30.4.2009 | 18:10
Einn gúmmiskór með...
....afskorna tá kom frá ríkinu
inn um bréfalúguna til húsfreyju í dag.
Eða svo gott sem.
Húsfreyja verslaði nefnilega eina
herlega gúmmí-barnaskó í Hagkaup
í gær á 4.990 krónur.
Björgunin frá fyrrum stjórn Haarderans
nam 2.231 krónum; ergo einum gúmmiskó
með afskorinni tá!
Dásemd!
Heilög dýrð!
Bullandi gleði og hamingja!
Veit einhver hvar má versla sér
"einn gúmmiskó með afskorinni tá"?
Bóndi húsfreyju ætlar víst að brúka sína
björgun í nokkur pör af herrasokkum í Rúmfatalagernum,
svo "einn gúmmiskór með afskorinni tá" kemur í hlut
húsfreyju.....!
Aldrei að vita nema húsfreyja hafi þörf fyrir
einn slíkan "eðalgrip" þá fresskettir taka til
við að breima fyrir utan svefnherbergisglugga
húsfreyju næturlangt í sumar.
Eignist hún nú einn, þarf húsfreyja aðeins að æfa sig í
"gúmmiskós-með afskorinni tá-kasti"
úti á bletti nú á vordögum, og hún stendur
klár í fresskattaslaginn!
Getur þá notað vatnsfötuna frá því í
fyrrasumar, sem blómapott fyrir sumarblómin sín,
og þar með fjölgað sumarblómum um eitt!
Ja, sei!
Húsfreyja er alltaf að græða!
Fyrirframgreiddu barnabæturnar frá ríkisvaldinu
standa aldeilis fyrir sínu, gegn fresskattafári og
svefnörðugleikum á sumrin.
Svo verður sólpallurinn húsfreyju "afskaplega
blómlegur" og fínn í sumar.
Og nú er fósturdóttir (21 árs) flutt inn.
Er í kærastafríi...atvinnulaus...en ef til vill,
bráðum...líklega að fá vinnu á veitingahúsi, sem
líklega...bráðum...ef til vill tekst að ganga frá
eigendaskiptum fyrir haustið...allar líkur á því...
...ef til vill.
Ætli bóndi og húsfreyja gætu fengið annan
"gúmmiskó með afskorinni tá" út á fósturdóttur,
frá ríkisvaldinu?
Nei, bara svona "just in case" ef hinn týndist
einhverja sumarnóttina í kattarslagnum!
Húsfreyja stendur svo á haus í vinnu.....
marar vart í hálfu vegna verkefnafjölda, ef satt skal segja.
Er að reyna að redda sumrinu og raða fólki niður á vaktir
og sumarfrí.
Og svo er fólk "arfaóákveðið" hvenær það ætlar í frí,
allt situr fast með skýrslu, og erfitt að meta þörf fyrir afleysingar.
Í-meila þarf Nordjobb-fólki, hringja þarf í landa, staðfesta,
staðfesta og staðfesta.
Öldungar húsfreyju svo með ægilegan sumarskrekk,
dettandi á höfuðið, ná sér í mergjaðar þvagfærasýkingar,
sumir fengið lugnabólgu og einn öldungur pantaði í gær
hjá Guði, ferð í Sumarlandið einhverja næstu daga.
Jamm, mikið að gera á stóru heimili, og húsfreyja að
reyna að vera öxullinn sem heldur öllu á góðum
snúningi og gangi.
En góðu fréttirnar (fyrir utan "einn gúmmiskó með afskorinni tá" í póstinum)
eru þær að húsfreyja er búin að fá aðstoðardeildarstjóra.
Hallelúja!
Gleði!
Hamingja!
Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga hjá húsfreyju.
Ekki spurning.
Góðar stundir.
Athugasemdir
Ég fékk 601 - segi og skrifa sexhundruð og eina krónu og minn ekta maki, faðir drengsins ( sem er 15 ára) fær sama og ég. Upplýsingar um allar þessar "bætur" kom í sitthvoru umslaginu - þótt þeim sé fullkunnugt um það að við búum í sama húsinu. Hvaða bull er þetta? Ég bara spyr? Við erum "millitekju" fólk og þurfum ekki barnabætur uppá 601 kr. Ég er kannski vanþakklát og ætti að skammast mín.
Til lukku með að fá aðstoðardeildarstjóra á deildina. En er fullmannað á deildinni? Á skurðstofunni er "fullmannað" en svo og svo margir í veikindaleyfi, námsleyfi ........... s.s. vantar í 6 stöður og samt er haldið uppi sama aðgerðarprógrammi - við hlaupum bara hraðar og hraðar. Þeir sem stjórna þessu vita að við hlaupum hraðar og "reddum" þessu.
Góða helgi
Sigrún Óskars, 30.4.2009 kl. 19:02
Sigrún! Sexhundruð og eina krónu! Það er Bixit-kexpakki og máske 1 Kitkat-súkkulaði! Ja, sei! Þú veður í peningum. Minnir mig á ávísunina upp á "EINA krónu", sem pabbi sálugi fékk frá skattinum í endurgreiðslu eitt árið. Hann rammaði hana inn!
Takk fyrir góðar óskir. Fullmannað....nei! Tómar reddingar og extravaktir um helgar! Það vill enginn vinna 2 hv. helgi eins og við gerðum...aðeins 3 hverju. Svo minn hagur vænkaðist mest með nýjum aðstoðardeildarstjóra...vinnur kv. og 2 hv. helgi! Svo við hlaupum hraðar og hraðar...reddum og reddum...."einkunnarorð heilbrigðiskerfisins um ókomin ár..."Hraðar og reddum"!
Góða helgi og njóttu vel sumarsins líka....þó á hlaupum verði, vinkona
Sigríður Sigurðardóttir, 1.5.2009 kl. 13:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.