30.4.2011 | 17:40
Slökkt!
Húsfreyja rýndi út um
regnvota bílrúðuna.
Sólin var heillum horfin,
hulin dimmgrárri skýjakólgu
og engu líkara en sveitarfélagsmenn og
konur Borgnesinga hefðu fundið
"slökkvarann" á henni einnig,
og SLÖKKT.
Húsfreyja var að koma að norðan
frá Akureyri með bónda, 13 stiga hita og sólskini
og blíðu, og var nú stödd í Norðurárdalnum.
Þar var hin norðlenska veðurblíða minning ein:
Sólin,
sólin var hjá mér,
eins og grannvaxin kona
á gulum skóm.
Steinn Steinarr- Tíminn og vatnið (brot).
"Andskotinn í súrri mysu" húsfreyja
gjóaði nærsýnum augum sínum til himins.
Grár.
Horfði til beggja handa á landslagið.
Grátt.
Fram á þjóðveginn.
Grár.
"Tarna er ljótt að sjá" hugsaði húsfreyja örg.
"Hvurn fjandann hafði orðið um sunnlenska vorið"?
Húsfreyja dæsti af óþolinmæði Frónbúans sem þolað hefur
myrkan vetur, þraukað snjóuga daga og helvískan
bálandi vind slag eftir slag með vetrarlægðum.
"Helvískur rigningargrámi, bleyta og aur", húsfreyja
fussaði og sveijaði í huganum.
"Hann rignir enn, hérna megin heiðar" sagði hún mildilega
við bónda, sem sat og stýrði bifreið þeirra lipurlega
á milli vatnsfullra hjólfara á veginum.
Bóndi jánkaði.
Húsfreyju varð hugsað til nýafstaðinnar jarðarfarar
ungrar náfrænku bónda á Akureyri.
Ung kona um fertugt að kveðja í blóma lífsins.
Kannski grétu himnarnir henni til heiðurs.
Nefndi það við bónda.
"Ég vissi ekki að hún hefði trúlofað sig svona ung,
og hefði eignast sitt fyrsta barn 18 ára gömul", bóndi
hugsandi.
"Stundum er eins og fólk viti, að það eigi ekki langt
líf fyrir höndum" svaraði húsfreyja.
"Lífið sem við fáum að láni er stutt,
en minningin um líf sem vel var varið,
er eilíf". Marcus Tullius Cicero (106-43 f. Krist)
Frænka bónda hafði eignast þrjú börn, átti einn ömmustrák,
lærði til kennara og starfaði sem slíkur árum saman.
"Ekki mikið verið að sólunda tíma sínum, frænka þín"
sagði húsfreyja.
Bóndi var því hjartanlega sammála.
"Tíminn er sá auður
sem menn skyldu síst sóa".
Laertius Diogenes (þriðja öld)
Húsfreyja skammaðist sín, fyrir að hafa bölvað
regninu og grámanum, var allt gott og gilt í
nátturunni og kemur nýgróðrinum til góða.
Jamm, en skammast sín ekki neitt lengur í dag, húsfreyja.
Fékk nærri því slag, húsfreyja er hún leit
út í morgun, er hún vaknaði
SNJÓKOMA!
Og það snjóaði bróðurpartinn af deginum!
Sólpallur húsfreyju er snjóaður í kaf.
Sólin!?
Ekkert bólað á henni, helvískri.
-Hangir þarna gráum skýjum ofar og glottir,
púar vindla frá Kúbu,
snyrtir neglur sínar annars hugar;
"Kannski ég skreppi seinni partinn í maí
í smá vorkönnunraleiðangur, og láti ljós
mitt skína yfir frónverskar mannsálir".
Blæs á logarauðar neglur sínar, hallar sér
aftur og leggur sig.
Vekjaraklukkan er stillt á 20 maí-
Húsfreyja er að flippa af óþolinmæði eftir
sól og vori.
Til hvers er að eiga herlegan sólpall, húsgögn og grill,
ef ekkert er hægt að brúka slíkt fyrir
argvítans snjó, bleytu og vosbúð.
Dugir ekki húsfreyu að eiga einn drukknandi túlipana
í keri úti á sólpalli, sem hangir á grænum snjóskreyttum
blöðum sínum á kerbarminum af einskærri þrjósku
og lífslöngun.
Vill SÓL, SUMARBLÓM, GRILL og langa bjarta, hlýja og þurra daga.
En húsfreyja hefur alltaf verið kona með kröfur....
En aldeilis brilliant hugmynd hjá Borgarbyggðarfólki að
slökkva ljós yfir bjartasta tímann, ef þeirri "gulu" skyldi þóknast að
láta sjá sig í sumarbyrjun.
Ættum að taka þau okkur til fyrirmyndar....nema auðvitað það
snjói í allt sumar.
Góðar stundir, húsfreyja er farin út
að renna sér á rassaþotu 10 ára djásnsins....í maí-byrjun!
Spara lýsingu í sumar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Vinir og fjölskylda | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.