11.3.2010 | 18:42
Nýir gjaldmiðlar?
Blessaðir Kanarnir alltaf snjallir.
Gerðu "páfagauk" konu einnar upptækan,
því konuræfillinn hafði eigi staðið í skilum
með afborganir af húseign sinni.
Ekki nóg með það að "gæludýrið" væri tekið
með harðræði upp í skuldina,
heldur gengu verktakar hins ágæta Bank of America
í það að "eyðileggja" húsgögn konunnar.
Makalaust athæfi atarna.
Og nú er konuvesalingurinn í sjokki, með mergjaðan
ofsakvíða yfir húsgangna- og gaukstjóni
þessu, á meðan gaukurinn Lúkas er sjálfsagt allur úfinn
og stúrinn yfir því að geta ekki tyllt sér lengur
á uppáhaldssófabakið sitt, og argur yfir því hafa þurft að gista
óhrjálegt skrifstofuborð verktakanna sem skemmdu sófann.
Fimmtíu þúsund dollara vill kvíðafulla konan fá
í skaðabætur frá bankanum fyrir hremmingar sínar og Lúkasar....
og það þrátt fyrir að Lúkasi ræflinum hafi
verið skilað með vinalegri afsökunarbeiðni frá
bankamönnum og konum....
Jamm, á þá altént konan að geta skellt einhverju af þeim
dollurunum upp í fasteignaskuldina.
Hehehe...skondin frétt.
Hvað ætli annars að "gangverðið" á páfagaukum sé?
Já, og þá öðrum gæludýrum?
Því færi svo að frónverskir bankamenn tæku ameríska bræður
sína sér til fyrirmyndar, og færu að gera "gæludýr" sér
að góðu upp í skuldir, þá á húsfreyja eðal læðu.
Bröndótta, barngóða, húsvana en að vísu eilítið "gallaða"!
Hún er með skarð í vinstra eyra eftir ægilegan bardaga
við fresskattargrey, sem missti sneið úr læri í viðureigninni
við kisu húsfreyju.
Haltrar síðan!
En það má alveg líta svo á, að læðurófan sé
líkt og hin dásamlega frónverska sauðkind
vel "mörkuð"..."aftur-þríhyrnt -skorið" mætti lýsa
eyra læðu....svo máske það sé bara bónus.
Húsfreyja ætti kannski að bjalla í bankastjórann
sinn, og kanna hvort hún geti ekki sent þeim
köttinn næstu mánaðarmót í stað peninga...
og málið er dautt.
Lán húsfreyju að fullu greidd!
Nah! Gengur ekki!
Níu ára djásnið tæki það aldrei í mál.
Dýrkar læðuna, enda er djásnið eina barnið
í 25 kílómetra radíus sem á "kött með skarð í eyra".
En mikið rosalega eiga margir "halta" ketti í hverfinu.......
Góðar stundir og hugsið vel um gæludýrin ykkar....tala ekki um
sé bankinn á hælunum á ykkur.
Banki tók páfagauk upp í fasteignaskuld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ætli þessir "verktakar" sem bankinn sendi vinni líka fyrir mafíunna?
Óskar Arnórsson, 13.3.2010 kl. 12:49
Það læðist að manni illur grunur, Óskar...illur grunur!
Sigríður Sigurðardóttir, 13.3.2010 kl. 19:28
...aðferðin talar sínu máli...
Óskar Arnórsson, 14.3.2010 kl. 01:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.