27.9.2010 | 21:49
Flóttinn.
Það var nótt.
Og ég gekk eftir götunni.
Og gatan var hljóðlaus og mannlaus,
því það var nótt.
Ég gekk föstum og ákveðnum skrefum
og sagði við sjálfan mig:
Sjá, ég er farinn brott.
Ég kem aldrei aftur.
Og engum skal takast
að finna felustað minn.
Þá heyrði ég snögglega
fótatak einhvers á eftir mér.
Og ég sneri mér við,
því ég vildi sjá hvort ég þekkti hann.
En það var ekki neinn.
Það var aðeins skóhljóð, sem elti mig.
Og ég hrópaði, skjálfandi röddu:
Hvað hef ég þá gert?
Mér var svarað með lævísum hlátri,
lengst úti í myrkrinu:
Ég er lífið sjálft. Og þú kemst ekki undan.
Ég elti þig.
Steinn Steinarr.
Sterkur Steinn.
Þung og flott undiralda í þessu.
Húsfreyja er einmitt í "flóttastuði" þessa dagana.
"Flótti" er einn af varnarháttum mannsins,
og flest höfum einhvern tímann beitt honum í erfiðri
stöðu.
Húsfreyja var lengi fram eftir aldri að berjast við
feimni, og flóttinn var þá hennar aðal varnarháttur.
Feimnin setti henni þröngar skorður, þegar hún var órétti
beitt, eða þá að henni var sótt.
Svo húsfreyja flýði fremur en að standa á rétti sínum eða
tala máli sínu.
Um þrítugt tókst húsfreyja að segja skilið við feimnina.
En flóttinn var nánast orðinn henni eðlislægur, og
og í mörg ár mátti húsfreyja hafa sig alla við
að snúast ekki á hæla og flýja, þá harðnaði á dalnum,
og hressilega blés á móti.
Nú er flótti ekki lengur einn af kostum húsfreyju í andstreymi.
Hún rís upp og berst með kjafti og klóm,
boðar til funda, þjappar fólki saman og vinnur í málunum
af ákveðni jafnvel hörku.
Hefur iðulega sjálf, ekki hugmynd hvaða kona þetta er,
sem svona hagar sér, enda allar hennar taugar þandar og
"organdi" á flótta innra með henni!
Húsfreyja ansar ekki.
Virðir ekki taugar sínar viðlits.
Vill bara berjast.
Síðan alltaf hægt að fá vægt taugaáfall að málalokum.
Þó húsfreyja hafni flótta í dag, telur hún flótta eigi að síður
nauðsynlegan varnarhátt mannfólkinu, og þarf enginn að skammast
sín fyrir að beita honum sjálfi sínu og tilfinningum til varnar.....stundum
er flótti bara eina leiðin.
Að festast í einum varnarhætti er hins vegar erfitt,
og getur hamlað þroska og dregið úr lífsfyllingu.
Svo flótti er "út" hjá húsfreyju, búinn með flóttakvótann,
"berjast" er málið.
Og það er hörku barátta framundan í kjaramálum.
Aðeins þetta sem húsfreyja vildi segja.
En Steinn segir þetta bara svo miklu flottar en húsfreyja.
Góðar stundir og góða nótt.
Athugasemdir
góð kollega !
það má segja að hjá hjúkrunarfræðingum sé flótti "út" og nú skal sko berjast. Við bara verðum að standa saman - hætta að láta "kúga" okkur og endalaust hamra á því að við séum heppin að hafa vinnu!!
Eru ráðamenn LSH ekki heppnir að hafa okkur í vinnu - ég bara spyr ??
Sigrún Óskars, 28.9.2010 kl. 20:21
Heyr heyr, kollega nú snúum við bökum saman og látum ekki kúga okkur til auðmýktar og undirlægjuháttar...lækka hjá okkur laun...vinna sömu vinnu fyrir lægri laun er bara kjaftæði....erum með HJÚKRUN allra landsmanna á okkar bökum....og sífellt verið að troða á okkur meiri ábyrgð og vinnu....en megum ekki vinna yfirvinnu....meiri ábyrgð á færri hendur...og við erum í stöðugri baráttu með að fá að viðhalda faglegum vinnubrögðum. Það má hver vinnuveitandi innan heilbrigðiskerfisins telja sig heppinn að hafa góða hjúkrunarfræðinga að störfum hjá sér....
Sigríður Sigurðardóttir, 28.9.2010 kl. 20:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.