18.1.2009 | 14:02
Jaso! Mín hinsta stund...
...bara runnin upp" hugsaði
húsfreyja sótsvört og panikkeruð.
"Þetta lifi ég ALDREI af".
Hún stóð og hristist með stöðugum
jarðskjálftanum í eldhúsgólfi sínu,
upp á 4,7 á Richter.
Dísirnar 8 sem hoppuðu og dönsuðu
frammi í stofu við ærandi undirleik
"Latarbæjar-Tuttugu upp, tuttugu niður",
skelltu sé sem einn maður í gólfi, þá
"8 ára" djásnið sló á pásu-takkann, og
húsfreyja rorraði við þegar jarðskjálftinn
fór upp í 6,7 á Richter.
"Alla, þú ert úr", æpti 8 ára djásnið,
var í harðri samkeppni við hinn eina og sanna
"Gosa", sem hrópaði á háa séinu "Ég er spítukall"!
Gosi var í spilun í DVD-tækinu í sjónvarpsholinu örfáa metra
frá "hopp-stopp-dans-hrynja í gólfið-liðinu".
Þar sátu fimm dísir hlógu, skríktu og sungu með Gosa.
Og að sjálfsögðu hljóðið í botni.
Hávaðinn var ærandi.
Og svo brjálaðist allt!
Kattarvinurnar tvær sem höfðu tekið það
að sér að kvelja köttinn inn í svefnhebergi,
kíktu fram og að sjálfsögðu slapp kisa fram,
alsæl að vera laus úr prísundinni.
Tvær af Gosa-dísunum æptu og skræktu, stukku upp
og hlupu til húsfreyju:
"Við erum með kattarofnæmi, sjááááðu"!
Og húsfreyja sá 4 augu þrútna og bólgna út
í andlitum fegurðardísanna tveggja, og fór á spani inn á
baðherbergi, bleytti tvo þvottapoka, og rétti
ofnæmisdömunum.
Hljóp á harðaspani fram í stofu þar sem,
kattarvinurnar, lágu marflatar fyrir framan sófann:
"Við hleyptum henni ekkert fram, hurðin bara
var opnuð"!
"Þið eruð fyrir" veinaði "hop-skopp-dans og hrunliðið".
"Við erum SVANGAR, og viljum aftur fá kökur og kók",
sungu þrjár af "Gosadísunum" sem komnar voru að
veisluborðinu....í röð.
"Andartak" stundi húsfreyja þar sem hún lá
á maganum á gólfinu, hálf undir sófa, og reyndi að
ná taki á kattarrófunni.
Tókst, og henti ketti aftur inn í svefnherbergi, kattarvinurnar
á eftir inn.
"Nú OPNAST hurðin ekki sjálf aftur" hvessti húsfreyja sig
við vinurnar, " og þið megið ekki nota kisu sem tösku
undir handlegginn, hún verður svo pirruð".
Kattarvinurnar lofuðu öllu fögru.
"Mamma, Hjálmdís er að gráta", sú 8 ára
áhyggjufull við hlið húsfreyju.
Röðin fyrir framan veisluborðið hafði lengst, nú stóðu
þar 7 svangar dísir.
Ein lítil sat í sófanum og hágrét.
Saknaði mömmu, var að að hugsa um stallsystur
sína sem átti engann pabba lengur og allt var í tjóni.
Húsfreyja reyndi að hugga og knúsa,
bauð þeirri grátandi að hringja í mömmu.
"Nei", hvíslaði dísin og gat leikið sér svolitla stund
inni í barnaherberginu.
Húsfreyja hóf aðra umferð í kökuskurði og goshellingum
og skellti í hungraða "úlfahjörðina" sem allt í einu
hafði birst við veisluborðið.
Gosi hreif hug kökuliðsins, og tekin var hvíld
frá hoppi-skoppi og hruni.
En sú grátandi var alveg hrunin.
Húsfreyja hringdi í múttuna sem mætti
korteri seinna, tók heim og sagði þetta erfitt
hvað hún væri viðkvæm sú stutta.
Húsfreyja gjóaði augum á eldhúsklukku sína:
Korter yfir fimm.
"Heil þrjú korter" eftir af átta ára afmæli djásnisins"
"Ég lifi þetta aldrei af", húsfreyju lá við öngviti af stressi.
Hún hvolfdi í sig tíunda bollanum af sterku kaffinu, og
magi hennar kvartaði hressilega yfir eitruninni.
"Ekkert nöldur og tuð" hvæsti húsfreyja að
meltingarfærum sínum, "er hér ein með
14 sjö ára skvísum og einni 8 ára, og verð bara
að vera á tánum"!
Fór fram á bað og vatt aftur þvottapokana fyrir þær
augnabólgnu, og rétti þeim.
Voru að skána.
Kíkti inn á kött og vinur.
Kötturinn lá bálreiður í rúminu, með vinurnar
sér við hlið.
"Við megum ekki klappa henni, ekki einu sinni
koma við hana, þá klórar hún" kvörtuðu
vinurnar í kór.
"Gefið henni smá pásu" dæsti húsfreyja, og
strauk kisu og vorkenndi ægilega.
"Viljið þið ekki bara koma fram og horfa á Gosa,
eða fá ykkur aftur köku"?
NEIPP!
Og húsfreyja fór fram og lokaði rækilega hurð á
eftir sér.
Gjóaði á klukkuna: Tuttugu mínútur yfir fimm.
Djísuss!
Eftir 40 mínur af burtsloppnum ketti í tvígang,
sem endaði með útlegð hans inn í búr, Gosa
spilaður á sama desibili og "verulega" heyrnaskertir
spila sína músík, eltingaleik, feluleik, meira gosi,
meira snakki, meira gosi og enn meira gosi,
margundnum þvottapokum á þrútin augu
og kattarleitandi vinum varð klukkan loksins
sex.
Hallelúja!
Útfallið af dísum var þokkalega þétt og klukkan
korter fyrir sjö hurfu síðustu gestir á braut.
Húsfreyja var BÚIN!
Taugar hennar og magi rústir einar.
"Mamma"!
Sú átta ára stóð eitt sólskinsbros fyrir framan
húsfreyju.
"Ha, já" stundi húsfreyja.
"Þetta var "sko frábært" afmæli, mamma" og svo
knúsaði hún múttu sína og kyssti.
"Jamm, þetta var víst bara þokkalegasta afmæli hjá mér"
hugsaði húsfreyja og brosti til djásnisins.
Stóð upp og gekk frá inni í eldhúsi, og magaverkurinn
var á bak og burt og henni glatt í sinni.
"Mikið rosalega er gott að þurfa aðeins að halda "eitt"
barnaafmæli á ári hverju.
Þvílík himnadýrð og sæla" og húsfreyja
dæsti ánægjulega um leið og hún settist
í hægindastólinn sinn.
Og hvað með það þó að von væri á yfir
tuttugu gestum í "annan í 8 ára afmæli"
daginn eftir.
Það voru AÐEINS 9 krakkar í því hollinu,
hitt allt fullorðið fólk.
GLEÐI.
Enda var seinni dagurinn minnsta mál,
og bara gaman að hitta ættingja og vini.
Góðar stundir.
Athugasemdir
Vá þvílíkt afmæli en hrósið frá afmælisbarninu eru laun erfiðisins
Þú skrifar "myndrænt" maður sá þetta alveg fyrir sér - skemmtileg frásögn
Sigrún Óskars, 18.1.2009 kl. 15:43
Ja þau geta verið hressileg ungmeyjaafmælin.......og trúðu mér þau verða ýktari með hverju ári
Til hamingju með skvísuna.
Solla Guðjóns, 19.1.2009 kl. 18:16
já þetta hefur verið meira afmælið..bara 365 dagar í næsta.
anna systir (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 20:19
Já, Sigrún mín, brosið og knúsið voru erfiðisins virði. Takk fyrir góð orð.
Takk fyrir afmæliskveðjuna, vinkona. Solla, verða þau ýktari með ári hverju...í alvöru.....hjálpi mér. Ég þá farin á taugum löngu fyrir ferminguna...SJÍSS!
Já, systir og ég ætla að njóta þeirra allra 365 í tætlur.
Sigríður Sigurðardóttir, 20.1.2009 kl. 13:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.