjóum rifum og logarauður epplalitur
birtist í kinnum.
Hún stóð upp og hrópaði út um rifuna á glerinu:
"KENNITÖLUNA ÞÍNA".!!!
"Já, af hverju sagðir þú það ekki strax", gamli sár.
Þuldi upp kennitöluna sína....svona örlítið tuldurslega og hratt.
"HA! Ég heyrði þetta ekki , þú verður að endurtaka hana",sú
pirraða greinilega með byrjandi öldrunarsjúkdóm í hlustum.
"HA" sá gamli heyrði ekki bofs.
"KENNITÖLUNA" orgaði sú pirraða, hvassa.
"Nú, ég var að segja þér hana", gamli ákveðinn.
"En ég heyrði hana ekki", sú pirraða reyndi að stilla sig.
"HA! Ég heyri ekkert hvað þú segir", gamli setti eyrað
upp að rifunni.
"Ég þarf að fá kennitöluna þína aftur" öskraði sú pirraða, hvassa.
Gamli gaf eftir og fór með kennitöluna öllu hægar og hærra.
"Síðustu 4 stafina AFTUR" sú pirraða, hvassa ekki að grípa hlutina einn
tveir og þrír.
"HA! Hvað segirðu manneskja"? Gamli að verða pirrraður sjálfur.
KRATSJÚ! BANG!!
Húsfreyja sem þegar hér var komið, lá í krampakasti af hlátri í sæti sínu,
hálfhulin af Fréttablaðinu, gat svo svarið að "svartur reykur" kom upp úr
höfðinu á þeirri pirruðu, hvössu.
Sú pirraða þeyttist upp úr stólnum, dansaði stríðsdans
einn hring í búri sínu, áður en hún gat róað sig nóg til
að hrópa spurninguna beint inn í eyrað á gamla manninum.
"Hva, heyrirðu ekkert, manneskja", gamli orðinn brúnaþungur og fúll.
"Heldurðu vinan, að við séum á réttum stað" eiginkona gamla var
komin við hlið maka síns.
Sú pirraða, hvassa ranghvolfdi augunum af örvæntingu og geðvonsku.
Fékk samt seinni hluta kennitölu upp hjá frú öldungsins, og
skipaði þeim samstundis að "setjast ÞARNA, það yrði kallað á þau"!
Húsfreyja veinaði af hlátri á bak við Fréttablaðið.
"Er ekki allt í lagi" spurði ljúf konurödd í eyra húsfreyju.
"Jú mikil ósköp", húsfreyju tókst að hemja sig.
"Mikið ósköp þarf maður að bíða lengi", eigandi ljúfu raddarinnar
kona á sjötugsaldri með "heyrnartæki" í báðum eyrum.
Húsfreyja var næstum búin að missa sig aftur.
Kyngdi gassahlátrinum og brosti til gömlu.
"Já, það er sjálfsagt í nógu að snúast".
"I AM NOT CRAZY", hrópaði reiðileg rödd.
Dyrnar til hægri höfðu opnast, og húsfreyja kom auga á
mann í hjólastól, með "BLEIKAN" hjálm á höfðinu,
og "HVÍT" sólgleraugu á nefinu koma brunandi eftir innri ganginum.
"I am here to see a SPECIALIST", þeim bleikhjálmaða mikið niðri fyrir.
"Do not tell me to go back, I don't know where I was before!
No! I don't know the specialist name"!
Svo var bölvað hressilega upp á pólsku.
Sú pirraða, hvassa hvarf úr búri sínu, og fór að reyna
að beita "persónutöfrum" sínum á þann reiða, pólska með
bleika hjálminn og hvítu sólgleraugun.
En húsfreyju var allri lokið.
Var að brjálast af innibyrgðum hlátri.
Hún varð því fegin þegar bóndi birtist aftur, og þau
gátu kvatt "dásemdarstað" þennan.
Jamm!
Biðstofan á endurkomudeildinni stendur alltaf fyrir sínu!
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt 20.6.2009 kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)