20.11.2008 | 17:41
Snjókorn og piparkökur.
Húsfreyja gutlaði og gaufaði
í húsverkum í dag.
Braut saman þvott, tók úr
uppþvottavélinni, og pakkaði
inn afmælisgjöf til bestu
vinkonu 7 ára djásnsins.
Djásnið skellti sér svo í
bleikan prinsessukjól og
spariskó og tiplaði yfir í
næsta hús til vinkonu eftir skóla.
Kötturinn móðgaður yfir hvítum,
fallegum en "blautum" snjókornum
er svifu tignarlega niður á sólpallinn
til hennar, rétt á meðan hún var að
brýna klærnar á staurnum sínum.
Mjálmaði ámátlega við stofudyrnar, og
skellti sér upp á grindverkið þegar hún
fékk ekki svar strax.
Hékk þar sem gammur í leit að bráð
er húsfreyja bjargaði henni inn.
Húsfreyja dásamaði veðrið og snjóinn
við köttinn, sem leit hvasst á eigandann
og mótmælti: MJAAAVVVR, húsfreyja gat
átt sín "blautu" og köldu korn sjálf.
Inni tendraði húsfreyja kertaljós, og
hélt áfram gaufinu...og gutlinu.
Djásnið mætti sársvöng..."ég er skítsvöng
mamma, því ég fékk bara tvo bita af
afmæliskökunnni, því það voru svo margir
krakkar".
Húsfreyja dró í snatri fram piparkökur
og mjólk, sem þær snöfluðu í sig
í vinalegri rósemd og ræddu afmælið.
Kötturinn lá í öngviti á eldhúsborðinu,
þar sem ofninn náði að hita upp borðplötuna,
og leit ekki einu sinni upp.
Ætlar svo húsfreyja, að skella slátri frá tengdó í
pott og sjóða í kvöldmatinn og slatta
af Þykkvabæjarkartöflum með.
Góður frídagur þetta.
Góðar stundir.
Athugasemdir
GÓÐUR DAGUR OG SVO JÓLAMYND .ÞAU ERU VÍST AÐ KOMA
Solla Guðjóns, 20.11.2008 kl. 21:28
Ó já, Jólin að bresta á eftir rúmanmánuð, Solla mín. Búin að versla 5 jólagjafir, svo ég er altént byrjuð. Aha, dagurinn í gær var bísna góður, og slátrið frá tengdó var æði
.
Sigríður Sigurðardóttir, 21.11.2008 kl. 08:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.