1.10.2012 | 20:00
Limalangir Frónbúar!
Aldeilis fínar fregnir þetta fyrir frónverska karla.
Sjálfsagt margir þeirra þá sérdeilis áhugasamir um
stærð síns lims sem og stærð lima vina sinna og félaga fyrst þeir hafa
mætt í "limamælingu"!
Máski jafnvel til klúbbur karla með stóra limi hér uppi á litla Fróni,
sem þá líklegast útleggst og skammstafast KLAK!
Ergo Klúbbur LimaLangra Karla!
Hljóta þá klúbb(með)limir þessir að hittast reglulega, og tjalda
því sem til er yfir öllara, mæla og mæla aftur LENGD, BREIDD,
UMMÁL og FLATARMÁL.
Jafnvel fara yfir hve "hátt ris" er á mönnum, þá þeir sænga hjá
konum sínum og kærustum.
Setja síðan upp í graf og bjóða þeim sem "rismestar" tölur hefur,
upp á frían öllara og 100 pakka af extra sleipum smokkum í verðlaun.
Nei, hvað veit húsfreyja.
Máske enginn slíkur klúbbur til hér uppi á litla Fróni.
Þá er það bara eitt "smámál" að bögga húsfreyju:
Hvert í ósköpunum fóru frónverskir karlmenn í limamælingu,
fyrst svo mikið er vitað um stærð lima þeirra, og hvar fór hún fram og hver
framkvæmdi mælinguna?
Nei, bara svona smá forvitni í gangi hjá húsfreyju, því hún vissi
ekki einu sinni að limamælingar hefðu verið í boði hér uppi á litla Fróni.
En "ull" á limasmáa breska og franska karlmenn...og kannski bara
"nanabúbú" líka.
En frændi 6 ára, verðandi limalangur herramaður þarf í kompjúterinn.
Góðar stundir.
Íslendingar stærstir í Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.9.2012 | 21:05
Myljandi flott KORN þetta.
Húsfreyja er hrifin, það segir hún satt.
Forstjóri á Landspítala að fá um 20% launahækkun.
GLEÐI!
HRIKALEG HAMINGJA.
Hlýtur að þýða að kreppufárið sé yfirstaðið hér uppi á litla Fróni,
svo nú megi landsmenn allir fara að vænta mergjaðs góðæris
og svo að sjálfsögðu launahækkunar upp á lágmark 20%
á næstu dögum.
LÁGMARK!
Því hafi forstjóri Landspítala verið svo aumur launalega,
að þörf var á að hækka laun hans um 20%, hvað má
þá segja um hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og
aðra starfsmenn heilbrigðisgeirans.
Þeir hóglátu heilbrigðisstarfsmenn hafa hingað til ekki
staði á götum úti, barið sér á brjóst og státað sig af
því að hafa mun hærri mánaðarlaun en forstjóri Landsspítala sem og
aðrir yfirmenn þeirra.
Sei, sei nei.
Frekar rennt augum á eftir fjórhjóladrifnum eðaljeppum
yfirmannanna og dáðst að fallegum einbýlishúsum þeirra,
hinir hóglátu og launalægri heilbrigðisstarfsmenn, þá þeir eru
framhjáakandi á 10 ára gömlum Tójótum, Hondum og Skódum.
Jamm, það hefur hingað til ekki verið hátt metið að bera ábyrgð
á mannslífum, launalega séð.
En takist þér að koma þér í skipulags- og pappírsvinnu þá
hækka launin óðara svo hratt að manni sundlar.
Og komistu síðan í stjórnunarstöðu með eigin skrifstofu, tölvu og
alvöru skjalaskáp fyrir alla "ómetanlegu og dýrmætu" pappírana þá fara
mánaðarlaunatölurnar að verða svo fáránlega háar, að það er ekki
fyrir venjulegt "vinna hraðar-hlaupa meira-meiri ábyrgð-fyrir lægri laun-
heilbrigðisstarfsfólk", að skilja þær.
En máske að vesalings Landspítalaforstjórinn hafi orðið illilega útundan,
hvað ofurlaun varðar, og rétt haft nóg á mill hnífs og skeiðar,
svona svipað og erlenda skúringafólkið, og nýútskrifuðu
sjúkraliðarnir og hjúkrunarfræðingarnir.
Þá er ekki nema von, að tími hafi verið komin á 20%
launahækkun hjá Landsastjóranum, og upplagt að
brúka til þess millurnar sem sparast hafa í síðasta
"loka heilli deild-og segja upp hjúkrunarfræðingum-niðurskurði".
Já, aldeilis fínt að geta notað það sem hefur sparast með blóði,
svita og tárum og niðurskurði inn að MERG, í góða launahækkun
fyrir blanka og arma forstjóra.
Og þar sem það segir sig sjálf, að í lýðræðisríkinu á litla Fróni,
þar sem ójöfnuður viðgengst "alls ekki", verður næst farið
í að hækka laun hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, lækna, sjúkraþjálfa,
ræstingafólks, umönnunarfólks, viðgerðarmanna og húsvarða
á öllum heilbrigðisstofnunum landsins.
UM 20%!
POTTÞÉTT!
Húsfreyja er alsæl og hlakkar til.
Ooooooo... nú verður hún sko spennt!
Verður kannski einu sinni hægt að missa sig svolítið
í jólagjafakaupum, án þess að Visakorti fuðri upp í
frumeindir sínar af ofnotkun.
Hallelúja.
Þetta verða þá fyrstu góðu pakkajólin okkar heilbrigðisstarfsmanna
síðan.....ja.....síðan.....síðan....öööööö....ALDREI!
Æææ, þarna brann húsfreyja alveg yfir í hausnum af æsingi.
Gleymdi því, að ALDREI hefur ríkt góðæri í heilbrigðiskerfi Frónbúa.
ALDREI!
Altént ekki þau ár frá 1984, sem húsfreyja hefur starfað við það.
Eilífur helvískur niðurskurður, ofursparnaður, aumingjaskapur
og blankheit hefur vofað yfir höfðum heibrigðisstarfsmanna
sínkt og heilagt ár eftir volæðis ár í kerfinu.
Heilbrigðiskerfi Frónbúa hefur húsfreyju virst vera blankara en
"Litla Stúlkan Með Eldspýturnar".....meira segja á tímum góðæris
útþenslu og pappírspeningabrjálæðis!
SKERA NIÐUR!
LOKA DEILDUM!
FÆKKA STARFSFÓLKI!
LOKA ÖLLUM SPÍTULUM Í 60 KÍLÓMETRA RADÍUS FRÁ REYKJAVÍK!
LOKA ÖLLUM FÆÐINGARDEILDUM ÚTI Á LANDI!
LOKA ÖLLUM SKURÐSTOFUM ÚTI Á LANDI!
LENGJA ALLA SJÚKLINGABIÐLISTA...EN Í GUÐANNA BÆNUM LÁTIÐ ÞAÐ
EKKI KOMA NIÐUR Á GÆÐUM ÞJÓNUSTU VIÐ SJÚKA!
MINNKA ÞJÓNUSTU......EN Í GUÐANNA BÆNUM LÁTIÐ ÞAÐ SAMT EKKI KOMA
NIÐUR Á GÆÐUM ÞJÓNUSTU VIÐ SJÚKA!
EN EINHVERRA HLUTA VEGNA: SVO BYGGJUM VIÐ OG BYGGJUM,
FLOTTARI LANDSPÍTALA, FLEIRI ÖLDRUNARHEIMILI, FLEIRI ÖLDRUNARÍBÚÐIR...
Bara smá, oggulítil snuðra hlaupin þar á þráðinn.....HVERJIR eiga að
vinna í öllum flottheitunum, þegar heilbrigðisstarfsfólk frónverskt er í massavís
fluttt á íðilfagrar olíulendur norska kóngsins?
Jamm, og svo er auðvitað þetta smotterí, með endurnýjun á
geislatækjum, skönnum, skópum og öðrum fínum lækninga-/greiningagræjum?
Kannski óþarfi að vera vesenast með svona flottheit,
þegar allir eru dauðir sem þurftu þeirra með til að læknast af
veikindum sínum, og þeir sem kunnu að brúka þau eru einnig
horfnir á vit norskra ævintýra.
Bara húmbúkk!
Húsfreyja sér fyrir sér, á sínum svörtustu stundum breiðþotuflug "langveikra-
uppgefinna á að bíða eftir lækningu-Frónbúa" til norskra frænda vorra,
þar sem 300 manns flýgur saman, hundveikt allt saman, til Osló.
Sest þar á bekk í norskum læknabiðstofum, upp á von og óvon
að þar fáist einhver heilbrigðisaðstoð af viti.
Dettur húsfreyju þá í hug, að ættingjar hinna sjúku flugfarþega,
gætu fyrir flug, brugðið sér niður á höfn með vænar veiðistengur,
og náð sér í eins og 5 kíló af Makríl, sem frystan mætti
síðan taka með sér til Noregs, og nota til að flýta fyrir og liðka fyrir
þjónustu norskra lækna við hina sjúku Frónbúa.
Gæti svínvirkað.
Jamm, varð að gera smá grín að frétt þessari, húsfreyja.
Alveg furðuleg launahækkun atarna, þegar öllum öðrum þegnum er
uppálagt að herða sultarólina.
Kíkja á óherta sultaról meistarakokka næst, í imbanum.
Góðar stundir og megi öll ykkar launaumslög þykkna um 20% á
næstu mánuðum.
Kornið sem fyllti mælinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2012 | 17:06
Að myrða mann...
...vegna lélgrar bíómyndar, er RANGT.
Og afspyrnu léleg afsökun á mannsmorði.
Húsfreyja vottar Bandaríkjamönnum samúð vegna
morðsins á Chrisotfer Stevens, þeirra manni í Líbíu.
Góðar stundir.
Dularfull kvikmynd kveikir í arabaheiminum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.9.2012 | 21:33
Eins gott! Bannað!
Hvurslags oflæti og ekkisens mont í fyrirtækjum
að segjast vera númer 1.
Aðeins nokkrir einstaklingar á litla Fróni hafa rétt
á því að segjast vera númer 1.
Það er auðvitað FYRSTI Frónbúinn í ógnarlangri röð samlanda sinna,
sem eftir langa og svefnlausa nótt, nær því að vera hangandi fremstur
á hurðahúni ELKO, þegar útsala á RAFTÆKJUM þar hefst.
Hann á titilinn númer 1, aldeilis skilinn.
Sömuleiðis ofuráhugagarðhúsasmiðurinn, sem náði
að æða fyrstur allra inn í Bauhaus við opnun...hann var sko númer 1.
Svo ekki sé minnst á fyrstu unglingsstúlkuna sem komst inn
í Lindex, og greip fangið fagnandi fullt af opnunartilboðum....
VÁV! Var hún rosalega númer 1.
Er pottþétt fremst meðal jafninga þetta ágæta fólk,
og var SANNANLEGA allt númer 1, því fjölmiðlar hafa af stakri
natni séð um að kvikmynda, ljósmynda og taka viðtöl við
framúrskarandi fólk þetta og birta síðan í sjónvarpi,
útvarpi og á síðum fréttablaða okkur Frónbúum til ævarandi
ánægju og slatta af dulinni öfund.
Því hver vill ekki vera númer 1?
Jamm, sönnunargetan vegur þungt, ætli fyrirtæki að
setja sig á háan hest, því mörg eru oft að selja eitthvað
"óáþreifanlegt", veita "ósýnilega" þjónustu og sum þau
furðulegustu eru búin að koma inn "þörf" hjá kúnnanum
fyrir ótrúlegustu hlutum.
Húsfreyju dettur til dæmis í hug fótanuddtækið fræga,
ofursprotinn, ofurhrærivélin, plasmaskjáir, smellurammar,
flautandi húslyklar, fonduepottar og rafknúnir hvítlauksskerar.
Já, merkillegt atarna.
Hsfreyja telur að tryggingarmenn Tortara geti reddað
"númeraauglýsingu" sinni hæglega.
Þeir breyta henni bara örlítið og segja:
"Númer 0,99 í innheimtu slysabóta, munið bara að námunda",
og málið er dautt.
Góðar kvöldstundir á regnvotu miðvikudagskvöldi.
Bannað að segjast vera númer 1 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.9.2012 | 20:17
Súkkulaði minnkar líkur á heilablóðfalli!
GLEÐI!
HAMINGJA!
ALDEILIS BRILLIANT FLOTTAR RANNSÓKNARNIÐURSTÖÐUR!
Altént fyrir húsfreyju.
Samkvæmt þessum eðal fregnum og "magni" því af súkkulaði sem ofan í maga
húsfreyju hefur dúndrað um ævina, þá mun húsfreyja ekki eiga á hættu
að fá heilablóðfall fyrr en á því herrans ári 2230 (lauslega framreiknað).
Og þá verðu húsfreyja sjálfsagt löngu dauð af einhverri annarri
óáran, pestarfári, fuglaflenseríi eða þaðan af verra svínaflensusvínaríi,
ef hún þá ekki týnist endanlega "á salerni" á hálendinu
í einhverju sumarfrísflandrinu innanlands( pssst...í guðanna bænum
munið að leita "í rútunni", týnist húsfreyja í fjallaferð).
En pottþétt er húsfreyja á því að "heilablóðfall" verði eigi hennar
banamein, enda næsta líklegt að húsfreyja hafi á sinni ævi náð
að "skipta út vatni" í skrokk sínum fyrir eðal súkkulaði.
Húsfreyja telur sig þannig vera orðna 70% súkkulaði innvortis,
og sér fram á langa sykursæta heilablóðfallslausa ævi, þar sem
jafnvel þvag hennar verður kakólíkt og tárin fallega súkkulaðibrún
þá hún grætur af hlátri.
HALLELÚJA!
Sextíu grömm á dag!
HÚMBÚKK!
Lágmark einn kassi af Prins Póló á dag á menntaskólaárum húsfreyju.
Hve mörg grömm í einum slíkum kassa?
Iss aukaatriði.
Húsfreyja var að vinna að heill síns heila og æða hans....og gerir enn...
SVIKALAUST!
"Ó súkkulaði, ó súkkulaði,
þig ég elska
og ét með hraði.
Jafnvel þegar ég er í baði,
eða föst á fjöllum í drullusvaði.
Ó þvílíkt eðal gúmmulaði.
Amen".
Aldeilis fín frétt þetta, hvað húsfreyju varðar, enda
hún ekki fengið blóðnasir árum saman, eða ekki síðan
súkkulaði hætti að vera munaðarvara á Páskum og Jólum
í Vestmannaeyjum bernsku hennar.
En skreppa út í sjoppu næst að flikka upp á súkkulaðibyrgðir
heimilisins......vill ekki missa "súkkulaðimettunina" niður
í blóðinu, húsfreyju.
Og svo húsfreyja leggist nú svolítið í ritstuld, vill hún
ljúka pistli þessum með þessum fleygu orðum:
Súkkulaði heilann bætir, hressir og kætir.
Góðar og súkkulaðiríkar stundir.
Minnkar líkur á heilablóðfalli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 1.10.2012 kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2012 | 12:33
Týnd og leitaði að sér sjálf.
Húsfreyja hló upphátt, er hún las frétt þessa.
Sá fyrir sér þessar sérkennilegu stöðu,
og getur vel sett sig í spor konunnar, örþreytta að
hjassast í rútu tímunum saman í þoku og rigningu uppi á litla Fróni:
"Já, ég var bara allt í einu týnd og tröllum gefin, og hafði
ekki hugmynd hvar ég var, eða hvert
ég fór eða hvert ég var að fara.
Síðast þegar ég vissi var ég stödd á salerni undir
jökli á Íslandi, þegar ég ramvillist í einhver föt,
mála mig og greiði, svo ég hafði ekki hugmynd um
að lokum hver það var sem glápti þarna á mig
í speglinum. Varð um og ó, og þrælaði mér út í rútu,
en þar rataði ég auðvitað ekki í sætið mitt, svo
óþekkjanleg og villuráfandi semi ég var orðin.
Þá uppgötvaði ég sem betur fer með góðri hjálp ferðafélaga minna,
að auðvitað var ég bara TÝND, og að ég hafði hreinlega
alveg TAPAST í bévítans salernisförinni.
Svo við ræstum út leitarsveit mikla, og fengum í lið með okkur að
leita mín.
Og það gekk bara fjandi vel, því að ég gat að sjálfsögðu
gefið príma góða lýsingu á sjálfri mér, hæð, þyngd, útliti og
hverju ég klæddist.
Síðan var leitað lengi nætur, eða alveg þar til einhver leitarmanna
missti út úr sér nafn mitt, og ég gaf mig auðvitað fram.....
FUNDIN! SJÚKKIT"!
Hehehehehe stóðst ekki mátið, húsfreyja.
Aldeilis dásamlegt að kona þessi var ekki illa týnd, slösuð eða
þaðan af verra, en eigi að síður skondið HVERNIG hún fannst.
Gaman að þessu.
Er sjálf á ferðalagi út í Eyjum, húsfreyja með alla sína herlegu
fjölskyldu.
Flytur búslóð systur í Eyjum grimmt og galið enn og aftur....
í mígandi rigningu í gær en heldur þurrara í dag.
Nú heldur farið að fjara út á fyrrum heimili systur, svo nú er aðeins
eftir að fleygja rusli...og fleygja rusli....!
Hvorki húsfreyja né systir í Eyjum hafa týnst í stórflutningum þessum,
þó mikið hafi gengið á.....aðeins 2 reiðhjól týnst stutta stund
í gærkveldi.....leitarsveit heimilismanna fann þau að lokum í
haug af dótaríi.
En systir blæs til "draslferðar" eins og hún orðar það,
svo nóg að sinni.
Góðar stundir og gott er að muna: LEITIÐ OG ÞÉR MUNUÐ FINNA
Tók þátt í leitinni að sjálfri sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.8.2012 | 19:11
Flutningur, ferðalög og kistur á hjólum?
Húsfreyja klöngraðist niður snarbrattan
stigann í húsi systur í Eyjum í 12-ta sinn,
með þunga körfu fulla af fatnaði, bókum,
dóti og handklæðum.
"Jamm, og á þá samkvæmt máltækinu eftir að
mæta hingað í Eyjar út að minnsta kosti einu sinni enn",
hugsaði húsfreyja og glotti.
Þær systur stóðu á haus í því að flytja 9 ár af búskap
úr húsi systur í stærra hús vestar á Heimaey.
Þær voru búnar að flytja skápa, kommóður, stóla og meira
að segja níðþungan þriggja sæta sófa í litla Skódanum
systur í Eyjum og voru nú komnar upp á efri hæð hússins að
flytja.
Þar fleiri kommóður, rúm, hillur ásamt öllu smálega "bráðnauðsynlega"
dótinu sem við mannfólkið þurfum að hafa í kringum okkur.
Systir í Eyjum bísnaðist af og til yfir getu sinni að gjörnýta hvern
fersentimetra gamla hússins, og reyndi að botna í því hvernig henni hafði
tekist að fylla húsið, án þess að allt færi í DRASL.
Húsfreyja nefndi lauslega föður þeirra systra, sem hafði verið haldinn
sérstakri söfnunarnáðargáfu: Safnaði alls konar blaðadóti, jafnvel
rifrildum úr blöðum og faldi á góðum stað, þar sem við
systir í Eyjum fundum það fyrst í árlegri jólahreingerningu....
og þá í alls konar misjöfnu og góðu ástandi....fréttin, myndin eða
sagan sem hafði verið svo mikilvægt að geyma,
iðulega komin í tætlur og hengla......og pápi löngu búinn að
gleyma hví hann vildi geyma.
Systir í Eyjum staðhæfði staðfastlega, að hún væri ólík föðurnum,
og hefði alltaf verið duglega að henda öllum óþarfa....."ég líka",
svaraði húsfreyja, " en við systurnar erum allar líkar pabba með
það, að við eigum ERFITT með að skilgreina "óþarfa"!
Síðan hlógu þær systur báðar, enda ekki annað hægt í stöðunni...
tvær kellur að standa í stórflutningi á einum Skóda.
En allt gekk þetta bísna vel, og þegar húsfreyja var búin að
fara einar 8 ferðir með systur á Skódanum og búin að ná því
að klemma litla fingur sinn illilega, svo sá stutti var
fagurblár og bólgin, mætti systurdóttir og tók 2 ferðir
með systur, áður en systurdóttir Herjólfaðist upp á land.
Sumarfrí húsfreyju hafði hafist um miðjan júlí með fögrum fyrirheitum um slökun,
útsaum, rólegri og fallegri tónlistarhlustun, tiltekt og huggulegheitum.
Jepp.
Ekki saumað eitt spor.
Gengið 4 kílómetra lágmark á degi hverjum....slökun hvað?
Tónlistin....."You don't know you're beautiful..nananana" (One Direction),
"If I was your boyfriend" (J. Bieber), "Lífið er Yndislegt" (Hreimur) og
"To night we are young" (Fun) virðast einhverra hluta vegna límd
í tónlistarhluta heilabús húsfreyju.
Gæti eitthvað tengst tónlistarsmekk ellefu ára djásnsins.
Aðeins eitt rólegt lag virðist hafa náð inn: "Sumargesturinn" (Ásgeir Trausti).
Tiltektin?....."hva, þarf eitthvað vera sínkt og heilagt að taka til"?
Huggulegheitin? Huggulegheit eru stórlega OFMETIN sem
skemmtiefni í sumarfríum, er mat húsfreyju, enda gjörsamlega búið
að vera brjálað að gera í alls konar ferðalögum, fjölskyldumálum,
og skemmtilegheitum í hennar fríi.
Til dæmis smellti húsfreyja sér í eina herlega ferð til Sauðárkróks
með ellefu ára djásninu, þá þær voru norðan heiða í sumarbústað
með tengdó við Vesturhópsvatnið.
Mættu í 18 stiga hita, sólskin og blíðu.
Röltu upp Prestsklauf upp í kirkjugarð, og mynduðu grimmt,
djásnið hlaut ís í verðlaun fyrir dugnaðin við gönguna....
er enn að pæla í "visku" manna í "gamla daga" að rölta alla leið upp
á nafir með þunga kistu og jarða þar, sú ellefu ára.
Tja....húsfreyja veit ekki...henni finnst eitthvað notalega
gamaldags við svona vinnubrögð.....fyrir tíma vélknúinna
ökutækja og malbikaðra vega.
"Ég hefði allavega sett HJÓL undir allar líkkisturnar, svo menn gætu
RÚLLAÐ þeim upp", ellefu ára djásnið ákveðið.
Húsfreyja sá fyrir sér STÓRTJÓN og slys, hefðu þá
"líkrúllandi"-mönnum skrikað fótur við að ýta, og misst kistu
frá sér á fleygiferð niður brattann.......aaaaaargh.
Ekki vinalegt að fá einn ekki mjög "lifandi" inn um stofugluggann
hjá sér í vísiteringu......á hjólum.
Húsfreyja og djásn glottu grimmt að pælingum sínum, og röltu niður
í kaffi og ísinn.
Vertinn sagði skemmtilega sögu og sýndi "fimmeyringaborð".
Næsta viðkoma var Maddömukot, þar sem djásn og húsfreyja
fengu fína vetrarvettlinga, súkkulaði, meira kaffi og spjall.
Maður á besta aldri fræddi þær um uppbyggingu staðarins
yfir kaffinu og var alveg rasandi á breyttum tímum....
"Hér áður fyrr þekkti ég alla í þorpinu, nú þekki ég bara orðið elsta fólkið"!
Gangur lífsins.
Þá var það verslun H. Júlíussonar, ein elsta verslun Sauðárkróks.
Húsfreyja sveif um á sæluskýi þar inni.
Gamla Brynjólfsbúð Eyjanna "endurfæddist" henni samstundis.
Gamla vigtin, stóru skúffurnar, djúpu viðarhillurnar þar sem öllu ægði
saman.
Bjarni Haraldsson stórkaupmaður tók hjartanlega á móti þeim mæðgum.
Sýndi þeim inn í sitt kames...oooo gamlar svarthvítar myndir, nýja
verslunin sem var byggð "utan um" þá gömlu....átti vin sem
hafði flutt til Eyja, Helga Marinó.....tenging, mikið spjall, gaf
djásninu ís og að lokum fékk húsfreyja að mynda kaupmanninn
fyrir utan verslun sína.
Og eitt alveg dásamlegt!
Fyrir framan verslun H. Júlíssonar ein herleg bensíndæla...við sjálfa
aðalgötuna....enn í fullri notkun!
Húsfreyja fílaði Sauðárkrók í tætlur, og rölti um og myndaði grimmt
með djásninu fram á kvöld, en þá var haldið aftur yfir
Þverárfjallið heim í bústað.
Svona ferðalög gefa lífinu gildi og fegurð, og gera húsfreyju
stolta af landi og þjóð.
En matur næst, fósturdóttir er í gistingu og mat.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.8.2012 | 19:38
Ef annað segja stjörnur tvær.
Enda búinn að aka frá höfuðborginni við sundin bláu
alla leið austur að Skaftafelli.
Ellefu ára djásnið var rasandi.
"Ætlarðu ekki að grilla pabbi, bara af því að við gleymdum
eldspýtum"?
Og svo: "Mamma, ég er SVÖNG, og mig langar EKKI í súpu og brauð"!
Þrumuskýin hrönnuðust hratt upp yfir höfðum djásns og bónda, og húsfreyja
horfði á þau til skiptis hugsandi.
"Stál í stál", hugsaði húsfreyja, "og hvorugu verður hnikað".
Já, húsfreyja þekkti sitt heimafólk, og vissi að mergjuð náttúrufegurð
og spennandi útilega framundan myndi engu um þar breyta.
Þjónustumiðstöðin við tjaldsvæðið í Skaftafelli hafði klikkað illilega,
hvað sölu á eldfærum varðaði...."nei, en við eigum helvítis haug af
minjagripum frá litla Fróni, lopapeysur, ösku í flöskum, póstkort,
rándýra boli með skemmtilegum áletrunum eins og: "Ég tala ekki íslensku",
og "Ég hef ekki hugmynd um hvað er skrifað hér"....og já og svo er auðvitað
hérna fín veitingasala, með KJÖTSÚPU í boði".
"OJ! Kjötsúpa, mamma" ellefu ára djásnið varð grænt í framan.
Húsfreyja spurði kurteislega um NÁLÆGUSTU verslun þar sem
von væri til að fengjust eldspýtur eða kveikjari.
Freysnesið var í 5 kílómetra fjarlægð.
Húsfreyja smellti sér undir stýrið og brunaði með
HALLELÚJA!
Þar var hægt að fá steikta hamborgara og franskar og fleira
gott ofan í ellefu ára Reykjavíkurmær, sem hafði vissar efasemdir um
að fara svona LANGT frá höfuðborginni og það í útilegu...."KOMMON, mamma og pabbi"!
Húsfreyja splæsti hömmurunum.
Bóndi alsæll...þurfti ekki að grilla.
Ellefu ára djásnið alsæl...þurfti ekki að SVELTA heilu hungri
vegna eldspýtnaskorts.
Húsfreyja alsæl....öll þrumuský á bak og brott.
Og hammararnir alls ekki sem verstir.
Kona "gólaði" skyndilega hátt á næsta borði og maðurinn við hlið hennar hrópaði:
"FO'FANDEN"!
Hammaraborðandi fjölskylda húsfreyju hrökk í kút.
Var danska fólkið að missa vitið í miðju ferðalagi um íðilfagrar sveitir litla Fróns?
Eða var pizzan sem þau dönsku voru að snæða svona mikill VIÐBJÓÐUR?
Neipp.
Á stórum vegg aftan við borð húsfreyju og kó, var stór 2007-flatskjár.
Þar voru danskir handboltamenn að brasa við berja á andstæðingum sínum.
Fleiri danskir mættu í Freysnes, og settust umhverfis húsfreyju
og fjölskyldu.....fleiri pizzur...gólað hærra og fo'fanden-upphrópanir mögnuðust
að miklum mun.
Húsfreyja var farin að fíla sig sem ferðalangur á danskri grund.
Sæti með sinni ekta fjölskyldu á hammarastað í Köben....eða nei,
of flatt.....við Himmelbjerget....öööööö....neipp gekk ekki upp
heldur, Himmelbjerget bara hóll á frónverskan mælikvarða.
Jæja, líklega bara á danskri nýlendu í Noregi.
Það gekk mikið á, enda danskir handboltamenn að vinna leikinn.
Spillti samt ekki matarlyst litlu fjölskyldunnar á nokkurn hátt.
Húsfreyja splæsti að lokum eldspýtum og kveikjara á
sig og sína herlegu fjölskyldu, og haldið var heim í tjald.
Frónverska sumarnóttin var svöl, og ellefu ára djásnið,
svaf í flís-heilgalla, ullarsokkum og með hettu.
"Blessað borgarbarnið" hugsaði húsfreyja og sofnaði brosandi.
Það var ekkert svalt við næsta dag.
Sólskin og 18 stiga hiti strax klukkan níu að morgni.
Ekki líft í tjaldinu.
Vatnajökull skartaði sínu fegursta, skjannahvítur og tignarlegur.
Húsfreyja og bóndi þræluðu djásninu í gönguferð upp að Svartafossi,
eftir léttan morgunverð.
Sú ellefu ára var ekki par hrifin við upphaf ferðar,
en þegar hún fékk að vaða við Hundafoss og svo að
lokum Svartafoss, brosti hún allan hringinn.
Kom smá babb í bátinn á niðurleið.
Húsfreyja fékk hnút í magann þegar þau mættu
lítilli stúlku á að giska 8-9 ára gömul og einsömul með
lítinn 4-5 ára dreng sér við hönd.
Voru ein á leið upp að Svartafossi.
Ellefu ára frænka hafði gefist fljótlega upp á göngunni og
ætlaði að BÍÐA þeirra á miðri leið.
Húsfreyja efaðist stórlega um visku frónverskra foreldra, sem sendu
ung börn einsömul í fjallgöngu, og sendi frænkuna með hraði,
þá hún mætti henni sitjandi á stein, niður að láta foreldra vita
af börnum sínum, og fékk einnig frónverska fjölskyldu á
uppleið til að fylgjast með ferðum barnanna.
Allt fór málið samt á besta veg, og börnin skiluðu sér niður aftur
heil á húfi, en það var ekki foreldrunum að þakka.
En húsfreyja og djásn brugðu sér aftur upp á brún að Hundafossi,
og óðu um í svalri fjallaánni, og skoðuðu eldgamla rafstöð frá 1925.
Ungt, hresst fólk, hópur frá Ameríku spjallaði stuttlega við þær mæðgur,
tætti sig síðan úr hverri spjör og baðaði sig í fossinum fyrir ofan rafstöðina.
Miklir skrækir, hlátur og gleði hjá Könunum yfir þessu stóra náttúrulega
sturtubaði.
Bóndi GRILLAÐI eðal kjúlla um kvöldið, enda nú vel vopnaður eldfærum.
Djásnið var alsælt, og ekki versnaði líðanin þegar foreldrarnir
röltu með djánsinu eftir kvöldmatinn inn að Þjófafossi og upp gilið og hún fékk að
vaða enn og aftur.
Hvað með það þó þau villtust aðeins inni í gilinu, og yrðu að klífa snarbratta
birkivaxna hlíð upp úr því....komust við illan leik upp á göngustíg aftur,
og húsfreyjka hundblaut í fætur.
Bara stuð.
Fundu gamlar bæjarrústir og ellefu ára djásnið tapaði sér
í dularfullum grasivöxnum, djúpum holum og gróðri.
Var ljúft ferðalag hjá húsfreyju og hennar litlu fjölskyldu.
Djásn og bóndi fóru bak við Seljalandsfoss í fyrsta sinn
á leiðinni austur og alla leið upp að Svartafossi í fyrsta sinn,
í Skaftafelli.
Húsfreyja var nú meira upptekin af því að reyna að koma auga á
gullkistu Þrasa í Skógarfossi á austurleiðinni...., enda búin
að fara bak við Seljalandsfoss margoft, og tvisvar upp að
Svartafossi áður.
Suðurlandið í bongóblíðu uppi á litla Fróni er bara með fallegustu stöðum á jarðríki
var einróma álit litlu fjölskyldunnar...."og alveg ROSALEGA gaman að
VAÐA"!
En í sjónvarpinu er einhver búin að "kasta sér upp í bronz-sætið",
svo húsfreyja ætlar að kíkja á Ólympíuleikana næst.
Góðar og sólríkar sumarfrísstundir.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2012 | 14:07
Skaftafellsferð og fleira skemmtilegt.
Hvammstanga.
Við mæðgur, Bára og ég
á Hvammstanga júlí 2012.
Svartafoss.
Alda í Vík og Bára.
Að vaða fyrir ofan Hundafoss.
Hundafoss.
Hvönnin í Skaftafelli.
Við Þjófafoss.
Hjónaleysin við Svartafoss.
Skógapúki eða bóndi í gljúfurferð.
Á tröppugöngu í Skaftafelli.
Þrífættur að vaða.
Fífan var fögur og flott og flottari stelpa að blása.
Skógardís.
Vestmannaeyjar frá Landeyjarhöfn.
Hvammstangi.
Baldursbráin brosir blítt.
Sólfífill bjartur og fagur.
Gull og rúsínur.
"Váv Skógarfoss er blautur og stór"!
Vestmannaeyjar á Laugardegi á Þjóðara.
Þá er þetta komið í bili, vona að þið hafið gaman að.
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2012 | 17:28
Allt er best á Íslandi!
Hin íðilfagra og ljúfa fyrirsæta, Elettra Wiedermann
er ánægð með litla Frón, og getur jafnvel hugsað sér að
setjast hér að...þó ekki nái hún því að
klífa Snæfellsjökul og gifta sig þar, eða smella sér í
Dómkirkjuna við Austurvöll og láta frónverskan prest pússa
þau hjónaleysin saman.
Neipp, þá er Nýja Jórvík Kananna vænlegri giftingarstaður.
En hér gæti hið undurfagra fljóð vel hugsað sér að mæta
í brúðkaupsferð með hundinum Happy...og já og auðvitað
brúðgumanum (..eða hann hlýtur að eiga að vera með í för, haldið þið þa'kki?)
Og síðan vill hið eðla fljóð jafnvel flytja sig úr sinni heimasveit
alla leið upp á litla Frón með bónda sinn, Happy hund og allt sitt hafurtask.
Enda allt með eindæmum gott á Íslandi.
Maturinn frábær (dýr, en frábær), fólkið það fallegasta í heimi (altént það sem er ekki
ekki flutt af landi brott til Noregs, eða er við það að flytja af landi brott til
Noregs, eða er að HUGSA um að flytja af landi brott til Noregs),
landið rosalega flott ( allavega þar sem ekki er verið að virkja,
og sökkva náttúruperlum, eða þar sem menn eru búnir að rússa um á
grófdekkjuðum farartækjum þvers og kruss um viðkvæmar óbyggðir),
og jafnvel KREPPAN er best á litla Fróni.
TÓKUM HANA DÝPST OG KRAPPAST ALLRA ÞJÓÐA.
Jamm húsfreyja skilur vel að hin svaðalega sæta Elettra vilji
flytja hingað upp á litla Frón.
Hér drýpur smjörið af hverju strái sumarlangt...nema auðvitað hjá
bóndanum í Selvogi, þar eru túinin eyðimörk eftir þurrkatíð mikla.
Skjaldborg heimilanna svona asskoti fín og flott, bráðum, næstum því
alveg að verða fokheld, bankar allir upprisnir og bankamenn aftur farnir að
fá ARÐ, og útgerðin, já útgerðin!
Þar er reyndar allt í tjóni og tjöru hjá þeim örmu og vesölu
útgerðarmönnum.
Þeir hafa ORÐIÐ að eyða nokkrum milljónum af sínum ARÐI í rándýrar
sjónvarpsauglýsingar, þar sem þeir fá samúðarfulla Frónbúa til
að gráta fyrir þá og vorkenna þeim ægilega.
Aumingja útgerðarkarlanir!
Þeir eiga víst að fara að skila "kvótanum", sem ríkið GAF þeim hérna um árið.
Kvótinn á sem sagt að verða þjóðareign aftur, og arði af honum skal skipt
niður á mun fleiri hendur , en hingað til hefur tíðkast.
Ææææ, það verður hart í ári hjá útgerðarmönnum um ókomna tíð,
og næsta víst að þeir verði að selja húsin sín úti á Spáni,
svo þeir eigi fyrir salti í grautinn sinn.
Jamm, en þessu þurfum við ekkert að vera velta hinni íðilfögru drós,
Elettru upp úr.
Hún er hjartanlega velkomin upp á litla Frón með hund og ektamaka.
Og langi hana í útivistarferðir upp á fjöll og firnindi með hundinn Happy...og
já bónda sinn, og týnist illilega, eins og virðist nokkuð
vinsælt hjá ferðamönnum á Fróni nú til dags,
þá er lítið mál að redda því.
Við erum jú með hrikalega duglegt björgunar-og leitarfólk
í "sjálfboðastörfum", sem leggur nótt við nýtan dag og leitar
villuráfandi ferðamanna á hálendinu sumarlangt.
Notar þyrlu og allt.
Gott mál.
Gaman að þessu.
Góðar stundir á hlýjum sumardögum.
Fyrirsæta lofar Ísland í hástert | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)