17.5.2010 | 18:06
Lítill framboðsfundur....
...bara svona meira spjall við
fólkið í hádeginu" ? sagði
skrifstofustjórinn á vinnustað húsfreyju.
Húsfreyja gjóaði augum á frambjóðendur,
sem mættir voru með hvíta plastpoka.
"Jaso, RÚSÍNUFLOKKURINN bara mættur"
hugsaði húsfreyja.
Gaf leyfi húsfreyja og það stóð heima, frambjóðendur
byrjuðu á því að heilsa og deila út
"rúsínupokum" með kaffinu eftir hádegismatinn.
Húsfreyja nikkaði frambjóðendunum tveimur og
reyndi að beina þeim að borðum eldklára fólksins.
Kvenframbjóðandinn rataði strax á borð fullt af
eldklárum öldungum, en karlinn var ekki eins heppinn.
rambaði beint á borðið hjá þeim sem voru orðnir
all nokkuð gleymnir og sumir töluvert mikið, svo jaðraði
við minnisleysi.
Hann heilsaði fólki með virktum, og það tók vel undir,
á meðan frúin á eldklára borðinu, þurfti talsvert að
útskýra veru sína á svæðinu og stefnu flokksins,
og rökstyðja hví í ósköpunum öldungar ættu að kjósa
"rúsínuflokkinn" fram yfir aðra.
"Mikið ertu huggulegur og skemmtilegur maður" sagði
ein elskulega "svolítið farin að gleyma" frúin.
Maðurinn innti eftir áhuga annarra flokka að mæta á svæðið.
"Við höfum bara ALDREI séð nokkurn frambjóðanda hér
fyrr en þig" svaraði önnur frú töluvert mikið farin að gleyma.
"Hvað segirðu"?, frambjóðandi var rasandi.
"Já, svaraði frúin að bragði, þú ert sá fyrsti síðan ég kom hingað"!
Frú þessi hefur dvalist hartnær 8 ár hjá húsfreyju, og hitt töluvert af
alls konar frambjóðendum á tímum kosninga í landi voru.
Húsfreyja glotti en lét vera að leiðfrétta elskulega frú sína.
Frambjóðandi setti í gír og ræddi um stefnu "rúsínuflokksins"
í borgarstjórnarkosningum.
"Ég kýs þig, og þú verður forseti" sagði elskulegur
karl með langt genginn minnissjúkdóm við hlið frambjóðenda.
"Já, og ég skal sko kjósa þig, ef ég fæ hjá þér bækling" sagði
sú sem ALDREI hafði hitt frambjóðanda fyrr...hvorki þennan né nokkurn annan.
Frambjóðandi varð eitt bros, reyndi að leiðrétta "forsetaframboðið",
reif upp bæklinga úr poka sínum og rétti ALDREI-konunni.
Konan rýndi á forsíðuna, rétti svo bæklingin yfir til
"svolítið farin að gleyma frúnnar", "lestu þetta fyrir mig,
ég er alveg orðin blind"!
Svolítið farin að gleyma frúin tók glöð við bæklingi,
"ég skal svo sannarlega lesa þetta, hlýtur að vera
bæði hugguleg og skemmtileg lesning frá svona
myndarlegum manni eins og þér" og las síðan
í honum það sem eftir lifði hádegisverðar...í hljóði.
"Ertu læknir"? spurði gamli með langt gengna minnissjúkdóminn.
Frambjóðandi fór allur hjá sér, var eiginlega alveg í rusli,
þegar húsfreyja kom honum til bjargar.
Hún smellti sér í pælingar um næsta borgarstjóra,
hvort íbúar í borginni við sundin bláu myndu í
alvöru kjósa yfir sig "veifandi" borgarstjóra sem
býður upp á hlunnindi eins og FRÍTT í sund og
niðurskurð á "öspum"!
Frambjóðandi brosti glaður og feginn, og taldi að borgarbúar
héldu sönsum, og myndu skilja að grín væri grín,
og kysu "ábyrgt fólk" eins og er svo mikið af í
"rúsínuflokknum"!
Húsfreyja tók undir með frambjóðanda, enda fannst henni
ekki vert að bæta við hremmingar hans.
Kvöddu þau svo "rúsínuflokksframbjóðendur" öldunga
og starfsfólk með virktum, og fóru að hitta ellismelli
á öðrum deildum.
Jamm!
Hlakkar til að fá "pennaflokkinn", "barmmerkjaflokkinn", "blöðruflokkinn"
og "skera-niður-aspir-flokinn" í heimsókn næstu daga,
húsfreyja.
Verður stuð.
Er svo húsfreyja búin að skreppa með systur í Þorlákshöfn
á kosningaskrifstofur, að kynna sér stöðu mála þar í
sveitapólitíkinni.
Líst bara vel á.
En systir hefur verið dugleg að flakka á milli kosningaskrifstofa
að kynna sér málin.
Ein "dökkblá" frú í höfninni er heldur óhress með "ráp"
þetta á systur, húsfreyju og þriðju konu sem gjarnan slæst
með í för, og sagði þær vera "flokksskækjur"!
Húsfreyja glotti við tönn, og sagði það ekki verra að
"skæklast" og "skækjast" á milli flokka til að fá málin
á hreint, en að vera "svarblá" af heilaþvætti.
Jamm.
Víða heitt í kolum þegar kosningar fara í hönd.
Húsfreyja hefur lúmskt gaman að!
Góðar stundir og húsfreyja mælir með "rúsínuflokknum"....
í dag...Spurning hvað verður á morgun....hehehe!
Framboðsfundi frestað vegna öskufalls | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.