8.7.2008 | 21:01
Þetta er ekkert mál....
...að skreppa með litla liðið niður í Skvísusund í klukkutíma",
húsfreyja var hrikalega BJARTSÝN.
Mútta húsfreyju horfði full efasemda á hana.
"Jæja þá, en bara í klukkutíma".
Systir í Eyjum var rokin til starfa í Skvísusundi, og húsfreyja
og mútta hennar voru einar heima með Báruna, Aron, Bæron, Svöluna og Alla Elí.
Við gerðum okkur klár. Vorum næstum komnar af stað, þegar
útgangur Alla Elí uppgötvaðist. Á stuttbuxum og í stuttermaskyrtu.
Hálf svona "hráslagalegur" til fara. Vippað í hlýrri föt.
Lagt af stað! 10 skref.
Snúið við!
Aron í einum þunnum peysugopa....var búinn að vera í
hálftíma "á leiðinni" að klæðast flíspeysu.
Fundinn snolluð flíspeysa af Bæroni, sem Aron var hæst-ánægður með.
Haldið af stað! 20 skref.
Snúið við!
"Ég er að drulla á mig", Aron frændi ekki að skafa af því.
"Jeminn. Það verður allt barnafólk komið, farið og mætt aftur í
bjórinn barnlaust, þegar við loks mætum á svæðið" hugsaði
húsfreyja áhyggjufull.
Lagt af stað, eftir að allir höfðu verið "rækilega" yfirheyrðir um
ástand þvagblöðru og ristils.
Hallelúja, komumst á áfangastað.
Alli Elí að vísu að miskilja tilgang ferðarinnar illilega.
Spurði ömmu sína aftur og aftur, á leiðinni hvort hún hefði
munað að taka "sundbuxurnar" hans með.
Amman reyndi að útskýra: Alli minn, það er ekkert "sund" í
Skvísusundi".
Sá stutti horfði á ömmu sína eins og hún hefði misst vitið.
Húsfreyja reyndi að koma múttu sinni til bjargar:
"Alli minn, það er engin "sundlaug" í Skvísusundi. Þröngar,
mjóar götur eru bara kallaðar "sund".
Sá stutti setti í brýrnar smá stund...."en hvar synda þá
skvísurnar, amma"?
Amman og húsfreyja gáfu frekari útskýringar upp á bátinn.
Í Skvísusundi stóð mikið til, en reyndar fundust aldrei nema
helmingurinn af skemmtiatriðunum. Þ.e spákonan og andlitsmálunin.
Hitt virtist allt hafa gleymst hroðalega.
Engar skotskífur, míni-golf eða fjölskylduskemmtun.
En Aron skellti sér til spákonunnar, og þegar hann hafði fregnað
að hann myndi eignast ljóshærða vinkonu, "3 börn og 17 sportbíla"
í náinni framtíð, náðist ekki brosið af andliti hans það sem eftir lifði
kvölds.
Systir birtist. Seldi bjórinn grimmt í Reyniskró. Johnsen sást á
ferli með gítar og svartfuglsklóna..."Ólafía, hvar er Vigga"...í
kartöflugarðinum heima?
Litla liðinu rótað heim rétt fyrir klukkan 22:00.
Hálffúlt að engin skyldu skemmtiatriðin.
En annars bara stuð.
Meira Eyjastuð næst.
Athugasemdir
Þetta var greinilega góður dagur, en fékkst þú engan spennandi spádóm. Eigðu góðan dag mín kæra
Heiður Helgadóttir, 9.7.2008 kl. 16:27
Já, flottur dagur á Stakkó, en kvöldið svona meira vesen
. Nah, tók enga áhættu með spákonuna....því ALLIR er húsfreyja heyrði á hjá henni, fengu lágmark 3-9 börn og "ljóshærða" kærusta eða kærustur...og eftir henni að dæma verður "sportbílaeign" okkar Frónbúanna í sögulegu "hámarki" næstu 20-30 árin
.
Þakka innlitið ljúfust.
Sigríður Sigurðardóttir, 10.7.2008 kl. 15:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.