Jólin kvöddu um leið....

358113  ....og húsfreyja kvaddi góðan frænda.

  Jón Róbert, elskulegur frændi hennar

  kvaddur í Lágafellskirkju í dag.

  Var ljúf og góð stund og áreiðanlegt

  að frændi hefur verið ánægður með

  fallega athöfn.

  Situr nú sæll í "Sumarlandinu" frændi hennar,

  með ættmennafjöld í kringum sig, og ekkert verður

  honum að sorg framar.

  Því trúir húsfreyja.

  En mikill fjöldi náinna skyldmenna mætti í

  jarðaför frænda, og græddust húsfreyju

  tvær vísur eftir pabba hennar heitinn.

  Frændur hennar úr Byggðarholti, Halldór og

  Toni kenndu henni þessar:

        Hér er kominn Hávarður

        er hér eitthvað að státa.

        Hann gæti orðið lávarður

        upp á enskan máta.

 

        Strákarnir elta stelpurnar

        og hlaupa hröðum fótum.

        Þeir reyna að komast á kvennafar

        á knæpum og gatnamótum.

                                                   Sigurður Guðmundsson 1925-2002.

 

  Þær leynast víða vísurnar og kveðlingarnir eftir hann pabba,

  og ekki slæmt að komast í gamla viskubrunna eins og frændur

  húsfreyju frá Byggðarholti.

  Þeir frændur ólust upp í Byggðarholti, húsi sem Ólöf langamma

  húsfreyju og Antoníus maður hennar byggðu.

  Pabbi hennar bjó ásamt foreldrum og systkinum á Eiðum.

  Föðuramma húsfreyju, Árný, var dóttir Ólafar.

  Mikill samgangur var á milli Eiða og Byggðarholts, enda stóðu

  húsin hlið við hlið í Kokkhúslánni.

  Sagði Halldór frændi, að svo nánar hefðu fjölskyldurnar verið,

   að um tíma hefði verið aðeins "ein" tólgarkasseróla til fyrir bæði heimilin.

  Var þá alltaf rölt á milli húsanna í hádeginu, með tólgina út á

  fiskinn, svo allir nytu góðs af.

  Annað sagði Halldór frændi um pabba hennar sáluga, sem húsfreyju

  þótti vænt að heyra.

  Halldór og hans bræður þekktu pabba húsfreyju vel, enda voru þeir mikið

  saman peyjar og ungir menn....og náfrændur.

  Halldór vann svo einnig hjá Einari ríka á netaverkstæði hans, þá

  pabbi var verkstjóri þar hjá Einari.

  "Öll þessi ár, var mikið spjallað og mikið hlegið, vísur ortar og

  mikið unnið" sagði Halldór.

  "Aldrei!  Ekki einu sinni, heyrði ég Sigga á Eiðum tala illa um

  nokkurn einasta mann eða konu.  ALDREI!  Og það mat ég

  mikils við frænda minn", Halldóri var mikið niðri fyrir.

  Þetta var gott að heyra, fannst húsfreyju.

  Hann gat bölvað ríkisstjórn, pólitík og flokkum hennar til

  andskotans og aftur til baka, en aldrei heyrði húsfreyja

  föður sinn hallmæla nokkrum manni eða tala illa um.

  Var ósammála mörgum, en virti þeirra skoðanir og hugmyndir.

  "Aðgát skal höfð í nærveru sálar" sagði pabbi heitinn oft,

  þá honum fannst höggið nærri einhverjum persónulega, í samtali.

  Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

  Góð lífsregla það.

  Brennan var sótt áðan með 7 ára djásninu, en henni

  fundust syngjandi jólasveinar í "miklu stuði".

  Lítt hrifin af sprengjum og flugeldum.

  Nóg að hafa slíkt um áramót.

  Sjö ára djásnið ætlar svo að lesa fyrir húsfreyju, var fyrsti skóladagur

  á nýju ári í dag.

  Góðar stundir.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Óskars

Sendi þér samúðarkveðjur  

þetta er góð lífsregla - aðgát skal höfð í nærveru sálar - allt miklu þægilegra ef allir færu eftir þessu

Sigrún Óskars, 7.1.2009 kl. 10:43

2 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Þakka þér, vinkona.  Frændi var ljúf og góð sál.  Jamm, hann pápi minn vissi hvað hann söng, og var afspyrnuvinamargur og vel liðinn

Sigríður Sigurðardóttir, 7.1.2009 kl. 17:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband