8.10.2012 | 01:07
..en svona á léttari nótum...og af óheppnum gluggamígandi nátthröfnum.
ég held að bráðum verði allt í lagi
af því nú er allt í ólagi.
ég held að bráðum hefjist lífið
af því nú er allt svo dauðalegt.
Ólafur Haukur Símonarson.
Hann var ekki dauðalegur 101-íbúinn sem stökk framúr bóli sínu
um miðja nótt, á Adams-klæðum einum saman og
réðst að þremur "stofugluggamígandi" nátthröfnum
með sveðju á lofti og rasskellti alla þrjá.
Húsfreyja er hrifin af framtaki þessu og elju 101-íbúans,
og vorkennir hinum hlandsprungnu gaurum lítið.
Bara HEPPNIR að sá kviknakti trompaðist ekki alveg
yfir hlandblautum stofuglugga sínum, og snéri ei egginni
að óæðri endum þeirra.....eða þaðan af verra sneiddi framan
af "hlanddrjúpandi djásnum" þeirra.
Enda hefur þjóðin öll flissað og glott yfir óförum pissudúkkanna,
og haft fulla samúð með eiganda útmignu stofuglugganna,
Því sú er tíðin löngu liðin, þá Frónbúar brúkuðu hland sitt til
hinna ýmissu þrifa, svo sem hárþvott.
Þykir lyktin af þeim vökvanum svona heldur stæk og leið,
og því allir komnir í vel angandi sápur og gluggavökva nú til dags.
Hvort SVEÐJUR séu réttu tólin til að hafa hemil á stofugluggamígandi
og undirgangaælandi nátthröfnum, lætur húsfreyja kyrrt liggja.....
þó hún efist um að þessir þrír leggi aftur í hlandlosun
á glugga 101-íbúans með sveðjuna,
þá telur hún það bísna flott trikk að ráðast að hlandhaugum
gluggavilluráfandi, kviknakin með æðislegt blik í augum og ekki verra
að láta mergjað víkingaorg fylgja með.
Hlýtur að vera ÆGILEG upplifun, og afspyrnu ÞVAGHEMJANDI
fyrir villuráfandi þvaghauga!
Væri máske ráð að íbúar í 101 tækju sig saman, og réðust allir að
þeim útimígandi allsberir og organdi á háa séinu næstu helgar.
Gæti aldeilis glætt bissnessinn á "Þvagteppudeild" Landspítala
Háskólasjúkrahúss, svo jafnvel yrði hægt að hækka laun
almennra heilbrigðisstarfsmanna um 20% á næstu mánuðum.
Hehehehehe, skemmtileg frétt atarna.
Góðar stundir og munið að "losa sokkinn" innandyra og helst á salernum
um helgar.
Flokkur: Spaugilegt | Facebook
Athugasemdir
Heyrt hefi ég að í fangelsinu á Litla-Hrauni dveljist maður sem hafi sér það eitt til sakar unnið, að hafa gengið um berrassaður - heima hjá sér.
Glæpur sveðjumannsins var trúlega minnstur sá að berja með sveðjunni móti hinu að hlaupa um á adamsklæðum.
Á íslandi er flest leyfilegt, þú mátt ljúga,stela,berja,meiða,nauðga,míga utaní,kjósa sjálfstæðisflokkinn aftur og aftur, bara - ekki vera BERRASSAÐUR!
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 8.10.2012 kl. 09:59
Já merkilegur fjandi þetta, Bjarni. Sér í lagi ætti það að kosta menn 10 ár í fangelsi kjósi þeir íhaldið hehehehe. Þakka þér kærlega kommentið og innlitið.
Sigríður Sigurðardóttir, 8.10.2012 kl. 20:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.