Færsluflokkur: Bloggar
2.3.2009 | 14:44
Heyrðu félagi löggi...
..alveg varð'etta stórfurðulegt
!
Við bara að "ganga" heim pissufull,
þegar helvískur bíllinn tók upp á því
að ELTA okkur... alveg upp á sínar eigin spýtur.
-HIKK-
Bara eins og andsk...hundur.
Við skipuðum honum að snúa við,
eða í það minnsta að snáfa sér heim!
-HIKK-
En hann lét bara alveg eins og asni,
-HIKK-
rásaði eins og hauslaus hani
þvers og kruss um veginn,
-HIKK-
og anaði svo bara "bílfíflið", beina leið oní
fjandans skurðinn!
Og helv...djöfull, það er ég viss um
að tryggingarnar harðneita að borga tjónið.
-HIKK-
Má ekki annars bjóða þér einn sjúss, vinur?
-HIKK-
Nei! Þú um það! Ykkar skál...glogg..glogg...glogg!
Þið skutlið okkur svo kannski heim, félagarnir...
soldið langt að labba í þessum skítakulda.
-HIKK-
Iss, látiði þið bara bílhræið liggja þar sem hann
er, á'ann ekki, fékk hann að láni hjá Gauja bróður!
-HIKK-
Hehehe, bara varð, húsfreyja.
En gott að stútar þessir ollu ekki sjálfum sér
og öðrum skaða á fyllerísflandri þessu.
Góðar stundir.
![]() |
Enginn gekkst við akstrinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.3.2009 | 18:35
Hæfileiki eða nauðsyn?
Húsfreyja hefur löngum heyrt
frá vísindamönnum,
að konur eigi auðvelt með að
gjöra marga hluti í einu.
Svona skipta athyglini niður
í "hólf", og framkvæma marga hluti í einu,
á meðan karlar geta aðeins einbeitt sér
að einum hlut í einu.
Á flestum tímabilum í lífi konu, er þetta
mjög handhægur og góður hæfileiki.....
og bráðnauðsynlegur!
Gott að getað skeint, skúrað, eldað,
reddað Visa-reikningnum í gegnum síma
um leið og þú hengir þvottinn á þvottagrindina.
En það er svona "tabú" að beita þessum
hæfileika undir stýri á bíl, þá ungabörn eru
annars vegar, þar sem það er andstætt öllu umferðalögum.
Það breytir ekki því, að konur nota þennan
hæfileika sinn hvar sem er í þjóðfélaginu,
við hvaða aðstæður sem er.
Húsfreyja deilir út lyfjum á deild sinni, skiptir
á sárum, aðstoðar veika við að matast, svarar
símtölum um leið og hún planar dagplanið
fyrir næsta dag í huganum, næstum hvern
einasta dag....allt á sömu 30-50 mínútunum.
Missir aldrei taktinn, hver á að fá sín lyf næst,
hvort hann/hún þarf þau mulin í mauki, með
AB-mjólk, með Sorbítólmixtúru, með astmapúst
eða augndropa, þó margt annað þurfi að starfa
með lyfjagjöfinni.
Tekur þessum hæfileika sem sjálfsögðum hlut.
"Bráðagírinn" er svo eitthvað sem hver og
ein kona verður að þjálfa upp hjá sjálfri sér.
En hann þarf að nota þegar takast á við óvæntar
uppákomur, eins og iðulega koma fyrir í
starfi húsfreyju!
Þá er bráðnauðsynlegt að "einbeita" sér
aðeins að þeirri uppákomunni, og finna lausn
á henni og setja ALLT ANNAÐ til hliðar.
Sumar konur virðast hafa mjög "latan og hægengan"
bráðagír, og fara nánast í lost við óvæntar uppákomur.
En flestar hafa þær er húsfreyja þekkir, þjálfað
upp ágætis "viðbrögð" við álagi og óvæntum uppákomum,
og málin leysast vel og farsællega.
En það er þetta að "bakka aftur" í venjulega
"marghólfa" gírinn, þá bráðastandið er liðið,
sem stundum er snúið.
Adrenalínflæðið hefur brennt upp mikla orku,
og konan er eins og undin tuska á eftir.
Þarf mikið kaffi, og slatta af kolvetnum og sykri
til að koma aftur hugarstarfsemi í rétt horf.
Smá spjall við kollegana um uppákomuna
hjálpar líka.
Hefur húsfreyja minnst á það að kaffið
er drukkið í "tonnavís" á frónverskum
heilbrigðisstofnunum?
En elsku ungbarnamæður "stöðvið" bílinn
í vegkanti, ef þarf að gefa krílinu brjóst...
en er alveg hægt að spjalla í símann á meðan,
ákveða afmælisgjöfina handa pápa, plotta
kvöldmatarkaupin og renna varalitnum eina
umferð á meðan!
Húsfreyja talar af reynslu!
Góðar stundir!
![]() |
Ók bíl, gaf barni brjóst og talaði í síma á meðan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.2.2009 | 16:56
Tjíváva.
Hallelúja!
Húsfreyja hefur nú farið,
með stuttu millibili
á tvær bíómyndir þar sem
hundar leika aðalhlutverkin.
Nú voru það Sjefferhundur og
Tjívávatík.....jamm í alvöru.
Og allir kunna leikarar þessir
að ræða málin saman á "mennskri"
tungu, leysa erfiðustu þrautir, glæpamál
og hvað ekki...en vesalings St. Bernhardshundurinn
var látinn leika trúð!
Og þar að auki í örsmáu hlutverki.
Svei, ef húsfreyja saknar ekki Lassie
hinnar "vofftyngdu", sem var ógnvaldur
allra glæpona á 100 kílómetra radíusi
frá heimabæ sínum.
Sem stökk í það að bjarga börnum jafnt sem fullorðnum
í lífsháska, milli þess sem hún urraði
og "gelti" að bófunum.
Í dag er það lítil hvít Tjíváva sem heitir
"CHLOÉ" í bleikum kjól og skóm í stíl,
notar Chanel No 5 og er með hálsband
úr "ekta" gimsteinum....og "spjallar"
á prýðisgóðri íslensku.
Húsfreyja er eitthvað "veruleikafirrt" í
hausnum eftir svona kvikmyndir og veit ekki
hvort myndin var skemmtileg, óbærileg, spennandi
eða grátleg....og kannski þetta allt saman!
En skvísurnar 3, Báran, Svalan og Elínóran skemmtu
sér konunglega, svo húsfreyja er sátt, þar sem
það er jú aðal málið.
En NÆST verður það EKKI hundabíómynd, sem
húsfreyja býður skvísunum á...se, sei nei!
En svo hefur húsfreyja verið að glugga í
nýlegar og gamlar bækur í eigu sinni.
Fann eina með ýmsum skemmtilegum
tilvitnunum.
Sá sem hikar er stundum
sá sem bjargast.
Ellin er það óvæntasta sem getur komið
fyrir nokkra manneskju.
Ég hata konur vegna þess að þær vita
alltaf hvar hlutirnir eru.
Konur eru skynsamari en karlar vegna þess
að þær vita minna en þeir en skilja meira.
James Thurber (1894-1961)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.2.2009 | 11:58
Dásemd!
Bókaormurinn í húsfreyju
tók flikk flakk með þrefaldri
skrúfu af gleði, þá hún barði
fregn þessa augum, nýrisin
úr rekkju.
Man húsfreyja þá tíma, að reyna átti
að stilla hana inn á "venjulegan"
svefntíma þá hún var ung að aldri.
Voru ljósin í barnaherberginu slökkt,
og fylgst grannt með að ekki læddist
húsfreyja í að kveikja aftur.
Tróð hún sér þá 7-12 ára skotta, út
í glugga og las í björtu tunglsljósinu.....
Enid Blyton...Astrid Lindgren....allt sem
hún komst í eftir þá höfunda lesið.
Aðeins seinna "Gulleyjuna", "Moby Dick" og
"Fleming og Kvikk".
Haraldur bókavörður á safninu í Eyjum
var farinn að hjálpa lestrarhesti þessum,
við að finna "ólesnar" barnabækur, þá hann hafði tíma.
Mátti taka 4-10 bækur í einu að láni í safninu, eftir foreldraboði,
svo heimalærdómurinn yrði ekki útundan í
öllum skemmtilestrinum.
Tók ALLTAF 10 bækur að láni!
Var alæta á barnabókmenntir, ekkert hægt að
merkja þær fyrir henni "eingöngu fyrir stráka",
eða eingöngu fyrir stelpur.
Hafði Haraldur gaman að, að yfirheyra skottu
smávegis um innihald bókanna, því svo hratt
las hún, að hún náði iðulega að klára 10 bækur á
innan við viku.....enda lesið við tunglsljós.
Hélt hann að hún hefði "svindlað", og sleppt því
að lesa eins og 3-4 bækur.
En alltaf hafði hún svör á reiðum höndum, og ALLAR
hafði hún lesið.
Síðan kom vorið, og ferðir skottunnar urðu strjálli
á bókasafnið, og að lokum sást hún ekki lengur innan
um virðulegar bókahillurnar á bókasafni Vestmannaeyja.
Var horfin á vit eigin sumarævintýra á eyjunni fögru, í útileiki,
fjör og söng.
En þá haustaði aftur og tók að dimma,
mætti aftur smávaxin, logarauðhærð
skotta í dyrnar á bókasafninu hjá Haraldri, brosti
feimnislega, og spurði eftir nýjum barnabókum!
Og Haraldur bókavörður leit yfir gleraugun sín, glotti
vinalega og sagði að jú kannski að hann hefði fengið eins og
3 nýjar barnabækur yfir sumarið.
Og hló svo upphátt sá góði bókavörður, þá hann sá
vonbrigði skottunnar....BARA þrjár!
En oft lumaði sá góði Haraldur á gömlum
góðum barnabókum, sem skottan hafði ekki
enn náð að lesa...og svo mátti nú bara lesa
AFTUR skemmtilegustu bækurnar....og AFTUR!
Það er næsta víst að húsfreyja mun EKKI
láta bókamarkað Perlunnar fram hjá sér fara.
Er reyndar með mikið leiktríó á sínum snærum
þessa helgina. Svalan mætt og Elínóra besta
vinkona líka.
Bíóferð í spilunum...enn ein hundamyndin....DÆS!
Verst ef húsfreyja fer algjörlega "í hundana", áður en henni
tekst að næla sér góðri bók ú Perlunni.
Gera "bíóliðskönnun" næst.
Góðar stundir.
![]() |
Þúsundir bóka í Perlunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2009 | 10:06
Ömmur og afar sem breytast....
...í dreka í myrkum skógi,
er bara ávísun á ræs fyrir
klukkan 9 á frídegi húsfreyju.
Átta ára djásnið er í vetrarfríi,
og síðan vatt "skrímsla- og nornadagurinn"
í gær, sig eitthvað inn í drauma hennar.
Hafði þó Svöluna með sér í martröð
þessari, en þekkti enga ömmuna eða
afann.
Baunaeldamennska húsfreyju lukkaðist
prýðilega vel, þrátt fyrir að hún stressaði
sig lítið sem ekki neitt yfir pottunum.
Hefur aldrei skilið hrifningu þessa yfir
"mauksoðnum baunum", sjálf...enda nægja
henni 3-4 matskeiðar af graut þessum,
og þarf þá ekki meira af honum fram á næsta sprengidag.
Saltkjötið, rófurnar og kartöflurnar er svo allt annar handleggur,
enda bara um lostæti að ræða. NAMM!
En bóndi hennar hringdi af og til áhyggjufullur,
og athugaði hvernig "baununum" liði.
"Eins og óhreinum bleium í bleyti" var ekki
vinsælt svar, né heldur "krauma lukkulegar með alls
konar gumsi".
En þegar bóndi var búinn að setja húsfreyju í
þriðju gráðu yfirheyrslu um "gumsið"...laukur,
2 saltkjötsbitar og ein skrælluð kartafla
var undirstaðan í því, var eins og honum létti
að miklum mun.
Heilsufar og líðan húsfreyju var hins vegar
ekki rætt!
Jamm, og "baunamaukið" er uppétið, svo
líklega er húsfreyja bara efnilegur "baunakokkur".
Stinga upp á því við bónda að hún sjóði "grænt baunamuk"
næsta Sprengidag, að ári.
Gerir áreiðanlega stormandi lukku.
Nú svo á Öskudagur eina "18 veðurfarslega bræður"
samkvæmt þjóðtrúnni, svo húsfreyja sér fram
á myljandi flottar fjöruferðir með 8 ára djásninu
næstu 18 daga.
Fórum eina í gær í himneskri blíðu og náttúrufegurð.
Fyrir norðan mun geysa stórhríð, eftir því sem húsfreyja sá
í fréttum í gær...í 18 daga!
Það er eins og frændur hennar fyrir norðan sögðu oft:
"Norðurlandið er á mörkum hins byggilega heims.....og
svo fer það stundum langt yfir mörkin á veturna...
....til hins verra".
En þá var nú útidyrahurðin á húsum þeirra orðin
smá "þakgluggi" upp undir rjáfri, og svo fóru þeir á
sunnudögum með familíuna í nestisferð í "skrúðgarðinn"
og tylltu sér á "ljósastaurana" sem maraði í, undir snjónum
og snæddu nestið.
En málgagnið og martraðarlaus blundur næst.
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt 8.3.2009 kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.2.2009 | 09:09
Nornin svaf vært...
...en "beinagrindin ægilega"
var mætt..........
Með svarta bauga, og
snaggaralega derhúfu á höfði,
og spurði eftir norninni.
"Er að reyna að vekja hana
í skólann" svaraði húsfreyja
hálfskelkuð...þetta var ægilegt,
fölt og skuggalegt beinagrindarandlit
sem við blasti sjónum hennar í
myrkri vetrarmorguns.
Nornin rumskaði loks, klæddi sig
upp með hraði, snæddi morgunverð,
vildi glimmer, vildi ekki glimmer, fann
ekki útifötin sín og gleymdi bæði nesti
og lestrarbók.
En svarti nornahatturinn með rauðu
rósinni gleymdist ekki.
Loks tókst húsfreyju að koma bæði
norn og beinagrind af stað í skólann,
settist og ætlaði í málgögnin.
Fann þá lestrarbókina og svo nestið,
er nú á leið í skólann með hvoru tveggja.
Góðar stundir!
![]() |
Öskudagur tekinn snemma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.2.2009 | 08:49
Útvarp Matthildur!
Í sjónvarpinu!
Með sama leikara, og allt!
"Hjálpi mér", hugsaði húsfreyja.
"Lengi getur vont versnað".
Og aðalleikarinn búinn að vera að
"vara Haarderinn við" hruni bankakerfisins
meira og minna síðan 2006...eða 7....eða 8.
En í maí síðastliðinn sagði samt blessaður
foringi vor í Seðlabankastólnum,
FRAMMI FYRIR ALÞJÓÐ
"að bankarnir stæðu STERKIR og að
fjármálalífið væri í meginatriðum TRAUST".
Jaso!
Voru "fjármálahrunsaðvarirnar" þá eingöngu
ætlaðar Haarderanum og bláa liðinu, svo það gæti
reddað "aurunum" sínum úr landi, og skellt
þeim inn á leynireikninga í skattaparadísum?
Því varaði ekki ástsæll seðlabankastjóri vor
"þjóð sína" við bankahruninu?
Eða er Haarderinn og hans flokkur "þjóðin",
í huga seðlabankastjóra?
Og hví sat Haarderinn á aðvörunum þessum
eins og ormur á gulli?
Hví brást ekki andsk... maðurinn við þeim?
Hann var jú "forsetisráðherra" vor.
Sé aðalleikari "Útvarps Matthildar" að
segja satt og rétt frá, er þetta áfellisdómur
yfir Geir Haarde og ríkisstjórn hans.
Og enn frekari árétting er þetta viðtal
við seðlbankastjóra, (sem sagði síðast
í maí 2008 að "bankarnir stæðu STERKIR")
um að hann hefði aldrei átt að yfirgefa
"leikarastéttina"....væri kominn með
Grímuna, Golden Globe og Óskarinn í
hendurnar í dag.
Góðar stundir.
![]() |
Davíð í Kastljósviðtali |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2009 | 09:17
Hefði skilið þetta....
...húsfreyja, hefði hann nælt sér
í saltkjöt og baunir.
En húsfreyja er sérlegur
baunakokkur í dag, hér á
sínu heimili.
Fékk miklar leiðbeiningar
í gærkveldi frá bónda sínum, sem
er svo sérlegur áhugamaður
um saltkjöts- og baunaát.
Enda verslaði hann bæði kjöt og baunir,
til að tryggja gæði hráefnis....en svo
er það bara þetta, að ÞURFA að treysta
húsfreyju fyrir baununum.
Jamm, mikil og þung er ábyrgð húsfreyju,
enda farin í rúmið með málgagnið í sínu
vaktafríi. Reddar baunamálinu eftir blund
og hádegissnarl.
Góðan Sprengidag.
![]() |
Brotist inn í Melabúðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.2.2009 | 18:04
Hrikalegt! Rosalegt!
Að klikka svona á öllum
sköpuðum hlutum, húsfreyja.
Auðvitað hefði hún átt að giftast
honum "Spægó", fressinum í næsta húsi
þá hún var 2 ára, og í ljós
kom að "frekjuskarðið" á milli framtanna
hennar rúmaði heila tönn....þótti heldur
ólánlegt á að líta, svo ekki sé minnst á
"ógurlega skapsmunina" sem fylgdu
"tanngjá" þessari.
Í dag er þá hún og hennar herlega stórfjölskylda
"Nóbelsverðlaunahafar í veseni" allt út af
svona mergjuðu "giftingarklikkelsi" í bernsku!
Eldgos í bakgarðinum hjá húsfreyju ´73 var fyrsta
vísbendingin um að eitthvað hefði klikkað
illilega í "giftingarbransa" húsfreyju í
frumbernsku.
Prestur sem kveinaði eins og kvalinn köttur
þá hann tónaði í fermingu hennar, hefði
líka átt að hringja öllum aðvörunarbjöllum.
Stutt andlát með "frávísun" úr "himnaríki sjálfu"
eftir "hvellsprunginn" botnlanga, á unglingsárum hefði einnig
átt að skjóta 50 logarauðum neyðarblysum á loft í heilabúi
húsfreyju.
Og góðærissukkari af Guðs náð (og af Dabba náð) uppi á Litla Fróni
og terroristi numero UNO í Stóra Bretlandi síðustu
mánuði, hefði svo sannarlega átta að sprengja "atombombu"-
ljós í hugarskotum hennar.
En sei, sei,nei!
Húsfreyja búin að vaða í villu og svíma, ÓGIFT,
VESENISTI í stórum stíl árum saman og stendur bara á
(illu) öndinni yfir yfir öllu þessu árans, óláns
VESENI sem hún alltaf virðist klúðra sér í.
Hún sem hefði getað lifað rólegu og huggulegu
lífi í Eyjunum....harðgift honum Spægó!
Raulað Eyjalögin, duddað við kartöflurækt,
skroppið í bjargsig í Heimakletti á
hverjum föstudegi, verslað sér dress hjá
Jóa í Drífanda, náð sér mjólk og brauð á
Þingvöllum og fengið sér kandís í Brynjólfsbúð.
Og hún hefði náð sér í efnilegan útgerðarmann
úr Eyjunum, þá Spægó ræfillinn gerði hana að ekkju
og lifað hamingjusöm til æviloka.
Jamm, mikið hrikalega skal húsfreyja alltaf "klikka
rosalega" á svona sára einföldum málum,
eins og að giftast einhverju heimilisdýrinu í
bernsku.
Ætli það sé nokkuð hægt að redda málunum
úr þessu??
Hmmmm... hann Siggi Freyr frændi húsfreyju
var að fá lítinn "fresskettling".....ætli hann sé
nokkuð lofaður......!?
![]() |
Giftist hundi vegna ólánstannar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.2.2009 | 17:33
Eitrað grín?
Eða gengur "eiturbyrlari"
laus á litla Fróni?
Er Johnsen kominn í mikinn
grín og glens ham eða er
þetta dauðans alvara?
Er komin upp ný atvinnugrein á
litla Fróni hér mitt í kreppunni?
Jeminn!
Eiturbyrlari!
Geta þá Frónbúar nú bjallað í eiturbyrlara,
þá þeim rennur í skap, og vilja koma við
"kaunin" á andstæðingum sínum eða
svörnustu óvinum?
Eitra hressilega fyrir dónana, og koma á
þá sárum og bólgnum fingrum og tám,
og heilsa svo með "föstu handartaki" og
troða svona "óvart" á tám þeim í leiðinni?
Dettur þá húsfreyju í hug að ekki sé
gott fyrir "eiturbyrlara" að auglýsa upp
starf sitt, þar sem að starf þetta myndi
sjálfsagt teljast til "miður heppilegra" starfsgreina,
teljast jafnvel til leigumorðingja og brennuvarga.
Telur samt húsfreyja að nú verði laganna verðir
að fara að lesa vendilega smáauglýsingar DV,
því svona ímyndar hún sér að "eiturbyrlari"
gæti auglýst starf sitt:
Tek að mér að skipta út fæðubótarefnum
og setja í staðinn "ása" og "hálfbræður",
hjá öllum ykkar Döbbum, Geirum, Ingibjörgum
og Johnsenum fyrir tilboðsverð: Hálf bankastjóralaun.
Nafnleynd, algerum trúnaði, bankaleynd og
grafarþögn heitið.
Hringið í síma 666-.......
Hehehe...stóðst ekki mátið svona á föstudegi, húsfreyja.
Smá skot á kreppuliðið.
En gott að Johnsen fékk bót meina sinna og að
þarmainnhellingin hennar Jónínu svínvirkaði.
Þykir húsfreyju fremur líklegt, að um skætt
ofnæmi hafi verið að ræða hjá Johnsen
og er það bara nógu bölvanlegt út af fyrir sig.
Fólk hefur lent á sjúkrahúsi fyrir minna.
Góðar stundir og góða helgi.
![]() |
DV: Eitrað fyrir Árna Johnsen |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 21.2.2009 kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)