12.6.2011 | 21:30
Það haustar snemma..
... hér norðan heiða í ár" hugsaði húsfreyja
rasandi, er hún horfði á gula móana fyrir
ofan kirkjuna á Hvammstanga, og hávaxin
lauflaus trén í kring.
Blómabeð tengdamúttu hennar voru vart
svipur hjá sjón, búið að breiða svarta dulu
yfir bóndarósina og Páskaliljurnar voru fölar
og ræfilslegar, lafandi með hor og hóstakjöltur
í norðangarranum.
"Asskoti er að vita þetta" hugsaði húsfreyja,
"og enn verra að berja augum"!
Það næddi ónotalega jökulköldum vindi ofan í
hálsmál húsfreyju, og hún gjóaði kuldarökum augum
upp á snjóhvítan tind Þrælsfells í sólskininu, þar sem
"Vetur konungur" sat á hækjum sér og glotti kalt og grimmdarlega.
Ekkert fararsnið á honum karldruslunni, og komið fram í
miðjan júní.
Húsfreyja sendi honum pirraða fyrirspurn:
"Ferðu ekki að snáfa af landi brott, herra minn?
Hér á að vera komið sól og sumar fyrir löngu, og svo
bara blæst þú vorgyðjunni út á hafsauga og reynir
að frysta í okkur blóðið langt fram í júní"!
Karl hló hjartanlega af húsfreyju, en svaraði engu, andaði síðan
snarpri ískaldri vingusu beint í andlit hennar svo
tárin streymdu niður kinnar hennar í næðingnum.
Sú gula hafði látið svo lítið að sýna sig þrátt fyrir
lætin í karlfjandanum, en mátti sín lítils fyrir
ofurmætti hans og kuldalegri þrjósku.
Tarna var ljóta sumarið.
Húsfreyja hætti snarlega við að fara í göngutúr...ekkert vit
í að drepast úr lugnabólgu um hásumar.
Það yrði bara hlegið að henni í "Sumarlandinu" þegar
hún mætti þangað með vottorð upp á banamein:
STEINDÓ AF LUGNABÓLGU Í "JÚNÍ"!!
Neipp, þá var betra að dúða sig í hlý vetrarföt,
skella sér inn í bifreið og fara í smá rúnt um bæinn....
með miðstöðina stillta á hæstu stillingu.
Húsfreyja flýði inn í hús aftur, en þar var þegar búið að
ákveða ferð "í bíl" út á Vatnsnes í eðal fiskisúpu
á Geitafelli, á meðan úrillur kötturinn vafði sig inn í
ullarteppi uppi á lofti.
Þetta lagðist bísna vel í húsfreyju, en hún ullaði samt
framan í "Vetur konung" á leiðinni út á nesið,
svona til að hefna sín fyrir ískaldar vindkviðurnar.
Á Geitafelli var vel og hlýlega tekið á móti svöngum
ferðalöngum. Fallegur hlaðinn turn á hlaðinu,
og snyrtilegur og fallegur veitingasalur.
Tengdapabbi hafði búið á Geitafelli til 6 ára aldurs.
Spjallaði við bóndakonuna og eðalkokkinn á staðnum.
Fiskisúpan rann ljúflega niður, nema hjá 10 ára djásninu,
sem er á "ekkert DRASL má vera í súpum"-tímabilinu.
Bóndakona leyfði að við litum inn í turninn.
Þar gamlir íslenskir munir frá fyrri hluta síðustu aldar,
og jafnvel eldri, gamlar ljósmyndir og fleira.
Uppi annað turnherbergi með skoskum munum, bréfum,
fánum og fleira, til heiðurs skoskum heiðursmanni,
séra Robert Jack.
Þar las húsfreyja þessu skemmtilegu frásögn:
Guð almáttugur var að skipuleggja
sköpun Skotlands, og ræddi málið
við Gabríel erkilengil.
"Ég ætla að hafa Skotland með háum
tignarlegum fjöllum, tærum bláum
vötnum, allar ár þeirra fullar af laxi,
undursamleg dádýr í fögrum skógum
þeirra, dali alla gróðursæla og
borgir þeirra glæsilegar.
Skotar verða síðan eldklárir,
hugrakkir, myndalegir....."
Hér greip Gabríel erkiengill framm í
fyrir Guði.
"En herra, ert þú ekki að mismuna
Skotum allhressilega, og hlaða undir þá
umfram aðra jarðarbúa"?
"Nei, alls ekki" svaraði sá heilagi,
"ég er ekki búinn að segja þér hverjir
verða næstu nágrannar þeirra".
Já, þetta var góð ferð út á Vatnsnesið.
En lítið hlýnaði þessa 3 daga sem húsfreyja
vísiteraði norðurlandið, og sá gamli upp á
Þrælsfellinu, spýtti við tönn og yggldi sig þegar
húsfreyja forðaði sér aftur suður í borgina við
sundin bláu.
Merkilegt nokk, hafði vorgyðjan ratað þangað
yfir Hvítasunnuhelgina, og tók á móti húsfreyju
með 17 stiga hita, sól og blíðu.
Kötturinn tjúllaðist af einskærri gleði yfir því að
losna úr bifreiðinni, og veltist í grænu grasinu
við hlið 10 ára djásnsins, sem brosti allan hringinn:
"MAMMA, SUMARIÐ ER LOKSINS KOMIÐ".
Það var og.
Góðar stundir og gleðilegt "alvöru" sumar.
Sumarið mætt í borgina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.