26.9.2009 | 15:30
Sveppi, Villi.....og Gói.
Húsfreyja var stífluð í nefi,
höfuðverkur að byrja "orgsöng" sinn
bak við vinstra eyra hennar,
Hún snýtti sér hressilega:
"Við förum í bíó NÚNA, eða þá alls ekki,
nenni ekki að hafa ómögulegt lið sem ekki getur
leikið sér saman, að BÍÐA eftir því að fara af stað
næstu tvo tímana.
Fjórmenningarnir 6-10 ára horfðu á húsfreyju,
augabrýr sigu, ranghvolfdu augum á hvort annað,
dæstu.
Húsfreyja lét sem hún væri bæði steinblind og heyrnalaus,
og þrælaði liðinu á salernið, í útiföt og út í bíl.
Í bíó klukkan 12!
Lyftust heldur brýrnar á þeim er þau sáu húsfreyju
pakka tveimur meðalastórum "bland í poka"-skjöttum
niður í tuðru sína.
Húsfreyja keypti miða, en svo var það að kaupa kók
á línuna.
Fór í stutta biðröð.
Unga fólkið vann "löturhægt" en örugglega bak við
afgreiðsluborðin.
Ungur maður með 3 börn verslaði grimmt....borgaði....
mundi eftir einhverju....verslaði meira popp.....borgaði....
afgreiðslustúlkan hvarf að næsta kassa...taldi afganginn
löturhægt upp úr kassanum...kom til baka...unga manninn
vantaði eina kók í viðbót og eitthvert nammi...stúlkan tók
sér GÓÐAN tíma í að fylla kókglasið...vandaði sig ógurlega
að setja lokið á....leitaði nokkra stund að namminu sem
ungi maðurinn reyndi nú óþolinmóður að benda henni á.
Ungi maðurinn borgaði...stúlkan hvarf að næsta kassa...
taldi afganginn TVISVAR í mestu makindum.....kom á
snigilshraða og lét þann unga fá afganginn.
Húsfreyja bjargaði sér úr röð þessari, þegar ungur
maður sagðist geta afgreitt næsta, út á enda á
afgreiðsluborðinu.
"Fjórar litlar kók og einn sítrónutopp, ekkert fleira",
húsfreyja snögg.
Drengurinn dúllaði við kókglösin, sjálfsagt verið í læri
hjá sama kennara og löturhæga afgreiðslustúlkan.
Lokin voru vandasöm.
Rjátlaði við kæliskápinn, jú fann sítrónutopp.
Húsfreyja borgaði.
Drengurinn hvarf að fjórða kassa frá sínum eigin.
Húsfreyja beið.
Beið.
Taldi hægt upp á 10.
Drengur ókominn.
Taldi einn-Missisippi, tveir-Missisippi osfr.
Drengur mætti með afganginn, þegar húsfreyja var kominn upp í 47-Miss.....
Tvær mínútur til stefnu.
Húsfreyja skipulagði kókburðinn inn og þrælaði liðinu
inn í kvikmyndasalinn.
Litla liðið kengspennt.
Vigrinn sem var sessunautur húsfreyju spurði
4 sinnum á meðan auglýsingar runnu í gegn
hvenær myndin byrjaði.
Húsfreyja hóf "ofaníhal" á nammi í liðið.
Myndin hófst.
Sveppi og Villi í Stjörnustríðsgír.....nei, bara
upphafsatriðið.
Vigrinn fílaði myndina í tætlur.
Mundi endrum og eins eftir nammipokunum,
sat svo kengspenntur eða hló mikinn.
Svalan og Báran voru ekki síður hrifnar, en Sigginn
var í svolítilli flækju þegar Ilmur og Sveppi
ræddu saman "skotin" smá stund.
Húsfreyja?
Ja, satt að segja skemmti hún sér með miklum ágætum.
Lúmskur húmorinn átti vel við hana, fíflagangurinn
í Sveppa og Góa var hvorki yfirdrifinn né of barnalegur....
og enn og aftur sannaði þessi mynd að "Gói" biskupsins
er réttur maður í réttu starfi og hér í hárréttri kvikmynd.
Sérstaklega vel til fundið að merkja flugvélina, sem
nánast lenti á þeim félögum Sveppa og Góa með stórum
svörtum stöfum:...........eða nei, kannski ekki vert að segja
frá of miklu, altént hló húsfreyja dátt.
Myljandi fín mynd hjá þeim Sveppa og félögum,
Egill Óla og Ragnhildur Steinunn flott í litlum aukahlutverkum
og Auddi fékk að kenna á því að vera "hrekkjusvín".
"Vondu karlarnir" voru svolítið ófrumlegir, en leikarar þar
ágætir.
Aldeilis brilliant fjölskyldumynd, og gat húsfreyja ekki merkt annað
en bæði börn og fullorðnir skemmtu sér konunglega í salnum.
Og merkilegt "organdi hausverkurinn" húsfreyju var horfinn út
í veður og vind eftir bíó, en horið rann í stríðum straumi eftir sem áður.
Og rennur.
SNÝÝÝÝT!
Góðar bíóstundir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.