30.3.2008 | 14:32
Gauf og gutl...
...á sólríkum sunnudegi. Húsfreyja alltaf jafn rasandi á því, að hjá henni skuli húsverkin heita "gutl og gauf yfir engu" og eru sjálfsögð, en þá karl hennar vinnur þau, eru þau ævinlega "almennileg tiltekt og hörku púl" og þar er sko ekkert sjálfgefið! Svo um þessa helgina er það "gutl og gauf" því karlinn tók vinnudag í gær, og svo farinn eldsnemma í morgun í fjórhjólaferð í kringum Þingvelli.
Húsfreyja ákvað því að sofa fram eftir í dag, eins og þolinmæði þeirrar stuttu leyfði. Las svo smávegis í Fréttablaðinu. Þar allt í tjóni og tjöru að vanda, nema hún Petra svanur sem náði sér í nýjan kærasta, ofvaxinn árabát.
Þá var að skella sér í leppa, taka hreina leirtauið úr uppþvottavélinni, hengja blauta þvottinn á snúruna, brjóta saman þurran þvott, hjálpa þeirri stuttu að reikna og vinna verkefni, henda kettinum út á sólpall að brýna klærnar, sópa eldhús, stofu og sjónvarpshol, gefa kettinu að éta og taka sér pásu við kompjúterinn. Eins og karlinn minn segir, "bara gauf og gutl yfir engu".
Á svona dögum í Eyjum í gamal daga, var afi minn vanur að senda okkur systur út að leika, fyrir hádegi. Hann þekkti vel einbeittan "gauf og gutl"-svipinn á móður minni, og vissi að þá var betra að halda krakkastóðinu utandyra. Svona bara til að forðast óþarfa árekstra yfir "skítugum fótsporum" á nýskúruðum gólfum. Hlóð á okkur skóflum og fötum, sendi okkur út í næstu sandhrúgu, gaufaði svo og gutlaði sjálfur niðri í kjallara, og stóð vörð. Hann vissi sem var, að við kæmum allar þrjár, lágmark 10 ferðir hver:
Í leit að vettlingum,
til að pissa,
með bilað handfang á fötu,
þyrstar,
máttum við fara niður á Urðir? Þvert nei!,
að pissa,
vantaði húfu,
þyrstar,
máttum við ekki aðeins skreppa niður á Urðir? Nei og aftur nei!,
vantaði gulu plasthrífuna,
að pissa,
með sand í auganu (háorgandi),
en niður á Skans, afi, ha? (Kannski eftir hádegi, ég skal fara með ykkur),
til að fara úr peysunni (of heitt),
afi, við fundum þennan kött! Megum við eiga hann??,
til að pissa
og til að fara í regnkápu (byrjað að rigna).
Þvottahúsið var hans vígvöllur svona daga, og hann afgreiddi öll okkar mál af ljúfmennsku og ákveðni. Ekkert ráp upp úr kjallaranum til múttu, hreinu gólfanna og þvottarins, nema við værum með blæðandi, opið svöðusár, með rennandi drullu eða 40 stiga hita.
Og múttaði kláraði allt gauf og gutl í húsinu á einum degi, alla 240 fermetrana. Svo húsfreyju er ekki til setunnar boðið fyrir framan kompjúterinn.
Meira "gauf og gutl" næst.
Njótið helgarinnar.
Ást er löngum lífs á stíg
lýða besti auður,
en þegar enginn elskar þig
ertu verra en dauður.
Refur bóndi (Bragi Jónsson)
Athugasemdir
Já körlunum vex margt í augum.......rex og pex og ekkert sex
Solla Guðjóns, 30.3.2008 kl. 22:22
Jamm, en við leysum allan vanda, vel og hratt konurnar.....ef við höfum tíma
Sigríður Sigurðardóttir, 31.3.2008 kl. 22:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.