Þú ert hamingjusöm.

40507_djcoldfire_shiny-sad-people  "Ha..já...ég.....", komu smá vöflur á húsfreyju.

  Var að störfum sínum sem hjúkrunarfræðingur á

  Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, á næturvakt.

  Var niðri á Slysó að sinna ungum ógæfumanni, sem

  brúkaði bæði eiturlyf og brennivín í ómældu magni.

  Sá ógæfusami var orðinn vel kunnugur húsfreyju,

  enda hún að vinna 60% næturvinnu, og svo

 40% á öðrum vöktum.

  Sá ógæfusami var mjög ör og ofbeldisfullur, þá

  hann dópaði sem mest, og mætti stundum aðra

  hverja nótt blár og marinn, brotinn,

  skorinn og blæðandi til húsfreyju.

  Merkilegt nokk var hann aldrei neitt nema gæðin við

  húsfreyju, þá hún sinnti honum og bjó um sár hans.

  Kjaftaði iðulega á honum hver tuska, og fékk húsfreyja

  að heyra marga ljóta sorgarsöguna.

  "Já, það sést á þér, Sigga" sagði sá ógæfusami.

  "Þú geislar einhvern veginn af gleði og hamingju".

  Þegar húsfreyja hugsaði sig um, gat hún vel viðurkennt

  að sá ógæfusami hafði rétt fyrir sér.

  Þó húsfreyja væri makalaus og barnslaus á þessum

  tímapunkti í lífi sínu, átti hún

  góða vini, góða fjölskyldu, vann á frábærum

  vinnustað, var skuldlaus við ríki og menn, og var

  bara virkilega að njóta lífsins. 

  Sinna áhugamálum, ferðast erlendis og innlendis

  með vinum og fjölskyldu, heimsækja vini og fjölskyldu,

  lifa og leika sér.

  Hlátur og gleði hennar bestu förunautar, með léttri

  blöndu af söng, gríni og glens.

  "Ég öfunda þig" hélt sá ógæfusami áfram.

  "Hef gert svo margt viðbjóðslegt um ævina...og ekki

  bara sjálfum mér".  Þung stuna.

  "Selt krökkum dóp, notfært mér unglinga kynferðislega

  þegar þeir voru dauðadrukknir eða útúrdópaðir, stolið,

  svikið, logið og beitt ofbeldi óspart".

  Hér huldi sá ógæfusami andlit sitt í höndum sér góða

  stund.

  "Veistu Sigga, ég á eftir að enda hörmulega illa í þessu

  lífi.  Óhamingjusamur, einmana og úrhrak".

  "Og ég mun deyja á hroðalega sársaukafullan hátt".

  Húsfreyja reyndi að draga úr svartnættisdómi þess

  ógæfusama yfir sjálfum sér. 

  Var eitursnjall náungi, sem aldrei þrætti fyrir misgjörðir

  sínar.  Merkilegt nokk hafði hann "samvisku" þá hann

  ekki var viti sínu fjær af vímuefnum, og reyndi iðulega

  að bæta fyrir, þá hann hafði andlega getu til.

  Og merkilegast af öllu:  Hann MUNDI allar sínar

  slæmu gjörðir, og var með bullandi móral og viðbjóð

  upp í háls á sjálfum sér.

  "Ég var alki og aumingi frá fyrsta brennivínssopa, 12 ára

  gamall, Sigga, og ég mun aldrei kynnast hamingju

  í þessu lífi".  Rauðsprungin augun voru tárvot og full

  vonleysis er hann leit upp.

  "Hvernig tilfinning er það eiginlega að vera glaður

  og hamingjusamur, Sigga"?

  "Þúsund sinnum betri en víma brennivíns eða kókains

  gefur" var það eina sem húsfreyju datt í hug að gæti

  skilað "hamingjutilfinningunni" til þess ógæfusama.

  "Já, það hefur mig alltaf grunað, því við sem erum

  í dópinu og brennivíninu geislum ALDREI"!

  "Hvorki gleði né hamingju"...."ALDREI"!

  "Erum SVÖRT"!  Hér var sá ógæfusami farinn að

  gráta, ofsafengið, með blóðuga hnúa við munn sér.

  Húsfreyja reyndi að hugga og sefa grátinn, og að

  endingu var sá ógæfusami lagður inn, því sár eftir

  hníf á kvið þurfti eftirlit og umbúðaskipti.

  Sá ógæfusami þoldi við fram undir morgun.

  Eftir stuttan blund, kvaddi hann húsfreyju bljúgur

  og mæddur.

  Leit í augu hennar og sagði: "Sjáðu til, ég á eftir að enda

  illa".

  Og þremur mánuðum seinna rættist spá hans aldeilis.

  Hann dó aleinn, útúrdópaður á hroðalega sársaukafullan

  máta.

  Húsfreyja varð að fara niður og opna líkhúsið fyrir

  sjúkraflutningamönnum. 

  Henni var bannað að sjá hinn látna.

 

 

 

 


mbl.is Hamingjan lengir lífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elín Sigríður Grétarsdóttir

vá hvað þetta er falleg frásögn, í ljótleikanum einhvern veginn æi skilurðu. en hugsa sér hvað þú hefur gefið þessum manni mikið þó að hann hafi þurft að enda svona, en hann fékk þó lausn að lokum, þó hún hafi ekki verið farsæl. takk fyrir að deila þessu

Elín Sigríður Grétarsdóttir, 16.8.2008 kl. 14:31

2 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Vel orðað, Elín, "falleg saga í ljótleikanum".  Þannig upplifði ég margt í mínu starfi á árunum mínum í Keflavík.  En hér átti ég í fórum mínum minningu um góða sál sem fór afskaplega illa, blessuð sé minning hans.

  Þakka kærlega fyrir að lesa og innlitið

Sigríður Sigurðardóttir, 16.8.2008 kl. 17:59

3 Smámynd: Solla Guðjóns

Eitt andartak,ein ögurstund getur skapað svo mikla óhamingju sem þessi ógæfumaður lifði.Satt er það að sagan er fallleg því sál hans var góð þó ógæfan hafi stolið henni.

Solla Guðjóns, 17.8.2008 kl. 11:59

4 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Já, og Sollan mín, þessi kunningi minn átti víst margar slíkar ögurstundir, fullar óhamingju og viðbjóði.  Og því fór sem fór.  En sitja alltaf í mér þessi síðustu samskipti mín við hann, því þetta var í síðasta sinn sem ég sá hann á lífi.

  Knús til þín, vinkona.

Sigríður Sigurðardóttir, 17.8.2008 kl. 12:42

5 Smámynd: Heiður Helgadóttir

Meiri háttar færsla um lífið í kring um okkur, sem að er ekki alltaf  fallegt, og ekki var honum alls varnað, hann vissi að hann hafði gert ljóta hluti, og skammaðist sín fyrir þá.

Heiður Helgadóttir, 17.8.2008 kl. 23:40

6 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Takk fyrir það, Heidi.

  Já, hann sagði oft að hann vildi óska að hann myndi ekki allar sínar gjörðir, og að oft reyndi hann að deyfa sig sem mest með vímuefnum svo hann myndi ekkert.  En það tókst sárasjaldan ef nokkurn tímann, sagði hann.  Var víst ætlað að muna.

Sigríður Sigurðardóttir, 18.8.2008 kl. 16:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband