19.6.2009 | 20:25
Á biðstofunni.
Klukkan var ekki 9 að morgni.
Samt þegar 3-4 hræður á biðstofu/gangi
göngudeildarinnar í Fossvoginum.
Bóndi húsfreyju fór að glugga með
smá rifu eftir endilöngu glerinu.
Maður á undan honum.
"Kennitala" sagði hvöss rödd ákveðið.
Manninn gaf upp kennitölu.
"HA"...eilítill pirringur kominn líka í hvössu röddina.
Maðurinn endurtók kennitölu hærra og hægar.
"Bíddu....403....endurtaktu 4 síðustu tölurnar",
sú hvassa að farast af pirringi.
Maðurinn límdi ennið við gluggarúðuna og nánast
orgaði kennitöluna sína inn til afgreiðsludömunnar.
Húsfreyja var sest andspænis afgreiðslunni, og beið
spennt eftir framvindu mála, og því að fá að berja
þá hvössu, pirruðu augum.
"Farðu þarna inn og borgaðu" hreytti sú hvassa
út úr sér við manninn, kt. 040654-4039...það vissu
nú allir á biðstofunni.
"040654-4039" leit ábúðarfullur á bónda, og hraðaði
sér inn um dyr til hægri.
Sú hvassa, pirraða blasti við yfir öxl bónda.
Svart hár, uppsett, ekki ómyndarleg en augun
grimm og munnurinn eitt logarautt "strik"!
"Ertu að koma til læknis eða í endurkomu" spýtti
sú hvassa illskulega út úr sér við bónda.
"Endurkomu" svaraði bóndi kurteislega.
"Kennitölu" sú hvassa var komin í ham!
Bóndi gaf hana upp með aðeins einu "HAi"
frá pirruðu dömunni og einni endurtekningu
á allri kennitölunni.
"Sestu þarna, þú verður sóttur".
Sú pirraða hvolfdi í sig kaffi, sem húsfreyja
ímyndaði sér að væri bikasvart og velgjuvolgt.
Bóndi tyllti sér hjá húsfreyju.
Ólétt ung kona í svörtum þröngum kjól
og leggings, hafði komið inn með handleggsbrotna
dóttur á að giska 10 ára.
Hafði flækst að röngum glugga, sú ólétta, 3 skref frá
þeim rétta með hvössu pirruðu dömunni.
Stóð þar og tuggði tyggjó og blikkaði handleggsbrotna
dótturina.
"Ætlarðu að koma hingað" galaði sú pirraða með
sínum hvassasta broddi.
Sú ólétta hvorki heyrði hana né sá.
"Komdu HINGAÐ" sú arfapirraða var staðinn upp
af einskærri vonsku, með andliti klesst upp að gluggarifunni.
Sú ólétta greinilega annars hugar og hreyfði sig ekki.
Sú pirraða var eitt óveðurský í framan, skellti sér aftur í stólinn
dró djúpt andann, og orgaði í átt til þeirra óléttu:
"Ætlarðu ekki að koma HINGAÐ"?
Dóttirin varð vör við einhvern hávaða innan við glerið,
og ýtti við móður sinni.
Sú ólétta sá að annar afgreiðslugluggi var opinn og færði sig.
Sú hvassa, pirraða hvessti grimmdarlegum augunum á
mæðgurnar, heimtaði kennitölu...þrisvar og skipaði þeim
að setjast og bíða...það yrði kallað á þær.
Bóndi kallaður inn.
Gamlingi með göngugifs kom höktandi eftir ganginum,
með hækjur og með konu sína á eftir sér.
Sú gamla handviss um að þau hefðu ratað í ógöngur og
væru orðin rammvillt...."vinur, þetta er nú eitthvað skrítið...
...við áttum áreiðanlega að fara í blóðprufur fyrst....eigum við
ekki að fara aftur niður....spyrja til vegar"!
Karl svaraði engu.
Æddi beint að búri hvössu pirruðu dömunnar.
"Góðan dag fröken, á að mæta í endurkomu út
af þessu lappabroti".
Gamli með sitt á hreinu.
"Kennitölu" urraði sú pirraða, hvassa.
Karl þagði.
"Kennitöluna þína" galaði sú pirraða hærra.
"HA" sá gamli brá hönd aftur fyrir eyra.
Húsfreyja sá rauða "varastrikið" í andliti þeirrar hvössu
"hverfa"!
Augun urðu að mjóum rifum og logarauður epplalitur
birtist í kinnum.
Hún stóð upp og hrópaði út um rifuna á glerinu:
"KENNITÖLUNA ÞÍNA".!!!
"Já, af hverju sagðir þú það ekki strax", gamli sár.
Þuldi upp kennitöluna sína....svona örlítið tuldurslega og hratt.
"HA! Ég heyrði þetta ekki , þú verður að endurtaka hana",sú
pirraða greinilega með byrjandi öldrunarsjúkdóm í hlustum.
"HA" sá gamli heyrði ekki bofs.
"KENNITÖLUNA" orgaði sú pirraða, hvassa.
"Nú, ég var að segja þér hana", gamli ákveðinn.
"En ég heyrði hana ekki", sú pirraða reyndi að stilla sig.
"HA! Ég heyri ekkert hvað þú segir", gamli setti eyrað
upp að rifunni.
"Ég þarf að fá kennitöluna þína aftur" öskraði sú pirraða, hvassa.
Gamli gaf eftir og fór með kennitöluna öllu hægar og hærra.
"Síðustu 4 stafina AFTUR" sú pirraða, hvassa ekki að grípa hlutina einn
tveir og þrír.
"HA! Hvað segirðu manneskja"? Gamli að verða pirrraður sjálfur.
KRATSJÚ! BANG!!
Húsfreyja sem þegar hér var komið, lá í krampakasti af hlátri í sæti sínu,
hálfhulin af Fréttablaðinu, gat svo svarið að "svartur reykur" kom upp úr
höfðinu á þeirri pirruðu, hvössu.
Sú pirraða þeyttist upp úr stólnum, dansaði stríðsdans
einn hring í búri sínu, áður en hún gat róað sig nóg til
að hrópa spurninguna beint inn í eyrað á gamla manninum.
"Hva, heyrirðu ekkert, manneskja", gamli orðinn brúnaþungur og fúll.
"Heldurðu vinan, að við séum á réttum stað" eiginkona gamla var
komin við hlið maka síns.
Sú pirraða, hvassa ranghvolfdi augunum af örvæntingu og geðvonsku.
Fékk samt seinni hluta kennitölu upp hjá frú öldungsins, og
skipaði þeim samstundis að "setjast ÞARNA, það yrði kallað á þau"!
Húsfreyja veinaði af hlátri á bak við Fréttablaðið.
"Er ekki allt í lagi" spurði ljúf konurödd í eyra húsfreyju.
"Jú mikil ósköp", húsfreyju tókst að hemja sig.
"Mikið ósköp þarf maður að bíða lengi", eigandi ljúfu raddarinnar
kona á sjötugsaldri með "heyrnartæki" í báðum eyrum.
Húsfreyja var næstum búin að missa sig aftur.
Kyngdi gassahlátrinum og brosti til gömlu.
"Já, það er sjálfsagt í nógu að snúast".
"I AM NOT CRAZY", hrópaði reiðileg rödd.
Dyrnar til hægri höfðu opnast, og húsfreyja kom auga á
mann í hjólastól, með "BLEIKAN" hjálm á höfðinu,
og "HVÍT" sólgleraugu á nefinu koma brunandi eftir innri ganginum.
"I am here to see a SPECIALIST", þeim bleikhjálmaða mikið niðri fyrir.
"Do not tell me to go back, I don't know where I was before!
No! I don't know the specialist name"!
Svo var bölvað hressilega upp á pólsku.
Sú pirraða, hvassa hvarf úr búri sínu, og fór að reyna
að beita "persónutöfrum" sínum á þann reiða, pólska með
bleika hjálminn og hvítu sólgleraugun.
En húsfreyju var allri lokið.
Var að brjálast af innibyrgðum hlátri.
Hún varð því fegin þegar bóndi birtist aftur, og þau
gátu kvatt "dásemdarstað" þennan.
Jamm!
Biðstofan á endurkomudeildinni stendur alltaf fyrir sínu!
Góðar stundir.
Athugasemdir
skemmtileg saga af endurkomu-biðstofunni - ætli þetta sé ein sem er búin að vera þarna í hundrað ár
Sigrún Óskars, 19.6.2009 kl. 21:14
Já...eða 200 ár, Sigrún....kunni hvorki "viltu gjöra svo vel"...eða "má svo ekki bjóða þér sæti", lengur! Þrumaði bara skipanir tvist og bast......en er ekki yndislegt að eiga svona "skilvirkt og huggulegt endurkomukerfi" innan heilbrigðisgeirans??
Sigríður Sigurðardóttir, 19.6.2009 kl. 21:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.