6.11.2010 | 17:49
Skratti góðir dagar.
"Sigga, ég vil fá meiri köku",
Marinó Týr mættur í þriðja sinn að veisluborðinu.
Húsfreyja tróð sér í gegnum 12 ára krakkaþvöguna,
og skar væna sneið handa 5 ára frænda sínum.
"DJÍSUSS, ég er eins og dvergur við hliðina á
þessum 12 ára stelpum" hugsaði húsfreyja.
"Telst ég fullvaxin þó" hélt húsfreyja áfram þönkum sínum.
Leist mun betur á drengina í afmælisveislu Svölunnar,
allir minni en húsfreyja, nema tveir.
En þeir löngu 12 ára slöttólfar lágu hvort eð er endilangir
á stofugólfinu og teiknuðu og lituðu grimmt, svo það kom ekki
að sök, hvað húsfreyju varðaði.
Húsfreyja dældi gosinu jafnt og þétt í glös risavaxinna stúlknanna,
og jafnvel fyrir einn og einn smávaxinn dreng.
Pizzurnar runnu glatt ofan í liðið.
"Sigga, ég vil fá meira Appelsín", Marinó aftur og
tog í olbogann: "Mamma, ég er EKKERT búin að fá",
níu ára djásnið örlítið ásakandi.
Húsfreyja reddaði Appelsíninu í einum hvínandi hvelli,
og djásnið fékk væna sneið af pepperónipizzu og Pepsí í glas.
Marinó rukkaði fljótlega aftur um tertusneið, og húsfreyja
skellti síðustu sneiðinni á pappadisk, skáskaut sér milli
gólfliggjandi drengjanna, og tveggja mjög hávaxinna stúlkna
sem stóðu þétt upp við stofuskápana, en aðeins 20 cm frá
"gólfunnendunum", og færði móður sinni!
Móðir húsfreyju sem hefur ætíð gaman af blöðrum og afmælum,
var hálfbakk í rúmi sínu vegna "vatnsblöðru" sem stungið hafði
sér undir aðra hnéskel hennar.
"Síðasta sneiðin! Það er nóg til, heil önnur terta frammi í
ísskáp í bílskúrnum" , múttunni um og ó!
Og móðirin skakkalappaðist fram og náði í teruna....lenti
í sömu þrengslum og húsfreyja á milli slánanna, sem ekki
hreyfðu sig af gólfinu, frekar en stofuskápselskandi
stórvöxnu dömurnar.
Móðirin með tertuna á lofti bað gólfdrengina að færa sig örlítið
sem þeir gerðu ljúflega, báðir "ofan á og í veg fyrir" fæturnar á múttu.
Móðirin tertuglaða hrasaði þar með beint ofan á peyjana,
og mátti sig hvergi hræra...tókst með naumindum að bjarga
tertunni frá stórskaða.
Systir að koma úr sjoppuferð...gosið kláraðist á 10 mínútum,
færandi hendi með meira gos, reddaði málunum og múttunni.
Húsfreyja ákvað að taka sér pásu, tók upp prjóna í
ró og næði inni í forstofuherbergi múttunnar.
Marinó kom 4 ferðir að ná í húsfreyju, var óstöðvandi
í tertunni og appelsíninu.
"KRÆST, þeir hafa GRÓIÐ fastir við gólfteppið, löngu peyjarnir"
hugsaði í fjórðu ferðinni, " og hvað skyldu risavöxnu skvísurnar
tvær sjá svona athyglisvert við stofuskápinn"?
Níu ára djásnið kom 3 ferðir og var aðallega þyrst....
húsfreyja prjónaði sáralítið.
En að lokum hafðist að seðja 30 manna hópinn, og leikirnir hófust.
Húsfreyja náði að spjalla við múttu sína og prjóna hálft stykki.
Systir í Þorlákshöfn var með "hlutverk" í draugasöguleiknum, og stóð
í brunagaddi og myrkri fyrir utan sólpallsdyrnar hulin hvítu teppi,
á meðan Sigginn 10 ára bróðir Svölunnar sagði ægilega draugasögu
um sjoppuferð í niðamyrkri, ...og allt í myrkri í sjopunni, en þá kviknuðu
ljósin í sjoppunni allt í einu og feitur sköllóttur sjoppueigandi
sagði með draugalegri og dimmri rödd: "HALLÓ."....
og þá bankaði systir "draugalega" á dyrnar.
Það var öskrað, gargað, orgað og hlegið.
Marinó Týr taldi næsta víst að JÓLASVEINNINN væri mættur,
"...hann er mættur svona svimandi snemma, Sigga frænka"!
"Besta afmæli EVER" sagði níu ára djásnið með þunga,
þá húsfreyju tókst loks að koma henni af stað heim á leið
upp úr klukkan níu um kvöldi.
Í dag var svo sofið fram eftir, skroppið í bíó,
og rætt við húsfreyju um fallegan bleikan lit á vetrarhimni,
vinkonur, afmæli og góða hluti í lífi níu ára djásns.
"Mamma, við kunnum að nota helgarnar vel".
Góðir dagar í fríi...já bara skratti góðir dagar.
P.S Myndirnar tók húsfreyja í sumar.
Athugasemdir
vesen alltaf missi ég af þessu....æ æ
anna systir (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 14:46
Mætir bara næst, systir
Sigríður Sigurðardóttir, 10.11.2010 kl. 17:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.